III A Bann við pyndingum, þrældómi og mansali

Til baka í efnisyfirlit III hluta

 

Í þessum kafla er fjallað um mikilvæg grundvallarréttindi sem varða frelsi og mannhelgi.

 

Reglur sem banna pyndingar og þrælahald eru grundvallarreglur í þjóðarétti og óundanþægar.  Verða sjónarmið sem tengjast almannaöryggi eða öryggi á hættutímum ekki borin fram til réttlætingar á takmörkunum á þessum réttindum. Hafa reglur þjóðaréttar að geyma fyrirmæli sem eiga jafnt við um alla, eigin þegna og útlendinga, og hafa þær reglur verið teknar upp í fjölda ríkja, þ.á m. hér á landi.

 

Bann við pyndingum er að finna í SBSR og CAT, auk MSE, auk þess sem eftirlitskerfi hefur verið sett upp með Evrópusamningi um varnir gegn pyndingum. Um þetta er fjallað í III A-1. Ákvæði sem banna þrældóm og nauðungarvinnu eru einnig algild og óundanþæg og er fjallað um inntak þeirra í III A-2. Þar er einnig fjallað um reglur sem ætlað er að taka á  starfsemi einstaklinga og skipulagðri glæpastarfsemi þar sem reynir á nýrri form þrælkunar og nauðungarvinnu - mansal. Hefur þessi starfsemi kallað á aðgerðir alþjóðlegra stofnana og kallar umfang og eðli starfseminnar á nýjar og samhæfðar aðgerðir þjóðréttaraðila.

 

Niðurstöður

Íslenskur réttur tryggir þá vernd gegn pyndingum og nauðungarvinnu sem áðurgreindir samningar mæla fyrir um, sbr. 68. gr. STS. Ekki hefur oft reynt á ákvæðið fyrir dómstólum en Umboðsmaður Alþingis hefur í málum um aðbúnað fanga reglulega tekið mið af ákvæðum og sjónarmiðum sem fram koma í þjóðréttarsamningum  um bann við pyndingum og ómannlegri meðferð. Þá hafa bæði nefnd SÞ gegn pyndingum og Evrópunefnd gegn pyndingum gert athugasemdir og óskað eftir frekari upplýsingum frá íslenska ríkinu, þ. á m. um framkvæmd við brottvísun útlendinga.

 

Að því er lýtur að þeim  réttindum sem fjallað er um í þessum kafla er lítið um innlenda dómaframkvæmd og að nokkru virðist vera skortur á upplýsingum og gegnsæi á þessu sviði. Nefnd SÞ og Evrópunefnd gegn pyndingum hafa sent frá sér tilmæli í þessum málaflokki, sem lúta að frekari reglusetningu og frekari aðlögun að ákvæðum sáttmálanna (t.d. að skilgreining á pyndingum verði tekin upp í íslensk hegningarlög). Auk þess hafa nefndirnar kallað eftir frekara og skipulagðara eftirliti með því að farið sé að þjóðréttarlegum skuldbindingum og að settar séu skýrar reglur og leiðbeiningar, m.a. varðandi framkvæmd þegar útlendingum er vísað úr landi.

 

Að því er varðar nýrri reglur um vernd gegn mansali hefur íslenska ríkið undirritað samninga á þessu sviði: Palermó-samningurinn, Palermó-bókunin og Evrópuráðssamningur um aðgerðir gegn mansali, mikilvægir samningar í baráttunni gegn mansali, er að aðlaga íslenskan rétt að skuldbindingum samkvæmt Palermó-samningi og bókun. Þá hefur frumvarp til fullgildingar Evrópuráðssamningsins verið lagt fram.

 

Vekja má athygli á því að í skýrslum nefnda sem hafa eftirlit með þessum málum hefur verið mælst til þess að starfsfólk fái upplýsingar og þjálfun til að vinna rétt úr þeim málum sem koma upp.  Með breytingum á útlendingalögum hefur að nokkru verið brugðist við tilmælum frá nefndunum. Eftir sem áður virðist vera nokkur misbrestur á því að þjóðréttarlegar skuldbindingar á þessu sviði verði virkar hérlendis, og er þar einkum gagnrýnivert hversu langan tíma ferlið tekur. Þá má nefna að  Mannréttindanefnd SÞ og nefnd gegn pyndingum hafa lýst  áhyggjum yfir aukningu mansals innan íslenskrar lögsögu og því að ekki séu til nægilegar upplýsingar um þessi mál og að vanta kunni upp á eftirlit stjórnvalda. Hvatt hefur verið til að áætlun verði gerð um það hvernig skuli bregðast við þessum málum. Aðgerðaáætlun um mansal, sem unnið hefur verið að, var þó ekki komin fram í lok árs 2008.

 

Heimildir og frekara lesefni

Berman, Jacqueline og Friesendorf, Cornelius. „EU Foreign Policy and the Fight Against Human Trafficking: Coercive Governance as Crime Control." European Foreign Affairs Review 13: 189-209, 2008.

Egan, Suzanne.  „Protecting victims of trafficking: problems and prospects." European Human Rights Law Review 2008, 106.

Gallagher, Anne. „Recent Legal Developments in the Field of Human Trafficking: A Critical Review of the 2005 European Convention and Related Instruments."  European Journal of Migration and Law  8: 163-189, 2006.

Gauksdóttir, Guðrún. „Bann við pyndingum."  Björg Thorarensen, Davíð Þór Björgvinsson, Guðrún Gauksdóttir og Hjördís Björk Hákonardóttir (ritstj.). Mannréttindasáttmáli Evrópu - Meginreglur, framkvæmd og áhrif á íslenskan rétt. Mannréttindastofnun Háskóla Íslands og Lagadeild Háskólans í Reykjavík, Reykjavík, 2005.

Joseph, Sarah; Schultz, Jenny og Castan, Melissa. The International Covenant on Civil and Political Rights: Cases, Materials and Commentary (2. útg.). Oxford University Press. Oxford, New York, 2004.

Mowbray, A.R. The Development of Positive Obligations under the European Convention on Human Rights by the European Court of Human Rights. Hart Publishing, Oxford, 2004.

Ovey, Clare og White, Robin.  The European Convention on Human Rights. (4. útg.) Oxford University Press, Oxford,  New York, 2006.

Pennegard, Ann-Marie Bolin.  „Article 5".  Guðmundur Alfreðsson og Eide, Asbjørn(ritstj.) The Universal Declaration of Human Rights; A Common Standard of Achievement. Martinus Nijhoff Publishers, The Hague, 1999.

Piotrowicz, Ryszard. „Trafficking of Human Beings and Their Human Rights in the Migration Context."  Macdonald, Euan; Cholewinski, Ryszard og Perruchoud, Richard. International Migration Law: Developing Paradigms and Key Challenges. T.M.C. Asser Press, The Hague, 2007.

Rehman, Javaid. International Human Rights: A Practical Approach. Pearson Education Limited, Essex, 2003.

 

Skýrslur

CEDAW nefndin. Skýrsla um Ísland frá 18. júlí 2008 (CEDAW/C/ICE/CO/6).

SÞ-nefnd gegn pyndingum. Skýrsla um Ísland frá 8. júlí 2008 (CAT/C/ISL/CO/3). 

Evrópunefnd um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Report to the Icelandic Government on the visit to Iceland carried out by the European Committee for the Prevention of Torture and Inhuman or Degrading Treatment or Punishment (CPT) from 3 to 10 June 2004 (CPT/Inf (2006) 3).

Íslenska ríkið. Response of the Icelandic Government to the report of the European Committee for the Prevention of Torture and Inhuman or Degrading Treatment or Punishment (CPT) on its visit to Iceland (CPT/Inf (2006) 4).

Mannréttindanefnd SÞ.

Almenn athugasemd nr. 20 (General Comment nr. 20)

Almenn athugasemd nr. 31  (CCPR/C/21/Rev.1/Add.13)

Skýrsla um Brasilíu frá 24. júlí 1996 (CCPR/C/79/Add.66)

Skýrsla um Ísland frá 25. apríl 2005 (CCPR/CO/83/ISL)

Skýrsla um Portúgal frá 5. maí 1997 (CCPR/C/79/Add.77)

Skýrsla um Slóvakíu frá 22. ágúst 2003(CCPR/CO/78/SVK)       

 

Aðrar skýrslur

Tillögur nefndar gegn kynbundnu ofbeldi að aðgerðaráætlun vegna mansals

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is