III B Ferðafrelsi, réttur til búsetu og reglur um brottvísun

Til baka í efnisyfirlit III hluta

Þær þjóðréttarskuldbindingar sem helst hafa áhrif á réttarstöðu útlendinga að því er varðar ferðafrelsi, rétt til búsetu og reglur um brottvísun eru Samningurinn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (SBSR) og Mannréttindasáttmáli Evrópu (MSE) og er fjallað um inntak viðeigandi ákvæða hér. Ekki verður fjallað sérstaklega um ákvæði Mannréttindayfirlýsingar SÞ (MYSÞ) þar sem ákvæði yfirlýsingarinnar eru útfærð frekar í áðurgreindum samningum.

 

Samningur um vernd og réttindi farandverkamanna og fjölskyldna þeirra  hefur að geyma ákvæði svipuð ákvæðum í áðurnefndum samningum, en samningurinn hefur ekki verið fullgiltur af Íslandi.  Þá hafa reglur sem tengjast Schengen samstarfi Íslands við Evrópusambandið og ríki þess áhrif á réttarstöðu varðandi ferðafrelsi og reglur um komu til og för frá landi. Ekki er fjallað um þessar reglur né reglur sem eiga við um EES-útlendinga, þar sem um umfangsmikið regluverk er að ræða sem hefur að geyma sérreglur sem veita frekari réttindi.

 

Í III B-1 er fjallað um ákvæði þjóðréttarsamninga um ferðafrelsi og er áhersla einkum lögð á MSE, þar sem einstaklinga geta byggt á ákvæðum sáttmálans (lögum nr. 62/1994) í íslenskum rétti. Í III B-2 er fjallað um réttindi fjölskydu og barna í þessu samhengi og í kafla III B-3 er fjallað um reglur um brottvísun útlendinga.

 

Niðurstöður

Þær þjóðréttarlegu skuldbindingar sem hafa áhrif hérlendis á rétt útlendinga til farar, komu og búsetu og reglur um brottvísun (einkum  SBSR og  MSE)  gilda um alla þá sem eru löglega á yfirráðasvæði ríkisins, eða löglega búsettir þar. Það leiðir til þeirrar niðurstöðu að útlendingar sem falla í flokk „ólöglegra innflytjenda" njóta ekki verndar greinanna. Þá viðurkenna þessir samningar rétt ríkja til að taka ákvörðun um komu og dvöl útlendinga á yfirráðasvæði þeirra, sem og brottvísun þeirra, með takmörkunum sem helst varða pyndingar eða ómannlega meðferð og rétt til fjölskyldulífs. Sú krafa er gerð að við ákvarðanir í málum útlendinga, einkum varðandi brottvísun, sé byggt á lögmætum takmörkunum og meðalhófsreglu og að ekki sé um gerræðislegar ákvarðanir að ræða.  SBSR setur ákveðnar málsmeðferðarreglur og gerir kröfu um að skjóta megi ágreiningsmálum til úrlausnar þar til bærra aðila (sem þó þurfa ekki að vera dómstólar). MSE mælir einnig fyrir um málsmeðferð fyrir stjórnvöldum um brottvísun einstaklinga, og í því tilviki að um hópbrottvísun sé að ræða setur 4. gr. 4. viðauka efnisreglu sem bannar slíkar brottvísanir.

 

Réttur útlendinga til að bera álitaefni um komu, dvöl og brottvísun undir dómstóla, er samkvæmt þessum samningum takmarkaður, en MDE hefur ekki talið hingað til að 6. gr. MSE eigi við um ágreiningsefni sem falla undir innflytjendalöggjöf, ef ekki er um refsikröfu að ræða, þar sem um kröfu opinbers réttar eðlis er að ræða fremur en úrlausn um einkaréttarleg álitaefni. 13. gr. MSE um raunhæf réttarúrræði á þó við í þessum málum auk þess sem 5. gr. MSE mælir fyrir um rétt til málskots fyrir dómstólum þegar um frelsisskerðingu er að ræða.

 

Vegna þess svigrúms sem ríki hafa við ákvörðun í málefnum innflytjenda getur verið erfitt fyrir útlendinga að fá jákvæða  niðurstöðu í málum sem varða ágreiningsefni um rétt til komu til lands og dvalar og á það einnig við í málum sem varða fjölskyldusameiningu og takmarkanir á brottvísun úr landi vegna fjölskylduaðstæðna. Veikari skuldbindingar, s.s. Barnasáttmálinn og FSE veita ekki víðtækari vernd. Athyglisvert er að ákvæði samninga sem gætu veitt betri vernd, einkum ákvæði 19. gr. FSE og samnings SÞ um réttindi farandlaunþega hafa ekki verið fullgilt af Íslandi.

 

Eftir gildistöku laga um útlendinga nr. 96/2002 - með breytingum með lögum nr. 86/2008 - sem og með stjórnsýslulögum og með lögfestingu MSE, með lögum nr. 62/1994, eru reglur um komu, dvöl og brottvísun útlendinga skýrar. Mælt er fyrir um málsmeðferð í V. kafla útlendingalaga, og auk þeirra reglna gilda ákvæði stjórnsýslulaga. Auk þess styrkir það réttarstöðu útlendinga að ákvæði MSE eru gildandi réttur hér á landi. Þá leiðir túlkun á ákvæðum 70. gr. STS auk almenna reglna til þess að hægt er að bera lögmæti stjórnvaldsákvörðunar undir dómstóla og á það einnig við um ákvarðanir um dvalarleyfi, brottvísun o.s.frv. Ekki eru settar skorður við málskoti í lögum um útlendinga að öðru leyti en um tilteknar stjórnvaldsákvarðanir um áritanir á vegabréf o.s.frv. Þá er mælt fyrir um það í 1. mgr. 33. gr. laga um útlendinga að málskot vegna endanlegrar ákvörðunar um að yfirgefa landið fresti ekki framkvæmd. Vafasamt er að það ákvæði brjóti gegn þjóðréttareglum skuldbindingum, en þó er ljóst að útlendingur, sem hefur verið löglega staddur hér á landi og er vísað úr landi  og færður úr landi áður en hann/hún kemur fram málskoti á rétt á að fá niðurstöðu um lögmæti  ákvörðunarinnar.

 

Fáar dómsúrlausnir eru fyrir hendi hér á landi í málum sem varða komu, dvöl og brottvísun útlendinga. Vekur það spurningar um það hvort aðgangur að úrlausnaraðilum, einkum dómstólum, sé nægilega tryggður í framkvæmd.[1]  Af þeirri réttarframkvæmd sem liggur fyrir er ljóst að í auknum mæli er farið eftir þeim meginsjónarmiðum sem þjóðréttarlegar skuldbindingar leggja áherslu á, þ.e.a.s. um lögmæti ákvörðunar og rétta málsmeðferð. Hefur Umboðsmaður Alþingis í álitum sínum lagt áherslu á að þessum grundvallarsjónarmiðum sé fylgt og hefur auk þess ítrekað mikilvægi þess að aðgangur að dómstólum sé tryggður, jafnt fyrir útlendinga sem eigin þegna.

 

Einnig er mikilvægt að úrlausnaraðilar á stjórnsýslustigi taki mið af þeim leiðbeiningum sem draga má af þjóðréttarlegum skuldbindingum og MSE við úrlausn einstakra mála, til að tryggja að staðið sé við þjóðréttarlegar skuldbindingar og að réttarstaða einstaklinga sé tryggð.

 

Heimildir og frekara lesefni:

Aðalsteinsson, Ragnar. „Réttur til frelsis og mannhelgi." Björg Thorarensen, Davíð Þór Björgvinsson, Guðrún Gauksdóttir og Hjördís Björk Hákonardóttir (ritstj.). Mannréttindasáttmáli Evrópu -Meginreglur, framkvæmd og áhrif á íslenskan rétt. Mannréttindastofnun Háskóla Íslands og Lagadeild Háskólans í Reykjavík, Reykjavík, 2005.

Carlson, Scott N. og Gisvold, Gregory. A Practical Guide to the International Covenant on Civil and Political Rights. Transnational Publishers, 2003.

Detrick, Sharon. The United Nations convention on the Rights of the Child. A Guide to the „Travaux Préparatoires". Martinus Nijhoff Publishers, Dordrecht, Boston, London, 1992.

Janis, Mark,  Kay, Richard  og Bradley, Anthony. European Human Rights Law (2. útg.) Oxford University Press, 2000.

Joseph, Sarah, Schultz, Jenny  og Castan, Melissa. The International Covenant on Civil and Political Rights: Cases, Materials and Commentary (2. útg.). Oxford University Press, New York, 2004.

Lambert, Hélène. The position of aliens in relation to the European Convention on Human Rights. Council of Europe Publishing, Strasbourg, 2006.

Mowbray, A.R. The Development of Positive Obligations under the European Convention on Human Rights by the European Court of Human Rights. Hart Publishing, Oxford, 2004.

Ovey, Clare og White, Robin.  The European Convention on Human Rights(4. útg.) Oxford University Press, New York, 2006.

Rehman, Javaid. International Human Rights: A Practical Approach. Pearson Education Limited, Essex, 2003.

Samuel, Lenia. Fundamental social rights. Case law of the European Social Charter(2. útg.). Council of Europe Publishing, 2002.

Spanó, Róbert R. „Sérstök fyrirmæli um réttarstöðu útlendinga." Björg Thorarensen, Davíð Þór Björgvinsson, Guðrún Gauksdóttir og Hjördís Björk Hákonardóttir (ritstj.). Mannréttindasáttmáli Evrópu - Meginreglur, framkvæmd og áhrif á íslenskan rétt. Mannréttindastofnun Háskóla Íslands og Lagadeild Háskólans í Reykjavík, Reykjavík, 2005.

Thorarensen, Björg. „Friðhelgi einkalífs og fjölskyldu og réttur til að stofna til hjúskapar." Björg Thorarensen, Davíð Þór Björgvinsson, Guðrún Gauksdóttir og Hjördís Björk Hákonardóttir (ritstj.). Mannréttindasáttmáli Evrópu - Meginreglur, framkvæmd og áhrif á íslenskan rétt. Mannréttindastofnun Háskóla Íslands og Lagadeild Háskólans í Reykjavík, Reykjavík, 2005.

Van Dijk, Pieter, Van Hoof, Fried, Van Rijn, Arjen og Zwaak, Leo (ritstj.).  Theory and Practice of the European Convention on Human Rights. (4. útg.). Intersentia, 2006.

 

Skýrslur

Íslenska ríkið. Skýrsla Íslands til Mannréttindanefndar SÞ (CCPR/C/ISL/2004/4).

Mannréttindanefnd SÞ.

Almenn athugasemd nr. 15. (11.04.86).

Almenn athugasemd nr. 16. (08.04.88).

Almenn athugasemd nr. 19. (27.07.90).

Almenn athugasemd nr. 27 (CCPR/C/21/Rev.1/Add.9).

Skýrsla um Litháen (CCPR/C/79/Add.87).

Skýrsla um Armeníu (CCPR/C/79/Add.100/1998).

Nefnd SÞ gegn pyndingum.

Almenn athugasemd nr. 1 (A/53/44, annex IX, CAT General Comment No. 01)

 

 

Tilvísanir:


[1] Samkvæmt tölum Útlendingastofnunar frá 2001 var heildarfjöldi dvalarleyfa það ár 6515 og á árinu 2004 voru dvalarleyfi fyrir aðstandendur 20% af öllum dvalarleyfum. Á því ári var 280 umsóknum um dvalarleyfi synjað, þar af 169 dvalarleyfi án atvinnuþátttöku (sem gera má ráð fyrir að séu einkum aðstandendur). Af þessum synjunum var 33 skotið til dómsmálaráðuneytisins  og 2 hnekkt af dómstólum.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is