III C - 1 Reglur um ríkisfang

Til baka í efnisyfirlit III hluta
 

Réttindi Sáttmálar Íslensk lög Dómar, úrskurðir, álit

Reglur um ríkisfang

15. gr. MYSÞ

9. gr  CEDAW

5. gr.; 3. mgr. 1. gr. CERD

7. gr. Barnasáttmálans

4. mgr. 12. gr. SBSR.

Evrópuráðssamningur um þjóðerni

 

1. mgr. 66. gr. STS.

Lög um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994

Lög um íslenskan ríkisborgararétt nr. 100/1952, II. og III. kafli.

Íslenskur réttur

SÞ-nefnd

Stewart gegn Kanada

UA

UA 236/1990

UA 3574/2002

 

Ríki ættu að taka ákvarðanir sem tryggja að útlendingar eigi kost á því að öðlast, án mismununar, ríkisborgararétt.[1] Engar grundvallarreglur eða venjuréttarreglur í þjóðarétti eru um að ríkjum beri skylda til að veita útlendingum ríkisborgararétt. Í 15.gr. MYSÞ er þó kveðið á um að allir skuli hafa rétt til ríkisfangs og að engan megi svipta ríkisfangi, eftir geðþótta, né rétti til að skipta um ríkisfang. Þessar reglur eru þó ekki frekar útfærðar í SBSR en í Samningi SÞ um ríkisfangslausa eru reglur sem miða að því að komið verði í veg fyrir að einstaklingar verði ríkisfangslausir (sjá umfjöllun hér á eftir).

 

Í Alþjóðasamningi um afnám alls kynþáttamisréttis (CERD) er lögð skylda á ríki " að banna og afnema kynþáttamisrétti í öllum myndum og að ábyrgjast öllum rétt til jafnræðis fyrir lögunum, án nokkurs greinarmunar vegna kynþáttar, litarháttar, þjóðernis- eða þjóðlegs uppruna..." Er í greininni sérstaklega tiltekinn réttur til þjóðernis (5. gr. (d) iii) og réttur til að fara frá og snúa aftur til eigin ríkis (5. gr. (d) ii). Njóta einstaklingar því verndar gegn brottvísun sem og verndar gegn því að vera sviptir ríkisfangi á grundvelli þeirra atriða sem rakin eru.

 

Þær reglur sem til eru á þessu sviði eru einna helst í tengslum við hvernig staðið er að því að veita ríkisborgararétt. Þannig er ljóst að mismunun er ekki heimil. Makar eiga t. a. m. að hafa jafna möguleika á að fá ríkisborgararétt án tillits til kyns, sbr. 9. gr. samningsins um afnám allrar mismununar gagnvart konum (CEDAW), sem segir að aðildarríkin skulu veita konum sömu réttindi og körlum til þess að öðlast, breyta eða halda þjóðerni sínu. Þau skulu ábyrgjast sérstaklega að hvorki erlendur eiginmaður, né breyting á þjóðerni eiginmannsins meðan á hjónabandinu stendur, breyti sjálfkrafa þjóðerni eiginkonunnar, geri hana ríkisfangslausa né þröngvi þjóðerni eiginmannsins upp á hana. Þessar reglur koma í veg fyrir þá framkvæmd, sem áður tíðkaðist, að konur fengju sjálfkrafa eða tækju upp  ríkisborgararétt eiginmanns og misstu þá eða afsöluðu sér eigin ríkisborgararétti. Á sáttmálinn að tryggja fullt jafnræði kvenna að þessu leyti. Þá mælir 2. mgr. 9. gr. sáttmálans fyrir um að konur skuli njóta jafnræðis á við menn varðandi þjóðerni barna þeirra en það leiðir til þess að börn giftra og ógiftra mæðra geta dregið ríkisborgararétt sinn frá þeim. Loks eru ákvæði í Barnasáttmálanum, 7. og 8. gr., sem mæla fyrir um rétt barna til að öðlast ríkisfang og að halda því. Í 7. gr. Barnasáttmálans segir

 

1. Barn skal skráð þegar eftir fæðingu, og á það frá fæðingu rétt til nafns, rétt til að öðlast ríkisfang, og eftir því sem unnt er rétt til að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra.
2. Aðildarríki skulu tryggja að réttindum þessum sé komið í framkvæmd í samræmi við lög sín og skuldbindingar í viðeigandi alþjóðasamningum á þessu sviði, einkum í þeim tilvikum þegar barn yrði ella ríkisfangslaust.

Til baka í töflu

 

Þetta ákvæði veitir þó ekki rétt til tiltekins ríkisfangs, s.s. ríkisfangs í upprunalandi, fæðingarlandi (jus soli) eða fæðingarlandi foreldra (jus sanguine) og hefur því, eins og önnur ákvæði þjóðaréttar á þessu sviði, minni áhrif en ella hefði orðið.

 

Í 3. mgr. 1. gr. CERD segir að ekkert í samningnum skuli túlkað svo að það hafi á nokkurn hátt áhrif á lagaákvæði í aðildarríkjum sem varða þjóðerni, ríkisborgararétt eða veitingu þegnréttar, að því tilskildu að í slíkum ákvæðum felist ekki mismunun á grundvelli þjóðernis, sbr. einnig 5. gr. samningins (hér að ofan). Um reglur varðandi bann við mismunun er fjallað frekar í kafla III D.

Til baka í töflu

 

SBSR

Samningurinn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (SBSR) gerir ríkjum ekki skylt að veita ríkisborgararétt í ákveðnum tilvikum og mælir ekki almennt fyrir um rétt til ríkisfangs, eins og MYSÞ. Samningurinn leggur þó bann við mismunun þegar ríkisborgararéttur er veittur.[2] Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur gefið í skyn að skilyrði fyrir veitingu ríkisborgararéttar megi ekki vera of íþyngjandi.[3] Loks mælir 3. mgr. 24. gr. fyrir um rétt hvers barns til að öðlast þjóðerni. Ekki er þó nánar tilgreint hvaða þjóðerni það er, þ.e. ríkisfang upprunalands, ríkisfang foreldra o.s.frv.

 

4. mgr. 12. gr. SBSR

Enginn maður skal að geðþótta sviptur rétti til þess að koma til síns eigin lands.

 

Í 4. mgr. 12. gr. er sú skylda lögð á ríki að virða ákveðin tengsl eigin þegns (og útlendinga sem hafa sterk tengsl við landið). Þó að ekki sé fjallað um sviptingu ríkisfangs felst í ákvæðinu sú skylda að neita einstaklingum ekki um leyfi til að koma til lands síns. Samkvæmt ákvæðinu á ekki að meina einstaklingum að fara inn í búsetuland sitt eða land  sem þeir hafa haft langtímatengsl við. Mannréttindanefndin sagði í almennri athugasemd sinni um ákvæðið (nr. 27) að orðanotkunin „til síns eigin lands" hefði víðari merkingu en „land þar sem hefur ríkisfang." Væri ákvæðið því ekki bundið við ríkisfang. Það tæki einnig til einstaklings sem getur ekki verið talinn venjulegur útlendingur vegna sérstakra tengsla við ákveðið land. Þetta væri til dæmis  í tilvikum þar sem einstaklingar hafa misst ríkisborgararétt með ólögmætum hætti (þ.e. sem stangast á við alþjóðareglur), eða ef ríkisborgararéttur hefur fallið niður vegna stofnunar nýs ríkis og þeim er neitað um hinn nýja ríkisborgararétt. Í slíkum tilvikum njóta þeir verndar 4. mgr. 12. gr. Jafnframt telur nefndin að hugsanlega geti undir þetta fallið einstaklingar, sem hafa búið í landi í langan tima, þar með talið einstaklingar án ríkisborgararéttar.[4]

 

 Ríkjum er þó jafnan eftirlátið mikið svigrúm við mat á þessu eins og sést í máli Stewart gegn Kanada, þar sem vísa átti úr landi breskum ríkisborgara, sem hafði búið í Kanada frá 7 ára aldri ásamt móður og bróður og átti tvö börn í landinu. Hélt hann því fram að Kanada væri land sitt. Sagði mannréttindanefnd SÞ að orðin ,,hans eigin lands" í 4. mgr. 12. gr. bæri að skilja á þann veg að það næði til einstaklinga sem teldust ríkisborgarar, sem og einstaklinga sem væru ekki ríkisborgarar en þó ekki heldur útlendingar í skilningi 13. gr. samningsins (sjá umfjöllun í kafla III B-1). Sagði nefndin að í þessu máli væri spurningin sú hvort einstaklingur, sem kemur inn í land í samræmi við innflytjendalöggjöf ríkis, geti talið ríkið vera sitt eigið þó hann hafi ekki öðlast ríkisborgararétt þar og heldur enn sínu fyrra þjóðerni. Svarið við þessari spurningu gæti hugsanlega verið jákvætt, væru skilyrði til að öðlast ríkisborgararétt óþarflega ströng. Aðstæður væru hins vegar ekki þannig í þessu máli og Stewart hafði aldrei gert tilraun til að öðlast ríkisborgararétt. Var ekki talið að hann gæti talið Kanada vera sitt eigið ríki. Sagði nefndin að ríki, sem gerðu útlendingum kleift að öðlast ríkisborgararétt, megi gera ráð fyrir að útlendingar muni í tímans rás verða sér úti um réttindin sem þeim bjóðast, og þar með taka á sig þær skyldur sem ríkisborgararétti fylgja. Einstaklingar, sem nýta sér ekki þennan möguleika og komast hjá öllum skyldum gagnvart landinu, geta því með réttu enn talist útlendingar.

Til baka í töflu

 

MSE

Mannréttindasáttmálinn fjallar ekki sérstaklega um veitingu ríkisborgararéttar eða missi hans. Hefur þetta verið gagnrýnt, þar sem ríkisfang veitir einstaklingum mikilvæga stöðu og er af mörgum talinn veita tilkall til frekari réttinda.[5] Með svipuðum hætti og SBSR mælir MSE eingöngu fyrir um frelsi til að yfirgefa land og koma aftur til lands síns, sem og bann við brottvísun, í 4 viðauka við MSE (sjá umfjöllun í kafla III B-3). Þessi ákvæði veita ekki vernd gegn því að einstaklingar séu sviptir ríkisborgararétti. Gróf brot gætu mögulega kallað á mat á því hvort 3. gr. MSE ætti við (vanvirðandi meðferð) og í tilviki einstaklinga gæti 8. gr. MSE komið til skoðunar (vernd einkalífs og fjölskyldu). Ekki er þó fyrir að fara dómaframkvæmd frá MDE sem styður þá túlkun.[6]

Til baka í töflu

 

Evrópuráðssamningur um þjóðerni

Samningur þessi (sjá hér) er frá 1997, tók gildi 2000 og var fullgiltur af Íslands hálfu árið 2003. Tilgangur samningsins, sbr. 1. gr., er að koma á reglum tengdum þjóðerni einstaklinga og reglum um herskyldu, þegar einstaklingar teljast borgarar fleiri ríkja en eins. Samkvæmt 3. gr. skulu ríki ákvarða með lögum hverjir séu ríkisborgarar og önnur ríki skulu hlíta þeim ákvörðunum svo framarlega sem þær samræmast alþjóðasamningum, venjurétti og grundvallarreglum, sem viðurkenndar eru um þjóðerni. Grundvallarreglur samningsins eru, skv. 4. gr. hans að 1) allir eigi rétt á þjóðerni/ríkisfangi; 2) að forðast beri ríkisfangsleysi; 3) að enginn skuli sviptur ríkisborgararétti af geðþótta; og 4) að hvorki hjónaband, á milli ríkisborgara aðildarríkis að samningnum og útlendings, eða slit þess né breyting á þjóðerni annars makans á meðan á hjónabandi stendur, skuli sjálfkrafa hafa áhrif á þjóðerni hins makans. Þá er lagt bann í 5. gr. við ólögmætri mismunun í reglum um veitingu ríkisborgararéttar. Samningurinn mælir fyrir um nákvæmari reglur um skilyrði fyrir veitingu ríkisborgararéttar en aðrir alþjóðlegir samningar og felur því í sér raunhæfa leið til að sporna við því að einstaklingar verði ríkisfangslausir.  Þannig skal aðildarríki veita ríkisborgarétt barni sem fætt er á yfirráðasvæði þess og annað hvort foreldri er ríkisborgari þess, sbr. 6. gr. samningsins. Þá ber aðildarríki skylda til að veita barni ríkisborgararétt, annað hvort við fæðingu, eða samkvæmt umsókn, ef barnið er fætt á yfirráðasvæði þess og yrði ella ríkisfangslaust. Ef barnið er ekki fætt á yfirráðasvæði ríkisins er skylda ríkisins veikari enda þótt barnið hafi ákveðin tengsl við ríkið, en ríkinu ber að auðvelda barninu að öðlast ríkisfang.[7] Loks eru í 7. gr. ákvæði sem banna aðildarríkjum að svipta einstaklinga ríkisborgararétti - eða samþykkja umsókn um niðurfellingu ríkisborgararéttar - ef einstaklingur verður ríkisfangslaus í kjölfar þess. Eina undantekningin sem gerð er frá þessu er ef sótt hefur verið um ríkisborgararétt með sviksamlegum hætti.

Til baka í töflu

 

Íslenskur réttur

Í 1. mgr. 66. gr. STS segir að útlendingi verði aðeins veittur íslenskur ríkisborgararéttur samkvæmt lögum. Í gildi eru lög nr. 100/1952 um íslenskan ríkisborgararétt. Samkvæmt þeim er aðeins hægt að öðlast íslenskt ríkisfang með tvennum hætti, annaðhvort með lögum, samkvæmt 6. gr. laganna, eða eftir ákvörðun dómsmálaráðherra, samkvæmt 7. gr. [9] Meginstefnan er sú að umsækjendur hafi þegar uppfyllt skilyrði búsetuleyfis og fengið það útgefið þegar sótt er um ríkisborgararétt. Auk þess verða umsækjendur að uppfylla frekari skilyrði, m.a. varðandi dvalartíma á Íslandi, áður en til álita kemur að veita þeim ríkisborgararétt. Eðlilegt þykir að þessi mál séu í samhengi þannig að útlendingar sem hér setjast að fái fyrst tímabundin dvalarleyfi, þá búsetuleyfi og að lokum ríkisborgararétt.

 

Þegar ríkisborgararéttur er veittur samkvæmt 6. gr. fær dómsmálaráðuneytið umsögn lögreglustjóra á dvalarstað umsækjanda og umsögn Útlendingastofnunar áður en umsóknin er lögð fyrir Alþingi. Þetta er meginreglan, en heimild ráðherra samkvæmt 7. gr., sem var sett í lög árið 1998, er frávik frá henni.

 

Samkvæmt 7. gr. er innanríkisráðherra heimilt, að fenginni umsögn lögreglu og Útlendingastofnunar, að veita íslenskan ríkisborgararétt samkvæmt umsókn sem borin er fram af umsækjanda sjálfum eða forsjármönnum hans hafi hann ekki náð 18 ára aldri. Þessi heimild ráðherra er bundin við mál þar sem vafalaust er að umsækjandi uppfylli lögmælt skilyrði. Í öðrum tilvikum getur ráðherra vísað umsókn til ákvörðunar Alþingis, sem tekur ákvörðun samkvæmt 6. gr. Í greinargerð með þessu ákvæði segir að þegar ráðherra sendir slík vafamál til Alþingis sé um framsendingu að ræða og þurfi ekki réttlætingu samkvæmt reglum stjórnsýsluréttar þar sem ekki sé um að ræða efnisúrlausn í málinu. Áfram sé þó við það miðað að ráðherra hafni umsókn þegar hann telur ljóst að umsækjandi uppfylli ekki lögmælt skilyrði þess að fá ríkisfangsbréf útgefið með stjórnvaldsákvörðun.

 

Hin lögmæltu skilyrði eru talin upp í 8. og 9. gr. laganna. Búsetuskilyrði samkvæmt 8. gr. eru: (1) að umsækjandi hafi verið hér búsettur í sjö ár; ríkisborgari í einhverju Norðurlandanna þó einungis í fjögur ár; (2) að umsækjandi, sem er í hjúskap með íslenskum ríkisborgara, hafi verið hér búsettur í þrjú ár frá giftingu, enda hafi hinn íslenski maki haft íslenskan ríkisborgararétt ekki skemur en fimm ár; (3) að umsækjandi, sem býr í skráðri sambúð með íslenskum ríkisborgara og bæði eru ógift, hafi verið hér búsettur í fimm ár frá skráningu sambúðarinnar, enda hafi hinn íslenski ríkisborgari haft ríkisborgararétt ekki skemur en fimm ár; (4) að umsækjandi, sem á íslenskan ríkisborgara að öðru foreldri, hafi verið hér búsettur í tvö ár, enda hafi hið íslenska foreldri haft ríkisborgararétt ekki skemur en fimm ár; (5) að umsækjandi, sem verið hefur íslenskur ríkisborgari en hefur gerst erlendur ríkisborgari, hafi verið hér búsettur í eitt ár; (6) að flóttamaður, sem fullnægir skilgreiningu í alþjóðasamningi um stöðu flóttamanna sem gerður var 28. júlí 1951, hafi verið hér búsettur sem slíkur í fimm ár. Sama gildir um mann sem fengið hefur dvalarleyfi hér á landi af mannúðarástæðum.

Til baka í töflu

 

Í 2. mgr. segir að skilyrði 1. mgr. miðist við fasta búsetu og lögheimili og samfellda, löglega dvöl hér á landi síðustu ár áður en umsókn er lögð fram. Heimilt sé að víkja frá því skilyrði þótt dvöl umsækjanda hér hafi verið rofin allt að einu ári vegna tímabundinnar atvinnu eða af óviðráðanlegum ástæðum, svo sem vegna veikinda nákomins ættingja, en þó allt að þremur árum vegna náms erlendis. Sá tími, sem umsækjandi hefur átt hér lögheimili og dvöl, verður þó að vera að minnsta kosti jafnlangur þeim tíma sem hann verður samkvæmt áðurgreindum reglum að uppfylla. Þegar dvalartími er talinn saman segir í greinargerð með ákvæðinu að bæði sé gerð krafa um að lögheimili viðkomandi sé í þjóðskrá skráð á Íslandi og að viðkomandi hafi í raun haft hér fasta búsetu í skilningi lögheimilislaga (nú lög nr. 21/1990). Ástæðan fyrir þessum skilyrðum er sú að fólk sem stundar árstíðarbundna vinnu breytir oft ekki skráningu sinni þegar það hverfur til heimalands síns, þar sem það dvelur jafnan hálft árið ef ekki lengur.

 

Þá er það skilyrði sett í 3. mgr. 8. gr. laganna að umsækjandi skuli uppfylla skilyrði þess að fá búsetuleyfi útgefið af Útlendingastofnun. Umsækjandi skuli jafnframt hafa slíkt leyfi þegar sótt er um íslenskan ríkisborgararétt nema hann sé undanþeginn skyldu til að hafa dvalarleyfi hér á landi. 

 

Í 9. gr. er að finna frekari skilyrði fyrir því að útlendingur fái ríkisborgararétt. Þau eru eru: (1) að umsækjandi hafi sannað með fullnægjandi hætti hver hann sé; (2) að hann sé starfhæfur og vel kynntur og leggi m.a. því til staðfestingar fram álit tveggja valinkunnra íslenskra ríkisborgara; (3) að hann hafi staðist próf í íslensku samkvæmt kröfum sem dómsmálaráðherra setur í reglugerð; (4) að árangurslaust fjárnám hafi ekki verið gert hjá umsækjanda sl. þrjú ár, bú hans tekið til gjaldþrotaskipta eða hann í vanskilum með skattgreiðslur; (5) að umsækjandi geti framfleytt sér hérlendis og hafi ekki þegið framfærslustyrk frá sveitarfélagi sl. þrjú ár. Er umsækjanda skylt að sýna fram á að hann hafi framfært sig með löglegum hætti hér á landi og er ráðuneytinu heimilt að afla skattframtala og gagna frá skattyfirvöldum því til staðfestingar; (6) Umsækjandi hafi ekki, hérlendis eða erlendis, sætt sektum eða fangelsisrefsingu eða eigi ólokið máli í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi samkvæmt íslenskum lögum. Frá þessu má þó víkja að liðnum fresti sem hér greinir, enda sé ekki um að ræða endurtekin brot:

 

   a. Veita má íslenskan ríkisborgararétt að liðnu einu ári frá því að brot var framið sem sætti sekt lægri en 50.000 kr.

   b. Veita má íslenskan ríkisborgararétt að liðnum þremur árum frá því að brot var framið sem sætti sekt að fjárhæð 50.000 kr. eða hærri.

   c. Veita má íslenskan ríkisborgararétt að liðnum sex árum frá því að fangelsisrefsing í allt að 60 daga var afplánuð.

   d. Veita má íslenskan ríkisborgararétt að liðnum átta árum frá því að fangelsisrefsing í allt að sex mánuði var afplánuð.

   e. Veita má íslenskan ríkisborgararétt að liðnum tíu árum frá því að fangelsisrefsing í allt að eitt ár var afplánuð.

   f. Veita má íslenskan ríkisborgararétt að liðnum 14 árum frá því að lengri fangelsisrefsing en eitt ár var afplánuð. Hið sama gildir um öryggisgæslu.

Til baka í töflu

 

Í 2. mgr. 9. gr. segir að þegar talið er að refsing sé úttekin með gæsluvarðhaldi, eða hún skilorðsbundin að öllu leyti, reiknist tíminn samkvæmt þessum tölulið frá því að viðkomandi var látinn laus úr gæsluvarðhaldi eða skilorðsdómur kveðinn upp. Veita má íslenskan ríkisborgararétt að liðnum þremur árum frá því að ákvörðun um skilorðsbundna ákærufrestun var tilkynnt.

 

Hafi útlendingur, sem sækir um ríkisborgararétt, veitt rangar upplýsingar á hann yfir höfði sér refsiábyrgð og missi ríkisborgararéttar, sbr. 11. gr. laganna.

 

Í máli umboðsmanns Alþingis nr. 236/1990 kvartaði A yfir því að sonur hennar, sem var veittur íslenskur ríkisborgararéttur, fengi ekki að halda nafninu Ývan/Ívan óbreyttu við töku íslensks ríkisborgararéttar. Væru með þessu skert sjálfsögð mannréttindi. Umboðsmaður komst að þeirri niðustöðu í þessu máli að ekki hefði verið brotið gegn íslenskum lögum, er synjað var um að sonur hennar fengi að halda óbreyttu nafni sínu. Fengi hann ekki séð að  þetta skilyrði færi í bága við nein mannréttindaákvæði í íslensku stjórnarskránni. Að því er varðar MSE treysti Umboðsmaður sér ekki til að segja um hvaða árangur næðist við slíka kæru.

 

Í máli umboðsmanns Alþingis nr. 3574/2002 kvartaði A yfir synjun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins á að veita honum ríkisborgararétt þar sem synjunin hefði verið efnislega röng. Umboðsmaður taldi að A hefði í sjálfu sér verið talinn uppfylla þau skilyrði sem þar kæmu fram. Hins vegar teldi ráðuneytið að það væri komið undir frekara mati ráðherra hvort tilefni væri til þess að fallast á umsókn um ríkisborgararétt. Umboðsmaður taldi ekki hægt að ráða það af ákvæðinu eða lögskýringargögnum að ætlunin hafi verið að breyta þeirri tilhögun sem hér hafði ríkt um árabil að útlendingur ætti ekki lögvarða kröfu til þess að öðlast ríkisborgararétt þótt umsókn hans uppfyllti þær viðmiðunarreglur sem Alþingi hafði sett sér og kæmu fram í lögum nr. 100/1952. Því væri ekki unnt að fullyrða að ráðherra væri óheimilt að hafna umsókn um ríkisborgararétt þó að umsækjandi uppfyllti öll lögmælt skilyrði. Hins vegar yrði að gera þá kröfu að slík synjun væri reist á málefnalegum forsendum og að hún væri í eðlilegum tengslum við markmið laganna. Umboðsmaður áleit að nokkur réttaróvissa ríkti um það hvernig ráðherra bæri að leysa úr umsókn um ríkisborgararétt samkvæmt 1. mgr. 5. gr. a laga nr. 100/1952. Vísaði hann í þessu sambandi til lagaáskilnaðarreglu 1. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og mikilvægis þeirra réttinda sem um væri að tefla. Með hliðsjón af þessu taldi hann eðlilegt að tekið yrði til athugunar hvort rétt væri að kveða með skýrum hætti fyrir um það í lögum hvort og þá á grundvelli hvaða sjónarmiða ráðherra væri heimilt að hafna umsókn um ríkisborgararétt þótt viðkomandi uppfyllti lögbundin skilyrði.

Til baka í töflu

 
Tilvísanir


 

[1] Office of the High Commissioner for Human Rights. The Rights of Non-citizens, bls. 22.

[2] Joseph, Schultz og Castan, bls. 651.

[3] Skýrsla Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um Eistland (UN doc.CCPR/C/79/Add.59).

[4]  Almenn athugasemd nr. 27

[5] Sjá m.a. gagnrýni Hall, bls. 587.

[6] Dæmi úr breskri framkvæmd sýnir hversu litla vernd MSE veitir (a.m.k. í túlkun þarlendra dómstóla). Þar var spurning um beitingu 8. gr. og 14. gr (mismunun) í máli um ríkisfang. Dómstóllinn komst að því að bryti ekki gegn greinunum að  börn breskra  mæðra (sem eru breskar vegna ríkisborgararéttar foreldra þeirra) fengju breskan ríkisborgararétt (hvort sem þau voru fædd í hjónabandi eða utan) en börn breskra feðra (sem eru breskir vegna ríkisborgararéttar foreldra þeirra) áttu ekki rétt á að fá breskan ríkisborgararétt (en gátu sótt um ríkisborgararétt) ef þau voru fædd utan hjónabands. Þetta var  ekki talið brot á áðurnefndum greinum, þar sem aðstæður barna sem eiga rétt á ríkisborgararétti og barna sem geta óskað eftir ríkisborgararétti væru ekki sambærilegar.

[7] Þetta á einkum við ef barn eigin þegna er fætt í öðru landi en fær ekki ríkisfang þess ríkis og ekki ríkisfang upprunaríkis foreldra (ef jus sanguinis er ekki fylgt).

[8] Auk þess eru ákvæði í I. kafla laganna um þá sem eiga tilkall til að fá ríkisborgararétt, með umsókn, en ekki verður fjallað sérstaklega um þessi ákvæði hér.

Til baka í töflu

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is