III D Jafnræðisregla og bann við mismunun í mannréttindasáttmálum

Til baka í efnisyfirlit III hluta

Jafnræðisregla, hvort sem er almenn regla sem tryggir jafnan rétt, án tillits til persónueiginleika eða stöðu, eða bann við mismunun á grundvelli persónueiginleika eða stöðu, s.s uppruna, kyns, kynþáttar, trúar o.s.frv. er án efa ein mikilvægasta trygging mannréttinda í alþjóðlegum sáttmálum, ekki síst að því er varðar réttarstöðu útlendinga. Jafnræðisreglan á stoð í MYSÞ 1. gr. og 7. gr., auk þess sem grundvallarrök hennar koma fram í inngangsorðum MYSÞ, þ.e. „viðurkenning þess að allir séu jafnbornir til virðingar og óafsalanlegra réttinda". Jafnræðisreglan er nánar útfærð í öllum grunnsáttmálum SÞ, SBSR, 2. gr. og 26. gr.; SEFMR, 2. gr.; Barnasáttmálanum, 2. gr.; samningi um vernd og réttindi farandlaunþega (CMW), 7. gr.[1]; auk þess sem tveir sáttmálar eru helgaðir því markmiði að ná fram jafnrétti, þ.e. Samningur um afnám allrar mismununar gagnvart konum (CEDAW) sem bannar mismunun á grundvelli kynferðis og Samningur um afnám alls kynþáttamisréttis (CERD) sem bannar mismunun á grundvelli kynþáttar. [2]

 

Auk almennra ákvæða sem banna mismunun og tryggja jafnan rétt til að njóta tiltekinna varinna réttinda, hafa mannréttindasamningar í auknum mæli fyrir um ítarlegri skilgreiningar á hugtökunum jafnrétti og mismunun og hafa mælt fyrir um vernd sem felst ekki eingöngu í neikvæðri skyldu ríkja til að brjóta ekki gegn jafnræðisrseglu(bann við mismunun) heldur einnig jákvæðri skyldu ríkja til að tryggja öllum jafnan rétt (t.d. með löggjöf sem tryggir jafnan rétt og jöfn tækifæri). Jákvæðar skyldur fela einnig í sér að grípa þarf til aðgerða til að ná fram jafnrétti í raun með virkum aðgerðum.  Auk þess hafa mannréttindasamningar, einkum sértækir samningar s.s. CEDAW og CERD,  í auknum mæli mælt fyrir um það að tímabundnar aðgerðir sem hygla ákveðnum hópum (svokölluð jákvæð mismunun) brjóti ekki gegn samningnunum og er það skilgreiningaratriði að slíkar aðgerðir feli ekki í sér mismunun.

 

Almenn jafnræðisákvæði, þ.e. ákvæði sem tryggja jafnrétti án þess að vísa í tiltekin efnisréttindi, eru sjaldgæfari í mannréttindasamningum  eins og fjallað er um hér á eftir, en mikilvægasta ákvæðið, 26. gr. SBSR,  tekur til allra réttinda á hvaða sviði sem er og verður það  rakið sérstaklega. Slík almenn ákvæði má einnig oft finna í stjórnarskrám ríkja, sem mæla fyrir um jafnrétti fyrir lögum og samkvæmt lögum.

 

Sá galli er á jafnræðisreglunni sem mannréttindaákvæði að hún er umfangsmikil og flókin. Jafnræði er í eðli sínu ekki „réttindi" - og þá ekki einstaklingsbundin „réttindi" - en fremur gildi sem felur í sér samanburð og tilkall til þess að einstaklingur eða hópur fólks eigi rétt á sambærilegri meðferð eða gæðum og annar einstaklingur eða hópur fólks. Þá er sá galli á jafnræðisreglunni að hún er „opin" regla, einkum í þeirri útfærslu að hún tryggi líkum líkt, en í  því felst að þeir sem eru í sambærilegri stöðu skuli hljóta sömu meðferð. Efnislega vísar reglan því út fyrir sjálfa sig og tryggir eingöngu sambærilega meðferð í sambærilegri stöðu, en ekki tiltekna meðferð. Þrátt fyrir þá mikilvægu tryggingu sem felst í reglunni er efni hennar takmarkað þannig að a) um þarf að vera að ræða sambærileg atriði sem kalla á sömu meðferð (en mat á því hvað er sambærilegt getur verið flókið) og b) þó að um sambærileg atriði sé að ræða sem sæta ólíkri meðferð - og því líkur á að um mismunun sé að ræða -  má réttlæta mismunandi meðferð með vísan til lögmætra sjónarmiða og að teknu tilliti til meðalhófsreglunnar.

 

Eins og fram kom í II A  miða ákvæði mannréttindasáttmála almennt að algildri vernd mannréttinda, þ.e. tryggja réttindi allra án tillits til stöðu og persónueinkenna. Aðgreining - eða mismunun - á grundvelli tiltekinnar stöðu eða persónueinkenna er því almennt bönnuð. Þó er staða útlendinga sérstök að þessu leyti þar sem þjóðaréttur viðurkennir það sjónarmið að sérstakt samband sé milli ríkis og þegna þess, sem leiðir til þess að í afmörkuðum tilvikum er talið réttlætanlegt að þegnar njóti meiri réttinda en útlendingar, einkum á sviði stjórnmálalegra réttinda, búseturéttar og í sumum tilvikum efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra réttinda.

 

Ákvæði mannréttindasáttmála  tiltaka yfirleitt þjóðerni eða þjóðernisuppruna sem einn af þeim þáttum sem ekki má byggja mismunandi meðferð á. Óvissa hefur þó verið um skilning á hugtakinu  þjóðerni  þar sem það getur tekið til  ríkisfangs (ríkisborgararéttar) annars vegar og þjóðernisuppruna hins vegar, en þjóðernisuppruni vísar einkum til tengsla við ákveðinn hóp sem skilgreindur er á grundvelli sameiginlegrar sögu eða sameiginlegs uppruna. Gögn sem liggja til grundvallar samningum á vegum SÞ sýna að einkum var miðað við þann skilning að banna skyldi mismunun á grundvelli þjóðernisuppruna. Skýrist þetta annars vegar af því að(minnihluta)hópar af sama uppruna hafa oft staðið höllum fæti gagnvart(ríkjandi) meirihluta og hefur staða þeirra kallað á sérstaka vernd. Hins vegar eru ríki oft treg til að gangast undir skuldbindingar sem ganga gegn fullveldisrétti þeirra í viðkvæmum málum, s.s.varðandi búseturétt og dreifingu efnislegra gæða, og hafa talið réttlætanlegt að takmarka slík réttindi við eigin þegna. 

 

Eins og fram kemur hér á eftir hefur þróunin orðið sú að almennir mannréttindasáttmálar á vegum SÞ, sem og Mannréttindasáttmáli Evrópu, hafa verið skýrðir þannig að mismunun sem byggist eingöngu á þjóðerni fellur undir bann samninganna og verður ekki réttlætt nema með málefnalegum rökum sem tengjast öðrum sjónarmiðum en þjóðerni. Um viðleitni til að bæta stöðu útlendinga með því að setja reglur sem vernda réttindi þeirra sérstaklega vísast til II B.

 

Þessi kafli fjallar  um ákvæði mannréttindasamninga sem íslenska ríkið hefur fullgilt og sem banna mismunun. Er fyrst fjallað um ákvæði SBSR og MSE sem banna mismunun í tengslum við framkvæmd borgararegra- og stjórnmálalegra réttinda (III D-1)og síðan um ákvæði SEFMR og FSE sem banna mismunun við framkvæmd efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra réttinda (III D-2). Þá er fjallað um almennt ákvæði 26. gr. SBSR, sem er sjálfstæð jafnræðisregla og jafnframt víðtækasta jafnræðisregla þjóðréttarlegra samninga (III D-3). Í öllum tilvikum er áherslan lögð á  að varpa ljósi á það að hve miklu leyti ákvæðin eiga við um útlendinga og hvaða réttarvernd þau tryggja. Þá fjallar kafli III D-3 um jafnræðisreglu íslensks réttar.

 

Í III D-4 er gefið yfirlit yfir ákvæði sértækra samninga sem Ísland á aðild að og banna mismunun á tilteknum grundvelli, s.s. vegna kynferðis, kynþáttar, fötlunar o.s.frv. Að því er þessa samninga varðar verður að hafa tvennt í huga. Í fyrsta lagi leggja þeir á ríki víðtækari skyldur en jafnræðisákvæði almennra samninga til að ná fram því markmiði að banna mismunun og tryggja jafnrétti þeirra hópa sem verndin nær til. Í öðru lagi er hér um að ræða ástæður mismununar sem kalla á algilda vernd, eftir því sem hægt er, og taka þessir samningar því til útlendinga jafnt og annarra. Samningar sem banna mismunun á grundvelli kynþáttar leyfa þó að greinarmunur sé gerður á grundvelli þjóðernis (ríkisfangs) og getur oft verið erfitt að draga mörk á milli þjóðernis og þjóðernisuppruna eða kynþáttar.

 

Heimildir og frekara lesefni

Arnardóttir, Oddný Mjöll. „Bann við mismunun."   Björg Thorarensen,  Davíð Þór Björgvinsson, Guðrún Gauksdóttir og Hjördís Björk Hákonardóttir (ritsj.) Mannréttindasáttmáli Evrópu. Meginreglur, framkvæmd og áhrif á íslenskan rétt. Reykjavík 2005, 433-471.

-         „Um gildissvið og eðli hinnar almennu jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar." Tímarit lögfræðinga 2. tbl. 1997, 94-119.

Carlson, Scott N. og Gisvold, Gregory. A Practical Guide to the International Covenant on Civil and Political Rights. Transnational Publishers, 2003.

Cholewinski, Ryszard. Migrant Workers in International Human Rights Law. Clarendon Press, Oxford, 1997. 

Craven, Matthew. The International Covenant on Economic, Social and Cultural Rights - A Perspective on its Development. Clarendon Press, Oxford, 1995 (og 2. útg. 1998).

Guðmundsdóttir, Dóra. „Jafnræðisreglan og áhrif hennar a frjálsa för fólks innan Evrópska efnahagssvæðisins."  Stefán Már Stefánsson og Viðar Már Matthíasson  (ritstj.) Lögberg, Rit Lagastofnunar Háskóla Íslands. Háskólaútgáfan, Reykjavík, 2003, 187-228.

-         „Stjórnarskrárbundnar meginreglur og stjórnarskrárvarin réttindi."  Guðrúnarbók. Afmælisrit til heiðurs Guðrúnu Erlendsdóttur. Hið íslenska bókmenntafélag,  Reykjavík 2006, bls. 133-158.

Konráðsdóttir, Sif. „Jafnlaunareglan í íslenskri dómaframkvæmd og dómum Evrópudómstólsins." Guðrúnarbók. Afmælisrit til heiðurs Guðrúnu Erlendsdóttur. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík, 2006, bls. 411-427.

Opsahl, Torkel, „Equality in Human Rights Law - With Particular Reference to Article 26 of the International Covenant on Civil and Political Rights." Festschrift Für Felix Ermacora, 1998.

Joseph, Sarah o.fl. The International Covenant on Civil and Political Rights. Cases, Materials, and Commentary (2. útg.). Oxford University Press, Oxford, 2004.

Shiek, Dagmar, Waddington, Lisa og Bell, Mark (ritstj.). Cases, Materials and Text on National, Supranational and International Non-Discrimination Law. Hart publishing, Oxford, 2007.

Vandenhole, Wouter. Non-Discrimination and Equality in the View of the UN Human Rights Treaty Bodies. Intersentia, Antwerpen - Oxford, 2005.

 

Skýrslur

International Provisions Protecting the Human Rights of Non-citizens, Study prepared by Baroness Elles, Special Rapporteur, UN Doc. E/cN.4/Sub.2/392/Rev1 (1980) I

Almenn athugasemd nr. 3 (General Comment No 3)  SEFMR-nefnd (E/1991/23).

Almenn athugasemd nr. 16 (General Comment No 16) SEFMR-nefnd (E/C/12/2005/4).

Almenn athugasemd nr. 4 (CCPR General Comment No 4) Mannréttindanefnd SÞ

Almenn Athugasemd nr. 18 (CCPR General Commen t No 18) Mannréttindanefnd SÞ

Almenn athugasemd nr. 28 (CCPR/C/21/Rev.1/Add.10)  Mannréttindanefnd SÞ

Almenn athugasemd nr. 31 (CCPR/C/21/Rev.1/Add.13) Mannréttindanefnd SÞ

Tilmæli nr. 30 (General Rccommendation No. 30) Nefnd um afnám kynþáttamisréttis (01.10.2004).

Yilmaz-Dogan gegn Hollandi (Communication 1/1984) Report of the Committee on the Elimination of Racial Discrimination 43 UN GAOR Supp. No.18).

Limburg reglurnar (Limburg Principles)

Durban yfirlýsingin (Durban Declaration)

 

Tilvísanir:


[1] Greinin er ein af fáum sem bannar mismunun á grundvelli þjóðernis. Samningurinn hefur ekki verið fullgiltur þó hann hafi verið undirritaður af Íslenska ríkinu, sjá II B.

[2] Ekki er ákvæði um bann við mismunun í CAP, þar sem bann við pyndingum er algilt og ófrávíkjanlegt.

Til baka

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is