IV A Atvinnuréttindi og réttindi launþega

Til baka í efnisyfirlit IV hluta

Svipað og á við um reglur um rétt til búsetu og dvalar eru réttindi tengd aðgangi að atvinnu og launuðum störfum mikilvæg hagsmunamál ríkja og á forræði þeirra. Þær reglur þjóðaréttar sem áhrif hafa á atvinnuréttindi og réttindi launþega eru fyrst og fremst grundvallarmannréttindareglur þær sem settar hafa verið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í MYSÞ, Alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi (SEFMR) og reglur settar af Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO). Þessar reglur eiga að meginstefnu við um alla, bæði eigin þegna ríkis og aðra, en takmarka má réttindin og getur það leitt til verri stöðu útlendinga en eigin þegna.

 

Réttindi farandlaunþega hafa lengi verið meðal mikilvægustu málefna sem ILO fæst við. Eru reglur ILO settar í þeim tilgangi að vernda grundvallarréttindi farandlaunþega og tryggja eins og kostur er jafna stöðu þeirra í samanburði við eigin þegna aðildarríkja. Eins og fram er komið hefur Ísland undirritað Samning SÞ um vernd og réttindi farandlaunþega (CMW), en ekki fullgilt samninginn. Mjög lítill hluti þeirra reglna sem ILO hefur sett til verndar farandlaunþegum bindur Ísland formlega að þjóðarétti, þar sem samningarnir hafa ekki verið undirritaðir af Íslands hálfu.

 

Evrópuráðið hefur einnig látið réttinn til atvinnu og önnur réttindi launþega til sín taka og eru ákvæði sem varða þessi réttindi fyrst og fremst í Félagsmálasáttmála Evrópu (FSE) auk þess sem Evrópusamningur um réttarstöðu farandlaunþega frá 1977 tryggir réttindi ríkisborgara samningsaðila að því er varðar aðgang að vinnu, kjör og önnur réttindi í gistiríkinu. Evrópusamningur um staðfesturétt frá 1995 fjallar einnig um rétt ríkisborgara samningsaðila til að taka upp atvinnu í gistiríki. Ísland er aðili að FSE (með tilteknum undanþágum) og viðauka við FSE, nr. 142, sem varðar formsatriði um eftirlit með framkvæmd samningsins. Ísland hefur hins vegar ekki gerst aðili að uppfærðum FSE eða öðrum viðaukum við samninginn en þeim sem nefndur er. Þá er Ísland ekki aðili að Evrópusamningi um réttarstöðu farandlaunþega og Evrópusamningur um staðfesturétt var undirritaður af Íslands hálfu en ekki fullgiltur.[1]

 

Reglur ESB og EES-samningsins um fjórfrelsið hafa nú að nokkru komið í stað þeirra samninga sem gerðir eru á vegum Evrópuráðsins, að FSE frátöldum. Taka þessar reglur fyrst og fremst til aðgangs að atvinnu og staðfestu á yfirráðasvæði annarra EES-ríkja og eiga eingöngu við um ríkisborgara aðildarríkjanna (EES-útlendinga) og aðstandendur þeirra.

 

Á sviði vinnuréttar hefur ESB fengið auknar heimildir á umliðnum árum og hefur ESB heimildir, ásamt aðildarríkjunum, til að setja reglur um kjör launþega, starfsumhverfi og vinnuvernd, auk reglna um öryggi og hollustuhætti (151.gr og 153.gr StESB, áður 136. og 137. gr. Rs.), auk þess sem reglur um launajafnrétti kynjanna, orlof o.fl. er að finna í X hluta StESB. Í hluta IX. er hlutverk ESB í atvinnumálum og atvinnustefnu markað. Þær reglur sem settar eru með þessum hætti ná eðli málsins samkvæmt til allra sem eru á vinnumarkaði og falla undir viðeigandi löggjöf aðildarríkjanna. Á sviði vinnuréttar hefur EES-samningurinn að geyma hliðstæðar, en ekki eins ítarlegar reglur í 1. kafla V. hluta EES-samningsins, auk þess sem ýmsar gerðir og áætlanir hafa verið teknar upp í samninginn með heimild í bókun 31, sbr. 5. gr.
bókunarinnar um félagsmál og 15. gr. bókunarinnar um atvinnumál. Ekki verður fjallað um þessar reglur hér en rétt er að geta þess að í löggjöf ESB er leitast við að vernda þær meginreglur sem njóta verndar FSE, sbr. tilvísun í samninginn í 136. gr. Rs (nú 151.gr. StESB). Við túlkun ákvæðanna er einnig höfð hliðsjón af viðeigandi ákvæðum FSE.[2]

 

Þátttaka Íslands í samstarfinu um Evrópska efnahagssvæðið (EES) auðveldaði flæði útlendinga til Íslands, svo um munaði.[3] Frjáls för fólks er þáttur í hinu svonefnda fjórfrelsi, sem samstarfið grundvallast á, samanber 1. kafla III. hluta EES-samningsins. Reglur samningsins sem hafa áhrif á atvinnuréttindi útlendinga eru af tvennum toga, ef frá eru taldar reglur á sviði vinnuréttar, sem gilda um alla, hvort sem er útlendinga eða eigin þegna, sbr. hér að ofan.

 

Annars vegar tryggir EES-samningurinn frjálsa för launþega og þeirra sem eru sjálfstætt starfandi, sbr. 28. gr. og  31. gr. EES-samningsins. Tryggja þessi ákvæði persónulegan rétt til að taka upp launuð störf, eða sjálfstæða atvinnustarfsemi, í öðrum aðildarríkjum samningsins og búseturétt sem tengist starfseminni. Þá tryggir samningurinn jafnræði einstaklinga á við eigin þegna á flestum sviðum þjóðlífsins og frekari réttindi sem eru talin nauðsynleg til að réttindin nái tilgangi sínum. Þessi réttindi eru aðeins veitt ríkisborgurum aðildarríkjanna.[4] Launþegar frá löndum sem eru aðilar að EES-samningnum hafa því fyrirhafnalítið getað flutt hingað til lands og starfað á sömu forsendum og íslenskir ríkisborgarar. Með nýlegum breytingum á lögum um útlendinga nr. 96/2002, sem tóku gildi 1. ágúst 2008, er enn rýmkað um sérreglur varðandi dvöl EES-útlendinga hér (sjá VI. kafla laganna). EES-útlendingar þurfa ekki sérstakt leyfi til að stunda atvinnu hér á landi, sbr. undanþáguákvæði III. kafla laga um atvinnuréttindi útlendinga nr. 96/2002.

 

Hins vegar tryggir EES-samningurinn frjálsa þjónustustarfsemi og staðfesturétt fyrirtækja í 36. gr. og 31. gr. EES-samningsins. Í þessum reglum felst að fyrirtæki geta látið starfsmenn sína starfa að ákveðnum verkum og eiga reglur EES-samningsins við um þá starfsemi, hvort sem starfsmennirnir eru ríkisborgarar aðildarríkja eða ekki. Hér má aftur greina á milli þess að fyrirtæki með staðfesturétt innan EES sem veitir þjónustu, sendi starfsmenn sína til landsins til vinnu[5] og svo þess að sérstök fyrirtæki (starfsmannaleigur) bjóði þjónustu sína hérlendis, en starfsemi þeirra felst í því að útvega launþega til starfa, undir verkstjórn vinnuveitanda, þótt ráðningarsamband sé milli launþega og starfsmannaleigunnar.[6]  Eins og sjá má af íslenskum lögum um þetta efni er gert ráð fyrir því að reglur íslensks vinnuréttar tryggi launþegum í öllum tilvikum lágmarksréttindi varðandi kaup og kjör (sjá frekar IV A-2). Þá geta launþegar í þessari stöðu ekki fengið atvinnuleyfi hér á landi, en gert er ráð fyrir því að aðgangur þjónustuaðila að markaðinum, samkvæmt EES-samningnum, leiði ekki til þess að tímabundnir starfsmenn komist inn á reglulegan vinnumarkað í gistiríki.

 

Aðrar reglur gilda um útlendinga frá löndum utan EES,  þá sem hér er fjallað um. Í þessum kafla verður orðið útlendingur því látið tákna útlending sem á ríkisfang í ríki utan EES, nema annað megi ráða af samhenginu. Um þá sem hafa slíkt ríkisfang verður rætt sem EES-útlendinga.

 

 

Niðurstöður

Reglur um rétt til atvinnu og réttarvernd í vinnusamböndum falla í flokk efnahagslegra og félagslegra réttinda. Þjóðréttarsamningar standa vörð um réttinn til vinnu og bann við nauðungarvinnu og setja auk þess tryggingar varðandi sanngjörn launakjör, starfsumhverfi, rétt til félagsaðildar í stéttarfélögum og samninga um kaup og kjör. Binda þessi ákvæði aðildarríkin og eiga að meginstefnu til við um alla á vinnumarkaði. Þó eru takmarkarnir heimilar og geta takmarkanir sem byggjast á forgangi eigin þegna og þegna annarra ríkja, sem og sjónarmiðum sem byggja á almannahagsmunum komið niður á útlendingum í ríkari mæli en eigin þegnum, enda þótt gæta eigi jafnræðis í þessu efni.

 

Upplýsingar Hagstofu Íslands og Vinnumálastofnunar um atvinnuleysi meðal útlendinga í lok árs 2008 benda til þess að útlendingar standi höllum fæti á vinnumarkaði þegar atvinna minnkar. Af 11.000-13.000 útlendingum á atvinnumarkaði voru tæplega 1.300 skráðir atvinnulausir í lok árs 2008, sem er mun hærra en áætlað 5% atvinnuleysi á landinu á þeim tíma.[7] Eins og einnig má sjá af fréttum leiðir aukið atvinnuleysi einnig til þröngrar stöðu útlendinga sem hafa tímabundið atvinnuleyfi, þar sem áframhaldandi dvalarleyfi er háð gildu atvinnuleyfi.[8]  (sjá frekar umfjöllun  um dvalarleyfi í kafla III B-2).

 

Ísland er aðili að SEFMR og FSE (með undanþágum) og hafa þessir samningar áhrif á túlkun innlendra laga og binda ríkið að þjóðarétti. Áberandi er að Ísland á ekki aðild að fjölda samninga SÞ og Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) sem fjalla sérstaklega um réttindi farandlaunþega og aðstandenda þeirra og að samningurinn um vernd og réttindi farandlaunþega hefur ekki verið fullgiltur (sjá umfjöllun í II B). Veita þessir samningar yfirleitt betri réttarvernd en ákvæði almennarri samninga, s.s. SEFMR og FSE.  Dæmi það sem nefnt er hér að framan um þrönga stöðu útlendinga þegar atvinnumöguleikar þrengjast er neikvætt dæmi um afleiðingar þess að Ísland hefur ekki gengist undir nýrri og sértækari reglur alþjóðasamfélagsins sem ætlað er að  vernda  farandlaunþega sem ekki njóta sérstakra réttinda samkvæmt tvíhliða eða marghliða samningum, s.s. EES-samningnum. Hins vegar eru heimildir í lögum til að taka mið af atvikum hvers máls og er því haldið fram hér að úrskurðaraðilum sé rétt að hafa hliðsjón af reglum þjóðréttarlegra samninga, einkum samningi SÞ um vernd og réttindi farandlaunþega (þar sem samningurinn hefur verið undirritaður), sem og jafnræðissjónarmiðum við úrlausn einstakra mála.

 

Ítarlegar reglur eru í innlendri löggjöf um atvinnuleyfi útlendinga og er atvinnuleyfi bundið löglegri dvöl hér á landi. Rúmast þessar reglur líklega innan þess ramma sem SEFMR og FSE setja (að því marki sem ákvæði FSE eru bindandi fyrir Ísland), en þó er ekki útilokað að samverkan laga, s.s. reglna um dvalarleyfi annars vegar og atvinnuleyfi hins vegar leiði til svo mikillar takmörkunar á réttindum einstaklinga að gangi gegn kjarna þeirra réttinda sem eru tryggð í fyrrgreindum samningum. Sjá frekari umfjöllun í III D (um bann við mismunun). Þá hefur spurningum verið beint til Íslands varðandi stöðu þeirra ríkisborgara aðildarríkja Evrópuráðsins, sem ekki eru jafnframt EES-útlendingar,  og aðgangi þeirra að vinnumarkaði hér á landi. Ljóst er að við framkvæmd ákvarðana um atvinnuleyfi og aðrar ákvarðanir varðandi útlendinga verður að gæta að þeim meginreglum sem samningarnir standa vörð um, einkum að ekki sé um mismunun að ræða (sjá frekar kafla III-D) varðandi aðgang að vinnu, aðstoð við vinnumiðlun og uppsögn úr starfi.  Sama er að segja um aðgang að stéttarfélögum, einkum aðgang að ábyrgðar- og trúnaðarstörfum innan stéttarfélaganna.

 

Að því er varðar launakjör og starfsumhverfi veita íslensk lög vernd gegn mismunun á grundvelli þjóðernis og eiga allir að sitja við sama borð þegar kemur að launakjörum, orlofi, lífeyrisgreiðslum, uppsögnum o.s.frv. Leiðir þetta fremur af hagsmunavernd stéttarfélaga en af þjóðréttarlegum skuldbindingum. Reglur EES-samningins (og ESB) heimila í aðalatriðum að reglur vinnuréttar í hverju ríki haldi gildi sínu (þ.m.t. ákvæði um lágmarkslaun og aðrar reglur um starf og starfsumhverfi), en nokkur óvissa hefur ríkt um möguleika stéttarfélaga til að semja um réttindi sín (og beita viðurkenndum aðferðum við slíka samninga, þ. á m. þvingunaraðgerðum) eftir nýlega dóma dómstóls ESB. (Sjá frekar IV A-4)

 

Ekki er fjallað um reglur ESB og EES-samningsins hér, en þær reglur hafa áhrif bæði á réttarstöðu einstakra EES-útlendinga og annarra sem falla undir svið EES-réttar og hins vegar á reglur almenns vinnuréttar. Ganga þessar reglur oft lengra en þær reglur þjóðréttarsamninga sem fjallað hefur verið um hér að framan. Þær þjóðréttarlegu skuldbindingar sem finna má í SEFMR og FSE, auk MSE, hafa þó áhrif á túlkun reglna innan ESB og má almennt segja að reglur ESB leitist við að vera í samræmi við þær meginreglur sem koma fram í þessum samningum.

 

Heimildir og frekara lesefni

 

Barnard, CatherineThe Substantive Law of the EU. The Four Freedoms. Oxford University Press, 2007.

Cholewinski, Ryszard. Migrant Workers in International Human Rights Law. Clarendon Press, Oxford, 1997. 

Craven, Matthew. The International Covenant on Economic, Social and Cultural Rights - A Perspective on its Development. Claredon Press, Oxford, 1995 (og 2. útg. 1998).

Drzewicki, Krysztof.The Right to Work and Rights in Work." Eide, Krause og Rosas (Ritstj.). Economic, Social and Cultural Rights  Martinus Nijhoff Publishers, Dordrecht, 2001,  14. kafli , bls. 223.

Eide, Asbjørn. Economic and Social Rights." Symonides, Janusz (ritstj.). Human Rights: Concept and Standards. Aldershot, Ashgate, 2000, bls. 109-173.

Faruk Sen og Sedef Koray. „Migrant Workers' Rights" Symonides, Janusz (ritstj.) Human Rights: Concept and Standards. Aldershot, Ashgate, 2000,  10. kafli, bls. 327.

Harris, David og Darcy, John. The European Social Charter (2. útg.). Transnational Publisers, Ardsley, New York, 2001.

Källström og Eide. „Article 23." Eide, Asbjörn og Guðmundur Alfreðsson (ritstj.). The Universal Declaration of Human Rights. Martinus Nijhoff Publishers, Haag, 1999.

Niessen, Jan. „Migrant Workers." Eide, Krause og Rosas (ritstj.). Economic, Social and Cultural Rights. Martinus Nijhoff Publishers, Dordrecht, 2001, 21. kafli, bls. 389.

Samuel, Lenia. Fundamental social rights. Case law of the European Social Charter (2. útg.). Council of Europe Publishing, Strasbourg, 2002.

Smith, Rhona K.M. „The Right to Work." Textbook on International Human Rights. Oxford University Press, Oxford, 2003,  21. kafli.

Wallace, Rebecca M.M.„Migrant Workers." International Human Rights. Sweet & Maxwell, London, 2001, 8. kafli .

 

Íslenskar skýrslur:

Erlent launafólk á íslenskum vinnumarkaði, skýrsla ASÍ,

Starfsmannaleigur, greinargerð unnin fyrir félagsmálaráðuneytið, Elín Blöndal,  október 2005.

Skýrsla starfshóps um málefni útlendinga á íslenskum vinnumarkaði, apríl 2007.

Erlent starfsfólk á íslenskum vinnumarkaði, Vinnumálastofnun, 19. október 2007.

Samkomulag ASÍ og SA um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði, frá 7. mars 2004.

Innflytjendur og erlent launafólk - greining á umfjöllun fjölmiðla árið 2006, Fjölmiðlavaktin, 16. apríl 2007.

Tillögur ASÍ og SA vegna erlendra starfsmanna, gerviverktöku, opinberra innkaupa og lögbrota í atvinnustarfsemi, frá 20. júní 2006.

Kjarasamningur milli Starfsgreinasamband Íslands og Samtaka atvinnulífsins frá 17. febrúar 2008.

 

Aðrar skýrslur:

Skýrsla Bandaríska sendiráðsins um mansal á Íslandi, á vef Mannréttindaskrifstofu Íslands

sérvefur Félagsmálaráðuneytisins um mansal.

 

Gagnlegar vefslóðir

 

Félagsmálaráðuneyti www.felagsmalaraduneyti.is

Utanríkisráðuneyti  www.utanrikisraduneyti.is

Alþýðusamband Íslands (ASÍ) www.asi.is

Vinnumálastofnun  www.vinnumalastofnun.is

Hagstofa Íslands www.hagstofa.is

EES-samningurinn www.ees.is

ESB www.europa.eu

 

Tilvísanir:


[1] Samkvæmt töflu á www.coe.int. (Sjá einnig kafla I A)

[2] Sjá m.a. mál C-268/06
Impact
frá 15. apríl 2008, þar sem ágreiningur var um vernd launþega og
réttmæti tímabundinna vinnusamninga. Dómstóll ESB túlkaði tilskipun 1999/70 með hliðsjón af grundvallarreglum þeim sem vísað var til í 136. gr. Rs., þ.m.t. 4. gr. FSE um „rétt verkafólks til kaups, sem veiti því og fjölskyldum þess sómasamleg lífskjör" (112-113).

[3]Eftirfarandi texti er að mestu leyti unninn af Eirik Sørdal.

[4] Sjá almenna umfjöllun um fjórfrelsisákvæði EES-samningsins m.a. Barnard.

[5] Sjá lög nr. 45/2007 um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra. Lögin innleiða tilskipun  96/71 um útsenda starfsmenn.

[6] Sjá lög nr. 139/2005 um starfsmannaleigur, sem taka á þessu. Lögin gera það að skilyrði að starfsmannaleigur hafi staðfestu innan EES til að mega bjóða þjónustu sína á Íslandi (5. mgr. 2. gr. laganna). Starfsmannaleigur frá öðrum löndum verða að öðlast staðfestu til að bjóða þjónustu sína, og  falla þar með undir íslensk lög og lögsögu, nema samningar við önnur ríki heimili undanþágur frá þessu.

[7] www.mbl.is (23.01.2009).

[8] www.eyjan.is (29.01.2009).

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is