IV C-1 Réttur til félagslegrar aðstoðar

Til baka í efnisyfirlit IV hluta

 Réttindi  Sáttmálar  Íslensk lög

Réttur til félagslegrar aðstoðar, þ.m.t. lágmarkslífskjara

25. gr. MYSÞ

11. gr. SEFMR

13. gr. FSE

14. gr. FSE

26.- 27. gr Barnasáttmálans

Samþykkt ILO nr. 102

Evrópusamningur um félagslega aðstoð

 

76. gr. STS

 

Lög nr. 40/1991 um félagslega aðstoð

 

Íslenskur réttur

Dómar Hæstaréttar

Mál nr. 125/2000

 

 

 

Mælt er fyrir um rétt til félagslegrar aðstoðar í  25. gr. MYSÞ, og í SEFMR , FSE og Barnasáttmálanum. Í þessum ákvæðum er einnig sérstaklega mælt fyrir um réttinn til lágmarkslífskjara.

 

11. gr SEFMR

11. gr.
1. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt sérhvers manns til viðunandi lífsafkomu fyrir hann sjálfan og fjölskyldu hans, þar á meðal viðunandi fæðis, klæða og húsnæðis og sífellt batnandi lífsskilyrða. Aðildarríkin munu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að þessum rétti verði framfylgt og viðurkenna að í þessum tilgangi sé alþjóðasamvinna, byggð á frjálsu samþykki, mjög mikilvæg.

2. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna þann grundvallarrétt sérhvers manns að vera laus við hungur og skulu gera þær ráðstafanir, ein sér og með alþjóðasamvinnu, þar á meðal ráðstafanir samkvæmt sérstökum áætlunum, sem þarf til þess að:
   (a) bæta framleiðsluaðferðir, geymslu og dreifingu matvæla með því að notfæra sér tæknilega og vísindalega þekkingu til fulls, með því að miðla þekkingu á grundvallaratriðum um næringu og með því að þróa og endurbæta landbúnaðarkerfi til þess að ná hagkvæmastri þróun og nýtingu náttúruauðlinda;
   (b) tryggja sanngjarna dreifingu matvælaforða heimsins í hlutfalli við þarfir, og skal tekið tillit til vandamála landa sem flytja út matvæli og þeirra sem flytja inn matvæli.

 

11. gr. SEFMR mælir ekki berum orðum fyrir um réttinn til félagslegrar aðstoðar, en tryggir réttinn til viðunandi lífsafkomu, sem getur falið í sér a.m.k. lágmarksinntak réttarins til félagslegrar aðstoðar.[1] Eins og á við um önnur réttindi sem tryggð eru í SEFMR er sú skylda fyrst og fremst lögð á aðildarríki að stuðla að því með öllum tiltækum ráðum að réttindi þessi séu virt (sbr. 2. gr. ), en í greininni felst þó sú beina skylda að tryggja lágmarksinntak réttindanna þegar í stað.

Til baka í töflu

 

Önnur ákvæði mannréttindasamninga, s.s. vernd eignaréttar, rétturinn til vinnu og rétturinn til félagslegra trygginga stuðla einnig að því markmiði að tryggja viðunandi lífsafkomu fólks, en rétturinn til lágmarkslífskjara tryggir öllum lágmarksvernd, án tillits til efnahags eða stöðu. Eðli málsins samkvæmt er erfitt að skilgreina hvað felst í lágmarkslífskjörum, en skilgreining miðast við stöðu mála í hverju samfélagi og má miða við að lágmarkslífskjör vísi til efna sem eru ofan fátækramarka í samfélaginu.[2] Fela lágmarkslífskjör a.m.k. í sér lágmarksfæði og húsnæði og aðgang að  aðstoð þar sem nauðsyn ber til.[3]

 

Barnasáttmálinn

Ákvæði Barnasáttmálans fela í sér víðtækar skyldur ríkja til að sjá um að lágmarkslífskjör barna séu tryggð. Er þetta gert m.a. í 24. gr. Barnasáttmálans, þar sem sú skylda er lögð á ríki að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja læknisaðstoð, berjast gegn sjúkdómum og vannæringu og tryggja aðgang að upplýsingum og menntun og felur ákvæðið í sér víðtækar jákvæðar skyldur, sem ríkjum ber að stefna að með löggjöf og stefnumótun. Í 26. og 27. gr. Barnasáttmálans er sérstaklega mælt fyrir um rétt barna til félagslegrar aðstoðar, þ.m.t. almannatryggingar og lágmarks lífskjara.

 

26. gr. Barnasáttmála

26. gr. 1. Aðildarríki viðurkenna rétt hvers barns til að njóta félagslegrar aðstoðar, þar með talið almannatrygginga, og skulu þau gera nauðsynlegar ráðstafanir samkvæmt lögum sínum til að rétti þessum sé komið til fullra framkvæmda.
2. Bætur skulu þar sem við á veittar með hliðsjón af efnum og aðstæðum barns og þeirra sem bera ábyrgð á framfærslu þess, svo og öllu öðru sem snertir umsókn um bætur lagða fram af barninu eða öðrum fyrir þess hönd.

 

27. gr. Barnasáttmála

27. gr. 1. Aðildarríki viðurkenna rétt hvers barns til lífsafkomu sem nægir því til að ná líkamlegum, sálrænum, andlegum, siðferðilegum og félagslegum þroska.
2. Foreldrar eða foreldri, eða aðrir sem ábyrgir eru fyrir uppeldi barns, bera höfuðábyrgð á því í samræmi við getu sína og fjárhagsaðstæður að sjá barni fyrir þeim lífsskilyrðum sem eru því nauðsynleg til að komast til þroska.
3. Aðildarríki skulu í samræmi við aðstæður sínar og efni gera viðeigandi ráðstafanir til að veita foreldrum og öðrum sem ábyrgir eru fyrir uppeldi barns aðstoð til að neyta þessa réttar, og skulu þegar þörf krefur láta í té efnislega aðstoð og sjá fyrir stuðningsúrræðum, einkum að því er fæði, klæðnað og húsnæði snertir.
4. Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til að innheimta framfærslueyri með barni frá foreldrum eða öðrum sem bera fjárhagslega ábyrgð á barninu, bæði innanlands og frá útlöndum. Einkum skulu þau stuðla að aðild að alþjóðasamningum eða að gerð slíkra samninga svo og gera aðrar ráðstafanir sem við eiga þegar sá sem ber fjárhagslega ábyrgð á barninu býr í öðru ríki en barnið.

 

Þegar ákvæðin eru túlkuð með  hliðsjón af 2. gr. Barnasáttmálans, sem mælir fyrir um bann við mismunun er ljóst að börn njóta víðtækrar verndar að því er lýtur að lágmarksvelferð og félagslegri þjónustu. Hefur verið talið í þessu samhengi sem og varðandi önnur réttindi að réttur til að vera ekki beittur mismunun feli í sér efnisréttindi, sem krefjast má efnda á, og að ástæður bornar fram til að réttlæta mismunandi meðferð sem eru byggðar á efnhagslegum rökum séu ekki viðurkenndar.[4]

Til baka í töflu

 

ILO

Réttur til félagslegrar aðstoðar er einnig tryggður í ýmsum samþykktum alþjóðavinnumálastofnunarinnar ILO, þ. á m. samþykkt nr. 102 um lágmark félagslegs öryggis, sem Ísland á aðild að. Sú samþykkt fjallar þó fyrst og fremst um félagslegar tryggingar sjá umfjöllun í IV C-2.  Réttur til félagslegrar aðstoðar er einnig tryggður í ýmsum öðrum samþykktum SÞ og Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem varða farandlaunþega. Þar er að jafnaði einnig gerður greinarmunur á félagslegri aðstoð annars vegar og félagslegum tryggingum. Eins og komið hefur fram hefur Ísland ekki fullgilt mikilvæga samninga á þessu sviði og hafa þeir því ekki bein áhrif á túlkun íslenskra laga.

Til baka í töflu

 

FSE og Evrópuráðið

Ísland á  ekki aðild að Evrópureglum um félagslegt öryggi og bókun við þær, né að Evrópusamningi um réttarstöðu farandlaunþega, sem taka á þessum málum, en Ísland er bundið af  13. gr. FSE.

 

13.gr. FSE

13. gr. Réttur til félagslegrar aðstoðar og læknishjálpar.
Í því skyni að tryggja, að réttur til félagslegrar aðstoðar og læknishjálpar sé raunverulega nýttur, skuldbinda samningsaðilar sig til:
   1. að tryggja, að sérhverjum manni, sem hefir ónóg fjárráð og sem ekki getur aflað sér þeirra af eigin rammleik eða annars staðar frá, og þá sérstaklega með greiðslum samkvæmt tryggingakerfi, verði veitt næg aðstoð, og ef um veikindi er að ræða, sú umönnun, sem nauðsynleg er vegna ástands hans,
   2. að tryggja það, að fólk, sem slíkrar aðstoðar nýtur, bíði ekki fyrir þá ástæðu hnekki í sambandi við stjórnmálaleg eða félagsleg réttindi sín,
   3. að sjá til þess með viðeigandi opinberri þjónustu, að allir fái eftir þörfum notið ráðlegginga og persónulegrar aðstoðar til þess að koma í veg fyrir, bægja frá eða draga úr skorti, að því er þá sjálfa eða fjölskyldur þeirra varðar,
   4. að beita ákvæðum 1., 2. og 3. málsgreina þessarar greinar jafnt gagnvart eigin þegnum og þegnum annarra samningsaðila, sem löglega dvelja í löndum þeirra, í samræmi við skuldbindingar þeirra í Evrópusamþykktinni um félagslega aðstoð og læknishjálp, sem undirrituð var í París þ. 11. desember 1953.

 

Efnislega felur  ákvæði 13. gr. í sér skýrari skyldu en 11. gr. SBSR og er orðað sem „réttur" hvers þess sem hefur ónóg fjárráð. Ber orðlag ákvæðisins þess merki að eldri hugmyndir um ölmusu, sem oft hafa í för með sér fordóma, séu ekki lengur ráðandi.[5]

 

Minna verður á að, eins og fram kemur í 4. mgr. 13. gr. er réttur útlendinga bundinn við ríkisborgararétt í öðrum aðildarríkjum Evrópuráðsins, en ekki er krafist gagnkvæmni að því marki að heimaríki hafi fullgilt FSE (eða þessa grein FSE). Innan þess hóps tekur ákvæðið til allra sem eru löglega búsettir eða stunda reglulega vinnu í ríkinu og beitir nefndin þá 1. - 3 mgr. greinarinnar, þ.e. nefndin metur ekki eingöngu hvort brotið er gegn jafnræðisreglu í málum útlendinga, heldur telur að útlendingar, sem eru löglega búsettir  eða í fastri vinnu í ríkinu, eigi tilkall til þeirra réttinda sem talin eru í 1. - 3. mgr.[6] 4. mgr. greinarinnar, sem tryggir jafnan rétt, er ennþá beitt  um þá sem eru löglega innan yfirráðasvæðis þeirra, en ekki löglega búsettir eða í fastri vinnu (þ.e. t.d. ferðamenn eða nemendur).

Til baka í töflu

 

14. gr. FSE

14. gr. Réttur til að njóta góðs af félagslegri velferðarþjónustu.
Í því skyni að tryggja, að réttur til að njóta góðs af félagslegri velferðarþjónustu sé raunverulega nýttur, skuldbinda samningsaðilar sig til:
   1. að efla eða láta í té þjónustu, sem með því að beita félagslegum vinnubrögðum mundi stuðla að velferð og þroska bæði einstaklinga og hópa í samfélaginu og að aðlögun þeirra að hinu félagslega umhverfi,
   2. að hvetja til þátttöku einstaklinga og sjálfboðaliða eða annarra samtaka í því að koma á fót og viðhalda slíkri þjónustu.

 

14. gr. FSE tryggir rétt til félagsþjónustu, sem getur falið í sér hvers konar félagslega þjónustu sem ríkið (eða sveitarfélög) veita. Greinin á þó fremur við um almenna þjónustu, upplýsingar og fyrirgreiðslu en félagslega aðstoð (sbr. 13. gr.) og tekur til allra, án tillits til þess hvort viðkomandi getur séð fyrir sér og sínum.[7] 14. gr. hefur einnig verið talin skapa rétt (réttindi) sem hægt er að framfylgja fyrir dómi, fremur en að leggja óakveðnari framkvæmdaskyldu á stjórnvöld.[8]

 

Ísland hefur einnig fullgilt Evrópusamning um félagslega aðstoð (European Convention on Social and Medical Assistance) frá 1953. Samningurinn mælir fyrir um rétt ríkisborgara aðildarríkja samningsins, sem eru löglega staddir í landinu, að njóta félagslegrar aðstoðar og læknisaðstoðar, með sama hætti og eigin þegnar, án tillits til efnahags þeirra (1. gr.). Átján ríki Evrópuráðsins hafa fullgilt samninginn, sjá hér.

Til baka í töflu

 

Eftir því sem reglur ESB verða ítarlegri á þessu sviði - og með tilkomu ríkisborgararéttar sambandins, hafa reglur Evrópuráðsins minna vægi fyrir ríkisborgara ESB (sjá IV C-2). Reglurnar geta þó haft áhrif á túlkun réttar ESB.

 

Íslenskur réttur

Í 76.gr. STS er öllum tryggður réttur til „aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika." Við skýringu á þessu ákvæði hefur Hæstiréttur tekið mið af 12. gr. FSE (um almannatryggingar) og 13. gr. FSE (hér að ofan), sem og 11. og 12. gr. SEFMR, um félagslegt öryggi og lágmarkslífskjör (hæstaréttarmál nr. 125/2000).  Í málinu, sem fjallaði um rétt til örorkulífeyris, taldi Hæstiréttur að réttindi fælust í greininni, sem skýra þyrfti með hliðsjón af jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.[10] Að svo miklu leyti sem greinin mælir fyrir um rétt til aðstoðar verður að telja að í henni felist réttur til aðgerða(r) og/eða fjárstuðnings, eftir nánari túlkun, og að við túlkun greinarinnar verði jafnræðisregla STS höfð til hliðsjónar. Slík túlkun getur, eftir atvikum málsins, styrkt stöðu útlendinga, sérstaklega þeirra sem hafa búið lengi hér á landi.

 

Í lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er fjallað um rétt allra þeirra sem lögheimili eiga í sveitarfélagi til aðstoðar, sem nánar er tilgreind. Í 15. gr. laganna kemur fram að erlendir ríkisborgarar, sem ekki eiga lögheimili í sveitarfélaginu, eigi rétt á aðstoð í sérstökum tilvikum og er mælt fyrir um að ríkið endurgreiði sveitarfélagi fyrir aðstoð.

 

Réttur útlendinga til félagslegrar aðstoðar er því í aðalatriðum tryggður og ekki er heimilt að mismuna beint á grundvelli þjóðernis samkvæmt ofangreindum lögum og samkvæmt 76. gr. og 65. gr. stjórnarskrárinnar. Hins vegar kemur fram í 11. gr. laga nr.  96/2002 um útlendinga, um grunnskilyrði dvalarleyfis, að það fullnægi ekki kröfum greinarinnar um framfærslu ef útlendingur nýtur félagslegrar aðstoðar eða greiðslna frá almannatryggingum. Getur félagsleg aðstoð því leitt til þess að dvalarleyfi útlendings verði ekki endurnýjað. Gæti slíkt brotið gegn jafnræðissjónarmiðum, en það færi nánar eftir atvikum hvers máls hvort svo yrði talið vera.

Til baka í töflu

 

Tilvísanir


[1] Tooze, bls. 333.

[2] Eide, bls. 130.

[3] E. „adequate care". Sjá frekari umfjöllun , Eide, bls. 135. 

[4] Sjá Vandenhole, bls. 28. Sjá einnig frekari umfjöllun í III D.

[5] Harris og Darcy, bls. 165.

[6] Harris og Darcy, bls. 174-75.

[7] Harris og Darcy, bls. 177.

[8] Harris og Darcy, bls. 179.

[9] Sjá m.a. dóm dómstóls ESB í máli C-85/96 Martínez Sala (frá 1996) þar sem reyndi á áðurgreindan Evrópusamning, auk reglna um ríkisborgararétt í ESB.

[10] Sjá umfjöllun um dóminn Guðmundsdóttir (Guðrúnarbók).

Til baka í töflu

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is