IV C-2 Réttur til félagslegra trygginga

Til baka í efnisyfirlit IV hluta

 Réttindi  Sáttmálar  Íslensk lög

Réttur til félagslegra trygginga (almennt)

25. gr. MYSÞ

9. gr. SEFMR

Samþykkt ILO nr. 102

68. gr. samþykktar ILO nr. 102

12. gr. FSE

26. -27. gr. Barnasáttmálans

 

Bráðabirgðasamningar Evrópuríkja um félagslegar tryggingar
(Þessir samningar eru fullgiltir af Íslands hálfu en ekki er fjallað um þá
hér)

Lög um almannatryggingar nr. 100/2007

 

 

Íslenskur réttur

 

 

 

Sjúkratryggingar

(aðgangur að íslensku
heilbrigðiskerfi)

 

-

Lög um sjúkratryggingar nr. 112/2008, 10.gr. (Takmarkast við þá sem hafa verið
búsettir á landinu síðustu 6 mánuði, nema annað leiði af samningum og heimilt
er að kveða á um undanþágur í reglugerð. Börn
eru sjúkratryggð með foreldrum.

Réttur til
atvinnuleysisbóta

 

-

Lög
nr 54/2006 um atvinnuleysistryggingar
: 3. gr (launamen), 9. gr.
(sjálfstætt starfandi), 13. gr. (13. gr. d og 18. gr. d setja sem skilyrði að
umsækjandi hafi heimild til að ráða sig til vinnu án takmarkana).

Réttur til
örorkulífeyris og örorkustyrks

-

18. gr. og 19. gr. laga um
almannatryggingar nr. 100/2007
(Takmarkast við þá sem átt hafa lögheimili
a.m.k. þrjú ár fyrir umsókn eða 6 mánuði ef starfsorka er óskert þegar búseta
er tekin upp).

 

Réttur til
slysatrygginga

Slysahjálp

Dagpeningar

Örokrubætur

Dánarbætur

-

29. gr. laga um
almannatryggingar nr. 100/2007
(tekur til allra launþega á íslenskum
vinnumarkaði nema þröngt afmarkaðra hópa, s.s. erlenda embættismenn og
starfsliðs þeirra, og samkvæmt undanþágu ef viðkomandi er tryggður erlendis)

 

Réttur til ellilífeyris
og eftirlauna

-

17. gr. laga um almannatryggingar
nr. 100/2007
(Takmarkast við þá sem átt hafa lögheimili a.m.k. þrjú ár
frá 16-67 ára aldurs; annars greiðist lífeyrir í hlutfalli við búsetutíma)

 

Lög um eftirlaun til
aldraðra nr. 113/1994
.

 

Réttur til fæðingar- og
foreldraorlofs og fæðingarstyrks

-

2. mgr. 10. gr. SEFMR

8. gr. FSE

 

Lög um fæðingar- og
foreldraorlof nr. 95/2000
.  (Leyfi frá launuðum störfum; 13. gr. um greiðslu úr fæðingarorlofssjóði eftir samfellt 6 mánuði á innlendum vinnumarkaði. 18. gr. um fæðingarskyrk, bundinn við lögheimili við fæðingu og í 12 mánuði fyrir fæðingu)

 

 

 

Áherslan á rétt til félagslegra trygginga er áberandi í mörgum alþjóðlegum samningum, þ.á m. SEFMR og sáttmálum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO). Á þessu sviði geta útlendingar staðið höllum fæti vegna þess að ríki geta rökstutt takmarkanir á réttindum þeirra með vísan til fjárhagslegrar og sögulegrar samkenndar og samstöðu eigin þegna (e. solidarity). Á þessu sviði, sem öðrum, veita þjóðréttarreglur ríkjum svigrúm til mats og geta þjóðréttarskuldbindingar aðeins rétt stöðu útlendinga að vissu marki. Hefur áherslan oft miðað að því að tryggja að áunnin réttindi geti færst á milli landa sem og að tryggja útlendingum aðgang að réttindum, a.m.k. þegar fjárframlag hefur verið greitt. Á þessu sviði á ennfremur við að samningar sem byggja á gagnkvæmni veita hópum útlendinga vernd, án þess að sú vernd nái til allra útlendinga.

 

Sama er að segja um reglur ESB (og EES) en reglur um samræmingu á félagslegum tryggingum og millifærslu þeirra milli landa, til að tryggja að áunnin réttindi  tapist ekki, eru viðamiklar á sviði félagslegrar löggjafar innan ESB. Ákveðnir hópar ríkisborgara aðildarríkjanna njóta tiltekinna réttinda - þ.e. launþegar eða aðrir þeir sem geta byggt persónulegan rétt á fjórfrelsisákvæðunum (sem og aðstandendur þeirra) og hafa reglurnar verið rýmkaðar til að taka einnig til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem fara á milli landa og til ríkisborgara þriðju ríkja sem uppfylla ákveðin skilyrði. Ákvæði Reglugerðar 1408/71, með síðari breytingum, mæla fyrir um uppsöfnun réttinda og útfærslu réttinda. Önnur afleidd löggjöf á sviði félagsmálaréttar, s.s. tilskipun 79/7 (um jafnrétti kvenna og karla varðandi félagslegar tryggingar) getur einnig skipt máli. Þessar reglur eru einnig hluti EES-samningsins, en ekki verður fjallað um þær hér ( sjá varðandi Reglugerð 1408/71 viðauka VI við EES samninginn). Reglugerð 883/2004, með síðari breytingum, hefur nú leyst Reglugerð 1408/71 af hólmi. Með reglum um ríkisborgararétt innan ESB hefur tilkall til félagslegra trygginga og félagslegrar aðstoðar aukist, að því er varðar ríkisborgara aðildarríkjanna, og byggist það á reglum 21.gr. StESB áður, 18. gr. Rs. (um frjálsa för án hindrana) og einkum á 18.gr. St ESB, áður 12. gr. Rs. um jafnræði. Þessar reglur eiga ekki við um EES-samninginn, en þó getur komið til að byggja megi rétt á tilskipun 2004/38, sem tekin hefur verið upp í EES-samninginn, eftir að hún hefur verið innleidd í íslenskan rétt. Verður þá jafnframt að hafa hliðsjón af III. kafla Mannréttindaskrárinnar um jafnrétti.

Til baka í töflu

 

MYSÞ

Í 25. gr. MYSÞ er mælt fyrir um rétt allra til félagslegs öryggis og eru þar sérstaklega tilteknar kröfur um öryggi vegna „atvinnuleysis, veikinda, fötlunar, fyrirvinnumissis, elli eða annars sem skorti veldur og menn geta ekki við gert".

Til baka í töflu

 

SEFMR

SEFMR leggur eftirfarandi skyldu á aðildarríki í 9. gr.

 

Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt sérhvers manns til félagslegs öryggis, þar á meðal til almannatrygginga.

 

Orðalag ákvæðisins er skýrt og felur í sér efnisleg réttindi. Í skýringum á greininni hefur nefnd um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi (nefndin) haft til viðmiðunar sáttmála ILO, einkum sáttmála nr. 102, sem tilekur 9 flokka trygginga: læknisaðstoð (Hluti II), sjúkratryggingar (Hluti III), atvinnuleysistryggingar (Hluti IV), ellilífeyrir (Hluti V), slysatryggingar (Hluti VI), fjöskyldutryggingar (Hluti VII), fæðingastyrk (Hluti VIII), örorkubætur (Hluti IX) og lífeyrisgreiðslur vegna missis framfæranda (Hluti X).[1]  Þetta er staðfest í ítarlegum skýringarreglum nefndarinnar í almennri athugasemd nr. 19 þar sem einnig kemur fram að félagslegar tryggingar gegna mikilvægu hlutverki að því er lýtur að baráttu gegn fátækt og félagslegri útilokun. Ríkjum ber því skylda til að sjá til þess að félagslegt tryggingakerfi sé til staðar og bera stjórnvöld ábyrgð á kerfinu (hvort sem það er rekið af opinberum aðilum eða að einhverju leyti einkavætt). Þá bera stjórnvöld ábyrgð á því að kerfið tryggi nægilega fyrirgreiðslu þannig að lágmarksréttindum þeim sem SEFMR tryggir sé fullnægt. Í athugasemdunum er einnig tekið fram að félagslega tryggingakerfið veiti útlendingum einnig rétt.[2] Er sérstaklega tekið fram að þar sem útlendingar hafa greitt iðgjöld til kerfisins eigi þeir rétt á greiðslu úr kerfinu; þá eiga útlendingar rétt á greiðslum og fyrirgreiðslu vegna fjárhagserfiðleika, í heilbrigðiskerfi og til verndar fjölskyldunni, þótt um tryggingar sé að ræða sem ekki stofnað til með greiðslu iðgjalda; ber ríkjum að beita takmörkunum hóflega og af sanngirni.[3] Er lögð sú skylda á aðildarríkin að útrýma mismunun í raun (og tryggja aðgang að kerfinu), einkum fyrir hópa sem standa höllum fæti, sem og að sjá til þess að aðgangur að kerfinu sé tryggður hópum fólks sem standa höllum fæti.[4] Loks eru gefnar skýrar leiðbeiningar um þá þætti sem fela í sér efnisréttindi (þ.e.a.s. hvaða skylda hvílir á ríkjum sem hægt er a fullnægja, þrátt fyrir þá kröfu að unnið sé að því að koma réttindunum í framkvæmd eftir því sem kostur er). Er bann við mismunun meðal þeirra þátta sem teljast til efnisréttinda.

Til baka í töflu

 

ILO

Sáttmálar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, ILO, taka einnig á réttindum á þessu sviði, þ.á m. viðamesti sáttmáli á þessu sviði, sáttmáli nr. 102 um lágmark félagslegs öryggis. Eru ítarlegar reglur settar um þá flokka félagslegra réttinda sem ríkjum ber að tryggja, en eins og fram er komið vísa aðrir samningar oft til þessa sáttmála ILO. Í 68. gr. er mælt fyrir um jafnan rétt til trygginga, með þeim fyrirvara að takmarka má réttindin að því er varðar bætur úr almennum sjóðum (þ.e. sem iðgjöld koma ekki á móti) og að ríki geta gert það að skilyrði að einstaklingar falli undir gildissvið tvíhliða samninga. Ísland er aðili að þessum samningi ILO.[5]

 

68. gr. ILO nr. 102

1. Erlendir menn, búsettir í landinu, skulu hafa sama rétt og þegnar ríkisins, þar búsettir, að því tilskyldu[svo] að sérstakar reglur má setja um erlenda þegna og þegna ríkisins, sem fæddir eru utan yfirráðasvæðis aðildarríkisins, að því er tekur til bóta eða hluta af bótum greiddum að öllu eða mestu úr almennum sjóðum, og að því er varðar breytingarráðstafanir.

2. Þar sem um er að ræða félagslegar tryggingar með iðgjaldaskyldu, sem taka til starfsfólks, skulu hinir tryggðu, sem eru þegnar annars aðildarríkis, er tekið hefur á sig skyldur, er greinir í viðeigandi kafla samþykktarinnar, njóta samkvæmt þeim kafla, sömu réttinda og þegnar hlutaðeigandi ríkis, að því tilskyldu[svo] að framkvæmd þessa töluliðs megi binda því skilyrði, að fyrir hendi sé gagnkvæmissamningur milli tveggja eða fleiri aðila.

Til baka í töflu

 

Hér er því mælt fyrir um aðgang útlendinga að almanntryggingakerfum, en heimilað að takmarka réttindi útlendinga sem fæddir eru utan yfirráðasvæðis ríkis og að takmarka rétt til trygginga sem byggja á iðgjöldum við það að gagnkvæmir samningar mæli fyrir um það. Greinina verður að skýra í samræmi við ákvæði 9. gr. SEFMR.

 

CERD, 5.gr. e og CEDAW, mæla fyrir um rétt til félagslegra trygginga án mismununar á grundvelli kynþáttar annars vegar og kynferðis hins vegar og mælir CEDAW jafnframt fyrir um sérstök réttindi fyrir konur vegna barneigna, sbr. einnig 10. gr. SEFMR, þar sem mælt er fyrir um svipaða vernd. Þá mælir 26. gr. Barnasáttmálans fyrir um félagslegar tryggingar, sbr. hér að ofan.

 

Loks ber að nefna eftirfarandi reglur, þótt Ísland eigi ekki aðild að þeim og þær séu því ekki bindandi að þjóðarétti með sama hætti og áðurgreind ákvæði.

 

Sáttmáli Alþjóðavinnumálastofnunarinnar ILO nr. 97 setur fram meginregluna um jafnræði meðal farandlaunþega og eigin þegna, í 6. gr. (I)(b) og tekur jafnrétti til trygginga (en  takmarka má aðgang útlendinga að félagslegri aðstoð og almennt aðstoð sem framlag kemur ekki á móti). Sáttmáli nr. 143 hefur einnig að geyma reglur um jafnan rétt farandlaunþega og eigin þegna og er ekki greint á milli trygginga og aðstoðar (þ.e. framlaga eða ekki).[6] ILO sáttmálar mæla ekki fyrir um viðamiklar skyldur varðandi heilbrigðisþjónustu fyrir farandlaunþega, enda er enn um viðkvæmt mál að ræða, sem getur kallað á veruleg útgjöld gistiríkis, en sáttmálar ILO mæla fyrir um öryggi og heilbrigðiseftirlit í sambandi við vinnu, sem getur leitt til fyrirbyggjandi aðgerða.[7]

 

Samningur SÞ um réttarstöðu farandlaunþega setur að mörgu leyti fram svipaðar reglur og ILO sáttmálarnir, en tryggir betri vernd.[8] Í 27. gr. samningsins er mælt fyrir um  jafnrétti farandlaunþega og eigin þegna í samræmi við löggjöf landsins (þ.e.a.s. með fyrirvara um þau skilyrði sem landslög setja og með fyrirvara um tvíhliða og marghliða samninga).[9] Þetta ákvæði tekur, eins og önnur ákvæði í þessum hluta samningsins, einnig til þeirra sem ekki eru löglega búsettir í landinu. Samningur SÞ um réttindi farandlaunþega fjallar í 28. gr. um rétt til heilbrigðisþjónustu í neyðartilvikum, og tekur sá réttur til allra farandlaunþega, löglegra sem ólöglegra, og aðstandenda þeirra. Orðalag greinarinnar er hins vegar þröngt og miðast við neyðaraðstoð en veitir ekki jafnan rétt til almennrar heilbrigðisþjónustu. 45. gr. veitir þeim sem eru löglega búsettir frekari réttindi, m.a. aðgang fjölskyldu að heilbrigðiskerfi og félagslegu kerfi, svo framarlega sem launþegar og fjölskyldur taka þátt í kerfinu (þ.e. borga iðgjöld ef þeirra er krafist eða skatta ).

Til baka í töflu

 

FSE

12. gr. FSE vísar einnig til sáttmála Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 102 um það lágmark sem FSE tryggir.

 

12. gr. Réttur til félagslegs öryggis.
Í því skyni að tryggja, að réttur til félagslegs öryggis sé raunverulega nýttur, skuldbinda samningsaðilar sig til:
   1. að koma á eða viðhalda almannatryggingum,
   2. að gera almannatryggingum það hátt undir höfði, að það jafnist a.m.k. á við það, sem krafist er til fullgildingar á alþjóðavinnumálasamþykkt (nr. 102) um lágmark félagslegs öryggis,
   3. að reyna smátt og smátt að hefja almannatryggingarnar á hærra stig,
   4. að gera ráðstafanir með gerð viðeigandi tvíhliða og fjölhliða samninga, eða á annan hátt, og samkvæmt þeim skilyrðum, sem sett er í slíkum samningum, til að tryggja:
   a) jafnrétti þegna annarra samningsaðila við eigin þegna, þegar um er að ræða rétt til að halda tryggingabótum án tillits til flutnings hins tryggða fólks milli landa samningsaðila,
   b) veitingu, viðhald og endurheimt tryggingaréttinda, með því t.d. að leggja saman trygginga- eða starfstímabil, sem lokið er samkvæmt löggjöf sérhvers samningsaðila.

 

Við túlkun greinarinnar verður að taka mið af forsögu hennar en hún er byggð á fyrri reglum sem settar voru innan Evrópuráðsins og hefur verið mótuð með skírskotun til reglna ILO. Hugtakið „félagslegar tryggingar" er ekki skilgreint í FSE en er nægilega víðtækt til að geta tekið til hvers konar tryggingakerfa, sem ríkin hafa sett upp, hvort sem þau eru byggð upp sem iðgjaldakerfi eða ekki. Hins vegar er viðurkennt að gera verði greinarmun á félagslegum tryggingum annars vegar og félgslegri aðstoð hins vegar.[10] Þó að ákvæðið sé almennt felur það í sér kröfu um lágmarksumfang tryggingakerfisins og kallar á athugun nefndarinnar ef hópar fólks (t.d þeir sem stunda hlutavinnu) eru ekki tryggðir.[11]

Til baka í töflu

 

Íslenskur réttur

 

Um réttarstöðu á þessu sviði verður að vísa  í töflu hér að ofan. Í fljótu bragði má sjá að réttindi til almannatrygginga eru ekki takmörkuð með beinum hætti við þjóðerni og má ætla að í meginatriðum samræmist íslensk félagsmálalöggjöf þeim þjóðréttarlegu skuldbindingum sem binda ríkið. Nokkuð er um að réttur til tiltekinna bóta sé miðaður við búsetu í landinu um ákveðið árabil og getur það orkað tvímælis, einkum ef gerður er áskilnaður um langvarandi búsetu. Sem dæmi má nefna að séu skilyrði 13. og 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skýrðar svo að það sé skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta að viðkomandi hafi ótímabundið atvinnuleyfi gæti slíkt gengið nærri kjarna þeirra réttinda sem vernduð eru í þeim samningum sem fjallað er um hér að framan. Þá má nefna að skilyrði laga um að börn séu slysatryggð með fjölskyldum sínum og að 6 mánaða biðtími er lögleiddur fyrir útlendinga, að því er varðar aðgang að heilbrigðiskerfi (sjúkratryggingar) getur vegið að þeim réttindum sem börnum eru tryggð í Barnasáttmálanum (en réttindi barna njóta víðtækrar verndar bæði samkvæmt Barnasáttmálanum og öðrum þjóðréttarlegum skuldbindingum). Við úrlausn einstakra álitaefna verður að taka mið af aðstæðum í hverju máli, ákvæðum sem veita tilteknum hópum fólks aukna vernd og almennum jafnræðissjónarmiðum (sjá einnig umfjölun í  III D).

Til baka í töflu

 

Tilvísanir


[1] Sjá Eide, bls. 146.

[2] Forsenda 31.

[3] Forsendur 36-37.

[4] Forsenda 39.

[5] Aðrir sáttmálar, ILO nr. 118 (concerning Equality of Treatment of Nationals and Non-Nationals in Social Security) og ILO nr. 157(concerning the estalbishment of an International System for the Maintenance of Social Security Rights)  (acquired rights) - eiga við um alla þætti félagslegra trygginga en byggjast á gagnkvæmni, þ.e. taka bara til ríkisborgara þeirra ríkja sem eru aðilar að samningunum. Ísland á ekki aðild að þessum samningum.

[6] Colewinski, bls. 113.

[7] Cholewinnski, bls. 120-121.

[8] Sjá umfjöllun um samninginn í II  B.

[9] Cholewinski, bls. 165.

[10] Harris og Darcy, bls. 155

[11] Harris og Darcy, bls. 156.

Til baka í töflu

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is