IV C Önnur efnahagsleg og félagsleg réttindi: Réttur til aðstoðar, trygginga, heilbrigði og húsnæðis

Til baka i efnisyfirlit IV hluta

[1]Kafli IV A fjallaði um atvinnuréttindi og efnahagsleg og félagsleg réttindi sem tengjast stöðu á vinnumarkaði. Í þessum kafla verður gefið stutt yfirlit yfir  önnur efnahagsleg og félagsleg réttindi og áhrif þjóðréttarsamninga á þessi réttindi og stöðu útlendinga sérstaklega.

 

Erfitt er að greina nákvæmlega á milli þessarra réttinda, eins og samningar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) bera með sér, en stofnunin fjallar strangt til tekið ekki um önnur svið en þau sem tengjast vinnurétti. Í raun setur ILO þó reglur sem teygja sig yfir á tengd svið og varða önnur atriði í félagslegu umhverfi einstaklinga. Hér verður farið yfir réttindi sem ekki tengjast vinnusambandi sérstaklega. Fjallað verður almennt um rétt til félagslegra trygginga (e. social security) og rétt til félagslegrar aðstoðar (e. social assistance). Grundvallarmunur er á þessum flokkum réttinda þar sem réttur til félagslegra trygginga fjallar um tryggingargreiðslur, sem oft byggjast á endurgjaldi einstaklinga, annað hvort með skattgreiðslum eða með iðgjaldi. Félagsleg aðstoð tekur til aðstoðar sem ekki er skilyrt greiðslu iðgjalda.

 

Það skal tekið fram að ekki er hægt að gefa tæmandi yfirlit um þennan flokk réttinda, vegna þess hversu víðfemt sviðið er[2], en leitast er við að gefa yfirlit yfir bindandi þjóðréttarskuldbindingar og draga álykanir um það hvaða áhrif þær hafa á réttarstöðu útlendinga sérstaklega. Umfjöllunin tekur til eftirfarandi flokka réttinda: (1) Réttur til félagslegrar aðstoðar, þ.m.t. rétturinn til lágmarkslífskjara (IV C-1); (2) Réttur til heilbrigðisþjónustu og félagslegra trygginga (IV C-2) og (2) Réttur til húsnæðis (IV C-3).

 

Í töflum í köflum IV C-1 til IV C-3 er vísað í ákvæði þeirra samninga sem Ísland er aðili að, sem og íslensk lög á hverju sviði. Töflurnar eru  settar upp með öðrum hætti en í fyrri köflum, þó þannig að uppsetning er eins að þvi er varðar rétt til félagslegrar aðstoðar (almennt), rétt til félagslegra trygginga (almennt) og rétt til húsnæðis (almennt). Varðandi íslenska löggjöf verður að mestu að láta við það sitja að vísa til íslenskra laga með tenglum í töflunni en ekki er sjálfstæð umfjöllun um íslenskan rétt á öllum þessum sviðum.

 

Niðurstöður

Efnahagsleg og félagleg réttindi urðu sífellt mikilvægari bæði í landsrétti og þjóðréttarsamningum á 20. öld og í vaxandi mæli er viðurkennt að órjúfanleg tengsl séu milli þessarra réttinda annars vegar og borgaralegra og stjórnmálalegra réttinda hins vegar. Lágmarkslífsgæði eru þá talin forsenda þess að hægt sé að njóta persónulegra og stjórnmálalegra réttinda.

 

Á þessu sviði hefur rótgróin flokkun réttinda þó enn áhrif og er algengt að efnahagsleg og félagsleg réttindi séu orðuð með óákveðnari hætti en borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sem stefnuyfirlýsingar og markmið. Í kaflanum er farið yfir helstu þjóðréttarsamninga sem skuldbinda Ísland og er þar tekið fram í hvaða tilvikum talið er að ákvæðin feli í sér efnisréttindi.

 

Grundvallarsáttmálar SÞ og Evrópuráðsins binda Ísland á þessu sviði en áberandi er að samningar sem veita frekari réttindi, einkum samningar sem miða að því að tryggja réttarstöðu farandlaunþega hafa ekki verið fullgiltir af Íslandi.

 

Heimildir og frekara lesefni 

Eide, Asbjørn. „Economic and Social Rights." Eide, Krause og Rosas (ritstj.). Economic Social and cultural Rights. Martinus Nijhoff Publishers, Dordrecht, 2001.

Guðmundsdóttir, Dóra. „Stjórnarskrárbundnar meginreglur og stjórnarskrárvarin réttindi."  Guðrúnarbók. Afmælisrit til heiðurs Guðrúnu Erlendsdóttur. Reykjavík, Hið íslenska bókmenntafélag, 2006, bls. 133-158.

Harris, David og Darcy, John. The European Social Charter (2. útg.). Transnational Publisers, Ardsley, New York, 2001.

Sigurðsson, Guðmundur og Helgadóttir, Ragnhildur. Almannatryggingar og félagsleg aðstoð. JVP útgáfa, Reykjavík, 2007.

Tooze, Jennifer. „The Rights to Social Security and Social Assistance."   Baderin o.fl. (ritstj.). Economic, Social and Cultural Rights in action. Oxford University Press, 2007.

Vandenhole, Wouter. Non-Discrimination and Equality in the View of the UN Human Rights Treaty Bodies. Intersentia, Antwerpen, Oxford, 2005.

 

Almenn athugasemd nr. 19. SEFMR-nefnd (General Comment nr. 19) GEN/G08/407/97.

 

Tilvísanir


[1] Eirik Sørdal safnaði upplýsingum í töflu. Dóra Guðmundsdóttir vann meðfylgjandi texta.

[2] Benda má á rit Guðmundar Sigurðssonar og Ragnhildar Helgadóttur, Almannatryggingar og félagsleg aðstoð, JPV útgáfa, Reykjavík, 2007.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is