IV A-4 Verkalýðsmál

Til baka í efnisyfirlit IV hluta

 Réttindi  Sáttmálar  Íslensk lög  Dómar, úrskurðir, álit UA

Verkalýðsmál

 

 

8. gr. SEFMR

Samþykkt ILO nr. 87 um fé­laga­frelsi og vernd­un þess

Sam­þykkt ILO nr. 98 um beit­ingu
grund­vall­ar­reglna um rétt­inn til að stofna fé­lög og semja sam­eig­in­lega

Samþykkt ILO nr. 11 um félagafrelsi
landbúnaðarverkafólks

11. gr. MSE

5. gr. FSE

6. gr. FSE

b-liður, 4. tl. 19. * gr. FSE

*ATH. Ísland ekki bundið af 19. gr.

5. gr. CERD

 

74.
gr. STS ákvæði
um félaga- og fundafrelsi. 

75.
gr. STS um
réttinn til að semja um kaup og kjör

Lög um
mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994

Lög um stéttarfélög og
vinnudeilur nr. 80/1938

 

Réttur ESB og EES

Íslenskur réttur

Dómar Hæstaréttar

Mál nr. 167/2002

MDE

Sigurður
Sigurjónsson gegn Íslandi

Young, James and Webster
gegn Stóra-Bretlandi

Dómstóll ESB

C-438/05 Viking Line

C-341/05 Laval


74. gr. STS  verndar félaga- og fundafrelsi á Íslandi og í greininni er sérstaklega vikið að starfsemi stéttarfélaga, samtökum launþega. Þessi réttindi hafa jafnan verið talin til hinna borgaralegu- og stjórnmálalegu mannréttinda og er minnst á þau í þeim alþjóðlegu sáttmálum sem þann flokk varða, en skilin eru óglögg milli flokka réttinda á þessu sviði. Af þeim samningum sem hér hefur verið fjallað um og Ísland hefur undirgengist má nefna nokkur ákvæði sem hnykkja á skyldu stjórnvalda og er áherslan breytileg eftir því um hvaða samning er að ræða, enda þótt viðurkennt sé að ákvæði SEFMR og samþykkta ILO séu að mörgu leyti lík og hvorum öðrum til fyllingar. Sama má segja um ákvæði FSE. Ákvæði 2. mgr.75. gr. STS mælir fyrir um það að í lögum skuli kveðið á um rétt manna til að semja um starfskjör sín.

Til baka í töflu

 

SEFMR

8. gr. SEFMR mælir fyrir um skyldu ríkja til að ábyrgjast rétt allra til að stofna stéttarfélög og gerast félagar í stéttarfélagi að eigin vali.

 

8. gr. SEFMR

 8. gr. 1. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum takast á hendur að ábyrgjast:
   (a) rétt allra til þess að stofna stéttarfélög og að gerast félagar í því stéttarfélagi sem þeir velja sér, einungis að áskildum reglum hlutaðeigandi félags, í því skyni að efla og vernda efnahags- og félagslega hagsmuni sína. Eigi má binda rétt þennan neinum takmörkunum öðrum en þeim sem mælt er í lögum og nauðsynlegar eru í lýðfrjálsu þjóðfélagi í þágu þjóðaröryggis eða allsherjarreglu eða til þess að vernda réttindi og frelsi annarra;
   (b) rétt stéttarfélaga til þess að mynda landssambönd eða stéttarfélagasambönd og rétt hinna síðarnefndu til þess að stofna eða ganga í alþjóðleg stéttasamtök;
   (c) rétt stéttarfélaga til þess að starfa óhindrað, að engum takmörkunum áskildum öðrum en þeim sem mælt er í lögum og nauðsynlegar eru í lýðfrjálsu þjóðfélagi í þágu þjóðaröryggis eða allsherjarreglu eða til þess að vernda réttindi og frelsi annarra;
   (d) verkfallsrétt, að því áskildu að honum sé beitt í samræmi við lög viðkomandi lands.
2. Ákvæði þessarar greinar skulu ekki vera því til fyrirstöðu að lögmætar takmarkanir séu
settar við því að herliðar eða lögreglumenn eða stjórnvaldshafar ríkisins beiti þessum rétti.
3. Ekkert í grein þessari skal heimila ríkjum, sem aðilar eru að samþykkt á vegum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar frá 1948 um félagafrelsi og verndun þess, að gera ráðstafanir með lögum sem myndu skaða eða beita lögum á þann hátt að það myndi skaða það sem tryggt er í þeirri samþykkt.

 

Greinin skapar því skýra skyldu sem ætlað er að vera virk samkvæmt orðum sínum (þ.e. þess er ekki eingöngu krafist að ríki skuli stuðla að eða vinna að áformum um rétt til að stofna stéttarfélög; þessi réttur skal vera virtur). Þó felast fyrst og fremst jákvæðar skyldur í ákvæðinu.  Auk þess sem ríkjum ber að tryggja réttindin, ber þeim að stuðla að framgangi þeirra og banna starfsemi sem fer gegn ákvæðum greinarinnar.

 

8. gr. SEFMR  heimilar ákveðnar takmarkanir á félagafelsi í þessu tilliti: sérstakar takmarkanir eru settar varðandi her, lögreglu og „stjórnvaldshafa" (þ.e. opinbera starfsmenn). Hefur síðastgreind takmörkun verið umdeild og er talin vera í andstöðu við 9. gr. samþykktar ILO nr. 87  um félagafrelsi og verndun þess, sem heimilar takmarkanir á réttindum hermanna og lögreglumanna en ekki opinberra starfsmanna.[1]  Þar sem 9. mgr. 8. gr. SEFMR vísar til ILO um lágmark réttinda verður þó að telja að ríkjum sem eru bundin af þeirri samþykkt sé ekki kleift að takmarka réttindi opinberra starfsmanna og jafnvel að skýring samninganna til samræmis leiði til þess að ríkjum sé það almennt óhemilt, hvort sem þau eru aðilar að samþykkt ILO eða ekki.[2]

 

Ákvæðin eiga það öll sammerkt að leita jafnvægis milli frelsisréttinda einstaklinga (þ.e. réttinum til að stofna og ganga í félög að eigin vali) og hagsmuna stéttarfélaga sem aftur miða að því að gæta hagsmuna einstaklinga sem hópa launþega. Árekstrar geta einkum orðið milli þessarra hagsmuna þegar stéttarfélög krefjast skylduaðilar (eða greiðslu félagsgjalda), eða ná samningum við vinnuveitendur sem takmarka aðgang að störfum við félagsmenn þeirra eða veita þeim forgang (e. closed-shop). Þrátt fyrir orðalag 8. gr. SEFMR og tilgang er ekki öruggt að greinin heimili slíkt fyrirkomulag. Hefur nefndin fallist á það sjónarmið að slíkar ráðstafanir gangi gegn frelsi einstaklinga til að ganga í félög að eigin vali.[3]

 

Varðandi frekari umfjöllun um félagsaðild og réttinn til að semja sameiginlega sjá umfjöllun undir FSE hér að neðan.

Til baka í töflu

 

ILO

Tvær samþykktir ILO  sem Ísland á aðild að fjalla einnig um efnið, samþykkt nr. 87 um fé­lagafrelsi og verndun þess og samþykkt nr. 98 um beitingu grundvallarreglna um réttinn til að stofna félög og semja sameiginlega. [4] Ísland hefur fullgilt báðar þessar samþykktir en auk þess hefur 11. gr. MSE áhrif á réttarstöðu einstaklinga og félaga, en greinin verndar bæði jákvætt og neikvætt félagafrelsi.

Til baka í töflu

 

FSE

Ákvæði 5. gr. FSE er svohljóðandi:

 

5.gr FSE

Í því skyni að tryggja og stuðla að frelsi verkafólks og vinnuveitenda til að stofna staðbundin félög, landsfélög eða fjölþjóðleg sambönd til að gæta hagsmuna þeirra á sviði efnahags- og félagsmála og til að ganga í slík félög, skuldbinda samningsaðilar sig til að sjá um, að landslög skerði ekki það frelsi né að þeim verði beitt til að skerða það. Í landslögum eða reglugerðum skal ákveða að hve miklu leyti trygging sú, sem þessi grein veitir, skuli taka til lögreglunnar. Það skal einnig ákvarðast í landslögum eða reglugerðum að hve miklu leyti tryggingin, sem grein þessi gerir ráð fyrir, skuli ná til manna í herþjónustu.

 

Ákvæði 5. gr. FSE er skýrt á sama hátt og hér að framan greinir, þannig að ákvæðið banni það fyrirkomulag sem lýst er hér að framan (e. closed-shop), og er það einnig í samræmi við túlkun á 11. gr. MSE. [5] Þá hefur nefndin talið það brjóta gegn 5. gr. FSE að leggja á einstaklinga skyldu til að greiða félagsgjöld til tiltekinna félaga, að veita félagsbundnum einstaklingum forgang að störfum sem og það að réttur til atvinnuleysistryggingabóta væri háður félagsaðild, en nefndin taldi Ísland hafa brotið gegn 5. gr. FSE með reglum af þessu tagi.[6] Ákvæði 8. gr. SEFMR hefur einnig verið túlkuð til samræmis við samþykktir ILO að því er varðar verkfallsréttinn (sbr. samþykkt ILO nr. 87) og við 6. gr. FSE.

Til baka í töflu

 

Ákvæði 6. gr. FSE mælir fyrir um réttinn til að semja sameiginlega, þ.m.t verkfallsréttinn:

 

6.gr. FSE

Í því skyni að tryggja, að réttur til að semja sameiginlega verði raunverulega nýttur, skuldbinda samningsaðilar sig til:
   1. að stuðla að sameiginlegum viðræðum milli verkafólks og vinnuveitenda,
   2. að stuðla að frjálsum samningaumleitunum milli vinnuveitenda eða vinnuveitendafélaga og verkalýðsfélaga, þegar nauðsynlegt er eða við á, í þeim tilgangi að ákvarða laun og vinnuskilyrði með heildarsamningum,
   3. að stuðla að stofnun og notkun viðeigandi sáttafyrirkomulags og gerðardóma eftir samkomulagi við lausn vinnudeilna, og viðurkenna,
   4. rétt verkafólks og vinnuveitenda á sameiginlegum aðgerðum, þegar hagsmunaárekstrar verða, þ. á m. verkfallsrétti, með þeim takmörkunum, sem til kynnu að koma vegna gerðra heildarsamninga.

 

 

Að því er sérstaklega varðar réttindi útlendinga  í sambandi við félagsaðild og réttinn til að semja sameiginlega gera 5. og 6. gr. FSE ráð fyrir fullri þátttöku útlendinga, þ.e. a.m.k ríkisborgara aðildarríkja FSE sem eru búsettir eða vinna reglulega í aðildrríkinu. 5. gr. FSE verndar því sömu réttindi og 19. gr. FSE. Í b-lið, 4. tl. þeirrar greinar sáttmálans er sérstaklega fjallað um skyldur ríkja að þessu leyti varðandi farandlaunþega. Aðildarríkjum ber að tryggja útlendingum ekki óhagstæðari meðferð en þá sem við á um eigin þegna, þegar um er að ræða: ,,aðild að stéttarfélögum og að njóta góðs af heildarsamningum."[7]

 

Félagsmálanefnd Evrópu  hefur gagnrýnt framkvæmd í mörgum aðildarríkjum sem í gegnum tíðina hafa beitt reglum og framkvæmd sem takmarka þátttöku útlendinga í ábyrgðarstöðum og áhrifastöðum í stéttarfélögum, m.a. við tiltekinn búsetutíma eða þjóðerni.[8]  8. gr. SEFMR nær til fleiri útlendinga (án tillit til þjóðernis), en nefnd um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi  hefur ekki gefið skýrar línur um það hvort útlendingar eigi rétt á fullri þátttöku í stéttarfélögum, enda þótt niðurstöður hennar gefi til kynna að takmörkun á grundvelli þjóðernis kunni að brjóta gegn greininni.[9] Sérreglur um farandlaunþega tryggja jafnræði í þessu efni, en Ísland á ekki aðild að þeim samningum, s.s. samþykkt ILO nr. 97[10] og Samningi SÞ um vernd og réttindi farandlaunþega (CMW). Í 2. tl. e-liðs 5. gr. CERD er einnig fjallað um rétt til að stofna og ganga í verkalýðsfélög, án mismununar.

Til baka í töflu

 

Réttur ESB og EES

Reglur um stéttarfélög, kjarasamninga og verkfallsrétt eru ekki hluti af EES-samningnum, enda féllu skipulag verkalýðsmála og reglur á sviði vinnuréttar að mestu utan valdsviðs ESB á þeim tíma er EES-samningurinn var gerður. Síðan hefur reglum um þetta efni fjölgað innan ESB, sem og reglum um samráð milli vinnuveitenda og launþega, þar sem mælt er fyrir um réttindi launþega til að hafa áhrif á ákvarðanir. Hafa þessar reglur einnig áhrif innan EES bæði með aðgangi EFTA-ríkja EES-samningsins að samstarfi og samráði atvinnurekenda og launþega í Evrópu og með upptöku gerða, m.a. í viðauka XVIII við EES-samninginn. Eina ákvæði EES-samningsins sem vísar til kjarasamninga og samráðs á vinnumarkaði er í 71. gr. EES, þar sem segir: „Samningsaðilar skulu leitast við að auka skoðanaskipti milli vinnuveitenda og launþega í Evrópu." Reglur um samstarfsráð eru tekin upp með upptöku tilskipunar 94/45/EB í  27. lið XVIII viðauka.

 

Með 28. gr. Mannréttindaskrár ESB er samninga- og verkfallsrétturinn viðurkenndur innan ESB, með vísan í rétt aðildarríkjanna og er það nýmæli í rétti ESB. Af dómaframkvæmd er ljóst að þessi réttindi verða vegin á móti öðrum réttindum sem ESB tryggir, einkum réttindum sem byggjast á fjórfrelsisákvæðunum, sbr. m.a. dóma dómstóls ESB í Viking Line[11] og Laval.[12] Er líklegt að svipuð sjónarmið muni ráða túlkun við skýringu EES-samningsins, en þá kæmu til álita ákvæði íslensku stjórnarskrárinnar fremur en ákvæði Mannréttindaskrár ESB, sem ekki kemur til með að binda EFTA-ríki EES-samningsins beint.

 Til baka í töflu

 

Íslenskur réttur

Eins og áður kom fram tryggir 74. gr. STS félagafrelsi, bæði neikvætt og jákvætt,[13] og hefur auk þess verið talin standa vörð um starfsemi stéttarfélaga og það hlutverk þeirra að semja um kaup og kjör. Í hæstaréttarmáli 167/2002 (ASÍ)  kom fram að stuðst var við 11. gr. MSE við skýringu á 74. gr. STS og að aftur var stuðst við FSE og SEFMR við túlkun 11. gr. MSE:[14] Var þar vísað til þess hlutverks stéttarfélaga að semja um kaup og kjör, en stéttarfélög fara með það hlutverk án íhlutunar ríkisvaldsins, nema sérstakar ástæður leiði til annars.

 

Stéttarfélög starfa samkvæmt lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, sem síðast var breytt árið 2001. Í 2. gr. laganna segir að stéttarfélög skuli opin öllum í hlutaðeigandi starfsgrein á félagssvæðinu eftir nánari reglum í samþykktum félaganna. Engar takmarkanir eru gerðar með tilliti til þjóðernis í lögunum, en þar er heldur ekki að finna ákvæði sem bannar mismunun. Ólíklegt er að bein takmörkun á aðgangi að stéttarfélögum yrði byggð á þjóðerni, enda fæli slíkt í sér brot gegn þeim meginsjónarmiðum sem fram  koma í áðurgreindum samningum, sem og í almennri jafnræðisreglu íslensks réttar, auk þess að vera í andstöðu við tilgang og heildarhagsmuni stéttarfélaga. Ákvæði FSE og reglur sem leiddar eru af EES-samningnum myndu að auki vernda gegn mismunun í aðgangi að ábyrgðastöðum innan verkalýðsfélaga, a.m.k. að því er varðar ríkisborgara þeirra Evrópuríkja sem aðild eiga að samningnunum. Auk þess verður að telja að reglur þjóðaréttar, s.s. SEFMR og reglur ILO, sem hafa áhrif á skýringu SEFMR, leiði til þess að allar takmarkanir byggðar á þjóðerni, búsetu o.s.frv. verði að skýra þröngt.

Til baka í töflu

 

Tilvísanir


[1] Sjá m.a. Craven, bls. 262-3. Sjá um samþykkt ILO nr. 87 hér að neðan.

[2] Craven, bls. 265. Þessi niðurstaða samræmist einnig túlkun á 5. gr. FSE, sbr. Harris og Darcy, bls. 89.

[3] Craven, bls. 269.

[4]Ísland hefur einnig fullgilt  Samþykkt ILO nr. 11 um félagafrelsi landbúnaðarverkafólks.

Um aðrar samþykktir ILO sem varða þetta efni en Ísland hefur ekki fullgilt sjá hér.

[5] Sjá Young, James and Webster gegn Stóra-Bretlandi (dómur 13. ágúst 1981) og sjá umfjöllun um 5.gr. FSE í Harris og Darcy, bls. 94-95.

[6] Sjá niðurstöður nefndarinnar í  CIX-I 48 (Iceland) og C-IX-I 78 (Iceland), sjá Harris og Darcy, bls. 95.

[7] Eins og fram er komið er Ísland ekki bundið af 19. gr. FSE.

[8] Harris og Darcy, bls. 92.

[9] Sjá Craven, bls. 265, sem vísar í niðurstöður nefndarinnar í Alvarez Vita, E/C 12/1990/SR.40; Texier, E/C 12/1990/SR 40 (Kosta Ríka og Panama) og niðurstöður í máli Senegal (E/C.12/1993/18).

[10] ILO Migration for Employment Convention nr. 97. Farandlaunþegum er tryggður jafn aðgangur að stéttarfélögum og að sameiginlegum samningum í 6. gr. samþykktarinnar. 

[11] Mál C-438/05 frá 11. desember 2007.

[12] Mál C-341/05 frá 18. desember 2007.

[13] Um neikvæða þátt félagafrelsisins sjá dóm MDE í máli Sigurðar Sigurjónssonar gegn Íslandi (dómur  13. júní 1993).

[14] Um áhrif annarra þjóðréttarskuldbindinga sagði í héraðsdómi, sem staðfestur var af Hæstarétti:„ Við fyllingu á 1. mgr. 11. gr. Mannréttindasáttmálans hefur verið leitað fanga í Félagsmálasáttmála Evrópu frá árinu 1961 sem fullgiltur var af Íslands hálfu 15. janúar 1976 og öðlaðist gildi 14. febrúar 1976, Al­þjóða­samn­ing­s um efna­hags­leg, fé­lags­leg og menn­ing­ar­leg réttindi sem full­gilt­ur var 22. ágúst 1979 og öðlaðist gildi 22. nóv­em­ber 1980 og samþykkta ILO nr. 87 um fé­laga­frelsi og verndun þess og nr. 98 um beit­ingu grund­vall­ar­reglna um rétt­inn til að stofna fé­lög og semja sam­eig­in­lega, sem báðar hafa verið fullgiltar af Íslands hálfu." [...] "Með hliðsjón af 2. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmálans, 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar og þeim alþjóðasamningum um félagsleg réttindi sem líta má til við skýringar á 74. og 75. gr. stjórnarskrárinnar, verður 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar ekki talin fela í sér skilyrðislausa vernd verkfallsréttar stéttarfélaga. Hins vegar verður að líta svo á að samningarfrelsi verkalýðsfélaga og beitingu verkfallsréttar megi aðeins skerða með lögum og því aðeins að uppfylltum sambærilegum skilyrðum og fram koma í 2. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmálans."

Til baka í töflu

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is