IV B Menntun og menning

Til baka í efnisyfirlit IV hluta

 

Rétturinn til menntunar fellur undir menningarleg réttindi og tengist öðrum réttindum sem lúta að stöðu og þroska einstaklinga í samfélaginu. Rétturinn til menntunar nýtur verndar í fjölda alþjóðlegra samninga og yfirlýsinga bæði á vettvangi Sameinuðu Þjóðanna og í staðbundnum mannréttindasamningum og öðrum þjóðréttarlegum samningum. Rétturinn felur bæði í sér neikvæðar og jákvæðar skyldur aðildarríkja og tekur rétturinn til menntunar, í víðtækustu merkingu, til margra þátta. Skylda ríkisins til að sjá öllum börnum fyrir grunnmenntun og bann við mismunun eru grundvallarþættir í meirihluta þeirra ákvæða sem fjalla um efnið. Skal grunnmentun barna veitt ókeypis og stuðla að því að öll börn hafi jöfn tækifæri til að þroska hæfileika sína. Þá koma samfélagsleg markmið menntunar fram í þessum samningum, einkum að stuðla að virðingu fyrir öðrum, sameiginlegum gildum og þekkingu.

 

Í þessum hluta verður fjallað um þjóðréttarlegar skuldbindingar sem binda íslenska ríkið á þessu sviði. Þá verða nokkur atriði sem sérstaklega snerta stöðu útlendinga tekin til umfjöllunar. Kaflinn er byggður upp með öðrum hætti en fyrri kaflar. Í IV B-1 verður fjallað um þjóðrettarlegar skuldbindingar sem varða réttinn til náms en í IV B-2 verður fjallað um valin álitaefni úr íslenskum rétti á þessu sviði, þ.e. álitaefni um menntun og útlendinga.  Í IV B-3 er stutt umfjöllun um íslenskukennslu og fullorðinsfræðslu. Kaflinn fjallar ekki um önnur atriði sem tengjast menningarlegum réttindum, utan stuttrar umfjöllunar  um menningarlegt mikilvægi tungumáls og réttindi sem lúta að notkun eigin tungu.

 

Niðurstöður

Þau ákvæði þjóðréttarsamninga sem sem mæla fyrir um skyldur aðildarríkja varðandi menntun og eru veigamest, í þeim skilningi að í þeim felast bindandi þjóðéttarskyldur, eru ákvæði SEFMR og Barnasáttmálans og er fjallað um þessi ákvæði hér. Vegna þeirrar óvissu sem ríkir um almennt bann SEFMR við mismunun á grundvelli þjóðernis (eins og komið hefur fram) er vert að taka fram að þegar fjallað er um menntun barna leikur enginn vafi á því að  mismunun á grundvelli þjóðernis er ólögmæt: öll börn á skólaaldri skulu njóta sama réttar til þeirrar menntunar sem boðið er upp á í ríkinu. Í Almennri athugasemd nr 13 vísaði nefnd um efnahagsleg, félagleg og menningarleg réttindi (hér eftir nefndin) [1] til 2. gr. Barnasáttmálans og UNESCO sáttmálans gegn mismunun í menntakerfinu  og taldi að bann við mismunun á grundvelli þjóðernis tæki til allra barna á skólaaldri sem búa innan ríkisins, óháð þjóðerni og óháð lagalegri stöðu.[2]  Verður að telja að rétturinn til grunnmenntunar sé svo mikilvægur að litlar sem engar takmarkanir verði gerðar á aðgangi barna að  menntun, og það jafnvel ekki þótt um ólöglega innflytjendur sé að ræða. Er miðað við að ekki megi neita neinum um lágmarkskjarna þeirra réttinda sem 13 gr. SEFMR verndar, þ.e. a.m.k. grunnskólanám og jafnvel framhaldsskólanám.[3] Æðri menntun og menntun fullorðinna myndi falla utan þessarar skyldu en bæði SEFMR og önnur ákvæði tryggja þó rétt til æðri menntunar, starfsþjálfunar o.s.frv. sem einnig getur átt við um útlendinga, eins og frekar er fjallað um í kaflanum.

 

Undirstofnanir Sameinuðu Þjóðanna hafa einnig staðið að gerð samninga sem varða menntun og vernd barna og ungmenna. Menningamálastofnun SÞ UNESCO hefur unnið að því að setja reglur og hafa eftirlit með menntamálum og í SEMFR er gert ráð fyrir samvinnu og samráði við UNESCO. Mikilvægasti samningur UNESCO varðandi menntun er UNESCO-sáttmálinn gegn mismunun í menntakerfinu en Ísland hefur ekki undirritað hann. Þar kemur m.a. fram skylda ríkja til að veita útlendingum sem eru löglega búsettir innan yfirráðasvæðis ríkisins jafnan aðgang að menntun og eigin þegnum.[4] UNESCO-samningur um tæknimenntun og starfsþjálfun hefur heldur ekki verið undirritaður af Íslands hálfu.[5] Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) hefur menntun ekki á stefnuskrá sinni. Þó hafa samþykktir ILO, einkum Samþykkt ILO nr. 138 um lágmarksaldur við vinnu og nr. 182 um afnám barnavinnu í sinni verstu mynd að geyma ákvæði sem miða að vernd barna, m.a. í þeim tilgangi að þau geti notið menntunar. Ísland er aðili að þessum samningum.

 

Mannréttindasáttmáli Evrópu hefur ekki að geyma ítarleg ákvæði um réttinn til menntunar, eða mismunun á grundvelli þjóðernis enda eru borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi aðaláhersluatriði í MSE (sjá umfjöllun í IV B-1). FSE, sem tekur til efnahagslegra og félagslegra réttinda, hefur ekki að geyma ákvæði um menntun, en í 3. mgr 7. gr. er kveðið á um skyldu aðildarríkja að koma í veg fyrir að börn á skólaskyldualdri séu ráðin í vinnu þannig að gangi gegn tilgangi réttarins til menntunar. Eftirlit með aðildarríkjum hefur leitt til þeirrar niðurstöðu að vinna barna og unglinga í 25 tíma á viku braut gegn ákvæðinu og reglur sem heimiluðu 3 klst. vinnu á virkum dögum og 6-8 klst. um helgar voru einnig taldar brjóta gegn ákvæðinu.[6] Ísland er ekki bundið af 7. gr FSE, sbr. fullgildingarskjal við samninginn. 10.gr. hefur að geyma ákvæði um starfsþjálfun. Ísland er ekki heldur bundið af 10.gr.

 

Þó að hvorki MSE eða FSE geymi ítarleg ákvæði um réttinn til menntunar fjalla ýmsir Evrópuráðssamningar um réttinn til menntunar og fyrirkomulag menntamála í aðildarríkjum Evrópuráðsins og varða þessir samningar einkum æðra nám (nám á háskólastigi). Ekki er fjallað um þessa samninga í verkefninu en eftirfarandi samningar binda íslenska ríkið:

 Evrópusamningur um viðurkenningu á menntun og hæfi að því er varðar æðra skólastig á Evrópusvæðinu (nr. 165), samningur nr. 21 um jafngildi háskólanáms[7]; samningur nr.32 um viðurkenningu á háskólagráðum [8];samningur nr. 69 um greiðslu styrkja til nemenda erlendis[9] og samningur um viðurkenningu á menntun sem leiðir til háskólanáms (nr. 15).[10] Samningarnir taka til þeirra aðildarríkja Evrópuráðsins sem hafa fullgilt þá og geta því náð til annarra en EES-útlendinga. Hins vegar eru frekari reglur sem settar hafa verið innan ESB og ná til EES vegna aðgangs EES-ríkjanna að samstarfi í menntamálum og vegna reglna EES um fjórfrelsið, sbr. 30. gr. EES-samningsins og ítarlegar reglur í VII viðauka við EES-samninginn og Lög um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum nr. 83/1993.

 

Evrópusambandið fer ekki með valdheimildir til að setja reglur í menntamálum en hefur heimildir til að stuðla að samvinnu aðildarríkjanna á því sviði, sbr. 149. gr. Rs, og 150. gr. sem fjallar um heimildir ESB varðandi starfsþjálfun. EFTA-ríkjum EES-samningsins hefur boðist þátttaka í ýmsum framkvæmdaáætlunum ESB og fylgir þróun menntamála innan EES-ríkjanna því þróuninni innan ESB að miklu leyti (sjá m.a. bókun 31 við samninginn, 4. gr). Þá leiða fjórfrelsisákvæði EES-samningsins og lagasamruni til þess að EES-útlendingar sem hafa verið launþegar, eða eiga á annan hátt undir fjórfrelsisákvæði EES-samningsins, sem og aðstandendur þeirra, eiga rétt á sama aðgangi að menntun, á öllum stigum, og þegnar gistiríkis. Auk þess eiga þessir aðilar rétt á sambærilegum kjörum varðandi námsaðstoð, styrki og aðra fyrirgreiðslu, en það fer þó frekar eftir stöðu þeirra og þeim ítarlegu afleiddu reglum sem gilda innan EES og ekki er fjallað um hér. Með evrópskum ríkisborgararétti hefur enn bæst við þá áherslu sem er á menntun og jafnræði með tilliti til menntunar innan ESB.[11] Óvíst er að hve miklu leyti sömu sjónarmið eiga við innan EES-samningsins, þar sem samevrópskur þegnréttur tekur ekki til EES-samningsins, þó að reglur sem tengjast þegnrétti hafi verið teknar upp í EES-samninginn með upptöku tilskipunar 2004/38/EB.

 

 

Rétturinn til menntunar felur í sér mikilvæg grundvallarréttindi og eru þessi réttindi forsenda framþróunar og samvinnu milli einstaklinga og þjóða. Þeir samningar sem Ísland á aðild að vernda þennan rétt með margvíslegum hætti og íslensk löggjöf og framkvæmd gætir þessarra réttinda. Í auknum mæli er einnig lögð áhersla á gildi menntunar og tungumálakennslu sem forsendu þátttöku í  daglegu lífi og opinberu lífi þar sem fólk býr. Þá er einnig aukin áhersla á virðingu fyrir tungumáli og menningu útlendinga sem eru búsettir hérlendis. Má m.a. sjá þessa áherslu í 10. gr. framkvæmdaáætlunar í málefnum innflytjenda og í starfsemi þeirra stofnana sem sjálfstætt, eða fyrir hönd ríkisins, vinna að málefnum útlendinga. Stefna stjórnvalda að því er lýtur að tungumálakennslu er dæmi um framkvæmd jákvæðrar skyldu ríkisins, sem kemur fram í lögbundinni skyldu til að bjóða tungumálakennslu, fremur en að binda búseturéttindi eða atvinnuréttindi við tungumálakunnáttu (sjá þó um próf í íslensku sem skilyrði ríkisborgararéttar umfjöllun í kafla III-C).

 

Af athugun á þessu sviði, sem einkum beinist að réttinum til menntunar, virðist sem meginsjónarmiðum þjóðréttarlegra skuldbindinga sé fylgt í íslenskri löggjöf og framkvæmd. Bent hefur verið á að útlendingar sem ekki njóta sérstakra réttinda með samningum við Norðurlönd eða samkvæmt EES-samningnum eigi ekki rétt á fjárhagslegri aðstoð við framhaldsnám óháð búsetutíma. Brýtur slíkt ekki ótvírætt gegn þeim skuldbindingum sem fjallað hefur verið um hér að framan, en gera má ráð fyrir því að evrópskar reglur kunni að hafa áhrif á niðurstöðu í einstökum málum, sem og að jafnræðisákvæði íslensku stjórnarskrárinnar nái til útlendinga sem búsettir hafa verið hér á landi og hafa með þeim hætti öðlast réttarstöðu sem jafna má til annarra útlendinga og eigin þegna (sbr. nánar kafla III-D um bann við mismunun).

 


Heimildir og frekara lesefni

Alfreðsson, Guðmundur. „The Right to Human Rights Education." Eide, Krause og Rosas (ritstj.). Economic, Social and Cultural Rights. Martinus Nijhoff Publishers, Dordrecht, 2001.

Beiter, Klaus Dieter. The Protection of the Right to Education by International law. Martinus Nijhoff Publisers, Leiden, 2006.

Cholewinski, Ryszard. Migrant Workers in International Human Rights Law.  Clarendon Press, Oxford, 1997.

Nowak, Manfred. „The Right to Education." Eide, Krause og Rosas (ritstj.). Economic, Social and Cultural Rights. Martinus Nijhoff Publishers, Dordrecht, 2001.

Samuel, Lenia. Fundamental
social rights. Case law of the European Social Charter
(2. útg.). Council
of Europe Publishing, Strasbourg, 2002.

Smith, Rhona K.M. „The Right to Education and Human Rights Education."  Textbook on International Human Rights. Oxford University Press, Oxford, 2003, 21. kafli.

Van Dijk o.fl.. Theory and Practice of the European Convention on Human Rights. Intersentia, Antwerpen, 2006.

Vermeulen, Ben. „The Right to Education (Article 2 of Protocol no. 1)." í Van Dijk o.fl.(ritstj.). Theory and Practice of the European Convention on Human Rights. Intersentia, Antwerpen, 2006, 18. kafli.

Wallace, Rebecca M.M. International Human Rights. Sweet & Maxwell, London, 2001, 8. kafli.

Þorsteinsdóttir, Ragnheiður Elfa. „Réttur til menntunar og frjálsra kosninga." Björg Thorarensen, Davíð Þór Björgvinsson, Guðrún Gauksdóttir og Hjördís Björk Hákonardóttir (ritstj.). Mannréttindasáttmáli Evrópu - Meginreglur, framkvæmd og áhrif á íslenskan rétt. Mannréttindastofnun HÍ og Lagadeild HR, Reykjavík 2005, 15. kafli.

 

SÞ-skjöl:

(1) ECOSOC, Report on the 18th and 19th sessions 1998.  19th session: The right to education (articles 13 and 14 of the CESCR) Sjá hér.

(2) ECOSOC, General Assembly, 52nd session,1997, Progress Report on the Implementation Process of the Education for all Objectives. Sjá hér.

(3) ECOSOC, General Comment no. 13. on CESCR, The Right to Education (article 13 of the Covenant). Sjá hér.

(4)  ECOSOC, General Comment no. 11 Plans of action for primary education (article 14 of the Covenant).  Sjá hér.

(5) General Comment no. 1 on the CRC, Article 29, The Aims of Education, 2001. Sjá hér.

(6) Ársskýrsla sérstaks skýrslugjafa um menntamál hjá ECOSOC, 1999. Sjá hér.

 

Evrópuráðið:

ECRI General Policy Recommendation N°10 on combating racism and racial discrimination in and through school education Adopted by The European Commission against Racism and Intolerance (ECRI) on 15 December 2006. Sjá
hér
.

 

Íslenskar skýrslur og efni:

Framkvæmdaáætlun
í málefnum innflytjenda

 

Aðrir hlekkir:

Unesco-síða um réttinn til menntunar.

http://portal.unesco.org/education/en/ev.php-URL_ID=9019&URL_DO=DO_TOPIC&URL_SECTION=201.html

Evrópuráðið um menntun:

http://www.coe.int/T/E/Cultural_Co-operation/education/

 

 

Tilvísanir:


[1] Committee on Economic, Social and Cultural Rights.

[2] Málsgrein 34.

[3] Beiter, bls. 416-18.

[4] Sjá 3. gr. (e) samningsins.

[5] Um yfirlit og umfjöllun um sáttmála og tilmæli Menningamálastofnunar SÞ sjá Beiter, bls. 225-235.

[6] Sjá Samuel, bls. 181.

[7] European Convention on the Equivalence of Perods of University Study.

[8] European Convention on the Academic Recognition of University Qualifications.

[9] European Agreement on continued Payment of Scholarships to students studying abroad.

[10]European Convention on the Equivalence of Diplomas leading to Admission to Universities.

[11] Sjá m.a. dóm dómstóls ESB í máli C-209/03 Bidar, þar sem viðurkennt var að franskur ríkisborgari ætti sama rétt til fjárhagslegrar námsaðstoðar Í Bretlandi  og breskur ríkisborgari, eins og aðstæðum var háttað í málinu.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is