IV B-1 Rétturinn til náms

Til baka í efnisyfirlit IV hluta

 Réttindi  Sáttmálar  Íslensk lög Dómar, úrskurðir, álit UA

Rétturinn til náms,
rétturinn til að kenna og réttindi foreldra

26. og 27. gr. MYSÞ

13. gr. SEFMR

28. gr. Barnasáttmála

29. gr. Barnasáttmála

2. gr. 1. viðauka MSE

14. gr. MSE

5. tl. e-liðs 5. gr.CERD

7. gr. CERD

b-liður 1. mgr. 5. gr. UNESCO-sáttmáli gegn mismunun í menntakerfinu*

Samningur
SÞ um réttindi fólks með fötlun
**

 

7. og 10. gr. FSE

 

Samþykkt ILO nr. 138 um lágmarks-aldur við vinnu

 

Samþykkt ILO nr. 182 um afnám barnavinnu í sinni
verstu mynd

 

 

*Ísland er ekki aðili
að þessum samningi.)

** Samningurinn hefur
verið undirritaður en ekki fullgiltur

2. mgr. 76. gr. STS

Lög um
mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994

 

Lög um grunnskóla nr. 91/2008

 

Lög um framhaldsskóla
nr. 92/2008
.

 

3. gr. laga um
háskóla nr. 63/2006
.

 

Lög um málefni
fatlaðra nr. 59/1992

MDE

 Belgíska tungumáladeilan

Campbell og Cosans gegn Bretlandi

Blom gegn Svíþjóð

Kjeldsen, Busk Madsen
og Pedersen gegn Danmörku

Kýpur gegn Tyrklandi  

 

 

Dómar Hæstaréttar

Mál nr.177/1998

UA

UA 2285/1998


Rétturinn til menntunar er tryggður í mörgum alþjóðlegum mannréttindasáttmálum sem Ísland er aðili að. Ennfremur segir í 2. mgr. 76. gr. STS : ,,Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi."

 

Menntun, sem mannréttindi, er gott dæmi um hve illa verður skilið á milli borgaralegra og stjórnmálalegra réttinda, annars vegar, og efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra réttinda, hins vegar, en rétturinn er venjulega settur undir hatt menningarlegra mannréttinda. Ákveðinnar menntunar er krafist vegna fjölda starfa og menntun leiðir því til efnahagslegs ávinnings.[1] Ágóði menntunar er þó ekki aðeins fjárhagslegur fyrir einstaklinginn sem hana hlýtur. Lágmarksmenntun er í reynd forsenda þess að unnt sé að njóta margra annarra réttinda, svo sem að geta tekið þátt í stjórnmála- og menningarlífi, að kjósa sér atvinnu og njóta jafns aðgangs að störfum í opinbera þágu svo dæmi séu tekin.[2] Ólíklegra er að menn fá notið réttinda sinna til fulls ef þeir eru ekki meðvitaðir um þau. Þeir eru í það minnsta auðveldari fórnarlömb hvers kyns mannréttindabrota. Það er því augljóslega mikilvægt að menn geti nálgast og skilið hvað í réttindunum felst. Til þess þarf viðkomandi helst að vera læs og hafa lágmarksmenntun. Rétturinn til menntunar er því samslunginn öðrum mannréttindum, og er aukinheldur forsenda mannréttindafræðslu (e. human rights education).[3]

 

Rétturinn til menntunar er einnig gott dæmi um hvernig mannréttindi geta samtímis lagt jákvæðar og neikvæðar skyldur á ríki. Þegar rætt er um neikvæðar skyldur, er átt við að ríkisvaldið beri að halda að sér höndum og forðast inngrip í líf einstaklinga. Réttur einstaklingsins felur því í sér samsvarandi skyldu ríkisins til að láta hann afskiptann. Nefna mætti trúfrelsi sem dæmi. Hverjum er frjálst að iðka hverja þá trú sem honum sýnist, innan þeirra marka að trúariðkun hans brjóti ekki á réttindum annarra. Skylda ríkisins í þessu sambandi er neikvæð. Því ber að leyfa hvers kyns trúariðkun að eiga sér stað. Oftast er rætt um neikvæðar skyldur í tengslum við borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Neikvæðar skyldur ríkis þegar kemur að réttinum til menntunar, eru margþættar. Ríki ber að láta einstaklingum sjálfum eftir að ákveða hvort og þá í hvaða fagi þeir leita sér framhaldsmenntunar, eftir að skólaskyldu lýkur. Ríkinu ber til dæmis að eftirláta einstaklingum svigrúm til að kenna og stofna skóla. Að sama skapi verða fræðimenn að njóta akademísks frelsis og geta stundað rannsóknarstörf án afskipta stjórnvalda, en þessi réttur stendur í nánum tengslum við almennt tjáningarfrelsi.

 

Jákvæðar skyldur ríkisins krefjast aftur á móti athafna af þess hálfu. Flest efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi leggja með einhverju móti slíkar jákvæðar skyldur á ríkin, sem aftur er ein meginástæða þess hve ólíkar útfærslur þeirra eru og hve erfitt reynist að fylgjast með framkvæmd þeirra. Eitt af því sem samstaða er um að felist í réttinum til menntunar er almenn skólaskylda ungra barna. Slík almenn skólaskylda krefst þess í öllum tilvikum að ríkið hafist eitthvað að, til að koma henni í kring, eins og nánar verður vikið að.  

Til baka í töflu

 

MYSÞ

Mannréttindayfirlýsing SÞ (MYSÞ) fjallar um réttinn til menntunar í 26. gr. og um þátt menntunar í menningarlífi í 27. gr.

 

26. gr.MYSÞ

1)  Hver maður á rétt til menntunar. Skal hún veitt ókeypis, að minnsta kosti barnafræðsla og undirstöðumenntun. Börn skulu vera skólaskyld. Iðnaðar- og verknám skal öllum standa til boða og æðri menntun vera öllum jafnfrjáls, þeim er hæfileika hafa til að njóta hennar.
2)  Menntun skal beina í þá átt að þroska persónuleika einstaklinganna og innræta þeim virðingu fyrir mannréttindum og mannhelgi. Hún skal miða að því að efla skilning, umburðarlyndi og vináttu meðal allra þjóða, kynþátta og trúarflokka og að efla starf Sameinuðu þjóðanna í þágu friðarins.
3)   Foreldrar skulu fremur öðrum ráða, hverrar menntunar börn þeirra skuli njóta.

 

27. gr.MYSÞ

 

1.    Hverjum manni ber réttur til þess að taka frjálsan þátt í menningarlífi þjóðfélagsins, njóta lista, eiga þátt í framförum á sviði vísinda og verða aðnjótandi þeirra gæða, er af þeim leiðir.
2.    Hver maður skal njóta lögverndar þeirra hagsmuna, í andlegum og efnalegum skilningi, er leiðir af vísindaverki, ritverki eða listaverki, sem hann er höfundur að, hverju nafni sem nefnist.

 

Í greinunum koma fram þær áherslur sem áður eru nefndar varðandi jákvæða skyldu ríkja til að sjá börnum fyrir menntun og neikvæðar skyldur þeirra að virða ákvörðunarvald foreldra í tengslum við menntun barna þeirra. Greinin er útfærð frekar í SEFMR.

Til baka í töflu

 

SEFMR

13. gr.SEFMR

 

13. gr. 1. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt sérhvers manns til menntunar. Þau eru ásátt um að menntun skuli beinast að fullum þroska mannlegs persónuleika og meðvitund um göfgi mannsins og skuli stuðla að virðingu fyrir mannréttindum og grundvallarfrelsi. Enn fremur eru þau ásátt um að menntun skuli gera öllum kleift að taka þátt í frjálsu þjóðfélagi á virkan hátt, stuðla að skilningi, umburðarlyndi og vináttu á milli allra þjóða og allra kynþátta-, staðfélags- og trúarbragðahópa og efla starfsemi Sameinuðu þjóðanna til varðveislu friðar.
2. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna að, til þess að framfylgja að öllu leyti þessum rétti:
   (a) skuli barnafræðsla vera skyldubundin og öllum tiltæk án endurgjalds;
   (b) skuli framhaldsmenntun í hinum ýmsu myndum, þar á meðal tækni- og iðnframhaldsmenntun, gerð öllum tiltæk og aðgengileg með öllum tilhlýðilegum ráðum og einkum með því að koma á ókeypis menntun í áföngum;
   (c) skuli æðri menntun gerð öllum jafn aðgengileg á grundvelli hæfni með öllum tilhlýðilegum ráðum og einkum með því að koma á ókeypis menntun í áföngum;
   (d) skuli hvatt til undirstöðumenntunar og hún aukin eins og mögulegt er fyrir þá sem hafa ekki hlotið eða lokið öllu skeiði barnafræðslu;
   (e) skuli þróun skólakerfa á öllum stigum ötullega efld, hæfilegu styrkjakerfi skuli komið á og efnislegur aðbúnaður kennaraliðs skuli stöðugt bættur.
3. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum takast á hendur að virða frelsi foreldra og, þegar við á, lögráðamanna til þess að velja skóla fyrir börn sín, aðra en þá sem stofnaðir eru af opinberum stjórnvöldum, sem hafa sambærileg lágmarksmenntunarskilyrði og þau sem sett eru eða samþykkt kunna að vera af ríkinu og að ábyrgjast trúarlega og siðferðilega menntun barna þeirra í samræmi við þeirra eigin sannfæringu.
4. Engan hluta þessarar greinar skal túlka þannig að það brjóti í bága við frelsi einstaklinga og félaga til þess að stofna og stjórna menntastofnunum, alltaf að því áskildu að gætt sé grundvallaratriða þeirra sem sett eru fram í 1. mgr. þessarar greinar og því sé fullnægt að menntun sem veitt er í slíkum stofnunum samræmist þeim lágmarksskilyrðum sem ríkið kann að setja.

Til baka í töflu

 

Í skýrslu frá nítjánda fundi nefndarinnar, 1999, var fjallað um inntak réttarins til menntunar, eins og hann birtist í 13 gr. SEFMR.[4] Þar er lagt upp með að rétturinn sé samsettur úr fjórum grunnstefjum. Takist ríki ekki að uppfylla eitthvert þeirra væri rétt að líta svo á, að það hefði ekki uppfyllt skyldur sínar skv. 13. gr.

 

Í fyrsta lagi felur rétturinn til menntunar í sér, að engum skuli synjað um menntun. Í þessu felst að öllum skuli tryggður aðgangur að þeim menntastofnunum sem til staðar eru, án mismununar nokkru tagi.

 

Í öðru lagi ber öllum réttur til lágmarksmenntunar. Þetta tekur einnig til fullorðinna, sem þurfa t.d. að læra að lesa eða þurfa á grundvallarstarfsþjálfun að halda. Grunnskólamenntun skal vera skylda allra og hún skal veitt ókeypis. Í þessu felst að hvorki barnið sjálft né þriðji aðili, svo sem foreldrar eða vinnuveitendur, geta meinað barni að sækja skyldunám. 

 

Í þriðja lagi ber hverjum og einum réttur til að velja sér menntun, án afskipta ríkisins (að því marki sem kröfum skyldunáms er fullnægt) eða þriðja aðila, sérstaklega með tilliti til trúarlegrar og heimspekilegrar sannfæringar.

 

Í fjórða lagi ber ríkjum að heimila minnihlutahópum innan þjóðfélagsins að njóta kennslu innan stofnana utan hins opinbera menntakerfis. Tekur þetta til að mynda til erlendra ríkisborgara, hópa annarra þjóðarbrota eða þeirra sem tala annað tungumál en það sem opinber kennsla fer fram á.

 

Árið 1998 setti mannréttindanefnd SÞ á fót embætti sérlegs skýrslugjafa um menntamál.[5] Frá stofndegi til ársins 2004 gengdi Katarina Tomasevski þessu embætti. Í fyrstu skýrslu sinni setti hún fram fjögur atriði sem miða ætti við að ríki þyrftu að uppfylla. [6] Hin fjögur atriðisorð ganga undir nafninu A'in fjögur (e. the 4-A´s) vegna hinna ensku heita: availability, accessibility, acceptability og adaptability. Þetta mætti þýða með samsvarandi íslenskum orðum: tilvist, aðgengi, ásættanleiki, aðlögunarhæfni.

 

Tilvist, vísar til þess að ríkjum ber að sjá til þess að skólar séu til staðar alls staðar þar sem börn á skólaskyldustigi er að finna, þannig að enginn sé útilokaður frá skólasókn af þeirri ástæðu að skóla sé ekki að finna nálægt heimili viðkomandi. Ekki er nauðsynlegt að ríki sjái um rekstur alls grunnskólakerfisins, en þar sem enginn heldur úti slíkum rekstri ber ríkinu að uppfylla skyldur sínar sem síðasta úrræði.

 

Aðgengi vísar til þeirrar skyldu ríkja að sjá til þess að öllum börnum sé veitt menntun í þeim stofnunum sem til staðar eru, án mismununar vegna kynferðis, kynþáttar, þjóðernis, trúarbragða o.s.frv. Víða í heimi er aðgengi stúlkna að skólum ógreitt. Annars staðar er börnum mismunað af öðrum ástæðum, meðal annars af einhverri hinna ofantöldu. Ríki bera bæði neikvæða skyldu þess efnis að útiloka engan frá námi, og jákvæða skyldu að ná til þeirra sem ekki sækja skóla, óháð því hvort um útilokun af einhverju tagi sé að ræða. Börnum útlendinga sem dvelja utan heimalands síns er sérstaklega hætt við að lenda utangáttar.

 

Ásættanleiki vísar til þess að börn, og umfram allt forráðamenn þeirra, verða að geta sætt sig við námsefni skyldumenntunar. Hér togast á sjónarmið annars vegar um að ríkið eitt eigi ákvörðunarrétt um hvað og hvernig kenna skuli börnum og hins vegar um að foreldrar eigi rétt á að ala börnin sín upp og því beri að taka tillit til sérstakra skoðana þeirra. Sérstök áhersla hefur verið lögð á að ekki skuli kenna börnum það sem gengur gegn trúarlegri, siðferðilegri eða heimspekilegri sannfæringu foreldra þeirra. En ríkjum hefur verið talið heimilt að ákveða námsskrá, sem nokkurs konar lægsta samnefnara skyldunáms.

 

Aðlögunarhæfni vísar til þeirrar skyldu ríkisins að sjá til þess að skyldunám sé í takt við tímann. Notkun nýrrar tækni, að því marki sem unnt er, og kennslu í samræmi við aukna alþjóðavæðingu, má nefna sem dæmi í þessu samhengi.

Til baka í töflu

 

Barnasáttmálinn

28. gr. Barnasáttmála SÞ hefur að geyma svipuð ákvæði og SEFMR: Þar segir:

 

28. gr. Barnasáttmálans

 1. Aðildarríki viðurkenna rétt barns til menntunar og skulu þau, til þess að réttur þessi nái fram að ganga stig af stigi og þannig að allir njóti sömu tækifæra, einkum:
   a) Koma á skyldu til grunnmenntunar sem allir geti notið ókeypis.
   b) Stuðla að þróun ýmiss konar framhaldsmenntunar, þar á meðal almennrar menntunar og starfsmenntunar, veita öllum börnum kost á að njóta hennar, og gera aðrar ráðstafanir sem við eiga, svo sem með því að veita ókeypis menntun og bjóða fjárhagslega aðstoð þeim sem hennar þurfa með.
   c) Veita öllum kost á æðri menntun eftir hæfileikum, með hverjum þeim ráðum sem við eiga.
   d) Sjá til þess að upplýsingar og ráðgjöf um nám og starfsval séu fyrir hendi og aðgengilegar öllum börnum.
   e) Gera ráðstafanir til að stuðla að reglulegri skólasókn og draga úr því að nemendur hverfi frá námi.
2. Aðildarríki skulu gera allt það sem við á til að tryggja að námsaga sé haldið uppi með þeim hætti sem samrýmist mannlegri reisn barnsins og í samræmi við samning þennan.
3. Aðildarríki skulu stuðla að og hvetja til alþjóðasamvinnu um menntamál, einkum í því skyni að leggja fram skerf til útrýmingar á vanþekkingu og ólæsi hvarvetna í heiminum, og greiða fyrir aðgangi að vísinda- og tækniþekkingu og nútímakennsluaðferðum. Hvað þetta snertir skal tekið sérstakt tillit til þarfa þróunarríkja. 

 

Skýra verður 28. gr. með hliðsjón af 4. gr. hans sem mælir fyrir um jákvæða skyldu ríkja til að stuðla að framkvæmd samningsins og veita til þess tiltækum fjármunum.  Eru þessar skyldur svipaðar þeim sem lesnar eru inn í 13. gr. SEFMR, en þó er orðalag 28. gr. Barnasáttmálans (einkum varðandi aðgang að menntun á hinum ýmsu stigum) veikara en 13. gr. SEFMR.[7]

 

Ekki er auðvelt að skilgreina hvert inntak og markmið menntunar skuli vera. Allir hljóta að geta verið sammála um að markmiðið með menntun barna sé að þau öðlist þroska og hagnýta þekkingu sem nýtist þeim í lífinu. Menntun stefnir almennt að aukinni þekkingu. Öll þessi hugtök vekja þó upp nýjar spurningar. Úr hverju þekking samanstendur og hvaða þekking er æskileg eru til dæmis aðrar spurningar og flóknari. Margir hafa gert tilraunir til að skilgreina menntun með ýmsum hætti, jafnt innan alþjóðlegra mannréttindafræða[8] og víðar.

 

Ítarlegasta ákvæðið um markmið menntunar barna, sem finna má í alþjóðasamningum, er 29. gr. Barnasáttmálans. Aðildaríki að sáttmálanum eru 190, fleiri en að nokkrum öðrum mannréttindasáttmála sem fjallar um efnið og af því má draga þá ályktun að samstaða sé um innihald hans. Aðrir sáttmálar útlista inntak hugtaksins ekki með jafnítarlegum hætti.[9]

Til baka í töflu

 

1. mgr. 29. gr Barnasáttmálans

1. Aðildarríki eru sammála um að menntun barns skuli beinast að því að:
   a) Rækta eftir því sem frekast er unnt persónuleika, hæfileika og andlega og líkamlega getu þess.
   b) Móta með því virðingu fyrir mannréttindum og mannfrelsi og grundvallarsjónarmiðum þeim er fram koma í sáttmála hinna Sameinuðu þjóða.
   c) Móta með því virðingu fyrir foreldrum þess, menningarlegri arfleifð þess, tungu og gildismati, þjóðernislegum gildum þess lands er það býr í og þess er það kann að vera upprunnið frá, og fyrir öðrum menningarháttum sem frábrugðnir eru menningu þess sjálfs.
   d) Undirbúa barn til að lifa ábyrgu lífi í frjálsu þjóðfélagi, í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, jafnréttis karla og kvenna og vináttu milli allra þjóða, þjóðhátta-, þjóðernis- og trúarhópa, og fólks af frumbyggjaættum.
   e) Að móta með því virðingu fyrir náttúrulegu umhverfi mannsins.

 

 

Þetta er því viðmiðið um menntun barna, en ekki verður farið nánar ofan í saumana á þessum atriðum hér. Þessi viðmið endurspegla það sem fram kemur í  2. mgr. 26. gr. MYSÞ og í 13. gr. SEFMR og fela ekki aðeins í sér áherslu á þroska hvers barns heldur einnig samfélagslegt hlutverk menntunar, sem er þáttur í því að móta virðingu einstaklinga fyrir hverjum öðrum og umhverfi sínu.

Til baka í töflu

 

MSE

MSE hefur verið talin gilda um öll stig menntunar, allt frá leikskóla til háskóla.[10]

 

Mannréttindasamningar Evrópuráðsins fjalla einungis að litlu leyti um réttinn til menntunar. Í 2. gr. 1. viðauka MSE segir:

 

2. gr. 1. viðauka MSE

Engum manni skal synjað um rétt til menntunar. Hið opinbera skal í öllum ráðstöfunum sínum, er miða að menntun og fræðslu, virða rétt foreldra til þess að tryggja það að slík menntun og fræðsla sé í samræmi við trúar- og lífsskoðanir þeirra.

 

 

Eins og ákvæðið ber með er lögð rík áhersla á réttinn til að kenna í MSE, þar á meðal til að stofna einkarekna skóla. Sá réttur er einnig verndaður í 4. mgr. 13. gr. SEFMR og í 2. mgr. 29. gr. Barnasáttmálans. Í báðum greinum segir að samningana skuli ekki túlka á þann veg að í þeim sé fólgin nein íhlutun í rétt manna og hópa til að koma á fót og stjórna menntastofnunum, enda sé annarra meginreglna gætt og lágmarkskrafna sem ríkisvaldið kann að gera til menntunar sem slíkar stofnanir veita.

 

Dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu sýnir að MSE hefur ekki verið túlkaður á þann veg að ríkjum beri jákvæð skylda til að byggja nýja skóla og sjá til þess að allir fái kennslu, heldur aðeins að engum sé synjað um aðgang að þeim menntastofnunum sem til staðar eru. [11] Ekki hefur verið litið svo á að ríkisvaldið verði nauðsynlega sjálft að reka menntastofnanirnar, heldur einungis að sjá til þess að þjónustan sé veitt, án mismununar.  

 

Sumir hafa talið dómaframkvæmdina hníga í þá átt að ekki hafi verið ætlunin ,,að ákvæðið gengi lengra en að tryggja réttinn til að kenna. Hafa samningsaðilarnir því fyrst og fremst undirgengist að tryggja öllum innan sinna vébanda rétt til aðgangs að menntastofnunum sem eru til á hverjum tíma á þeirra vegum."[12]

 

Þessi túlkun stenst ekki að öllu leyti, að minnsta kosti ekki hvað skyldunám varðar. Réttinn til menntunar samkvæmt MSE verður að skilja svo, að um skyldunám gildi að ríkið verði að bjóða upp á einhvers konar lágmarksmenntun.[13] Ef svo væri ekki væri rétturinn til menntunar, sem er yfirskrift ákvæðisins, ekki allra. Einnig verður að hafa hugfast að nánast öll ríki sem fullgilt hafa MSE eru jafnframt aðilar að SEFMR[14] og öðrum sáttmálum sameinuðu þjóðanna sem áskilja berum orðum að skyldunám skuli vera fyrir alla og ókeypis. Þetta verður ekki öðruvísi skilið en á þann hátt að ríkið verði með jákvæðum hætti að sjá börnum fyrir lágmarksmenntun ef þau hafa ekki tök á að nýta sér einkareknar stofnanir, af fjárhagslegum, félagslegum eða öðrum ástæðum. Í máli Blom gegn Svíþjóð sem rekið var fyrir Mannréttindanefnd SÞ[15] hafnaði Mannréttindanefndin á hinn bóginn að í því fælist mismunun gagnvart börnum í einkaskólum (eða foreldrum þeirra) að ríkið styrkti ríkisskóla sérstaklega með þjónustu á borð við flutning til og frá skóla, máltíðir á skólatíma, námsgögn  o.fl. Rök nefndarinnar voru þau, að þjónustan sem veitt væri af ríkinu, stæði öllum til boða, líka þeim sem kosið höfðu einkaskóla.

 

Áhersla MSE er engu að síður fyrst og fremst á hinni neikvæðu skyldu ríkja, til að sjá til þess að allir eigi jafnan aðgang að menntun og að leyfa einstaklingum að reka eigin menntastofnanir[16] og til að skipta sér ekki af trúarlegri, siðferðilegri og heimspekilegri sannfæringu sem foreldrar vilja innræta börnum sínum.  Annar málsliður greinarinnar vísar því sérstaklega til foreldranna sem handhafa réttinda, en ekki til barnanna.

 

Menntun barna byggir ávallt á jafnvægi milli réttinda foreldra og réttinda barna.[17] Að sama skapi byggist hún á jafnvægi á milli valds foreldra og valds ríkisins yfir velferð barnanna.[18]

 

Skyldunámið þjónar að hluta þeim tilgangi að vernda börn, meðal annars gegn eigin foreldrum, sem gætu séð sér hag í því, til dæmis, að láta börn sín vinna í stað þess að senda þau í skóla. Hagsmunir barna hafa forgang ef árekstur verður og hafa aðildarríki svigrúm til mats varðandi reglur um menntun barna og skipulag náms. Ákvæði samninganna veita einnig foreldrum vernd gegn alræði ríkisins og stjórn yfir börnum þeirra.  Líkt og í 2. gr. 1. viðauka MSE er trúarlegri, siðferðilegri og heimspekilegri sannfæringu foreldra veitt vernd í 3. mgr. 26. gr.  MYSÞ, 3. mgr. 13. gr. SEFMR  og 4. mgr. 18. gr. SBSR.

 

Í máli Campbell og Cosans gegn Bretlandi skilgreindi MDE hvað felst í hugtakinu: ,,heimspekileg sannfæring". Þar sagði, að undir hugtakið falli sannfæring sem er þessleg að hana beri að virða í lýðræðissamfélagi og stríðir ekki gegn mannlegri reisn.[19] Lægri viðmiðunarmörk eru þau að meira en skoðun eða álit (t.d. um hvernig best sé að haga menntun fatlaðra barna) þarf að koma til; heimspekileg eða trúarleg sannfæring hefur dýpri rætur en afstaða eða skoðun. Ljóst er að slík sannfæring kann að eiga sér menningarlegar rætur, rétt eins og trúarsannfæring, og því hættara við að réttindi minnihlutahópa, líkt og útlendinga, verði fyrir borð borin. Hvers kyns trúboð í almenna menntakerfinu er til að mynda andstætt öllum tilvitnuðum sáttmálum.

 

Ákvæðið felur ekki í sér skyldu ríkisins til að bjóða upp á tiltekna menntun, t.d. skóla sem reknir eru samkvæmt tilteknum trúar- eða heimspekikenningum, en aðildarríkjum ber að virða  heimspekilega og trúarlega sannfæringu fólks innan þess kerfis sem er við lýði. Sú skylda getur einnig falið í sér jákvæðar skyldur ríkisins við skipulagningu námskerfis, fjárveitingu og ábyrgð. Þannig er ekki hægt að vísa ábyrgð á menntun barna  alfarið til hópa fólks sem setja upp skóla sem fylgja ákveðnum heimspekilegum eða trúarlegum viðhorfum; ábyrgð ríkisins getur tekið til starfsemi slíkra skóla ef reynir á ákvæði um mannréttindavernd.

 

Þá felur ákvæðið ekki í sér rétt til að kjósa kennslu á ákveðnu tungumáli að eigin vali. Á hinn bóginn getur það brotið gegn  2. gr. 1. viðauka MSE og 14. gr. ef um það er að ræða að börn njóti ekki menntunar vegna þess að viðeigandi menntun sé ekki aðgengileg á tungumáli sem þau skilja (Sjá Kýpur gegn Tyrklandi).[20] (sjá frekari umfjöllun í IV B-3).

Til baka í töflu

 

14. gr. MSE

 Í 14. gr. MSE er almennt ákvæði um bann við mismunun, sem tengist beitingu efnisákvæða samningsins. Ítarlegra ákvæði, sem varðar beinlínis menntun, er að finna í Alþjóðasamningi um afnám alls kynþáttamisréttis (CERD), í 5. gl. e-liðs 5. gr. Þá segir í 7. gr.[21]

 

7. gr. CERD

Aðildarríki skuldbinda sig til að gera skjótar og raunhæfar ráðstafanir, sérstaklega á sviði kennslu, menntunar, menningar og upplýsinga, í því skyni að berjast gegn fordómum sem leiða til kynþáttamisréttis og að efla skilning, umburðarlyndi og vináttu á milli þjóða og kynþáttahópa eða þjóðlegra hópa, samhliða því að kynna markmið og meginreglur sáttmála Sameinuðu þjóðanna, mannréttindayfirlýsingarinnar, yfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna um afnám alls kynþáttamisréttis og samnings þessa.

 

Önnur ákvæði sem vernda sérstaka hópa, t.a.m. fatlaða, eru m.a. yfirlýsing um rétt fatlaðra (Declaration on the Rights of Disabled Persons) frá 1975 og nýrri samningur SÞ um réttindi fólks með fötlun. Í 24. gr. þess samnings er mælt fyrir um rétt fatlaðra til menntunar, m.a. bann við mismunun og skyldu til að aðstoða fatlaða, þ.m.t. réttur til endurgjaldslauss grunn- og framhaldsnáms. Samningurinn hefur verið undirritaður af Íslandi.  Í 23. gr. Barnasáttmálans, kemur fram í 3. mgr. að aðildarríki skuli tryggja rétt fatlaðra barna til aðgangs að menntun og til að njóta menntunar, að teknu tilliti til hinna sérstöku þarfa þeirra og að teknu tilliti til kostnaðar, en ekki er skilyrðislaus krafa um að menntun eða þjálfun fatlaðs barns eða önnur aðstoð við það sé veitt án endurgjalds.[22]

Til baka í töflu

 

FSE

Tvö ákvæði FSE skipta máli varðandi menntun, 7. gr. og 10. gr. sem varðar starfsþjálfun.

 

7. gr. FSE

7. gr. Réttur barna og ungmenna til verndar.
Í því skyni að tryggja, að réttur barna og ungmenna til verndar sé raunverulega nýttur, skuldbinda samningsaðilar sig til:

   1. að sjá um, að lágmarksaldur til ráðningar í starf sé 15 ár að tilskildum undanþágum fyrir börn, sem vinna tilgreinda létta vinnu, sem ekki er skaðleg heilsu þeirra, siðgæði eða menntun,
   2. að sjá um, að hærri aldursmörk verði sett til ráðninga í ákveðin störf, sem álitin eru hættuleg eða óholl,
   3. að sjá um, að fólk, sem enn er við skyldunám, verði ekki ráðið í vinnu, sem hindrað gæti það í að njóta námsins til fulls,
   4. að sjá um, að vinnutími fólks yngra en 16 ára sé takmarkaður samkvæmt þörf þess til þroska, og sérstaklega í samræmi við þörf þess á starfsþjálfun,

 

 

10. gr. FSE

 

 

10. gr. Réttur til starfsþjálfunar.
Í því skyni að tryggja, að réttur til starfsþjálfunar sé raunverulega nýttur, skuldbinda samningsaðilar sig til:
   1. að sjá fyrir eða stuðla að tækni- og starfsþjálfun alls fólks, þ. á m. fatlaðra, eftir því sem þörf krefur og í samráði við samtök vinnuveitenda og verkafólks, og að veita aðstöðu til aðgangs að æðri tækni- og háskólamenntun, sem grundvallast eingöngu á hæfni einstaklingsins,
   2. að sjá fyrir eða stuðla að því, að komið verði á fót þjálfunarkerfi og öðrum kerfisbundnum ráðstöfunum til að þjálfa unga drengi og stúlkur í hinum ýmsu störfum þeirra,
   3. að sjá fyrir eða stuðla að, eftir því sem þörf krefur:
   a) nægri og aðgengilegri þjálfunaraðstöðu fyrir fullorðið verkafólk,
   b) sérstakri aðstöðu til endurþjálfunar fullorðins verkafólks, sem þörf er á vegna tækniþróunar eða nýrrar stefnu í atvinnumálum,
   4. að hvetja til fullrar nýtingar á þeim möguleikum, sem fyrir hendi eru, með viðeigandi aðgerðum, svo sem:
   a) lækkun eða niðurfellingu hvers kyns gjalda,
   b) veitingu fjárhagsaðstoðar í viðeigandi tilvikum,
   c) að fella inn í venjulegan vinnutíma þann tíma, sem notaður er til framhaldsþjálfunar starfsmanns samkvæmt ósk vinnuveitanda,
   d) að tryggja með nægu eftirliti, í samráði við samtök vinnuveitenda og verkafólks, að árangur af námi og annarri þjálfun ungs verkafólks verði eins mikill og unnt er, og að ungt verkafólk yfirleitt njóti nægrar verndar.

 

 

Ísland er ekki bundið af þessum greinum samkvæmt fyrirvara sem gerður var við fullgildingu samningsins.

Til baka í töflu

 

Tilvísanir


[1] Smith, bls. 326.

[2]  Nowak, bls. 245 og áfram.

[3] Alfreðsson, bls. 273-289.

[4] Committee on Eonomic, Social and Cultural Rights (ECOSOC), Report on the eighteenth and nineteenth sessions.  http://www.un.org/esa/documents/ecosoc/docs/1999/e1999-22.htm

[5] Sjá ákvörðun 1998/33 og framlenging starfstíma með ákvörðun 2008/04. Nú gegnir stöðunni Vernor Munoz Villalobo. http://www2.ohchr.org/english/issues/education/rapporteur/index.htm

[6] Preliminary report of the Special Rapporteur on the right to education, Ms. Katarina Tomasevski, submitted in accordance with Commission on Human Rights resolution 1998/33. ODS file E/CN.4/1999/49.

[7] Sjá Beiter, bls. 116.

[8] Sjá  t.d. Nowak bls. 251;  Smith bls. 330.

[9] Sjá t.d. 2. mgr. 30. gr. MYSÞ og 13. gr. SEFMR.

[10] Sjá dóm MDE í Belgísku
tungumáladeilunni
,  (dómur 23. júlí 1968) . ,,Þó að Mannréttindadómstóllinn og Mannréttindanefndin hafi einkum fengist við mál sem varða menntun á grunnskólastigi hefur engu að síður almennt verið litið svo á að hugtakið taki til grunnskólanáms, framhaldsnáms og æðri menntunar eða háskólastigs,  bls. 511.

[11] Nowak, bls. 254

[12] Þorsteinsdóttir, bls. 511.

[13] Van Dijk o.fl., bls. 899

[14] Andorra virðist í fljótu bragði eina aðildarríkið að MSE sem ekki hefur jafnframt fullgilt SEFMR.

[15] Mál nr. 191/1985. Sjá einnig í III D-3

[16] Sjá ummæli í dómi MDE í máli Kjeldsen, Busk Madsen og Pedersen gegn Danmörku, (dómur 7. desember 1976), 50. mgr.

[17] Smith, bls. 326.

[18] Oft virðast börnin, sem eru hin skólaskyldu, hafa minnst um nám sitt að segja. Flestir myndu eflaust fallast á að sú tilhögun sé eðlileg í ljósi þess að börn hafa yfirleitt ekki andlegan þroska á við fullorðna, og þau skortir hæfileika til að geta skipulagt líf sitt fram í tímann. En sumir telja að velta megi því fyrir sér, hvort börn eigi sjálf ekki að hafa meira um skyldumenntun sína að segja. Sjá þessi sjónarmið t.d. í Nowak, bls. 262-263.

[19] Dómur MDE í máli Campbell og Cosans gegn Bretlandi (dómur 25. febrúar 1982), 36. mgr.

[20] Kýpur gegn Tyrklandi (dómur 10.maí 2001).

[21] Sjá einnig 11. og 18. mgr. í Almennri athugasemd nr . 1 nefndar um réttindi barnsins. Sjá hér.

[22] Úr íslenskri réttarframkvæmd sjá til hliðsjónar Hrd
nr.177/1998
og UA 2285/1998.

Til baka í töflu

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is