IV B-2 Nokkur álitaefni um menntun og útlendinga

Til baka í efnisyfirlit IV hluta

 Réttindi  Sáttmálar  Íslensk lög  Dómar, úrskurðir, álit UA

Íslenskur réttur
og nokkur álitaefni um stöðu útlendinga:

 

 

 

Aðgangur að leikskóla

 -

Lög um leikskóla
nr. 90/2008

 

Skyldunám í
grunnskóla

 

1. mgr. 26. gr. MYSÞ

13. gr. SEFMR

1.
mgr. 28. gr. Barnasáttmála

7. gr. FSE*

 

*ATH. Ísland ekki bundið af 7. gr.

Lög um grunnskóla nr. 91/2008

 

 

Aðgangur að
framhalds- og háskólanámi

 

B-liður 2. mgr. 13. gr. SEFMR

26. gr. MYSÞ

C-liður 2. mgr. 13. gr. SEFMR

 

Lög um framhaldsskóla nr. 92/2008.

19. gr. laga um háskóla nr.
63/2006
.

13. gr. laga um LÍN nr. 21/1992.

 

 

UA 1805/1996

UA 3042/2000

 

 

76. gr. STS gildir, líkt og önnur mannréttindaákvæði hennar, um alla sem dvelja á íslensku yfirráðasvæði. Hið sama gildir um þær skuldbindingar sem Ísland hefur tekist á hendur, varðandi menntun, í formi alþjóðlegra mannréttindasamninga.

 

Útlend börn á skólaskyldualdri eiga því rétt á aðgangi að hérlendum grunnskólum, og þeim er raunar skylt að sækja þá. Um framhaldsmenntun og menntun á háskólastigi gildir að útlendingar skuli hafa sama aðgang að þeim menntastofnunum sem í boði eru. Enn fremur hefur íslenska ríkið tekist á hendur að viðhalda lágmarksmenntun allra sem hér á landi dveljast og á það einnig við um fullorðið fólk sem farið hefur á mis við slíka menntun í æsku. Tungumálaörðugleikar, menningarlegur og trúarlegur mismunur eru þó á meðal þess sem getur gert útlendingum erfiðara fyrir að nýta þessi réttindi sín.

Til baka í töflu

 

Aðgangur að leikskóla

Ekki virðast gerðar neinar sérstakar takmarkanir á leikskólavist barna af útlendu foreldri. Í lögum um leikskóla nr.90/2008 segir  í 22. gr. að börn á leikskólaaldri, sem þurfa sérstaka aðstoð og þjálfun, eiga rétt á henni innan leikskólans undir handleiðslu sérfræðinga. Þótt ekki sé vikið að því sérstaklega í greinargerð með frumvarpinu myndu líklega börn sem ættu erfiðara með aðlögun vegna framandi tungumáls og menningar falla hér undir.

 

Alþjóðasamningar sem íslenska ríkið hefur undirritað fjalla ekki sérstaklega um leikskólamál.

Til baka í töflu

 

Skyldunám í grunnskóla

Rétturinn til menntunar er í hópi fárra mannréttinda sem leggja samsvarandi skyldu á einstaklinginn, að hann nýti sér þau. Ein leið til að byggja undir jöfn tækifæri allra, er ókeypis menntun og almenn skólaskylda.[1] Þess vegna er kveðið á um að menntun barna skuli vera ókeypis og að á börnum skuli hvíla skólaskylda í 1. mgr. 26. gr. MYSÞ,  a-lið 2.mgr. 13. gr. SEFMR og a-lið 1. mgr. 28. gr. Barnasáttmálans.

 

Á Íslandi er almenn skólaskylda barna. Ákvæði 2. mgr. 76. gr. STS tekur til allra sem búa Íslandi, óháð ríkisborgararétti. Útlend börn sem búsett eru hér á landi eiga því bæði ótvíræðan rétt til menntunar og eru jafnframt skólaskyld.

 

Í 5. gr. laga um grunnskóla nr. 91/208 segir að rekstur grunnskóla sé á ábyrgð og kostnað sveitarfélaga fyrir öll börn á aldrinum 6 til 16 ára skulu sækja grunnskóla. Ótvírætt er að þessi skylda sveitarfélaganna nái einnig til menntunar barna sem eru útlendingar. Í 3. mgr. 24. gr. laganna er sérstök jafnræðisregla sem á að tryggja að komið sé í veg fyrir mismunun, m.a. vegna uppruna. Samkvæmt þessu er skýr réttur barna, að þau hljóti almenna menntun, samkvæmt 76. gr. STS og grunnskólalögum.  Þeim ber jafnframt skylda til að sækja grunnskóla, um tíu ára skeið, frá sex ára aldri, sbr. 5. gr. grunnskólalaga. Í 19. gr. laganna er umsjón með skólaskyldu barns lögð á herðar forráðamanna þess.

 

Um  76. gr. STS, sbr. 14. gr. laga nr. 97/1995, segir í greinargerð með frumvarpi:  ,,tryggingin, sem er ætlast til að þessi regla veiti, er einkum sú að ekki megi útiloka neinn frá almennri menntun með reglum um fjöldatakmarkanir eða samsvarandi hindranir við námi, auk þess að engan mætti útiloka frá almennri menntun með því að áskilja greiðslu skólagjalda fyrir hana."[2] Í frumvarpinu er enn fremur vísað til 13. gr. SEFMR og 27. gr. Barnasáttmálans. 

 

76. gr. STS eftirlætur löggjafanum nánari framkvæmd þess að efni til. Nokkrir þeirra alþjóðlegu mannréttindasamninga sem Ísland er aðili að, fjalla nánar um útfærslu réttarins til menntunar, hvað varðar skólaskyldu.

Til baka í töflu

 

 Aðgangur að framhalds- og háskólanámi

Í skýringum með 76. gr. STS segir að orðalagið ,,almennt nám" taki til annars náms en háskólanáms eða sérhæfðs framhaldsnáms. Vernd ákvæðisins beinist því fyrst og fremst að skyldunámi, en einnig að almennu námi í framhaldsskóla. Um framhaldsskólanám virðast því einnig gilda reglur um bann við fjöldatakmörkunum eða áskilnað um greiðslu skólagjalda (þótt ekki sé þar með girt fyrir stofnun einkaskóla, eins og áður er rætt). Þetta er í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasáttmálum.

 

Í 26. gr. MYSÞ er sérstaklega minnst á aðgang allra að allri framhaldsmenntun:

Hver maður á rétt til menntunar. Skal hún veitt ókeypis, að minnsta kosti barnafræðsla og undirstöðumenntun. Börn skulu vera skólaskyld. Iðnaðar- og verknám skal öllum standa til boða og æðri menntun vera öllum jafnfrjáls, þeim er hæfileika hafa til að njóta hennar.

 

Í b-lið 2. mgr. 13. SEFMR segir að til að framfylgja réttinum til menntunar:  ,,skuli framhaldsmenntun í hinum ýmsu myndum, þar á meðal tækni- og iðnframhaldsmenntun, gerð öllum tiltæk og aðgengileg með öllum tilhlýðilegum ráðum og einkum með því að koma á ókeypis menntun í áföngum." og í c-lið segir að æðri menntun skuli ,,gerð öllum jafn aðgengileg á grundvelli hæfni með öllum tilhlýðilegum ráðum og einkum með því að koma á ókeypis menntun í áföngum."

 

Skyldu ríkisins til að sjá mönnum fyrir menntun sleppir samkvæmt samningunum að grunnmenntun lokinni. Þegar ofar er komið leggja hinir viðeigandi samningar fremur áherslu á jöfn tækifæri allra til að stunda áframhaldandi nám og þar af leiðandi notkun hlutlægra mælikvarða þegar framboð af námsplássum er takmarkað.  2. gr. 1. viðauka MSE  veitir öllum jafnan aðgang að stofnunum á öllum stigum menntakerfisins. Þar með er þó ekki sagt að ekki megi setja ákveðin skilyrði fyrir umsókn, inngöngu, lengd náms og fleira. Greinin girðir með öðrum orðum ekki fyrir sanngjarna samkeppni í námi, nema hvað varðar skyldunám.[3] Aðalatriðið varðandi framhaldsmenntun er að allir eigi jafnan aðgang á grundvelli verðleika sinna.[4]  

Til baka í töflu

 

Á Íslandi standa framhaldsskólar og háskólar útlendingum til boða, með sama hætti og Íslendingum. Samkeppnisstaða þeirra útlendu nemenda, sem ekki hafa fullt vald á íslenskri tungu, er þó skert, eins og gefur að skilja. Að undanförnu hafa þó verið boðnar fram námsbrautir í framhaldsskólum landsins, þar sem kennt er á ensku (sjá t.d.IB-studies í MH og sérstakar námsbrautir fyrir erlenda nemendur í FB, MK, FÁ og Iðnskólanum).

 

Svipuð þróun hefur átt sér stað innan háskólanna. Sumt háskólanám fer að fullu fram á ensku, einstök námskeið og námsefni er einnig að finna á ensku og í mörgum tilvikum er mögulegt að skila verkefnum og þreyta próf á ensku. Slíkt ætti að jafna stöðu útlendinga í samkeppni við Íslendinga í háskólanámi.

 

Sem fyrr segir, er framhaldsskólanám almennt ókeypis, en nemendur verða að greiða skrásetningargjöld og greiða fyrir eigin bóka- og efniskostnað. Nemendur í framhaldsskóla geta sótt um að vera á framfæri foreldra sinna til 20 ára aldurs, í stað 18 ára.[5]

 

Útlendir nemendur sitja því við sama borð og íslenskir þegar kemur að framhaldsskólanámi, ef litið er framhjá tungumálaörðugleikum sem kunna að hrjá einhverja þeirra vegna ófullkominnar íslenskukunnáttu.

 

Ekki er sömu sögu að segja um hina fjárhagslegu hlið þess að stunda háskólanám sem útlendingur. Krafa um íslenskan ríkisborgararétt er meginregla 13. gr. laga um lánasjóð íslenskra námsmanna nr. 21/1992[6] um skilyrði fyrir veitingu láns, önnur en þau er lúta að náminu sjálfu. Einnig geta slegið námslán Norrænir ríkisborgarar sem búa á Íslandi, eru skráðir í háskóla og þiggja ekki aðstoð frá heimalandi sínu, sem og námsmenn sem eru borgarar ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu og teljast farandlaunþegar[7] Hið sama gildir um nánustu fjölskyldu farandlaunþega innan EES.  EES-útlendingar  sem starfa ekki sem launþegar eða sjálfstæðir atvinnurekendur á Íslandi, og fjölskyldur þeirra, öðlast fyrst rétt til námslána eftir fimm ára samfellda búsetu á Íslandi. Í máli finnskra ríkisborgara sem komu fyrir Umboðsmann Alþingis reyndi á reglur EES-samningsins og norrænar reglur um fjárhagslega aðstoð. Komst Umboðsmaður að þeirri niðurstöðu í máli nr.1805/1996 að skýra bæri innlendar reglur til samræmis við þjóðréttarlegar skuldbindingar og gerði athugasemdir við endurupptöku málsins hjá stjórnvöldum sem leiddi til neikvæðrar niðurstöðu um beitingu EES-reglna. Með sama hætti voru athugasemdir gerðar við röksemdafærslu málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna í máli nr. 3042/2000, en nefndin hafnaði því að EES-reglur leiddu til þeirrar niðurstöðu að finnskur ríkisborgari ætti rétt á námsaðstoð erlendis án teljandi rökstuðnings.

 

Sérreglur gilda um flóttamenn, en í sumum tilvikum hefur verið litið svo á að þeir hafi sömu stöðu og íslenskir ríkisborgarar. Aðrir útlendingar, sem eru viðfangsefni þessarar könnunar, eiga samkvæmt lögunum ekki kost á námslánum á Íslandi, óháð búsetutíma. Í 5. mgr. 13. gr. laganna er þó gerð sú undanþága að menntamálaráðherra getur sett reglur um rétt íslenskra og erlendra ríkisborgara til námslána á Íslandi og erlendis, þar á meðal vegna þjóðréttarlegra skuldbindinga. Þessa undanþáguheimild virðist ráðherra ekki hafa nýtt.

Til baka í töflu

Tilvísanir


[1] Nowak, bls. 253.

[2] Alþt. A. 1994, bls. 2210.

[3] Van Dijk o.fl., bls. 898.

[4] Smith, bls. 328.

[5] Sjá heimasíðu Alþjóðahússins.

[6] Lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

[7] Sbr. ákvæði reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1612/68 um frelsi launþega til flutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins, með síðari breytingum, sbr. 1. gr. laga nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins. Sjá nú einnig tilskipun 2004/38 sem kemur að hluta í stað fyrrnefndrar reglugerðar.

Til baka í töflu

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is