IV B-3 Íslenskukennsla og fullorðinsfræðsla

Til baka í efnisyfirlit IV hluta

 

 Réttindi  Sáttmálar  Íslensk lög  Dómar,úrskurðir, álit UA

Íslenskukennsla
og fullorðinsfræðsla

 

30. gr. Barnasáttmála

2. gr. UNESCO-sáttmála
gegn mismunun í menntakerfinu

2. gr. Menningarsáttmála
Evrópu

(ME)

 

36. gr. laga um grunnskóla nr.
66/1995.

 

20. gr. laga um framhaldsskóla nr. 80/1996.

Rgl.
um íslenskukennslu nemenda með annað móðurmál en íslensku 391/1996
.

Rgl.
um sérstaka íslenskukennslu í framhaldsskólum 329/1997
.

9. gr. laga um atvinnuréttindi
útlendinga nr. 97/2002
,  um íslenskukennslu
fyrir fólk með atvinnuleyfi.

MDE

Belgíska tungumáladeilan

 

Tungumálið er stór hluti menningar. Færni í íslensku nýtist útlendingum sem hyggjast búa í íslensku samfélagi með ýmsum hætti.

 

Meirihluti útlendinga sem komið hefur hingað til lands á undanförnum árum eru fullorðnir einstaklingar í atvinnuleit.  Ekki eru gerð skilyrði um íslenskukunnáttu við veitingu tímabundins dvalarleyfis eða atvinnuleyfis. Í 14. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002 er kveðið á um skyldu atvinnurekanda og stéttarfélaga til að veita starfsmanni með tímabundið atvinnuleyfi upplýsingar um grunnnámskeið í íslensku fyrir útlendinga, samfélagsfræðslu og aðra þá fræðslu sem honum og fjölskyldu hans stendur til boða.

 

Aftur á móti er skilyrði fyrir veitingu búsetuleyfis (ótímabundins dvalarleyfis), samkvæmt 15. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002,  að umsækjandi hafi sótt námskeið í íslensku fyrir útlendinga. Nánar er kveðið á um slík námskeið[1] í greininni[2] og í 50. gr. reglugerðar um útlendinga  nr. 53/2003.[3] Í reglugerðinni sem sett er á grundvelli laganna segir: ,,Þeim sem heldur námskeið eða próf skv. 1. og 2. mgr. er heimilt að krefja umsækjanda um gjald vegna námskeiðs, prófs og útgáfu vottorðs." Ekki eru sett nein viðmiðunarmörk fyrir slíkri gjaldtöku.

 

Að öðru leyti er rétt að taka það fram, varðandi menntun fullorðinna, að hvorki rétturinn til menntunar né rétturinn til mannréttindafræðslu er takmarkaður við börn. Rétturinn til menntunar getur því lagt þá skyldu á ríki, að þau sjá til þess að fullorðið fólk njóti einnig lágmarksmenntunar, sé læst og kunni skil á tölum.[4] Í d-lið 2. mgr. 13. gr. SEFMR er tekið fram að hvatt skuli til undirstöðumenntunar og hún aukin eins og mögulegt er fyrir þá sem hafa ekki hlotið eða lokið öllu skeiði barnafræðslu.

Til baka í töflu

 

Í FSE er einungis fjallað um menntun í tengslum við starfsþjálfun, sbr. 10. gr. Er áherslan þar lögð á fullorðið fólk.

 

Rétturinn til menntunar samkvæmt MSE leiðir ekki til þess að útlendingar eigi rétt á menntun á sínu eigin tungumáli. Rétturinn tekur einungis til óhefts aðgangs að þeim menntastofnunum og því námi sem í boði er fyrir, en leggur ekki þá skyldu á herðar ríkinu að bregðast við sérþörfum hvers og eins, að þessu leyti. Aðrir alþjóðlegir mannréttindasamningar gera svipaðar kröfur. Á hitt er hins vegar að líta, að útlendingar, sem ekki tala tungumálið sem kennt er á, geta ekki nýtt sér rétt sinn til menntunar nema að þeim sé sérstaklega kennt tungumálið. Því hefur verið talið að þeir verði að eiga rétt á sérkennslu í tungumálinu. Þetta á hið minnsta við um útlendinga á skyldunámsstigi.[5] Slík sérkennsla er boðin þeim nemendum sem ekki tala góða íslensku af ýmsum ástæðum jafnt í grunnskóla[6], sbr. rgl. um íslenskukennslu nemenda með annað móðurmál en íslensku 391/1996. og í framhaldsskóla, sbr. rgl. um sérstaka íslenskukennslu í framhaldsskólum 329/1997.

 

2. gr. UNESCO-sáttmála gegn mismunun í menntakerfinu, sem Ísland hefur ekki undirritað, heimilar hópum sem tala annað tungumál en opinbert tungumál ríkis og hópum sem aðhyllast aðra trú en hina ríkjandi, svo annað dæmi sé tekið, að hljóta sérkennslu.[7] Þessi réttur er tryggður útlendingum hér á landi, samanber það sem áður hefur verið sagt um réttinn til að kenna. Slík kennsla er þó háð einkaframtaki.[8] Ekkert er því til fyrirstöðu að börn hljóti sérkennslu utan hinna ríkisreknu grunnskóla og réttur barna til að nota eigið móðurmál er að öðru leyti tryggður, sbr. 30. gr. Barnasáttmála, meðal annars, en sé hins vegar ætlunin að stofna einkarekinn grunnskóla, verður engu að síður að fylgja lögum, reglugerðum menntamálaráðuneytisins og aðalnámskrá grunnskóla, sbr. 43. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008. Ríkinu hefur ekki verið talið skylt samkvæmt MSE,  að greiða sérstaklega með skólum sem vilja kenna á öðru tungumáli en ríkistungumálinu eða með öðrum sérstökum menntastofnunum.[9]

Til baka í töflu

 

Í Menningarsáttmála Evrópu er að finna mun veikari skyldur og leiðbeiningar um samráð ríkja Evrópuráðsins til að vernda samevrópskan menningararf, þ.á.m. tungumál, m.a. með því að stuðla að kennslu í tungumálum annarra samningsaðila og kennslu í eigin tungu á landssvæði annarra samningsaðila. Svipuð sjónarmið ráða stefnumótun innan ESB, og er þar um áætlanir og tilmæli að ræða, fremur en bindandi reglur.

 

Tilvísanir


[1] Íslenska ríkið hefur styrkt námskeið í íslensku fyrir útlendinga. Sjá t.d. um íslenskukennslu í á vegum Alþjóðahúss.

[2] Í 3. mgr. 15. gr. segir: ,,Dómsmálaráðherra setur reglur um námskeið í íslensku fyrir útlendinga skv. 1. mgr. Þar skal kveðið á um lengd námskeiðs, lágmarkstímasókn og vottorð til staðfestingar á þátttöku. Einnig er heimilt að kveða þar á um undanþágu frá þátttöku í námskeiði fyrir útlendinga sem náð hafa viðhlítandi þekkingu í íslensku og um próf því til staðfestingar. Þá er í reglugerðinni heimilt að kveða á um gjald vegna þátttöku í námskeiði eða prófi."

[3] Nánar er fjallað um skilyrði dvalar- og búsetuleyfis III B-2.

[4] Smith, bls. 326.

[5] Van Dijk o.fl. bls. 909.

[6]  Árið 2004, höfðu um 3,6% grunnskólanema annað móðurmál en íslensku, skv. tölum Hagstofu  frá 2004, óhætt er að álykta að sá fjöldi hafi vaxið síðan. 

[7] Smith, bls. 328.

[8]  Sjá 64. og 65. mgr. í ársskýrslu sérstaks skýrslugjafa um menntamál hjá ECOSOC 1999 um þetta álitaefni.

[9]  Van Dijk o.fl. bls. 901. 

 Til baka í töflu

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is