III D-2 Bann við mismunun við framkvæmd efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra réttinda

Til baka í efnisyfirlit III hluta

 

 Réttindi  Sáttmálar  Íslensk lög  Dómar, úrskurðir, álit UA

Bann við mismunun við framkvæmd efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra réttinda

 

2. gr. SEFMR

FSE

2. gr. Barnasáttmálans

 

Reglur ESB og EES

 

 

 

SEFMR

 

2. gr. SEFMR

2. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum takast á hendur að ábyrgjast að réttindum þeim sem greind eru í samningi þessum muni verða framfylgt án nokkurrar mismununar vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernisuppruna eða félagslegs uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.
3. Þróunarlönd mega ákveða, með tilhlýðilegu tilliti til mannréttinda og efnahags þjóða þeirra, að hvaða marki þau mundu ábyrgjast þau efnahagslegu réttindi sem viðurkennd eru í samningi þessum til handa þeim sem ekki eru þegnar þeirra.

 

Samningurinn bannar, eins og SBSR,  einnig sérstaklega mismunun á grundvelli kynferðis í 3. gr.

 

3. gr. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum takast á hendur að ábyrgjast jöfn réttindi til handa körlum og konum til þess að njóta allra þeirra efnahagslegu, félagslegu og menningarlegu réttinda sem sett eru fram í samningi þessum.

 

Alþjóðasamningurinn um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi  (SEFMR) tekur til allra einstaklinga en þó er óvissa um skýringu 2. gr. sem bannar mismunun. Þar sem þjóðerni er ekki talið upp þar berum orðum, verður sama óvissa um túlkun greinarinnar og áður hefur verið rakin (III D-1). Nefndin um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi(nefndin) hefur  farið hægt í að slá því föstu að mismunun á grundvelli þjóðernis sé bönnuð og skýrir Craven það svo að ríki séu almennt ekki viljug til að viðurkenna svo víðtækar skyldur eða takmarka ákvörðunarvald sitt í viðkvæmum málum.[1] Þá geta einnig verið málefnalegar ástæður fyrir greinarmun á grundvelli þjóðernis í ákveðnum tilvikum. Craven nefnir t.a.m. að mörg ríki tilkynni nefndinni mismunandi réttindi varðandi félagsleg réttindi eigin þegna og útlendinga, t.d. félagslegar tryggingar. Nefndin hefur þó í einhverjum tilvikum túlkað greinina þannig að hún taki til mismununar á grundvelli þjóðernis[2] og í almennri athugasemd um jafnrétti kynjanna (Almenn athugasemd nr. 16)  hefur nefndin lýst því að staða flóttamanna og farandlaunþega[3]  geti fallið undir „aðrar aðstæður." Einnig verður að hafa í huga að 26. gr. SBSR sem mælir fyrir um víðtæka jafnræðisreglu tekur til efnahagslegra og félagslegra réttinda (sjá III D-3).

Til baka í töflu

 

Í almennri athugasemd nr.  3  er tekið fram að ríki geti látið eigin þegna ganga framar útlendingum.[4] Þá heimilar 4. gr. SEFMR takmarkanir sem hafa þann tilgang að stuðla að velferð almennings í lýðfrjálsu þjóðfélagi, en þetta ákvæði getur leitt til mismunandi meðferðar gagnvart útlendingum.[5] Meginreglan er þó sú að ef greinarmunur er gerður eingöngu á grundvelli þjóðernis, og ekki eru aðrar málefnalegar forsendur fyrir þeim greinarmun, þyrfti mikið til að koma að fallast á hann. Eins og Craven heldur fram, verður að líta til þess að SEFMR tryggir öllum þau réttindi sem þar eru varin (með þröngum undantekningum) og verður því að gera ráð fyrir því að útlendingar njóti a.m.k. kjarna þeirra réttinda sem tryggð eru. Telur Craven að nefndin muni skoða það sérstaklega ef verulega hallar á útlendinga á einhverju sviði og komi ákvæði 2.gr. þá til skoðunar.

 

Ágreiningur hefur einnig verið um eðli þeirrar skyldu sem hvílir á aðildarríkjum að ábyrgjast réttindi án mismununar. Craven telur að um ríka skyldu sé að ræða sem feli í sér meira en stefnuyfirlýsingu, þ.e. að skylda til beinna aðgerða til að koma í veg fyrir mismunun felist í ákvæðinu. Vísar Craven til þess að þessi skýring hafi komið fram við gerð sáttmálans, sem og við gerð Limburg reglnanna.[6] Þá hefur nefndin ítrekað að ákvæði sáttmálans um bann við mismunun feli í sér beina skyldu, sem hægt sé að fá fullnægt, en sé ekki háð takmörkunum að því leyti að aðeins sé lögð á ríki skylda til að stuðla að því að jafnrétti náist eftir því sem kostur er.[7] Greinarmunur hefur þó verið gerður á formlegri mismunun ( mismunun að lögum (de jure)), sem bönnuð er þegar í stað og mismunun í raun (de facto) sem talið er að ríkjum beri skylda til að vinna gegn með stefnumótun.[8]

 

Ekki verður fjallað sérstaklega um vernd jafnræðisreglunnar á ákveðnum sviðum, s.s. í sáttmálum ILO, en fjallað er um þá sáttmála ILO sem Ísland á aðild að á viðeigandi stöðum í verkefninu. Sáttmálar ILO eru bygðir á meginreglunni um jafnrétti og hafa ýmsir sáttmálar ILO sérstaklega miðað að því að rétta stöðu erlends vinnuafls. Ísland á þó ekki aðild að mörgum þessarra sáttmála (sjá II B og IV A).

Til baka í töflu

 

FSE og Evrópuráðssamningar

Félagsmálasáttmáli Evrópu (FSE) hefur, í því formi sem Ísland á aðild að, ekki að geyma almennt ákvæði um bann við mismunun en formáli sáttmálans mælir fyrir um  framkvæmd réttinda þeirra sem tryggð eru „ án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, þjóðernis eða félagslegs uppruna."  Vafasamt er að þessi yfirlýsing taki til mismununar á grundvelli þjóðernis, eins og slík mismunun yrði ákvörðuð í samræmi við aðrar þjóðréttarlegar skuldbindingar, enda kemur fram í viðauka við FSE að ákvæði 1. - 17. gr. taki til ríkisborgara aðildarríkjanna; sambærileg sérákvæði eru í 12. og 13. gr. sem mæla fyrir um rétt ríkisborgara aðildarríkjanna til félagslegs öryggis og félagslegrar aðstoðar. Samningurinn er því byggður á gagnkvæmni og tekur ekki til allra útlendinga.

 

Ákvæði FSE, eftir endurskoðun, inniheldur ákvæði sem bannar mismunun (grein E), en Ísland hefur undirritað en ekki fullgilt FSE endurskoðaðan.  Þegar ákvæði FSE veita einstaklingum tiltekin félagsleg réttindi, verður því ávallt að hafa í huga að FSE nær ekki til allra útlendinga en er takmarkaður við nokkurs konar gagnkvæmni (þ.e. aðild að samningnum) að frátöldum 18. og 19. gr. (um farandlaunþega) sem eru bundnar við ríkisborgara aðildarríkja Evrópuráðsins án tillits til aðildar að FSE.  Sama er að segja um aðra samninga Evrópuráðsins (aðra en MSE) sem miða að gagnkvæmum réttindum fyrir þegna aðildarríkjanna og veita því ekki öðrum útlendingum vernd gegn mismunun.

 

Eins og fram kom í III D-1 veitir MSE vernd gegn mismunun á grundvelli þjóðernis að því er varðar þau réttindi sem falla innan gildissviðs samningsins (þ.m.t. réttur til félagslegra bóta sem fellur undir gildissvið samningsins um vernd eignaréttar).[9] Þá er ekki útilokað að 2. gr. (um réttinn til lífs) og 3. gr. (um bann við ómannlegri meðferð) gætu komið til skoðunar með 14. gr. að því er lýtur að réttinum til lágmarkslífskjara. MSE getur því veitt betri rétt að þessu leyti en ákvæði FSE, einkum þegar tekið er tillit til gagnkvæmnisjónarmiða sem FSE byggist á.

Til baka í töflu

 

Reglur ESB og EES

Jafnræðisregla kemur víða fyrir í samningnum um EB og ESB en sú jafnræðisregla sem þar er varin er ekki mannréttindaregla í öllum útfærslum.[10] Bann við mismunun á grundvelli þjóðernis (eða uppruna) tekur þannig m.a. til innfluttra vara (40.gr. StESB, áður 90. gr. Rs.) og ákvarðana um landbúnaðarstefnu sambandsins (110.gr. StESB, áður 34 gr. Rs.). Almennt bann við mismunun í 18.gr. StESB, áður 12. gr. Rs. er einnig bundið við persónulegt og efnislegt gildissvið samningsins og er nánar útfært í fjórfrelsisákvæðum Rs. (um frjálsa för vöru, þjónustu og fólks). Bann við mismunun á grundvelli þjóðernis gagnvart þegnum annarra ríkja ESB og EES er óheimil innan gildissviðs samningsins. Í dómum dómstóls ESB hefur þessi regla verið útfærð til að undirbyggja hugmyndina um ríkisborgararétt í sambandinu, þannig að 18. gr. StESB er beitt með 21. gr. (um frjálsa för) og 20. gr. (um ríkisborgararétt í sambandinu) og leiðir til þess að mismunun á grundvelli þjóðernis er óheimil í gistiríki (og stundum upprunaríki, þó að það sæti undantekningum).[11] Þessi dómaframkvæmd verður ekki rakin hér en ljóst er að ekki er um almenna jafnræðisreglu að ræða í þeim skilningi að hún sé sjálfstæð regla sem eigi við um öll réttindi og að hún sé algild og nái til allra.  

 

Það var fyrst með Amsterdamsamningnum (um breytingar á Rs. og samningnum um ESB 1999)  sem bandalaginu var í 13. gr. Rs. veitt heimild til að banna mismunun á öðrum grundvelli, þ.e. á grundvelli kynferðis, þjóðernisuppruna, trúarbragða, fötlunar, aldurs og kynhneigðar. Nú 19.gr StESB, með heimild í þeirri grein hefur verð sett afleidd löggjöf sem fjallað er um í  III D-4. Þessar reglur eru ótvírætt settar til verndar mannréttindum.

 

EES-samningurinn hefur að geyma jafnræðisreglu sambærilega við 18. gr. StESB. í 4. gr. samningins auk jafnræðisreglu sem gildir á innri markaðinum. 19.gr. StESB. á sér ekki samsvörun í EES-samningnum og ríkisborgararéttur nær ekki til EES. Þrátt fyrir það hafa afleiddar reglur á þessum sviðum verið teknar upp í samninginn. Með tilkomu Mannréttindaskrárinnar og Lissabon sáttmálans verður jafnræðisreglu gert enn hærra undir höfði en áður og eru þá líkur á því að reglan hafi áhrif á öllum þeim sviðum sem samningarnir taka til (og á það einnig við um EES-samninginn að breyttu breytanda, sbr. frekari umfjöllun í I C).

Til baka í töflu

 

Tilvísanir:

 

[1] Craven, bls 173. Nefndin hefur ekki tekið skýra astöðu til  3. mgr. 2. gr. SEFMR sem leyfir greinarmun á eigin þegnum og öðrum í þróunarríkjunum (Vandenhole, bls. 143).

[2] Cholewinski, bls. 57. Sjá einnig Vanenhole, bls. 143, þar sem vísað er til niðurstaðna nefndarinnar í málum sem varða félagsmálalöggjöf, menntun, heilbrigðismál  og búsetuleyfi og þar sem mismunun á grundvelli þjóðernis var tekin til athugunar.

[3] e. migrant status.

[4] Cholewinski,  bls. 57.

[5] Cholewinski, bls. 61.

[6] Limburg Principles, sjá Craven bls. 181.

[7] Vandenhole, bls. 64 og úrlausnir nefndarinnar sem þar er vísað til.

[8] Sjá Vandenhole, bls. 65, sem vísar til Limbourg reglnanna um þennan greinarmun.

[9] Sjá umfjöllun í III D-1.

[10] Sjá einnig frekari umfjöllun um kynjajafnrétti á vinnumarkaði í IV A, en reglur ESB um kynjajafnrétti eru tvímælalaust mannréttindareglur.

[11] Sjá frekar Guðmundsdóttir (Jafnræðisreglan) og sjá tilskipun 2004/38, sem útfærir jafnræðisregluna (tilskipun 2004/38 hefur verið tekin upp í EES-samninginn).

Til baka í töflu

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is