III D-3 Almenn jafnræðisregla og íslenskur réttur

Til baka í efnisyfirlit III hluta

 

 Réttindi  Sáttmálar  Íslensk lög  Dómar, úrskurðir, álit UA

Almenn jafnræðisregla og íslenskur réttur

26. gr SBSR

MSE (12. viðauki)

 

65. gr. STS

Íslenskur réttur

 

 

SÞ-nefnd

Broeks gegn Hollandi

Gueye gegn Frakklandi

Adam gegn Tékklandi

 

Dómar Hæstaréttar

Mál nr. 177/1998

Mál nr. 151/1999

Mál nr. 125/2000

 

 

 

26. gr. SBSR
Það er óumdeilt að eitt mikilvægasta ákvæði þjóðréttarsamninga sem tryggir jafnrétti er 26. gr. SBSR.

 

26. gr. Allir eru jafnir fyrir lögunum og eiga rétt á sömu lagavernd án nokkurrar mismununar. Lögin skulu því í þessu skyni banna hvers konar mismunun og ábyrgjast öllum mönnum jafna og raunhæfa vernd gegn mismunun svo sem vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernisuppruna eða félagslegs uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.

 

Ákvæði 26. gr. hefur að geyma víðtæka jafnræðisreglu sem, eins og orðalagið ber með sér,

(1)  bannar mismunun við framkvæmd og beitingu laga (allir eru jafnir fyrir lögunum);  í þessum þætti jafnræðisreglunnar felst fyrst og fremst formleg krafa um samræmi í beitingu laga, þ.e. sambærilegar aðstæður skulu fá sambærilega meðferð.

(2)  tryggir jafna lagavernd, en í því felst að við setningu laga verði að gæta að jafnræðisreglunni. Krafan beinist því að því að löggjafinn gæti þess við setningu reglna að jafnrétti sé tryggt og ekki sé um mismunun að ræða

(3)  leggur þá skyldu á ríkið að ábyrgjast öllum jafna og raunhæfa vernd gegn mismunun. (Almenn athugasemd nr. 18) Í slíkri skyldu felst því að beita eigi þeim aðferðum sem tækar eru (t.a.m. lagasetningu) til að tryggja að ekki sé um mismunun að ræða í samfélaginu. Skyldan hvílir á öllum þáttum ríkisvalds, löggjafarvaldi, framkvæmdarvaldi og dómsvaldi (Almenn athugasemd nr. 31[1]).  Einnig getur orðið um það að ræða að ríki beri að sjá til þess að ekki sé um mismunun að ræða í einkaréttarlegum samböndum.  Í almennri athugasemd nr. 28 er hnykkt á þessari skyldu varðandi jafnrétti kynja og í almennri athugasemd nr. 31  tók Mannréttindanefndin fram að þó að bein einkaréttarleg áhrif sáttmálans séu ekki viðurkennd nái skuldbindingar ríkja ekki tilgangi sínum nema að vernd sáttmálanna nái einnig til þess að vernda einstaklinga gagnvart aðgerðum annarra einstaklinga. Ef slíkt tekst ekki liggur ábyrgðin þó hjá ríkinu, en ekki hjá einstaklingum sem ganga gegn þessum réttindum. Í skyldunni til að ábyrgjast jafna lagavernd felst ekki sjálfkrafa skylda til jákvæðrar mismununar (e. affirmative action) sjá umfjöllun í  III D-4.

Til baka í töflu

 

Mikilvægi 26. gr. SBSR felst m.a. í því að samkvæmt langvarandi framkvæmd tekur greinin til allra þeirra réttinda sem mælt er fyrir um í lögum  - en greinin er ekki bundin við þau borgaralegu og stjórnmálalegu réttindi sem sáttmálinn tryggir. Þannig hefur Mannréttindanefndin staðfest að réttindi sem ekki eiga undir efnisákvæði sáttmálans - en sem falla í flokk efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra réttinda - falla undir 26. gr. SBSR. Í Broeks gegn Hollandi [2] var til umfjöllunar hollensk löggjöf á sviði félagmálalöggjafar.  Giftar konur áttu ekki rétt á atvinnuleysisbótum en giftir menn áttu slíkan rétt samkvæmt löggjöfinni. Þetta var talið brjóta gegn 26. gr. sem mismunun á grundvelli kynferðis. Fjöldi úrlausna Mannréttindanefndarinnar hefur staðfest niðurstöðuna í Broeks gegn Hollandi og hefur nefndin talið að ýmis efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi eigi undir ákvæðið, t.a.m eftirlaun[3]; laun vegna uppsagnar; atvinnuleysistryggingar, örorkubætur, styrkir vegna menntunar og barnabætur,[4] heilbrigðistryggingar og eignaréttur.[5]

 

Af úrlausnum Mannréttindanefndarinnar má draga þá ályktun að jafnræðisregla 26. gr. varði alla löggjöf sem sett er og öll svið þar sem stjórnvöld fara með ákvörðunar- og framkvæmdarvald. Greinin felur því í sér viðamikla tryggingu fyrir beitingu almennrar jafnræðisreglu. Þá er ljóst að mismunun á grundvelli þjóðernis getur fallið undir ákvæðið, þó að úrlausn á því hvort um brot á greininni sé að ræða fari eftir atvikum málsins. Í  Gueye gegn Frakklandi[6] reyndi á mismunandi eftirlaun hermanna eftir því hvort þeir voru franskir eða frá Senegal. Nefndin taldi að mismunun á grundvelli þjóðernis ætti undir 26. gr. sem „aðrar aðstæður".  Við mat á því hvort málefnalegar ástæður lægju því að baki að eftirlaunaréttur senegalskra hermanna var afnuminn er Senegal hlaut sjálfstæði taldi nefndin að þar væri ekki um málefnalegar ástæður að ræða, þar sem eftirlaunaréttur hermanna væri vegna þjónustu þeirra við franska herinn og sambærilegur við eftirlaunarétt franskra starfsbræðra þeirra. Þá var ekki talið að erfiðleikar við framkvæmd eftirlaunagreiðslanna gætu réttlætt mismunandi meðferð. Í Adam gegn Tékklandi[7] reyndi á eignarétt að landi sem hafði verið tekið eignarnámi af tékkneska ríkinu árið 1949. Með lögum frá 1991 var þeim sem tilkall áttu til eigna gert kleift að endurheimta þær, með því skilyrði að um væri að ræða tékkneska ríkisborgara sem væru búsettir í Tékklandi. Nefndin taldi að skilyrði um ríkisborgararétt væri ekki byggt á málefnalegum forsendum.  Karakurt gegn Austurríki (sjá III D-1) staðfestir einnig að mismunun á grundvelli þjóðernis getur átt undir 26. gr. SBSR.

 

Af 26. gr. SBSR verður einnig leidd skylda ríkja til að stuðla að menntun og skoðanamyndun um jafnrétti. Ekki er nóg að leiða í lög jafnan rétt og bann við mismunun, heldur ber ríkjum skylda til að fylgja þessum reglum eftir með öllum tiltækum úrræðum eftir (almenn athugasemd nr. 4 og almenn athugasemd nr.  31).[8]

Til baka í töflu

 

MSE

Í viðauka 12, 1. gr., hefur verið tekin upp almennt orðuð jafnræðisregla sem er, eins og 26.gr. SBSR, sjálfstæð regla um bann við mismunun að því er varðar öll lagaleg réttindi.

 

Í 1. gr. segir svo:[9]

1. Öll lagaleg réttindi skulu tryggð án nokkurrar mismununar svo sem vegna kynferðis, kynþáttar, litarháttar, tungu, trúarbragða, stjórnmála- eða annarra skoðana, þjóðernis eða þjóðfélagsstöðu, tengsla við þjóðernisminnihluta, eigna uppruna eða annarrar stöðu.

2. Enginn skal sæta nokkurri mismunun af hálfu opinberra aðila svo sem vegna þeirra ástæðna sem nefndar eru í 1. málsgrein.

 

Ekki er fjallað ítarlega um ákvæðið þar sem Ísland hefur ekki fullgilt 12. viðauka við MSE. Enginn vafi er á því að slíkt ákvæði, einkum ef það væri lögtekið eins og önnur efnisákvæði MSE, væri til þess fallið að hafa veruleg áhrif á stöðu útlendinga, þar sem það mælir fyrir um jafnan rétt og jafna vernd allra á öllum sviðum lögbundinna réttinda. Minna má þó á að túlkun MDE á 14. gr. MSE hefur stöðugt rýmkað og má gera ráð fyrir áframhaldandi þróun í sömu átt. Gera má ráð fyrir að 14. gr. MSE verði túlkuð í samræmi við 1. gr. 12. viðaukans að öðru leyti en því sem leiðir af því að gildissvið 14. gr. er bundið við að álitaefnið eigi undir efnissvið MSE.[10] Þá má benda á að stjórnarskrárákvæði sem verndar mannréttindi hefur verið túlkað til samræmis við MSE og 26. gr. SBSR og tryggir það vernd jafnræðisreglunnar.

Til baka í töflu

 

Íslenskur réttur

Í 65. gr. STS  segir:

65. gr. Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

 

Með þeim breytingum sem gerðar voru með stjórnskipunarlögum nr. 97/1995 var almenn jafnræðisregla tekin upp í stjórnarskrá, auk þess sem hnykkt er á jafnræðisreglunni með sérstöku ákvæði um kynjajafnrétti. Áður hafði jafnræðisreglan talist til óskráðra grundvallarreglna stjórnskipunarinnar.[11]

 

Miðað við orðalag ákvæðisins fellur jafnræðisregla stjórnarskrárinnar ekki fyllilega saman við jafnræðisreglu eins og þá sem 26. gr. SBSR eða 12. viðauki MSE tryggja, þar sem reglur tryggir öllum jafnrétti fyrir lögum (formlegt jafnrétti) og tryggir vernd gegn mismunun varðandi mannréttindi. Vísun til mannréttinda vísar fyrst og fremst til mannréttinda sem tryggð eru í ákvæðum STS, þar sem talin eru fleiri borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi en efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Af frumvarpi með lögunum má þó sjá að tilgangurinn með lögfestingu jafnræðisreglunnar í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar var að tryggja sambærilega vernd og þá sem staðfestir þjóðréttarsamningar tryggja. Var tekið fram í frumvarpinu að  tekið væri mið af 26. gr. SBSR og að reglunni væri ætlað að hafa rýmra gildissvið en 14. gr. MSE. Er tekið fram í frumvarpinu að reglunni sé ætlað að gilda á öllum sviðum löggjafar og veita öllum jafna lagavernd.[12]

 

Hæstiréttur hefur staðfest þetta og talið að  víðtæk, almenn jafnræðisregla felist í ákvæðinu sem tryggi ekki aðeins formlegt jafnrétti heldur einnig efnislegt og geri kröfu til ríkisins að virða og vernda jafnrétti og stuðla að því að jafnrétti náist. Sjá m.a. hæstaréttarmál nr. 177/1998 (Háskólamál)- þar sem ákvæði laga um málefni  fatlaðra voru skýrð með vísan til jafnræðisreglu 65. gr. STS og 14. gr., sbr. 2. gr. 1. viðauka við MSE; lögin leggja þá skyldu á stjórnvöld að tryggja fötluðum jafnrétti á við aðra þjóðrélagsþegna og gengur jafnræðisreglan, túlkuð með þeim hætti, lengra en formleg jafnræðisregla um að beita lögunum með sama hætti í sambærilegum tilvikum og felur í sér jákvæða skyldu ríkisins til að stuðla að því að fatlaðir nái fram réttindum sínum. Í hæstaréttarmáli nr. 151/1999 (táknmálsmál) féllst Hæstiréttur á kröfu félags heyrnarlausra um að framboðsræður í sjónvarpi yrðu túlkaðar á táknmáli. Var tekið fram að ekki væri skylda að lögum til að bjóða upp á kynningu frambjóðenda; ef stjórnvöld tækju að sér slíka kynningu yrði þó að gæta að jafnræðisreglu 65. gr. STS og 14.gr. MSE  (ásamt  3. viðauka MSE). Þá er hæstaréttarmál nr. 125/2000 (öryrkjabandalagsmálið) sem fjallað var um í I C gott dæmi bæði um áhrif þjóðréttarlegra skuldbindinga á skýringu ákvæða stjórnarskrár og laga - og um inntak og áhrif jafnræðisreglu 65. gr. STS, en lesa má dóminn svo að tekið sé mið af efnislegri jafnræðisreglu við túlkun 65. gr. og 76. gr. STS.[13]

 Til baka í töflu

 

Tilvísanir:

[1] Sjá sérstaklega málsgr. 4.

[2] UN Doc. CCPR/C/29/D/172/1984 ( S.W.M.Broeks v The Netherlands (Report of the Human Rights committee A/42/40 (1987) Annex VIII, B) (ekki aðgengilegt á  http://documents.un.org. Sjá einnig F. H. Zwaan-de Vries v the Netherlands (Communication no 182/84 (D); UN Doc CPR/C/29/D/182/1984).

[3] Vos gegn Hollandi. Mál nr. 786/79. (CCPR/C/66/D/786/1997).

[4] Blom gegn Svíþjóð. (Mál nr. 191/85); Oulajin og Kaiss gegn Hollandi (Mál nr. 429/90).

[5] Sjá frekar Joseph o.fl., bls. 686-7.

[6] Gueye gegn Frakklandi. Mál nr. 196/1986 (CCPR/C/35/D/196/1985).

[7] Adam gegn Tékklandi. Mál nr. 586/1994 (CCPR/C/57/D/586/1994.)

[8] Sjá frekar Joseph o.fl., bls. 741.

[9] Sjá Arnardóttir, bls. 433 (óopinber þýðing). Ákvæðið er svohljóðandi í enskri útgáfu: „The enjoyment of any right set forth by law shall be secured without discrimination on any ground such as sex, race, colour, language, religion, political or other opinion, national or social origin, association with a national minority, property, birth or other status. / 2. No one shall be discriminated against by any public authority on any ground such as those mentioned in paragraph 1." Ekki er ólíklegt að skýring  á orðunum „national or social origin" taki mið af skýringu þessarra hugtaka í öðrum samningum og í MSE, þ.e. að gera verði greinarmun á þjóðernisuppruna annars vegar og þjóðerni (ríkisborgararétti) hins vegar.

[10] Benda má á þá dóma sem nefndir eru í kafla III D-1 því til stuðnings. Sjá einnig Arnardóttir (Bann við mismunun), en hún gagnrýnir þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda að fullgilda ekki samningsviðaukann.

[11] Arnardóttir, bls. 461.

[12] Sjá frekar Guðmundsdóttir (Guðrúnarbók), bls. 150 og Arnardóttir.

[13] Sjá um dóminn Guðmundsdóttir (Guðrúnarbók), og almennt um dóma Hæstaréttar um jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar Arnardóttir.

Til baka í töflu

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is