III D-4 Vernd tiltekinna hópa

Til baka í efnisyfirlit III hluta

 

Réttindi Sáttmálar Íslensk lög Dómar, úrskurðir, álit UA

Börn

2. gr. Barnasáttmálans

24. gr. SBSR

 

3. mgr. 76. gr. STS

Barnalög nr. 76/2003

Barnaverndarlög nr. 80/2002

Íslenskur réttur

 

Bann við mismunun á grundvelli kynferðis og jafn réttur kvenna og karla

 

 

 

1.gr. og 2. gr. CEDAW

3. gr. SBSR

3. gr. SEFMR

 

2. mgr. 65. gr. STS

 

Lög nr. 10/2008 um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla 

Íslenskur réttur

 

Bann við mismunun á grundvelli kynþáttar

 

CERD

65. gr. STS

Íslenskur réttur

 

MDE

Timishev gegn Rússlandi

Abdulaziz, Bacales og Balkandali gegn Bretlandi

 

 

Bann við mismunun vegna fötlunar

2. gr. SBSR

2. gr. SEFMR

 

Samningur um réttindi fólks með fötlun *

 

*Samningurinn hefur verið undirritaður en ekki fullgiltur

 

65. gr. STS

Lög nr. 59/1992 um málefni fatlaðra  

Íslenskur réttur

 

 

 

Bann við mismunun á þeim grundvelli sem tiltekinn er í samningum SÞ kemur einnig fram í sértækum samningum sem banna mismunun og tryggja jafnræði með vísan til sérstakra persónueiginleika, einkum kynferðis (CEDAW) og kynþáttar (CERD).  Hér verður fjallað um reglur samninga sem banna mismunun á ákveðnum grundvelli. Fjallað verður um mismunun á grundvelli kynferðis, kynþáttar og vegna fötlunar, auk þess sem stutt umfjöllun er um Barnasáttmálann. Ekki verður farið ítarlega yfir skýringu og beitingu þessarra ákvæða en fjallað um stefnumótun þessarra samninga og skilgreiningar á mismunun. Aðaláherslan verður á mismunun á grundvelli kynþáttar, þar sem þar getur einna helst reynt á markatilvik í málum útlendinga.

 

Barnasáttmálinn

 

Bann við mismunun er ein af meginstoðum Barnasáttmálans og má lesa út úr samningum öllum þá viðleitni að vernda grundvallarréttindi barna og tryggja þeim lífsskilyrði sem byggjast á sjónarmiðum um manngildi og jafnræði. Nefnd um réttindi barna hefur staðfest að mismunun á grundvelli þjóðernis fellur undir ákvæði 2. gr. og hefur gert athugasemdir við framkvæmd sem mismunar á þeim grundvelli (ekki síst þegar börn eru ekki löglega búsett í landinu), og varða m.a. menntun, heilbrigðis- og félagsþjónustu. Gerð er krafa um að  almenn heilbrigðisþjónusta standi börnum til boða, en ekki aðeins heilbrigðisþjónusta í neyðartilvikum, þó að þau séu ekki löglega búsett í landinu.[1]

Til baka í töflu

 

CEDAW

Samningur SÞ um afnám allrar mismununar gagnvart konum (CEDAW) er í heild sinni til þess ætlaður að banna mismunun og stuðla að jafnrétti kvenna og karla á sem flestum sviðum þjóðlífsins, hvort sem er á sviði borgaralegra og stjórnmálalegra réttinda eða efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra réttinda.  Ekki er eingöngu um það að ræða að ríki skuldbindi sig til þess að beita konur ekki mismunun, heldur leggur samningurinn jákvæðar skyldur á aðildarríki að banna alla mismunun gagnvart konum og tryggja jöfn réttindi með lagasetningu og öðrum aðgerðum.

 

2. gr. Aðildarríkin fordæma alla mismunun gagnvart konum, eru ásátt um að framfylgja með öllum tiltækum ráðum og án tafar stefnu sem miðar að afnámi mismununar gagnvart konum og takast í þessum tilgangi á hendur:
a. að setja grundvallarregluna um jafnrétti karla og kvenna í stjórnarskrár sínar eða aðra viðeigandi löggjöf, sé hún þar ekki fyrir, og að ábyrgjast með lögum eða öðrum viðeigandi ráðum að grundvallarreglu þessari verði framfylgt í raun;
b. að gera viðeigandi ráðstafanir með lögum og aðrar ráðstafanir, þar með talin viðurlög þar sem við á, sem banna alla mismunun gagnvart konum;
c. að koma á lagavernd á réttindum kvenna á grundvelli jafnréttis við karla og að tryggja fyrir lögbærum dómstólum landsins og hjá öðrum opinberum stofnunum raunverulega vernd til handa konum gegn hvers konar misrétti;
d. að eiga ekki hlut að né framfylgja mismunun gagnvart konum og ábyrgjast að opinber stjórnvöld og stofnanir breyti í samræmi við þessa skyldu;
e. að gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að afnema mismunun gagnvart konum af hálfu einstaklinga, stofnana eða fyrirtækja;
f. að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þ. á m. með lagasetningu, til þess að breyta eða afnema gildandi lög, reglugerðir, venjur og starfshætti sem fela í sér mismunun gagnvart konum;
g. að fella úr gildi öll hegningarlagaákvæði sem fela í sér mismunun gagnvart konum.

Til baka í töflu

 

Í 1. gr. samningsins er hugtakið mismunun skilgreint sem  „hvers kyns aðgreining[], útilokun eða takmörkun sem byggð er á kynferði sem hefur þau áhrif eða markmið að hindra eða koma í veg fyrir að konur, óháð hjúskaparstöðu, á grundvelli jafnréttis karla og kvenna, fái viðurkennd, geti notið eða framfylgt mannréttindum og grundvallarfrelsi á sviði stjórnmála, efnahagsmála, félagsmála, menningarmála, borgaralegra mála eða á sérhverju öðru sviði."  Skilgreiningin tekur bæði til mismununar sem er ráðgerð, þ.e.a.s. með þeim ásetningi að beita mismunun, og einnig til „áhrifa" aðgerða, þ.e.a.s. skilgreiningin tekur til aðgerða sem leiða til mismununar, án tillits til þess hvort ásetningur er fyrir hendi eða ekki. 

 

Samningurinn leggur þá skyldu á ríki í 2. gr. að sjá til þess að stjórnvöld og opinberar stofnanir brjóti ekki gegn ákvæðum samningsins og að gera ráðstafanir til þess að útrýma mismunun þó um einkaréttarlega athöfn sé að ræða, þ.e. aðgerð einstaklings eða fyrirtækis (e. liður 2. gr.). Þá er sú skylda lögð á ríki að breyta lögum og framkvæmd sem fela í sér mismunun gagnvart konum og að afnema refsiákvæði sem kunna að hafa sömu áhrif.

 

Loks ber að nefna að í 4. gr. samningsins er tekið fram að jákvæð mismunun teljist ekki til mismununar. Samningurinn leggur hins vegar ekki skyldu á aðildarríki að beita þeim aðferðum sem kenndar eru við jákvæða mismunun og leggur þá skyldu á ríki að viðhalda ekki slíkum aðgerðum lengur en nauðsynlegt er.

 

4. gr. 1. Geri aðildarríki sérstakar bráðabirgðaráðstafanir sem miða að því að flýta fyrir að raunverulegt jafnrétti karla og kvenna náist skal það ekki talið mismunun eins og það er skilgreint í samningi þessum, en skal ekki á neinn hátt hafa í för með sér að ójöfnum eða ólíkum skilyrðum sé viðhaldið. Ráðstafanir þessar skulu felldar niður þegar markmiðunum um sömu tækifæri og meðferð hefur verið náð.

Til baka í töflu

 

Í jákvæðri mismunun felst, eins og kemur fram í 4. gr. CEDAW að grípa megi til sérstakra aðgerða til að bæta stöðu ákveðinna hópa tímabundið til þess að raunverulegt jafnrétti náist. Gert er ráð fyrir tímabundnum aðgerðum eingöngu sem ekki vari lengur en tekur að bæta stöðu þeirra sem hafa staðið höllum fæti vegna langvarandi mismununar. Jákvæð mismunun hefur því einkum verið notuð til að jafna stöðu kvenna og þeirra sem sætt hafa mismunun vegna kynþáttar. Það eru einkum hinir sértæku samningar sem hafa slegið því föstu að jákvæð mismunun teljist ekki mismunun í skilningi samninganna. Sambærilegri skýringu hefur síðar verið beitt að því er varðar 2. gr. SBSR, 26.gr. SBSR og 2.gr. SEFMR, sbr. almenna athugasemd nr 31 frá Mannréttindanefndinni.

 

CEDAW setur fram grundvallarreglur, skilgreiningar og markmið sem lúta að kynjajafnrétti. Samningurinn hefur verið fullgiltur af fjölda þjóða og nefnd um jafnan rétt og jafna stöðu karla og kvenna (nefndin) fylgir eftir samningsskuldbindingum ríkja. Að því er varðar réttindi sem byggja má á beint innan hvers ríkis eru það þó stjórnarskrá, lög um jafnan rétt kvenna og karla og innan ESB,  reglur StESB og afleiddra reglna sem hafa mesta þýðingu.

 

Er ekki þörf á að fjalla frekar um reglur um jafnrétti kynjanna hér, en vísa má til þess að til viðbótar við sérstök ákvæði um kynjajafnrétti í ESB hefur ESB nú heimild bæði í 157.gr StESB, áður 141. gr. (um kynjajafnrétti sérstaklega) og 19.gr. StESB til að berjast gegn mismunun, m.a. á grundvelli kynferðis. Með stöðugri uppfærslu EES samningsins hefur reglum ESB á þessu sviði verið fylgt og þær innleiddar í íslenskan rétt .[2] Uppfærð tilskipun 2006/54, sem kemur í stað fyrri tilskipana um efnið (þ.e. tilskipunar 76/207 um jafna stöðu kvenna og karla á sviði vinnuréttar, með síðari breytingum; tilskipunar 86/378 um jafnrétti í félagslegum tryggingum; tilskipunar 75/117 um jöfn laun og tilskipun 97/80 um sönnunarbyrði) kemur því að öllum líkindum til að verða tekin upp í EES-samninginn, þar sem allar áðurgreindar tilskipanir eru hluti EES-samningsins). Að því er lýtur að þessu verkefni er mikilvægast að hafa í huga að reglur sem binda aðildarríkin á sviði kynjajafnréttis varða alla launþega (án tillits til þjóðernis eða stöðu). Reglurnar taka einnig til annarra sviða og teygja sig einnig inn á einkaréttarlegt svið, þ.e. í samskiptum einstaklinga innbyrðis.

 Til baka í töflu

 

CERD

Samningur um afnám alls kynþáttamisréttis, CERD, er byggður upp með svipuðum hætti og CEDAW, bæði að því er varðar jákvæðar skyldur ríkisins til að banna og koma í veg fyrir allt kynþáttamisrétti og að því er lýtur að rúmri skilgreiningu hugtaksins „kynþáttamisrétti". Samkvæmt 1. gr. samningsins tekur hugtakið yfir „hvers kyns aðgreiningu, útilokun, takmörkun eða forgang sem byggður er á kynþætti, litarhætti, ætterni eða þjóðernis- eða þjóðlegum uppruna sem hefur það markmið eða þau áhrif að koma í veg fyrir eða hamla að hægt sé að fá viðurkennd eða geta notið eða framfylgt á jafnræðisgrundvelli, mannréttindum og grundvallarfrelsi á sviði stjórnmála, efnahagsmála, félagsmála, menningarmála eða öðrum opinberum vettvangi." Í 4. mgr. 1. gr. er einnig tekið fram að „jákvæð mismunun" teljist ekki til mismununar í skilningi samningsins. Er ríkjum því heimilt að beita jákvæðri mismunun og þau eru hvött til að leita leiða til að bæta stöðu þeirra sem hafa orðið fyrir mismunun vegna kynþáttar. Þó er, svipað og á við um CEDAW, ekki lögð skylda á aðildarríkin að grípa til slíkra aðgerða.

 

Af skilgreiningu 1. gr. má ráða þá þætti sem bannað er að byggja mismunun á og tekur skilgreiningin bæði til „kynþáttar" og þjóðernisuppruna eða þjóðernis. Lítið er  um efnislegar skilgreiningar á kynþætti, bæði í þjóðréttarlegum samningum og í reglum og aðgerðum ESB, þar sem hutakið „kynþáttur" er sjálft umdeilanlegt og gildishlaðið.[3] Einnig getur verið erfitt að skilgreina hugtakið „þjóðernisuppruni", þar sem það getur vísað til þess að viðkomandi hafi (söguleg) tengsl við  ákveðið þjóðríki, eða við þjóðríki sem ekki nýtur sjálfstæðis; eða við minnihlutahóp sem er staðsettur innan þjóðríkis, án þess að um sé að ræða sameiginlegar þjóðegar rætur. Einnig getur verið erfitt að skilgreina hugtakið „þjóðernisuppruni", en eins og komið hefur fram er þó hægt að aðgreina það hugtak frá hugtakinu „þjóðerni" , sem vísar fyrst og fremst til formlegra tengsla við tiltekið ríki, þ.e. ríkisfang eða ríkisborgararétt.

Til baka í töflu

 

Líta verður til þess að mjótt getur verið á munum þess að greinarmunur sé gerður á grundvelli þjóðernis (þ.m.t. ríkisfangs) annars vegnar og  þjóðernisuppruna eða kynþáttar hins vegar og getur verið mjótt á munum milli lögmætrar takmörkunar á réttindum útlendinga annars vegar og ólögmætrar mismununar sem byggist á þjóðernisuppruna eða kynþætti hins vegar.  Reynt getur á þessi álitaefni samkvæmt 2. gr. SBSR, 2. gr. SEFMR og 26. gr. SBSR. Þá getur slík mismunun brotið gegn 14. gr. MSE, ef um réttindi er að ræða sem njóta verndar MSE. Í Timishev gegn Rússlandi[4] komst MDE að þeirri niðurstöðu að inngöngubann gegn einstaklingum frá „Checheniu" sem byggðist eingöngu á þjóðernisuppruna þeirra félli undir kynþáttamisrétti og bryti gegn 14. gr. MSE, sbr. 2. gr. 4. viðauka). Þjóðernisminnihlutar innan ríkja (s.s. kýpur-grikkir í Tyrklandi og flökkufólk (Roma)) njóta einnig verndar ákvæðanna.[5] MDE hefur þó sætt gagnrýni fyrir að hafa tekið seint við sér þegar kemur að óbeinni mismunun (en mismunun á grundvelli þjóðernis og/eða kynþáttar getur fallið undir óbeina mismunun) og mismunun sem ber þess merki að hún sé byggð á kynþætti. Í máli Abdulaziz, Bacales og Balkandali gegn Bretlandi[6] reyndi t.a.m. á breska innflytjendalöggjöf. Eiginmönnum umsækjendanna, sem allar voru löglega búsettar í Bretlandi, var ekki veitt leyfi til búsetu þar (þær reglur áttu ekki við um eiginkonur löglega búsettra útlendinga og reglurnar áttu ekki við um ríkisborgara aðildarríkja ESB og maka þeirra). Kvörtun umsækjenda byggðist á því að brotið væri gegn 8. gr. MSE ásamt 14. gr., þar sem um mismunun væri að ræða á grundvelli kynferðis og kynþáttar. MDE féllst á að hér væri um að ræða mismunun á grundvelli kynferðis. Þótt réttlætingarástæður Bretlands, um að verja innlendan vinnumarkað, gætu átt við rök að styðjast réð það úrslitum að mismunandi reglur áttu við um konur og menn í þessu tilviki og dómstóllinn tók fram að vegna mikilvægis sjónarmiða um kynjajafnrétti þyrfti mikið  til að koma til að réttlæta mismunun sem byggðist á kynferði.[7] Um ætlaða mismunun á grundvelli kynþáttar taldi dómstóllinn hins vegar að ekki hefði verið sýnt fram á slíka mismunun, þar sem innflytjendalöggjöf gerði ekki greinarmun á fólki á grundvelli kynþáttar. Minnihluti mannréttindanefndarinnar hafði hins vegar komist að því að gögn málsins sýndu að tilgangur löggjafarinnar hefði verið að sporna við innflytjendum af tilteknum uppruna og að því hefði verið um óbeina mismunun á grundvelli kynþáttar að ræða.[8]

 

Í CERD kemur skýrt fram sú takmörkun að sáttmálinn taki ekki til greinarmunar, takmarkana eða útilokunar milli ríkisborgara og útlendinga.  Í 2. og 3. mgr. 1. gr. segir:

Til baka í töflu

 

1. gr.
2.Samningur þessi skal ekki gilda um aðgreiningu, útilokun, takmarkanir eða forgang sem aðildarríki að samningnum veita ríkisborgurum sínum fram yfir aðra.
3. Ekkert í samningi þessum skal túlkað svo að það hafi á nokkurn hátt áhrif á lagaákvæði í aðildarríkjum sem varða þjóðerni, ríkisborgararétt eða veitingu þegnréttar, að því tilskildu að í slíkum ákvæðum felist ekki mismunun á milli þjóðerna.

 

Cholewinski heldur því fram að ætlunin hafi verið að vernda alla gegn kynþáttamismunun,en að orðalag samningsins beri þess merki hversu ríki dragi oft taum eigin þegna.[9] Tilgangur ákvæðisins er því að koma til móts við það sjónarmið ríkja að gera megi greinarmun á eigin þegnum og útlendingum ef lögmæt sjónarmið réttlæta slíkt: þó leiðir það af banni samningsins gegn kynþáttamisrétti að hver sú aðgreining milli eigin ríkisborgara og annarra sem byggist á kynþætti er ólögmæt. Yrðu allar vísbendingar um að slík sjónarmið ráði einhverju um aðgreininguna teknar alvarlega af nefnd um afnám kynþáttamisréttis.[10]

 

Í tilmælum nr. 30 um mismunun gegn útlendingum hefur nefnd um afnám kynþáttamisréttis[11]  lýst áhyggjum yfir því að mismunun, útlendingahatur,  og neikvæð afstaða gagnvart útlendingum, s.s. farandlaunþegum, flóttamönnnum og hælisleitendum, sé uppistaðan í nútíma kynþáttahatri, sem kalli á viðbrögð alþjóðasamfélagsins og aðgerðir ríkja. Í tillögunum eru gefnar leiðbeiningar um túlkun CERD, sem m.a. ná til áðurgreinds ákvæðis 2. mgr. 1. gr. og kemur þar fram sú skylda ríkja að túlka greinina svo að bann við mismunun nái tilgangi sínum og þannig að tryggt sé að öll þau réttindi sem tryggð eru í Mannréttindaskrá SÞ séu virt.  Þá er lögð áhersla á þá skyldu aðildarríkja að stuðla að jafnrétti milli eigin þegna og annarra að því er varðar öll réttindi sem tryggð eru með þjóðréttarsamningum; segir í 4. lið tilmælanna að mismunun sem byggist á þjóðerni (þ.e. ríkisborgararétti) eða búsetu (e. immigration status) teljist mismunun, ef ekki er um málefnalegar ástæður að ræða sem samræmast samningnum og sem fullnægja sjónarmiðum um meðalhóf. 

 

Tilmæli nefndarinnar miða að því að aðildarríki CERD fullnægi skuldbindingum sínum, bæði með því að breyta lögum og tryggja réttarúrræði  útlendinga þannig að útlendingar (hvort sem er löglega eða ólöglega búsettir í landinu) njóti verndar gegn kynþáttamisrétti og njóti verndar gegn kynþáttahatri. Er sú skylda lögð á aðildarríkin að tryggja að útlendingar verði ekki fyrir mismunun á grundvelli kynþáttar varðandi aðgang að ríkisborgararétti, vegna reglna um brottvísun o.s.frv. Þá er ríkjum gert skylt að afnema allar hindranir sem koma í veg fyrir að útlendingar njóti efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra réttinda, einkum á sviði húsnæðis, menntunar, atvinnu og heilbrigðismála.

Til baka í töflu

 

Með þessum tilmælum hefur nefndin staðfest fyrri framkvæmd sína sem var framsækin í því að gera athugasemdir við greinarmun á eigin þegnum og útlendingum, einkum ef um staðfasta framkvæmd var að ræða og/eða hópa fólks af ákveðnum uppruna. Veitir CERD útlendingum því víðtæka réttarvernd gegn mismunun (að öðru leyti en því að greinarmunur á útlendingum innbyrðis hefur ekki notið sambærilegrar verndar í störfum nefndarnnar).[12]

 

ESB setti árið 2000 sérstakar reglur sem ætlað er að banna og koma í veg fyrir misrétti á grundvelli kynþáttar, þegar um er að ræða vinnusambönd, aðgang að þjónustu o.s.frv. (tilskipun 2000/43). Tilskipunin skilgreinir hvað felst í mismunun (2. gr.) og tekur bæði til beinnar og óbeinnar mismununar. Hins vegar er ekki skilgreint nánar hvað felst í hugtakinu kynþáttur (e. racial or ethnic origin), en ætla má að við túlkun hugtaksins yrði tekið mið af reglum CERD og Evrópuráðssamingi um vernd minnihlutahópa. Tilskipunin heimilar greinarmun sem gerður er á grundvelli þjóðernis (e. nationality) og verður að túlka þá undanþágu í því ljósi að bann við mismunun á grundvelli þjóðernis er takmarkað við þjóðerni/ ríkisborgararétt í aðildarríki ESB og tekur því ekki til allra útlendinga (þ.e. sérstök réttindi eru veitt ríkisborgurum aðildarríkja ESB, sem ekki taka til annarra); tilskipunin breytir ekki þeirri réttarskipan. Þá er tekið fram tilskipunin hafi ekki áhrif á reglur aðildarríkjanna um komu, búsetu og brottvísun og geta því ríkisborgarar þriðju ríkja ekki sótt betri rétt í tilskipunina en leiðir af öðrum reglum ESB). Að þessu athuguðu veitir tilskipunin því ekki meiri vernd en ákvæði CERD og veitir útlendingum öðrum en ríkisborgurum aðildarríkja ESB minni vernd en CERD.

Til baka í töflu

 

Samningur um réttindi fólks með fötlun

Samningur SÞ um réttindi fólks með fötlun var undirritaður af Íslands hálfu árið 2007 og er unnið að aðlögun landsréttar að ákvæðum hans (sjá íslenska þýðingu samningsins hér). Samningurinn er svipaður þeim sértæku samningum sem áður er fjallað um að því leyti að hann hefur að geyma ítarlega skilgreiningu á mismunun á grundvelli fötlunar, heimilar jákvæða mismunun og leggur á ríki jákvæðar skyldur til að stuðla að því að fólk með fötlun nái fram réttindum sínum og njóti jafnra réttinda og aðgangs að stofnunum samfélagsins og þeir sem ekki búa við fötlun.  Enginn greinarmunur er gerður á grundvelli þjóðernis í þessum samningi, sem verndar alla sem falla undir skilgreiningu samningsins um fötlun.

 

Reglur ESB um bann við mismunun á grundvelli fötlunar (m.a.)[13] á sviði vinnuréttar, (tilskipun 2000/78) eru einnig algildar (þó með sambærilegri undantekningu og tilskipun 2000/48, þ.e. að hún tekur ekki til greinarmunar sem byggist á þjóðerni og hefur ekki áhrif á reglur aðildarríkja um komu, búsetu og för frá landi (2. mgr. 3. gr.)). Tilskipunin skilgreinir hugtakið mismunun í 2. gr. Með sama hætti og á við um tilskipun 2000/48 tekur  hugtakið til beinnar og óbeinnar mismununar og einnig til áreitni sem byggist á þeim grundvelli sem tilskipunin tekur til. Efnissvið tilskipunarinnar er þó takmarkað, þar sem hún tekur aðeins til atriða sem tengjast atvinnuþáttöku, s.s. vinnuskilyrða, atvinnuþjálfunar og samningsfrelsis. Í 5. gr. tilskipunarinnar er sérstaklega mælt fyrir um skyldu aðildarríkjanna til að sjá til þess tekið sé tillit til sérstakra aðstæðna fatlaðra þannig að þeir hafi í raun sömu möguleika í starfi (m.a. með tilliti til starfsframa) og aðrir. Báðar tilskipanir mæla einnig fyrir um það að sérstakar ráðstafanir í þágu þeirra sem þær vernda (þ.e. jákvæð mismunun) brjóti ekki gegn ákvæðum tilskipunarinnar um jafnan rétt.

 Til baka í töflu

 

Íslenskur réttur

Eins og fram kom í kafla um íslenskan rétt hér að framan má telja að jafnræðisregla stjórnarskrárinnar, 65. gr., veiti vernd gegn hvers konar mismunun, sem ekki er réttlætt með málefnalegum rökum.  Í sambandi við kynjajafnrétti er sérstakt ákvæði í stjórnarskrá, auk þess sem reglur EES-samningins og afleiddar reglur - sem innlendar reglur taka mið af - tryggja jafnan rétt kvenna og karla.  Með sama hætti verður að telja að 65. gr. stjórnarskrárinnar veiti vernd gegn mismunun á grundvelli kynþáttar og vegna fötlunar, sem og annarra atriða.  Nokkrir dómar Hæstaréttar hafa fjallað um mismunun sem tengist fötlun en ekki eru mörg mál um mismunun vegna kynþáttar (sjá þó hæstaréttarmál nr. 461/2001, þar sem refsidómur gekk vegna ummæla sem brutu gegn ákvæðum hegningalaga um vernd á grundvelli þjóðernis, litarháttar eða kynþáttar).

 

Með sama hætti og reglur um kynjajafnrétti eru útfærðar í löggjöf og framkvæmd eru réttindi fatlaðra, barna og fleiri hópa tryggð í ítarlegri löggjöf, þar sem jafnræðisregla stjórnarskrárinnar og sjónarmið þjóðréttarlega samninga eru nánar útfærð.[14] Þó að þess hafi verið gætt að fullnægja skuldbindingum ríkisins þegar kemur að banni við mismunun sýna skýrslur frá CEDAW  og CERD  þó að ýmislegt er ógert til að tryggja réttarstöðu fólks samkvæmt þessum samningum (sbr. umfjöllun í I B). Er það e.t.v. einkum bann við mismunun á grundvelli kynþáttar og þjóðernisuppruna, sem og afstaða til útlendinga, sem hér, eins og víða annars staðar þarf að huga að sbr. það sem áður sagði um afstöðu nefndar um afnám kynþáttamisréttis almennt (í tilmælum nr. 30).

 

Vinnuhópur félagsmálaráðuneytisins hefur skilað tillögum um aðlögun íslensks réttar að tilskipunum ESB, sem fjallað er um hér að ofan. Áætlun um að taka efni þessarra tilskipana upp í íslenskan rétt er, eins og nefndin bendir á, umfram skyldu, þar sem sambærilegt ákvæði við 19. gr. StESB. er ekki í EES-samningnum (þ.e.a.s. ákvæði sem veitir sambandinu heimild til að vinna gegn mismunun). Hins vegar fylgja reglur þessar viðurkenndum sjónarmiðum í þjóðréttarsamnignum, m.a. CERD og nýjum samningi um réttarstöðu fólks með fötlun, og auk þess fá þær aukið vægi í ljósi Mannréttindaskrár ESB. Er því ekki óeðlilegt að tekið sé mið af þessum reglum við lagasetningu og framkvæmd í íslenskum rétti.  Vinnuhópurinn hefur gert tillögur um að setja þurfi lög til að innleiða þessar skuldbindingar en ekki er um frekari útfærslu slíkrar lagasetningar að ræða í tillögunum.

Til baka í töflu

 

Tilvísanir:

 

[1] Vandenhole, bls., 176-7 Sjá (um heilbrigðisþjónustu) UN Doc. CRC/C/15/ADD.101 (Svíþjóð), málsgrein 11.

[2] Sjá m.a. Konráðsdóttir.

[3] Sjá m.a. Schiek o.fl., bls. 42.

[4] Timishev gegn Rússlandi (dómur 13. desember 2005).

[5] Sjá annars vegar Kýpur gegn Tyrklandi (dómur 10. maí 2001) og hins vegar fjölda mála sem varða flökkufólk fyrir MDE, t.d. Nachova gegn Búlgaríu (dómur 6. júlí 2006).

[6] Abdulaziz, Bacales og Balkandali gegn Bretlandi (dómur 28. maí 1985).

[7] Abdulaziz o.fl., forsenda 78-79.

[8] Sjá niðurstöðu dómstólsins í forsendu 85.

[9] Cholewinski , bls. 63.

[10] Cholewinski, bls. 63, sem vísar til Yilmaz-Dogan gegn Hollandi (Communication 1/1984) Report of the Committee on the Elimination of Racial Discrimination 43 UN GAOR Supp. No. 18).

[11] (með vísan til fyrri tilmæla nr. 11 og tilmæla nr. 20, auk Durban yfirlýsingarinnar

[12] Sjá frekari umfjöllun Vandenhole, bls. 90 o.áfr. Í því felst að ríki geta veitt ákveðnum hópum útlendinga betri rétt en öðrum.

[13] Þessi tilskipun tekur til mismununar á grundvelli trúar eða skoðana, fötlunar, aldurs og kynhneigðar.

[14] Á sviði kynjajafnréttis sjá umfjöllun m.a. Konráðsdóttir . Ítarleg löggjöf fjallar um jafnrétti kynjanna, sem ekki er fjallað um í verkefninu. Um stefnumótun á sviði málefna fatlaðra sjá heimasíðu félagsmálaráðuneytisins (sjá hér) og um réttindi barna sjá heimasíðu félagsmálaráðuneytisins og heimasíðu Umboðsmanns barna, auk gagnlegra upplýsinga á www.humanrights.is.

Til baka í töflu

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is