III A-1 Bann við pyndingum

Til baka í efnisyfirlit III hluta

 

 Réttindi Sáttmálar Íslensk lög Dómar, útskurðir, álit.

Bann við pyndingum

5. gr. MYSÞ

7. gr. SBSR

Samningur gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (CAT)

3. gr. MSE

Evrópusamningurinn um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

 

 

 

 

1. mgr. 68. gr. STS

 

Almenn hegningarlög nr. 19/1940

 

Lög nr. 96/2002 um útlendinga

Lög um mannréttindasáttmála Evrópu nr.62/1994

 

Lög nr. 15/1990 vegna aðildar Íslands að Evrópusamningi um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu

Íslenskur réttur

MDE

Írland gegn Bretlandi

Tyrer gegn Bretlandi

Aksoy gegn Tyrklandi

Dougoz gegn Grikklandi

Peers gegn Grikklandi

Al-Nashif gegn Búlgaríu

Dómar Hæstaréttar

Hrd.1997,2828

UA

UA nr. 2426/1998

UA nr. 2805/1999

 

 

Bann gegn pyndingum er viðtekin regla sem er áréttuð í fjölmörgum mannréttindasáttmálum og er þar að auki venjuréttarregla í þjóðarétti. Reglan er fortakslaus og leyfir ekki frávik eins og komið verður að hér á eftir. Þrátt fyrir þessar reglur eru pyndingar stundaðar víðs vegar um heiminn, einkum í þróunarríkjum og ríkjum þar sem frelsi manna er lítið, auk þess sem aukning hefur orðið á því að pyndingar séu notaðar í vestrænum ríkjum eftir hryðjuverkaárásir í Bandaríkjunum og víðar í upphafi 21. aldarinnar.[1] Tilgangur pyndinga er jafnan að fá frá mönnum upplýsingar eða játningar, að brjóta niður einstaklinga svo þeir láti að stjórn eða að ala á ótta og hlýðni meðal almennings til að halda völdum.[2]

 

Bannið verndar jafnt íslenska ríkisborgara og útlendinga, sem staddir eru á Íslandi, þar sem íslenska ríkið hefur undirgengist að tryggja öllum einstaklingum á sínu yfirráðasvæði þau réttindi sem kveðið er á um í þessum alþjóðasamningum.  Reglur þessar eiga hins vegar sérstaklega við útlendinga í tilvikum þegar það stendur til að vísa einstaklingum úr landi. Þá getur komið til greina að brottvísun stangist á við reglur þessar vegna þeirrar meðferðar sem kann að bíða einstaklings, er vísa á úr landi.

Til baka í töflu

 

MYSÞ

Í 5.gr. MYSÞ segir að enginn maður skuli sæta pyndingum, grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Ákvæði mannréttindayfirlýsingarinnar hefur einkum þýðingu að því leyti að hún undirstrikar gildi reglunnar sem venjuréttarreglu í þjóðarétti. Til að finna nánari útlistun á inntaki reglunnar ber að líta til samningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. [3]

 

SBSR

7. gr. SBSR

Enginn maður skal sæta pyndingum eða grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Sérstaklega skal enginn sæta án frjáls samþykkis hans læknisfræðilegum eða vísindalegum tilraunum.

 

Orðalag 7. gr. SBSR gegn pyndingum er hið sama og í MYSÞ að því undanskildu að SBSR bætir við sérstaklega að enginn skuli sæta án frjáls samþykkis hans læknisfræðilegum eða vísindalegum tilraunum. Ákvæði þetta bannar því meðferð sem telst vera pyndingar eða grimmileg, ómannleg og vanvirðandi meðferð. Þessi fjögur hugtök eru ekki nánar skýrð og enginn greinarmunur gerður. Eins og áður segir er  regla 7. gr., sbr. 2. mgr. 4. gr. samningsins, ófrávíkjanleg.

 

Mannréttindanefnd SÞ hefur talið óþarfa að skilgreina hvert og eitt hugtak þar sem meðferð af því tagi sem fellur undir ákvæðið brýtur gegn samningnum óháð því í hvaða flokk hún fellur. Þar af leiðandi er aldrei að finna í álitum nefndarinnar útlistun á því undir hvaða hugtak meðferð fellur heldur er tilgreint hvort hún er talin brjóta gegn 7. gr. Nefndin hefur lýst því yfir að hugtakið nái jafnt til andlegra þjáninga sem líkamlegra.

 

Nefndin gerir þær kröfur að ríki geri grein fyrir þeim skrefum sem tekin eru til að vernda rétt einstaklinga samkvæmt þessari grein. Í þessu felst að upplýsa um ráðstafanir sem gerðar eru til verndar einstaklingum sem einkum gætu orðið fyrir meðferð sem þessari. Regluleg endurskoðun reglna um yfirheyrslur og um framkvæmd frelsissviptingar og meðferð einstaklinga við slíkar aðstæður er jafnframt talin árangursrík leið til að koma í veg fyrir pyndingar og slæma meðferð. Fanga skal vista á opinberlega tilgreindum stöðum (þ.e. fangelsum). Jafnframt skulu nöfn þeirra og staðsetning geymd í skrá ásamt nöfnum þeirra sem ábyrgð bera á vistun einstaklinganna þannig að aðstandendur fanga hafi aðgang að upplýsingunum.[4]

Til baka í töflu

 

Samningur gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (CAT)

CAT-samningurinn var samþykktur árið 1984 og tók gildi árið 1987. Ísland fullgilti samninginn þann 23. október 1996. Í samningnum er að finna skilgreiningu á hugtakinu pyndingar í 1. mgr. 1. gr. Þar segir að pyndingar séu hver sá verknaður þar sem manni er vísvitandi valdið alvarlegum líkamlegum eða andlegum sársauka eða þjáningu í því skyni t.d. að fá hjá honum eða þriðja manni upplýsingar eða játningu, refsa honum fyrir verk sem hann eða þriðji maður hefur framið eða er grunaður um að hafa framið, eða til að hræða eða neyða hann eða þriðja mann, eða af ástæðum sem byggjast á mismunun af einhverju tagi, þegar þeim sársauka eða þjáningu er valdið af eða fyrir frumkvæði eða með samþykki eða umlíðun opinbers starfsmanns eða annars manns sem er handhafi opinbers valds. Hugtakið tekur ekki til sársauka eða þjáningar sem rekja má að öllu leyti til eða tilheyrir eða leiðir af lögmætum viðurlögum. Það er því skilgreiningaratriði að til þess að um pyndingar sé að ræða verður að vera fyrir hendi ,,verknaður". Athafnaleysi getur þó einnig talist til "verknaðar" í tilvikum þar sem það er með vilja gert (t.d. ef fangi fær ekki mat og drykk) og getur þá verið um pyndingar að ræða.[5]

 

Annað skilgreiningaratriði er að sársaukinn eða þjáningin séu "alvarleg." Þetta atriði er ekki skýrt að því leyti hvort einhver lágmarksþröskuldur verði að hafa náðst til að meðferð geti talist vera pynding. Sé þeim þröskuldi ekki náð sé þá um ómannúðlega meðferð að ræða. Skilgreining á mörkum þessum skipta ekki miklu máli hér, þar sem hvort tveggja fer í bága við aðra sáttmála sem Ísland er aðili að, þ.e. SBSR og MSE.

 

Eftirlit með framkvæmd samningsins er í höndum SÞ-nefndar gegn pyndingum (Committee Against Torture) og tekur hún við skýrslum frá aðildarríkjum um framkvæmd samningsins. Nýjasta skýrsla nefndarinnar um Ísland er frá 2008, sjá umfjöllun í kafla hér að neðan um íslenskan rétt (smellið hér).

Til baka í töflu

 

MSE

3. gr. Bann við pyndingum.

Enginn maður skal sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

 

Í máli Írlands gegn Bretlandi[6] skýrði Mannréttindadómstóllinn pyndingar sérstaklega, þannig að um sé að ræða ómannlega meðferð sem er framkvæmd af ásetningi og veldur alvarlegum þjáningum.[7] Ekki eru til nákvæmar viðmiðanir um hvenær háttsemi er orðin svo alvarleg að hún varði við 3. gr. og skipta tilvik hvers einstaks máls miklu máli við slíkt mat. MDE taldi í þessu máli að við mat á því hvort um ómannlega meðferð væri að ræða skyldi horft á lengd tímabils sem meðferð varði, líkamleg og sálræn áhrif, sem og kyn, aldur og heilsu fórnarlambs. Við mat á vanvirðandi refsingu í máli Tyrer gegn Bretlandi[8] horfði dómstóllinn til eðlis refsingar og kringumstæðna.

 

Mjög alvarlega háttsemi þarf til að MDE telji að um pyndingar sé að ræða. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur, öfugt við mannréttindanefnd SÞ, gert greinarmun á pyndingum annars vegar og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð hins vegar. Til að meðferð geti talist til pyndinga þarf að vera um vísvítandi ómannúðlega meðferð að ræða sem veldur alvarlegum  þjáningum. Þessi greinarmunur hefur aðallega fræðilegt gildi þar sem bæði tilvik, þ. e. pyndingar annars vegar og ómannleg eða vanvirðandi meðferð hins, brjóta gegn 3. gr. samningsins.

 

Í fyrrnefndu máli Írlands gegn Bretlandi taldi dómstóllinn að sú háttsemi að hylja andlit fanga, láta þá þola stanslausan hávaða, halda þeim vakandi, gefa þeim ekki nægan mat og vatn og það að láta þá standa lengi í óþægilegum stellingum, teldist einungis ómannleg meðferð. Fyrsta málið þar sem dómstóllinn taldi meðferð svo alvarlega að hún teldist pynding var Aksoy gegn Tyrklandi.[9] Í því máli var fangi látinn þola svokallaða palestínska hengingu, þar sem hann var hengdur upp á höndunum, en þó með hendur á bak við bak. Var talið að slík meðferð væri hættuleg þar sem hún hindraði öndun og gat leitt til varanlegra meiðsla eða jafnvel andláts.

 

Til að refsing eða meðferð verði talin ómannleg, þá þarf þjáningin eða auðmýkingin, sem á sér stað, að vera meiri en hin óhjákvæmilega þjáning og auðmýking sem fylgir löglegri meðferð eða refsingu. Ef einstaklingur verður fyrir barsmíðum af hendi lögreglunnar þá hefur dómstóllinn ekki talið að það nái því að teljast pyndingar þegar aðstæður einkennast af mikilli spennu. Væri þá um ómannlega meðferð að ræða. Ef meðferð er hins vegar fyrirfram ákveðin (framin af ásetningi) og hefur tilgang, t. d. að neyða einstakling til að játa á sig glæp þá væri hugsanlegt að mörkum pyndinga sé náð.[10]

 

Dómstóllinn hefur í auknum mæli tekið afstöðu til 3. gr. MSE Í málum þar sem einstaklingar eru í haldi og aðstæður teljast ómannlegar vegna slæms aðbúnaðar, sjá t.d. Dougoz gegn Grikklandi [11] þar sem dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að Grikkland hefði brotið gegn skyldum sínum skv. 3. gr. vegna aðstæðna í fangelsi þar sem of margir fangar voru (100 fangar í 20 klefum), skortur var á rúmum og Dougoz  var í haldi (vegna brottvísunar) í 7 mánuði. Vísaði MDE til Evrópunefndar um varnir gegn pyndingum í niðurstöðum sínum. Í máli Peers gegn Grikklandi[12] var einnig talið að Grikkland hefði brotið gegn skyldum sínum, þegar breskur þegn sem sætti gæslu vegna brottvísunar var vistaður í 2 mánuði með öðrum manni þar sem var hvorki loftræsting né dagsbirta  og ófullkomið salerni í klefanum, án skilrúms. Í þessum málum brýtur ríkið gegn jákvæðri skyldu sinni til að vernda einstaklinga gegn óviðunandi meðferð og er um að ræða brot gegn greininni enda þótt ekki sé um að ræða meðvitaða aðgerð til að vanvirða eða lítillækka einstaklinga.[13]  Greinin hefur einnig verið túlkuð þannig að hún taki til þess ef einstaklingum í gæslu er ekki séð fyrir nauðsynlegri læknisaðstoð.[14]

Til baka í töflu

 

Bannið við mismunun er sérstaklega tekið fyrir í kafla III D. Ákvæði 14. gr. MSE hefur áhrif á túlkun 3. gr. þegar kemur að mismunandi meðferð á málum einstaklinga. Þannig er mismunun á grundvelli kynþáttar ekki heimil og fellur undir vanvirðandi meðferð. Í málum Austur-afrískra asíumanna,[15] sem var synjað um komu til Bretlands, sagði Mannréttindanefndin að löggjöf, sem setti takmarkanir um inngöngu í landið, mismunaði gegn einstaklingum af asískum uppruna á grundvelli kynþáttar og gæti því talist vanvirðandi meðferð í skilningi 3. gr.

 

Framsal og brottvísun getur í sumum tilvikum farið gegn ákvæðum alþjóðasamninga vegna þeirrar beinu líkamlegu eða andlegu áhrifa sem þau hafa á einstaklinga. Þetta efni er til umfjöllunar í kafla III B-3.

Til baka í töflu

 

Evrópusamningur um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu

Evrópusamningurinn,sem er frá 1989, setur upp eftirlitskerfi innan Evrópuráðsins með Evrópunefnd um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Fer nefndin í eftirlitsferðir til samningsaðila og kannar meðferð manna sem sætt hafa frelsissviptingu af höndum hins opinbera. Er þetta gert í því skyni að sjá til þess að innan ríkja sé reglum framfylgt og jafnframt að efla vernd gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Eftirlitsnefnd þessi hefur ekki með hendi neins konar dómsvald eða úrskurðarvald. Hún skilar tilmælum til ríkja um hvað megi betur fara eftir að hún hefur lokið athugunum sínum.

 

Til að uppfylla skilyrði þessa samningsins voru sett lög nr. 15/1990 vegna aðildar Íslands að Evrópusamningi um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Í lögunum er að finna, eins og heiti þeirra gefur til kynna, fyrirmæli um samskipti við nefndina í samræmi við ákvæði samningsins.

Til baka í töflu

 

Íslenskur réttur

1. mgr. 68. gr. STS segir að engan megi beita pyndingum né annarri ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Þetta ákvæði er því orðað eins og ákvæði SBSR og MSE, sem stjórnarskrárákvæðið tók mið af.

 

Sjaldan hefur reynt á þetta ákvæði fyrir dómstólum, en umboðsmaður Alþingis hefur skoðað það í álitum sínum þar sem til skoðunar er aðbúnaður fanga og aðgangur þeirra að læknishjálp sem og ákvarðanir um einangrunarvist. Í kafla III B-3 er Hrd. 1997, 2828 reifaður en mál það snerist um tengsl bannsins við pyndingum og ómannlegri meðferð annars vegar og brottvísun útlendinga hins vegar.[16] Í máli nr. 2426/1998 tók Umboðsmaður Alþingis afstöðu til kvörtunar fanga, m.a. vegna einangrunarvistar. Benti umboðsmaður m.a. á 3. gr. MSE og þá skuldbindingu ríkisins að haga löggjöf og stjórnsýslu þannig að réttindi tryggð í sáttmálanum væru virt. Bæri stjórnvöldum því að gæta að því að við meðferð fangelsismála væri gætt að líkamlegri og andlegri velferð fanga og að þeim væri tryggð viðeigandi læknisþjónusta.

 

Nefndin gegn pyndingum (CAT) skilaði niðurstöðu í skýrslu um Ísland sumarið 2008.[17] Þar eru engar stórvægilegar athugasemdir en þó bent á ýmislegt sem betur má fara. Má þar nefna að þó að íslensk lög séu talin uppfylla kröfur samningsis telur nefndin að innleiða beri skilgreiningu samningsins um pyndingar í landsrétt og gera bann við pyndingum að sérákvæði í hegningarlögum.  Jafnframt er bent á að bæta kost og ráð Umboðsmanns Alþingis til að fylgjast með ástandi mála í fangelsum.[18] Nefndin lýsti áhyggjum af tilkynntum málum um tíða og óhóflega einangrunarvistun fanga og beindi þeim tilmælum til ríkisins að rannsaka þetta vandamál og koma í veg fyrir það. Nefndin lýsti jafnframt áhyggjum af því að sönnunargögn, sem aflað er með pyndingum, megi nota í dómsmálum. Nauðsynlegt sé að samræma lög og reglur við 15. gr. CAT-samningsins og útiloka slík sönnunargögn. Jafnframt þurfi að endurskoða reglur um upptökur af yfirheyrslum með það að markmiði að vernda hinn grunaða.[19] Þá kallaði nefndin eftir frekari upplýsingum í næstu skýrslu um rannsókn á meintum flutningum fanga í gegnum íslenskt yfirráðasvæði, í tengslum við meintar pyndingar þeirra í Evrópu og/eða Bandaríkjum Norður-Ameríku. Gagnrýndi nefndin að stjórnvöld virtust ekki hafa brugðist við ásökunum um að slíkir flutningar færu um íslenskt yfirráðasvæði.[20]

Til baka í töflu

 

Evrópunefndin skilaði skýrslu um Ísland árið 2006 eftir þriðju athugun sína á stöðu mála, sem var 2004.[21]Niðurstaða hennar er að einstaklingar í haldi lögreglu séu ekki í mikilli hættu á að verða fyrir slæmri meðferð og fáar athugasemdir eru gerðar við fangelsi landsins. Í skýrslunni eru gerðar nokkrar athugasemdir, t. a. m. við það að í sumum fangelsum sé ekki fullkominn aðskilnaður á milli karlkyns fanga og kvenkyns. Jafnframt var ekki talið nægilega tryggt að gætt væri ítrustu réttinda útlendinga í haldi lögreglu. Taldi nefndin að komið hefði verið til móts við fyrri athugasemdir í skýrslum hennar varðandi málsmeðferð vegna frelsissviptingar og brottvísunar útlendinga, þ. á m. með ákvæðum 25. gr. og 34. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga þar sem mælt er fyrir um málsmeðferð. M.a er þar mælt fyrir um að sá sem sætir frelsissviptingu megi leita aðstoðar lögmanns, ræðismanns eða fulltrúa Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna eða mannúðar- eða mannréttindasamtaka hérlendis. Þá er einnig mælt fyrir um skyldu ríkisins til að skipa talsmann þegar um frelsissviptingu er að ræða, skv. tilteknum ákvæðum 29. og 33. gr. laganna. Nefndin óskaði hins vegar eftir frekari upplýsingum um þá staðhæfingu um hérlenda framkvæmd að ókeypis lögfræðiaðstoð væri aðeins veitt á lokastigi málsmeðferðar (en málskot frestar ekki ákvörðun).[22] Þá taldi nefndin að vantaði upp á upplýsingagjöf til einstaklinga í haldi, s.s  að skriflegar upplýsingar um réttindi þeirra væru tiltækar, að þeim væri kynntur réttur til læknisaðstoðar og að gætt væri að sérstökum réttindum barna sem væru ein á ferð. Jafnframt lagði nefndin til að ef aukning yrði á þeim málum þar sem útlendingar eru í haldi vegna löggjafar um útlendinga væri vert að athuga að koma á fót stofnun í þeim tilgangi að vista fólk fremur en að vista þá sem sæta gæslu í fangelsum. Þá var mælt með því að allir sem væru í haldi lengur en í sólarhring á Keflavíkurflugvelli fengju að vera utandyra  í að minnsta kosti klukkutíma á hverjum degi.

 

Jafnframt voru athugasemdir gerðar varðandi brottvísun útlendinga (sjá nánar í kafla III B), en nefndin lagði til að skýrar reglur yrðu settar um framkvæmd brottvísunar þegar valdi er beitt, fremur en að fylgja framkvæmdarreglum. Íslenska ríkið svaraði skýrslunni (sjá hér) og greindi frá því hvernig brugðist hefði verið við þeim atriðum er gagnrýnd voru í skýrslu nefndarinnar varðandi meðferð útlendinga.[23] Er að sjá af svörum ríkisins að almennt hafi verið leitast við að laga reglur og framkvæmd að þeim viðmiðum sem nefndin lagði til og var m.a. vísað til reglna lögreglunnar frá 2003 um framkvæmd við brottvísun þegar reynir á beitingu valds.

Til baka í töflu

 

Tilvísanir:


[1] Það skal tekið fram að hvorki Bandaríkin né önnur ríki leyfa pyndingar. Hér er vísað til þess, sem Bandaríkin hafa gert, að beita ströngum yfirheyrsluaðferðum en telja það ekki falla undir skilgreiningu pyndinga (sbr. þessa frétt).

[2]  Pennegard, Ann-Marie Bolin.

[3] Rehman, bls. 58 - 61.

[4] Almenn athugasemd nr. 20, 11. mgr.

[5] Rehman, bls. 412.

[6] Írland gegn Bretlandi (dómur 18. janúar 1978).

[7] Á frummáli: „...deliberate inhuman treatment causing very serious and cruel suffering."

[8] Tyrer gegn Bretlandi (dómur 25. apríl 1978).

[9] Aksoy gegn Tyrklandi (dómur 18. des. 1996).

[10] Jacobs & White, bls. 81.

[11] Dougoz gegn Grikklandi (dómur 6. mars 2001).

[12] Mál Peers gegn Grikklandi (dómur 19. apríl 2001).

[13] Sjá frekari umfjöllun Mowbray, bls. 48-52.

[14] Sjá Mowbray, bls. 52 o.áfr.

[15] Mál Austur-afrískra Asíubúa gegn Bretlandi (dómur 14. desember 1973). Decisions and Reports 78-A.

[16] Sjá einnig m.a. frumkvæðisathugun umboðsmanns í máli nr. 2805/1999, þar sem athyglin beindist m.a.  að agaviðurlögum og lagagrundvelli þeirra, töku þvagsýna og upplýsingagjöf til fanga.

[17] SÞ-nefnd gegn pyndingum. Skýrsla um Ísland frá 8. júlí 2008 (CAT/C/ISL/CO/3). Skýrslan sem lá niðurstöðunum til grundvallar var þriðja skýrsla Íslands til nefndarinnar.

[18] Liðir 5-6.

[19] Liður 13.

[20] Liður 11.

[21] Report to the Icelandic Government on the visit to Iceland carried out by the European Committee for the Prevention of Torture and Inhuman or Degrading Treatment or Punishment (CPT) from 3 to 10 June 2004 (CPT/Inf (2006) 3).

[22] Liður 22. Í svari íslenska ríkisins um þetta atriði er vísað í  ákvæði laga nr. 96/2002, 34. gr., þar sem kemur fram hvenær  skipa skal talsmann (og lögmenn ef um meðferð fyrir dómstólum er að ræða) og hvenær kostnaður greiðist úr ríkissjóði, en um það er vísað til almennra reglna  laga um meðferð opinberra mála, VI. kafla. Ekki eru gefnar frekari skýringar á þeim undantekningum  frá skipun talsmanns sem koma fram í 34. gr., sem annars vegar velta á mati dómara (þegar um vægari úrræði er að ræða) og hins vegar þegar brottvísun er vegna refsiverðra brota.  Á grundvelli dóma MDE um réttláta málsmeðferð og virk réttarúrræði (13. gr. MSE) verður að ganga út frá því að það felist í kröfunni um virk réttarúrræði að málskot fresti framkvæmd ákvörðunar og að lögfræðileg aðstoð sé tiltæk í málum sem varða mikilvæga hagsmuni einstaklinga, ekki síst ef önnur ákvæði sáttmálans koma einnig til skoðunar, s.s. 8. gr. um  vernd fjölskyldulífs, sjá m.a. Al-Nashif gegn Búlgaríu (dómur 20. júní 2002). Sjá frekar kafla III B.

[23] Response of the Icelandic Government to the report of the European Committee for the Prevention of Torture and Inhuman or Degrading Treatment or Punishment (CPT) on its visit to Iceland (CPT/Inf (2006) 4).

Til baka í töflu

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is