III A - 2 Bann við þrældómi, nauðungarvinnu og mansali

Til baka í efnisyfirlit III hluta

 

 Réttindi  Sáttmálar  Íslensk lög Dómar, úrskurðir, álit

Bann við þrældómi eða nauðungarvinnu

 

 

8. gr. SBSR

4. gr. MSE

Samþykkt ILO nr. 29. 

Samþykkt ILO nr. 105.

 

 

2. mgr. 68. gr. STS

 

Lög um Mannréttinda-sáttmála Evrópu nr. 62/1994 

 

 

Almenn hegningarlög, 227. gr.a.  nr. 19/1940

 

MDE

Van der Mussele gegn Hollandi

Ananyev gegn Úkraínu

Siliadin gegn Frakklandi

 

 

 

Reglur varðandi mansal

6. gr. CEDAW

Valkvæð bókun við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem fjallar um sölu á börnum, barnavændi og barnaklám

Samningur Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri brotastarsemi (Palermó-samningurinn)*

Bókun um að koma í veg fyrir, berjast gegn og refsa fyrir verslun með fólk, einkum konur og börn (Palermó-bókunin)

Evrópusamningur um aðgerðir gegn mansali*

*Samningurinn hefur verið undirritaðir af Íslands hálfu en ekki fullgiltur

 Íslenskur réttur  

 

Hið almenna bann við þrældómi er eins í MSE og SBSR. Þar að auki hefur íslenska ríkið fullgilt tvær samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um nauðungarvinnu (nr. 29 frá 1930 og nr. 105 frá 1957). MDE hefur horft til þeirra samþykkta við skilgreiningu á hugtökum en jafnframt bent á að MSE sé lifandi samningur sem þróist til að taka mið af nýjum aðstæðum.

 

Mansal er mikið og vaxandi vandamál í alþjóðasamfélaginu og hefur verið lýst sem nútíma þrælahaldi.[1] Hér að neðan er umfjöllun um þetta vandamál og þá samninga og reglur sem eiga við um það.

 

SBSR

8. gr. SBSR

1. Engum manni skal haldið í þrældómi; hvers konar þrældómur og þrælaverslun skulu vera bönnuð.

2. Engum manni skal haldið í þrælkun.

3. (a) Eigi skal þess krafist af neinum manni að hann vinni þvingunar- eða nauðungarvinnu;

(b) Ekki skal 3. mgr. (a) útiloka, í löndum þar sem fangelsun ásamt skyldu til erfiðisvinnu má beita sem refsingu fyrir glæp, að erfiðisvinna sé unnin í samræmi við dóm um slíka refsingu sem lögbær dómstóll kveður upp;

(c) „Þvingunar- og nauðungarvinna" í merkingu þessarar málsgreinar skal eigi taka til:

(i) vinnu eða þjónustu, sem ekki er getið í málslið (b), sem almennt er krafist af manni sem er í varðhaldi sem afleiðingu af löglegri skipun dómstóls, eða af manni sem hefur skilorðsbundið verið leystur úr slíku varðhaldi;

(ii) herþjónustu og, í löndum þar sem synjun til herþjónustu samvisku manna vegna er viðurkennd, þegnskylduvinnu sem krafist er að lögum af mönnum sem synja herþjónustu samvisku sinnar vegna;

(iii) þjónustu sem krafist er vegna hættu- eða neyðarástands sem ógnar lífi eða velferð almennings;

(iv) vinnu eða þjónustu sem er þáttur í venjulegum borgaraskyldum.

Til baka í töflu

 

Rétt eins og gildir um 7.gr. samningsins, sem fjallað hefur verið um í III A-1, þá eru undantekningar frá 8. gr. SBSR ekki leyfilegar.

 

Bann við þrældómi er í 1. mgr. ákvæðisins. Með þrældómi er átt við aðstæður þar sem einstaklingur hefur í raun eignarrétt yfir öðrum einstaklingi og má nýta sér þann rétt á hvaða hátt sem er. Í 2. mgr. 8. gr. SBSR er lagt bann við þrælkun. Þrælkun er víðtækara hugtak hugtak en þrældómur. Undir það fellur hvers konar fjárhagsleg nýting eða þvingun á öðrum einstaklingi, án þess að um einhvers konar eignarrétt er að ræða.[2]

 

Í 3. mgr. (a) er síðan lagt bann við þvingunar- eða nauðungarvinnu. Skilgreiningu á þessum hugtökum má finna í 29. samþykkt alþjóðavinnumálastofnunarinnar þar sem þetta er skýrt sem öll sú vinna eða þjónusta, sem krafist er af manni, með hótun um einhvers konar refsingu og hann hefur ekki gefið sig sjálfviljugur fram til þess að inna af hendi. Í liðum (b) og (c) eru síðan taldar undantekningar frá banni (a)-liðar.

 

Jákvæð skylda er lögð á herðar ríkinu með 8.gr.SBSR. Ríki þurfa að vernda einstaklinga innan lögsögu þeirra fyrir meðferð  einkaaðila, er brýtur gegn 8. gr. Þetta gerir ríkið með því að setja lög sem banna nauðungarvinnu, ólögmæta notkun barna sem vinnuafls sem og barnavændi. Jafnframt er ætlast til þess að ríki hafi skilvirkt eftirlit með því að landslög uppfylli kröfur alþjóðasamninga.[3]

Til baka í töflu

 

MSE

4. gr. MSE. Bann við þrældómi og nauðungarvinnu

1. Engum manni skal haldið í þrældómi eða þrælkun.

2. Eigi skal þess krafist af nokkrum manni að hann vinni þvingunar- eða nauðungarvinnu.

3. Þvingunar- eða nauðungarvinna í merkingu þessarar greinar skal eigi taka til:

a. vinnu sem krafist er í samræmi við almennar reglur um tilhögun gæslu sem kveðið er á um í 5. gr. samnings þessa eða meðan á skilyrtri lausn úr slíkri gæslu stendur;

b. herþjónustu eða þjónustu sem krafist er í hennar stað af mönnum sem synja herþjónustu samvisku sinnar vegna og búa við lög sem heimila slíka synjun;

c. þjónustu vegna hættu- eða neyðarástands sem ógnar lífi eða velferð almennings;

d. vinnu eða þjónustu sem er þáttur í venjulegum borgaraskyldum.

Til baka í töflu

 

Í 1. mgr. 4.gr. MSE segir að engum manni skuli haldið í þrældómi eða þrælkun. Hvorki þrældómur né þrælkun eru skilgreind í MSE. Hugtökin vísa til stöðu eða aðstæðna einstaklings í heild. Einungis er stigsmunur á þessum tveimur hugtökum. Hugtakið þrældómur vísar til einhvers konar eignarréttar yfir þræl en þrælkun vísar til vinnuskyldu sem ekki verður komist undan.[4]

 

Í 2. mgr. segir að eigi skuli þess krafist af nokkrum manni að hann vinni þvingunar- eða nauðungarvinnu. Þvingunar- eða nauðungarvinna er heldur ekki skilgreind í 4.gr MSE. MDE taldi í máli Van der Mussele gegn Hollandi[5] að til að 4. gr. MSE gæti átt við þyrfti í fyrsta lagi að vera líkamleg eða andleg nauðung. Einnig væri ekki nægilegt að um einhvers konar lagalega nauðung eða skyldu væri að ræða heldur þyrfti að vera um að ræða vinnu sem fengin væri fram með hótun um einhvers konar viðurlög.

 

Munurinn á hugtökum í þessum tveimur málsgreinum er að þrældómur og þrælkun eru viðvarandi ástand en þvingunar- og nauðungarvinna getur verið atviksbundið eða varað í ákveðið tímabil. Engar undantekningar eru frá 1. mgr. en hins vegar eru í 3. mgr. 4.gr. taldar  upp þær undantekningar sem leyfðar eru frá ákvæði 2. mgr. 4.gr.[6]

 

Fá mál koma fyrir Mannréttindadómstól Evrópu þar sem reynir á 4. gr. MSE. Í sumum málum getur skipt máli hvort vinnan er unnin að eigin frumkvæði eða ekki. Tilvik þar sem einstaklingar fá ekki greitt fyrir vinnu, eins og samið hefur verið um, fellur ekki undir 4.gr. MSE sem þrælkun eða nauðungarvinna. Er í slíkum tilvikum um að ræða einkaréttarlegt mál eins og til dæmis í máli Ananyev gegn Úkraínu[7]. Munurinn liggur í því að hafa gengið fús til vinnu í því skyni að fá greiðslu og er þá ekki um þvingun að ræða.

 

Þessi hugtök og ákvæði 4. gr. MSE geta hins vegar skipt miklu máli varðandi mál er tengjast mansali og þvingunar- eða nauðungarvinnu.  Ekki verður þó séð að mörg mál hafi komið fyrir MDE enn sem komið er þar sem reynir á mansal. Stafar það mögulega af því að greinin verndar fyrst og fremst gegn brotum aðildarríkja - og þess vegna opinberra aðila.[8] Þó svo að jákvæð skylda ríkisins til að vernda einstaklinga gegn brotum gegn greininni komi til greina og mögulega einkaréttarleg áhrif, þar sem ábyrgð er lögð á einstaklinga eða lögaðila, hefur rýmkun á ákvæðum MSE í þá átt almennt gengið hægt fyrir sig.  MDE hefur í einu máli fjallað um jákvæðar skyldur sem 4. gr. leggur á ríki og lagt áherslu á að skýra verði samninginn til samræmis við aðrar þjóðréttarlegar skuldbindingar sem banna þrælahald og nauðungarvinnu, s.s. sáttmála ILO (nr. 29), og 19. gr. Barnasáttmálans. Í Siliadin gegn Frakklandi[9] var um það að ræða að 15 ára stúlka frá Togo vann gegn vilja sínum ólaunaða vinnu við heimilisstörf hjá frönskum hjónum. Um var að ræða ólöglegan innflytjanda, sem hafði komið til Frakklands með ættingja föður síns, sem síðar „lánaði" áðurnefndum  hjónum stúlkuna. Henni hafði verið lofað að landvistarleyfi yrði fengið og að menntun hennar yrði tryggð. Þess í stað var hún látin vinna allt að 15 stundum á dag 7 daga vikunnar og vegabréf hennar var tekið af henni. Dómstóllinn taldi að þessi meðferð félli  bæði  undir þrælkun og nauðungarvinnu og taldi að Frakkland hefði ekki fullnægt þeirri skyldu að tryggja að meðferð eins og þessari væri útrýmt (með refsilögum og/eða öðrum viðeigandi aðgerðum).

 

Búast má við því að frekar reyni á jákvæðar skyldur samkvæmt 4. gr. MSE í framtíðinni, og að greinin muni mögulega ná til mansals (sjá frekari umfjöllun síðar í kaflanum). Eins og er hafa aðrar reglur þjóðaréttar að geyma ítarlegri reglur um mansal og nýrri afbrigði af þrælkun og nauðungarvinnu heldur en MSE.

Til baka í töflu

 

Samþykktir alþjóðavinnumálastofnunarinnar

 

Alþjóðavinnumálastofnunin hefur gert tvær samþykktir sem snúa að nauðungarvinnu og hefur íslenska ríkið fullgilt þær báðar.[10] Sú fyrri er samþykkt nr. 29 frá 1930 um nauðungarvinnu eða skylduvinnu. Samkvæmt henni skuldbindur íslenska ríkið sig til þess að útrýma hvers konar nauðungarvinnu eða skylduvinnu á eins skömmum tíma og unnt er. Eru þessi hugtök skilgreind þannig að þau feli í sér: „...alla vinnu eða þjónustu sem krafizt er af manni með hótun um einhvers konar refsingu og hann hefur ekki gefið sig sjálfviljugur fram til þess að inna af hendi."[11] Undantekningar frá þessu banni eru herskylda, borgaralegar skyldur, vinna á neyðartímum og vinna í þágu sveitarfélaga.

 

Seinni samþykktin er nr. 105 frá 1957 um afnám nauðungarvinnu. Með fullgildingu hennar er hugtakið nauðungarvinna nánar skilgreint þannig að undir það falli þegar vinnu: (a) er beitt sé með pólitískri þvingun, fræðslu, eða sem refsingu gegn mönnum fyrir að hafa eða láta í ljósi stjórnmálaskoðun eða skoðanir hugsjónalega gagnstæðar hinu ríkjandi skipulagi, stjórnmálalegu, félagslegu eða efnahagslegu; (b) er beitt sé sem aðferð til þess að nota verkalýðinn til breytinga á efnahagskerfinu; (c) er beitt sé til þess að aga verkalýðinn; (d) er beitt sé til refsingar fyrir þátttöku í verkföllum; (e) er beitt sé til misununar sökum uppruna, félagslegrar aðstöðu, þjóðernis eða trúarbragða.

Til baka í töflu

 

Bann við mansali

Þó að mansal sé síður en svo nýtt fyrirbæri þá hefur umfang þess aukist til muna á síðustu áratugum með aukinni alþjóðavæðingu og auknum fólksflutningum á milli landa.[12] Til mansals telst verknaður, sem felur í sér vald yfir annarri manneskju, þannig að hún er flutt eða hýst eða ráðin til starfa, án samþykkis hennar, í þeim tilgangi að hagnýta  bága stöðu hennar. Eins og kemur fram í frumvarpi með lögum þeim sem breyttu almennum hegningarlögum (nr.149/2009)(sjá hér) felur mansal í sér þrjá þætti: 1) verknað, t.d. að flytja á milli landa, hýsa eða ráða einstakling; 2) valdbeitingu eða annars konar nauðung, hótun, svik, blekkingar eða brottnám og 3) þann tilgang að hagnast á verknaðinum, þ.e. yfirleitt að njóta góðs af vinnu viðkomandi. Það er ekki skilgreiningaratriði að farið sé yfir landamæri, þ.e. að fólk sé flutt milli landa, en í raun eru tilvikin oft þannig til komin og eru þessar reglur því mikilvægar varðandi réttarstöðu útlendinga.

 

Ekki er víst að einstaklingar séu þvingaðir til farar í öllum tilvikum, en þá getur verið að samþykki þeirra sé óvirkt vegna þrýstings  eða blekkinga. Þær aðstæður, sem þeim eru alla jafna boðnar, eru til þess fallnar að misnota þá og þeirra vinnu og ef ekki er um þvingun að ræða er oft um að ræða blekkingar eða svik. Munur er á þessu hugtaki og smygli á fólki, en þá er um að ræða aðstoð við að komast yfir landamæri í bága við innflytjendalöggjöf viðkomandi lands og gegn gjaldi. Þar er því ekki um hagnýtingu á fólki að ræða, en í reynd eru mörk þessarra tilvika og tilvika sem falla undir mansal oft óljós.[13]

 

Baráttan gegn mansali fer fram með tvenns konar aðgerðum, annars vegar að skylda ríki til að sækja gerendur til saka og hins vegar með því að kveða á um réttindi fórnarlamba, t.d. til endurhæfingar og aðstoðar við að aðlagast nýjum aðstæðum. Einnig geta fórnarlömb átt rétt á vernd vegna þeirrar hættu sem gæti beðið þeirra heima fyrir, væri þeim vísað úr landi. Á öllum þessum sviðum reynir á samræmingu reglna, samræmingu lögsögu og jákvæðar skyldur ríkisins, þar sem ríki gangast undir þær skuldbindingar að setja reglur (refsilög) sem banna mansal, sjá til þess að banninu sé framfylgt, samræma refsilögsögu til að koma í veg fyrir að þeir sem eru brotlegir komist undan refsingu og á annan hátt að vernda þá sem verða fyrir mansali, með almennum og sérstökum aðgerðum.

 

Hversu langt nær skylda ríkisins? Það er ekki hægt að ætlast til þess að ríki sé skylt að veita fullkomna vernd, enda er það ógjörningur. Hins vegar verður ríki að veita vernd með skilvirkum hætti, með því að setja í lög refsiákvæði og ákvæði sem vernda fórnarlömb. Það er því ekki endilega mannréttindabrot hjá ríkinu ef einstaklingur hefur orðið fyrir mansali. Það verður að hafa orðið misbrestur á því að tryggja réttindi með lögum eða þá á því að framfylgja slíkum lögum, sé þeim til að dreifa. Í almennri athugasemd 31 styður mannréttindanefnd SÞ að það sé einungis ríkið sem tryggi mannréttindi og brjóti gegn þeim.[14] Vegna þessa er erfitt að koma fram beinni ábyrgð þeirra sem sekir eru um mansal, með vísan í alþjóðlega mannréttindasamninga.

 

Alþjóðasamfélagið hefur brugðist við aukningu á mansali með samningum og með samstilltum aðgerðum. Þeir samningar og þær reglur sem áður er lýst geta að einhverju marki náð til mansals, en þó hefur umfang þess og skipulagning þeirrar glæpastarfsemi sem tengist mansali kallað á nýjar aðferðir við að berjast gegn starfseminni. Samninga sem hafa þann tilgang að berjast gegn mansali má finna á vettvangi ýmssa alþjóðastofnana, t.d. Sameinuðu þjóðanna, Evrópuráðsins, Evrópusambandsins[15] og einnig á sviði alþjóðlegs refsiréttar.[16] Verður nú gerð grein fyrir helstu samningum.

Til baka í töflu

 

SBSR

Ákvæði 8. gr. SBSR samningsins, sem fjallað var um hér að ofan, getur náð til tilvika sem þessarra. Mannréttindanefnd SÞ gerir þær kröfur til aðila að samningnum að þeir upplýsi nefndina um þær aðgerðir sem teknar eru til að útrýma mansali og þvinguðu vændi. Í skýrslum[17] hefur nefndin sagt að áhrifarík úrræði, m. a. refsingar, skuli vera til staðar til að koma í veg fyrir þvingað vændi, sem brýtur gróflega gegn 8. gr. Jafnframt taldi nefndin að ríki ættu að vera með áætlanir til staðar sem miða að því að veita konum í slíkum kringumstæðum aðstoð.

 

MSE

Fá mál koma fyrir Mannréttindadómstól Evrópu þar sem reynir á 4. gr. MSE, eins og áður sagði. Ekki er um sérreglur að ræða sem eiga sérstaklega við útlendinga. Ef mansal er hins vegar stundað hér á landi þá má fastlega gera ráð fyrir því að fórnarlömb séu af erlendu bergi brotin.

 

Ekki hefur reynt á það hér á landi hvort beita má 4. gr. MSE, sbr. lög nr. 62/1994 um mansal, enda ekki fyrir að fara skýrri framkvæmd MDE um beitingu greinarinnar og hversu rúmt hún verður túlkuð. Eins og áður kom fram hefur dómstóllinn fallist á að jákvæðar skyldur ríkisins skv. 4. gr. taki til þess að koma í veg fyrir að einstaklingar fari með aðra einstaklinga á þann hátt sem telst til þrælkunar eða nauðungarvinnu. Jákvæðar skyldur ríkisins myndu þó fyrst og fremst ná til þess að banna slíka framkvæmd, með refsilögum og eftirliti, en ólíklegt er að greinin yrði túlkuð svo rúmt að á henni mætti byggja kröfur um aðgerðir sem vernda fórnarlömb mansals. Eins og Egan bendir á eru önnur ákvæði MSE líklegri til að undibyggja jákvæða skyldu ríkja til þess að vernda fórnarlömb mansals. Þar má nefna 3. gr. MSE sem bannar ómannlega eða vanvirðandi meðferð[18] og 8. gr. um friðhelgi einkalífs, en MDE hefur talið að í greininni felist jákvæðar skyldur til að vernda einstaklinga og líkamlega og siðferðilega velferð þeirra[19]

Til baka í töflu

 

CEDAW

 

Þessi samningur, sem er komin til af starfsemi Sameinuðu þjóðanna, leggur þær skyldur á samningsaðila að þeir vinni gegn hvers kyns verslun með konur og gróðastarfsemi sem tengist vændi kvenna, sbr. 6. gr. samningsins.

 

Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir, þ. á m. með lagasetningu, til að hamla gegn hvers konar verslun með konur og gróðastarfsemi tengdri vændi kvenna.

 

Í skýrslum sínum hefur nefnd um afnám mismununar gagnvart konum túlkað greinina rúmt og kallað eftir aðgerðum ríkja bæði til að útrýma mansali en einnig aðgerðum til að vernda fórnarlömb og aðstoða, líkamlega, andlega og félagslega, m.a. með því að sjá þeim fyrir húsnæði, ráðgjöf og læknisaðstoð. Nefndin gerir nú tillögur um þessi efni í flestum skýrslum sínum.[20]

Til baka í töflu

 

Valkvæð bókun við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem fjallar um sölu á börnum, barnavændi og barnaklám

 

Verndarákvæði er í valfrjálsri bókun við samning um réttindi barna en í henni er einkum lögð skylda á að refsa fyrir brot sem bókunin tekur til. Í 8. gr. segir að ,,aðildarríki skulu samþykkja viðeigandi ráðstafanir til að vernda réttindi og hagsmuni barna sem eru fórnarlömb þeirra athafna sem eru bönnuð samkvæmt þessari bókun á öllum meðferðarstigum sakamáls." Leggur bókunin því áherslu á vernd fórnarlamba auk þess að mæla fyrir um þau brot sem ríki skulu gera refsiverð, sbr. einnig 9. gr. Bókunin fjallar einnig um atriði varðandi lögsögu, framsal og samvinnu, bæði varðandi rannsókn og saksókn brota. Íslenska ríkið hefur skrifað undir og fullgilt bókunina.

 

Samningur Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri brotastarsemi (Palermó samningurinn) og Palermó-bókunin við samninginn

Nýjasti samningur á vegum Sameinuðu þjóðanna í baráttunni gegn mansali er samningurinn gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri brotastarsemi (Palermó-samningurinn) 2000 og bókun um að koma í veg fyrir, berjast gegn og refsa fyrir verslun með fólk, einkum konur og börn (Palermó-bókunin) 2000. Íslenska ríkið undirritaði samninginn og bókunina fyrir nokkrum árum. Þann 13. maí 2010 var Palermó-samningurinn fullgiltur og Palermó-bókunin var fullgilt 22. júní 2010. Hafði þá íslenskum hegningarlögum verið breytt til samræmis við kröfur samningana, sbr. hér síðar.

 

Megintilgangur Palermó-samningsins er að stuðla að samvinnu á milli ríkja með það að markmiði að berjast gegn skipulagðri brotastarfsemi með skilvirkari hætti en áður og efla þar með alþjóðlegt samstarf. Í Palermó-bókuninni er síðan að finna fyrstu skilgreininguna á mansali, sem samþykkt hefur verið á alþjóðavettvangi, og er hún í dag hin viðtekna skilgreining. Hefur hún að geyma hina þrjá þætti sem nefndir voru í upphafi þessa kafla, það er að um sé að ræða verknað, t.d. að flytja á milli landa, hýsa eða ráða einstakling; að til staðar sé valdbeiting eða annars konar nauðung, hótun, svik, blekkingar eða brottnám og að sá tilgangur sé til staðar að hagnast á verknaðinum, þ.e. yfirleitt að njóta góðs af vinnu viðkomandi.

 

Skilningur á mansalsvandanum hefur aukist hratt og hefur það leitt til þess að mati sumra að samningurinn sé farinn að verða að hluta til úreltur, t d. með því að tengja saksókn þeirra sem bera ábyrgð annars vegar og vernd fórnarlamba hins vegar. Þróunin í samningum af þessu tagi hefur verið hröð í þá átt að veita fórnarlömbum hvata til að starfa með stjórnvöldum ríkja.[21] Palermó-bókunin er ekki mannréttindaákvæði í sjálfu sér heldur ákvæði um skyldu til að samræma refsilög. Palermó-samningurinn og bókunin við hann eiga þó aðeins við um alþjóðlega glæpastarfsemi, en Evrópusamningurinn um aðgerðir gegn mansali, sem fjallað er um hér að neðan, tekur til mansals án tillits til þess hvort um skipulagða glæpastarfsemi er að ræða.

Til baka í töflu

 

Evrópuráðssamningur um aðgerðir gegn mansali

 

Samningur Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali, sem Ísland hefur undirritað, en ekki fullgilt, tók gildi þann 1. febrúar 2008. Í honum er að finna sambærilega skilgreiningu á mansali og í Palermó-bókuninni.[22] Þessi samningur horfir meira á mannréttindi þolenda. Þannig setur 1. gr. sáttmálans  fram tilgang sáttmálans, um að vernda mannréttindi og að setja fram skýran ramma (framework) til að vernda og aðstoða fórnarlömb og vitni. Í skýringu við Evrópusamninginn segir að mannréttindi geti gilt lárétt sem og lóðrétt, þ.e.a.s. að ríki beri ekki aðeins ábyrgð á inngripi í réttindi einstaklinga heldur geti það borið ábyrgð  á gjörðum einstaklinga ef það hefur ekki gripið til aðgerða til að koma í veg fyrir þær aðgerðir. Nýmæli er einnig í samningnum að lögð er sú skylda á ríkið að leggja refsiábyrgð á lögaðila (en ekki eingöngu einstaklinga) í málum sem þessum.

 

Samningurinn gengur lengra en aðrir samningar í því að viðurkenna réttindi fórnarlamba og tengslin milli þess að vernda þau og að ná árangri í að sækja hina brotlegu til saka. Hann viðurkennir með skýrum hætti að mansal er mannréttindabrot og gerir ríkjum skylt að veita lágmarks aðstoð til fórnarlamba þess, óháð vilja þeirra til að starfa með eða aðstoða yfirvöld, og er ekki leyfilegt að víkja nokkru fórnarlambi sjálfkrafa úr landi. Fórnarlömbum, sem starfa með yfirvöldum, er síðan veittur réttur til aukinnar aðstoðar og börnum, sem eru fórnarlömb mansals, er tryggð sérstök aðstoð.[23] Með breytingum þeim sem gerðar voru á almennum hegningarlögum, með lögum nr. 149/2009, var tilvísun í Evrópuráðssamninginn bætt við í 20. tl. 6. gr. almennra hegningarlaga, um refsilögsögu íslenska ríkisins vegna brota sem tilgreind eru í þeim samningi. Fullnægir þetta kröfu samningsins um rúma refsilögsögu í brotum sem þessum.

Til baka í töflu

 

Íslenskur réttur

Í 2. mgr. 68. gr. STS segir að nauðungarvinnu skuli engum gert að leysa af hendi. Þó að hér sé um einfaldara ákvæði að ræða heldur en samsvarandi bann í MSE var við breytingu stjórnarskrár ekki talin ástæða til að breyta þessu ákvæði. Var talið að þó ekki væri tiltekið sérstaklega að þrældómur og þrælkunarvinna væru bönnuð mætti álykta að svo væri, enda gengi það mun lengra en nauðungarvinna. Ekki hefur reynt á þetta ákvæði í íslenskum rétti.[24]

 

Í almennum hegningarlögum er að finna bann við mansali í 227. gr. a. og komu þessar breytingar til til að aðlaga íslenskan rétt að framangreindum skuldbindingum. Ákvæðið, eins og því var breytt með lögum nr. 149/2009 hljóðar svo, og er því ætlað að innleiða 1.mgr. 5.gr. Palermó-bókunarinnar [25]

 

227. gr. a.

- Hverjum þeim sem gerist sekur um eftirtalda verknaði, einn eða fleiri, í þeim tilgangi að misnota mann kynferðislega eða til nauðungarvinnu eða til að nema á brott líffæri hans skal refsa fyrir mansal með allt að 8 ára fangelsi:

1. Að útvega, flytja, afhenda, hýsa eða taka við einstaklingi og við það er beitt eða hefur verið beitt ólögmætri nauðung skv. 225. gr., eða frelsissviptingu skv. 226. gr., eða hótun skv. 233. gr., eða ólögmætum blekkingum með því að vekja, styrkja eða hagnýta sér villu viðkomandi um aðstæður eða með því að hagnýta sér bága stöðu viðkomandi.

2. Að útvega, flytja, afhenda, hýsa eða taka við einstaklingi yngri en 18 ára.

3. Að láta af hendi greiðslu eða annan ávinning til að afla samþykkis til misnotkunarinnar hjá manni sem ræður gerðum annars manns.

- Sömu refsingu skal sá sæta sem tekur við greiðslu eða öðrum ávinningi skv. 2. tölul. 1. mgr.
- Beinist brot skv. 1. mgr. gegn barni skal taka það til greina til þyngingar refsingunni.
- Sömu refsingu skal hver sá sæta sem gerist sekur um eftirtalda verknaði, einn eða fleiri, í því skyni að greiða fyrir mansali:

1. Að falsa ferða- eða persónuskilríki.
2. Að annast milligöngu um slík skilríki eða útvega þau.
3. Að halda eftir, fjarlæga, skemma eða eyðileggja ferða- eða persónuskilríki annars einstaklings. ]1]2
1)L.149/2009, 6.gr. 2)L.40/2003, 5.gr.

 

Í frumvarpi með lögunum sagði m.a.: „ Með hliðsjón af þessum alþjóðasamningum er lagt til að lögfest verði sérstakt ákvæði í hegningarlögunum um refsinæmi mansals. Þótt sú háttsemi sem lýst er í frumvarpinu sé í flestu tilliti þegar refsinæm er með þessu lögð sérstök áhersla á þessi brot og refsivernd gegn þeim aukin, en brotastarfsemin beinist gegn frjálsræði og helgustu persónuréttindum. Við lýsingu brotsins í frumvarpinu er höfð hliðsjón af 3. gr. bókunarinnar við samninginn gegn alþjóðlegri og skipulagðri glæpastarfsemi. Þess má geta að í Danmörku var þessi leið farin með lögum nr. 380/2002."

Til baka í töflu

 

Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna lýsti í skýrslu sinni um Ísland yfir áhyggjum yfir aukningu mansals innan lögsögu Íslands og hvatti til þess að koma á fót áætlun til að bregðast við þessu.[26] Nefndin gegn pyndingum gerði slíkt hið sama í skýrslu sinni um Ísland en sú skýrsla er ítarlegri hvað þetta varðar. Hún lýsti áhyggjum af því að mansalstilvik á Íslandi og í gegnum Ísland hefðu komið upp og að ekki sé kerfi til að fylgjast með og meta hversu umfangsmikið þetta vandamál er. Gæta þurfi að því að áætlun um aðgerðir gegn mansali fái nægilega fjárhagslega aðstoð auk þess að koma þurfi á samræmdu upplýsingaforriti til að safna gögnum, fylgjast með raunverulegu ástandi mála og hafa tök á því að koma í veg fyrir slík tilvik og aðstoða fórnarlömbin.

 

Ríkið skuli jafnframt koma á sérstakri þjálfun fyrir starfsfólk í löggæslu og landamæraeftirliti.[27]

 

Nefnd SÞ um afnám allrar mismununar gagnvart konum skilaði skýrslu um hvernig Íslandi gengi að uppfylla ákvæði sáttmálans.[28] Þar lýsti nefndin áhyggjum af skorti á upplýsingum um mansal og framkvæmd banns við mansali. Jafnframt var lýst yfir áhyggjum af lögleiðingu vændis sem geti stuðlað að aukningu á mansali og misnotkun í tengslum við vændi. Einnig að fórnarlamba- og vitnavernd sé ekki til að dreifa fyrir fórnarlömb mansals.

 

Kallað hefur verið eftir framkvæmdaáætlun varðandi mansal, en eins og sagt var leggur Evrópuráðssamningur um aðgerðir gegn mansali áherslu á aðgerðir til að aðstoða fórnarlömb mansals. Svo virðist sem hugmyndir um framkvæmdaáætlun hafi verið í bígerð í nokkurn tíma og hafa samtök og hagsmunahópar kallað eftir aðgerðum auk alþjóðlegra stofnana.[29] Mikil áhersla hefur verið lögð á stefnumótun og aðgerðir í málefnum sem tengjast mansali á árunum 2009 og 2010. Frá 1. október 2009 hefur Innanríkisráðuneytið umsjón með þessum málaflokki. Á vef ráðuneytisins er nú að finna upplýsingar um málefni sem varða mansal, þ.á.m. lagareglur og framkvæmdareglur á þessu sviði, sjá hér.

Til baka í töflu

 

Tilvísanir:


[1] Sjá Egan, bls. 106.  Í greininni kemur fram að þótt erfitt sé að meta umfang mansals með áreiðanlegum hætti, hafi verið áætlað að um 800.000 manns séu flutt á milli landa á hverju ári, auk þess sem fjöldi manns sé seldur mansali í heimaríki sínu. Þar kemur einnig fram að enn sem áður séu fórnarlömb mansals helst konur og börn sem eru seld mansali í kynlífsiðnað.

[2] Joseph, Schultz og Castan, bls. 295.

[3] Skýrsla SÞ-nefndar um Brasilíu frá 24. júlí 1996 (CCPR/C/79/Add.66). Joseph, Schultz og Castan, bls. 298.

[4] Gauksdóttir, bls. 137-138.                                                          

[5] Van der Mussele gegn Belgíu (dómur 23. nóvember 1983), 34. mgr.

[6] Ovey & White, bls. 110.

[7] Ananyev gegn Úkraínu (dómur 30. nóvember 2006).

[8] Þau mál sem hafa komið til kasta MDE hafa því fjallað um  starfsgreinar á borð við lögfræðinga (Van der Mussele), slökkviliðsmanna  og lækna, sem bera skyldur sem opinberir starfsmenn.

[9] Siliadin gegn Frakklandi (dómur 25. júlí 2005).

[10] Aþjóðavinnumálastofnunin var stofnuð árið 1919 með Versalasamningnum, sem gerður var eftir fyrri heimstyrjöldina. Tilgangur stofnunarinnarer að bæta möguleika einstaklinga á að öðlast vinnu þar sem aðstæður einkennast af frelsi, jafnræði, öryggi og virðingu fyrir mannlegri reisn. Vefsíða sambandsins er www.ilo.org og umfjöllun um samninga stofnunarinnar er í öðrum köflum verkefnisins.Sjá einnig almenna umfjöllun í I B.

[11] 1. mgr. 2. gr. samþykktarinnar.

[12]  Eldri sáttmálar  tóku sérstaklega til kynlífsþrælkunar kvenna og barna, sbr. t.d.  sáttmála SÞ frá 1949  um vernd gegn mansali og vændi (Convention for the Suppression of the Traffic in Persons and of the Exploitation of the Prostitution of Others of 2 December 1949, CEDAW, 6. gr.).

[13] Sjá Egen, bls. 108.

[14]  Almenn athugasemd nr. 31 frá 26. maí 2004 (CCPR/C/21/Rev.1/Add.13)

[15] Innan Evrópusambandsins er helst að finna rammaákvörðun frá 2002 um baráttu gegn mansali og tilskipun 2004/81/EC frá 2004 um rétt til búsetu fyrir þá sem eru þolendur mansals. Rammaákvörðunin og tilskipunin eru ekki hluti EES-samningsins, enda eru reglurnar settar með heimild í reglum innan þriðju stoðar (JHA) og taka mið af reglum um innflytjendur sem og öryggis- og landamæragæslu. Reglurnar, sem og fjöldi aðgerðaáætlana, geta haft áhrif á framkvæmd hérlendis í gegnum Schengen samstarf Íslands við Evrópusambandið og aðildarríki þess. Um aðgerðaráætlanir Evrópsambandsins, og gagnrýni á stefnu sambandsins á þá leið að stefnan byggist of mikið á öryggis- og refsisjónarmiðum  í þessum málum sjá Berman og Friesendorf.

[16] Ekki verður fjallað sérstaklega um reglur alþjóðlegs refsiréttar, en þær reglur sem settar eru í þeim samningum sem fjallað er um hafa áhrif á þá framkvæmd.

[17] Skýrsla SÞ-nefndarinnar um Portúgal frá 5. maí 1997 (CCPR/C/79/Add.77) og Slóvakíu frá 22. ágúst 2003 (CCPR/CO/78/SVK)

[18] Egan, 117. Sjá umfjöllun um 3. gr. MSE í III A-1.

[19] Sjá m.a. X og Y gegn Hollandi (dómur 26. mars 1985). Talað er um „physical and moral integrity". Sjá frekar Egan,  bls. 117.

[20] Egan, bls. 114.

[21] Sjá nánar Gallagher. Svipuð gagnrýni hefur komið fram á aðgerðir Evrópusambandsins í þessum málum, en þar er aðstoð við fórnarlömb mansals oft skilyrt þannig að fórnarlambi beri skylda til að upplýsa um eða bera vitni gegn þeim sem stunda mansal. Sjá frekari umfjöllun Berman og Friesendorf.

[22] Í 4. gr. er að finna eftirfarandi skilgreiningu á mansali:

    a.     „Trafficking in human beings" shall mean the recruitment, transportation, transfer, harbouring or receipt of persons, by means of the threat or use of force or other forms of coercion, of abduction, of fraud, of deception, of the abuse of power or of a position of vulnerability or of the giving or receiving of payments or benefits to achieve the consent of a person having control over another person, for the purpose of exploitation. Exploitation shall include, at a minimum, the exploitation of the prostitution of others or other forms of sexual exploitation, forced labour or services, slavery or practices similar to slavery, servitude or the removal of organs;

    b.     The consent of a victim of „trafficking in human beings" to the intended exploitation set forth in subparagraph (a) of this article shall be irrelevant where any of the means set forth in subparagraph (a) have been used;

    c.     The recruitment, transportation, transfer, harbouring or receipt of a child for the purpose of exploitation shall be considered „trafficking in human beings" even if this does not involve any of the means set forth in subparagraph (a) of this article;

    d.     „Child" shall mean any person under eighteen years of age;

    e.     „Victim" shall mean any natural person who is subject to trafficking in human beings as defined in this article.

[23] Gallagher, bls. 187-188.

[24] Gauksdóttir, bls 142.

[25] Í athugasemdum við frumvarp sem varð að lögum nr. 40/2003 um breytingar á hegningarlögum nr. 19/1940 segir: Í svonefndu mansali felst hagnýting á einhverjum, oft í kynferðislegum tilgangi. Slík háttsemi getur varðað við ýmis ákvæði almennra hegningarlaga, einkum 206. gr., en í 2. mgr. hennar segir að hver sem hafi atvinnu eða viðurværi sitt af lauslæti annarra skuli sæta fangelsi allt að fjórum árum. Samkvæmt 3. mgr. varðar sömu refsingu að ginna, hvetja eða aðstoða ungmenni, yngri en 18 ára, til þess að hafa viðurværi sitt af lauslæti. Í 4. mgr. er síðan sama refsing lögð við að stuðla að því að nokkur maður flytji úr landi eða til landsins í því skyni að hafa viðurværi sitt af lauslæti ef viðkomandi er yngri en 21 árs eða honum er ókunnugt um þennan tilgang dvalarinnar. Í 5. mgr. segir síðan að hver sem stuðli að því með ginningum, hvatningu eða milligöngu að aðrir hafi holdlegt samræði eða önnur kynferðismök gegn greiðslu eða geri sér lauslæti annarra að tekjulind, svo sem með útleigu húsnæðis eða öðru, skuli sæta fangelsi allt að 4 árum en sektum eða fangelsi allt að einu ári ef málsbætur eru. Eftir atvikum getur mansal einnig tengst brotum gegn öðrum ákvæðum XXII. kafla laganna. Þá geta ákvæði XXIV. kafla laganna um brot gegn frjálsræði manna komið til álita, en þar eru í 225. gr. lagðar refsingar við ólögmætri nauðung og í 226. og 227.gr. við frelsissviptingu.

[26] Mannréttindanefnd SÞ. Skýrsla um Ísland frá 25. apríl 2005 (CCPR/CO/83/ISL).

[27] SÞ-nefnd gegn pyndingum. Skýrsla um Ísland frá 8. júlí 2008 (CAT/C/ISL/CO/3).

[28] Skýrsla CEDAW nefndar um Ísland frá 18. júlí 2008 (CEDAW/C/ICE/CO/6).

[29] Sjá m.a. Tillögur nefndar  gegn kynbundnu ofbeldi að aðgerðaráætlun vegna mansals. Sjá einnig tilvísanir í kafla IV-A.

Til baka í töflu

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is