III B – 1 Ferðafrelsi

Til baka í efnisyfirlit III hluta

Réttindi Sáttmálar Íslensk lög Dómar, úrskurðir, álit

Ferðafrelsi

12. gr. SBSR

 

2. gr. 4. viðauka MSE

 

5. gr. 1. mgr. (f) MSE

 

18. gr. FSE

2., 3. og 4. mgr. 66. gr. STS

 

II. kafli útlendingalaga nr. 96/2002

 

Lög um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994

 

Íslenskur réttur

SÞ-nefnd

J.M. gegn Jamaica

Stewart gegn Kanada

Celepli gegn Svíþjóð

Gonzalez del Rio gegn Perú

MDE

Landvreugd gegn Hollandi

Piermont gegn Frakklandi

Bauman gegn Frakklandi

Austurríki gegn Júgóslavíu

Amuur gegn Frakklandi

Dómar Hæstaréttar

Mál nr. 413/1999

Mál nr. 379/2004

Mál nr. 232/2002

Mál nr. 440/2008

Mál nr. 568/2008

Mál nr. 515/2008

Mál nr. 502/2008

Mál nr. 474/2004

UA

UA 3137/2000

 

SBSR

12. gr. SBSR

1. Hver sá sem er á löglegan hátt innan landsvæðis ríkis skal eiga rétt á umferðarfrelsi og frelsi til þess að velja sér dvalarstað á því landsvæði.

 2. Allir menn skulu frjálsir að því að yfirgefa hvaða land sem er, þar með talið sitt eigið land.

 3. Ofangreindur réttur skal ekki vera neinum takmörkunum háður nema þeim sem ákveðnar eru í lögum, eru nauðsynlegar til þess að vernda þjóðaröryggi, allsherjarreglu (ordre public), heilbrigði almennings eða siðgæði, eða réttindi og frelsi annarra, og eru samrýmanlegar öðrum réttindum sem viðurkennd eru í samningi þessum.

 4. Enginn maður skal að geðþótta sviptur rétti til þess að koma til síns eigin lands.

 

Ferðafrelsi í 12.gr. SBSR veitir einstaklingum rétt til að ferðast óhindrað um ríki og gildir það um allt svæði ríkis. Þennan rétt má ekki binda við ákveðinn tilgang eða ástæðu einstaklings fyrir því að flytja sig til eða vera á sama stað. Ef einhverja takmörkun á að gera verður hún að vera í samræmi við 3. mgr. Aðildarríkjum að samningnum ber jafnframt að tryggja að einkaaðilar, sem og opinberir aðilar, brjóti ekki gegn þessum rétti einstaklinga.[1]

 

Regla 12. gr. SBSR hefur tengsl við reglu 9. gr. um frelsissviptingu. Mannréttindanefnd SÞ segir í áliti sínu í máli Celepli gegn Svíþjóð[2] að 9. gr. eigi við í alvarlegri tilvikum en þeim sem falla undir 12. gr.  Í tilvikum þar sem frelsissvipting er leyfileg samkvæmt 9. gr. SBSR getur því ekki verið um brot á 12. gr. samningsins að ræða.[3]

 

SBSR veitir  útlendingum ekki rétt til inngöngu eða landvistar í öðrum ríkjum.  Ríki má því setja takmarkanir við komu til lands en 1. mgr. 12. gr. nær til allra sem eru á löglegan hátt innan landsvæðis ríkis. Það er undir ríki komið að ákveða hvaða einstaklingar fá að koma til landsins í flestum tilvikum. Undantekningar frá þessu eru þó þegar taka þarf tillit til banns við mismunun, banns við pyndingum og réttar til fjölskyldulífs. Sú undantekning sem mögulega felst í 4. mgr. 12. gr. hefur verið túlkuð þröngt. Sumir hafa haldið því fram að orðalagið „til síns eigin lands" vísi ekki nauðsynlega til upprunaríkis (eða ríkis þar sem viðkomandi hefur ríkisborgararétt) heldur sé nægilegt að sýna fram á ákveðin tengsl, t.d. langvarandi búsetu. Mannréttindanefndin hefur þó ekki óyggjandi tekið undir þetta, sbr. J.M. gegn Jamaica[4] og Stewart gegn Kanada[5]

 

Þegar útlendingar eru löglega staddir í landinu njóta þeir allra réttinda sem kveðið er á um í greininni. Það ræðst af landsrétti hvenær einstaklingur er löglega í landinu og á það örugglega við um þá sem fengið hafa dvalarleyfi og þá sem hafa fengið landvist eftir gildandi reglum.[6] Þegar svo er má einungis hindra ferðafrelsi útlendings á grundvelli 3. mgr. 12. gr. samningsins.[7]

Til baka í töflu

 

Mismunandi meðferð á útlendingum og ríkisborgurum þarf að vera rökstudd með vísan til 3. mgr. 12. gr. SBSR. Þessar takmarkanir mega ekki brjóta gegn öðrum ákvæðum sáttmálans.[8] Í máli Celepli gegn Svíþjóð[9] fyrir Mannréttindanefndinni kvartaði tyrkneskur ríkisborgari yfir takmörkunum á ferðafrelsi sínu, en honum var gert að halda sig innan bæjarmarka og gera grein fyrir sér hjá lögreglunni með reglulegu millibili. Upphaflega stóð til að vísa honum úr landi með vísan til þjóðaröryggis, en þar sem hann átti á hættu að verða fyrir pólitískum ofsóknum í heimalandi sínu var tekin ákvörðun um að takmarka ferðafrelsi hans með vísan til þjóðaröryggis, sbr. 3. mgr. 12. gr. Mannréttindanefndin taldi að takmarkanirnar væru í samræmi við heimild 3. mgr. 12. gr.  Í skýrslu sinni um Litháen[10] lýsti nefndin áhyggjum sínum yfir því að takmarkanir væru settar á ferðafrelsi hælisleitenda og þeim tjáð að umsókn þeirra kynni að verða hafnað, fylgdu þau ekki fyrirmælunum. Sú ályktun hefur verið dregin af þessari skýrslu að ekki eigi að setja takmarkanir samkvæmt 3. mgr. 12. gr. sem ná til hóps útlendinga, heldur beri að skoða hvert mál fyrir sig. Jafnframt er sú ályktun dregin að einstaklingar skuli ekki eiga á hættu óhóflega refsingu fari þeir ekki eftir takmörkunum sem settar eru á ferðafrelsi þeirra.[11]

 

Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. eiga allir rétt á að yfirgefa hvaða land sem er. Ekki er heimilt að skilyrða brottför við ákveðinn tilgang eða tímabil sem einstaklingurinn má vera í burtu. Einstaklingum er jafnframt frjálst að velja áfangastað. Útlendingur, sem vísa á úr landi, á rétt á því að velja til hvaða lands hann fer, óháð því hvort hann var löglega í landinu. Ekki er þó þar með sagt að öll ríki myndu leyfa þeim útlendingi að koma inn á sitt landsvæði.

 

Ríki setja jafnan lög og reglur sem takmarka þetta frelsi. Setji aðildarríki að samningnum takmarkanir verða þær að vera í samræmi við ákvæði 3. mgr. 12. gr. SBSR. Jafnframt þarf að upplýsa Mannréttindanefnd SÞ um þessar takmarkanir svo hún geti metið réttmæti þeirra. Það er t.d. talið samrýmanlegt sáttmálanum að takmarka ferðafrelsi úr landi vegna dómsmála sem bíða einstaklings. Í áliti sínu í máli Gonzalez del Rio gegn Perú[12], þar sem kvartanda var meinað að yfirgefa heimaland vegna sjö ára gamallar handtökuskipunar, sagði nefndin að í tilvikum þar sem mál hafa tafist óeðlilega sé ekki heimilt að halda takmörkun á ferðafrelsi einstaklings til streitu.

 

Til þess að uppfylla skyldu sína samkvæmt 2. mgr. 12. gr. SBSR þurfa ríki, bæði þar sem einstaklingur er ríkisborgari og einnig þar sem hann dvelur, að gefa út öll nauðsynleg skjöl til að einstaklingur geti farið úr landi, sér í lagi vegabréf. Á þetta jafnt við í tilvikum þar sem einstaklingur er staddur í sínu eigin heimariki eða í erlendu ríki.[13]

 

Í 3. mgr. 12. gr. eru talin upp þau tilvik þar sem ríkjum er heimilt að takmarka ferðafrelsi einstaklinga. Til að takmörkun sé leyfileg samkvæmt þessum samningi verður hún að vera lögbundin og vera í samræmi við önnur ákvæði samningsins. Þá verður hún að teljast nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi til verndar andlagi sínu, það er að segja þjóðaröryggi, allsherjarreglu (ordre public), heilbrigði almennings eða siðgæði, eða réttindum og frelsi annarra.

 

 Lögin, sem heimila takmörkun, skulu innihalda skilyrði fyrir takmörkuninni. Skilyrðin skulu vera nákvæmlega tilgreind og skulu ekki veita óeðlilegt svigrúm til matskenndra ákvarðana. Við setningu slíkra laga skulu ríki jafnframt ávallt hafa það að grundvallarreglu að virða tilgang réttindanna. Jafnvægi frelsis og takmarkananna skal ekki snúa við þannig að ferðafrelsið verði undantekningartilvik.

 

Takmarkanir af þessu tagi verða að fylgja grundvallarreglunni um meðalhóf, það er að segja að þau skulu vera þannig úr garði gerð að þau nái fram tilgangi sínum en jafnframt vera sá kostur sem skemmst gengur í takmörkun á ferðafrelsi einstaklinga.[14]

Til baka í töflu

 

MSE

2. gr. 4. viðauka MSE

1. Öllum þeim sem á löglegan hátt eru staddir á landi einhvers ríkis skulu frjálsir ferða og dvalarstaðar þar í landi.

2. Öllum ber réttur til brottfarar úr landi, einnig úr eigin landi.

3. Eigi má leggja nokkrar hömlur á vernd slíkra réttinda, umfram það sem lög standa til og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis eða almannaheilla, í þágu allsherjarreglu, til að firra glæpum, til verndar heilsu manna eða siðgæði eða réttindum og frelsi annarra.

4. Réttindi þau, er greinir í 1. mgr., geta á tilteknum landsvæðum sætt takmörkunum, svo fremi að þeim sé beitt að lögum og séu réttlætanlegar vegna almennra hagsmuna í lýðræðislegu þjóðfélagi.

 

Ákvæði 2. gr. 4. viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu er mjög lík samsvarandi ákvæði SBSR að innihaldi. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. er það skilyrði fyrir því að njóta ferðafrelsis að einstaklingur dveljist löglega í landi. Hér er einnig gert ráð fyrir að það miðist við innlenda löggjöf og framkvæmd hver er löglega í landinu, sjá m.a. niðurstöðu Mannréttindanefndarinnar í P gegn Þýskalandi.[15] Hafi útlendingur komið löglega inn í land en hættir á ákveðnum tíma að uppfylla skilyrði til dvalar, falla réttindi hans samkvæmt 2. gr. niður, sbr. dóm MDE í máli Piermont gegn Frakklandi[16].

 

Rétt eins og á við um samsvarandi ákvæði SBSR má ríki, undir ákveðnum kringumstæðum, takmarka ferðafrelsi einstaklinga á sínu yfirráðasvæði, sbr. 3. mgr. 2. gr.  Í máli Landvreugd gegn Hollandi[17] taldi MDE að hollensk löggjöf, sem heimilaði sveitastjórnum að gefa fyrirmæli um ráðstafanir til að koma í veg fyrir truflanir á allsherjarreglu, bryti ekki gegn ákvæðum samningsins. Hafði sveitarstjórn í því máli gert einstaklingi, sem var eiturlyfjaneytandi, að halda sig utan ákveðins svæðis í Amsterdam. Þrátt fyrir ómarkvisst orðalag ákvæðisins sagði MDE að verið væri að framfylgja lögmætu markmiði og að meðalhófsregla væri ekki brotin.[18]

 

Í 2. mgr. 2. gr. segir að öllum beri réttur til brottfarar úr landi og á það við um útlendinga sem og um ríkisborgara landa.  Í máli Baumann gegn Frakklandi[19] komst MDE að þeirri niðurstöðu að það bryti gegn ferðafrelsi einstaklinga að leggja hald á vegabréf. Slíkt væri ekki nauðsynlegt í lýðræðisríki.

Til baka í töflu

 

5.gr. 1. mgr.  MSE getur komið til álita þegar útlendingar eru handteknir.

 

5.gr. 1. mgr. (f) MSE

1. Allir menn eiga rétt til frelsis og mannhelgi.

Engan mann skal svipta frelsi nema í eftirfarandi tilvikum og þá í samræmi við þá málsmeðferð sem segir í lögum. Tilvikin eru:

...

f) lögleg handtaka eða gæsla manns til að koma í veg fyrir að hann komist ólöglega inn í land eða gæsla manns sem vísa á úr landi eða framselja.

 

Þó að 5. gr. MSE eigi við um frelsisskerðingu, en ekki samkvæmt orðum sínum um takmarkanir á ferðafrelsi getur þó reynt á greinina þegar undanþágu f. liðar er beitt, en f. liður heimilar frelsisskerðingu í málum sem varða innflytjendur (bæði rétt til komu og brottvísun úr landi) sem og í málum vegna framsals. Valdi ríkisins eru settar skorður sem koma m.a. fram í máli Amuur gegn Frakklandi[20].  Börnum frá Sómalíu, sem hugðust sækja um hæli sem flóttamenn, var haldið á flugvelli í París í tuttugu daga. Fyrst skar dómstóllinn úr því hvort um frelsisskerðingu væri að ræða eða takmörkun á frelsi. Við mat á því er litið til atvika málsins í heild sinni. Ef um frelsisskerðingu er að ræða verður hún að vera í samræmi við rétta málsmeðferð og skýrar, lögbundnar reglur. Í því sambandi leggur dómstóllinn mat á efni löggjafarinnar,  m.a. hvort hún tryggi að  skjóta megi ákvörðun til dómstóla.  Í máli Amuur gegn Frakklandi var talið að um brot á 5. gr. MSE væri að ræða þar sem börnunum var haldið með heimild í  verklagsreglum fremur en löggjöf og reglurnar tryggðu ekki nægilega réttarstöðu þeirra.

 

Atviksbundið mat á við um skilyrðið um „nauðsyn" skv. 5. gr. 1. mgr. (f) Hér hefur MDE talið að ekki þurfi að sýna fram á nauðsyn umfram það að frelsisskerðingin þjóni því markmiði að hindra ólögmæta inngöngu eða stuðla að lögmætri brottvísun og gefur því ríkjunum rúmt svigrúm til mats ( sjá frekar umfjöllun um brottvísun í III B-3). Málsmeðferð þarf þó alltaf að standast kröfur sáttmálans til að koma í veg fyrir að ómálefnaleg sjónarmið ráði ferðinni. Þá myndi almenn stefna í málefnum innflytjenda, sem fælist í  frelsissviptingu þeirra, sem og langvarandi frelsisskerðing, án sérstakrar réttlætingar í þágu almannaöryggis, brjóta gegn sáttmálanum.[21]

Til baka í töflu

 

Félagsmálasáttmáli Evrópu

18. gr. FSE fjallar um réttinn til að stunda vinnu í landi annars samningsaðila.

 

18. gr. FSE

Í því skyni að tryggja, að réttur til að stunda arðbært starf í landi annars samningsaðila sé raunverulega nýttur, skuldbinda samningsaðilar sig til:

1. að beita gildandi regum frjálslega,

2. að einfalda gildandi formsatriði og draga úr eða fella niður gjöld, sem erlendu verkafólki eða vinnuveitendum þess er gert að greiða,

3. að slaka á reglum um ráðningu erlends verkafólks, í einstökum tilvikum eða almennt,

og viðurkenna:

4. rétt þegna sinna til að fara úr landi í því skyni að stunda arðbær störf í löndum annarra samningsaðila.

 

Ákvæðið bætir ekki miklu við varðandi ferðafrelsi, en mælir sérstaklega fyrir um rétt til að fara úr eigin landi. Greinin tekur ekki til komu til lands, eins og hún hefur verið túlkuð af Evrópunefnd um félagsleg réttindi, en leggur þær skyldur á aðildarríki að beita reglum um atvinnuleyfi að ráðningu erlendra launþega frjálslega.[22] 19. gr. FSE fjallar um réttindi tengd ferðafrelsi en 19. gr. bindur ekki íslenska ríkið vegna undanþágu sem gerð var við fullgildingu samningsins. (Sjá frekar IV A)

Til baka í töflu

 

Íslenskur réttur

Í 2. - 4. mgr. 66. gr. STS er kveðið á um sömu réttindi og nefnd hafa verið í alþjóðasamningum hér á undan:

 

66. gr. STS

[...]

2. Íslenskum ríkisborgara verður ekki meinað að koma til landsins né verður honum vísað úr landi. Með lögum skal skipað rétti útlendinga til að koma til landsins og dveljast hér, svo og fyrir hverjar sakir sé hægt að vísa þeim úr landi.

3. Engum verður meinað að hverfa úr landi nema með ákvörðun dómara. Stöðva má þó brottför manns úr landi með lögmætri handtöku.

4. Allir, sem dveljast löglega í landinu, skulu ráða búsetu sinni og vera frjálsir ferða sinna með þeim takmörkunum sem eru settar með lögum.

 

Ákvæði 3. og 4. mgr. komu inn í stjórnarskrá árið 1995 svo að tryggð væru sambærileg réttindi og kveðið er á um í 2. gr. 4. viðauka MSE. Raunhæfasta undantekningin frá rétti til að fara úr landi er þegar maður er settur í farbann samkvæmt ákvörðun dómara. Getur dómari þá til dæmis lagt fyrir sakborning, með vísan til 110. gr. laga um meðferð opinberra mála, að halda sig á tilteknu svæði eða bannað honum brottför. Slíkar ákvarðanir verða aðeins teknar með dómsúrskurði.[23]

 

Í dómaframkvæmd hefur helst reynt á skilyrði frelsissviptingar þegar útlendingar eiga í hlut í málum þar sem vafi er um rétt útlendinga til dvalar og byggist frelsisskerðingin á ákvæðum laga um útlendinga.

Til baka í töflu

 

Í hæstaréttarmáli 413/1999 (Lögreglustjórinn í Reykjavík gegn Marewan Mostafa) felldi Hæstiréttur úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð sem kveðinn var upp á grundvelli 15. gr. laga nr 45/1965 um eftirlit með útlendingum. Var um að ræða gæsluvarðhald í eina viku yfir manni sem hafði eyðilagt vegabréf sitt við komu til landsins og óvissa var um það hver hann var og hver áform hans voru. Hæstiréttur beitti meðalhófsreglu og taldi að lögregla hefði ekki nægilega sýnt fram á nauðsyn gæslu og að ekki væru aðrar leiðir færar til að tryggja návist mannsins.   

Í hæstaréttarmáli 379/2004 (ríkislögreglustjóri gegn X) var 14 daga gæsluvarðhald yfir útlendingi sem vísa átti úr landi fellt niður, með vísan í meðalhófsreglu. Var beiðnin rökstudd með vísan til 29. gr. og 33. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga en fyrrnefnda greinin veitir heimild til að beita gæsluvarðhaldi ef einstaklingur neitar að gefa upplýsingar um hver hann er og sinnir ekki tilkynningaskyldu. Hæstiréttur taldi að ekki hefði verið nægilega sýnt fram á nauðsyn gæsluvarðhalds eða að ekki væri unnt að beita léttbærari aðgerðum til að tryggja að ákvörðun um brottvísun úr landi yrði fullnægt.  

Í hæstaréttarmáli 440/2008 (Lögreglustjórinn á Suðurnesjum gegn X) staðfesti Hæstiréttur hins vegar gæsluvarðhaldsúrskurð yfir útlendingi sem talinn var hafa gefið rangar upplýsingar um það hver hann var. Þá voru líkur á því að maðurinn tengdist frelsisher Kosovo  og að hætta stafaði af honum. Gæsluvarðhaldsúrskurður var byggður á 29. gr. laga nr. 96/2002, eins og þeim var breytt með lögum nr. 86/2008, en þar kemur fram að gæsluvarðhaldi megi beita ef rökstuddur grunur sé um að útlendingur gefi rangar upplýsingar. Sjá einnig hæstaréttarmál 568/2008. Í hæstaréttarmáli 515/2008 (Lögreglustjórinn á Suðurnesjum gegn X) var enn um að ræða gæsluvarðhaldsúrskurð á grundvelli 29. gr. laga um útlendinga, vegna óvissu um það hver viðkomandi væri. Hæstiréttur staðfesti gæsluvarðhaldsúrskurð en stytti gæsluvarðhald úr rúmlega 1 mánuði og 10 dögum í u.þ.b. 3 vikur.

 

Ljóst er að gerðar eru ríkar kröfur til þess að sýnt sé fram á að frelsissvipting sem tengist komu og för útlendinga sé nauðsynleg og að gætt sé meðalhófs. Þótt dómar í kjölfar breytinga á lögum um útlendinga hafi staðfest gæsluvarðhald í málum sem þessum í ríkara mæli en áður, er þó ljóst að gerðar eru kröfur um að frelsisskerðing sé í samræmi við lög og að ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt er. Í hæstaréttarmáli 502/2008 (Lögreglustjórinn á Suðurnesjum gegn X) felldi Hæstiréttur úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð yfir útlendingi þar sem Hæstiréttur taldi að ekki hefði verið sýnt fram á að hann hefði gefið rangar upplýsingar um það hver hann væri. Þá var ekki talið sýnt fram á að hætta stafaði af honum, þótt lögregla hefði verið kölluð til vegna hegðunar hans gagnvart öðrum einstaklingum þar sem hann bjó og gagnvart lögreglu.

 

Ekki verður séð að lögmæti gæsluvarðhalds eða gæslu sem ákveðin er eingöngu vegna brottvísunar úr landi, með heimild í 5.mgr. 33. gr. laga um útlendinga, hafi verið borið undir Hæstarétt. Almennt verður að telja að dómaframkvæmd samrýmist þeim sjónarmiðum sem koma fram í þeim þjóðréttarlegu skuldbindingum sem fjallað hefur verið um hér að framan, auk þess sem útlendingar njóta þess réttaröryggis að fá úrlausn  dómstóla í þessum málum, sbr. 4. mgr. 5. gr. MSE. Athyglisvert er að ekki er vísað beint í ákvæði 5. gr. MSE, sbr. lög nr. 62/1994 (hvorki c. eða f. lið) í þessum málum.

 

Umboðsmaður Alþingis fjallaði um 2. mgr. 66. gr. STS í áliti í máli nr. 3137/2000. Taldi hann ljóst að með ákvæðinu hefði fyrst og fremst verið lögð sú skylda á löggjafann að setja lög til að girða fyrir að framkvæmdarvaldið hefði ákvörðunarvald um þessi atriði án skýrra lögákveðinna skilyrða og er sú niðurstaða í samræmi við grunnsjónarmið þeirra þjóðréttarlegu skuldbindinga sem binda íslenska ríkið. Komst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að lög nr. 45/1965 um eftirlit með útlendingum væru um margt óskýr og hefðu jafnvel ekki að geyma tiltekna afstöðu löggjafans til grundvallaratriða um meðferð mála útlendinga hér á landi. Þannig væri sem dæmi ekki að finna í lögunum skýra og glögga upptalningu á skilyrðum fyrir veitingu hælis af stjórnmálalegum ástæðum eða útgáfu dvalarleyfis. Í dag hafa verið sett ný lög um útlendinga, nr. 96/2002 og með lögum nr. 86/2008 var þeim lögum breytt, m.a. í því skyni að setja með lögum reglur um komu og dvöl útlendinga. Voru ýmis ákvæði sem áður voru í reglugerð um útlendinga nr. 53/2003 tekin upp í ákvæði laga um útlendinga. Í II. kafla laganna er að finna reglur um eftirlit með komu til lands og brottför. Auk þess hafa reglur tengdar Schengen samstarfi Íslands við Evrópusambandið og ríki þess áhrif.

 

Ákvæði 4. mgr. 66. gr. STS tryggir frelsi til að velja stað til búsetu. Þeir sem dveljast hér á landi verða þó að fylgja lögum nr. 54/1962 um þjóðskrá og almannaskráningu. Ef einstaklingur er hér lengur en í sex mánuði er honum skylt að eiga ákveðið lögheimili samkvæmt lögum nr. 21/1990 um lögheimili. Í hæstaréttarmáli nr. 474/2004 reyndi á þetta ákvæði stjórnarskrárinnar í fyrsta skipti. Var um að ræða skráningu einstaklinga í húsi á svæði sem hafði verið skipulagt sem tómstundabyggð. Taldi Hæstiréttur að aðilar nytu í skjóli 4. mgr. 66. gr. STS verndar til að ráða búsetu sinni og hefði ekki verið vísað til haldbærra heimilda, sem gæti sett skorður við búsetu þeirra.

Til baka í töflu

 

Tilvísanir


[1]  Almenn athugasemd  nr. 27.

[2] Celepli gegn Svíþjóð. Mál nr. 456/91 (CCPR/C/51/D/456/1991).

[3] Joseph, Schultz og Kastan, bls. 349.

[4] J.M. gegn Jamaica. Mál nr. 165/1984 (CCPR/C/27//D/165/1984).

[5] Stewart gegn Kanada. Mál nr. 538/1993 (CCPR/C/58/D/538/1993).

[6] Nefndin hefur hins vegar gert athugasemd við það þegar þessi réttur er talinn ná eingöngu til eigin þegna, sbr. skýrslu í máli gegn Armeníu (CCPR/C/79/Add100(1998)), sjá Carlson og Gisvold, bls. 96.

[7] Almenn athugasemd nr. 15, 5, 6. og 8. mgr.

[8] Almenn athugasemd nr. 27.

[9] Celepli gegn Svíþjóð. Mál nr. 456/91(CCPR/C/51/D/456/1991)

[10] Mannréttindanefnd SÞ. Skýrsla um Litháen (CCPR/C/79/Add.87).

[11] Joseph, Schultz og Castan, bls. 354.

[12] Gonzalez del Rio gegn Perú. Mál nr. 263/87  (CCPR/C/40/D/263/1987).

[13] Almenn athugasemd nr. 27, 8.-10. mgr.

[14] Almenn athugasemd nr. 27.

[15] P v The Federal Republic of Germany, Application No 12068/86 (DR 51/237), sjá Lambert, bls. 22.

[16] Piermont gegn Frakklandi (dómur 27. apríl 1995).

[17] Landvreugd gegn Hollandi (dómur 4. júní 2002).

[18] Aðalsteinsson, bls. 191.

[19] Baumann gegn Frakklandi (dómur 22. maí 2001).

[20] Amuur gegn Frakklandi (dómur 26. júní 1996). Sjá einnig um skilyrði um gæði laga umfjöllun um mál Hildar Hafsteinsdóttur gegn Íslandi (dómur 8. júní 2004), Aðalsteinsson, bls. 149.

[21] Sjá frekar Lambert, 19-21.

[22] Samuel, bls. 383-4.

[23] Aðalsteinsson, bls. 194. Sjá hér hæstaréttarmál nr. 232/2002 (Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli gegn X) þar sem 11 daga farbann útlendings var staðfest.

Til baka í töflu

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is