III B - 3 Brottvísun útlendinga

Til baka í efnisyfirlit III hluta

Réttindi Sáttmálar Íslensk lög Dómar, úrskurðir, álit

Reglur um brottvísun

 

 

 

13. gr. SBSR

 

1. gr. 7. viðauka MSE

4. gr. 4. viðauka MSE

 

8. gr. MSE

7. gr. SBSR

3. gr. CAT

3. gr. MSE

 

 

2. mgr. 66. gr. STS

Lög nr. 96/2002 um útlendinga - IV. kafli

Reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga - IX. kafli

Stjórnsýslulög nr. 37/1993

 

Lög um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994

 

Íslenskur réttur

SÞ nefnd

Kindler gegn Kanada

Maroufidou gegn Svíþjóð

V.M.R.B. gegn Kanada

J.R.C: gegn Kosta Ríka

Chitat Ng gegn Kanada

MDE

Andric gegn Svíþjóð

Conka gegn Belgíu

Lupsa gegn Rúmeníu

Beldjoudi gegn Frakklandi

Nasri gegn Frakklandi

Amrollahi gegn Danmörku

Boultif gegn Sviss

Soering gegn Bretlandi

Chahal gegn Bretlandi

H.L.R. gegn Frakklandi

CAT-nefndin

Ismail Alan gegn Sviss

Dómar Hæstaréttar

Mál nr. 56/2008

Mál nr. 1997, 2828

Mál nr.  52/2004

UA

UA 3137/2000

UA 4275/2004

Héraðsdómur Reykjavíkur. E-7753/2005

 

 

Almennar reglur þjóðaréttar viðurkenna rétt hvers ríkis til að heimila eða banna einstaklingum að fara inn á yfirráðasvæði þess. Jafnframt viðurkennir þjóðaréttur rétt ríkisins til að setja skilyrði fyrir inngöngu og landvist útlendinga á yfirráðasvæði þess. Af því leiðir rétturinn til að vísa mönnum úr landi. Landslög ríkja sem og þjóðréttarreglur eru þó á einu máli um að þessi réttur er ekki skilyrðislaus. Brottvísun verður að verða byggð á lögmætum sjónarmiðum en ekki geðþótta. Þó að ríki geti ákvarðað hvaða viðmið skuli notuð við ákvörðun sem þessa þá má ekki misnota réttinn til brottvísunar.

Til baka í töflu

 

SBSR

13. gr. SBSR

Útlendingi, sem er á löglegan hátt á landsvæði ríkis sem er aðili að samningi þessum, má aðeins vísa þaðan eftir ákvörðun sem tekin hefur verið í samræmi við lög og skal, nema þar sem brýnar ástæður vegna þjóðaröryggis krefjast annars, leyfast að skjóta ástæðunum gegn brottvísuninni til lögbærs stjórnvalds eða manns eða manna sem sérstaklega eru til þess tilnefndir af því lögbæra stjórnvaldi, og fá mál sitt tekið til endurskoðunar og hafa málsvarnarmann í þessu skyni.

 

 

Ákvæði 13. gr. SBSR er eina ákvæði samningsins sem á einungis við um útlendinga. Ákvæðið setur aðeins skilyrði um ferlið við að vísa útlendingi úr landi en hefur ekki að geyma skilyrði um hvaða efnislegar ástæður megi liggja að baki ákvörðun um brottvísun. Af orðunum ,,ákvörðun sem tekin hefur verið í samræmi við lög" má þó álykta að koma á í veg fyrir tilefnislausar brottvísanir og misnotkun á úrræðinu.[1] Útlendingi, sem er vísað úr landi, á alla jafna að vera leyft að fara til hvaða lands sem samþykkir að taka við honum þegar hann yfirgefur landið.[2]

 

Ákvæði 13. gr. SBSR nær aðeins til þeirra sem eru í landi með löglegum hætti. Útlendingar sem hafa komist inn í landið með ólögmætum hætti, eða hafa verið lengur en leyfi stendur til njóta ekki verndar ákvæðisins. Ef deilt er um lögmæti veru útlendings í landinu þarf að skera úr um það og fer sú ákvörðun eftir landslögum.

 

Hópbrottvísanir eru ekki heimilar samkvæmt 13. gr. SBSR. Samkvæmt ákvæðinu á hver og einn útlendingur rétt á því að mál hans sé tekið fyrir og færi hópbrottvísun tiltekins fjölda augljóslega gegn slíku.[3]

 

Mannréttindanefnd SÞ túlkar ákvæðið á þann veg að það nái einnig til framsals einstaklinga til annarra landa, samanber mál Kindler gegn Kanada.[4] Þar sagði nefndin að það væri ljóst af undirbúningsgögnum samningsins að 13. gr. ætti ekki að takmarka framsöl og framsalssamninga. Eigi að síður eigi réttindin í 13. gr. að ná til útlendinga án tillits til þess hvort verið sé að vísa þeim úr landi eða framselja.[5]

 

Skilyrðið um að ákvörðun sé tekin í samræmi við lög vísar til landslaga aðildarríkjanna. Í máli Maroufidou gegn Svíþjóð[6] hafði verið tekin ákvörðun um brottvísun. Konan, sem kvartaði til nefndarinnar, vildi meina að niðurstaða málsins væri ekki í samræmi við þetta skilyrði 13. gr., þar sem sænska útlendingalöggjöfin hefði verið mistúlkuð og niðurstaðan því röng. Nefndin tók þá afstöðu að það væri ekki á hennar valdsviði að endurskoða túlkun og beitingu reglna í landsrétti aðildarríkja en að hlutverk nefndarinnar væri að skoða hvort ákvæði laganna væru túlkuð í góðri trú og að ekki væri um ómálefnaleg sjónarmið að ræða (e. abuse of power).   Í riti um SBSR er þetta álit talið endurspegla skýrt afstöðu nefndarinnar um að endurskoða ekki niðurstöður dómstóla aðildarríkjanna þegar ekki er um skýra galla á málsmeðferð að ræða.[7]

 

13. gr. SBSR tryggir réttarfarsúrræði, s.s. að um skriflega málsmeðferð sé að ræða og að reglur um andmælarétt gildi,  en segir ekki að útlendingur eigi rétt á að skjóta til dómstóla málum er varða ákvörðun um brottvísun. Málskot slíkra ákvarðana fara jafnan til aðila innan stjórnkerfisins. Þegar talað er um málskot er tryggt að brottvísunarákvörðun skal tekin til endurskoðunar. Sé ákvörðunin staðfest er hins vegar ekki ljóst hvort 13. gr. SBSR tryggi málskot þeirrar niðurstöðu. Mannréttindanefnd SÞ hefur ekki kveðið skýrt uppúr um það álitamál. Sé slíkur réttur til staðar er þó ljóst ríki getur látið hana fara fram eftir að einstaklingnum hefur verið vísað brott úr landinu.[8]

 

Samkvæmt 13. gr. SBSR má veita undanþágu frá reglum um málsmeðferð ef brýnar ástæður vegna þjóðaröryggis krefjast. Mannréttindanefnd SÞ segir í álitum að það sé ekki nefndarinnar að endurskoða mat fullvalda ríkis á hættu sem útlendingar eru taldir valda, sbr. t.d. mál V.M.R.B. gegn Kanada[9] og J.R.C. gegn Kosta Ríka.[10] Þetta býður vissulega upp á þá hættu, að mati fræðimanna, að ríki geti komið sér hjá því að rökstyðja aðgerðir sínar og getur það verið varhugavert nú þegar oft er vísað almennt til hryðjuverkaógnar. Líklega verða ríki að færa rök fyrir þessu hættumati sínu en það var gert í þeim málum þar sem nefndin setti fram þessa fullyrðingu.[11]

Til baka í töflu

 

MSE

4. gr. 4. viðauka MSE

Bannað er að gera hópa útlendinga landræka.

 

Reglur um bann við hópbrottvísun útlendinga er að finna í 4. gr. 4. viðauka MSE. Umfang ákvæðisins er afar takmarkað. Því verður ekki beitt í tilviki einstaklinga. Skilgreiningu á hugtakinu hópbrottvísun er að finna í dómi Andric gegn Svíþjóð. Þar er það skýrt sem hvers konar aðgerð sem þvingar útlendinga í hópi að yfirgefa land, nema í tilvikum þegar slík aðgerð fer fram á grundvelli sanngjarnrar og hlutlausrar rannsóknar á máli hvers einstaklings, sem tilheyrir hópnum. Þó að hópur útlendinga fái sömu úrlausn í máli sínu þá þýðir ekki að um hópbrottvísun sé að ræða þegar hver og einn fyrir sig í þeim hópi hefur fengið tækifæri til að tjá sig um málið við stjórnvöld og andmæla brottvísuninni.[12]

 

Ekki er þó alltaf nóg að menn fullnægi þeim skilyrðum. Mannréttindadómstóllinn sagði í dómi í máli Conka gegn Belgíu[13] að þó slíkt væri gert þá væri líka horft til atvikanna að baki ákvörðuninni um brottvísun. Í þessu máli hafði fjölskyldu förufólks (e. travellers, gypsies) verið neitað um hæli í Belgíu. Var sú ákvörðun talin í samræmi við reglur MSE. Málið var í meðferð dómskerfisins og hafði verið vísað frá áfrýjunardómstóli. Síðar var þeim birt brottvísunartilskipun og þau send í flugvél frá herflugvelli ásamt öðrum fjölskyldum förufólks til Slóvakíu. Sú aðgerð var talin brjóta gegn 4. gr. 4. viðauka MSE. Sagði dómurinn að sú ákvörðun hefði ekki verið byggð á lagagrundvelli sem tengdist synjun á umsókn fjölskyldunnar um hæli. Mætti sjá það af nokkrum þáttum. Í fyrsta lagi að áður en til brottvísunar fjölskyldunnar kom höfðu stjórnvöld tilkynnt að aðgerðir sem þessar myndu fara fram. Í öðru lagi að öllum útlendingunum hafði verið gert að mæta á sama stað á sama tíma.  Í þriðja lagi hafði reynst erfitt fyrir útlendingana að hafa samband við lögmenn og loks hafði meðferð umsóknar þeirra um hæli ekki verið afgreidd. Róbert R. Spanó segir að ráða megi af þessum dómi að dómstóllinn leggi að verulegu leyti atviksbundið mat til grundvallar við afmörkun á því hvort málsmeðferð og ákvarðanir um brottvísun hóps manna brjóti í bága við 4. gr. 4. viðauka. Lagt sé mat á alla málsmeðferðina í þessu sambandi.[14]

 

Af orðalagi ákvæðisins má ráða að bannið gegn hópbrottvísunum sé fortakslaust. Engar ástæður geti réttlætt slíkar aðgerðir, hvort sem það er gert vegna öryggis ríkisins eða til að vernda allsherjarreglu.

Til baka í töflu

 

1.gr.7. viðaukaMSE

1. Útlendingi, sem löglega er búsettur á landsvæði ríkis, skal ekki vísað þaðan nema eftir ákvörðun sem tekin hefur verið í samræmi við lög, og skal honum heimilt:
   a. að bera fram ástæður gegn brottvísun sinni,
   b. að fá mál sitt tekið upp að nýju, og
   c. að fá erindi sitt flutt í þessu skyni fyrir réttu stjórnvaldi eða manni eða mönnum sem það stjórnvald tilnefnir.
2. Heimilt er að vísa útlendingi brott áður en hann hefur neytt réttinda sinna skv. a-, b- og c-lið 1. tölul. þessarar greinar þegar slík brottvísun er nauðsynleg vegna allsherjarreglu eða á grundvelli þjóðaröryggis.

 

Í 1. gr. 7. viðauka MSE eru gerðar ákveðnar kröfur um hvernig brottvísun á sér stað. Með brottvísun er átt við alla háttsemi ríkis sem þvingar einstakling úr landi að undanskildu framsali. Ákvæðið er svipað sambærilegu ákvæði SBSR. Þessi málsmeðferðarréttindi eru, eins og 1. mgr. ákvæðisins segir, einungis tryggð útlendingum sem eru löglega búsettir á landssvæði ríkis og er ákvæðið því þrengra en aðrar reglur um útlendinga sem miða við að þeir séu löglega í landinu, s.s. ákvæði 13. gr. SBSR sem fjallað var um áður.

 

Útlendingar eru löglega búsettir þegar þeir hafa fengið leyfi til tímabundinnar eða ótímabundinnar dvalar. Undanskilið frá þessu eru leyfi til að koma til lands af sérstökum ástæðum t. d. sem námsmaður eða ferðamaður.[15] Ef vafi leikur á stöðu útlendings skal miðað við hver hún er þegar ákvörðun er tekin um brottvísun. Ef útlendingur hefur fengið hæli eða tímabundið dvalarleyfi af mannúðarástæðum er er ríki bundið af 1. gr. 7. viðauka. MSE.[16] Greinin verndar hins vegar ekki útlendinga sem eru í landinu ef vafi er um stöðu þeirra. Ákvæðið veitir fremur litla vernd þegar saman er tekið að 1) það er bundið við þá sem eru löglega búsettir í landinu, 2) það setur ekki fram efnisreglur um það á hvaða grundvelli megi vísa útlendingum úr landi og 3) aðeins er kveðið á um rétt til endurskoðunar ákvörðunar en ekki að sú endurskoðun fari fram fyrir dómstólum. Við þetta bætist að 6. gr. MSE tekur almennt ekki til ágreinings um komu, búsetu, eða brottvísun úr landi, þar sem slíkar kröfur teljast vera á sviði opinbers réttar og falla hvorki undir „réttindi og skyldur" að einkarétti né að vera „borinn sökum um glæpsamlegt athæfi", skv. 6. gr. MSE.

 

Ákvæði þetta tryggir útlendingum ákveðna málsmeðferð þegar ákvörðun um brottvísun er tekin. Hún segir ekki til um á hvaða grundvelli brottvísun megi vera ákveðin. Þrátt fyrir það eiga þessi skilyrði að virka sem bann gegn geðþóttaákvörðunum.[17]

 

Skv. 2. mgr. 1. gr. má vegna allsherjarreglu eða á grundvelli þjóðaröryggis vísa einstaklingi úr landi án tillits til skilyrða 1. mgr. Ríki, sem hyggjast nota þessa heimild, verða að geta fært fram rök og sönnunargögn til stuðnings slíkri ákvörðun. Ef brottvísun af þessum ástæðum fer fram á einstaklingurinn enn rétt á því að mál hans haldi áfram og að skilyrðum 1. gr. 1. gr. sé fullnægt.[18]

 

Í Lupsa gegn Rúmeníu[19] gaf MDE leiðbeiningar um þau skilyrði sem greinin setur og bætir nokkuð þá vernd sem 1. gr. 7 viðauka veitir í brottvísunarmálum. Í fyrsta lagi kom fram að greininni má beita eftir brottvísun, og það þó brottvísun fari fram á grundvelli almannaöryggis. Þá vísaði dómstóllinn til þess að ákvörðun skyldi vera byggð á lögum og, svipað og á við í málum varðandi 5. gr. og 8.gr. (sem einnig voru til skoðunar), þurfa lögin efnislega að fullnægja ákveðnum skilyrðum, þ.e. að vera aðgengileg, fyrirsjáanleg og veita tryggingu gegn ómálefnalegum sjónarmiðum og geðþóttaákvörðunum. Var talið í þessu máli að skilyrðunum hefði ekki verið fullnægt, en brottvísun Lupsa til 10 ára var byggð á fullyrðingum sem saksóknara höfuð borist frá leyniþjónustu landsins um að hann tæki þátt í aðgerðum sem ógnað gætu þjóðaröryggi. Ekki voru aðrar ásakanir bornar fram og þeim var ekki fylgt eftir með dómsmáli. MDE komast að þeirri niðurstöðu að um væri að ræða brot á 1. gr. 7 viðauka, auk brots á 8. gr, vegna fjölskylduaðstæðna.[20]

Til baka í töflu

 

Eins og áður kom fram geta þjóðréttarlegar skuldbindingar takmarkað heimildir ríkja til að taka ákvarðanir um brottvísun eða framsal útlendinga. Þrjú ákvæði MSE koma einkum til greina, þ.e. 8. gr. um vernd fjölskyldulífs, 2. gr. um réttinn til lífs[21] og 3. gr. um bann gegn pyndingum, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð. Ákvæði annarra samninga vernda sömu hagsmuni, m.a. samningurinn um bann við pyndingum (CAT).

 

Þjóðréttarreglur um bann við framsali til annarra landa vegna meðferðar þeirra landa á föngum eru ekki skýrar. Bannið gegn pyndingum og annarri ómannúðlegri meðferð er venjuréttarregla í þjóðarétti, eins og komið var að í kafla III-A-1. Ákvæði þess efnis er að finna í SBSR og MSE. Í sumum tilvikum hafa Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna og Mannréttindadómstóll Evrópu talið að með því að framselja einstaklinga eða vísa úr landi til landa, þar sem þeir eiga á hættu að verða fyrir pyndingum, séu ríkin að brjóta gegn ákvæðum samninganna um bann við pyndingum. Sama á við um samninginn um bann við pyndingum (CAT).

 

Það athugist að dómstóllinn tók fram í gömlu máli Austurríkis gegn Júgóslavíu[22] að ,,...þó að framsal eða réttur til hælis séu ekki meðal þeirra atriða sem sáttmálinn nær yfir, þá hafa þjóðir sem undirgengist hafa MSE, samþykkt að takmarka rétt þann, sem almennar þjóðréttarreglur veita þeim um að stjórna för manna til og frá landi, eftir því sem ákvæði sáttmálans kveða á um."

Til baka í töflu

 

8.gr. MSE -vernd fjölskyldulífs

Í málum sem varða brottvísun útlendings úr landi hefur oft reynt á vernd fjölskyldulífs skv. 8. gr. MSE.  Í þessum málum hefur dómstóllinn að jafnaði fyrst skoðað hvort fjölskyldulíf sé til staðar. Þá þarf að uppfylla tvö skilyrði, þ.e. að um náið samband sé að ræða og að það hafi verið komið á þegar ríkið skipti sér af útlendingi. Við mat á þessu er litið til þess hversu lengi fjölskyldutengsl hafa staðið, hve stór fjölskyldan er og hversu raunveruleg tengslin eru (t.d. hvort fjölskyldumeðlimir búa saman eða í nágrenni hver við annan) og hvort um náin tengsl er að ræða, sbr. mál Beldjoudi gegn Frakklandi[23]  og Nasri gegn Frakklandi.[24]

 

Þau fjölskyldutengsl sem þurfa að vera milli einstaklinga til að útlendingur hafi ákveðin réttindi þurfa að vera af ákveðnum toga. Einu samböndin sem hafa verið talin nægilega sterk til að réttindi skapist eru annars vegar á milli hjóna og hins vegar á milli foreldris og barns. Frændsamband er ekki nóg, sérstaklega ef barn og frændi búa ekki undir sama þaki.

 

Ef einstaklingur hefur gerst brotlegur gegn lögum landsins, eins og oft er tilfellið í málum um brottvísun, hefur dómstóllinn notað eftirfarandi viðmið þegar ákvarðað er hvort brotið sé gegn 8. gr. MDE, sbr. mál Amrollahi gegn Danmörku : ,,Dómstóllinn mun taka til greina alvarleika brotsins hjá hinum brottvikna; hversu lengi hann hefur dvalist í því landi sem verið er að vísa honum frá; tíminn sem hefur liðið frá því að brot var framið og hegðun hans á því tímabili; þjóðerni einstaklinganna sem að máli koma; fjölskylduaðstæður s.s. varðandi lengd hjónabands; og [aðra þætti] sem sýna fram á raunverulegt fjölskyldulíf; hvort makinn vissi um afbrotið þegar hann/hún hóf að vera í sambandi við hinn aðilann; og hvort hjónin eiga börn saman. Ef svo er þá er horft til aldurs þeirra. Ekki síst mun dómstóllinn taka til skoðunar hversu alvarleg vandamál bíða makans í upprunalandi hins, en þó hann/hún geti átt von á ákveðnum erfiðleikum þá er það ekki nægilegt til að útiloka brottvísun."[25]

 

Önnur spurning sem tekin er til athugunar er hvort fjölskyldan geti haldið sama sambandi með að búa í því landi sem útlendingi er vísað til. Ef svo er þarf ekki að vera að brottvísun sé brot á rétti til fjölskyldulífs. Þannig að segja má að sáttmálinn tryggi ekki réttinn til fjölskyldulífs í ákveðnu landi, heldur réttinn til fjölskyldulífs, án tillits til staðsetningar. Ef annað hjóna hefur engin tengsl við það land sem vísa á hinu hjóna til er ólíklegt að brottvísun fullnægi þeim kröfum sem 8. gr. MSE gerir, samkvæmt nýrri dómaframkvæmd MDE, sbr. m.a. mál Boultif gegn Sviss.[26]

Til baka í töflu         

 

Bann við pyndingum og ómannlegri og vanvirðandi meðferð

Um umfjöllun um bann við pyndingum og ómannlegri og vanvirðandi meðferð vísast til kafla III A.

 

SBSR

Í tilvikum þar sem hinn framseldi getur átt í hættu að þurfa að bíða lengi eftir dauðarefsingu, sem er oft nefnt dauðaálmueinkennið (e. death row phenomenon), hafa sumir alþjóðadómstólar talið að ekki væri hægt að framselja fanga ættu þeir hættu á slíkri meðferð.

 

Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna komst að þeirri niðurstöðu í máli Chitat Ng gegn Kanada[27] að horfa bæri til þeirrar aðferðar sem beitt væri við að taka einstaklinginn af lífi. Var talið að aftaka í gasklefa væri ekki andstöðu við 6. gr. SBSR um réttinn til lífs, en að brotið væri gegn 7. gr. þar sem meðferðin gæti valdið löngum kvölum og væri ekki fljótvirkasta aðferð sem völ væri á.[28]

 

MSE

Framsal og brottvísun getur farið gegn 3. gr. MSE vegna þeirrar beinu líkamlegu eða andlegu áhrifa sem slíkt getur haft á einstaklinga. Þó hefur Mannréttindadómstóllinn sett ströng skilyrði fyrir því að þeir telji brotið á 3. gr. í tilvikum sem þessum.[29] Í Soering málinu[30]  var um að ræða framsal einstaklings til Bandaríkjanna þar sem hans beið hið svokallaða ,,dauðaálmu-einkenni". Var talið að um ómannúðlega meðferð væri að ræða og að ríki bryti gegn skyldum sínum samkvæmt 3. gr. ef aðgerðir þess gerðu það að verkum að einstaklingur yrði líklega fyrir slæmri meðferð á landsvæði þar sem Mannréttindasáttmáli Evrópu hefur ekki gildi.

 

Í máli Chahal gegn Bretlandi[31] var talið að brotið hefði verið gegn 3. gr. MSE. Vísa átti Indverja úr landi þar sem hann þótti vera ógn við þjóðaröryggi. Í dóminum sagði að ,,3. gr. hefur að geyma eina mikilvægustu grunnreglu í lýðræðisríkjum. Dómnum er kunnugt um þá erfiðleika sem ríki eiga í við að vernda sig gegn hryðjuverkaógn. En jafnvel í tilvikum sem þessum bannar sáttmálinn með algjörum hætti pyndingar eða ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. (...) Bannið gegn slíkri meðferð á jafn afdráttarlaust við þegar um brottvísunarmál er að ræða. Þegar sýnt hefur verið að búast megi við að einstaklingur eigi raunverulega á hættu að hljóta slíka meðferð, sem brýtur gegn 3. gr., sé hann fluttur til annars ríkis, þá er það skylda ríkis, sem er aðili að MSE og hugðist vísa úr landi, að vernda hann eða hana gegn slíkri meðferð."[32]

 

Í H.L.R. málinu[33] átti að senda eiturlyfjasmyglara, sem hafði veitt upplýsingar um yfirmenn sína, til heimalands síns.  Meirihluti dómsins útilokaði ekki að um brot á 3. gr. MSE gæti verið að ræða, þó hugsanleg slæm meðferð væri ekki af völdum opinbers aðila. Hins vegar taldi MDE ekki að raunveruleg hætta væri fyrir hendi á því að hann hlyti meðferð þannig að 3. gr. væri brotin. Sex dómarar mynduðu minnihluta sem taldi hættu vera til staðar.[34]

 

Við mat á raunverulegri hættu metur dómstóllinn í fyrsta lagi þau gögn sem lögð eru fyrir. Í öðru lagi þarf að miða við þær staðreyndir sem ríkið vissi eða mátti vita um  þegar það tók ákvörðun um brottvísun. Í þriðja lagi þarf hin slæma meðferð að ná ákveðnu lágmarki til að falla innan gildissviðs 3. gr. MSE. Við mat á þessu lágmarki fer eftir aðstæðum í málinu.

Til baka í töflu

 

CAT

Samningurinn gegn pyndingum (CAT-samningurinn) var saminn undir áhrifum frá dómum Mannréttindadómstólsins á þessu sviði[35] og er 3. gr. samningsins eftirfarandi:

 

1. Ekkert aðildarríki skal vísa úr landi, endursenda (refouler) eða framselja mann til annars ríkis ef veruleg ástæða er til að ætla að hann eigi þar á hættu að sæta pyndingum.

2. Þegar ákveðið er hvort slíkar ástæður eru fyrir hendi skulu þar til bær yfirvöld hafa hliðsjón af öllum atriðum sem máli skipta, þar á meðal, eftir því sem við á, hvort í ríki því sem um ræðir viðgangist gróf, augljós eða stórfelld mannréttindabrot.

 

Flest þeirra mála, sem nefndin gegn pyndingum tekur fyrir, fjalla um hugsanleg brot gegn þessu ákvæði samningsins. Í máli Alan gegn Sviss[36] hafði Tyrkinn Alan verið þátttakandi í stjórnmálastarfi í heimalandi sínu og verið í haldi yfirvalda í nokkur skipti á árunum 1981 - 1983 og var dæmdur til fangelsisvistar 1984. Hélt hann því fram að hann hefði sætt pyndingum á meðan að þeirri vist stóð. Árið 1990 flúði hann land með falsað vegabréf og sótti um hæli í Sviss. Þrátt fyrir læknisvottorð var beiðni hans synjað á þeim grundvelli að ósamræmi væri í frásögn hans. Nefndin taldi að í þessu tilviki hefði ekki mátt vísa honum burt. Sagði nefndin að mikilvægast væri að ákvarða hvort einstaklingurinn, sem vísa ætti brott, væri raunverulega í hættu kæmi hann til heimalands síns. Í þessu máli skipti máli þjóðernisuppruni einstaklingsins, meint stjórnmálatengsl hans, sem og hversu oft hann hafði verið í haldi og hve lengi.

 

Nefndin gegn pyndingum gaf út almenna athugasemd[37] árið 1997 þar sem sett voru fram viðmið við mat á réttmæti kvartana sem byggðar eru á 3. gr. samningsins. Í fyrsta lagi skiptir máli hvort ríkið sé meðal þeirra þar sem sannanir eru um að viðgangist gróf, augljós eða stórfelld mannréttindabrot, sbr.  2. mgr. 3. gr. CAT-samningsins.  Hefur slíkt ástand breyst og batnað þannig að mannréttindaástand sé annað í því landi? Í öðru lagi hvort sá sem kvartar hefur áður verið pyndaður eða beittur annars konar illri meðferð af opinberum starfsmanni. Einnig geta átt við tilvik þar sem starfsmaðurinn hvatti til meðferðarinnar, samþykkti hana eða sat aðgerðarlaus hjá. Annað sem skiptir máli er hvort slíkt fór nýlega fram. Í þriðja lagi skiptir máli hvort læknisfræðileg sönnunargögn eða önnur sjálfstæð sönnunargögn styðja fullyrðingu um að ill meðferð hafi farið fram áður. Hafa pyndingarnar haft einhver varanleg áhrif? Í fjórða lagi, hefur sá sem kvartar staðið í stjórnmálastarfi eða einhverju öðru starfi, innan eða utan ríkisins þar sem hann óttast illa meðferð, sem gætu gert hann viðkvæmari og líklegri til að hljóta slíka meðferð? Í fimmta lagi hvort einhver sönnunargögn séu til um trúverðugleika þess sem kvartar?  Og loks í sjötta lagi hvort ósamræmi sé í fullyrðingum kvartanda og ef svo er hvort slíkt ósamræmi hafi áhrif á málið?

Til baka í töflu

 

Íslenskur réttur

Samkvæmt 2. mgr. 66. gr. STS skal með lögum skipað fyrir hverjar sakir sé hægt að vísa  útlendingum úr landi. Reglur um brottvísun útlendinga er að finna í IV. kafla útlendingalaga.

 

Í 1. mgr. 20. gr. laganna eru þau tilvik tiltekin þar sem heimilt er að vísa útlendingi úr landi. Þau eru þegar (a) hann dvelur ólöglega í landinu, hefur brotið alvarlega eða margsinnis gegn einu eða fleiri ákvæðum laganna eða kemur sér hjá að hlíta ákvörðun sem felur í sér að hann skuli yfirgefa landið; (b) hann hefur á síðustu fimm árum afplánað refsingu erlendis eða verið dæmdur þar til refsingar fyrir háttsemi sem að íslenskum lögum getur varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði; samsvarandi gildir um sérstakar ráðstafanir sem ákvarðaðar eru vegna slíkrar refsiverðrar háttsemi; (c) hann hefur verið dæmdur hér á landi til refsingar eða til að sæta öryggisráðstöfunum fyrir háttsemi sem getur varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði eða oftar en einu sinni verið dæmdur á síðustu þremur árum til fangelsisrefsingar; (d) það er nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna.

 

Í 2. mgr. laganna segir síðan að brottvísun skv. 1. mgr. skuli ekki ákveða ef það, með hliðsjón af málsatvikum og tengslum útlendingsins við landið, mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu ættingjum hans. Útlendingi sem hefur dvalarleyfi eða norrænum ríkisborgara sem átt hefur heimili hér á landi lengur en þrjá mánuði má því aðeins vísa úr landi að hin refsiverða háttsemi geti varðað eins árs fangelsi eða meira.

 

Í 21. gr. segir að óheimilt sé að vísa frá landi eða úr landi útlendingi sem fæddur er hér á landi og hefur átt hér fast heimili óslitið síðan. Útlendingi, sem hefur búsetuleyfi, má því aðeins vísa frá landi eða úr landi að: (a) það sé nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins, sbr. d-lið 1. mgr. 20. gr.; (b) hann hafi afplánað refsingu eða verið dæmdur til refsingar fyrir háttsemi sem að íslenskum lögum getur varðað þriggja ára fangelsi eða meira og það hafi átt sér stað á síðustu fimm árum erlendis eða á síðasta ári hér á landi; samsvarandi gildir um sérstakar ráðstafanir sem ákvarðaðar eru vegna slíkrar refsiverðrar háttsemi. Brottvísun skv. b-lið 2. mgr. skal ekki ákveða ef það með hliðsjón af málsatvikum og tengslum útlendingsins við landið mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu ættingjum hans.

 

Um málsmeðferð í brottvísunarmálum ber að fara eftir stjórnsýslulögum, nema annað sé tiltekið í útlendingalögum, skv. 23. gr útlendingalaga. Róbert R. Spanó segir um beitingu stjórnsýslulaga: ,,Óhætt er að fullyrða að af hálfu dómstóla verða gerðar ríkar kröfur til þess að stjórnvöld leggi viðhlítandi grundvöll að ákvörðun um brottvísun með því að afla upplýsinga um öll atriði sem skipt geta máli um hvort skilyrði séu að lögum til að vísa útlendingi úr landi, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. og 28. og 29. gr. laga nr. 96/2002 og IX. kafla reglugerðar nr. 53/2003. Ef lagaheimild sem ákvörðun um brottvísun er reist á byggir á matskenndum skilyrðum þarf rannsókn stjórnvalds að beinast að því að staðreyna hvort þau skilyrði séu til staðar."[38]

Til baka í töflu

 

Útlendingastofnun tekur ákvarðanir um brottvísanir samanber 1. mgr. 22. gr. útlendingalaga. Ákvörðunum hennar vegna þessara mála má síðan kæra til dómsmálaráðuneytisins samanber 1. mgr. 30. gr. útlendingalaga. Eftir það er spurning hvort útlendingar eigi stjórnarskrárvarinn rétt á því að fara með mál fyrir dómstóla eftir að niðurstaða dómsmálaráðuneytis liggur fyrir.

 

Eitt af fáum málum þar sem reynt hefur á brottvísun útlendinga fyrir Hæstarétti og beitingu stjórnsýslulaga var dómur í hæstaréttarmáli   nr. 52/2004. Ákvörðun hafði verið tekin um brottvísun útlendingsins K með vísan til ákvæðis eldri laga nr. 45/1965 um eftirlit með útlendingum, sem heimilaði slíkt ef dvöl hans hér á landi yrði talin hættulega hagsmunum almennings. Upplýsingar höfðu borist frá heimalandi K um geðræn vandamál hans og refsivist. Í ljósi þess hvernig málið bar að var talið að stjórnvöldum hefði borið að rannsaka sérstaklega, sbr. 10. gr. laga nr.37/1993, hvort geðheilsu K væri svo komið að skilyrði laganna væri fullnægt, eftir atvikum með þeim úrræðum, sem um ræðir í d. lið 1. mgr. 71. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Gátu stjórnvöld ekki látið hjá líða að rannsaka þetta vegna hugsanlegs kostnaðar eða tafa sem af því myndi leiða og þess í stað stuðst við ályktanir um heilsufar K, sem dregnar voru af læknisfræðilegum gögnum frá árinu 1995, án þess að gæta um leið að því að hann hafi fengið lausn undan öryggisgæslu í heimalandi sínu fjórum árum síðar. Voru þannig taldir slíkir annmarkar á málsmeðferð útlendingaeftirlitsins að óhjákvæmilegt væri að ógilda úrskurð dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um staðfestingu ákvörðunar útlendingaeftirlitsins um afturköllun á dvalarleyfi K, brottvísun hans úr landi o.fl. Með dómi Hæstaréttar frá 16. október 2008 í hæstaréttarmáli nr. 56/2008 voru K dæmdar miskabætur vegna meðferðar málsins hjá stjórnvöldum.

 

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli E-7753/2005 reyndi á lögmæti brottvísunar útlendings á grundvelli 20. gr. laga nr. 96/2002. Um var að ræða ríkisborgara Víetnam sem hafði búið hér á landi frá sextán ára aldri, árið 2001, til þess tíma er ákvörðun um brottvísun var tekin þann 18. nóvember 2004. Var brottvísunin byggð á refsidómum vegna líkamsárása og kynferðisbrots og ákvað Útlendingastofnun jafnframt 10 ára endurkomubann. Var ákvörðun Útlendingastofnunar, sem staðfest var af dómsmálaráðuneyti, mótmælt á þeim grundvelli að ekki hafi verið farið að ákvæðum stjórnsýslulaga og að ekki hafi verið gætt andmælaréttar og rannsóknarreglu. Þá var byggt á því að brottvísun úr landi og endurkomubann væru ósanngjörn úrræði með tilliti til aldurs mannsins, tengsla hans við landið og fjölskylduaðstæðna. Héraðsdómur staðfesti úrskurð ráðuneytisins og taldi að farið hefði verið að ákvæðum stjórnsýslulaga við ákvörðun málsins og að tekið hefði verið nægilegt tillit til persónulegra aðstæðna og fjölskylduaðstæðna. Dóminum var ekki áfýjað.

Til baka í töflu

 

Í Hrd. 1997, bls. 2828 var fjallað um framsalsbeiðni og meðferð ríkisins á þeirri beiðni. Hafði hún borist frá Bandaríkjunum og var óskað eftir því að erlent par yrði framselt til Arizona. Hafði þetta par lýst því yfir að það væri reiðubúið að fara sjálfviljugt og á eigin kostnað fengist loforð frá saksóknara í Bandaríkjunum um að alþjóðleg handtökuskipun yrði felld niður og að þau yrðu ekki handtekin við komu til Bandaríkjanna heldur fengju þau að gefa sig fram að eigin frumkvæði. Jafnframt að væru þau sakfelld yrðu þau ekki látin afplána refsingu í Maricopa-sýslu í Arizona þar sem héraðsdómur hafði komist að þeirri niðurstöð að meðferð fanga í fangelsum þeirrar sýslu væri ómannúðleg. Óskuðu þau eftir því að íslensk stjórnvöld beittu sér fyrir slíkri lausn. Meðan ekki væri orðið við kröfunni yrði framsalinu mótmælt hér á landi. Niðurstaða dómsins var sú sama á báðum dómstigum, það er að ekki ætti að framselja þau, en hins vegar voru mismunandi forsendur fyrir dómunum. Héraðsdómur sagði í dómi sínum að þar sem ljóst væri að mannréttindabrot væru látin viðgangast gangvart föngum í fangelsum Maricopa-sýslu, þar sem varnaraðilar í þessu máli yrðu vistuð, ef þau gætu ekki reitt fram tryggingu en ljóst var í þessu máli að sú var einmitt staðan. Ljóst væri því að meðferðin færi gegn 68. gr. stjórnarskrárinnar og 3. gr. MSE þar sem meðferðin væri ómannúðleg. Hæstiréttur staðfesti dóminn en byggði á meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga.

 

Álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 3137/2000  fjallaði um flóttamann frá Tsjetsjeníu (A) sem hafði óskað eftir hæli. Þetta mál kom upp í gildistíð laga nr. 45/1965 um eftirlit með útlendingum. A kvæntist íslenskri konu og breytti umsókn sinni þannig að óskað var eftir dvalarleyfi. Var beiðninni synjað af Útlendingastofnun og synjunin staðfest af dómsmálaráðuneyti. Var það mat ráðuneytisins að frásögn A væri ótrúverðug í ljósi þess að hann hefði orðið margsaga, bæði hér á landi og í Noregi og Svíþjóð. Þá hefði það verið til þess fallið að grafa undan framburði A að hann hefði hunsað lögleg tilmæli ráðuneytisins um að mæta til viðtals til að gera grein fyrir sér. Umboðsmaður sagði jafnframt að samkvæmt lögum nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis gæti umboðsmaður lokið máli með ábendingu um að kvörtun varðaði réttarágreining sem ætti undir dómstóla og eðlilegt væri að þeir leystu úr. Ástæðan væri sú að þegar úrlausn máls ylti á trúverðugleika framburðar einstaklings og eftir atvikum á mati á sannleiksgildi gagna gerði löggjöfin beinlínis ráð fyrir því að dómstólar leystu úr slíkum ágreiningi. Með hliðsjón af sérstökum atvikum málsins og eðli ágreiningsefnisins taldi umboðsmaður að rétt væri og eðlilegt að dómstólar skæru endanlega úr um hvort leggja ætti til grundvallar að A væri sá er hann kvæðist vera og þá hvaða kröfur yrðu að lögum gerðar til sönnunar í þeim efnum meðal annars með tilliti til þjóðréttarlegra skuldbindinga.

 

Í áliti umboðsmanns segir:

Ég minni í þessu sambandi á að það er grundvallaregla íslensks réttar að sérhver maður sem staddur er hér á landi eigi rétt á aðgangi að dómstólum landsins, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Með vísan til orðalags stjórnarskrárákvæðisins og lögskýringargagna að baki því tel ég að leggja verði til grundvallar við skýringu og beitingu ákvæðisins að rétturinn til aðgangs að dómstólunum eigi jafnt við um íslenska ríkisborgara sem og útlendinga sem staddir eru hér á landi á lögmætum forsendum. Þá tel ég ekki tilefni til að túlka 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar það þröngt, með tilliti til orðalags ákvæðisins og athugasemda í greinargerð frumvarps þess er varð að stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995, að útlendingur sem komið hefur hingað til lands á ólögmætum forsendum geti ekki átt aðgang að dómstólum. Tel ég þvert á móti að líta verði svo á að hann geti átt stjórnarskrárvarinn rétt til að bera mál sitt undir dómstóla a.m.k í þeim tilvikum þegar sakarefni dómsmáls snýr að ágreiningi á milli hans og stjórnvalda um hvort viðurkenna beri að lögum rétt hans til veru hér á landi.

Til baka í töflu

 

Umboðsmaður skoðaði jafnframt mál er varðaði veitingu dvalarleyfis í máli nr. 4275/2004, sem reifaður var að hluta í kafla III B - 2. Í þessu máli komu fram ýmsar athugasemdir við málsmeðferð beggja stjórnvalda er komu við sögu, einkum við að fara að stjórnsýslulögum. Í málinu kvartaði kona fyrir hönd mannsins síns, sem var frá Úkraínu, og hafði dvalið hér á grundvelli dvalarleyfis fyrir námsmenn. Útlendingastofnun hafnaði ósk hans um endurnýjað dvalarleyfi á þeirri forsendu einni að hann uppfyllti ekki skilyrði 13. gr. laga nr. 96/2002 þar sem hann var þá ekki eldri en 24 ára. Það ákvæði er um dvalarleyfi fyrir aðstandendur. Dómsmálaráðuneyti skoðaði í ákvörðun sinni hvort hann fullnægði skilyrðum til að fá dvalarleyfi á grundvelli 11. gr. laganna, þar sem er að finna almenn skilyrði fyrir dvalarleyfi. Komst ráðuneytið að þeirri niðurstöðu að A fullnægði ekki skilyrði a-liðar greinarinnar um trygga framfærslu. Umboðsmaður gerði athugasemdir við að ráðuneytið hafði ekki rannsakað hvort skilyrðinu væri fullnægt. Ekki var heldur tekin afstaða til þess að konan sagðist myndu sjá um framfærslu tímabundið. Var það niðurstaða umboðsmanns að málsmeðferð dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og úrskurður hefði ekki fullnægt kröfum sem leiða af rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga.

 

Sama var að segja um þá niðurstöðu ráðuneytisins að skilyrðum c-liðar,[39] sem segir að ekki skuli liggja fyrir atvik sem valdið geta því að honum verði meinuð landganga hér á landi eða dvöl samkvæmt öðrum ákvæðum laganna (þ.e. útlendingalaganna). Taldi ráðuneytið að þar sem hann hefði réttarstöðu sakbornings í fjórum málum hjá lögreglustjóraembættum væri þessu skilyrði ekki fullnægt. Umboðsmaður benti á að af gögnum málsins væri ljóst að engin rannsókn hefði farið fram af hálfu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins á atvikum eða stöðu þeirra mála sem voru grundvöllur þeirrar niðurstöðu ráðuneytisins að atvik í máli A hefðu verið með þeim hætti sem lýst væri í e-lið 1. mgr. 18. gr. laga nr. 96/2002 og því hefði ekki verið fullnægt skilyrði c-liðar 1. mgr. 11. gr. laganna fyrir veitingu dvalarleyfis. Var það því niðurstaða hans að verulegur vafi léki á því að þær forsendur og þau gögn sem lágu til grundvallar mati ráðuneytisins um þetta atriði hefðu verið nægur grundvöllur fyrir þeirri ályktun að atvik málsins, eins og þau horfðu við ráðuneytinu við uppkvaðningu úrskurðarins, hefðu fallið að þeim mælikvarða sem lýst væri í e-lið 1. mgr. 18. gr.

 

Umboðsmaður gerði loks athugasemdir við rökstuðning fyrir þeirri niðurstöðu að skilyrðum 2. mgr. 11. gr. laga nr. 96/2002, sem felur í sér heimild til að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt skilyrðum sé annars ekki fullnægt, m.a. vegna sérstakra tengsla hans við landið, var ekki talin uppfyllt. Hefði enginn eiginlegur rökstuðningur verið færður fram sem fullnægði ekki skilyrðum 22. gr. stjórnsýslulaga um efni rökstuðnings.

Til baka í töflu

 

Ekki eru nein ákvæði í útlendingalögum, sem fjalla einar og sér um hópbrottvísanir útlendinga, eins og ákvæði 4. gr. 4. viðauka MSE gerir. Róbert R. Spanó bendir þó á að skilyrði fyrir brottvísun samkvæmt 20. og 21. gr. útlendingalaga virðist miðast við atvik og aðstæður hjá hverjum útlendingi fyrir sig. Að þessu slepptu verði að ganga út frá því að reglur IV. og V. kafla verði skýrð til samræmis við 4. gr. 4. viðauka MSE þannig að ákvarðanir um brottvísun séu alltaf teknar á grundvelli mats á persónubundnum aðstæðum útlendings og atvikum í máli hans.[40]

Til baka í töflu

 

Tilvísanir:


[1] Almenn athugasemd nr. 15, 10. mgr.

[2] Almenn athugasemd nr. 15, 9. mgr.

[3] Joseph, Schultz og Castan, bls. 378.

[4] Kindler gegn Kanada. Mál nr. 470/91 (CCPR/C/48/D/470/1991).

[5] Mannréttindanefndin hefur einnig gefið í skyn að 13. gr. feli í sér ákveðin efnisleg réttindi gagnvart konum, þannig að þær hafi sama rétt og karlmenn samkvæmt ákvæðinu en einnig að ástæður er varða ofbeldisbrot gegn konum (gender-based violations) nægt til að fyrirbyggja brottvísun. Önnur ákvæði, s.s. 7. gr samningsins um bann við pyndingum geta einnig komið þar til skoðunar. Joseph, Schultz og Castan, bls. 379.

[6] Maroufidou gegn Svíþjóð. Mál nr. 58/79 (CCPR/C/121/D/58/1979).

[7] Joseph, Schultz og Castan, bls. 381.

[8] Joseph, Schultz og Castan, bls. 382.

[9] V.M.R.B. gegn Kanada. Mál nr. 236/87 (CCPR/C/33/D/236/1987).

[10] J.R.C gegn Kosta Ríka. Mál nr. 296/88 (CCPR/C/35/D/296/1988).

[11] Joseph, Schultz og Castan, bls. 383-384.

[12] Andric gegn Svíþjóð. Mál nr. 45917/99 (ákvörðun 23. febrúar 1999, ekki tækt til meðferðar).

[13] Conka gegn Belgíu (dómur 5. febrúar 2002).

[14] Spanó, bls. 531.

[15] Ovey & White, bls. 410.

[16] Spanó, bls. 533.

[17] Ovey & White, bls. 534.

[18] Spanó, bls . 535.

[19] Lupsa gegn Rúmeníu (dómur 8. júní 2006).

[20] Sjá Lambert, bls. 24.

[21] Eðli málsins samkvæmt reynir oftar á skyldu ríkja til tryggja vernd einstaklinga skv. 2. gr. í málum þar sem sótt er um hæli, heldur en í málum sem varða rétt til komu og búsetu eftir almennum reglum. Verður ekki fjallað sérstaklega um 2. gr. MSE hér.

[22] Austurríki gegn Júgóslavíu (dómur 30. júní 1964).Dómurinn er ekki aðgengilegur á www.echr.coe.int.

[23] Beldjoudi gegn Frakklandi (dómur 26. mars 1992).

[24] Nasri gegn Frakklandi  (dómur 13. júlí 1995).

[25] Amrollahi gegn Danmörku (dómur 11. júlí 2002).

[26] Boultif gegn Sviss (dómur 11. júlí 2002).

[27] Chitat Ng gegn Kanada. Mál nr. 469/1991 (CCPR/C/491/D/469/1991).

[28] Chitat Ng gegn Jamaíku. Mál nr. 210/1986 og 225/1987.

[29] Van Dijk, Van Hoof, Van Rijn og Zwaak, bls. 428.

[30] Soering gegn Bretlandi (dómur 7. júlí 1989).

[31] Chahal gegn Bretlandi (dómur 15. nóv. 1996).

[32]  80. mgr. (þýðing höfundar)[EÓ].

[33] H.L.R. gegn Frakklandi (dómur 29. apríl 1997).

[34] Ovey og White, bls. 89. Ovey & White telja niðurstöðu minnihlutans rétta.

[35] Rehman, bls. 416.

[36] Ismail Alan gegn Sviss. Mál no 21/1995 (CAT/C/16/D/21/1995).

[37] Nefnd SÞ gegn pyndingum. Almenn athugasemd nr. 1 (A/53/44, annex IX, CAT General Comment No. 01).

[38] Spanó, bls. 537.

[39] Í álitinu er talað um c-lið en eftir breytingu með lögum nr. 86/2008 er samsvarandi ákvæði í d-lið 1. mgr. 11. gr. útlendingalaga

[40] Spanó, bls. 538.

Til baka í töflu

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is