Barátta fyrir réttindum intersex fólks á Íslandi: Mannréttindi sem lögfræðileg úrræði
Fundur á vegum Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands og Lagadeildar
Á fáeinum árum hefur réttarvernd intersex fólks á Íslandi þróast frá því að hópurinn naut engrar sértækrar lagaverndar yfir í að Ísland varð brautryðjandi í vernd líkamlegrar friðhelgi barna með ódæmigerð kyneinkenni. Hvað skýrir þessa þróun – ekki síst þar sem alþjóðleg lagaleg viðmið skortir?
Daniela Alaattinoğlu, nýdoktor við Lagadeild mun fjalla um hina öru þróun á Íslandi og gera grein fyrir fimm þáttum sem eru afgerandi í þróuninni: i) þróun á alþjóðavísu hvað varðar stefnumörkun og löggjöf um réttindi intersex fólks; ii) þróun alþjóðlegra verklagsreglna á sviði lífsiðfræði; iii) opinberar frásagnir intersex einstaklinga af reynslu sinni; iv) upplýst notkun málsvara mannréttinda intersex fólks á úrræðum og orðræðu mannréttinda; v) samstarf borgara, stjórnmálafólks og heilbrigðisstarfsfólks.