Dómareifanir MDE

Þann 10. október 2005 gaf Mannréttindastofnun Háskóla Íslands út fyrsta hefti tímarits með dómareifunum Mannréttindadómstóls Evrópu á íslensku. Útgáfan hefur frá upphafi verið styrkt af innanríkisráðuneyti (áður dómsmála- og mannréttindaráðuneyti).  Frá 2013 hefur útgáfan eingöngu verið rafræn og aðgengileg á  heimasíðu stofnunarinnar þar sem allir eiga kost á því að kynna sér efni hennar.

Fyrra hefti hvers árs kemur jafnan út í október og nær yfir uppkveðna dóma janúar-júní, seinna heftið nær yfir júlí-desember og kemur oftast út í apríl. Sjá heftin hér.

Stefnt er að því að breiða út þekkingu um framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu meðal íslenskra lögfræðinga og annarra sem áhuga hafa á þeim efnum með útgáfunni. Þá er ritinu jafnframt ætlað að vera vettvangur fyrir ýmis fræðiskrif tengd mannréttindum og eftir því sem við á ákvarðanir annarra alþjóðastofnana eða nefnda sem fjalla um mannréttindi. 

Í tímaritinu eru reifaðir valdir dómar sem taldir eru hafa sérstakt gildi fyrir túlkun ákvæða sáttmálans. Þá eru teknir með dómar sem hafa sérstaka þýðingu fyrir íslenskan rétt, einkum í málum gegn hinum Norðurlöndunum þar sem oft er til umfjöllunar löggjöf eða ákvarðanir sem eiga hliðstæðu í íslenskri réttarframkvæmd. Loks eru birtar í heild sinni í íslenskri þýðingu ákvarðanir og dómar í kærumálum gegn íslenska ríkinu sem áður voru aðeins birtir á heimasíðu ráðuneytisins.

Íslenskir lögfræðingar hafa átt greiðan aðgang að vef Mannréttindadómstólsins. Þótt dómarnir séu ekki þýddir í heild sinni í ritinu er vakin sérstök athygli á dómum sem hafa meiri þýðingu en aðrir, efnisatriði þeirra og rökstuðningur reifaður og gefið tilefni til nánari skoðunar.