Lög og reglur

Samþykktir fyrir sjálfseignarstofnunina
Mannréttindastofnun Háskóla Íslands

  1. Stofnendur eru Háskóli Íslands, Lögmannafélag Íslands og Dómarafélag Íslands.
     
  2. Stofnendur leggja fram kr. 500.000 fjárframlag til stofnunarinnar sem skal vera óskerðanlegur höfuðstóll og ávaxta skal með tryggilegum hætti. Háskóli Íslands leggur fram ¾ hluta stofnframlags en Lögmannafélag Íslands ¼.
     
  3. Heimilisfang og varnarþing stofnunarinnar er í Reykjavík.
    Stofnunin ber ábyrgð á skuldbindingum sínum með öllum eignum sínum. Hún er ekki háð neinum öðrum lögaðilum. Meginstarfsemi stofnunarinnar fer fram innan veggja háskólans eða á þeim stað sem stjórn stofnunarinnar ákveður síðar.
     
  4. Megintilgangur stofnunarinnar er að vinna að rannsóknum á lögfræðilegum þáttum mannréttinda, annast dreifingu á niðurstöðum þeirra og styðja við kennslu á þessu sviði.
    Stofnuninni er heimilt að rannsaka aðra þætti mannréttinda eftir því sem stjórn stofnunarinnar ákveður hverju sinni.
    Í þessu skyni skal stjórn stofnunarinnar vinna að því að koma upp bókasafni, stofna til fræðslufunda um mannréttindamálefni og styrkja stúdenta, kennara, lögmenn, dómara og aðra til náms og kynningarfunda um mannréttindamálefni.
     
  5. Stjórn stofnunarinnar skal skipuð fjórum mönnum og tveimur til vara til tveggja ára í senn. Háskólaráð kýs tvo stjórnarmenn og einn til vara en stjórn Lögmannafélags Íslands og Dómarafélags Íslands einn mann af hálfu hvors aðila og einn til vara. Ákvarðanir á stjórnar- fundum eru teknar með meiri hluta atkvæða.
     
  6. Stjórnin skal framfylgja meginmarkmiðum stofnskrár þessarar og einstökum ákvæðum hennar. Hún skal taka allar meiri háttar ákvarðanir á vegum stofnunarinnar. Stjórnin ákveður m.a. stefnu stofnunarinnar almennt og í einstökum málefnum, sér um bókhald, gerir rekstar- áætlanir og ræður starfslið.
     
  7. Boða skal til stjórnarfunda með tryggilegum hætti. Enga mikilvæga ákvörðun má taka fyrir hönd stofnunarinnar nema stjórnin sé fullskipuð. Stjórnarmaður má ekki taka þátt í meðferð einstaks máls ef það málefni sem fyrir liggur til ákvörðunar skiptir hann verulegu máli fjárhagslega eða siðferðilega. Aðalatriði þess sem fram fer á stjórnarfundum skal færa til bókar.
     
  8. Stjórnin er að öllu leyti óháð boðvaldi stofnenda eða annarra aðila. Árlega og ávallt samkvæmt sérstakri beiðni skal hún gefa háskólaráði og stjórn Lögmannafélags Íslands og Dómarafélags Íslands skýrslu um starfsemi sína og svara þeim fyrirspurnum sem þessir aðilar beina að henni.
     
  9. Stjórninni er heimilt, ef hún er einhuga og ef fjárhagur og aðrar aðstæður leyfa, að ráða forstöðumann sem sitja skal stjórnarfundi með fullu málfrelsi. Honum skal setja erindisbréf.
     
  10. Stofnunin aflar rekstrartekna m.a. með því:
    1. Að veita viðtöku styrkjum og öðrum fjárframlögum,
    2. að taka lán,
    3. að hafa tekjur af rekstri.
       
  11. Stjórn má ráðstafa eignum stofnunarinnar:
    1. til frekari uppbyggingar stofnunarinnar,
    2. til rannsókna, kennslu og menntunarmála sem tengjast megintilgangi stofnunarinnar.
       
  12. Til þess að stofnunin geti náð megintilgangi sínum er stjórninni heimilt fyrir hönd stofnunarinnar að eiga samstarf við aðra aðila að gerast í því skyni aðili að samstarfssamningi um lengri eða skemmri tíma. Gert er ráð fyrir því í upphafi að stofnunin geri sérstakt samkomulag við Háskóla Íslands um aðstöðu og nauðsynlega aðstoð starfsmanns. Gera skal skriflegt samkomulag um slíkt samstarf.
     
  13. Stjórninni er heimilt að stofna fulltrúaráð sér til ráðuneytis sem í eiga sæti aðilar frá þeim samtökum sem vinna að markmiðum stofnunarinnar. Stjórnin skal setja skriflegar reglur sem að þessu lúta og kynna þær fyrir stofnendum.
     
  14. Stofnendur geta breytt stofnskrá þessari með samkomulagi sínu. Þrír af fjórum stjórnarmönnum stofnunarinnar skuli vera meðmæltir slíkum breytingum.
     
  15. Stofnuninni verði slitið með sameiginlegri ákvörðun stofnenda og skulu tveir stjórn- enda vera því meðmæltir. Leita skal samþykkis dómsmálaráðuneytisins fyrir slitunum. Tveir menn, lögmenn eða löggiltir endurskoðendur, sem stofnendur tilnefna sameiginlega skulu sjá um skuldaskil og aðrar aðgerðir í sambandi við skiptin. Telji skilanefndarmenn að stofnunin geti ekki staðið í skilum við lánadrottna sína eða að vafi leiki á því skulu þeir óska eftir gjaldþrotaskiptum fyrir hennar hönd. Í öðrum tilvikum skulu eignir, að lokinni greiðslu eða tryggingu skulda, renna til Háskólans.
     
  16. Stjórn sjálfseignarstofnunarinnar skal ganga frá reikningum stofnunarinnar fyrir 1. júní ár hvert. Þeir skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda sem stjórn stofnunarinnar ræður til tveggja ára í senn.
     
  17. Um reikningshald fer að 1. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.
     
  18. Leita skal staðfestingar dómsmálaráðherra á skipulagsskrá þessari.

Reykjavík 14. 4. 1994