Viðburðir
Árlega stendur Mannréttindastofnun fyrir fræðafundum, málstofum og ráðstefnum, ýmist á eigin vegum eða í samstarfi við aðra. Hér má sjá yfirlit yfir fyrri ráðstefnur, fundi og málstofur.
Einnig býður stofnunin upp á stutt námskeið sem gagnast geta lögmönnum, stjórnendum fyrirtækja, starfsmannastjórum, og öðrum sem hafa áhuga á námskeiðum á sviði mannréttindalögfræði.
Leitast er við að fá virta innlenda og erlenda fræðimenn til að flytja erindi. Er að jafnaði boðað til eins til tveggja fræðafunda og málstofa árlega auk ráðstefnuhalds annað hvert ár.
Tjáningarfrelsið og Mannréttindasáttmáli Evrópu
Námskeið haldið 3. nóvember 2016
Kennari: Davíð Þór Björgvinsson, fyrrv. dómari við Mannréttindadómstól Evrópu og prófessor við Lagadeild HÍ.
Um námskeiðið
Í námskeiðinu verður fjallað um ákvæði 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningarfrelsið. Fjallað verður sérstakalega um dómaframkvæmd Mannréttindadómstólsins sem varðar réttindi og skyldur blaða- og fréttamanna. Þá verður rætt um dóma dómstólsins í málum gegn Íslandi og þýðingu þeirra fyrir íslenskan rétt.
Réttarfar í sakamálum í ljósi 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu
Námskeið haldið 16. september 2016.
Kennari: Róbert R. Spanó, dómari við Mannréttindadómstól Evrópu
Um námskeiðið:
Farið verður yfir helstu meginþætti dómaframkvæmdar MDE um 6. gr. MSE í sakamálum. Gildissvið reglunnar í sakamálum verður útskýrt. Þá verður fjallað um meginregluna um réttláta málsmeðferð samkvæmt 1. mgr. 6. gr. og samspil hennar við lágmarksréttindi þau sem mælt er fyrir um í 3. mgr. Sérstaklega verður vikið að meginreglunni um jafnræði málsaðila og um rétt til aðgangs að gögnum. Gerð verður grein fyrir meginreglu 2. mgr. 6. gr. um að hver maður skuli talinn saklaus uns sekt hans er sönnuð að lögum og nánar fjallað um einstakar efnisreglur 3. mgr. 6. gr. Loks verður gerð grein fyrir almennum starfsaðferðum dómstólsins og farvegi kærumála þegar þau berast dómstólnum, þ.e. einkum mati á hvort máli skuli vísað frá, það sent aðildarríki til athugasemda og um efnismeðferð mála.
Current Challenges to Human Rights in Europe
Mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins, Nils Muižnieks, flutti erindi föstudaginn 10. júní kl. 12-13 í Norræna húsinu. Fundurinn er haldinn af utanríkisráðuneyti í samvinnu við Mannréttindastofnun HÍ, um áhrif átaka og hryðjuverka á virðingu fyrir mannréttindum.
Heiti erindisins er: Current Challenges to Human Rights in Europe.
Fundastjóri: Pétur Dam Leifsson, dósent við Lagadeild Háskóla Íslands
Erfðatækni og mannréttindi – Genetics and Human Rights
Opinn fundur, miðvikudaginn 27. apríl kl. 12-13.30 í fyrirlestrarsal Íslenskrar erfðagreiningar, Sturlugötu 8, á vegum Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands og Íslenskrar efðagreiningar.
Erindi fluttu:
- Dr. Benjamin Gregg, prófessor við Texasháskóla, Austin
How human genetic engineering challenges human rights: Issues and answers - Dr. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar
How human genetics could improve health care
Fundurinn var haldinn með stuðningi Fulbright stofnunarinnar á Íslandi
Glæpavæðing hælisleitenda - Criminalization of Azylum
7.-8. október 2015
Nokkrir fremstu sérfræðingar Norðurlandanna í flóttamannarétti komu saman á fundi í Háskóla Íslands á vegum Mannréttindastofnunar Íslands og Nordic Institute of immigration and azylum (NIIA) 7. og 8. október 2015.
Var meðal annars rætt um orðræðu víða í álfunni um „ólöglega innflytjendur“ og ótta við hugsanlega hryðjuverkamenn. Þá voru einnig rætt hvernig aðgerðir á við ný lög og gaddavírsgirðingu á landamærum Ungverjalands neyði í raun stríðshrjáða einstaklinga til að fremja „glæpi“ til að lifa af.
Hér má sjá viðtal við Vigdis Vevstad á mbl.is.
Öryggi í lýðræðisríkjum. Eftirlitskerfi mannréttindasáttmálans - Áskoranir í Evrópu
Mánudaginn 8. júní nk. kl. 12.00 í stofu 101 í Odda, flutti Thorbjørn Jagland, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, erindi um öryggi í lýðræðisríkjum, eftirlitskerfi mannréttindasáttmálans og áskoranir í Evrópu. Í erindi sínu ræddi framkvæmdastjórinn m.a. um stöðu mannréttinda í baráttunni gegn hryðjuverkum og um framtíðarskipan Mannréttindadómstóls Evrópu, en hann hefur nýverið sent frá sér skýrslu um stöðu lýðræðis og mannréttinda í Evrópu.
Fundurinn var haldinn í samvinnu Mannréttindastofnunar HÍ, utanríkisráðuneytisins og Lögfræðingafélags Íslands.
Fundarstjóri: Oddný Mjöll Arnardóttir prófessor við Lagadeild HÍ og stjórnarformaður MHÍ
Methods of Human Rights Law Research
Námskeið á ensku fyrir Ph.D. nemendur 26.-27. maí 2015. Haldið í samvinnu Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands og iCourts, the Danish National Research Foundation´s Centre of Excellence for International Courts, við Kaupmannahafnarháskóla.
Kennarar:
- Oddný Mjöll Arnardóttir, professor of law at the University of Iceland
- Davíð Þór Björgvinsson, professor of law at the University of Copenhagen and the University of Iceland and former judge at the European Court of Human Rights
- Marie-Bénédicte Dembour, professor of law and anthropology at the University of Brighton
- Mikael Rask Madsen, professor of law and Director of iCourts at the University of Copenhagen.
Námskeiðslýsing
Research in the field of international human rights law covers a broad range of issues, adjudicated or otherwise governed by multiple international courts and decision-making bodies. This course is designed for all doctoral candidates who deal with issues in international human rights law.
It has been argued that human rights research, and in particular human rights law research, suffers from a lack of methodological reflection and rigour, and that much such scholarship is tainted by ‘activism’ or ‘wishful thinking’ in support of the goal of enhancing human rights protection. Against this background, the course will explore different schools of thought on human rights, which breed different approaches to human rights research, reflect on the practices of human rights bodies (with a particular emphasis on the European Court of Human Rights), and contrast social scientific approaches with classical methods of legal research.
The twin objectives of the course are, firstly, to increase the students’ awareness of different approaches and different methodologies in human rights law research and, secondly, to assist doctoral candidates in the development of their own methodology.
Hverja er Mannréttindadómstóll Evrópu ætlað að vernda?
Fundur í samvinnu Mannréttindastofnunar og innanríkisráðuneytisins, miðvikudaginn 27. maí.
Mannréttindasáttmáli Evrópu var undirritaður í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar á „aldrei aftur“ tímabili. Í ljósi tilvísana til mannréttinda, væri nærtækt að ímynda sér að aðildarríki myndu standa vörð um mannréttindi allra manneskja sem heyrðu undir lögsögu þeirra.Raunveruleikinn er hins vegar ekki svona einfaldur. Réttindi nýlendubúa og innflytjenda voru til dæmis ekki nægilega vernduð af samningnum. Með þessa flóknu sögu í bakgrunni er í fyrirlestrinum fjallað um það hvernig Mannréttindadómstóll Evrópu skilgreinir/nær utan um hugtakið mannréttindi í dag.
Marie-Bénédicte Dembour er prófessor í lögfræði og mannfræði við Háskólann í Brighton. Nýjasta bók hennar, gefin út af Oxford University Press ber heitið When Humans Become Migrants: Study of the European Court of Human Rights with an Inter-American Counterpoint.
Rafrænt eftirlit - Hvað má og hvað ekki?
Persónuvernd í samvinnu við Mannréttindastofnun Háskóla Íslands efnir til málþings á evrópska persónuverndardaginn, miðvikudaginn 28. janúar 2015.
Málþingið var haldið í sal Þjóðminjasafns Íslands, Suðurgötu 41.
Fundarstjóri var Björg Thorarensen, formaður stjórnar Persónuverndar og prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands.
Tjáningarfrelsi samkvæmt 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu
Námskeið fyrir dómara - Tjáningarfrelsi samkvæmt 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Haldið 5. desember 2014.
Kennari: Davíð Þór Björgvinsson, próf. og fyrrv. dómari við Mannréttindadómstól Evrópu
Markmið og tilgangur námskeiðs
Á námskeiðinu verður fjallað um 10. gr. mannréttindasáttmálans og þær meginreglur sem í 1. mgr. 10. gr. felast. Þá verður fjallað um takmarkanir á tjáningarfrelsinu samkvæmt 2. mgr.
Áhersla verður lögð á að skoða nýlega dómaframkvæmd mannréttindadómstólsins, m.a. í ljósi dómaframkvæmdar á Íslandi.
Einkum verður lögð áhersla á dóma á eftirtöldum sviðum:
- Ærumeiðingar og samspil 10. gr. og 8. gr. sáttmálans um friðhelgi einkalífs.
- Réttindi og skyldur blaða- og fréttamanna.
- Vernd heilsu manna og siðgæðis.
- Takamarkanir á tjáningarfrelsi til að tryggja vald og óhlutdrægni dómstóla.
Að síðustu verður farið yfir það nýjasta og áhugaverðasta frá Mannréttindadómstólnum
20 ár frá lögfestingu Mannréttindasáttmála Evrópu
Í ár eru liðin 20 ár frá lögfestingu Mannréttindasáttmála Evrópu á Íslandi með lögum nr. 62/1994. Af því tilefni efndu Mannréttindastofnun Háskóla Íslands og embætti umboðsmanns Alþingis til ráðstefnu, þar sem rætt var um ýmsa áhugaverða fleti á stöðu sáttmálans svo og áhrif lögfestingar sáttmálans á dómaframkvæmd, stjórnsýslu og störf lögmanna. Ráðstefnan var haldin föstudaginn 24. október kl. 13-16.10 í Öskju, stofu 132.
Upptaka:
Nýjar ógnir við friðhelgi einkalífs og meðferð persónuupplýsinga
Föstudaginn 19. október í Hátíðarsal Háskóla Íslands
Markmið ráðstefnunnar var taka fyrir helstu álitaefni sem tengjast persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og þær hættur sem steðja að friðhelgi einkalífs í nútímasamfélagi. Viðfangsefnið var skoðað frá nokkrum hliðum, þar á meðal frá sjónarhóli almennra reglna um mannréttindavernd og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sem verndar friðhelgi einkalífs. Var þar litið til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstólsins um túlkun ákvæðisins í málum um meðferð persónuupplýsinga en hröð þróun hefur orðið í þeim efnum á síðustu árum. Með aukinni tæknivæðingu skapast æ fleiri möguleikar til að safna á kerfisbundinn hátt og halda saman upplýsingum um einstaklinga og nota þær í margvíslegum tilgangi. Ljóst er að hættan af broti á friðhelgi einkalífs í þessum efnum stafar ekki síst frá einkaaðilum fremur en stjórnvöldum. Af þeirri ástæðu reynir enn frekar á jákvæðar skyldur aðildarríkja að Mannréttindasáttmálanum til að grípa til sérstakra aðgerða með löggjöf og virkri framkvæmd laga til verndar friðhelgi einkalífs og sporna við misnotkun í söfnun og vinnslu persónuupplýsinga.
Dómaframkvæmd Mannréttindadómstólsins um túlkun Mannréttindasáttmálans hefur ótvíræð áhrif á íslenska réttarskipan, en 71. gr. íslensku stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs er m.a. túlkuð í ljósi þeirra meginreglna sem leiddar verða af dómaframkvæmd um 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Á ráðstefnunni verður varpað ljósi hvað sjónarmið vegast á þegar fjallað er um meðferð upplýsinga og stjórnarskrárverndar á einkalífi manna, sérstaklega hvort vegur þyngra réttur einstaklings til að njóta leyndar um persónuupplýsingar sínar eða almannahagsmunir af því að safna og miðla persónuupplýsingum, t.d. vegna vísindarannsókna.
Íslensk löggjöf um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga hvílir að stórum hluta á reglum sem settar hafa verið í samstarfi Evrópuríkja um efnið. Einn fyrsti milliríkjasamningurinn um efnið var samningur Evrópuráðsins frá 28. janúar 1981 um vernd einstaklinga varðandi vélræna vinnslu persónu¬upplýsinga, en Ísland varð aðili að honum árið 1991. Tilgangur samningsins er að tryggja sérhverjum manni virðingu fyrir réttindum hans og grundvallarfrelsi, einkum rétti hans til einkalífs í tengslum við vélræna vinnslu persónuupplýsinga sem hann varða. Fjallað verður um endurskoðun samningsins sem nú stendur fyrir í ljósi nýrra álitaefna um ógnir við persónuvernd.
Fyrrgreindur samningur Evrópuráðsins lagði grunninn að víðtækri reglusetningu á vettvangi Evrópusambandsins um vernd persónuupplýsinga og er Ísland bundið af mikilvægustu lögum og reglum Evrópusambandsins um efnið vegna aðildar að EES-samningnum. Þar er mikilvægust tilskipun Evrópusambandsins 95/46/EB um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálst flæði slíkra upplýsinga. Með lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sem eru meginlagabálkurinn um efnið hér á landi voru innleidd í íslensk lög ákvæði reglna ESB á þessu sviði.
Nú stendur fyrir dyrum allsherjar endurskoðun á reglum Evrópusambandsins um vernd persónuupplýsinga þar sem m.a. er stefnt er að frekari miðstýringu í eftirliti með framkvæmd Evrópureglna, auk þess sem persónuverndarstofnanir innanlands frá frekari heimildir til að bregðast við brotum á reglum um persónuvernd. Í ráðstefnunni verður varpað ljósi á fyrirhugaðar breytingar sem munu hafa víðtæk áhrif á íslenska réttarskipan um efnið.
Nokkur sérsvið þar sem reynir á vernd persónuupplýsinga verða tekin fyrir á ráðstefnunni. Fyrst má geta margvíslegra álitaefna sem Facebook-samskiptavefurinn vekur upp varðandi söfnun og meðferð persónuupplýsinga þeirra sem nota vefinn. Nýlega var ítarleg úttekt gerð á þessum málum í Noregi og verða niðurstöður hennar m.a. kynntar á ráðstefnunni. Þar kom m.a. ýmislegt í ljós um söfnun og meðferð persónuupplýsinga á Facebook sem notendur velta tæpast mikið fyrir sér, en tengist þó mikilvægum réttindum þeirra á sviði einkalífsvernda.
Á ráðstefnunni verður sjónum beint að tveimur sviðum sem hafa verið sérstaklega til umfjöllunar hér á landi um túlkun persónuverndarlaga þar sem spurningar hafa vaknað um hagsmuni sem vegast á, þ.e. einstaklingshagsmuni og almannahagsmuni. Nýlega hafa komið upp álitamál um meðferð persónuupplýsinga í heilbrigðiskerfinu, m.a. um heimildir landlæknis til að fá persónugreinanlegar upplýsingar um sjúklinga sem fengu ígrædda gallaða brjóstapúða og um rétt sjúklinga til þess að leynd verði haldið um slíkar upplýsingar. Þar vöknuðu ýmsar krefjandi spurningar hvort lýtalæknum væri skylt að afhenda læknum persónulegar upplýsingar gegn vilja sjúklinga sinna, en niðurstaðan var að ekki væri lagaheimild til að kalla eftir þeim upplýsingum.
Annað mjög raunhæft svið þar sem reynir á mörk almannahagmuna og einstaklingshagsmuna tengist rannsóknarheimildum lögreglu, einkum heimildum lögreglunnar til að afla persónuupplýsinga og varðveita þær. Þar hefur sérstaklega verið rætt um álitamál um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglunnar og áhrif slíkar heimilda á persónuvernd. Verður leitast við að svara spurningum um hversu langt er nauðsynlega að ganga í söfnun persónuupplýsinga hjá lögreglu til þess að tryggja megi öryggi almennings í vörnum gegn afbrotum eða til að upplýsa brotastarfsemi og ræða hvaða sjónarmið vegast þar á.
Shifting Centres of Gravity
Alþjóðleg ráðstefna, 6.-7. mars
Mannréttindastofnun Háskóla Íslands hélt alþjóðlegrar ráðstefnu um „Shifting Centres of Gravity in European Human Rights Protection“ í Norræna húsinu þann 6.-7. mars 2014.
Á ráðstefnunni var fjallað um þær hræringar í skipulagi Evrópskrar mannréttindaverndar sem birtast í Brighton yfirlýsingunni, viðaukum 15 og 16 við MSE og væntanlegri aðild Evrópusambandsins að MSE. Fjallað var um þessa þróun frá því sjónarhorni að hún kalli á gagnrýnið endurmat á hefðbundnum hugmyndum um samspil MSE, Evrópuréttar og landsréttar og þeim kenningum sem notast hefur við til að skýra það.
Einnig var fjallað um þau áhrif sem þessar hræringar hafa á fórnarlömb mannréttindabrota. Meðal fyrirlesara voru leiðandi rannsakendur á þessu sviði.
Kæruskilyrði og málsmeðferð fyrir Mannréttindadómstól Evrópu
Námskeið í samvinnu Mannréttindastofnunar HÍ og Lögmannafélags Íslands. Haldið 7. nóvember 2013.
Kennari: Davíð Þór Björgvinsson, próf. og dómari við Mannréttindadómstól Evrópu.
Markmið og tilgangur námskeiðs
Á námskeiðinu verður veitt yfirsýn yfir skipulag og störf Mannréttindadómstóls Evrópu og réttarfarsreglur sem gilda um meðferð kærumála fyrir dómstólnum. Sérstök áhersla er lögð á skilyrði sem Mannréttindasáttmáli Evrópu setur fyrir því að kæra verði tekin til efnislegrar meðferðar fyrir dómstólnum og huga þarf sérstaklega að við undirbúning kærumála. Einnig verður fjallað um sáttaumleitanir og málsmeðferð varðandi efnishlið máls eftir að kæra er metin tæk til efnismeðferðar.
Námskeiðið er sniðið að þörfum sjálfstætt starfandi lögmanna en nýtist einnig lögfræðingum hjá stofnunum ríkis og sveitarfélaga.
Rannsókn á ríkisfangsleysi á Íslandi kynnt
Umdæmisskrifstofa flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna fyrir Norður Evrópu og Mannréttindastofnun HÍ (MHÍ) stóðu fyrir kynningarfundi á fyrstu niðurstöðum rannsóknar á ríkisfangsleysi á Íslandi, miðvikudaginn 9. október sl. Var hann ákaflega vel sóttur af þeim sem starfa að málefnum flóttamanna og innflytjenda. Skýrsla var unnin í samstarfi þessara tveggja aðila á grundvelli styrks sem innanríkisráðuneytið veitti MHÍ og var Hrefnu Dögg Gunnarsdóttur lögfræðingi falin rannsóknin.
Ekki eru til áreiðanlegar tölur um fjölda ríkisfangslausra á Íslandi þó flest bendi til þess fjöldinn sé ekki umfangsmikill. Lagt er til m.a. að:
- Stjórnvöld fullgildi samning um stöðu fólks án ríkisfangs frá 1954 og samnings um að draga úr ríkisfangsleyfi frá 1961.
- Skráning ríkisfangslausra verði samræmd.
- Lögfest verði skilgreining á hugtakinu "ríkisfangslaus einstaklingur" í samræmi við samninginn frá 1954 og viðmið til að ákvarða hvort einstaklingur falli undir skilgreininguna.
- Lagabreytingar verði gerðar til að koma betur í veg fyrir mögulegt ríkisfangsleysi barna og til að auðvelda ríkisfangslausum að öðlast ríkisborgararétt samkvæmt umsókn.
- Frekari rannsóknir til að dýpka skilning á stöðu og aðstæðum ríkisfangslausra á Íslandi.
Beint lýðræði, kostir og gallar
Opinn fundur Lagastofnunar og Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands, 6. mars 2013.
Frummælendur:
- Bruno Kaufmann, stjórnmálafræðingur og blaðamaður.
People power now!?
How can the needs of a robuste and stable democratic system be smartly combined with an open opportunity structure for direct citizens participation? What can be (and shouldn't be!) learnt from the Swiss experience? And what about the key directdemocratic reforms launched by the Icelandic Consttional Council? - Jón Ólafsson, prófessor við Háskólann á Bifröst
Are referenda a good way of involving the public in politics?
One way to increase democratic participation is through national and local referenda on political issues. Referenda are, however, neither the only way, nor necessarily the best way, to involve the public in policy- and decision-making. Pros and cons of national referenda will be discussed and some alternative ways of public consultation.
Fundarstjóri: Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns Framsóknarflokksins
Nýjar ógnir við friðhelgi einkalífs og meðferð persónuuplýsinga
Ráðstefna á vegum innanríkisráðuneytis og Persónuverndar í samvinnu við Mannréttindastofnun og Lagadeild Háskóla Íslands.
Föstudaginn 19. október kl. 13:15-17:15 í Hátíðarsal Háskóla Íslands
Á ráðstefnunni var varpað ljósi á nokkur mikilvæg álitaefni um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, hvaða hættur steðja að friðhelgi einkalífs og persónuvernd og hvernig skuli bregðast við þeim.
Stjórnskipulag Evrópusambandsins og Norðurlanda
Áhrif yfirþjóðlegs valds á stjórnskipun aðildarríkja og lýðræði
Ráðstefna í Norræna húsinu 21. september
Markmið ráðstefnunnar var að varpa ljósi á áhrif aðildar að Evrópusambandinu á stjórnskipulag ríkja, einkum Norðurlandanna. Með auknum samruna í Evrópu hafa mótast tvenns konar stjórnskipunarkerfi annars vegar stjórnskipun aðildarríkja og hins vegar yfirþjóðleg stjórnskipun Evrópusambandsins. Þessi kerfi skarast, enda lúta þau m.a. að valdbærni stofnana og meðferð valds gagnvart borgurum, en hvíla þó á ólíkum hugmyndafræðilegum undirstöðum og kenningum um uppsprettu valdsins. Á ráðstefnunni verður m.a. fjallað um hvernig lagakerfi Evrópusambandsins hefur smám saman „stjórnarskrárvæðst“ og samspil stjórnskipunarreglna í landsrétti og sambandsrétti, ástæður þeirrar þróunar, kosti hennar og galla og áhrif á lýðræðislega stjórnarhætti í aðildarríkjum sambandsins.
Frummælendur voru sérfræðingar á sviði stjórnskipunarréttar, Evrópuréttar og stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Kaupmannahafnarháskóla og frá dómstól ESB.
Réttur til að vera ekki saksóttur eða refsað tvívegis- Málstofa í stjórnskipunarrétti
Mannréttindastofnun Háskóla Íslands - Málstofa í stjórnskipunarrétti
Miðvikudaginn 14. mars kl. 12.15-13.30 í stofu 101 Lögbergi
Fjallað var um inntak og efni 4. gr. 7. viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu um rétt manns til að vera ekki saksóttur eða refsað tvívegis (ne bis in idem). Sjónum var beint að fræðikenningum og áhrifum ákvæðisins á íslenska réttarframkvæmd, svo og tengslum við stjórnarskrárvernduð mannréttindi, en reglan er ekki talin með í mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar.
Málshefjendur voru Róbert R. Spanó prófessor við lagadeild HÍ og Björn Þorvaldsson saksóknari við embætti sérstaks saksóknara.
Fundarstjóri: Björg Thorarensen prófessor við lagadeild HÍ
Viðurkenning Íslands á Palestínu.
Málstofa Mannréttindastofnunnar og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, miðvikudaginn 25. janúar.
Nýverið viðurkenndi Ísland Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki en með því var Palestína viðurkennd í fyrsta sinn af ríki í vestur- og norðurhluta Evrópu. Á málstofunni var rætt um skilyrði alþjóðalaga til að ríki teljist stofnað, aðferðir til að viðurkenna ríki og lagalegar og stjórnmálalegar afleiðingar viðurkenningar. Þá verður fjallað um álitamál tengd rétti þjóða til að stofna ríki, hvað felst í þjóðarhugtakinu og staða Palestínu skoðuð í ljósi helstu kenninga um efnið.
Frummælendur:
- Pétur Dam Leifsson, dósent við lagadeild HÍ
- Guðmundur Hálfdanarson, prófessor við sagnfræði og heimspekideild HÍ
Fundarstjóri:
- Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild HÍ
Leiðin að beinu lýðræði á Íslandi - Svissneska reynslan og hvað getur Ísland lært
Ráðstefna sem haldin var fimmtudaginn 15. september í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur.
Ráðstefnan var haldin í samvinnu svissneska utanríkisráðuneytisins, Institute of Referendums and Inititative, Lagastofnunnar og Mannréttindastofnunnar Háskóla Íslands.
Á Íslandi eru uppi áform um að styrkja beint lýðræði. Mörg ríki víða um heim hafa gripið til aðgerða í þá veru til að efla fulltrúalýðræðið. Sviss er það land í heiminum sem hefur gengið lengst í þróun beins lýðræðis með innleiðingu borgarafrumkvæðis og þjóðaratkvæðagreiðslna. Af þeim sökum er áhugavert að líta til reynslu Sviss þegar rætt er um beint lýðræði í nútímalegu samhengi.
Nútímalegt beint lýðræði tekur mið af styrkleikum og veikleikum þeirra þátta sem gera borgurunum kleift að taka þátt í stjórnmálum í Sviss og á Íslandi. Þetta verkefni býður upp á tækifæri til að fræðast og ræða um lykilþætti beinna lýðræðisferla innan ramma fulltrúalýðræðisins.
Réttindaskrá Evrópusambandsins og áhrif Lissabon-sáttmálans
28. janúar 2011.
Ráðstefna á vegum MHÍ og HR í samvinnu við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins/TAIEX, um réttindaskrá Evrópusambandsins og áhrif Lissabon-sáttmálans; The Charter of Fundamental Rights and the EU under the Lisbon Treaty: Towards Enhanced Human Rights Protection.
Ráðstefnan var aðeins opin boðsgestum og var skipulögð af Mannréttindastofnun HÍ, lagadeild HR og Mannréttindaskrifstofu Íslands í samvinnu við framkvæmdastjórn ESB/TAIEX..
Landið eitt kjördæmi og jafn kosningaréttur
Málstofa um leiðir til að afnema misvægi atkvæða
Miðvikudaginn 12. janúar 2011 kl. 12.15, stofa 101 Lögbergi
Atkvæði kjósenda í dreifbýli hafa ávallt haft meira vægi í kosningum til Alþingis á Íslandi en kjósenda í þéttbýliskjördæmum. Um árabil hefur verið rætt um leiðir til að tryggja jafnan kosningarrétt í íslensku kosningaskipulagi. Ein leið sem bent er á til að jafna kosningarétt er að gera landið allt að einu kjördæmi.
Á málstofunni var rætt um hvort rétt sé að jafna kosningarétt að fullu og hvort því markmiði verði best náð með því að breyta landinu í eitt kjördæmi. Rætt var um kosti og galla slíkrar breytinga bæði frá sjónarhóli stjórnmálaflokka og aðstöðu kjósenda í landinu til að hafa áhrif. Þá var fjallað um hvort aðrar leiðir séu vænlegri við þróun kosningaskipulags hér á landi.
Frummælendur á málstofunni voru:
- Grétar Eyþórsson prófessor í stjórnmálafræði og aðferðafræði í Háskólanum á Akureyri
- Ólafur Harðarson prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
Fundarstjóri var Björg Thorarensen prófessor við lagadeild Háskóla Íslands.
National Initiatives and Referendums- Means to strengthen democracy
Opinn fundur í samvinnu Mannréttindastofnunar og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, föstudaginn 5. nóvember kl. 12:15-13:15 í fundarsal Þjóðminjasafnsins
Í erindi sínu fjallaði Ann-Cathrin Jungar um og bar saman stjórnarskrárákvæði um frumkvæði og þjóðaratkvæðagreiðslur í nokkrum Evrópulöndum.
Bruno Kaufman greindi frá reynslunni og lærdómum sem má draga af reglum um þjóðarfrumkvæði víðs vegar um Evrópu.
Fundarstjóri var Björg Thorarensen, prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands
Efling og verndun mannréttinda
Haldinn var opinn fundur um mannréttindi með mannréttindafulltrúa Sameinuðu Þjóðanna, Fr. Navanethem Pillay þann 16. júní. Fundurinn var öllum opinn og vel sóttur. Nálgast má erindi Fr. Pillay hér.
Ráðstefna um ábyrgð á efni á internetinu
Responsibility for Expression and Information on the Internet
Thursday, 19 November 2009, at the National Museum of Iceland
International conference in co-operation with the Icelandic Ministry of Justice and Human Rights, Nordic Council of Ministers, the Law Faculty and the Human Rights Institute of the University of Iceland.
Mannréttindi og lýðræði - Framlag Evrópuráðsins til lýðræðis og mannréttinda í ríkjum Evrópu
Föstudaginn 16. október í Öskju (sal 132) frá kl. 13:30 til 16:30.
Í tilefni af 60 ára afmæli Evrópuráðsins og 50 ára afmæli Mannréttindadómstóls Evrópu stóðu Alþingi, Alþjóðamálastofnun og Mannréttindastofnun Háskóla Íslands, dóms- og mannréttindaráðuneyti og utanríkisráðuneyti Íslands fyrir ráðstefnu þar sem ljósi var varpað á stöðu mannréttinda og mannréttindaverndar í Evrópu.
Mannréttindasamningar Sameinuðu þjóðanna - Áhrif þeirra, framkvæmd og tengsl við Mannréttindasáttmála Evrópu
Ráðstefna Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands og Mannréttindaskrifstofu Íslands
Norræna húsinu - Mánudaginn 2. apríl 2007 kl. 13.30
Markmið ráðstefnunnar var að fjalla um þýðingu alþjóðasamninga Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg- og stjórnmálaleg réttindi og efnahagsleg, menningarlega og félagsleg réttindi frá 1966 fyrir alþjóðlega mannréttindavernd. Eftirlitskerfi samninganna tveggja var skoðað, einkum kæruleið Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna en einnig var fjallað um kæruleið sem fyrirhugað er að koma á fót með nýjum viðauka við samninginn við efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Þá var samspil samninganna tveggja, Mannréttindasáttmála Evrópu og Mannréttindadómstóls Evrópu skoðað og túlkunaraðferðir Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og Mannréttindadómstóls Evrópu bornar saman. Áhrif samninganna á landsrétt og dómstóla á Norðurlöndum voru rædd en einnig var fjallað sérstaklega um tengsl réttinda samninganna og stjórnarskrárbundinna réttinda og hver áhrif lögfesting samninganna hefur haft í Noregi.
Jafnréttislög í 30 ár
Málþing Mannréttindastofnunar HÍ og RIKK
Föstudaginn 9. febrúar 2007 var haldið málþing í stofu 101 í Odda um Jafnréttislögin í 30 ár. Magnús Stefánsson setti málþingið; hér má nálgast ávarp hans.
Erindi fluttu:
- Brynhildur Flóvenz lektor
- Atli Gíslason lögmaður
- Björg Thorarensen prófessor.
Þáttakendur í pallborðsumræðum voru
- Elsa Þorkelsdóttir lögfræðingur
- Ólafur Stephensen blaðamaður
- Sif Konráðsdóttir lögmaður
- Sigríður Lillý Baldursdóttir sviðsstjóri þróunardeildar Tryggingarstofnunar ríkisins.
Málþingsstjóri var Kristín Ástgeirsdóttir forstöðumaður RIKK.
Nýr alþjóðasamningur um réttindi fatlaðra. Réttarbætur eða fögur fyrirheit?
Málstofa Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands
25. september 2006 í Lögbergi, stofu 101, kl. 12:15.
Á málstofunni var rætt um efni og markmið samningsins, hugsanlega aðild Íslands að honum og hvernig íslensk stjórnvöld hyggjast framfylgja skuldbindingum hans. Fjallað var um hvaða úrræði eru á alþjóðlegum vettvangi til að fylgja eftir framkvæmd samningsins. Þá var lagt mat á hvaða væntingar megi gera til þess að samningurinn feli í sér réttarbætur fyrir stöðu fatlaðra hér á landi.
Framsöguerindi:
- Brynhildur G. Flóvenz, lektor við Lagadeild HÍ
- Óskar Páll Óskarsson, lögfræðingur í félagsmálaráðuneyti
- Helgi Hjörvar, alþingismaður
Fundarstjóri: Björg Thorarensen, prófessor við Lagadeild HÍ
Mannréttindaákvæði stjórnarskrár í 10 ár: Áhrif og framtíðarsýn
Ráðstefna haldin föstudaginn 8. apríl 2005 í samvinnu Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands og Mannréttindaskrifstofu Íslands í aðalsal Öskju (N132), Náttúrufræðahúss Háskóla Íslands.
Mannréttindastofnun Háskóla Íslands og Mannréttindaskrifstofa Íslands efndu til ráðstefnu um mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar þann 8. apríl. Tilefnið var að á þessu ári eru liðin tíu ár síðan nýr og breyttur mannréttindakafli stjórnarskrárinnar tók gildi með stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995 og leysti af hólmi mannréttindaákvæði sem voru nær óbreytt frá fyrstu stjórnarskrá Íslands 1874.
Markmið ráðstefnunnar var að fjalla um áhrif hinna nýju mannréttindaákvæða á íslenskan rétt síðasta áratug, m.a. í ljósi stefnumarkandi dóma sem gengið hafa á þessu sviði. Leitað var svara við því hvort það meginmarkmið breytingarlaganna hefði náðst að efla, samhæfa og samræma mannréttindaákvæðin þannig að þau gegni betur því hlutverki sínu að vera vörn almennings í samskiptum við þá sem fara með ríkisvald eða hvort frekari breytinga sé þörf. Þá var framkvæmd nýju mannréttindaákvæðanna í íslenskum rétti borin saman við reynslu Finna af nýjum mannréttindakafla sem kom inn í finnsku stjórnarskrána árið 1995.