Header Paragraph

Evrópuráðið og Mannréttindadómstóll Evrópu – áskoranir framundan

Image
Evrópuráðið

Hádegisfundur á vegum Lagadeildar Háskóla Íslands og Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands, fimmtudaginn 9. mars kl: 11:45- 13:10 í Odda O-101.

Evrópuráðið var stofnað árið 1949 en í dag eru 46 aðildarríki að stofnuninni. Grunngildi Evrópuráðsins eru mannréttindi, lýðræði og réttarríki. Um þessar mundir sinnir Ísland formennsku Evrópuráðsins og stofnunin því í brennidepli.

Þótt 70 ára saga Evrópuráðsins sé að ýmsu leyti saga framþróunar er ljóst að á síðustu árum hefur orðið bakslag gagnvart mannréttindum, lýðræði og grunnreglum réttarríkisins. Árás Rússlands á Úkraínu minnir einnig á að stríð heyrir ekki sögunni til og gefur ástæðu til þess velta fyrir sér grundvallarþáttum á sviði alþjóðasamvinnu.

Flaggskip Evrópuráðsins er Mannréttindadómstóll Evrópu sem hefur lögsögu í málum tæplega 700 milljón ríkisborgara aðildarríkja Evrópuráðsins. Tilvist og vægi dómstólsins er afrek en hann stendur jafnframt frammi fyrir ýmsum áskorunum í flóknu umhverfi.

Á hádegisfundinum verður sjónum beint að Evrópuráðinu, enda mikilvægt að þekking og umræða um stofnunina skapist í formennskutíð Íslands og á þeim viðsjárverðu tímum sem nú ríkja, svo og að Mannréttindadómstólnum og þeim flóknu verkefnum sem bíða dómstólsins.

Dagskrá:
Kári Hólmar Ragnarsson, lektor við Lagadeild HÍ: Hvað er Evrópuráðið og hvers vegna skiptir það máli?
Oddný Mjöll Arnardóttir, verðandi dómari við Mannréttindadómstól Evrópu: Helstu áskoranir framundan í starfi Mannréttindadómstóls Evrópu
Pallborð: Björg Thorarensen, hæstaréttardómari og Svanhildur Þorvaldsdóttir, lektor við stjórnmálafræðideild HÍ

Fundarstjóri verður Trausti Fannar Valsson, forseti Lagadeildar Háskóla Íslands