Header Paragraph

Fræðirit um Mannréttindasáttmála Evrópu komið út

Image
Mannréttindasáttmáli Evrópu - bókarkápa

Fræðiritið Mannréttindasáttmáli Evrópu: Meginreglur, framkvæmd og áhrif á íslenskan rétt, 2. útgáfa er komið út. Ritstjóri er Björg Thorarensen prófessor við lagadeild Háskóla Íslands.  Í bókinni er fjallað um Mannréttindasáttmála Evrópu, réttindin sem hann verndar og dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu. Samhliða er því lýst hvernig áhrif sáttmálans birtast í íslenskum rétti og lagaframkvæmd. Auk þess er fjallað um málsmeðferð fyrir Mannréttindadómstólnum, stöðu dóma hans að íslenskum rétti og fullnustu þeirra.

Fyrsta útgáfa kom út árið 2005 en bókin hefur verið uppseld um árabil. Hefur efnið verið endurskoðað og uppfært með tilliti til nýrra viðauka við Mannréttindasáttmálann, lagaþróunar, dómaframkvæmdar, með áherslu á dóma í kærumálum gegn íslenska ríkinu, og nýjustu fræðilegu heimilda. Þá er fjallað um fjölmarga hæstaréttardóma frá síðasta áratug þar sem reynt hefur á ákvæði sáttmálans.  Bókin er 694 bls., þar er vísað til meira en 1500 dóma og úrlausna og ítarlegar skrár auðvelda uppflettingu á  dómum og efnisatriðum.

Ritið er ætlað þeim sem vinna að rannsóknum á mannréttindum svo og laganemum og öðrum sem stunda nám á þessu sviði. Ritið hefur sérstakt hagnýtt gildi fyrir starfandi lögfræðinga, einkum á sviði stjórnsýslu og í dómskerfinu.

Bókaútgáfan Codex gefur ritið út en að útgáfunni standa lagadeildir Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík. Höfundar eru sérfræðingar á sviði mannréttinda, þar á meðal eru fyrrverandi og núverandi dómari við Mannréttindadómstólinn. Í ritstjórn eru Davíð Þór Björgvinsson, Guðrún Gaukdóttir og Oddný Mjöll Arnardóttir en aðrir höfundar eru Eiríkur Tómasson, Elín Blöndal, Hjördís Björk Hákonardóttir, Kristín Benediktsdóttir, Páll Þórhallsson, Ragna Bjarnadóttir, Ragnar Aðalsteinsson, Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir, Ragnhildur Helgadóttir, Róbert R. Spanó og Þórdís Ingadóttir.

Útsölustaðir ritsins eru bóksala Úlfljóts, Lögbergi; Bóksala stúdenta, Háskólatorgi, valdar verslanir Pennans/Eymundssonar og Heimkaup.