Innrás Rússlands í Úkraínu og þjóðaréttur
Mannréttindastofnun Háskóla Íslands ásamt Lagadeild boðar til málfundar um yfirstandandi krísu frá sjónarhóli þjóðaréttar.
Fundurinn verður haldinn miðvikudaginn 23. mars klukkan 12-13 í Lögbergi 101 og verður á ensku.
Streymt verður frá fundinum og er hlekkurinn:
https://eu01web.zoom.us/j/66952631556
Hvað hefur þjóðaréttur að segja um þá stöðu sem við sjáum þróast í Úkraínu? Hvað geta alþjóðalögfræðingar gert varðandi stríðið? Færa alþjóðastofnanir fram sjónarmið eða lausnir eða geta þær tryggt að ríki eða einstaklingar beri ábyrgð? Fundurinn gefur tækifæri til þess að fjalla um sum þeirra álitaefna sem upp hafa komið og ræða möguleg næstu skref.
Ciarán Burke mun ræða krísuna út frá reglum um valdbeitingu, ius ad bellum og ius in bello, alþjóðasamskiptum og almennt út frá hinu reglubundna alþjóðakerfi, og einnig setja fram hugleiðingar um hvert sé líklegt mikilvægi þessara átaka í stærra samhengi.
Burke er prófessor og yfirrannsakandi við Jena Center for Reconciliation Studies við Friedrich Schiller University í Jena í Þýskalandi og lögfræðingur hjá Eftirlitsstofnun EFTA. Sérsvið hans eru m.a. þjóðaréttur, mannréttindi og Evrópuréttur.
Kári Hólmar Ragnarsson mun fjalla um brottvísun Rússlands úr Evrópuráðinu og þar með úr Mannréttindasáttmála Evrópu. Mun hann ræða brottvísunarferlið og setja það í samhengi við samband Rússlands við Mannréttindadómstólinn á síðari árum og niðurstöður dómstólsins í málum er varðað hafa stríðsrekstur Rússlands.
Kári Hólmar Ragnarsson er lektor við Lagadeild Háskóla Íslands og stundar kennslu og rannsóknir á sviði þjóðaréttar, mannréttinda, íslensks stjórnskipunarréttar og samanburðarstjórnskipunarréttar.
Nægur tími verður fyrir spurningar og umræður.
Fundarstjóri verður Brynhildur Flóvenz, dósent við Lagadeild Háskóla Íslands og stjórnarformaður Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands.