Header Paragraph

Mannréttindi og réttlæti á tímum loftslagsbreytinga

Image
Veröld - Hús Vigdísar

Alþjóðamálastofnun og Mannréttindastofnun Háskóla Íslands og utanríkisráðuneytið bjóða til umræðu um loftslagsbreytingar og mannréttindi í tilefni af alþjóðadegi mannréttinda, föstudaginn 10. desember í Veröld - húsi Vigdísar frá kl. 12.00 - 13:30.

Loftslagsváin er eitt stærsta og flóknasta úrlausnarefni samtímans. Áhrif loftslagsbreytinga á umhverfi okkar verða sífellt greinilegri en afleiðingar þeirra leggjast oft þyngra á heimssvæði og hópa sem þegar eru í viðkvæmri stöðu. Loftslagsbreytingar hafa neikvæð áhrif á mannréttindi, t.d. rétt til lífs, heilsu, húsnæðis, fæðis, vatns og þróunar en nýlega hefur réttur til heilnæms umhverfis verið viðurkenndur af mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna.

Margar spurningar vakna þegar fjallað er um loftslagsbreytingar frá sjónarhorni mannréttinda. Algengasta birtingarmynd mannréttinda gerir ráð fyrir að ríki séu gerð ábyrg fyrir broti á réttindum einstaklings. Loftslagsbreytingar hafa ekki aðeins áhrif á einstaklinga heldur líka komandi kynslóðir og náttúruna sjálfa. Viðbrögð við þeim kunna að fela í sér stórtækar breytingar á orku- og efnahagskerfi allra ríkja, einnig þeirra sem losað hafa lágt hlutfall gróðurhúsalofttegunda. Það reynir því á þolmörk hugmynda okkar um mannréttindi þegar rætt er um viðbrögð við loftslagsbreytingum. Margir binda þó vonir við að orðræða og stofnanaumgjörð mannréttinda geti nýst í baráttu fyrir aðgerðum í loftslagsmálum til að krefjast umbóta og tryggja að þær byrðar sem fylgja aðgerðum dreifist með réttlátum hætti.

Dagskrá:

Opnunarerindi: Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra

Aðalfyrirlesarar:

Julia Dehm, dósent við lagadeild La Trobe háskólans í Melbourne, mun fjalla um mannréttindi og vinnslu kolefniseldsneytis og nauðsyn þess að taka á undirrótum þess sem drífur loftslagsbreytingar áfram. Í rannsóknum sínum hefur Dehm meðal annars lagt áherslu á alþjóðleg og svæðisbundin áhrif loftslagsbreytinga út frá umhverfisrétti, umsjón náttúruauðlinda, mannréttindi, efnahagslegan ójöfnuð og félagslegt réttlæti.

César Rodriguez-Guarvito, prófessor í verklegri lögfræði og forstöðumaður rannsóknaseturs um mannréttindi og alþjóðlegt réttlæti við lagadeild New York háskóla (NYU) mun fjalla um uppgang nýrrar tegundar dómsmála á heimsvísu þar sem mannréttindaákvæði eru nýtt til þess að krefja ríki um aðgerðir í loftslagsmálum. Rodriguez-Guarvito er sérfræðingur á sviði mannréttinda og umhverfisréttlætis. Í störfum sínum hefur hann lagt áherslu á loftslagsbreytingar, efnahagsleg og félagsleg réttindi, tengsl viðskipta og mannréttinda, mannréttindahreyfinguna og réttindi frumbyggja.

Pallborðsumræður:

  • Aðalheiður Jóhannsdóttir, prófessor við Lagadeild HÍ og sérfræðingur í umhverfisrétti
  • Eva Bjarnadóttir, stjórnmálafræðingur
  • Hafdís Hanna Ægisdóttir, forstöðumaður Stofnunar Sæmundar Fróða og plöntuvistfræðingur
  • Halldór Þorgeirsson, formaður loftslagsráðs.

Lokaorð: Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, utanríkis - og þróunarsamvinnuráðherra

Fundarstjóri: Kári Hólmar Ragnarsson, lektor við Lagadeild Háskóla Íslands

Samkvæmt sóttvarnarreglum mega 50 manns koma í salinn en vekjum athygli á því að viðburðinum verður einnig streymt!

Nánari upplýsingar á Facebook.

Image
Alþjóðlegi mannréttindadagurinn