Mannréttindasamningar Sameinuðu þjóðanna

Image
Mannréttindasamningar Sameinuðu þjóðanna - bókarkápa

Mannréttindastofnun Háskóla Íslands og Bókaútgáfan Codex gáfu út árið 2009, ritið Mannréttindasamningar Sameinuðu þjóðanna – Meginreglur, framkvæmd og áhrif á íslenskan rétt. Utanríkisráðuneytið styrkti útgáfu ritsins. 

Alþjóðleg samvinna um vernd mannréttinda hefur vaxið ört á undanförnum áratugum og hlutverk alþjóðlegra skuldbindinga um mannréttindi í íslenskum rétti hefur að sama skapi aukist verulega. Tilefni þess að Mannréttindastofnun Háskóla Íslands ákvað að ráðast í útgáfu þessa rits var 60 ára afmæli Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna í desember 2008. Hún markaði upphaf nýrra tíma við gerð skuldbindandi milliríkjasamninga um efnið og þróun alþjóðlegra mannréttindareglna.

Markmið með því að gefa út íslenskt fræðirit um efnið er að taka sérstaklega fyrir þá mannréttindasamninga Sameinuðu þjóðanna sem Ísland er aðili að, greina helstu meginreglur þeirra og túlkun og framkvæmd nefnda sem hafa eftirlit með þeim og þó einkum að varpa ljósi á stöðu þeirra að íslenskum rétti og áhrif þeirra á lagasetningu og lagaframkvæmd. Samningarnir sem eru teknir fyrir eru Alþjóðasamningar um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi frá 1966, þá Alþjóðasamningur um afnám alls kynþáttamisréttis frá 1965, Samningur um afnám allrar mismununar gagnvart konum frá 1979, Samningur gegn pyndingum frá 1984 og loks Samningur um réttindi barnsins frá 1989. Nýjasti samningurinn um réttindi fatlaðs fólks sem var samþykktur 13. desember 2006 hefur ekki verið fullgiltur af Íslands hálfu enn sem komið er og því ekki komin reynsla á framkvæmd hans en stefnt er að því að fjalla um hann í síðari útgáfu. Höfundar efnis eru sérfræðingar á sviði mannréttinda og hafa víðtæka reynslu af störfum og rannsóknum tengdum þeim viðfangsefnum sem þeir rita um.

Þeir hafa m.a. starfað á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, við kennslu og rannsóknir í mannréttindum við innlenda og erlenda háskóla og hjá stofnunum sem annast framkvæmd mannréttindasamninga að innanlandsrétti. Höfundar eru: Björg Thorarensen, Elsa S. Þorkelsdóttir, Guðmundur Alfreðsson, Hrefna Friðriksdóttir, Jakob Þ. Möller, Kjartan Bjarni Björgvinsson, Kristín Benediktsdóttir og Róbert R. Spanó.