Mannréttindasáttmáli Evrópu

Árið 2005 gaf stofnunin út fræðiritið Mannréttindasáttmáli Evrópu – Meginreglur, framkvæmd og áhrif á íslenskan rétt í samvinnu við Háskólann í Reykjavík. Kennarar beggja háskóla birtu þar niðurstöður rannsókna sinna á Mannréttindasáttmálanum og áhrifum hans í íslensku réttarkerfi. Var þetta fyrsta heildstæða fræðiritið sem kom út á íslensku um Mannréttindasáttmála Evrópu, dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu og áhrif sáttmálans á íslenskan rétt. 

Áhrif Mannréttindasáttmála Evrópu og dóma Mannréttindadómstólsins á þróun mannréttindaverndar í Evrópu eru víðtæk og hafa leitt til grundvallarbreytinga á lögum og lagaframkvæmd í flestum aðildarríkjum hans. Aðildarríki að sáttmálanum eru nú 45 talsins og ná þau yfir landsvæði með rúmlega 800 milljón íbúum sem hafa beinan kærurétt til Mannréttindadómstólsins. Um 50 þúsund kærumál berast dómstólnum árlega en um 800 dómar eru kveðnir þar upp ár hvert auk þúsunda ákvarðana um frávísun mála. Á annað hundrað kærumál hafa borist gegn íslenska ríkinu frá árinu 1953 þegar sáttmálinn tók gildi, en aðeins lítill hluti þeirra hefur fengið efnislega meðferð. Hafa sex efnislegir dómar gengið í kærumálum gegn Íslandi, nokkrar sáttir hafa verið gerðar en öðrum málum vísað frá. 

Í bókinni er fjallað ítarlega um hvert efnisákvæði sáttmálans, inntak þess krufið og lýst stefnumarkandi niðurstöðum Mannréttindanefndar Evrópu og Mannréttindadómstóls Evrópu, um túlkun ákvæðanna og hvernig hún hefur þróast undanfarna áratugi. Fjallað er um það hvernig réttindi sáttmálans eru vernduð í íslenskum rétti, í stjórnarskrá og annarri löggjöf, hver er dómaframkvæmd íslenskra dómstóla um efnið og lýst helstu álitum umboðsmanns Alþingis sem því tengjast. Raktar eru helstu úrlausnir Mannréttinda-nefndarinnar og dómar Mannréttindadómstólsins í kærumálum gegn íslenska ríkinu og áhrif þeirra metin. Loks er fjallað um meðferð mála fyrir Mannréttindadómstólnum og skilyrði þess að kæra verði tekin þar til efnislegrar meðferðar. 

Ritstjórn útgáfunnar skipuðu Björg Thorarensen prófessor við lagadeild HÍ sem var formaður ritstjórnar, Davíð Þór Björgvinsson dómari við Mannréttindadómstól Evrópu, dr. Guðrún Gauksdóttir dósent við lagadeild HR og Hjördís Hákonardóttir dómstjóri. Auk þeirra eru höfundar efnis Eiríkur Tómasson prófessor við lagadeild HÍ, Elín Blöndal dósent við lagadeild Viðskiptaháskólans á Bifröst, dr. Oddný Mjöll Arnardóttir hdl. og prófessor við lagadeild HR, Páll Þórhallsson lögfræðingur í forsætisráðuneytinu, Ragnar Aðalsteinsson hrl., Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir sendiráðunautur, dr. Ragnhildur Helgadóttir lektor við lagadeild HR og Róbert Ragnar Spanó dósent við lagadeild HÍ.

Bókin er tileinkuð minningu Gauks Jörundssonar, dómara við Mannréttindadómstól Evrópu, umboðsmanns Alþingis og prófessors við Lagadeild Háskóla Íslands en hann var nefndarmaður í Mannréttindanefnd Evrópu frá 1974 til 1998. Hann lést haustið 2004 eftir langan og farsælan starfsferil á vettvangi mannréttinda.