Rannsókn á ríkisfangsleysi á Íslandi
Mannréttindastofnun fékk á árinu 2012 styrk frá innanríkisráðuneytinu til að vinna að rannsókn á stöðu ríkisfangslausra á Íslandi. Markmiðið var að rannsaka stöðu ríkisfangslausra einstaklinga á Íslandi, lagareglur sem gild um efnið og framkvæmd, svo og alþjóðlegar skuldbindingar um aðgerðir til að vinna gegn ríkisfangsleysi.
MHÍ fékk Hrefnu Dögg Gunnarsdóttur lögfræðing til að framkvæma rannsóknina. Skýrsla var unnin í samvinnu MHÍ við umdæmisskrifstofu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna fyrir Norður Evrópu. Mannréttindastofnun og umdæmisskrifstofa SÞ stóðu fyrir kynningarfundi á fyrstu niðurstöðum rannsóknarinnar, miðvikudaginn 9. október 2013 þar sem m.a. var lagt til að:
- Stjórnvöld fullgildi samning um stöðu fólks án ríkisfangs frá 1954 og samning um að draga úr ríkisfangsleyfi frá 1961.
- Skráning ríkisfangslausra verði samræmd.
- Lögfest verði skilgreining á hugtakinu „ríkisfangslaus einstaklingur“ í samræmi við samninginn frá 1954 og viðmið til að ákvarða hvort einstaklingur falli undir skilgreininguna.
- Lagabreytingar verði gerðar til að koma betur í veg fyrir mögulegt ríkisfangsleysi barna og til að auðvelda ríkisfangslausum að öðlast ríkisborgararétt samkvæmt umsókn.
- Frekari rannsóknir til að dýpka skilning á stöðu og aðstæðum ríkisfangslausra á Íslandi.
Umdæmisskrifstofa Flóttamannastofnunarinnar gaf út lokaskýrslu í árslok 2014. Ekki eru til áreiðanlegar tölur um fjölda ríkisfangslausra á Íslandi, þó flest bendi til þess að fjöldinn sé ekki umfangsmikill. Innanríkisráðuneytið hefur hafið vinnu í framhaldinu við landsáætlun um ríkisfangsleysi, þar sem brugðist verður við þeim ábendingum sem fram koma í skýrslunni.