Ársskýrsla Mannréttindastofnunar 2013
Ársskýrsla Mannréttindastofnunar 2013
Mannréttindastofnun Háskóla Íslands hefur ekki notið fastra fjárframlaga til reksturs undanfarinn áratug. Einu rekstrartekjur hennar frá árinu 2005 er stjórnunarálag vegna rannsóknarverkefna og annarra verkefna sem stofnunin hefur fengið styrki til að vinna auk smávægilegra fjármagnstekna af bankainnistæðu og tekna af sölu útgefinna bóka. Innanríkisráðuneytið hefur um árabil haft fjármuni til ráðstöfunar á fjárlögum til mannréttindamála. Hefur ráðuneytið auglýst styrki til umsóknar á sviði mannréttinda og hefur stofnunin sótt um til margvíslegra verkefna og árlega fengið styrki vegna 2-3 verkefna, þ.m.t. til að standa að útgáfu reifana á dómum Mannréttindadómstóls Evrópu. Í ár voru þessir styrkir ekki auglýstir til umsóknar en það leiddi til þess að tekjur stofnunarinnar drógust saman á þessu ári frá því sem verið hefur. Stjórn MHÍ leitaði eftir fjárstuðningi Lögmannafélags Íslands og Dómarafélags Íslands, sem eru stofnaðilar stofnunarinnar ásamt Háskóla Íslands, án árangurs.
Forstöðumaður Lagastofnunar Háskóla Íslands sinnir starfi forstöðumanns Mannréttindastofnunar, samkvæmt samningi Lagastofnunar og MHÍ. Forstöðumaður sinnir rúmlega eins mánaðar starfi á ári, en fjárhagur stofnunarinnar gefur ekki svigrúm til frekari starfsemi. Stofnunin ákvað í nóvember í ljósi fjárhagsaðstæðna að falla frá ákvörðun frá því fyrr á árinu, um að veita styrk til framhaldsnáms í mannréttindum. Stofnunin mun einnig verða að endurskoða stefnu sína um að styrkja þátttakendur í Norrænu málflutningskeppninni á komandi árum, helst þannig að styrkurinn verði lækkaður frekar en að hann leggist alfarið af.
Mannréttindastofnun stóð fyrir tveimur stórum ráðstefnum haustið 2012. Í október var haldið norrænt málþing um alþjóðasamninga og stjórnarskrárvernd mannréttinda og 19. október var haldin ráðstefnan Nýjar ógnir við friðhelgi einkalífs og meðferð persónuupplýsinga í samstarfi við Persónuvernd. Af þeim sökum var ákveðið að ekki yrði haldin ráðstefna árið 2013 á vegum stofnunarinnar. Fjárhagsstaða stofnunarinnar hefur leitt til þess að meiri áhersla verður lögð á endurmenntunarnámskeið og annars konar viðburði sem afla stofnuninni tekna. Stofnunin mun ekki hætta að halda fundi en stefnt er að því að halda eina ráðstefnu og 1-2 endurmenntunarnámskeið árlega auk opinna funda. Aukin áhersla verður lögð á umsóknir í rannsóknasjóði, innlenda og erlenda.
Stjórnarformaður stofnunarinnar hefur frá 2004 verið Björg Thorarensen prófessor en hún hefur alla tíð unnið mikið og óeigingjarnt starf í þágu MHÍ, sem henni eru færðar sérstakar þakkir fyrir. Seint á þessu ári tók Oddný Mjöll Arnardóttir prófessor við sem stjórnarformaður og er sýnt að stofnunin mun halda áfram að dafna undir hennar stjórn. Þá nýtur MHÍ góðs af því að Björg situr áfram í stjórn og ritstýrir reifunum dóma Mannréttindadómstóls Evrópu þó hún hafi látið af stjórnarformennsku.
Þrátt fyrir að umsvif MHÍ hafi verið ívið minni á árinu 2013 miðað við árin á undan eru þau í takt við það svigrúm sem stofnunin hefur í ljósi fjárhagsstöðu og mannafla. Staða stofnunarinnar er þrátt fyrir allt sterk og ekkert sem bendir til annars en að svo verði áfram.
Reykjavík, 11. apríl 2014
María Thejll, forstöðumaður Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands
Stjórn Mannréttindastofnunar var þannig skipuð til 28. nóvember 2013:
- Björg Thorarensen prófessor við lagadeild HÍ, formaður
- Hjördís Hákonardóttir fyrrv. hæstaréttardómari
- Róbert R. Spanó prófessor við lagadeild HÍ
- Ásgerður Ragnarsdóttir hdl. meðstjórnendur.
Á stjórnarfundi 28. nóvember tók við ný stjórn þannig skipuð:
- Oddný Mjöll Arnardóttir prófessor við lagadeild HÍ
- Björg Thorarensen
- Þorgeir Ingi Njálsson dómstjóri við héraðsdóm Reykjaness
- Ásgerður Ragnarsdóttir hdl.
Oddný Mjöll var kosin formaður stjórnar.
Varamenn í stjórn voru áfram Hilmar Magnússon hrl. og Pétur Dam Leifsson dósent við lagadeild HÍ.
Forstöðumaður í hlutastarfi var María Thejll, forstöðumaður Lagastofnunar HÍ.
Rannsókn á ríkisfangsleysi á Íslandi
Á grundvelli styrkveitingar frá innanríkisráðuneytinu árið 2012 vann Mannréttindastofnun Háskóla Íslands að rannsókn á stöðu ríkisfangslausra á Íslands. Markmið rannsóknarinnar var að rannsaka stöðu ríkisfangslausra einstaklinga á Íslandi, lagareglur sem gilda um efnið og framkvæmd, svo og alþjóðlegar skuldbindingar um aðgerðir til að vinna gegn ríkisfangsleysi. Lögð var áhersla á að kanna réttarstöðu ríkisfangslausra barna sem viðkvæms hóps og álitamál um ríkisfangsleysi sem koma upp í tengslum við stöðu hælisleitenda og meðferð hælisbeiðna.
Rannsóknin var unnin af Hrefnu Dögg Gunnarsdóttur, lögfræðingi undir leiðsögn Bjargar Thorerensen, prófessors við Háskóla Íslands og formanni stjórnar Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands og Maríu Thejll hdl. og forstöðumanni Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands. Þá var rannsóknin unnin í náinni samvinnu og samstarfi við umdæmisskrifstofu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna fyrir Norðurlöndin og Eystrasaltslöndin í Stokkhólmi, umdæmisskrifstofu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu í Brussel og deild Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um ríkisfangsleysi í höfuðstöðvum stofnunarinnar í Genf.
Fyrstu drög að skýrslu um rannsóknina lágu fyrir haustið 2013 en vonast er til að skýrslan geti orðið grundvöllur að stefnumótun og tillögugerð stjórnvalda til að efla mannréttindi á þessu sviði. Helstu niðurstöður og tillögur til úrbóta voru kynntar á fundi í Iðnó þann 9. október sama ár. Fundinn sátu Cecilie Becker-Christensen og Karolina Lindholm Billing frá umdæmisskrifstofu Flóttamannastofnunar SÞ í Stokkhólmi, en þær áttu fundi með fulltrúum Mannréttindastofnunar, innanríkisráðuneytisins og ýmsum hagsmunaaðilum til að ræða um efni skýrslunnar.
Dómareifanir Mannréttindadómstóls Evrópu
Í tímaritinu eru reifaðir valdir dómar sem taldir eru hafa sérstakt gildi fyrir túlkun ákvæða sáttmálans. Þá eru teknir með dómar sem hafa sérstaka þýðingu fyrir íslenskan rétt, einkum í málum gegn hinum Norðurlöndunum þar sem oft er til umfjöllunar löggjöf eða ákvarðanir sem eiga hliðstæðu í íslenskri réttarframkvæmd. Loks eru birtar í heild sinni í íslenskri þýðingu ákvarðanir og dómar í kærumálum gegn íslenska ríkinu.
Annað hefti ársins 2012, en þar eru reifaðir dómar uppkveðnir á tímabilinu júlí til desember 2012, kom út í apríl 2013.
Fyrsta hefti ársins 2013, með dómum frá janúar til júní 2013, kom út í október 2013.
Innanríkisráðuneytið, áður dómsmálaráðuneytið, hefur frá upphafi styrkt útgáfu dómareifananna. Frá og með árinu 2013 hefur prentun ritsins verið hætt en það eingöngu gefið út rafrænt. Lögmannafélag Íslands, Lögfræðingafélag Íslands og dómstólaráð senda út rafræna útgáfu, sem einnig birtist á heimasíðu MHÍ.
6. mars - Beint lýðræði, kostir og gallar – Opinn fundur á ensku
Frummælendur: Bruno Kaufmann forstöðumaður IRR og Jón Ólafsson prófessor á Bifröst.
Fundarstjóri: Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar
Erindi Bruno Kaufmann: People power now!?
How can the needs of a robust and stable democratic system be smartly combined with an open opportunity structure for direct citizens’ participation? What can be (and shouldn't be!) learnt from the Swiss experience? And what about the key direct democratic reforms launched by the Icelandic Constitutional Council?
Erindi Jóns Ólafssonar: Are referenda a good way of involving the public in politics?
One way to increase democratic participation is through national and local referenda on political issues. Referenda are, however, neither the only way, nor necessarily the best way, to involve the public in policy- and decision-making. Pros and cons of national referenda will be discussed and some alternative ways of public consultation
Mannréttindastofnun stóð fyrir námskeiði um kæruskilyrði og málsmeðferð fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu þann 7. nóvember, í samstarfi við Lögmannafélag Íslands. Davíð Þór Björgvinsson fyrrverandi dómari við Mannréttindadómstólinn kenndi á námskeiðinu.
Farið var yfir skipulag og störf Mannréttindadómstóls Evrópu og réttarfarsreglur sem gilda um meðferð kærumála fyrir dómstólnum. Sérstök áhersla var lögð á skilyrði sem Mannréttindasáttmáli Evrópu setur fyrir því að kæra verði tekin til efnislegrar meðferðar fyrir dómstólnum og huga þarf sérstaklega að við undirbúning kærumála. Einnig var fjallað um sáttaumleitanir og málsmeðferð varðandi efnishlið máls eftir að kæra er metin tæk til efnismeðferðar.
AHRI ráðstefna
Mannréttindastofnun er aðili að alþjóðlegum samtökum mannréttindastofnana, Association of Human Rights Institutes (AHRI), http://www.ahri-network.org/. Samtökin standa fyrir árlegum ráðstefnum, í ár var sú 14. haldin í London undir yfirskriftinni: Emerging Research in Human Rights. Björg Thorarensen og Oddný Mjöll Arnardóttir sóttu báðar ráðstefnuna. Björg skipulagði og stýrði vinnustofu undir heitinu „New Protocols and EU Accession to the European Convention on Human Rights – Impact of Current Developments on Human Rights Protection in Europe“ þar sem Oddný flutti erindi ásamt Antoine Buyse.
COST umsókn
Oddný Mjöll Arnardóttir prófessor sótti um COST styrk á árinu, um ásamt erlendum samstarfsaðilum; European human rights at the crossroads: developing an evidence-based approach to the emerging human rights architecture (HRARC). Umsóknin fékk mjög góða umsögn en styrkurinn fékkst ekki.
Fundur með framkvæmdastjóra Priloha í Slóvakíu
Í desember sátu stjórnarformaður og forstöðumaður fund með formanni Ísland Panorama Organisation, Akeem Cujo og Mariu Svidronova, háskólakennara og framkvæmdastjóra mannréttindasamtakanna Priloha í Slovakíu. Tilgangur heimsóknar Mariu til landsins var m.a. að kynna sér starfsemi mannréttindastofnana og –samtaka á Íslandi.