Ársskýrsla Mannréttindastofnunar 2014

Ársskýrsla Mannréttindastofnunar 2014

Mannréttindastofnun Háskóla Íslands hefur ekki notið fastra fjárframlaga til reksturs undanfarinn áratug. Einu rekstrartekjur hennar frá árinu 2005 er stjórnunarálag vegna rannsóknarverkefna og annarra verkefna sem stofnunin hefur fengið styrki til að vinna auk smávægilegra fjármagnstekna af bankainnistæðu og tekna af sölu útgefinna bóka. Innanríkisráðuneytið hefur um árabil haft fjármuni til ráðstöfunar á fjárlögum til mannréttindamála og auglýst styrki til umsóknar á sviði mannréttinda. Undanfarin tvö ár hafa þessir styrkir ekki verið auglýstir til umsóknar.

Stofnunin gerði samning við innanríkisráðuneytið til fimm ára um útgáfu dómareifana Mannréttindadómstóls Evrópu. Samningurinn gerir ráð fyrir að útgáfan verði eingöngu rafræn og verður birt á heimasíðu stofnunarinnar. Prentuðum reifunum var því ekki dreift með Tímariti lögfræðinga á þessu ári. Þá hefur HUDOC gert samning við stofnunina um að birta reifanirnar á sinni heimasíðu.

Forstöðumaður Lagastofnunar Háskóla Íslands sinnir starfi forstöðumanns Mannréttindastofnunar, samkvæmt samningi Lagastofnunar og MHÍ. Forstöðumaður sinnir rúmlega eins mánaðar starfi á ári, en fjárhagur stofnunarinnar gefur ekki svigrúm til frekari starfsemi.

Mannréttindastofnun stóð fyrir tveimur ráðstefnum á árinu. Í mars var haldin alþjóðleg ráðstefna á ensku þar sem fjallað var um þær hræringar í skipulagi Evrópskrar mannréttindaverndar sem birtast í Brighton yfirlýsingunni, viðaukum 15 og 16 við MSE og væntanlegri aðild Evrópusambandsins að MSE. Í október var haldin ráðstefna í samvinnu við embætti umboðsmanns Alþingis í tilefni af því að 20 ár voru liðin frá lögfestingu Mannréttindasáttmála Evrópu.

Fjárhagsstaða stofnunarinnar hefur leitt til þess að meiri áhersla verður lögð á starfsemi sem aflar stofnuninni tekna. Stefnan er áfram að halda eina ráðstefnu og 1-2 endurmenntunarnámskeið árlega auk fræðafunda í samvinnu við aðra. Aukin áhersla hefur verið lögð á umsóknir í rannsóknasjóði, innlenda og erlenda á árinu og verður svo áfram.

Reykjavík, 27. febrúar 2015

María Thejll
forstöðumaður Mannréttindastofnunar

Oddný Mjöll Arnardóttir
stjórnarformaður Mannréttindastofnunar

Mannréttindastofnun Háskóla Íslands
Lögbergi við Suðurgötu, 101 Reykjavík
Sími 525 5203 / mhi@hi.is
http://stofnanir.hi.is/mannrettindastofnun/

Mannréttindastofnun Háskóla Íslands er sjálfseignarstofnun, stofnuð 1994 af Háskóla Íslands, Dómarafélagi Íslands og Lögmannafélagi Íslands. Megintilgangur stofnunarinnar er að vinna að rannsóknum á lögfræðilegum þáttum mannréttinda, annast dreifingu á niðurstöðum þeirra og styðja við kennslu á þessu sviði.

Stjórn Mannréttindastofnunar var þannig skipuð árið 2014:

  • Oddný Mjöll Arnardóttir prófessor við Lagadeild HÍ, formaður
  • Björg Thorarensen prófessor við Lagadeild HÍ
  • Þorgeir Ingi Njálsson dómstjóri við héraðsdóm Reykjaness
  • Ásgerður Ragnarsdóttir hdl., meðstjórnendur.

Varamenn í stjórn voru

  • Hilmar Magnússon hrl.
  • Pétur Dam Leifsson dósent við Lagadeild HÍ.

Forstöðumaður í hlutastarfi var María Thejll, forstöðumaður Lagastofnunar HÍ.

Lögð voru drög að nokkrum rannsóknaverkefnum á árinu. European Human Rights Index, rannsóknaverkefni leitt af Mart Susi, prófessor við lagadeild háskólans í Tallinn, í samvinnu við lagadeild háskólans í Tampere, auk MHÍ. Mart kom á fundi til Íslands og sótti stjórnarformaður MHÍ m.a. fund í Tallinn vegna verkefnisins. Sótt var um styrk til Norrænu ráðherranefndarinnar, sem því miður hafnaði styrkveitingu. Stefnt er að því að sækja um í öðrum sjóðum til verkefnisins á árinu 2105. Umsókn um rannsóknastyrk í Nordplus netverk vegna tjáningarfrelsis; LAW MEDIA NETWORK, var einnig undirbúin á árinu í samvinnu við háskólana í Tallinn, Tampere og Lettlandi. Þá fékk pólskur laganemi styrk frá ERASMUS+ á árinu til að leggja stund á rannsóknir vorið 2015, á lagalegri stöðu innflytjenda á Íslandi og hvernig íslensk löggjöf samrýmist alþjóðlegum skuldbindingum á þessu sviði.

Dómareifanir Mannréttindadómstóls Evrópu

Stofnunin samdi við innanríkisráðuneytið á árinu um styrk til rafrænnar útgáfu á dómareifunum MDE til 5 ára. Samkvæmt fyrra samkomulagi voru reifanirnar prentaðar og þeim dreift með Tímariti lögfræðinga auk þess að birtast á heimasíðu MHÍ. Samstarf ráðuneytisins og MHÍ um verkefnið hófst árið 2005 og hefur verið óslitið síðan en aðeins verið fjármagnað til eins árs í senn. Með samningnum er komið á langtíma fyrirkomulagi sem skapar starfseminni traustan grundvöll.

Birtar eru reifanir valinna dóma Mannréttindadómstólsins sem taldir eru hafa sérstakt gildi fyrir íslenskan rétt. Einnig eru birtar í heild sinni íslenskar þýðingar á ákvörðunum og dómum í kærumálum gegn íslenska ríkinu. Þó samningurinn feli í sér að reifanirnar birtist aðeins rafrænt, er það engu að síður gleðiefni að áfram verði mögulegt fyrir íslenska lögfræðinga og aðra sem áhuga hafa á mannréttindum, að kynna sér á íslensku mikilvægustu dóma MDE. Þá er einnig mikilvægt að laganemar fái áfram tækifæri til að vinna við reifanirnar.

Samkvæmt samningnum skal MHÍ upplýsa MDE um reifanirnar og heimila birtingu þeirra á vef dómstólsins. Hefur þegar verið gengið frá samkomulagi stofnunarinnar og dómstólsins um birtingarnar.

Rafrænar reifanir má sjá á vef stofnunarinnar.

6.-7. mars - Alþjóðleg ráðstefna um Evrópska mannréttindavernd – Shifting Centres of Gravity in European Human Rights Protection

Mannréttindastofnun stóð fyrir alþjóðlegri ráðstefnu á ensku sem haldin var í Norræna húsinu. Þar var fjallað um þær hræringar í skipulagi Evrópskrar mannréttindaverndar sem birtast í Brighton yfirlýsingunni, viðaukum 15 og 16 við MSE og væntanlegri aðild Evrópusambandsins að MSE. Fjallað var um þessa þróun frá því sjónarhorni að hún kalli á gagnrýnið endurmat hefðbundinna hugmynda um samspil MSE, Evrópuréttar og landsréttar og þeim kenningum sem notast hefur verið við til að skýra það. Einnig var fjallað um þau áhrif sem þessar hræringar hafa á fórnarlömb mannréttindabrota

Ráðstefnan tókst ákaflega vel og voru erlendir gestir í meirihluta, þrjátíu af fimmtíu ráðstefnugestum. Meðal fyrirlesara voru leiðandi rannsakendur á þessu sviði en dagskrá ráðstefnunnar má sjá hér:

24. október - 20 ár frá lögfestingu Mannréttindasáttmála Íslands

Mannréttindasáttmáli Evrópu var lögfestur árið 1994 með lögum nr. 62 og því voru liðin 20 ár frá lögfestingu hans á árinu. Af því tilefni efndu Mannréttindastofnun og embætti umboðsmanns Alþingis til ráðstefnu 24. október, þar sem rætt var um ýmsa áhugaverða fleti á stöðu sáttmálans svo og áhrif lögfestingar sáttmálans á dómaframkvæmd, stjórnsýslu og störf lögmanna. Hátt í 150 manns sóttu ráðstefnuna sem haldin var í Öskju. Dagskránna má sjá hér.

AHRI ráðstefna 2015

Mannréttindastofnun er aðili að alþjóðlegum samtökum mannréttindastofnana, Association of Human Rights Institutes (AHRI), http://www.ahri-network.org/. Samtökin standa fyrir árlegum ráðstefnum, í ár var sú 15. haldin í Kaupmannahöfn, dagana 29.-30. september undir yfirskriftinni: Human Rights under Pressure: Exploring norms, institutions and policies. Oddný Mjöll Arnardóttir sótti ráðstefnuna f.h. MHÍ.