Ársskýrsla Mannréttindastofnunar 2016

Ársskýrsla Mannréttindastofnunar 2016

Eins og undanfarin ár hefur Mannréttindastofnun Háskóla Íslands (MHÍ) verið rekin einöngu fyrir sjálfsaflafé,og byggjast rekstrartekjur stofnunarinnar á stjórnunarálagi vegna þeirra verkefna sem hún tekur að sér. Síðustu þrjú ár hefur verið tap af reglulegum rekstri stofnunarinnar, meðal annars vegna þess að innanríkisráðuneytið hefur hætt að auglýsa styrki til verkefna á sviði mannréttindamála. Árið 2016 tókst þó að snúa þessari þróun við og var árið gert upp með nokkrum hagnaði.

Samkvæmt samningi Lagastofnunar Háskóla Íslands og MHÍ hefur forstöðumaður Lagastofnunar sinnt starfi forstöðumanns Mannréttindastofnunar í fimm vikur á ári. Í árslok 2016 hvarf María Thejll forstöðumaður til annarra starfa og eru henni þökkuð vel unnin störf í þágu stofnunarinnar.

Mannréttindastofnun stóð fyrir málþingi í samvinnu við Persónuvernd á evrópska persónuverndardaginn þann 28. janúar, en þar var fjallað um persónuupplýsingar hjá fyrirtækjum og stofnunum. Dagana 11. og 12. apríl var haldinn fundur í netverkinu Nordplus Law and Media Network, sem Mannréttindastofnun er aðili að. Þann 27. apríl stóð stofnunin fyrir fundi á ensku í samvinnu við Íslenska erfðagreiningu og Fulbright stofnunina undir yfirskriftinni Erfðatækni og mannréttindi. Tveir fundir voru haldnir á árinu í samvinnu við utanríkisráðuneytið. Mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins, Nils Muižnieks, flutti erindið Current Challenges to Human Rights in Europe þann 10. júní og framkvæmdastjóri Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, Michael Georg Link, flutti erindið Human Rights and Security þann 20. júní. Mannréttindastofnun stóð auk þess fyrir opnum fundi þann 16. september undir yfirskriftinni Er Mannréttindadómstóll Evrópu að draga úr valdi sínu? Þróun nálægðarreglu og svigrúms til mats í dómaframkvæmd MDE. Framsögumenn voru Róbert R. Spanó, dómari við Mannréttindadómstól Evrópu og Oddný Mjöll Arnardóttir, prófessor við Lagadeild HÍ og stjórnarformaður MHÍ.

Ritið Shifting Centres of Gravity in Human Rights Protection: Rethinking Relations between the ECHR, EU and National Legal Orders, kom út á árinu. Útgefandi er Routledge, en ritstjórar eru Oddný Mjöll Arnardóttir, stjórnarformaður MHÍ og prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands og Antoine Buyse, prófessor við lagadeild háskólans í Utrecht. Ritið er afrasktur ráðstefnu sem MHÍ stóð fyrir á árinu 2014.

Á árinu var gengið frá fjármögnun og hafist handa við endurútgáfu ritsins Mannréttindasáttmáli Evrópu – Meginreglur, framkvæmd og áhrif á íslenskan rétt. Stefnt er að því að útgáfa verði á haustmisseri 2017.

Hafinn var undirbúningur ráðstefnunnar Nordic Asylum Law Seminar, sem stofnunin hyggst halda í samvinnu við Nordic Institute for Migration and Refugee Policy (NIM) dagana 29.-30. maí 2017. Yfirskrift ráðstefnunnar verður Migration management and human rights – Refugee protection in crisis.

Haldið var eitt námskeið á vegum stofnunarinnar á árinu þar sem Róbert R. Spanó, dómari við Mannréttindadómstól Evrópu fjallaði um réttarfar í sakamálum í ljósi 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.

Reykjavík, 21. apríl 2017
Oddný Mjöll Arnardóttir
Stjórnarformaður Mannréttindastofnunar

Mannréttindastofnun Háskóla Íslands
Lögbergi við Suðurgötu, 101 Reykjavík
Sími 525 5203 / mhi@hi.is
http://stofnanir.hi.is/mannrettindastofnun/

Mannréttindastofnun Háskóla Íslands er sjálfseignarstofnun, stofnuð 1994 af Háskóla Íslands, Dómarafélagi Íslands og Lögmannafélagi Íslands.

Megintilgangur stofnunarinnar er að vinna að rannsóknum á lögfræðilegum þáttum mannréttinda, annast dreifingu á niðurstöðum þeirra og styðja við kennslu á þessu sviði.

Stjórn Mannréttindastofnunar var þannig skipuð árið 2016:

 • Oddný Mjöll Arnardóttir prófessor við Lagadeild HÍ, formaður
 • Björg Thorarensen prófessor við Lagadeild HÍ
 • Þorgeir Ingi Njálsson dómstjóri við héraðsdóm Reykjaness
 • Ásgerður Ragnarsdóttir hdl., meðstjórnendur.

Varamenn í stjórn voru

 • Hilmar Magnússon hrl.
 • Pétur Dam Leifsson dósent við Lagadeild HÍ.

Forstöðumaður í hlutastarfi var María Thejll, forstöðumaður Lagastofnunar HÍ.

Nordplus Law and Media Network

Árið 2015 fékkst netverksstyrkur í samvinnu Mannréttindastofnunar HÍ við háskólana í Tallinn, Tampere og Lettlandi. Dagana 11. og 12. apríl var haldinn fundur á vegum stofnunarinnar í netverkinu og leiðir Eiríkur Jónsson prófessor við Lagadeild HÍ teymi íslensku þátttakendanna. Þátttakendur voru um tuttugu frá samstarfsháskólunum auk Danmörku, Svíþjóð og Litháen. Á fundinum var m.a. fjallað um friðhelgi einkalífs og ærumeiðingar í fjölmiðlum, reglur um skaðabótaábyrgð o.fl.

Dómareifanir Mannréttindadómstóls Evrópu

Að vanda eru reifanir valinna dóma Mannréttindadómstólsins sem taldir eru hafa sérstakt gildi fyrir íslenskan rétt birtar á heimasíðu stofnunarinnar. Einnig eru birtar í heild sinni íslenskar þýðingar á ákvörðunum og dómum í kærumálum gegn íslenska ríkinu. Þó samningur við Innanríkisráðuneytið kveði aðeins á um birtingu dómareifana á heimasíðu stofnunarinnar í stað prentaðra hefta sem dreift var til allra áskrifenda Tímarits lögfræðinga, er það engu að síður gleðiefni að áfram verði mögulegt fyrir íslenska lögfræðinga og aðra sem áhuga hafa á mannréttindum að kynna sér á íslensku mikilvægustu dóma MDE. Þá er einnig mikilvægt að laganemar fái tækifæri til að vinna við reifanirnar.

Endurútgáfa ritsins Mannréttindasáttmáli Evrópu – Meginreglur, framkvæmd og áhrif á íslenskan rétt

Á árinu var hafist handa við endurútgáfu ritsins þar sem fjármögnun útgáfunnar hafði verið tryggð. Dómaframkvæmd Mannréttindadómstólsins hefur þróast og breyst mikið á þeim 11 árum sem liðin eru frá útgáfunni og mikilvægir viðaukar hafa auk þess verið samþykktir við mannréttindasáttmálann. Áfram er samvinna um útgáfuna við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Stefnt er að útgáfu haustið 2017.

Nýtt rit um evrópska mannréttindavernd

Á árinu kom út ritið Shifting Centres of Gravity in Human Rights Protection: Rethinking Relations between the ECHR, EU and National Legal Orders. Útgefandi er Routledge, en ritstjórar eru Oddný Mjöll Arnardóttir, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og Antoine Buyse, prófessor við lagadeild háskólans í Utrecht.

Um er að ræða greinasafn þar sem 13 evrópskir fræðimenn fjalla um þá togstreitu yfir þyngdarpunkti evrópskrar mannréttindaverndar sem raungerst hefur á síðustu árum í tengslum við endurskoðun á framtíðarhlutverki Mannréttindadómstóls Evrópu og hugsanlega aðild Evrópusambandsins að Mannréttindasáttmála Evrópu. Fyrri hluti bókarinnar fjallar um innbyrðis samband Mannréttindadómstólsins, Evrópudómstólsins og innlendra dómstóla frá stjórnskipulegu sjónarhorni. Síðari hluti bókarinnar rýnir síðan hefðbundnar kenningar og greiningaraðferðir og spyr hvort þær gagnist nægilega vel því flókna þríhliða sambandi sem einkennir nú evrópska mannréttindavernd. Meðal höfunda efnis eru Björg Thorarensen, Davíð Þór Björgvinsson, Dóra Guðmundsdóttir og Gunnar Þór Pétursson. Ritið er afrakstur ráðstefnu sem haldin var á vegum MHÍ vorið 2014.

Persónuupplýsingar hjá fyrirtækjum og stofnunum

Á evrópska persónuverndardaginn, þann 28. janúar, var haldið málþing í samvinnu við Persónuvernd. Umfangsmikil söfnun og skráning persónuupplýsinga fer fram hjá stofnunum hins opinbera, fyrirtækjum á almennum markaði, verslunum, þjónustuaðilum og fleirum. Slík skráning getur verið nauðsynleg fyrir einstaklinga, en hún getur einnig farið fram án vitundar þeirra og vilja. Með aukinni skráningu persónuupplýsinga eykst hættan á því að misfarið sé með þessar upplýsingar. Á málþinginu var fjallað um hvort regluverk hér á landi sé nægilega skýrt, hvað megi og hvað beri að varast, og um þýðingu nýlegra dómsúrlausna Mannréttindadómstóls Evrópu og dómstóls ESB.

Dagskrá var sem hér segir:

 • Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytis opnaði málþingið.
 • Alma Tryggvadóttir, skrifstofustjóri upplýsingaöryggis hjá Persónuvernd flutti erindið „Grundvallarreglur um meðferð persónuupplýsinga hjá fyrirtækjum og stofnunum. Einnig verður kynnt ný Evrópulöggjöf um Persónuvernd. Aukin vernd einstaklingsins og réttur til að ráðstafa eigin persónuupplýsingum.“
 • Í pallborði sátu:
  • Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu
  • Björg Thorarensen, stjórnarformaður Persónuverndar
  • Helgi Hrafn Gunnarsson, alþingismaður
  • Katrín Jakobsdóttir, alþingismaður
  • Ragnhildur Arnljótsdóttir ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis.
 • Fundarstjóri: Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar.

Erfðatækni og mannréttindi – Genetic engeneering and Human Rights

Opinn fundur 27. apríl í fyrirlestrarsal Íslenskrar erfðagreiningar, Sturlugötu 8, á vegum Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands og Íslenskrar erfðagreiningar með stuðningi Fulbright stofnunarinnar á Íslandi. Framsögumenn voru:

 • Dr. Benjamin Gregg, prófessor við Texasháskóla, Austin
  How human genetic engineering challenges human rights: Issues and answers
 • Dr. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar
  How human genetics could improve health care

Current Challenges to Human Rights in Europe

Mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins, Nils Muižnieks, flutti erindi föstudaginn 10. júní í Norræna húsinu. Fundurinn var haldinn af utanríkisráðuneyti í samvinnu við Mannréttindastofnun HÍ, um áhrif átaka og hryðjuverka á virðingu fyrir mannréttindum.

Human Rights and Security

Mánudaginn 20. júní efndi utanríkisráðuneytið í samvinnu við Mannréttindastofnun Háskóla Íslands, til fundar með framkvæmdastjóra Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, Michael Georg Link. Viðfangsefni fundarins var mannréttindi og öryggismál.

Er Mannréttindadómstóll Evrópu að draga úr valdi sínu? Þróun nálægðarreglu og svigrúms til mats í dómaframkvæmd MDE

Stofnunin stóð fyrir opnum fundi föstudaginn 16. september en framsögumenn voru Róbert R. Spanó, dómari við Mannréttindadómstól Evrópu og Oddný Mjöll Arnardóttir, prófessor við Lagadeild HÍ og stjórnarformaður MHÍ.

Róbert fjallaði um þróun nálægðarreglunnar (e. the principle of subsidiarity) í nýlegri dómaframkvæmd MDE og ólíkar birtingarmyndir reglunnar út frá sjónarhóli starfandi dómara við dómstóllinn. Hann velti fyrir sér hvort það viðhorf sé á undanhaldi að MDE skuli vera í framvarðarhlutverki við vernd mannréttinda og því sé nú frekar lögð á það áhersla að dómstólnum beri að þróa dómaframkvæmd sína í ríkari mæli í þá átt að virkja frumábyrgð aðildarríkjanna við að tryggja mannréttindi.

Oddný Mjöll greindi frá rannsóknum sínum á kenningunni um svigrúm til mats. Hún lagði áherslu á að skýra tvær megin birtingarmyndir hennar og hvernig nýleg dómaframkvæmd birtir nokkuð breytta sýn dómstólsins á hlutverk sitt.

Réttarfar í sakamálum í ljósi 6. gr. Mannréttindasáttmálans

Þann 16. september stóð Mannréttindastofnun fyrir námskeiðinu Réttarfar í sakamálum í ljósi 6. gr. Mannréttindasáttmálans með Róbert R. Spanó, dómara við Mannréttindadómstól Evrópu.

Farið var yfir helstu meginþætti dómaframkvæmdar MDE um 6. gr. MSE í sakamálum og gildissvið reglunnar útskýrt. Þá var fjallað um meginregluna um réttláta málsmeðferð samkvæmt 1. mgr. 6. gr. og samspil hennar við lágmarksréttindi þau sem mælt er fyrir um í 3. mgr. Sérstaklega var vikið að meginreglunni um jafnræði málsaðila og um rétt til aðgangs að gögnum.

Gerð var grein fyrir meginreglu 2. mgr. 6. gr. um að hver maður skuli talinn saklaus uns sekt hans er sönnuð að lögum og nánar fjallað um einstakar efnisreglur 3. mgr. 6. gr. Loks var gerð grein fyrir almennum starfsaðferðum dómstólsins og farvegi kærumála þegar þau berast dómstólnum, þ.e. einkum mati á hvort máli skuli vísað frá, það sent aðildarríki til athugasemda og um efnismeðferð mála.