Mannréttindastofnun - starfsemi 1998-2004

Yfirlit yfir starfsemi á vegum stofnunarinnar 1998-2004

Þann 20. október 1998 hélt Þór Vilhjálmsson, fyrrverandi dómari við Mannréttindadómstól Evrópu og þáverandi forseti EFTA dómstólsins, fyrirlestur um nýskipan Mannréttindadómstóls Evrópu.

Stofnunin stóð fyrir hátíðardagskrá í desember 1998 ásamt Mannréttindaskrifstofu Íslands o.fl., undir yfirskriftinni „Öll mannréttindi til handa öllum“. Dagskráin var sett saman í tilefni af 50 ára afmæli Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna.

Dagana 24.-25 september 1999 stóð stofnunin, ásamt verkefnahópi undir stjórn Stefáns Más Stefánssonar prófessors, fyrir málþingi undir yfirskriftinni „The Equality Principle with Reference to Human Rights“. Þar fluttu Dóra Guðmundsdóttir, Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir, Margrét Vala Kristjánsdóttir og Guðrún Gauksdóttir, auk fræðimanna frá Norðurlöndum, erindi byggð á fræðilegum ritgerðum um jafnrétti, sem þær unnu á vegum MHÍ og voru kostaðar af stofnuninni. Rannsóknin var gerð í samvinnu við aðra fræðimenn á Norðurlöndum og styrkt af Norrænu ráðherranefndinni.

Stofnunin styrkti ritun bókar um stjórnarskrár Norðurlanda, Bandaríkjanna og Þýskalands en verkið var unnið í samvinnu nokkurra innlendra og erlendra aðila í ritstjórn Ágústs Þórs Árnasonar.

Hjördís Hákonardóttir héraðsdómari fékk styrk árið 2000 til að vinna að verkefninu „Rétturinn til lífs“. Spurt er þeirrar spurningar hvort jafnrétti skipti máli, af eða á, þegar grundvallarrétturinn til lífs er skilgreindur.

Á árinu 2001 fékk Oddný Mjöll Arnardóttir lögfræðingur styrk til að ljúka við doktorsritgerð sína við háskólann í Edinborg.

Haldið var málþing á vegum stofnunarinnar haustið 2003 í samvinnu við Lögfræðingafélag Íslands um Mannréttindasáttmála Evrópu og áhrif hans á Íslandi. Tilefnið var að 50 ár voru þá liðin frá fullgildingu sáttmálans af hálfu Íslands. Ræðumenn voru bæði innlendir og erlendir fræðimenn, m.a. Luzius Wildhaber forseti Mannréttindadómstóls Evrópu.

Mannréttindastofnun HÍ gaf út í samvinnu við Háskólaútgáfuna ritið „Alþjóðlegir mannréttindasamningar“ haustið 2003 í ritstjórn Bjargar Thorarensen prófessors. Markmið með útgáfu ritsins var að gera aðgengilega á einum stað helstu alþjóðlegu mannréttindasamninga sem Ísland er aðili að.

MHÍ auglýsti eftir umsóknum um styrk vorið 2003 til að semja fræðilega ritgerð á sviði mannréttinda sem miðað er við að verði birt í viðurkenndu alþjóðlegu tímariti á sviði mannréttinda. Fjórar umsóknir bárust en Þórdís Ingadóttir lögfræðingur LL.M. hlaut styrkinn vegna verkefnisins „Election of Judges and Others in Position of Authority in the International Justice Bodies“, til birtingar í tímaritinu „Women and International Human Rights“.

Brynhildur Flóvenz, formaður stjórnar Mannréttindaskrifstofu Íslands fékk styrk sumarið 2004, til útgáfu bókar um réttarstöðu fatlaðra.

Stjórn MHÍ hóf á árinu 2004 að vinna að útgáfu rits um Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) í samvinnu við Háskólann í Reykjavík og áætlað að bókin komi út vorið 2005. Ritið verður u.þ.b. 600 bls. og munu 12 fræðimenn rita samtals 18 kafla. Markmiðið er að setja saman almennt lögfræðilegt rit um Mannréttindasáttmálann, lýsa efnisréttindum sem hann verndar og hvernig verndin birtist í framkvæmd Mannréttindadómstólsins (MDE). Samhliða þessu verði lýst hvernig áhrif MSE birtist í íslenskum rétti, vísað til stjórnarskrárákvæða og annarrar íslenskrar löggjafar þar sem það á við og lýst ákvörðunum og dómum MDE í íslenskum málum. Einnig verða kaflar sem fjalla um túlkunaraðferðir MDE við úrlausn mála og einnig lýst reglum um meðferð kærumála fyrir dómstólnum. Sérstök ritstjórn var sett á fót til að undirbúa verkið en í henni sátu: Björg Thorarensen, Guðrún Gauksdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Davíð Þór Björgvinsson.

Sumarið 2004 gerði stjórn MHÍ þjónustusamning við Lagastofnun HÍ um að annast framkvæmdastjórn fyrir MHÍ. Gegnir María Thejll lögfræðingur starfi framkvæmdastjóra MHÍ, samhliða framkvæmdastjórn fyrir Lagastofnun. Með því að hafa fastan starfsmann sem sinnir verkefnum stofnunarinnar hefur starfseminni verið komið á varanlegri grundvöll. Jafnframt er stofnað til fasts rekstrarkostnaðar, sem þó er haldið í lágmarki vegna samnýtingar við aðstöðu Lagastofnunar.

Föst framlög ríkisins samkvæmt samningi við Mannréttindastofnun Íslands féllu niður á árinu vegna uppsagnar MRSÍ á samningnum. Kom það í ljós í lok ársins við meðferð fjárlaganefndar Alþingis á þeim fjármunum sem hafði verið veitt til mannréttinda í gegnum áðurgreindan samning. Niðurstaða fjárlaganefndar var að utanríkisráðuneyti og dómsmálaráðuneyti fengu 4 milljónir hvort ráðuneyti til ráðstöfunar til mannréttindamála og skyldi þeim úthlutað samkvæmt umsóknum til mannréttindaverkefna skv. ákvörðun ráðuneytanna.