Mannréttindastofnun - starfsemi 2007

Starfsemi 2007

Mannréttindastofnun Háskóla Íslands er sjálfseignarstofnun, stofnuð af Háskóla Íslands, Lögmannafélagi Íslands og Dómarafélagi Íslands, 14. apríl 1994.  Aðsetur stofnunarinnar er í Lögbergi við Suðurgötu.

Stjórn Lagastofnunar var þannig skipuð árið 2007:

  • Björg Thorarensen prófessor við lagadeild HÍ, formaður
  • Hjördís Hákonardóttir hæstaréttardómari
  • Róbert R. Spanó prófessor við lagadeild HÍ
  • Hrefna Friðriksdóttir hdl. meðstjórnendur.

Varamenn í stjórn voru

  • Hilmar Magnússon hrl.
  • Pétur Leifsson lektor við lagadeild HÍ.

Framkvæmdastjóri var María Thejll hdl.

Dómareifanir Mannréttindadómsóls Evrópu

Mannréttindastofnun Háskóla Íslands hóf útgáfu tímarits með dómareifunum Mannréttindadómstóls Evrópu á íslensku árið 2005 en tímaritið kemur út tvisvar á ári. Dómsmálaráðuneytið styrkir útgáfuna en sérstök ritstjórn hefur umsjón með henni. Ritstjóri tímaritsins er Björg Thorarensen prófessor við lagadeild Háskóla Íslands en í ritnefnd sitja dr. Oddný Mjöll Arnardóttir prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík og Skúli Magnússon héraðsdómari og dósent við lagadeild Háskóla Íslands.

Í tímaritinu eru reifaðir valdir dómar sem taldir eru hafa sérstakt gildi fyrir túlkun ákvæða sáttmálans. Þá eru teknir með dómar sem hafa sérstaka þýðingu fyrir íslenskan rétt, einkum í málum gegn hinum Norðurlöndunum þar sem oft er til umfjöllunar löggjöf eða ákvarðanir sem eiga hliðstæðu í íslenskri réttarframkvæmd. Loks eru birtar í heild sinni í íslenskri þýðingu ákvarðanir og dómar í kærumálum gegn íslenska ríkinu sem fram til þessa hafa aðeins verið birtir á heimasíðu dómsmálaráðuneytisins.

Annað hefti ársins 2006 en þar eru reifaðir dómar uppkveðnir á tímabilinu júlí til desember 2006, kom út í mars 2007. Fyrsta hefti ársins 2007, með dómum frá janúar til júní 2007, kom út í október 2007.

Fræðirit um mannréttindasamninga Sameinuðu þjóðanna

Utanríkisráðuneytið veitti stofnuninni styrk á árinu til að gefa út fræðirit um mannréttindasamninga Sameinuðu þjóðanna og áhrif þeirra á íslenskan rétt. Átta fræðimenn skrifa kafla í bókinni sem áætlað er að kom út í árslok 2008. Þeir eru Björg Thorarensen, Róbert R. Spanó, Jakob Möller, Guðmundur Alfreðsson, Kristín Benediktsdóttir, Elsa Þorkelsdóttir, Hrefna Friðriksdóttir og Kjartan Bjarni Björgvinsson.

Mannréttindastofnun og Mannréttindaskrifstofa Íslands efndu til málstofu 2. apríl 2007 undir yfirskriftinni: Mannréttindasamningar Sameinuðu þjóðanna. Áhrif þeirra, framkvæmd og tengsl við Mannréttindasáttmála Evrópu.

Erindi fluttu

  • Francoise Hampson prófessor við lagadeild Essexháskóla
  • Elisabeth Palm fyrrum dómari við Mannréttindadómstól Evrópu
  • Eivind Smith prófessor við lagadeild Oslóarháskóla
  • Björg Thorarensen prófessor við lagadeild Háskóla Íslands

Brynhildur G. Flóvenz, lektor við lagadeild HÍ, var fundarstjóri.

Sjá má nánari upplýsingar á veffangi Mannréttindastofnunar: www.mhi.hi.is.