Mannréttindastofnun - starfsemi 2009

Starfsemi 2009

Mannréttindastofnun Háskóla Íslands er sjálfseignarstofnun, stofnuð af Háskóla Íslands, Lögmannafélagi Íslands og Dómarafélagi Íslands, 14. apríl 1994. Aðsetur stofnunarinnar er í Lögbergi við Suðurgötu.

Stjórn Mannréttindastofnunar var þannig skipuð árið 2009:

 • Björg Thorarensen prófessor við lagadeild HÍ, formaður
 • Hjördís Hákonardóttir hæstaréttardómari
 • Róbert R. Spanó prófessor við lagadeild HÍ
 • Ásgerður Ragnarsdóttir hdl. meðstjórnendur.

Varamenn í stjórn voru

 • Hilmar Magnússon hrl.
 • Pétur Leifsson lektor við lagadeild HÍ.

Framkvæmdastjóri í hlutastarfi var María Thejll hdl.

Réttarstaða útlendinga

Mannréttindastofnun fékk styrk 2008 frá dómsmálaráðuneytinu til að vinna að rannsókn um réttarstöðu útlendinga. Um er að ræða lögfræðilega rannsókn á réttarstöðunni að undanskilinni réttarstöðu flóttamanna. Áhersla er lögð á að kanna þær skyldur sem fullgiltir þjóðréttarsamningar leggja á íslensk stjórnvöld og eftir atvikum einstaklinga og félagasamtök. Dóra Guðmundsdóttir LL.M. stjórnaði verkefninu f.h. MHÍ og með henni störfuðu tveir laganemar að rannsókninni sumarið 2008. Rannsókninni lauk á árinu 2009 og hafa rannsóknarniðurstöður verið birtar í heild sinni á heimasíðu stofnunarinnar. Um tilraunaverkefni er að ræða varðandi birtingu og uppsetningu en ákveðið var að birta niðurstöðurnar á heimasíðunni með tengingu í alla dóma, úrskurði og heimasíður, í stað þess að gefa niðurstöðurnar út í hefðbundnu prentuðu formi.

Rannsókn á álitum mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna

Í október 2007 tilkynnti mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna um álit sitt í kærumáli tveggja sjómanna gegn íslenska ríkinu þar sem 12 nefndarmenn af 18 töldu lögin um stjórn fiskveiða brjóta í bága við jafnræðisreglu 26. gr. Alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg Álitið vakti miklar umræður, m.a. um þjóðréttarlegt gildi þess og hvernig bæri að bregðast við því. Mannréttindastofnun fékk styrk dómsmálaráðuneytis til að skoða álit Mannréttindanefndarinnar, flokka þau eftir álitaefnum og greina hvaða réttaráhrif þau hafa. Tveir laganemar unnu að rannsókninni á árinu 2008. Rannsókninni lauk á þessu ári og birtust niðurstöður hennar á heimasíðu stofnunarinnar. Björg Thorarensen prófessor stjórnaði rannsókninni.

Evrópuráðsskýrsla um lagaleg stöðu gagnkynhneigðra á Íslandi og mismunun á grundvelli kynhneigðar

Að beiðni Mannréttindastofnunar Danmerkur í nóvember 2009 tók stofnunin að sér að gera skýrslu um stöðu mála á Íslandi sem skyldi vera lokið í janúar 2010. Stofnunin fól Dóru Guðmundsdóttur LL.M. og aðjúnkt við Lagadeild að vinna skýrsluna.

Fræðirit um mannréttindasamninga Sameinuðu þjóðanna

Stofnunin gaf úr ritið Mannréttindasamningar Sameinuðu þjóðanna – Meginreglur, framkvæmd og áhrif á íslenskan rétt, 421 bls. í árslok 2009. Utanríkisráðuneytið veitti stofnuninni styrk til útgáfunnar. Markmið með því að gefa út íslenskt fræðirit um efnið er að taka sérstaklega fyrir þá mannréttindasamninga Sameinuðu þjóðanna sem Ísland er aðili að, greina helstu meginreglur þeirra og túlkun og framkvæmd nefnda sem hafa eftirlit með þeim og þó einkum að varpa ljósi á stöðu þeirra að íslenskum rétti og áhrif þeirra á lagasetningu og lagaframkvæmd. Samningarnir sem eru teknir fyrir eru Alþjóðasamningar um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi frá 1966, þá Alþjóðasamningur um afnám alls kynþáttamisréttis frá 1965, Samningur um afnám allrar mismununar gagnvart konum frá 1979, Samningur gegn pyndingum frá 1984 og loks Samningur um réttindi barnsins frá 1989. Nýjasti samningurinn um réttindi fatlaðs fólks sem var samþykktur 13. desember 2006 hefur ekki verið fullgiltur af Íslands hálfu enn sem komið er og því ekki komin reynsla á framkvæmd hans en stefnt er að því að fjalla um hann í síðari útgáfu.

Átta fræðimenn skrifa kafla í bókinni. Þeir eru Björg Thorarensen, Elsa S. Þorkelsdóttir, Guðmundur Alfreðsson, Hrefna Friðriksdóttir, Jakob Möller, Kjartan Bjarni Björgvinsson, Kristín Benediktsdóttir og Róbert R. Spanó.

Dómareifanir Mannréttindadómsóls Evrópu

Mannréttindastofnun Háskóla Íslands hóf útgáfu tímarits með dómareifunum Mannréttindadómstóls Evrópu á íslensku árið 2005 en tímaritið kemur út tvisvar á ári. Dómsmálaráðuneytið styrkir útgáfuna en sérstök ritstjórn hefur umsjón með henni. Ritstjóri tímaritsins er Björg Thorarensen prófessor við lagadeild Háskóla Íslands en í ritnefnd sitja Hrafn Bragason fyrrverandi hæstaréttardómari og Arnar Þór Jónsson hdl.

Í tímaritinu eru reifaðir valdir dómar sem taldir eru hafa sérstakt gildi fyrir túlkun ákvæða sáttmálans. Þá eru teknir með dómar sem hafa sérstaka þýðingu fyrir íslenskan rétt, einkum í málum gegn hinum Norðurlöndunum þar sem oft er til umfjöllunar löggjöf eða ákvarðanir sem eiga hliðstæðu í íslenskri réttarframkvæmd. Loks eru birtar í heild sinni í íslenskri þýðingu ákvarðanir og dómar í kærumálum gegn íslenska ríkinu sem fram til þessa hafa aðeins verið birtir á heimasíðu dómsmálaráðuneytisins.

Annað hefti ársins 2008 en þar eru reifaðir dómar uppkveðnir á tímabilinu júlí til desember 2008, kom út í apríl 2009. Fyrsta hefti ársins 2009, með dómum frá janúar til júní 2009, kom út í október 2009.

Mannréttindi og lýðræði - Framlag Evrópuráðsins til lýðræðis og mannréttinda í ríkjum Evrópu

Í tilefni af 60 ára afmæli Evrópuráðsins og 50 ára afmæli Mannréttindadómstóls Evrópu héldu Alþingi, Alþjóðamálastofnun og Mannréttindastofnun Háskóla Íslands, dómsmála- og mannréttindaráðuneyti og utanríkisráðuneyti Íslands sameiginlega ráðstefnu þann 16. október 2009. Þar var varpað ljósi á stöðu mannréttinda, lýðræðis og þróun réttarríkisins í Evrópu og leiðandi hlutverk Evrópuráðsins á því sviði. Björg Thorarensen prófessor og forseti Lagadeildar HÍ var ráðstefnustjóri og frummælendur voru:

 • Lilja Mósesdóttir, formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins - Hlutverk Evrópuráðsþingsins á sviði mannréttinda: Frá orðum til athafna
 • Hörður H. Bjarnason, sendiherra - Hlutverk ráðherranefndar Evrópuráðsins
 • Davíð Þór Björgvinsson, dómari Íslands við Mannréttindadómstól Evrópu – Vandi Mannréttinda-dómstóls Evrópu: Fórnarlamb eigin velgengni
 • Pétur Hauksson, fulltrúi Íslands í nefndinni og annar varaforseti - CPT - Nefnd um varnir gegn pyndingum. Er þörf á eftirliti hér?
 • Baldur Kristjánsson, B.A. Soc, Th. M., fulltrúi Íslands í sérfræðinganefnd Evrópuráðsins - Baráttan gegn kynþáttamisrétti!
 • Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu - Framlag Íslands í réttindamálum barna
 • Hjörtur Torfason, fulltrúi Íslands í Feneyjarnefndinni - Að byggja lönd með lögum

Ábyrgð á efni á Internetinu

Þann 19. nóvember 2009 stóð Mannréttindastofnun að alþjóðlegri ráðstefnu á ensku um ábyrgð á efni á Internetinu í samstarfi við dómsmála- og mannréttindaráðuneyti og Lagadeild HÍ með styrk frá Norræna ráðherraráðinu. Björg Thorarensen prófessor var ráðstefnustjóri og Þórunn Hafstein settur ráðuneytisstjóri í dóms- og mannréttindaráðuneyti ávarpaði ráðstefnugesti. Fjórir erlendir fræðimenn og tveir íslenskir ásamt verkefnisstjóra hjá Morgunblaðinu héldu erindi:

 • Prof. Emeritus Dr. Henrik W.K. Kaspersen, ráðgjafi Evrópuráðsins og hollenska dómsmálaráðuneytis varðandi netglæpi – Fighting Cybercrime: Meaning of the Council of Europe Cybercrime Convention 2001.
 • Ph.D. Jukka Viljanen, dósent í mannréttindum við háskólann í Tampere – State obligations under Article 8 of the ECHR.
 • Próf. Eric Barendt, Goodman prófessor í fjölmiðlarétti við University College í London – The legal Control of Pornography and Hate Speech.
 • Dr. juris Kyrre Eggen, hæstaréttarlögmaður hjá Wiersholm, Mellbye & Bech í Osló – Jurisdictional Issues in Private Litigation
 • Eiríkur Jónsson lektor við Lagadeild HÍ – Responsibility for Internet Defamation in Icelandic Law
 • Ph.D. Haukur Arnþórsson, sérfræðingur í rafrænni stjórnsýslu – How to prevent Anonimity on the Internet
 • Árni Matthíasson verkefnastjóri og umsjónarmaður blog.is hjá Morgunblaðinu – The Internet and the Media

Erindin eru birt á heimasíðu stofnunarinnar.