Umborin dvöl
Í tilefni af skýrslu Rauða krossins á Íslandi um stöðu fólks í „umborinni dvöl“ á Íslandi efnir Mannréttindastofnun Háskóla Íslands og Rauði krossinn á Íslandi til fyrirlesturs og pallborðsumræðna miðvikudaginn 1. febrúar í stofu 101 Lögbergi klukkan 12:00-13:15. Fjallað verður um erfiða stöðu fólks í „umborinni dvöl“, þ.e. sem fengið hafa lokasynjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd en ekki er hægt að brottvísa.
Fyrirlesarar eru:
- Karla Isabel Johnson, verkefnastjóri Rauða krossins á Íslandi og einn skýrsluhöfunda.
- Jasmina Vajzovic Crnac, leiðtogi alþjóðateymis Reykjavíkurborgar.
- Albert Björn Lúðvígsson, fulltrúi hjá Claudia & Partners Legal Services og stundakennari við Háskóla Íslands.
- Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, lögmaður á Rétti, stjórnarmaður í MHÍ verður umræðustjóri.
Brynhildur Flóvenz, stjórnarformaður MHÍ stýrir fundinum.
Niðurstöður rannsóknar Rauða krossins á Íslandi, sem fram fór á síðari hluta ársins 2022 með greiningu og viðtölum, koma fram í nýrri skýrslu sem varpar ljósi á takmarkaða möguleika einstaklinga í framangreindri stöðu til þess að lifa mannsæmandi lífi. Kemur það einkum fram vegna erfiðleika við að fá úthlutaðri kennitölu, erfiðleika og stundum ómöguleika við öflun atvinnuleyfis, þess að börn sem fædd eru á Íslandi eru með óskilgreint ríkisfang, erfitt er að fullnægja grunnþörfum og margir búa við versnandi heilsufar. Skýrslan er aðgengileg hér ásamt útdrætti á íslensku og á ensku. Dómsmálaráðuneytið hefur gert athugasemdir við skýrsluna, sjá hér.
Eftir kynningu á helstu niðurstöðum skýrslunnar verða pallborðsumræður og tekið við spurningum úr sal.
Viðburðurinn fer fram á ensku.