Ársskýrsla Mannréttindastofnunar 2015

Ársskýrsla Mannréttindastofnunar 2015

Mannréttindastofnun Háskóla Íslands hefur ekki notið fastra fjárframlaga til reksturs undanfarinn áratug. Einu rekstrartekjur hennar frá árinu 2005 er stjórnunarálag vegna rannsóknarverkefna og annarra verkefna sem stofnunin hefur fengið styrki til að vinna auk smávægilegra fjármagnstekna af bankainnistæðu. Tap á reglulegum rekstri stofnunarinnar var umtalsvert minna en undanfarin tvö ár en mikilvægt er að leita leiða til að afla stofnuninni fastra rekstrartekna. Innanríkisráðuneytið hefur um árabil haft fjármuni til ráðstöfunar á fjárlögum til mannréttindamála og auglýst styrki til umsóknar á sviði mannréttinda. Undanfarin þrjú ár hafa þessir styrkir ekki verið auglýstir til umsóknar.

Forstöðumaður Lagastofnunar Háskóla Íslands sinnir starfi forstöðumanns Mannréttindastofnunar, samkvæmt samningi Lagastofnunar og MHÍ. Forstöðumaður sinnir fimm vikna  starfi á ári, en fjárhagur stofnunarinnar gefur ekki svigrúm til frekari starfsemi.

Ný heimasíða Mannréttindastofnunar var tekin í notkun á árinu 2015. Þar er að finna nákvæmar upplýsingar um starfsemi stofnunarinnar frá árinu 2005, þ. á m. rannsóknarverkefni sem eru í gangi og yfirlit rannsókna sem stofnunin hefur unnið við undanfarin ár en er lokið, námskeið, fundi, ráðstefnur og útgáfumál, en reifanir dóma Mannréttindadómstóls Evrópu eru birtar á heimasíðu stofnunarinnar.

Í maí var haldið námskeiðið Methods of Human Rights Law Research fyrir Ph.D. nemendur í samvinnu við iCourts við Kaupmannahafnarháskóla. Þá var efnt til vinnustofu með nokkrum fremstu sérfræðingum Norðurlanda í samvinnu við óstofnaða norræna stofnun um málefni innflytjenda og flóttamanna um glæpavæðingu hælisleitenda í október auk fleiri funda sem gerð er grein fyrir í skýrslunni.

Á árinu var unnið að fjármögnun og undirbúningi að endurútgáfu ritsins Mannréttindasáttmáli Evrópu – Meginreglur, framkvæmd og áhrif á íslenskan rétt. Stefnt er að því að útgáfa verði í árslok 2016.

Áfram verður lögð áhersla á að auka starfsemi sem aflar stofnuninni tekna.

Reykjavík, 30. nóvember 2016

María Thejll
forstöðumaður Mannréttindastofnunar

Oddný Mjöll Arnardóttir
stjórnarformaður Mannréttindastofnunar

Mannréttindastofnun Háskóla Íslands
Lögbergi við Suðurgötu, 101 Reykjavík
Sími 525 5203 / mhi@hi.is
http://stofnanir.hi.is/mannrettindastofnun/

Mannréttindastofnun Háskóla Íslands er sjálfseignarstofnun, stofnuð 1994 af Háskóla Íslands, Dómarafélagi Íslands og Lögmannafélagi Íslands.

Megintilgangur stofnunarinnar er að vinna að rannsóknum á lögfræðilegum þáttum mannréttinda, annast dreifingu á niðurstöðum þeirra og styðja við kennslu á þessu sviði.

Stjórn Mannréttindastofnunar var þannig skipuð árið 2015:

  • Oddný Mjöll Arnardóttir prófessor við Lagadeild HÍ, formaður
  • Björg Thorarensen prófessor við Lagadeild HÍ
  • Þorgeir Ingi Njálsson dómstjóri við héraðsdóm Reykjaness
  • Ásgerður Ragnarsdóttir hdl., meðstjórnendur.

Varamenn í stjórn voru

  • Hilmar Magnússon hrl.
  • Pétur Dam Leifsson dósent við Lagadeild HÍ.

Forstöðumaður í hlutastarfi var María Thejll, forstöðumaður Lagastofnunar HÍ.

LAWMEDIA Network

Á árinu fékkst netverksstyrkur í Nordplus netverk vegna tjáningarfrelsis; LAWMEDIA NETWORK, í samvinnu við háskólana í Tallinn, Tampere og Lettlandi. Um er að ræða samstarfsverkefni fræðimanna og sérfræðinga á sviði löggjafar og fjölmiðla til að rannsaka þá þætti sem mestu máli skipta og koma með tillögur sem miða að því að vernda tjáningarfrelsi og rétt til einkalífs í hinu nýja alþjóðlega fjölmiðlaumhverfi. Eiríkur Jónsson prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands leiðir teymi íslenskra þáttakenda.

Rannsókn á réttindum sjúklinga

Verkefni styrkt af Evrópusambandinu með það að markmiði að kortleggja réttindi sjúklinga í aðildarríkjum ESB, Noregs og Íslands. Áhersla var ekki einungis á lögfest réttindi til heilbrigðisþjónustu heldur einnig réttindi sjúklinga sem neytenda, svo sem reglur um upplýsingagjöf, val, kvörtunarferli og rétt til bóta. Oddný Mjöll Arnardóttir prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands stýrði verkefninu.

Hælisleitendur og flóttamenn – Dómar Mannréttindadómstóls Evrópu

Rannsókn á lagalegri stöðu  innflytjenda á Íslandi og hvernig íslensk löggjöf samrýmist alþjóðlegum skuldbindingum á þessu sviði, með styrk frá ERASMUS+ lauk á árinu.  Starfsneminn Tomasz Szewczyk vann rannsóknina og hafa rannsóknarniðurstöður verið birtar á heimasíðu stofnunarinnar.

Dómareifanir Mannréttindadómstóls Evrópu

Að vanda eru reifanir valinna dóma Mannréttindadómstólsins sem taldir eru hafa sérstakt gildi fyrir íslenskan rétt birtar á heimasíðu stofnunarinnar. Fyrra hefti hvers árs er að jafnaði tilbúið í október en seinna heftið í apríl árið á eftir. Einnig eru birtar í heild sinni íslenskar þýðingar á ákvörðunum og dómum í kærumálum gegn íslenska ríkinu. Þó samningur við Innanríkisráðuneytið kveði aðeins á um birtingu dómareifana á heimasíðu stofnunarinnar í stað prentaðra hefta sem dreift var til allra áskrifenda Tímarits lögfræðinga, er það engu að síður gleðiefni að áfram verði mögulegt fyrir íslenska lögfræðinga og aðra sem áhuga hafa á mannréttindum að kynna sér á íslensku mikilvægustu dóma  MDE. Þá er einnig mikilvægt að laganemar fái tækifæri til að vinna við reifanirnar.

Endurútgáfa ritsins Mannréttindasáttmáli Evrópu – Meginreglur, framkvæmd og áhrif á íslenskan rétt

Á árinu aflaði stofnunin styrks frá utanríkisráðuneytinu til að hefja vinnu við endurútgáfu ritsins sem kom út árið 2005. Dómaframkvæmd Mannréttindadómstólsins hefur þróast og breyst mikið á þeim 10 árum sem liðin eru frá útgáfunni og mikilvægir viðaukar verið samþykktir við mannréttindasáttmálann. Áfram er samvinna um útgáfuna við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Stefnt er að útgáfu um áramótin 2016/2017.

Rafrænt eftirlit – Hvað má og hvað ekki?

Á evrópska persónuverndardaginn, þann 28. janúar, var haldið málþing í samvinnu við Persónuvernd. Dagskrá var sem hér segir:

  • Kl. 13:30 Rafrænt eftirlit og friðhelgi einkalífs – hvar liggja mörkin?
    Alma Tryggvadóttir, lögfræðingur hjá Persónuvernd
  • Kl. 13:45 Umkvörtunarefni starfsmanna sem sæta rafrænni vöktun í störfum sínum
    Bryndís Guðnadóttir, sérfræðingur á kjaramálasviði VR
  • Kl. 14:00 Rafræn vöktun með augum verslunarinnar
    Lárus M.K. Ólafsson, lögfræðingur hjá Samtökum verslunar og þjónustu
  • Kl. 14:15 Nýir skilmálar Facebook - persónuverndarsjónarmið
    Ævar Einarsson, liðsstjóri UT-ráðgjafar hjá Deloitte
  • Kl. 14:30 Fyrirspurnir og umræður
  • Kl. 15:00 Kaffihlé
  • Kl. 15:15 Myndavélaeftirlit lögreglu á almannafæri – hver er ávinningurinn með eftirlitinu og hvers má vænta í þágu almennings
    Hjálmar Björgvinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn Ríkislögreglustjóra
  • Kl. 15:30 Reynsla og framkvæmd sveitarfélags af rafrænu eftirliti
    Gunnar Lúðvíksson, fjármálastjóri Seltjarnarnesbæjar
  • Kl. 15:45 „Drónar“ – tækifæri og ógnir
    Richard Yeo, hópstjóri fjarkönnunar hjá Veðurstofu Íslands
  • Kl. 16:00 Fyrirspurnir og umræður

Fundarstjóri: Björg Thorarensen, formaður stjórnar Persónuverndar og prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands.

Hverja er Mannréttindadómstól Evrópu ætlað að vernda?

27. maí efndi stofnunin til fundar í samvinnu við innanríkisráðuneytið. Marie-Bénédicte Dembour prófessor í lögfræði og mannfræði við Háskólann í Brighton, flutti erindi.

Mannréttindasáttmáli Evrópu var undirritaður í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar á „aldrei aftur“ tímabili. Í ljósi tilvísana til mannréttinda, væri nærtækt að ímynda sér að aðildarríki myndu standa vörð um mannréttindi allra manneskja sem heyrðu undir lögsögu þeirra. Raunveruleikinn er hins vegar ekki svona einfaldur. Réttindi nýlendubúa og innflytjenda voru til dæmis ekki nægilega vernduð af samningnum. Með þessa flóknu sögu í bakgrunni var í fyrirlestrinum fjallað um það hvernig Mannréttindadómstóll Evrópu skilgreinir/nær utan um hugtakið mannréttindi í dag.  Fundarstjóri var Oddný Mjöll Arnardóttir prófessor við Lagadeild HÍ og stjórnarformaður MHÍ.

Öryggi í lýðræðisríkjum. Eftirlitskerfi mannréttindasáttmálans – Áskoranir Evrópu
8. júní efndi stofnunin til fundar í samvinnu við utanríkisráðuneytið og Lögfræðingafélag Íslands.

Thorbjørn Jagland, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, flutti erindi um öryggi í lýðræðisríkjum, eftirlitskerfi mannréttindasáttmálans og áskoranir í Evrópu.

Í erindi sínu ræddi framkvæmdastjórinn m.a. um stöðu mannréttinda í baráttunni gegn hryðjuverkum og um framtíðarskipan Mannréttindadómstóls Evrópu, en hann hafði nýverið sent frá sér skýrslu um stöðu lýðræðis og mannréttinda í Evrópu. Skýrsluna má sjá á heimasíðu stofnunarinnar. Fundarstjóri var Oddný Mjöll Arnardóttir prófessor við Lagadeild HÍ og stjórnarformaður MHÍ.

Glæpavæðing hælisleitenda

Nokkr­ir fremstu sér­fræðing­ar Norður­land­anna í flótta­manna­rétti komu sam­an á vinnustofu 8. október í Há­skóla Íslands á vegum Mannréttindastofnunar Íslands og óstofnaðrar norræna stofnun um málenfni innflytjenda og flóttamanna.  Fundurinn var styrktur af norræna sakfræðiráðinu. Var meðal ann­ars rætt um orðræðu víða í álf­unni um „ólög­lega inn­flytj­end­ur“ og ótta við hugs­an­lega hryðju­verka­menn. Þá voru einnig rætt hvernig aðgerðir á við ný lög og gadda­vírs­girðingu á landa­mær­um Ung­verja­lands neyði í raun stríðshrjáða ein­stak­linga til að fremja „glæpi“ til að lifa af.

Dagana 26.-27. maí stóð Mannréttindastofnun fyrir námskeiðinu Methods of Human Rights Law Research fyrir Ph.D. nemendur í samvinnu við iCourts (the Danish National Research Foundation´s Centre of Excellence for International Courts), við Kaupmannahafnarháskóla. Færri komust að en vildu, og þátttakendur komu víða að úr Evrópu.

Kennarar voru

  • Marie-Bénédicte Dembour prófessor í lögfræði og mannfræði við Háskólann í Brighton
  • Davíð Þór Björgvinsson prófessor við Lagadeild HÍ og fyrrv. dómari við Mannréttindadómstól Evrópu
  • Mikael Rask Madsen prófessor og forstöðumaður iCourts við lagadeild Kaupamannahafnarháskóla
  • Oddný Mjöll Arnardóttir prófessor við Lagadeild HÍ og stjórnarformaður Mannréttindastofnunar.

Dagskrá námskeiðsins má sjá á heimasíðu stofnunarinnar.