Ársskýrsla Mannréttindastofnunar 2012
Ársskýrsla Mannréttindastofnunar 2012
Stjórn Mannréttindastofnunar var þannig skipuð árið 2012:
- Björg Thorarensen prófessor við lagadeild HÍ, formaður
- Hjördís Hákonardóttir fyrrv. hæstaréttardómari
- Róbert R. Spanó prófessor við lagadeild HÍ
- Ásgerður Ragnarsdóttir hdl. meðstjórnendur.
Varamenn í stjórn voru
- Hilmar Magnússon hrl.
- Pétur Dam Leifsson dósent við lagadeild HÍ.
Forstöðumaður í hlutastarfi var María Thejll hdl.
Skýrsla um samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi og aðlögun íslenskra laga og reglna vegna aðildar
Mannréttindastofnun fékk á árinu styrk frá innanríkisráðuneyti, til að skoða hvernig samningur Evrópuráðsins félli að íslensku réttarkerfi og hvort breyta þyrfti lögum, reglum, framkvæmd, verklagi eða öðru til að tryggja samræmi milli ákvæða samningsins og íslensks réttar. Tilgangurinn var meðal annars að greina réttarstöðu kvenna, barna og karla, sem búa við ofbeldi, þ.m.t. heimilisofbeldi, samkvæmt íslenskum rétti og gera tillögur til úrbóta. Stofnunin fékk Gunnar Narfa Gunnarsson lögfræðing og LL.M. í mannréttindum til að vinna verkefnið. Skýrslu var skilað til innanríkisráðuneytisins í október 2012.
Úttekt á samning Sameinuðu þjóðanna um ríkisfangslausa
Mannréttindastofnun fékk á árinu styrk frá innanríkisráðuneytinu til að vinna að rannsókn á stöðu ríkisfangslausra á Íslandi. Markmiðið er að rannsaka stöðu ríkisfangslausra einstaklinga á Íslandi, lagareglur sem gild um efnið og framkvæmd, svo og alþjóðlegar skuldbindingar um aðgerðir til að vinna gegn ríkisfangsleysi. Stofnunin fékk Hrefnu Dögg Gunnarsdóttur lögfræðing til að framkvæma rannsóknina og er von á lokaskýrslu í vorið 2013. Verkefnið er að hluta unnið í samvinnu MHÍ við svæðisskrifstofu Flóttamannastofnunar SÞ á Norðurlöndum.
Dómareifanir Mannréttindadómstóls Evrópu
Í tímaritinu eru reifaðir valdir dómar sem taldir eru hafa sérstakt gildi fyrir túlkun ákvæða sáttmálans. Þá eru teknir með dómar sem hafa sérstaka þýðingu fyrir íslenskan rétt, einkum í málum gegn hinum Norðurlöndunum þar sem oft er til umfjöllunar löggjöf eða ákvarðanir sem eiga hliðstæðu í íslenskri réttarframkvæmd. Loks eru birtar í heild sinni í íslenskri þýðingu ákvarðanir og dómar í kærumálum gegn íslenska ríkinu.
Annað hefti ársins 2011 en þar eru reifaðir dómar uppkveðnir á tímabilinu júlí til desember 2011, kom út í apríl 2012. Fyrsta hefti ársins 2012, með dómum frá janúar til júní 2012, kom út í október 2012. Innanríkisráðuneytið, áður dómsmálaráðuneytið hefur frá upphafi styrkt útgáfu dómareifananna. Ritinu er dreift með Tímariti lögfræðinga og birt í rafrænni útgáfu á heimasíðu MHÍ.
Alþjóðlegir mannréttindasamningar sem Ísland er aðili að – 2. útgáfa
Markmið útgáfunnar er að uppfæra eldri útgáfu frá 2003. Frá því að 1. útgáfa ritsins kom út árið 2003 hefur Ísland gerst aðili að nýjum alþjóðlegum mannréttindasamningum sem birtir eru í nýju útgáfunni. Björg Thorarensen prófessor ritstýrði.
25. janúar - Viðurkenning Íslands á Palestínu - Málstofa í samvinnu við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands
Frummælendur:
- Pétur Dam Leifsson dósent við lagadeild Háskóla Ísland
- Guðmundur Hálfdanarson prófessor við sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands
14. mars - Réttur til að vera ekki saksóttur eða refsað tvívegis- Málstofa í stjórnskipunarrétti
Frummælendur:
- Róbert R. Spanó prófessor og forseti lagadeildar Háskóla Íslands
- Björn Þorvaldsson saksóknari við embætti sérstaks saksóknara
21. september - Stjórnskipulag Evrópusambandsins og Norðurlanda – Áhrif yfirþjóðlegs valds á stjórnskipun aðildarríkja og lýðræði
Ráðstefna haldin af Mannréttindastofnun og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands í samvinnu við lagadeild HR
- Allan Rosas dómari við Evrópudómstólinn
- Helle Krunke prófessor við lagadeild Kaupmannahafnarháskóla
- Maximillian Conrad dósent við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands
- Gunnar Þór Pétursson fræðimaður við lagadeild Háskólans í Reykjavík
- Björg Thorarensen prófessor við lagadeild Háskóla Íslands
Fundarstjóri Alyson Bailes sérfræðingur við stjórnmálafræðideild og stjórnarformaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands.
Markmið ráðstefnunnar var að varpa ljósi á áhrif aðildar að Evrópusambandinu á stjórnskipulag ríkja, einkum Norðurlandanna. Fjallað var m.a. um hvernig lagakerfi Evrópusambandsins hefur smám saman „stjórnarskrárvæðst“ og samspil stjórnskipunarreglna í landsrétti og sambandsrétti, ástæður þeirrar þróunar, kosti hennar og galla og áhrif á lýðræðislega stjórnarhætti í aðildarríkjum sambandsins.
19. október Ráðstefna á vegum innanríkisráðuneytis og Persónuverndar í samvinnu við Mannréttindastofnun og Lagadeild HÍ
Nýjar ógnir við friðhelgi einkalífs og meðferð persónuupplýsinga
- Ávarp Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra
- Davíð Þór Björgvinsson dómari við Mannréttindadómstól Evrópu
- Maria Michaleidou sérfræðingur hjá Persónuverndarskrifstofu Evrópuráðsins
- Sigrún Jóhannesdóttir forstjóri Persónuverndar
- Björn Eirik Thom forstjórin Persónuverndar í Noregi
- Björg Thorarensen prófessor við lagadeild Háskóla Íslands
- Sigurður Guðmundsson prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og fyrrverandi landlæknir
- Stefán Eiríksson lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins
Ráðstefnustjóri Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytis
Á ráðstefnunni var varpað ljósi á nokkur mikilvæg álitaefni um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, hvaða hættur steðja að friðhelgi einkalífs og persónuvernd og hvernig skuli brugðist við þeim.
Þátttaka í norrænu málþingi um alþjóðasamninga og stjórnarskrárvernd mannréttinda
Lagastofnun háskólans í Árósum í samvinnu við Mannréttindastofnun Háskóla Íslands og lagastofnanir háskólanna í Osló og Uppsölum, efndu til málþings um alþjóðasamninga og stjórnarskrárvernd mannréttinda í Árósum, 19. og 20. nóvember. Markmiðið var að ræða tengsl alþjóðlegra mannréttindasamninga við ákvæði stjórnarskráa Norðurlanda og þróun síðustu ára í dómaframkvæmd um mannréttindi einkum vegna áhrifa Mannréttindasáttmála Evrópu. Eru mannréttindaákvæði stjórnarskráa Norðurlanda ólík um margt og mismunandi hefðir hafa skapast um hvert er samspil þeirra við ákvæði alþjóðlegra mannréttindasamninga. Þá var rætt um áhrif breytinga á ákvæðum stjórnarskráa á Norðurlöndum til samræmis við mannréttindasamninga og tengsl nýrrar réttindaskrár Evrópusambandsins við mannréttindaákvæði í stjórnarskrám og alþjóðasamningum.
Erindi á málþinginu fluttu fræðimenn í stjórnskipunarrétti og mannréttindum frá lagadeildum háskóla allra Norðurlanda auk annarra sérfræðinga. Björg Thorarensen prófessor og Eiríkur Jónsson dósent tóku þátt í málþinginu.