Mannréttindastofnun - starfsemi 2011
Starfsemi 2011
Stjórn Mannréttindastofnunar var þannig skipuð árið 2011:
- Björg Thorarensen prófessor við lagadeild HÍ, formaður
- Hjördís Hákonardóttir fyrrv. hæstaréttardómari
- Róbert R. Spanó prófessor við lagadeild HÍ
- Ásgerður Ragnarsdóttir hdl. meðstjórnendur.
Varamenn í stjórn voru
- Hilmar Magnússon hrl.
- Pétur Dam Leifsson dósent við lagadeild HÍ.
Forstöðumaður í hlutastarfi var María Thejll hdl.
Landsáætlun í mannréttindamálum
Mannréttindastofnun fékk á árinu 2010 styrk frá dómsmála- og mannréttindaráðuneyti, til að rannsaka innihald og áætlanir Norðurlandanna í mannréttindamálum ásamt því að vinna grunnvinnu og lýsingu á stöðunni hér á landi og í framhaldinu vinna drög að áætlun í mannréttindamálum fyrir Ísland. Stofnunin réði Ernu Margréti Þórðardóttur LL.M. í mannréttindum til að vinna verkefnið og í júní 2011 var það nánar skilgreint í samvinnu við innanríkisráðuneytið. Þar var aukin áhersla lögð á að gera grein fyrir því hvernig önnur Norðurlönd hefðu unnið stefnumótun og áætlanagerð um mannréttindi og metið hvaða leiðir koma til greina sem fyrirmynd fyrir landsáætlun á Íslandi. Jafnframt skyldi gera grein fyrir starfsemi landsstofnana í mannréttindamálum á Norðurlöndum. Skýrslu um gerð landsáætlunar í mannréttindum á Íslandi var skilað til innanríkisráðuneytisins í október 2011.
Dómareifanir Mannréttindadómstóls Evrópu
Í tímaritinu eru reifaðir valdir dómar sem taldir eru hafa sérstakt gildi fyrir túlkun ákvæða sáttmálans. Þá eru teknir með dómar sem hafa sérstaka þýðingu fyrir íslenskan rétt, einkum í málum gegn hinum Norðurlöndunum þar sem oft er til umfjöllunar löggjöf eða ákvarðanir sem eiga hliðstæðu í íslenskri réttarframkvæmd. Loks eru birtar í heild sinni í íslenskri þýðingu ákvarðanir og dómar í kærumálum gegn íslenska ríkinu.
Annað hefti ársins 2010 en þar eru reifaðir dómar uppkveðnir á tímabilinu júlí til desember 2010, kom út í apríl 2011. Fyrsta hefti ársins 2011, með dómum frá janúar til júní 2011, kom út í október 2011.
Innanríkisráðuneytið, áður dómsmálaráðuneytið hefur frá upphafi styrkt útgáfu dómareifananna. Í ár ákvað ráðuneytið að skera fjárveitinguna niður um 1/3 sem hefur í för með sér að stofnunin hefur þurft að greiða með útgáfunni. Þrátt fyrir það var ákveðið að prenta reifanirnar sem komu út á árinu. Verði styrkurinn ekki hækkaður á næsta ári kann að fara svo að ekki verði unnt að láta prenta reifanir heldur verði látið við það sitja að birta þær á heimasíðu stofnunarinnar, en leitað er leiða til að hagræða í útgáfunni svo sem með því að stytta reifanir og minnka verulega stærð tímaritsins til að draga úr kostnaði við prentun og launakostnaði vegna vinnu við reifanir
Námsferð í boði svissneskra yfirvalda 12.-16. maí
Mannréttindastofnun hefur átt samstarf við Evrópustofnun um þjóðarfrumkvæði og þjóðaratkvæðagreiðslur (IRI). Að beiðni Bruno Kaufmann hjá IRI hafði Mannréttindastofnun milligöngu um að tilnefna aðila og að halda utan um skipulagningu hérlendis vegna námsferðar til Sviss á vegum utanríkisráðuneytis Sviss. Í námsferðinni var kynnt fyrirkomulag og framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna og þjóðarfrumkvæðis í Sviss. Farið var yfir mismunandi fyrirkomulag á landsvísu, innan kantóna og á sveitarstjórnarstigi og fundir og kynningar haldnar í Zürich, Bern og Luzern.
Þátttakendur voru: Salvör Nordal og Þorkell Helgason frá stjórnlagaráði, Hermann Sæmundsson frá innanríkisráðuneyti, Róbert Marshall þingmaður og formaður allsherjarnefndar, Sigrún Benediktsdóttir hdl. frá landskjörstjórn, Magnús Árni Skúlason og Jóhannes Þ. Skúlason frá InDefence, María Thejll frá MHÍ, Sjúrður Skaale frá Færeyjum og Johan Lund Olsen frá Grænlandi auk Þórdísar Arnljótsdóttur fréttakonu hjá RÚV. Þátttakendur sátu fund með Andi Gross, aðili að ráðgjafaþingi Evrópuráðsins, sem fór yfir þróun og núverandi ákvæði um beint lýðræði í stjórnarskrá Sviss, við hvaða aðstæður þjóðaratkvæðagreiðslur eru haldnar og framkvæmdina. Í Bern var farið yfir áhrif þess að í gildi eru virk ákvæði um beint lýðræði og stjórnsýsluframkvæmdina. Forseti borgarráðs Lucern, Rolf Krummenarcher og Adrian Schmidt (?), fyrrv. forseti borgarráðs, tóku á móti hópnum í ráðhúsi Luzern. Þeir gerðu grein fyrir framkvæmd og fyrirkomulagi beins lýðræðis í kantónum og á sveitarstjórnarstiginu. Hópurinn heimsótti kjörstað í Luzern sem var opinn í 2 klst. en um 95% þeirra sem greiða atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslum greiða atkvæði heima og senda atkvæðið í pósti. Fylgst var með talningu atkvæða. Fundað var með varaformanni Græna flokksins í Sviss, Aline Trede, sem fór yfir það framkvæmdina við þjóðarfrumkvæði og hvernig tillagan sem slík og umræðan um hana getur haft áhrif á löggjöfina þó ekki hafi komið til þjóðaratkvæðagreiðslu um tillöguna.
Skipulag og utanumhald í námsferðinni var einstakt og upplýsingar til þátttakenda lærdómsríkar. Ákveðið var að fylgja ferðinni eftir með ráðstefnu á Íslandi um haustið. Þann 14. og 15. september voru haldnar ráðstefnur um beint lýðræði á Íslandi. Þann 14. var áherslan á beint lýðræði á sveitarstjórnarstiginu. Þann 15. var umfjöllunin almenn og um fyrirkomulag á landsvísu auk þess sem fjallað var um lærdóma þátttakenda í námsferð til Sviss.
Nútímalegt beint lýðræði í Sviss og á Íslandi – Bæklingur og sýning
Í tengslum við ráðstefnur um beint lýðræði þann 14. og 15. september, styrkti utanríkisráðuneyti Sviss útgáfu bæklings um beint lýðræði í Sviss og á Íslandi og uppsetningu sýningar um sama efni. Mannréttindastofnun í samvinnu við Lagastofnun sá um textagerð, þýðingu, uppsetningu sýningar og hönnun og prentun bæklingsins. Sýningin var opnuð þann 14. september í Ráðhúsi Reykjavíkur. Bæklingnum var dreift á ráðstefnunum.
12. janúar - Landið eitt kjördæmi og jafn kosningaréttur – Málstofa um leiðir til að afnema misvægi atkvæða og áhrif þeirra.
Frummælendur voru Dr. Grétar Þór Eyþórsson, prófessor við Háskólann á Akureyri og Dr. Ólafur Harðarson, prófessor og forseti félagsvísindasviðs Háskóla Íslands.
Rætt var hvort rétt sé að jafna kosningarrétt að fullu og hvort því markmiði verði best náð með því að breyta landinu í eitt kjördæmi. Farið var yfir kosti og galla slíkra breytinga bæði frá sjónarhóli stjórnmálaflokka og aðstöðu kjósenda í landinu til að hafa áhrif og hvort aðrir leiðir séu vænlegri við þróun kosningaskipulags hér á landi. Þátttaka var góð, um 80 mættir.
28. janúar
Ráðstefna á vegum Mannréttindastofnunar HÍ og lagadeildar HR í samvinnu við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins/TAIEX, um réttindaskrá Evrópusambandsins og áhrif Lissabon-sáttmálans;The Charter of Fundamental Rights and the EU under the Lisbon Treaty: Towards Enhanced Human Rights Protection.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra flutti ávarp og Ragnhildur Helgadóttir, prófessor við lagadeild HR var fundarstjóri.
120 þátttakendur voru skráðir. Frummælendur voru:
- Jean Claude Piris, framkv.stj. lagasviðs Evrópusambandsins:The EU Charter of Fundamental Rights - Origins, Scope, Legal Status
- Allan Rosas, dómari við dómstól Evrópusambandsins:The influence of the Charter on ECJ’s case-law before the Lisbon treaty
- David Thor Björgvinsson dómari við Mannréttindadómstól Evrópu:Áhrif aðildar ESB að Mannréttindasáttmála Evrópu
- Elvira Mendez Pinedo prófessor við lagadeild HÍ: Remedies for citizens in the European Union in relation to human rights violations
- Björg Thorarensen prófessor við lagadeild HÍ: Tengsl mannréttinda í stjórnarskrá og réttindaskrár ESB
15. september
Ráðstefna um þjóðaratkvæðagreiðslur í samvinnu Mannréttindastofnunar, Lagastofnunar, svissneska utanríkisráðuneytisins og Institute of Referendums and Inititative (IRI).
Dr. Ólafur Þ. Harðarson forseti félagsvísindasviðs HÍ flutti ávarp og Þórdís Arnljótsdóttir fréttamaður hjá RÚV var fundarstjóri.
50 þátttakendur voru skráðir. Frummælendur voru:
- Salvör Nordal, forseti stjórnlagaráðs og forstöðumaður Siðfræðistofnunar HÍ: Tillögur Stjórnlagaráðs um beint lýðræði
- Bruno Kaufmann, forstöðumaður Institute of Referendums and Inititative (IRI): Þróun beins lýðræðis í Sviss, íbúafrumkvæði Evrópu og áfram
- María Thejll, forstöðumaður Lagastofnunar og Mannréttindastofnunar HÍ:Saga þjóðaratkvæðagreiðslna á Íslandi – Núgildandi fyrirkomulag og hvernig verða kjósendur upplýstir
- Jóhannes Þ. Skúlason, aðstoðarmaður formanns Framsóknarflokksins og einn af stofnendum InDefence: Nútímalegt beint lýðræði – Hvað getum við (ekki) lært af Svisslendingum?
- Róbert Marshall, þingmaður og formaður allsherjarnefndar Alþingis: Þjóðaratkvæðagreiðslur – Hvaða málefni eiga að vera undanskilin?
- Magnús Árni Skúlason, framkv.stj. Reykjavík Economics og einn af stofnendum InDefence: Hvernig er hægt að hafa frumkvæði að þjóðaratkvæðagreiðslu – Aðferðafræði InDefence
- Sigrún Benediktsdóttir hdl. og aðalmaður í landskjörstjórn: Nýjar kosningaaðferðir við þjóðaratkvæðagreiðslur og þjóðarfrumkvæði
Efni á heimasíðu
Dómareifanir Mannréttindadómstólsins, bæklingur um beint lýðræði í Sviss og á Íslandi og skýrsla um landsáætlun í mannréttindamálum eru birt á heimasíðu stofnunarinnar.