Mannréttindastofnun - starfsemi 2008
Starfsemi 2008
Mannréttindastofnun Háskóla Íslands er sjálfseignarstofnun, stofnuð af Háskóla Íslands, Lögmannafélagi Íslands og Dómarafélagi Íslands, 14. apríl 1994. Aðsetur stofnunarinnar er í Lögbergi við Suðurgötu.
Stjórn Mannréttindastofnunnar var þannig skipuð árið 2008:
- Björg Thorarensen prófessor við lagadeild HÍ, formaður
- Hjördís Hákonardóttir hæstaréttardómari
- Róbert R. Spanó prófessor við lagadeild HÍ
- Hrefna Friðriksdóttir hdl. meðstjórnendur.
Varamenn í stjórn voru
- Hilmar Magnússon hrl.
- Pétur Leifsson lektor við lagadeild HÍ.
Framkvæmdastjóri var María Thejll hdl.
Dómareifanir Mannréttindadómsóls Evrópu
Mannréttindastofnun Háskóla Íslands hóf útgáfu tímarits með dómareifunum Mannréttindadómstóls Evrópu á íslensku árið 2005 en tímaritið kemur út tvisvar á ári. Dómsmálaráðuneytið styrkir útgáfuna en sérstök ritstjórn hefur umsjón með henni. Ritstjóri tímaritsins er Björg Thorarensen prófessor við lagadeild Háskóla Íslands en í ritnefnd sitja Eggert Óskarsson dómari við héraðsdóm Reykjavíkur og Arnar Þór Jónsson hdl.
Í tímaritinu eru reifaðir valdir dómar sem taldir eru hafa sérstakt gildi fyrir túlkun ákvæða sáttmálans. Þá eru teknir með dómar sem hafa sérstaka þýðingu fyrir íslenskan rétt, einkum í málum gegn hinum Norðurlöndunum þar sem oft er til umfjöllunar löggjöf eða ákvarðanir sem eiga hliðstæðu í íslenskri réttarframkvæmd. Loks eru birtar í heild sinni í íslenskri þýðingu ákvarðanir og dómar í kærumálum gegn íslenska ríkinu sem fram til þessa hafa aðeins verið birtir á heimasíðu dómsmálaráðuneytisins.
Annað hefti ársins 2007 en þar eru reifaðir dómar uppkveðnir á tímabilinu júlí til desember 2007, kom út í apríl 2008. Fyrsta hefti ársins 2008, með dómum frá janúar til júní 2008, kom út í október 2008.
Fræðirit um mannréttindasamninga Sameinuðu þjóðanna
Utanríkisráðuneytið veitti stofnuninni styrk á árinu 2007 til að gefa út fræðirit um mannréttindasamninga Sameinuðu þjóðanna og áhrif þeirra á íslenskan rétt. Átta fræðimenn skrifa kafla í bókinni sem unnið hefur verið að allt árið og er útgáfa áætluð haustið 2009. Þeir eru Björg Thorarensen, Róbert R. Spanó, Jakob Möller, Guðmundur Alfreðsson, Kristín Benediktsdóttir, Elsa Þorkelsdóttir, Hrefna Friðriksdóttir og Kjartan Bjarni Björgvinsson.
Réttarstaða útlendinga
Mannréttindastofnun fékk styrk á árinu frá dómsmálaráðuneyti til að vinna að rannsókn um réttarstöðu útlendinga. Um er að ræða lögfræðilega rannsókn á réttarstöðunni að undanskilinni réttarstöðu flóttamanna. Áhersla er lögð á að kanna þær skyldur sem staðfestir þjóðréttarsamningar leggja á íslensk stjórnvöld og eftir atvikum einstaklinga og félagasamtök. Dóra Guðmundsdóttir LL.M. stjórnaði verkefninu f.h. MHÍ og með henni störfuðu tveir laganemar að rannsókninni sumarið 2008. Rannsókninni er að mestu lokið og munu niðurstöður birtast á heimasíðu stofnunarinnar upp úr miðju ári 2009.
Rannsókn á álitum mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna
Í október 2007 tilkynnti mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna um álit sitt í kærumáli tveggja sjómanna gegn íslenska ríkinu þar sem 12 nefndarmenn af 18 tölfu lögin um stjórn fiskveiða brjóta í bága við 26. gr. Alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi um jfanrétti allra manna. Álitið olli miklum deilum og alls ekki augljóst hvernig bregðast þyrfti við því. Mannréttindastofnun fékk styrk dómsmálaráðuneytis til að skoða úrskurði Mannréttindanefndarinnar, flokka þá og í framhaldin greina hvaða réttaráhrif þeir hafa. Tveir laganemar unnu að rannsókninni á árinu en Björg Thorarensen prófessor stjórnaði rannsókninni sem lýkur á árinu 2009.
Auglýstir voru þrír styrkir til verkefna á sviði mannréttinda á vegum Mannréttindastofnunar á árinu. Rannís sá um framkvæmd styrkveitingarinnar og skipaði dómnefnd sem í sátu:
- Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneyti
- Jón Ólafsson prófessor við háskólann á Bifröst
- Pétur Leifsson lektor við lagadeild Háskóla Íslands.
Þeir sem fengu úthlutað styrkjum voru:
- Dóra Guðmundsdóttir til að fullvinna rannsóknarniðurstöður rannsóknar um réttarstöðu útlendinga að íslenskum rétti – áhrif þjóðréttarskuldbindinga, fyrir birtingu á vefnum
- Björg Thorarensen prófessor vegna útgáfu fræðiritsins Stjórnskipunarréttur – Mannréttindi
- Jóhann Björnsson MA í heimspeki til verkefnis um siðfræðilega greiningu á sjónarmiðum í innflytjendamálum á Íslandi í ljósi mannréttinda.
Sjá má nánari upplýsingar á veffangi Mannréttindastofnunar: www.mhi.hi.is.