Mannréttindastofnun - starfsemi 2005

Starfsemi 2005

Mannréttindastofnun Háskóla Íslands er sjálfseignarstofnun, stofnuð af Háskóla Íslands, Lögmannafélagi Íslands og Dómarafélagi Íslands, 14. apríl 1994.  Aðsetur stofnunarinnar er í Lögbergi við Suðurgötu.

Stjórn Lagastofnunar var þannig skipuð árið 2005:

  • Björg Thorarensen prófessor við lagadeild HÍ, formaður
  • Hjördís Hákonardóttir dómstjóri við héraðsdóm Suðurlands
  • Róbert R. Spanó dósent við lagadeild HÍ
  • Hrefna Friðriksdóttir hdl. meðstjórnendur.

Varamenn í stjórn voru

  • Hilmar Magnússon hrl.
  • Pétur Leifsson dósent við lagadeild HA.

Framkvæmdastjóri var María Thejll hdl.

Dómareifanir gefnar út í fyrsta sinn

Mannréttindastofnun Háskóla Íslands hóf útgáfu tímarits með dómareifunum Mannréttindadómstóls Evrópu á íslensku og kom fyrsta heftið út í október. Það nær yfir dóma Mannréttindadómstólsins fyrstu sex mánuði ársins 2005 en tímaritið mun koma út tvisvar á ári. Dómsmálaráðuneytið styrkir útgáfuna en sérstök ritstjórn hefur umsjón með henni. Ritstjóri tímaritsins er Björg Thorarensen prófessor við lagadeild Háskóla Íslands en í ritnefnd sitja dr. Oddný Mjöll Arnardóttir prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík og Skúli Magnússon héraðsdómari og dósent við lagadeild Háskóla Íslands.

Í tímaritinu eru reifaðir valdir dómar sem taldir eru hafa sérstakt gildi fyrir túlkun ákvæða sáttmálans. Þá eru teknir með dómar sem hafa sérstaka þýðingu fyrir íslenskan rétt, einkum í málum gegn hinum Norðurlöndunum þar sem oft er til umfjöllunar löggjöf eða ákvarðanir sem eiga hliðstæðu í íslenskri réttarframkvæmd. Loks eru birtar í heild sinni í íslenskri þýðingu ákvarðanir og dómar í kærumálum gegn íslenska ríkinu sem fram til þessa hafa aðeins verið birtir á heimasíðu dómsmálaráðuneytisins.

Fyrsta fræðirit á íslensku um Mannréttindasáttmála Evrópu

Ritið Mannréttindasáttmáli Evrópu – Meginreglur, framkvæmd og áhrif á íslenskan rétt kom út á vegum Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands og lagadeildar Háskólans í Reykjavík í lok ársins 2005. Er þetta fyrsta heildstæða fræðiritið sem kemur út á íslensku um Mannréttindasáttmála Evrópu, dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu og áhrif sáttmálans á íslenskan rétt. Er slík útgáfa löngu tímabær í ljósi þeirrar þróunar sem orðið hefur í framkvæmd sáttmálans frá því að hann var samþykktur árið 1950 og þeirra víðtæku áhrifa sem hann hefur haft á íslenskan rétt og lagaframkvæmd, einkum eftir lögfestingu hans hér á landi árið 1994. Í bókinni er fjallað ítarlega um hvert efnisákvæði sáttmálans, inntak þess krufið og lýst stefnumarkandi niðurstöðum Mannréttindanefndar Evrópu og Mannréttindadómstóls Evrópu um túlkun ákvæðanna svo og hvernig hún hefur þróast undanfarna áratugi. Fjallað er um það hvernig réttindi sáttmálans eru vernduð í íslenskum rétti, í stjórnarskrá og annarri löggjöf, hver er dómaframkvæmd íslenskra dómstóla um efnið og lýst helstu álitum umboðsmanns Alþingis sem því tengjast. Þá eru raktar helstu úrlausnir Mannréttindanefndarinnar og dómar Mannréttindadómstólsins í kærumálum gegn íslenska ríkinu og áhrif þeirra metin. Loks er fjallað um meðferð mála fyrir Mannréttindadómstólnum og skilyrði þess að kæra verði tekin þar til efnislegrar meðferðar.

Bókin er afrakstur af samvinnu Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands og lagadeildar Háskólans í Reykjavík. Þar leggja saman krafta sína fræðimenn lagadeilda beggja háskólanna sem hafa sérþekkingu á mannréttindum og stjórnskipunarrétti eða tilteknum þáttum þessara fræðisviða lögfræðinnar. Auk þeirra eru höfundar úr hópi fræðimanna í lagadeild Viðskiptaháskólans á Bifröst svo og dómara, lögmanna og lögfræðinga í stjórnsýslunni sem geta miðlað af reynslu sinni af því vinna með ákvæði Mannréttindasáttmálans í framkvæmd.

Ritstjórn útgáfunnar skipuðu:

  • Björg Thorarensen prófessor við lagadeild HÍ sem var formaður ritstjórnar
  • Davíð Þór Björgvinsson dómari við Mannréttindadómstól Evrópu
  • dr. Guðrún Gauksdóttir dósent við lagadeild HR
  • Hjördís Hákonardóttir dómstjóri.

Auk þeirra eru höfundar efnis

  • Eiríkur Tómasson prófessor við lagadeild HÍ
  • Elín Blöndal dósent við lagadeild Viðskiptaháskólans á Bifröst
  • dr. Oddný Mjöll Arnardóttir hdl. og prófessor við lagadeild HR
  • Páll Þórhallsson lögfræðingur í forsætisráðuneytinu
  • Ragnar Aðalsteinsson hrl.
  • Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir sendiráðunautur
  • dr. Ragnhildur Helgadóttir lektor við lagadeild HR
  • Róbert Ragnar Spanó dósent við lagadeild HÍ.

Bókin er tileinkað minningu Gauks Jörundssonar, dómara við Mannréttindadómstól Evrópu, umboðsmanns Alþingis og prófessors við lagadeild Háskóla Íslands en hann var einnig nefndarmaður í Mannréttindanefnd Evrópu frá 1974 til 1998. Hann lést haustið 2004 eftir langan og farsælan starfsferil á vettvangi mannréttinda.

Mannréttindastofnun og Mannréttindaskrifstofa Íslands stóðu sameiginlega að ráðstefnu 8. apríl undir yfirskriftinni Mannréttindaákvæði stjórnarskrár í 10 ár -Áhrif og framtíðarsýn.

Tilefnið var að á árinu voru liðin tíu ár síðan nýr og breyttur mannréttindakafli stjórnarskrárinnar tók gildi með stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995 og leysti af hólmi mannréttindaákvæði sem voru nær óbreytt frá fyrstu stjórnarskrá Íslands 1874.

Markmið ráðstefnunnar var að fjalla um áhrif hinna nýju mannréttindaákvæða á íslenskan rétt síðasta áratug, m.a. í ljósi stefnumarkandi dóma sem gengið hafa á þessu sviði. Leitað var svara við því hvort það meginmarkmið breytingarlaganna náðst hefði að efla, samhæfa og samræma  mannréttindaákvæðin þannig að þau gegni betur því hlutverki sínu að vera vörn almennings í samskiptum við þá sem fara með ríkisvald eða hvort frekari breytinga sé þörf. Þá var framkvæmd nýju mannréttindaákvæðanna í íslenskum rétti borin saman við reynslu Finna af nýjum mannréttindakafla sem kom inn í finnsku stjórnarskrána árið 1995.

Á ráðstefnunni fluttu eftirtalin erindi:

  • Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson.
  • Veli-Pekka Viljanen, prófessor við lagadeild Háskólans í Turku.
  • Björg Thorarensen prófessor við lagadeild Háskóla Íslands.
  • Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður.

Brynhildur G. Flóvenz lektor við lagadeild Háskóla Íslands og formaður stjórnar Mannréttindaskrifstofu Íslands stjórnaði pallborðsumræðum en aðrir þátttakendur en frummælendur voru:

  • Hjördís Hákonardóttir formaður dómarafélags Íslands
  • Oddný Mjöll Arnardóttir héraðsdómslögmaður
  • Sigurður Líndal prófessor emeritus við lagadeild HÍ.

Eiríkur Tómasson prófessor og forseti lagadeildar Háskóla Íslands flutti lokaorð og sleit ráðstefnunni.

Mannréttindastofnun efndi til málstofu í marsmánuði um löggjöf gegn mismunun og aðgerðir gegn kynþáttahatri og hélt bandaríski fræðimaðurinn Richard Thompson Ford prófessor við Stanford Háskóla erindi á ensku undir yfirskriftinni: Anti discrimination law and policy goals underlying the doctrine.

Í fyrirlestrinum fjallaði Ford um aðgerðir bandarískra stjórnvalda til þess að berjast gegn mismunun og kynþáttahatri með löggjöf og öðrum ráðstöfunum og áhrif þeirra í fjölmenningarsamfélagi. Hann fjallaði einnig um þær hugmyndir sem stefna gegn mismunun byggir á, sem er sameining fólks af ólíkum kynþáttum, úrbætur fyrir misgerðir liðinna tíma og hvernig skuli takast á við ólík menningarviðhorf hópa.

Mannréttindastofnun hélt námskeiðið Kæruskilyrði og málsmeðferð fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, í samvinnu við Lögmannafélag Íslands, þann15. apríl 2005. Kennarar voru Davíð Þór Björgvinsson og John Hedigan dómarar við Mannréttindadómstól Evrópu.

Á námskeiðinu var veitt yfirsýn yfir skipulag og störf Mannréttindadómstóls Evrópu og réttarfarsreglur sem gilda um meðferð kærumála fyrir dómstólnum. Sérstök áhersla var lögð á skilyrði sem Mannréttindasáttmáli Evrópu setur fyrir því að kæra verði tekin til efnislegrar meðferðar fyrir dómstólnum og huga þarf sérstaklega að við undirbúning kærumála til hans. Einnig var fjallað um sáttaumleitanir og málsmeðferð varðandi efnishlið máls eftir að kæra er metin tæk til efnismeðferðar.
 
Sjá má nánari upplýsingar á veffangi Mannréttindastofnunar: www.mhi.hi.is.