Álit Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna

Í október 2007 kunngjörði mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna álit sitt í kærumáli tveggja sjómanna gegn íslenska ríkinu þar sem 12 nefndarmanna (af 18) töldu lögin um stjórn fiskveiða brjóta í bága við 26. gr. Alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi um jafnrétti allra manna.

Hefur framangreind niðurstaða nefndarinnar vakið upp ýmis álitaefni um túlkun jafnræðisreglu samningsins og hvernig eigi að bregðast við með endurskoðun íslenskrar löggjafar á sviði fiskveiðistjórnunar. Af því tilefni hófst á vegum Mannréttindastofnunar rannsókn á álitum mannréttindanefndarinnar, þau voru reifuð og flokkuð eftir því hvaða mismununarástæður eru til skoðunar hverju sinni og er með því reynt að varpa ljósi á túlkunaraðferðir mannréttindanefndarinnar.

Niðurstöður rannsóknarinnar birtast hér á heimasíðu stofnunarinnar og ættu að nýtast sem flestum, bæði íslenskum stjórnvöldum, laganemum, lögfræðingum og dómstólum.

Um er að ræða yfirlit yfir öll álitin með tengingu í frumtexta á ensku og svo reifun sérhvers álits á íslensku, einnig með tengingu í frumtexta. Að rannsókninni unnu laganemarnir Arnljótur Ástvaldsson og Helga María Pálsdóttir