Mismunun á grundvelli ríkisborgararéttar

Mismunun á grundvelli ríkisborgararéttar

Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna:
Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar
við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 3. apríl 1989
Kærumál nr. 196/1983

Upprunalegt skjal

Gueye o.fl. gegn Frakklandi
Mismunun á grundvelli ríkisborgararéttar. Lífeyrisréttindi. Brot gegn 26. gr. samningsins.

1. Atvik málsins

Kærendur máls þessa voru Ibrahima Gueye og 742 aðrir fyrrverandi meðlimir franska hersins, sem áttu það sameiginlegt að vera fæddir í Senegal og voru senegalskir ríkisborgarar, búsettir í Senegal, þegar málið var tekið fyrir.

Kærendur voru liðsmenn franska hersins á þeim tíma er Senegal var ennþá frönsk nýlenda. Frönsk lög, sem giltu um ellilífeyri hermanna og gengu í gildi árið 1951, kváðu á um að þeir hermenn, sem hætt hefðu störfum og komnir væru á eftirlaun, skyldu njóta jafns réttar óháð því hvort þeir væru franskir eða senegalskir ríkisborgarar. Áunnin réttindi fyrrverandi hermanna frá Senegal voru virt að fullu til að byrja með eftir sjálfstæði landsins árið 1960 og allt þangað til ný fjárlög gengu í gildi í Frakklandi í desember mánuði 1974. Mæltu þau lög svo fyrir að fyrrverandi hermenn, sem fæddir væru í Senegal og því af senegölskum uppruna, skyldu fá aðra stöðu en hermenn af frönskum uppruna, nánar tiltekið með þeim hætti að um þá myndu ekki lengur gilda ákvæði laga um ellilífeyri hermanna frá 1951. Í kjölfarið var stig lífeyrisréttinda hinna senegölsku hermanna fryst þann 1. janúar árið 1975 og af því leiddi að lífeyrir þeirra var ákvarðaður lægri en lífeyrir hermanna af frönskum uppruna, sem störfuðu í hernum á sama tíma.

2. Kæran

Kærendur töldu að franska ríkið hefði brotið gegn 26. gr. alþjóðasamnings Sameinuðu Þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (sks. SBSR) þar sem þeim hafi verið mismunað með ólögmætum hætti á grundvelli ríkisborgararéttar síns, með þeim hætti að ákvörðun lífeyris þeim til handa fyrir störf sín sem hermenn, varð önnur og lakari en hermanna af frönskum uppruna. Afleiðing þessa væri sú, að hermenn af senegölskum uppruna, sem voru í þjónustu franska hersins fyrir sjálfstæði Senegal árið 1960, fengju lægri lífeyri en einstaklingar af frönskum uppruna, sem voru í þjónustu hersins á þessum sama tíma.

3. Athugasemdir aðildarríkis

Franska ríkið viðurkenndi að hermenn af senegölskum uppruna annars vegar og hermenn af frönskum uppruna hins vegar hefðu fengið mismunandi meðferð, þegar kæmi að ákvörðun lífeyrisréttinda. Ríkið taldi hins vegar að mismunun þessi réttlættist af þremur ástæðum. Í fyrsta lagi hefðu senegalskir hermenn misst franskan ríkisborgararétt sinn þegar Senegal öðlaðist sjálfstæði frá Frakklandi. Í öðru lagi væri framkvæmd lífeyrismála í Senegal miklum erfiðleikum bundin fyrir frönsk stjórnvöld þar sem erfitt væri að auðkenna viðkomandi einstaklinga og fjölskylduaðstæður þeirra. Í þriðja og síðasta lagi réttlættu mismunandi efnahagslegar, fjárhagslegar og félagslegar aðstæður milli landanna tveggja þá ólíku meðferð sem kærendur sættu.

4. Niðurstaða nefndarinnar

4.1. Ákvörðun nefndarinnar um meðferðarhæfi

Franska ríkið taldi kæru málsins ekki tæka til efnismeðferðar af nokkrum ástæðum. Á meðal þeirra var sú athugasemd að kæran varðaði réttindi sem féllu utan þess sviðs er ákvæði SBSR vernda, nánar tiltekið lífeyrisréttindi. Af þeim sökum væri kæran ekki tæk til meðferðar samkvæmt 3. gr. valfrjálsu bókunarinnar við samninginn, en sú grein lýsir hvert það erindi óleyfilegt sem er ósamrýmanlegt ákvæðum SBSR. Nefndin hafnaði að lýsa málið ótækt til meðferðar á þessum grundvelli og vísaði til afstöðu sinnar varðandi þetta álitefni í fyrri álitum (mál nr. 172/1984, 180/1984 og 182/1984). Í þeim málum komst nefndin að þeirri niðurstöðu að undir svið 26. gr. félli skoðun á mismunun í tengslum við lífeyrisréttindi. Nefndin taldi því málið tækt til efnismeðferðar.

4.2. Álit um efnishlið málsins

Í niðurstöðu nefndarinnar var tekið fram að aðalálitaefni málsins snerist um það hvort kærendur væru þolendur ólögmætrar mismununar í skilningi 26. gr. SBSR eða hvort mismunandi ákvörðun á lífeyri fyrrverandi hermanna franska hersins, eftir því hvort þeir væru senegalskir eða franskir ríkisborgarar, væri í samræmi við ákvæði samningsins. Nefndin taldi að engin gögn styddu þá staðhæfingu kærenda að mismunun franska ríkisins gegn þeim væri byggð á sjónarmiðum tengdum kynþætti þeirra, en slík mismunun væri ein þeirra sem sérstaklega er talin upp sem ólögmæt í 26. gr. SBSR.

Hins vegar yrði nefndin í niðurstöðu sinni að taka tillit til þess hvort sú aðstaða, sem kærendur væru í, félli undir 26. gr. Í því samhengi yrði að líta til þess að kærendur lytu ekki almennt franskri lögsögu, fyrir utan það að þeir reiddu sig á franska löggjöf þegar kom að ákvörðun á lífeyri þeirra. Þá tók nefndin fram að ríkisborgararéttur sem slíkur væri ekki talinn upp sem ólögmætur grundvöllur mismunar í 26. gr. og ennfremur að ákvæði samningsins vernduðu ekki réttinn til lífeyris sem slíkan. Nefndin leit hins vegar til þess að 26. gr. tæki einnig til mismunar vegna „annarra aðstæðna”. Taldi nefndin að mismunun á grundvelli ríkisborgararéttar, sem menn öðluðust við sjálfstæði þjóðar sinnar, falla undir gildissvið 26. gr. á þeim grundvelli.

Þar sem nefndin taldi að kærendur sættu ólíkri meðferð á grundvelli atriða sem féllu undir 26. gr., tók hún næst til athugunar hvort mismununin gagnvart kærendum sú fæli í sér brot gegn 26. gr., eða hvort að baki lagasetningu franskra ríkisins lægju málefnaleg og hlutlæg sjónarmið, sem réttlættu ólíka meðferð einstaklinga eftir ríkisborgararétti.

Í fyrsta lagi tiltók nefndin að það var ekki á grundvelli hins franska ríkisborgararéttar, sem kærendur höfðu áður en Senegal öðlaðist sjálfstæði, sem þeir öðluðust réttinn til lífeyris, heldur á grundvelli þeirra þjónustu sem þeir reiddu af hendi í þágu franska hersins. Kærendur sinntu herskyldu í franska hernum við sömu aðstæður og hermenn af frönskum uppruna og í 14 ár áður en Senegal öðlaðist sjálfstæði voru þeir meðhöndlaðir á sama hátt og franskir samstarfsmenn þeirra þegar kom að ákvörðun lífeyrisréttinda, jafnvel þótt uppruni þeirra væri í raun senegalskur en ekki franskur. Breyting á ríkisborgararétti í kjölfarið sjálfstæðis Senegals gæti ekki í sjálfu sér verið næg réttlæting á ólíkri meðferð, þar sem grunnur lífeyrisréttinda var sama herþjónusta, sem kærendur jafnt sem þeir hermenn, sem áfram voru franskir ríkisborgarar, hefðu innt af hendi.

Þá taldi nefndin að efnahagslegur, fjárhagslegur og félagslegur munur á Senegal og Frakklandi gæti ekki heldur verið lögmæt réttlæting á mismunandi meðferð. Benti nefndin á að efnahagslegar og félagslegar aðstæður fyrrverandi senegalsks hermanns sem býr í Senegal annars vegar og fyrrverandi fransks hermanns, sem einnig býr í Senegal, hins vegar væri þær sömu. Hins vegar fengju þessir sömu aðilar ólíka meðferð þegar kæmi að ákvörðun lífeyris.

Að lokum hafnaði nefndin þeirri málsástæðu franska ríkisins að mismunandi meðferð á grundvelli ríkisborgararéttar væri réttlætanleg sökum þess að ríkið væri ekki fært um að auðkenna lífeyrisþega og fjölskylduaðstæður þeirra í því skyni að koma í veg fyrir misnotkun lífeyriskerfisins. Taldi nefndin að hvorki óhagræði við framkvæmd stjórnsýslu né möguleikinn á misnotkun á kerfinu gætu ekki réttlætt mismunandi meðferð einstaklinga.

Það var því niðurstaða nefndarinnar að mismunandi meðferð franska ríkisins á kærendum annars vegar og hermönnum, sem væri franskir að uppruna og hefðu franskan ríkisborgararétt, hins vegar hefði ekki verið byggð á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum og fæli þannig í sér mismunun sem væri ólögmæt samkvæmt 26. gr. SBSR.

Nefndin taldi að franska ríkinu væri skylt, í samræmi við 2. gr. SBSR, að bjóða kærendum raunhæfa úrbót vegna brota franska ríkisins á réttindum þeirra.

Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna:
Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 23. júlí 1996
Kærumál nr. 586/1994

Upprunalegt skjal

Adam gegn Tékklandi
Eignaupptaka. Mismunun á grundvelli ríkisborgararéttar. Brot gegn 26. gr. samningsins.

1. Atvik málsins

Kærandi máls þessa var Joseph Frank Adam, ástralskur ríkisborgari sem fæddur var í Ástralíu og sonur tékkneskra ríkisborgara, sem búsettir voru í Melbourne í Ástralíu. Árið 1949 voru eignir og viðskiptarekstur föður kæranda gerðar upptækar af þáverandi kommúnistastjórn Tékkóslóvakíu. Í kjölfarið flúði faðir kæranda Tékkóslóvakíu og fluttist á endanum búferlum til Ástralíu þar sem honum og konu hans fæddust þrír synir, þar á meðal kærandi. Faðir kæranda arfleiddi syni sína eignum sínum í Tékklandi er hann lést árið 1985 og síðan þá hafa synir hans unnið að því að endurheimta umræddar eignir.

Eftir hrun kommúnismans árið 1991 og skiptingu Tékkóslóvakíu upp í tvö sjálfstæð ríki, Tékkland og Slóvakíu, voru í löndunum sett lög sem höfðu það að markmiði að bæta tékkneskum ríkisborgurum, sem farið höfðu frá Tékkóslóvakíu vegna þrýstings og ofsókna kommúnistastjórnarinnar, það tjón sem þeir urðu fyrir af þeim sökum. Nánar tiltekið var það markmið laganna að eignum, sem gerðar höfðu verið upptækar, yrði skilað til viðkomandi einstaklinga eða þeim greiddar bætur vegna þessa.

Kærandi og bræður hans gerðu í kjölfarið kröfu um að endurheimta eignir föður þeirra, sem þeir erfðu við andlát hans, en kröfu þeirra var hafnað á þeim grundvelli að þeir uppfylltu ekki hið tvíþætta skilyrði þágildandi laga nr. 87/91, um að vera tékkneskir ríkisborgarar annars vegar og með varanlega búsetu í Tékklandi hins vegar. Síðan þá gerði kærandi árangurlausar tilraunir til þess að leita réttar síns frammi fyrir tékkneskum stjórnvöldum, sem höfnuðu kröfum hans jafnan og vísuðu til ofangreindra skilyrða og þeirra takmarkana á endurheimt eigna sem þar kæmu fram.

2. Kæran

Kærandi og bræður hans tveir, en hann lagði kæruna fram fyrir hönd þeirra, töldu að tékkneska ríkið hefði brotið gegn 26. gr. alþjóðasamnings Sameinuðu Þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (sks. SBSR) þar sem sú staðreynd, að lög nr. 87/91 settu þau skilyrði, að þeir sem gerðu kröfu um endurheimt eigna eða greiðslu bóta vegna eignaupptöku yrðu að vera tékkneskir ríkisborgarar, búsettir í Tékklandi, fæli í sér ólögmæta mismunun í skilningi 26. gr. SBSR. Kærandi benti á, að svo lengi sem hann og bræður hans væri ennþá ríkisborgarar annars ríkis en Tékklands, ættu þeir enga möguleika á að endurheimta þær eignir sem faðir þeirra átti í Tékkóslóvakíu og hefði arfleitt þá að, fyrir tékkneskum stjórnvöldum og dómstólum.

3. Athugasemdir aðildarríkis

Að mati tékkneska ríkisins ætti ekki að túlka skilyrði laga nr. 87/91, með síðari breytingum, um að einstaklingar yrðu að vera tékkneskir ríkisborgarar til þess að eiga möguleika á að endurheimta eign sína eða fá greiddar bætur sér til handa vegna upptöku hennar, sem brot gegn banni 26. gr. við ólögmætri mismunun. Í þessu sambandi yrði að taka tillit til kafla tékknesku stjórnarskrárinnar um grundvallarréttindi og frelsi, nánar tiltekið 2. mgr. 11. gr. kaflans. Í þeirri grein komi fram að heimilt sé að setja ákvæði í lög sem mæla fyrir um að möguleiki á því að eignast tilteknar eignir sé með skýrum hætti takmarkaður við tiltekna einstaklinga. Í stjórnarskrárákvæðinu komi fram að í lögum megi mæla svo fyrir að ákveðnar eignir megi einungis vera í eigu einstaklinga, sem eru tékkneskir ríkisborgarar, eða lögaðila, sem hafi aðsetur í Tékklandi. Tékkneska ríkið taldi að skilyrðið um að einstaklingar yrðu að vera tékkneskir ríkisborgarar, væri lögmætt og vísaði í því sambandi til 1. mgr. 3. gr. ofangreinds kafla tékknesku stjórnarskrárinnar, sem bannaði hvers konar mismunun sem byggð væri á ólögmætum sjónarmiðum.

4. Niðurstaða nefndarinnar

4.1. Ákvörðun um meðferðarhæfi

Tékkneska ríkið taldi að kærandi hefði ekki uppfyllt skilyrði b. liðar 2. mgr. 5. gr. valfrjálsrar bókunar við SBSR þar sem hann hefði ekki leitað allra tiltækra leiða til úrbóta innanlands áður en hann lagði mál sitt fyrir nefndina. Nefndin tók tillit til þess að lögmenn kæranda hefðu reynt að koma fram kröfum hans um arf fram í Tékklandi frá árinu 1985. Tilraunir þessar hefðu hins vegar verið árangurslausar, ekki sökum réttarfarslegra takmarkanna, heldur sökum ákvæða laga nr. 87/91, sem settu það skilyrði, að til þess að geta komið fram kröfu um endurheimt eigna sinna eða bóta vegna upptöku þeirra yrði viðkomandi einstaklingur að vera tékkneskur ríkisborgari. Taldi nefndin, að þar sem tékknesk lög gerðu kæranda ekki kleift að koma fram slíkri kröfu gæti möguleikinn á því að fara með mál sitt fyrir tékkneska stjórnskipunardómstólinn ekki talist raunhæft og virkt úrræði í skilningi b. liðar 2. mgr. 5. gr. valfrjálsu bókunarinnar við samninginn. Taldi nefndin því mál kæranda tækt til efnislegrar meðferðar.

4.2. Álit um efnishlið málsins

Nefndin benti á að eignaréttur sem slíkur væri ekki á meðal þeirra réttinda er vernduð væru af SBSR. Hins vegar gæti upptaka einkaeignar eða misbrestur aðildarríkis á því að greiða bætur vegna eignaupptöku falið í sér brot gegn 26. gr. ef slík aðgerð eða aðgerðaleysi væri byggt á ólögmætri mismunum. Fyrir nefndinni lá sú spurning hvort beiting laga nr. 87/91 hefði, gagnvart kæranda og bræðrum hans, leitt til brota gegn meginreglunum um að allir væru jafnir lögunum að allir ættu rétt á sömu lagavernd. Nefndin áréttaði að eignaupptakan sjálf væri ekki það álitaefni sem taka þyrfti afstöðu til, heldur það að tékknesk stjórnvöld höfnuðu kröfu kæranda um endurheimt eigna eða bætur fyrir upptöku þeirra, á meðan aðrir einstaklingar hefðu endurheimt eignir sínir eða fengið sér greiddar bætur á grundvelli laga nr. 87/91.

Nefndin þyrfti að taka afstöðu til þess hvort það skilyrði laga nr. 87/91 að þeir einstaklingar, sem vildu gera kröfu á grundvelli laganna, yrðu að vera tékkneskir ríkisborgarar væri í samræmi við skilyrði 26. gr. SBSR um að ekki mætti mismuna einstaklingum með ólögmætum hætti. Í þessu samhengi ítrekaði nefndin, og vísaði um það til fyrri álita sinna, að ólík meðferð einstaklinga teldist ekki í öllum tilvikum ólögmæt mismunun, þar sem mismunun sem væri í samræmi við ákvæði samningsins og byggð væri á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum fæli ekki í sér ólögmæta mismunun í skilningi 26. gr.

Nefndin tók fram að tékkneska ríkið hefði viðurkennt að eignaupptaka kommúnistastjórnarinnar fyrrverandi hefði verið mörgum einstaklingum skaðleg og af þeim sökum hefði sérstökum lögum verið komið á í landinu, gagngert til þess að koma eignum aftur til þeirra aðila sem hefðu verið þolendur eignaupptöku. Áréttaði nefndin að slík löggjöf mætti ekki fela í sér ólögmæta mismunun milli þolenda eignaupptöku, þar sem allir þolendur ættu rétt á úrbótum þannig að þeim yrðu fengin full eignarréttindi yfir eignum sínum á nýjan leik, án þess að greinarmunur yrði gerður á þeim með órökstuddum hætti. Með það í huga að upprunalegur réttur kæranda til umræddra eigna grundvallaðist á erfðarétti sem ekki gerði skilyrði um tiltekinn ríkisborgararétt taldi nefndin að skilyrði laga nr. 87/91 um tékkneskan ríkisborgararétt væru byggð á ómálefnalegum sjónarmiðum.

Nefndin vísaði til röksemdafærslu sinnar í málum sem vörðuðu einstaklinga í sambærilegri stöðu og kærandi og bræður hans, þ.e. einstaklinga sem farið hefðu frá Tékkóslóvakíu sökum pólitískra skoðana sinna og leitað skjóls fyrir pólitískum ofsóknum í öðrum ríkjum, þar sem þeir settust að til frambúðar og öðluðust nýjan ríkisborgarétt. Með það í huga að aðildarríkið sjálft bæri ábyrgð á því að foreldrar kæranda hefðu yfirgefið Tékkóslóvakíu árið 1949, taldi nefndin að það væri í ósamræmi við SBSR að gera það að fyrirfram skilyrði fyrir kæranda og bræður hans, svo þeir gætu endurheimt eignir sínar eða fengið bætur fyrir upptöku þeirra, að þeir öðluðust tékkneskan ríkisborgararétt.

Tékkneska ríkið hélt þeirri málsástæðu á lofti að ekki væri um brot á ákvæðum SBSR að ræða þar sem það hefði ekki verið vilji tékkneska löggjafans með lögum nr. 87/91 að mismuna einstaklingum með ólögmætum hætti. Nefndin tók fram að ekki væri nægjanlegt að vilji löggjafans væri með ákveðnum hætti, heldur þyrfti að líta til þeirrar afleiðingar sem löggjöf hans hefði í för með sér. Þrátt fyrir góða ætlun löggjafans gætu lög hans allt að einu brotið gegn 26. gr., ef beiting þeirra fæli í sér ólögmæta mismunun.

Nefndin taldi því að lög nr. 87/91 og beiting þeirra í framkvæmd hefði það í för með sér að tékkneska ríkið hefði gerst brotlegt gegn þeim réttindum sem kærandi og bræðrum hans væru færð með 26. gr. SBSR. Taldi nefndin að tékkneska ríkinu væri skylt að að bjóða kæranda og bræðrum hans raunhæfa úrbót, sem gæti falið í sér að þeim yrðu greiddar bætur vegna eignaupptökunnar ef aðstæður væru með þeim hætti að ekki væri hægt að veita þeim yfirráð eigna á nýjan leik. Þá hvatti nefndin tékkneska ríkið til þess að endurskoða umrædda löggjöf sína þannig að hvorki lögin sjálf né beiting þeirra fælu í sér ólögmæta mismunun.

Séráliti í málinu skilaði Nisuke Ando.

Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna:
Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 12. júlí 2001
Kærumál nr. 857/1999
Upprunalegt skjal

Blazek o.fl. gegn Tékklandi

Eignaupptaka. Mismunun á grundvelli ríkisborgararéttar. Brot gegn 26. gr. samningsins.

1. Atvik málsins

Kærandi máls þessa voru Miroslav Blazek, George Hartman og George Krizek, sem fæddust í Tékkóslóvakíu en fluttust síðar búferlum til Bandaríkjanna og öðluðust í kjölfarið bandarískan ríkisborgararétt. Sökum gagnkvæms samnings um veitingu ríkisborgararéttar á milli Bandaríkjanna og Tékkóslóvakíu frá 1928 misstu kærendur við það að öðlast ríkisborgararétt í Bandaríkjunum ríkisborgararétt sinn í Tékkóslóvakíu, þar sem samningurinn útilokaði möguleikann á tvöföldu ríkisfangi í báðum ríkjum.

Mál kærenda varðar, líkt og mál Adams gegn Tékklandi (mál nr. 586/1994) og margra annarra samlanda þeirra, upptöku fyrrum kommúnistastjórnar Tékkóslóvakíu á eignum þeirra á árunum eftir yfirtöku kommúnista árið 1948. Kærendur flúðu til Bandaríkjanna í kjölfar eignaupptöku á grundvelli reglugerða þar að lútandi frá 1948, 1955 og 1959.

Eftir hrun kommúnismans árið 1991 og skiptingu Tékkóslóvakíu í tvö sjálfstæð ríki, Tékkland og Slóvakíu, voru í löndunum sett lög sem höfðu það að markmiði að bæta tékkneskum ríkisborgurum, sem farið höfðu frá Tékkóslóvakíu vegna þrýstings og ofsókna kommúnistastjórnarinnar, það tjón sem þeir urðu fyrir af þeim sökum. Nánar tiltekið var það markmið laganna að eignum, sem gerðar höfðu verið upptækar, yrði skilað til viðkomandi einstaklinga eða þeim greiddar bætur vegna þessa.

Kærendur gerðu í kjölfarið kröfu um að endurheimta eignir, sem ýmist höfðu verið þeirra áður en eignaupptaka átti sér stað eða eignir sem höfðu verið gerðar upptækar og þeir höfðu fengið í arf. Kröfum þeirra hefði hins vegar jafnan verið hafnað á þeim grundvelli að þeir uppfylltu ekki skilyrði þágildandi laga nr. 87/91, um að vera tékkneskir ríkisborgarar annars vegar og með varanlega búsetu í Tékklandi hins vegar. Eftir dóm Hæstaréttar Tékklands árið 1994, sem taldi skilyrði laganna um varanlega búsetu ekki standast stjórnarskrá, var það skilyrði fjarlægt úr lögunum. Eftir sem áður yrðu kærendur og aðrir einstaklingar, sem vildu endurheimta eignir sínar eða fá bætur vegna eignaupptöku, að uppfylla skilyrðið um að hafa tékkneskan ríkisborgararétt. Það skilyrði uppfylltu tveir kærenda ekki en sá þriðji, Hartman, uppfyllti skilyrðið að lokum er hann öðlaðist ríkisborgarétt í Tékklandi á nýjan leik í nóvember árið 1999. Þrátt fyrir það hefði kröfu Hartman verið hafnað, og í þetta sinn á þeim grundvelli að samkvæmt lögum nr. 87/91 rann frestur til þess að hafa uppi kröfu um endurheimt eignar út á árinu 1992.

2. Kæran

Kærendur töldu að tékkneska ríkið hefði brotið gegn 26. gr. alþjóðasamnings Sameinuðu Þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (sks. SBSR) þar sem lög nr. 87/91 um endurheimt eigna settu það skilyrði að einstaklingar yrðu að vera tékkneskir ríkisborgarar, til þess að þeir ættu möguleika á því að endurheimta eignir sínar eða fá bætur vegna eignaupptöku. Fæli þetta í sér ólögmæta mismunun í skilningi 26. gr. SBSR. Kærendur bentu á að vegna þessa ættu fyrrum ríkisborgarar Tékkóslóvakíu, sem flust hefðu búferlum og misst við það ríkisborgararétt sinn, enga möguleika á að endurheimta eignir sem gerðar hefðu verið upptækar af þáverandi kommúnistastjórn Tékkóslóvakíu. Vísuðu kærendur máli sínu til stuðnings til fyrra álits nefndarinnar í máli Simunek gegn Tékklandi (mál nr. 516/1992).

3. Athugasemdir aðildarríkis

Tékkneska ríkið gerði engan reka að því að verja hagsmuni sína, hvorki með því að senda inn greinargerð vegna erindis kærenda né önnur gögn eða athugasemdir. Áminnti nefndin því aðildarríkið um að því bæri skylda til þess, samkvæmt 2. mgr. 4. gr. valfrjálsu bókunarinnar við SBSR, að leggja fyrir nefndina innan sex mánaða frá kæru skriflegar útskýringar eða greinargerðir sem skýra myndu viðkomandi mál og úrbætur, ef einhverjar væru, sem ríkið kynni að hafa gert.

4. Niðurstaða nefndarinnar

4.1. Ákvörðun nefndarinnar um meðferðarhæfi

Í b. lið 2. mgr. 5. gr. valfrjálsu bókunarinnar er kveðið á um einstaklingur þurfi að hafa leitað allra tiltækra leiða til úrbóta innan lands áður en nefndin getur fjallað um máls hans. Tók nefndin fram í þessu samhengi að tékkneska ríkið hefði ekki gert athugasemd er laut að því að kæra málsins væri ekki meðferðarhæf, þar sem skilyrði b. liðar 2. mgr. 5. gr. hefðu ekki verið uppfyllt. Þá taldi nefndin að kæran uppfyllti umrætt skilyrði þar sem Hæstiréttur Tékklands hefði komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði tékkneskra laga, sem vörðuðu endurheimt eigna og gerðu skilyrði um tékkneskan ríkisborgararétt, væru í samræmi við stjórnarskrá landsins og ennfremur haldið fast í þá afstöðu sína, þrátt fyrir álit nefndarinnar þar sem komist var að gagnstæðri niðurstöðu, sbr. mál Simunek gegn Tékklandi og Adam gegn Tékklandi (mál nr. 586/1994).

4.2. Álit um efnishlið málsins

Nefndin tók fram, að þar sem tékkneska ríkið hefði ekki komið að rekstri málsins frammi fyrir nefndinni með neinum hætti, yrði að gefa erindi kærenda tilhlýðilegt vægi. Nefndin leit til fyrri álita sinna í sambærilegum málum, þ.e. áðurgreindra mál Simunek og Adam gegn Tékklandi. Þegar tekin væri afstaða til þess hvort þau skilyrði, sem tékknesk lög settu fyrir endurheimt eigna, væru í samræmi við SBSR, yrði að taka afstöðu til allra þeirra þátta sem máli gætu skipt, þar á meðal til upprunalegs eignarréttar kærenda yfir þeim eignum sem þeir gerðu tilkall til.

Nefndin tók afstöðu til þess hvort það skilyrði laga nr. 87/91 að þeir einstaklingar, sem vildu gera kröfu á grundvelli laganna, yrðu að vera tékkneskir ríkisborgarar væri í samræmi við skilyrði 26. gr. SBSR um að ekki mætti mismuna einstaklingum með ólögmætum hætti. Í þessu samhengi ítrekaði nefndin, og vísaði um það til fyrri framkvæmdar sinnar, að ólík meðferð einstaklinga teldist ekki í öllum tilvikum ólögmæt mismunun, þar sem mismunun sem væri í samræmi við ákvæði SBSR og byggð væri á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum fæli ekki í sér ólögmæta mismunun í skilningi 26. gr. Taldi nefndin að skilyrðið um tékkneskan ríkisborgararétt væri hlutlægt en spurningin væri hvort beiting þess í tilviki kærenda málsins hefði verið málefnaleg.

Nefndin vísaði til röksemdafærslu sinnar í málum Simunek gegn Tékklandi og Adam gegn Tékklandi, sem vörðuðu einstaklinga í sambærilegri stöðu og kærendur máls þessa, þ.e. einstaklinga sem farið hefðu frá Tékkóslóvakíu sökum pólitískra skoðana sinna og leitað skjóls fyrir pólitískum ofsóknum í öðrum ríkjum, þar sem þeir settust að til frambúðar og öðluðust nýjan ríkisborgarétt. Með það í huga að aðildarríkið sjálft bæri ábyrgð á því að kærendur hefðu yfirgefið Tékkóslóvakíu á sínum tíma, taldi nefndin að það væri í ósamræmi við SBSR að gera það að skilyrði fyrir því að kærendur gætu endurheimt eignir sínar, að þeir öðluðust tékkneskan ríkisborgararétt. Taldi nefndin röksemdafærslu þessa eiga við með sama hætti í máli kærenda. Nefndin taldi ennfremur að mismunun á grundvelli ríkisborgararéttar væri ekki hægt að telja réttláta og málefnalega þar sem missir ríkisborgararéttar grundvallaðist á veru viðkomandi einstaklinga í öðru ríki, þar sem þeir gátu leitað skjóls sem flóttamenn.

Nefndin taldi því að tékkneska ríkið hefði brotið gegn 26. gr. SBSR gagnvart kærendum málsins. Taldi nefndin að tékkneska ríkinu væri skylt að bjóða kærendum raunhæfa úrbót, þar á meðal að þeim yrði gert kleift að koma kröfum sínum um endurheimt eigna eða bætur vegna eignaupptöku á framfæri, ef aðstæður væru með þeim hætti að ekki væri hægt að veita þeim yfirráð eignanna á nýjan leik. Þá hvatti nefndin tékkneska ríkið til þess að endurskoða umrædda löggjöf sína þannig að hvorki lögin sjálf né beiting þeirra fælu í sér ólögmæta mismunun.

Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna:
Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar
við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 30. október 2001
Kærumál nr. 765/1997

Fábryová gegn Tékklandi
Eignaupptaka. Mismunun á grundvelli ríkisborgararéttar. Brot gegn 26. gr. samningsins.

1. Atvik málsins

Kærandi máls þessa var Eliska Fábryová, fædd Eliska Fishmann þann 6. maí 1916, tékkneskur ríkisborgari. Hún og fjölskylda hennar voru gyðingar og fórnarlömb helfarar nasista á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar. Var fjölskyldan handtekin í kjölfar innrásar nasista í Tékkóslóvakíu og færð í útrýmingarbúðirnar í Auschwitz og komust kærandi og bróðir hennar ein fjölskyldumeðlima lifandi þaðan. Við komu kæranda og bróður hennar til Tékkóslóvakíu á nýjan leik var landareign föður hennar í Puklice í sveitarfélaginu Jihlava gerð upptæk á grundvelli svokallaðrar „Benes“ tilskipunar frá 1945. Sú ástæða sem gefin var fyrir eignaupptökuninni var að stjórnvöld töldu föður kæranda vera Þjóðverja sem gerst hefði sekur um föðurlandssvik gagnvart Tékklandi.

Kærandi hafði ítrekað reynt að endurheimta landareign fjölskyldu sinnar, bæði fyrir og eftir fall fyrrum kommúnistastjórnar Tékkóslóvakíu, innan réttarkerfis landsins en ekki haft erindi sem erfiði. Í júlí 1992 gerði kærandi enn kröfu um endurheimt eignar sinnar, nú á grundvelli laga frá árinu 1992, en kröfu hennar var vísað frá af staðbundnum stjórnvöldum í Jihlava í okóber árið 1994, þar sem krafan var ekki talin uppfylla skilyrði laganna. Lögin gerðu ráð fyrir því að einstaklingar, sem misstu eignir sínar þegar þær voru gerðar upptækar á grundvelli „Benes“ tilskipunarinnar, gætu endurheimt eignirnar með því að fá ríkisborgararétt sinn endurnýjaðan eftir málsmeðferð, sem nánar var mælt fyrir um í lögunum. Þar sem faðir kæranda hafði í raun aldrei misst tékkneskan ríkisborgararétt sinn var það mat yfirvalda í Jihlava að hann gæti ekki talist til þeirra einstaklinga, sem rétt ættu á að endurheimta eignir sínar á grundvelli umræddra laga. Af þeim sökum hefði ekki verið hægt að taka kröfu kæranda til greina.

Stjórnskipunardómstóll Tékklands komst hins vegar að þeirri niðurstöðu, í máli sem sambærilegt var máli föður kæranda, að þeir einstaklingar sem í raun hefðu aldrei glatað ríkisborgararétti sínum ættu einnig rétt á endurheimt eigna sinna á grundvelli laganna frá 1992. Í kjölfarið ákvað landbúnaðarráðuneytið, sem æðra stjórnvald, að ógilda ákvörðun stjórnvalda í Jihlava í máli kæranda, þar sem hún væri í ósamræmi við ákvörðun stjórnskipunardómstólsins, og lagði fyrir þau að taka kröfu kæranda til meðferðar á nýjan leik. Ákvörðun landbúnaðarráðuneytisins öðlaðist hins vegar aldrei réttaráhrif, þar sem birting hennar gagnvart öðrum aðilum sem áttu hagsmuna að gæta, átti sér stað að liðnum þremur árum frá því að ákvörðun stjórnvalda í Jihlava var tekin. Hélt því síðarnefnda ákvörðunin gildi sínu með þeim afleiðingum að krafa kæranda var ekki tekin til greina.

2. Kæran

Kærandi taldi að tékkneska ríkið hefði brotið gegn 26. gr. alþjóðasamnings Sameinuðu Þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (sks. SBSR) þar sem samkvæmt lögum frá 1992 ætti hún ekki rétt á endurheimt eignar föðurs síns, en ákvörðun staðbundinna stjórnvalda í Jihlava um að hafna kröfu hennar þar að lútandi væri byggð á umræddum lögum. Með þessu væri kæranda mismunað með ólögmætum hætti gagnvart þeim einstaklingum sem misst hefðu ríkisborgararétt og ættu af þeim sökum rétt til endurheimtar eignar sinnar á grundvelli laganna.

3. Athugasemdir aðildarríkis

Tékkneska ríkið taldi að nefndinni bæri að lýsa kæru málsins ótæka til efnismeðferðar á grundvelli b. liðar 2. mgr. 5. gr. valfrjálsu bókunarinnar við SBSR þar sem kærandi hefði ekki leitað allra tiltækra leiða til úrbóta innan lands áður áður en hann fór með mál sitt fyrir nefndina. Ríkið gerði ekki athugasemdir er lutu að efnisatriðum í kæru málsins.

4. Niðurstaða nefndarinnar

Nefndin tók fram að tékkneska ríkið viðurkenndi að samkvæmt lögunum frá 1992 ættu einstaklingar í sambærilegri stöðu og kærandi málsins rétt á endurheimt eignar sinnar. Leiddi þetta af dómi stjórnskipunardómstóls Tékklands. Ríkið viðurkenndi ennfremur að ákvörðun stjórnvalda í Jihlava, um að hafna kröfu kæranda um endurheimt eignar sinnar þar sem faðir hennar hefði aldrei misst tékkneskan ríkisborgararétt og uppfyllti þannig ekki skilyrði laganna frá 1992, hefði verið byggð á röngum forsendum og ætti því kærandi rétt á, líkt og tékkneska landbúnaðarráðuneytið hefði komist að niðurstöðu um, að krafa hennar yrði tekin til meðferðar á ný hjá stjórnvöldum í Jihlava. Hins vegar hefði sú framganga málsins verið hindruð af stjórnvöldum sjálfum, þar sem þau hefðu tilkynnt kæranda að ákvörðun landbúnaðarráðuneytisins hefði ekki réttaráhrif þar sem hún hefði verið kynnt öðrum aðilum, sem hagsmuna áttu að gæta, eftir að frestur til þess hafi verið útrunninn.

Í ljósi ofangreindra staðreynda komst nefndin að þeirri niðurstöðu að ef birting ákvörðunar landbúnaðarráðuneytisins, sem ógilti ákvörðun stjórnvalda í Jihlava um að hafna kröfu kæranda um endurheimt eignar sinnar, hefði átt sér stað of seint með þeim afleiðingum að ákvörðunin öðlaðist ekki réttaráhrif, væri slíkt á ábyrgð stjórnvalda. Af því leiddi að kærandi hefði verið sviptur réttinum til þess að njóta sömu meðferðar og aðrir einstaklingar sem ættu sambærilegan rétt til að endurheimta eign sem gerð hefði verið upptæk. Væri því um brot á 26. gr. SBSR gagnvart kæranda að ræða.

Nefndin taldi að tékkneska ríkið hefði brotið gegn 26. gr. SBSR gagnvart kæranda. Taldi nefndin að tékkneska ríkinu væri skylt að ætti að bjóða kæranda raunhæfa úrbót, þar á meðal að henni yrði gert kleift að koma kröfum sínum um endurheimt eigna eða bætur vegna eignaupptöku á framfæri, ef aðstæður væru með þeim hætti að ekki væri hægt að veita henni yfirráð umræddrar eignar á nýjan leik. Þá hvatti nefndin tékkneska ríkið til þess að endurskoða umrædda löggjöf og stjórnskipunarhætti þannig að tryggt væri að allir þegnar ríkisins væru jafnir fyrir lögunum og ættu rétt á sömu lagavernd.

Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna:
Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar
við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 26. júlí 2005
Kærumál nr. 945/2000

Marik gegn Tékklandi
Eignaupptaka. Mismunun á grundvelli ríksiborgararéttar. Brot gegn 26. gr. samningsins.

1. Atvik málsins

Kærandi máls þessa var Bohumir Marik, sem fæddist í Plzen í Tékklandi en fluttist búferlum til Bandaríkjanna árið 1969 og öðlast í kjölfarið bandarískan ríkisborgararétt. Vegna gagnkvæms samnings um veitingu ríkisborgararéttar á milli Bandaríkjanna og Tékkóslóvakíu frá 1928 missti kærandi við það að öðlast ríkisborgararétt í Bandaríkjunum ríkisborgararétt sinn í Tékkóslóvakíu, þar sem samningurinn útilokaði möguleikann á ríkisfangi í báðum ríkjum.

Mál kæranda varðar, líkt og mál Adams gegn Tékklandi (mál nr. 586/1994), Blazek o.fl. gegn Tékklandi (mál nr. 857/1999) og margra annarra samlanda þeirra, upptöku fyrrum kommúnistastjórnar Tékkóslóvakíu á eignum þeirra á árunum eftir yfirtöku kommúnista árið 1948. Eftir búferlaflutning til Bandaríkjanna var kærandi sakfelldur fyrir héraðsdómstólnum í Plzen fyrir þær sakir að flýja Tékkóslóvakíu og voru tvær fasteignir hans, í Letkov og Plzen, í kjölfarið gerðar upptækar.

Eftir hrun kommúnismans árið 1991 og skiptingu Tékkóslóvakíu í tvö sjálfstæð ríki, Tékkland og Slóvakíu, voru í löndunum sett lög sem höfðu það að markmiði að bæta tékkneskum ríkisborgurum, er farið höfðu frá Tékkóslóvakíu vegna þrýstings og ofsókna kommúnistastjórnarinnar, það tjón sem þeir urðu fyrir af þeim sökum. Nánar tiltekið var það markmið laganna að eignum, sem gerðar höfðu verið upptækar, yrði skilað til viðkomandi einstaklinga eða þeim greiddar bætur vegna þessa.

Kærandi gerði í kjölfarið kröfu um að endurheimta fasteignir sínar. Kröfu hans var hins vegar jafnan hafnað á þeim grundvelli að hann uppfyllti ekki skilyrði laga nr. 87/91, um að vera tékkneskur ríkisborgari annars vegar og með varanlega búsetu í Tékklandi hins vegar.

Eftir dóm Hæstaréttar Tékklands árið 1994, sem taldi skilyrði laga nr. 87/91 um varanlega búsetu ekki standast stjórnarskrá, var það skilyrði fellt úr lögunum. Jafnframt var tímafrestur, til þess að leggja fram kröfu um endurheimt eignar, framlengdur til 1. maí 1995. Hæstiréttur og stjórnskipunardómstóll Tékklands túlkuðu lagabreytingar í kjölfar dóms Hæstaréttar 1994 á þann hátt að einungis þeir einstaklingar, sem uppfyllt hefðu öll skilyrði laga nr. 87/91, utan skilyrðisins um varanlega búsetu á fyrra tímabilinu sem hægt var að setja kröfu um endurheimt fram, frá 1. apríl og 1. október 1991, gætu gert sams konar kröfu á framlengingartímabilinu til 1. maí 1995. Þar sem kærandi öðlaðist hins vegar ekki tékkneskan ríkisborgararétt á nýjan leik fyrr en í maí 1993 var kröfu hans um endurheimt eigna hafnað, á grundvelli þess að hann hefði ekki uppfyllt skilyrði laganna um ríkisborgararétt á þeim tíma sem hægt hefði verið að leggja fram kröfur um endurheimtingu, þ.e. til 1. október 1991.

2. Kæran

Kærandi taldi að tékkneska ríkið hefði brotið gegn 26. gr. alþjóðasamnings Sameinuðu Þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (sks. SBSR) þar sem lög nr. 87/91 settu það skilyrði að hann yrði að hafa verið tékkneskur ríkisborgari á þeim tíma sem hann gerði kröfu um að fá eignir sínar endurheimtar. Fæli þetta í sér ólögmæta mismunun í skilningi 26. gr. Benti kærandi á fyrri álit nefndarinnar máli sínu til stuðnings, nánar tiltekið mál Simunek gegn Tékklandi (mál nr. 516/1992) og mál Adams gegn Tékklandi, þar sem nefndin hefði komist að þeirri niðurstöðu að skilyrði laga nr. 87/91 um ríkisborgararétt væri byggt á ómálefnalegum sjónarmiðum og beiting þess leiddi til brota tékkneska ríkisins á 26. gr.

3. Athugasemdir aðildarríkis

Tékkneska ríkið benti á að kærandi hefði ekki misst tékkóslavneskan ríkisborgararétt vegna ákvarðana yfirvalda þar að lútandi, heldur vegna gagnkvæms samnings um veitingu ríkisborgararéttar á milli Bandaríkjanna og Tékkóslóvakíu, sem haldið hefði gildi sínu til ársins 1997, og gerði það að verkum að kærandi missti sjálfkrafa ríkisborgararétt sinn þegar hann fluttist búferlum til Bandaríkjanna. Þrátt fyrir samning þennan hefði kæranda, og öðrum þeim sem öðlast vildu tékkneskan ríkisborgararétt á nýjan leik, verið það kleift frá árinu 1990. Hafði kærandi sótt um ríkisborgararétt árið 1992 og orðið tékkneskur ríkisborgari á nýjan leik þann 20. maí 1993. Þannig hafði hann ekki verið ríkisborgari á þeim tíma, sem fyrrum eigendur fasteigna í Tékkóslóvakíu, hefðu getað lagt fram kröfu um endurheimt eigna sinna, þ.e. til 1.október 1991, og því ekki uppfyllt skilyrði laga nr. 87/91 á þeim tíma sem máli skipti.

Ríkið vísaði ennfremur til þeirra markmiða sem lögum nr. 87/91 hefði verið ætlað að ná. Í fyrsta lagi þá hefði lögunum verið ætlað að draga úr þeim neikvæðu afleiðingum sem óréttlæti kommúnistastjórnarinnar hefði haft í för með sér. Í öðru lagi að koma yfirgripsmiklum efnahagslegum endurbótum til framkvæmda sem allra fyrst, í því skyni að koma á fót virku og opnu markaðskerfi. Skilyrði laganna um ríkisborgarétt hefði verið sett í lögin til þess að hvetja eigendur fasteigna til þess að sjá með tilhlýðilegum hætti um eign sína, að einkavæðingarferlinu loknu.

Að lokum hélt tékkneska ríkið því fram, hvað varðaði kröfu kæranda um endurheimt fasteignar sinnar í Letkov, að þeirri kröfu hefði allt að einu verið hafnað, óháð skilyrði laga nr. 87/91 um ríkisborgararétt, þar sem innlendir dómstólar hefðu komist að þeirri niðurstöðu að kærandi hefði ekki fullnægt öðru skilyrði laganna, nánar tiltekið því að færa sönnur á að eigandi fasteignarinnar hefði öðlast eignarrétt yfir henni með ólögmætum hætti.

4. Niðurstaða nefndarinnar

4.1. Ákvörðun nefndarinnar um meðferðarhæfi

Í b. lið 2. mgr. 5. gr. valfrjálsu bókunarinnar er kveðið á um einstaklingur þurfi að hafa leitað allra tiltækra leiða til úrbóta innanlands áður en nefndin getur fjallað um mál hans. Tók nefndin fram í þessu samhengi að tékkneska ríkið hefði gert athugasemd sem laut að því að kæra málsins væri ekki meðferðarhæf, hvað varðaði kröfu kæranda um endurheimt fasteignar sinnar í Plzen, þar sem skilyrði b. liðar 2. mgr. 5. gr. hefðu ekki verið uppfyllt. Reisti ríkið málsástæðu þessa á því að kærandi hefði ekki virt tímafresti til þess að gera kröfu frammi fyrir tékkneska stjórnskipunardómstólnum vegna ákvörðunar yfirvalda um kröfu hans vegna fasteignarinnar í Plzen. Nefndin áréttaði að kæranda væri einungis skylt að leita þeirra úrbóta sem væru honum möguleg og líkleg til árangurs. Nefndin tók tillit til þess að stjórnskipunardómstóllinn hefði ekki fallist á málatilbúnað kæranda vegna eignar hans í Letkov og þess að aðrir einstaklingar í sambærilegri stöðu og kærandi hefðu áður véfengt ákvæði laga nr. 87/91 og talið þau ósamrýmanleg stjórnarskrá Tékklands, en án árangurs. Þá tók nefndin ennfremur tillit til fyrri niðurstaðna sinna í málum Adams gegn Tékklandi og Blazek gegn Tékklandi (mál nr. 857/1999), og þess að tékkneska ríkið hefði ekki gripið til viðeigandi ráðstafana á grundvelli þeirra. Í ljósi alls þessa taldi nefndin, að hefði kærandi lagt fram kæru við stjórnskipunardómstól Tékklands innan settra tímamarka, hefði málsókn sú ekki verið líkleg til þess að leiða til árangurs fyrir hann og því hefði ekki verið um raunhæfa úrbót að ræða í skilningi b. liðar 2. mgr. 5. gr. bókunarinnar að ræða. Kæran þótti því tæk til efnismeðferðar.

4.2. Álit um efnishlið málsins

Fyrir nefndinni lá að taka afstöðu til þess hvort beiting laga nr. 87/91 í tilviki kæranda hefði haft í för með sér að brotið hefði verið á rétti hans til þess að njóta jafnræðis gagnvart öðrum fyrir lögunum og til sömu lagaverndar án nokkurrar mismunar, þannig að í bága færi við 26. gr. SBSR. Ítrekaði nefndin, og vísaði um það til fyrri framkvæmdar sinnar, að ólík meðferð einstaklinga teldist ekki í öllum tilvikum ólögmæt mismunun, þar sem mismunun sem væri í samræmi við ákvæði samningsins og byggð væri á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum fæli ekki í sér ólögmæta mismunun í skilningi 26. gr. Taldi nefndin að skilyrðið um tékkneskan ríkisborgararétt væri hlutlægt en álitamál væri hins vegar hvort beiting þess í tilviki kæranda málsins hefði verið málefnaleg í ljósi aðstæðna málsins.

Nefndin vísaði til röksemdafærslu sinnar í málum Simunek, Adam og Blazek o.fl. gegn Tékklandi sem vörðuðu einstaklinga í sambærilegri stöðu og kærandi máls þessa, þ.e. einstaklinga sem farið hefðu frá Tékkóslóvakíu sökum pólitískra skoðana sinna og leitað skjóls fyrir pólitískum ofsóknum í öðrum ríkjum, þar sem þeir settust að til frambúðar og öðluðust nýjan ríkisborgarétt. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu í umræddum málum að tékkneska ríkið hefði gerst brotlegt gegn 26. gr., meðal annars með þeim röksemdum að þar sem aðildarríkið sjálft bæri ábyrgð á því að kærendur hefðu yfirgefið Tékkóslóvakíu á sínum tíma, yrði að telja að það væri í ósamræmi við SBSR að gera það að skilyrði fyrir því að kærendur gætu endurheimt eignir sínar, að þeir öðluðust tékkneskan ríkisborgararétt. Taldi nefndin röksemdafærslu þessa eiga við með sama hætti í máli kæranda. Nefndin taldi ennfremur að mismunun sem þessi á grundvelli ríkisborgararéttar gæti ekki talist réttlætanleg og málefnaleg, þar sem missir ríkisborgararéttar grundvallaðist á veru kæranda í öðru ríki, þar sem hann leitaði skjóls sem flóttamaður. Þá taldi nefndin að tékkneska ríkið hefði ekki fært fullnægjandi rök fyrir þeirri röksemd sinni, að skilyrðið um ríkisborgararétt hefði verið sett í lög nr. 87/91 til þess að tryggja að eigendur fasteigna myndu sjá með tilhlýðilegum hætti um eignir sínar, eftir að einkavæðingarferlinu í Tékklandi lauk.

Að lokum tókum nefndin til umfjöllunar þá málsástæðu ríkisins, sem laut að kröfu kæranda um endurheimt fasteignar sinnar í Letkov, en ríkið taldi að þeirri kröfu hefði allt að einu verið hafnað, óháð skilyrði laga nr. 87/91 um ríkisborgararétt, þar sem innlendir dómstólar hefðu komist að þeirri niðurstöðu að kærandi hefði ekki fært sönnur á að eigandi fasteignarinnar hefði öðlast eignarrétt yfir henni með ólögmætum hætti. Tók nefndin fram að innlendir dómstólar á lægri dómstigum hefðu vissulega reist niðurstöður sínar á þessum grundvelli. Hins vegar hefði Hæstiréttur í Tékklandi ekki byggt á þessu atriði í niðurstöðu sinni, þar sem staðfest var synjun yfirvalda á kröfu kæranda um endurheimt eignar sinnar, heldur einungis reist niðurstöðuna á því að kærandi hefði ekki uppfyllt skilyrðið um að vera tékkneskur ríkisborgari.

Nefndin taldi því að tékkneska ríkið hefði, með beitingu laga nr. 87/91 í tilviki kæranda, brotið gegn rétti hans samkvæmt 26. gr. SBSR. Taldi nefndin að tékkneska ríkinu væri skylt að bjóða kæranda raunhæfa úrbót, sem gæti falist í bótum vegna ólögmætrar eignaupptöku vegna fasteignar hans í Letkov og endurheimt eignayfirráða eða bóta vegna fasteignar hans í Plzen. Þá ítrekaði nefndin við tékkneska ríkið að það skyldi láta fara fram endurskoðun á umræddri löggjöf og tryggja að allir þegnar þess nytu hvors tveggja, jafnfræðis fyrir lögunum og jafnrar lagaverndar án nokkurrar mismununar.

Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna:
Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar
við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 1. nóvember 2005
Kærumál nr. 1054/2002

Kriz gegn Tékklandi
Eignaupptaka. Mismunun á grundvelli ríksiborgararéttar. Brot gegn 26. gr. samningsins.

1. Atvik málsins

Kærandi máls þessa var Zdenek Kriz, sem fæddist í Vysoké Mýto í Tékklandi en fluttist búferlum til Bandaríkjanna árið 1968 ásamt eiginkonu sinni og tveimur sonum og öðlaðist í kjölfarið bandarískan ríkisborgararétt. Í byrjun sjöunda áratugarins gerðu yfirvöld í Tékkóslóvakíu eignir kæranda, fasteign hans í fjölbýlishúsi í Prag og fyrirtæki, upptækar. Vegna gagnkvæms samnings um veitingu ríkisborgararéttar á milli Bandaríkjanna og Tékkóslóvakíu frá 1928 missti kærandi við það að öðlast ríkisborgararétt í Bandaríkjunum ríkisborgararétt sinn í Tékkóslóvakíu, þar sem samningurinn útilokaði möguleikann á ríkisfangi í báðum ríkjum.

Mál kæranda varðar, líkt og mál Adams gegn Tékklandi (mál nr. 586/1994), Blazek o.fl. gegn Tékklandi (mál nr. 857/1999), Marik gegn Tékklandi (mál nr. 945/2000) og margra annarra samlanda þeirra, upptöku fyrrum kommúnistastjórnar Tékkóslóvakíu á eignum þeirra á árunum eftir yfirtöku kommúnista árið 1948. Eftir búferlaflutning til Bandaríkjanna var kærandi sakfelldur fyrir héraðsdómstóli í Tékkóslóvakíu fyrir þær sakir að flýja landið.

Eftir hrun kommúnismans árið 1991 og skiptingu Tékkóslóvakíu í tvö sjálfstæð ríki, Tékkland og Slóvakíu, voru í löndunum sett lög sem höfðu það að markmiði að bæta tékkneskum ríkisborgurum, sem farið höfðu frá Tékkóslóvakíu vegna þrýstings og ofsókna kommúnistastjórnarinnar, það tjón sem þeir urðu fyrir af þeim sökum. Nánar tiltekið var það markmið laganna að eignum, sem gerðar höfðu verið upptækar, yrði skilað til viðkomandi einstaklinga eða þeim greiddar bætur vegna þessa. Kærandi gerði í kjölfarið kröfu um að endurheimta eignir sínar.

Samkvæmt lögum nr. 87/91 þurfti einstaklingur, sem gerði kröfu um endurheimt eignar, að vera tékkneskur ríkisborgari og einnig að hafa varanlega búsetu í Tékklandi. Síðara skilyrðið var hins vegar numið úr lögunum eftir dóm Hæstaréttar Tékklands árið 1994, sem taldi skilyrðið ekki standast stjórnarskrá. Jafnframt var tímafrestur, til þess að leggja fram kröfu um endurheimt eignar, framlengdur til 1. maí 1995. Hæstiréttur og stjórnskipunardómstóll Tékklands túlkuðu lagabreytingar í kölfar dóms Hæstaréttar 1994 á þann hátt að einungis þeir einstaklingar, sem uppfyllt höfðu öll skilyrði laga nr. 87/91, utan skilyrðisins um varanlega búsetu, á fyrra tímabilinu sem hægt var að setja kröfu um endurheimt fram, frá 1. apríl og 1. október 1991, gætu gert sams konar kröfu á framlengingartímabilinu til 1. maí 1995. Þar sem kærandi öðlaðist hins vegar ekki tékkneskan ríkisborgararétt á nýjan leik fyrr en í júlí 1995 var kröfu hans um endurheimt eigna sinna hafnað, á grundvelli þess að hann hefði ekki uppfyllt skilyrði laganna um ríkisborgararétt á þeim tíma sem hægt væri að leggja fram kröfur um endurheimt, þ.e. til 1. október 1991.

2. Kæran

Kærandi taldi að tékkneska ríkið hefði brotið gegn 26. gr. alþjóðasamnings Sameinuðu Þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (sks. SBSR) þar sem lög nr. 87/91 settu honum það skilyrði að hann yrði að hafa verið tékkneskur ríkisborgari á þeim tíma sem hann gerði kröfu um að fá eignir sínar endurheimtar. Fæli þetta í sér ólögmæta mismunun í skilningi 26. gr. Benti kærandi á fyrri álit nefndarinnar máli sínu til stuðnings, nánar tiltekið mál Simunek, Adams, Blazek o.fl. og Marik gegn Tékklandi, þar sem nefndin hafði komist að þeirri niðurstöðu að skilyrði laga nr. 87/91 um ríkisborgararétt væri byggt á ómálefnalegum sjónarmiðum og beiting þess leiddi til brota tékkneska ríkisins á 26. gr.

3. Athugasemdir aðildarríkis

Tékkneska ríkið benti á að kærandi hefði ekki öðlast tékkneskan ríkisborgararétt á nýjan leik fyrr en þann 25. september 1997. Þannig hafi hann ekki verið ríkisborgari á þeim tíma, sem fyrrum eigendur fasteigna í Tékkóslóvakíu, gátu lagt fram kröfu um endurheimt eigna sinna, þ.e. til 1.október 1991, og því ekki uppfyllt skilyrði laga nr. 87/91 á þeim tíma sem máli skipti.

Þá benti ríkið á málatilbúnað sinn í áðurnefndum málum Simunek, Adams, Blazek o.fl. og Marik þar sem meðal annars kæmi fram að annað höfuðmarkmiða laga nr. 87/91 hefði verið að draga úr þeim neikvæðu afleiðingum sem óréttlæti kommúnistastjórnarinnar hefði haft í för með sér. Áréttaði ríkið að það hefði ekki í hyggju að breyta afstöðu sinni hvað varðaði skilyrði laganna um tékkneskan ríkisborgararétt. Vísað ríkið til dóms stjórnskipunardómstóls Tékklands í þessu samhengi, sem komist hefði að þeirri niðurstöðu að skilyrði laga nr. 87/91 væru byggð á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum, og fælu þannig ekki í sér ólögmæta mismunun. Breyting eða afnám á skilyrðum laga nr. 87/19 myndi ennfremur, að mati ríkisins, hafa áhrif á efnahagslegan og pólitískan stöðugleika, auk þess að koma ójafnvægi á lagalegt umhverfi landsins.

4. Niðurstaða nefndarinnar

Fyrir nefndinni lá að taka afstöðu til þess hvort beiting laga nr. 87/91 í tilviki kæranda hefði haft í för með sér að honum hefði verið mismunað með ólögmætum hætti og tékkneska ríkið þannig brotið gegn 26. gr. SBSR. Ítrekaði nefndin, og vísaði um það til fyrri framkvæmdar sinnar, að ólík meðferð einstaklinga teldist ekki í öllum tilvikum ólögmæt mismunun, þar sem mismunun sem væri í samræmi við ákvæði samningsins og byggð væri á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum fæli ekki í sér ólögmæta mismunun í skilningi 26. gr. Taldi nefndin að skilyrðið um tékkneskan ríkisborgararétt væri málefnalegt en spurningin væri hins vegar hvort beiting þess í tilviki kæranda málsins hefði verið málefnaleg í ljósi aðstæðna málsins.

Nefndin vísaði til röksemdafærslu sinnar í málum Simunek, Adam, Blazek o.fl. og Marik gegn Tékklandi sem vörðuðu einstaklinga í sambærilegri stöðu og kærandi, þ.e. einstaklinga sem farið hefðu frá Tékkóslóvakíu sökum pólitískra skoðana sinna og leitað skjóls fyrir pólitískum ofsóknum í öðrum ríkjum, þar sem þeir settust að til frambúðar og öðluðust nýjan ríkisborgarétt. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu í umræddum málum að tékkneska ríkið hefði gerst brotlegt gegn 26. gr., meðal annars þeim röksemdum að þar sem aðildarríkið sjálft bæri ábyrgð á því að kærendur hefðu yfirgefið Tékkóslóvakíu á sínum tíma, yrði að telja að það væri í ósamræmi við SBSR að gera það að skilyrði fyrir því að kærendur gætu endurheimt eignir sínar eða fengið bætur vegna ólögmætrar eignaupptöku, að þeir öðluðust tékkneskan ríkisborgararétt. Taldi nefndin röksemdafærslu þess í fyrri málum eiga við með sama hætti í máli kæranda.

Nefndin taldi því að tékkneska ríkið hefði, með beitingu laga nr. 87/91 í tilviki kæranda, brotið gegn rétti hans samkvæmt 26. gr. SBSR. Taldi nefndin að tékkneska ríkinu væri skylt að bjóða kæranda raunhæfa úrbót, sem gæti falist í bótum vegna ólögmætrar eignaupptöku á eignum hans, ef ekki væri mögulegt að veita honum yfirráð þeirra á nýjan leik. Þá ítrekaði nefndin við tékkneska ríkið að það skyldi láta fara fram endurskoðun á umræddri löggjöf og tryggja að allir þegnar þess nytu hvors tveggja, jafnfræðis fyrir lögunum og jafnrar lagaverndar án nokkurrar mismununar.

Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna:
Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar
við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 31. október 2007 
Kærumál nr. 1533/2006

Upprunalegt skjal

Zdenek Ondracka gegn Tékklandi
Brot gegn 26. gr. samningsins. Mismunun á grundvelli ríkisborgararéttar. Eignaupptaka.

1. Atvik málsins

Kærendur málsins voru Zdenek Ondracka og Milada Ondracka, bandarískir og tékkneskir ríkisborgarar, fæddir árið 1929 og 1933 í fyrrum Tékkóslóvakíu en búsettir í Bandaríkjunum.

Á tímum kommúnistastjórnarinnar keyptu kærendur sér land í Uherske Hradiste í Tékkóslóvakíu, þar sem þeir byggðu hús með aðstoð fjölskyldu sinnar. Sökum pólitískrar undirokunar kommúnista yfirgáfu kærendur Tékkóslóvakíu til að ferðast til Búlgaríu og Júgóslavíu. Kærendur sneru ekki aftur til Tékkóslóvakíu en fluttust til Bandaríkjanna án leyfis stjórnvalda heima fyrir. Árið 1982 voru kærendur dæmdir til fangelsisvistar, í fjarveru þeirra, fyrir að hafa ólöglega flúið land og fasteign þeirra gerð upptæk af Tékkóslóvakíska ríkinu. Árið 1988 fengu kærendur bandarískan ríkisborgararétt. Við það að öðlast ríkisborgararétt í Bandaríkjunum, misstu kærendur ríkisborgararétt sinn í Tékkóslóvakíu, samkvæmt gagnkvæmum samningi frá árinu 1928 um veitingu þegnréttar á milli Bandaríkjanna og Tékkóslóvakíu, þar sem samningurinn útilokaði möguleikann á tvöföldu ríkisfangi milli þessara ríkja.

Eftir hrun kommúnismans árið 1991 og skiptingu Tékkóslóvakíu í tvö sjálfstæð ríki, Tékkland og Slóvakíu, voru í löndunum sett lög, sem höfðu það að markmiði að bæta tékkneskum ríkisborgurum, er farið höfðu frá Tékkóslóvakíu vegna þrýstings og ofsókna kommúnistastjórnarinnar, það tjón sem þeir höfðu orðið fyrir af þeim sökum. Nánar tiltekið var það markmið laganna að eignum, sem gerðar höfðu verið upptækar, yrði skilað til viðkomandi einstaklinga eða þeim greiddar bætur. Samkvæmt lögum nr. 87/1991 var það skilyrði að aðili, sem krafðist bóta vegna upptöku eigna, hefði annars vegar fasta búsetu í Tékklandi og hins vegar að hann væri tékkneskur ríkisborgari. Þann 12. júlí árið 1994 komst tékkneski Stjórnskipunardómstóllinn að þeirri niðurstöðu að skilyrði laganna um varanlega búsetu stæðist ekki stjórnarskrá og var það skilyrði fjarlægt úr lögunum. Eftir sem áður urðu kærendur og aðrir kröfuhafar að uppfylla skilyrðið um að hafa tékkneskan ríkisborgararétt.

Árið 1991 komst tékkneskur dómstóll að þeirri niðurstöðu, í samræmi við lög nr. 119/90, að kærendur ættu að fá tjón sitt bætt og sakfellisdómur yfir þeim ógiltur. Kærendur kröfðust þess fyrir héraðsdómi í Uherske Hradiste að fá fasteign sína aftur. Dómstóllinn hafnaði kröfum þeirra á þeim grundvelli að kærendur væru ekki tékkneskir ríkisborgarar. Kærendur áfrýjuðu ekki málinu, þar sem þeim var ráðlagt að gera það ekki, það væri vonlaust. Ástæðan var sú að Stjórnskipunarstóllinn hafði þegar úrskurðað í sams konar málum að skilyrðið um tékkneskan ríkisborgararétt stæðist stjórnarskrá.

2. Kæran

Kærendur töldu að tékkneska ríkið hefði brotið gegn 26. gr. SBSR þar sem tékkneska ríkið hafnaði kröfum kærenda um að fá eignir sínar endurheimtar á grundvelli ríkisborgararéttar. Máli sínu til stuðnings, vísuðu kærendur til niðurstöðu nefndarinnar í málum Adam gegn Tékklandi, Blazek gegn Tékklandi, Marik gegn Tékklandi og Kriz gegn Tékklandi, þar sem nefndin komst að þeirri niðurstöðu að tékkneska ríkið hefði brotið gegn 26. gr. samningsins.

3. Athugasemdir aðildarríkis

Aðildarríkið taldi að mál kærenda væri ekki tækt til meðferðar sökum þess að kærendur hefðu dregið það of lengi að leggja erindið fyrir nefndina til athugunar. Kærendur lögðu mál sitt fram fyrir nefndina 17. apríl 2006, 8 árum og 2 mánuðum eftir að niðurstaða lá fyrir í máli þeirra fyrir dómstólum innan lands. Aðildarríkið taldi að þessi töf yrði að teljast misnotkun á réttinum til að leggja mál fyrir nefndina skv. 3. gr. valfrjálsu bókunarinnar við samninginn.

Aðildarríkið benti á að kærendur fengu ekki tékkneskt ríkisfang fyrr en 23. júní 2000. Aðildarríkið taldi að kærendur hefðu ekki hlotið annars konar meðferð en aðrir sem ekki sóttu um tékkneskt ríkisfang fyrir tilsettan dag, samkvæmt lögum frá 1. október 1991. Aðildarríkið taldi því að kærendur hefðu fyrirgert rétti sínum til að endurheimta eignir samkvæmt lögum nr. 87/1991.

Aðildarríkið vísaði m.a. til fyrri athugasemda í fyrri málum gegn því fyrir nefndinni, þar sem útskýrt var hverjar pólitískar ástæður og lagaskilyrði er lytu að beiðni um endurheimtingu eigna samkvæmt lögum.

Aðildarríkið kvað tilgang umræddra laga hafa verið tvenns konar. Í fyrsta lagi að draga úr enn frekara óréttlæti samkvæmt fyrrum kommúnistastjórn og í öðru lagi að leyfa almennar efnahagsumbætur til að stuðla að bættum markaðsbúskap. Þar sem ekki var talið unnt að bæta úr öllu óréttlæti fyrri ára voru sett skilyrði, m.a. skilyrðið um ríkisborgararétt, sem átti að sjá til þess að hugsað yrði af kostgæfni um eignir sem skilað væri.

4. Niðurstaða nefndarinnar

4.1. Ákvörðun nefndarinnar um meðferðarhæfi

Í b. lið 2. mgr. 5. gr. valfrjálsu bókunarinnar er kveðið á um að einstaklingur þurfi að hafa leitað allra tiltækra leiða til úrbóta innan lands áður en nefndin getur fjallað um mál hans.

Nefndin benti á að aðildarríkið hefði ekki mótmælt þeirri röksemd kærenda að í þeirra máli hefðu ekki verið neinar tiltækar leiðir til úrbóta innan lands. Nefndin benti á að eingöngu þyrfti að leita tiltækra leiða. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að í máli kærenda hefði svo ekki verið, þar sem æðsti dómstóll landsins (Stjórnskipunardómstóll Tékklands) hafði úrskurðað í sams konar máli og þar með útilokað að dómstóll á lægra stigi kæmist að annarri niðurstöðu.

Varðandi rök aðildarríkisins um að framlagning kærunnar fyrir nefndina hefði jafnast á við misbeitingu af hálfu kærenda á 3. gr. valfrjálsu bókunarinnar við samninginn, þar sem kærendur biðu í átta ár og tvo mánuði með að fara með mál sitt fyrir nefndina, frá því að úrskurðað var í máli þeirra innan lands. Nefndin benti á að í valfrjálsu bókuninni við SBSR væru engin ákvæði um tímafresti til að leggja fram erindi og að töf á framlagningu erindis, ein og sér fæli ekki í sér misnotkun á réttindum til að leggja fram erindi fyrir nefndina. Nefndin taldi töf þessa af hálfu kærenda ekki hafa verið svo óeðlilega að það jafnaðist á við misnotkun á rétti aðila til að leggja fram erindi. Nefndin taldi því málið tækt til efnismeðferðar.

4.2. Álit um efnishlið málsins

Álitefni það er nefndin þurfti að leysa úr var hvort beiting laga nr. 87/1991 við meðferð máls kæranda bryti í bága við bannið við mismunun í 26. gr. og þá tryggingu sem þar væri veitt öllum mönnum um vernd gegn mismunun.

Nefndin benti á að mismunun í skilningi 26. gr. fælist ekki í sérhverri mismunun, en til að teljast lögmæt í skilningi 26. gr. yrði hún að styðjast við málefnaleg og hlutlæg sjónarmið og stefna að markmiði sem væri lögmætt samkvæmt samningnum.

Nefndin vísaði til niðurstöðu í málum Adam, Blazek, Marik, Kriz og Gratzinger, þar sem því var haldið fram að brotið hefði verið á 26. gr. samningsins: kærendur í því máli og margir aðrir í sambærilegri stöðu yfirgáfu Tékkóslóvakíu vegna stjórnmálaskoðanna sinna og sóttu um pólitískt hæli í öðrum löndum, þar sem þeir öðluðust á endanum nýjan ríkisborgararétt. Nefndin tók það með í reikninginn í því máli að aðildarríkið hefði verið ábyrgt fyrir brottför kærenda og því væri það í ósamræmi við samninginn að krefjast þess að kærendur væru tékkneskir ríkisborgarar til að fá eignir sínar aftur eða skaðabætur þess í stað. Nefndin benti á að krafan um ríkisborgararétt hefði í þessu máli ekki verið talin málefnaleg.

Nefndin taldi að fordæmi þetta ætti við um mál kærenda. Nefndin benti á að aðildarríkið hefði staðfest að eina ástæða þess að kröfu kærenda hefði verið hafnað fyrir dómstólum innan lands var að skilyrðið um tékkneskan ríkisborgararétt hefði verið ekki uppfyllt. Af þeim sökum taldi nefndin að skilyrðið um tékkneskan ríkisborgararétt í lögum nr. 87/1991 til að kærendur gætu fengið eignir sínar aftur væri í andstöðu við 26. gr. samningsins.

Taldi nefndin að tékkneska ríkinu væri skylt, í samræmi við a. lið 3. mgr. 2. gr. samningsins, að bjóða kærendum raunhæfa úrbót ásamt skaðabótum vegna eignaupptökunnar ef aðstæður væru með þeim hætti að ekki væri hægt að veita þeim yfirráð eigna á nýjan leik. Þá hvatti nefndin tékkneska ríkið til þess að endurskoða umrædda löggjöfa sína þannig að hvorki lögin sjálf né beiting þeirra myndu fela í sér ólögmæta mismunun.

Nefndin benti á að þegar ríki gerast aðilar að valfrjálsu bókuninni við samninginn, viðurkenna þau hæfni nefndarinnar til að álykta um brot á samningnum. Aðildarríkin hefðu að sama skapi tekið á sig þá skyldu að tryggja öllum einstaklingum innan ríkisins áhrifaríkar og aðfararhæfar úrbætur þegar um brot væri að ræða. Nefndin óskaði eftir því að aðildarríkið sendi innan 180 daga, upplýsingar um úrbætur þær sem gerðar hefðu verið í ljósi niðurstöðu nefndarinnar.

Einn nefndarmaður skilaði séráliti.

HMP

Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna:
Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 24. júlí 2007
Kærumál nr. 1447/2006

Polacková og Polacek gegn Tékklandi
Brot gegn 26. gr. samningsins. Mismunun á grundvelli ríkisborgararéttar. Eignaupptaka.

1. Atvik málsins

Kærendur málsins voru Libuse Polacková og Joseph Polacek báðir bandarískir ríkisborgarar, fæddir árið 1925 í Tékkóslóvakíu. Í ágúst árið 1968 flúðu kærendur frá Tékkóslavakíu. Þeir héldu til í Frakklandi áður en þeir fluttust til Bandaríkjanna árið 1970, þar sem þeir sóttu um bandarískan ríkisborgararétt. Við það að öðlast ríkisborgararétt í Bandaríkjunum, misstu kærendur ríkisborgararétt sinn í Tékkóslóvakíu, samkvæmt gagnkvæmum samningi frá árinu 1928 um veitingu þegnréttar á milli Bandaríkjanna og Tékkóslóvakíu, þar sem samningurinn útilokaði möguleikann á tvöföldu ríkisfangi milli þessara ríkja.

Á sama tíma í Tékkóslavakíu voru kærendur dæmdir til fangelsisvistar, í fjarveru þeirra, fyrir að hafa með ólögmætum hætti flúið land og fasteign þeirra (fjallakofi og lóð) gerð upptæk af ríkinu. Árið 1975 var fasteignin seld til þekkts meðlims kommúnistaflokksins.

Eftir hrun kommúnismans árið 1991 og skiptingu Tékkóslóvakíu í tvö sjálfstæð ríki, Tékkland og Slóvakíu, voru í löndunum sett lög sem höfðu það að markmiði að bæta tékkneskum ríkisborgurum, er farið höfðu frá Tékkóslóvakíu vegna þrýstings og ofsókna kommúnistastjórnarinnar, það tjón sem þeir höfðu orðið fyrir af þeim sökum. Nánar tiltekið var það markmið laganna að eignum, sem gerðar höfðu verið upptækar, yrði skilað til viðkomandi einstaklinga eða þeim greiddar bætur.

Samkvæmt lögum nr. 87/1991 var það skilyrði að aðili, sem krafðist bóta vegna upptöku eigna, hefði annars vegar fasta búsetu í Tékklandi og hins vegar að hann væri tékkneskur ríkisborgari. Þann 12. júlí árið 1994 komst tékkneski Stjórnskipunardómstóllinn að þeirri niðurstöðu að skilyrði laganna um varanlega búsetu stæðist ekki stjórnarskrá og var það skilyrði fjarlægt úr lögunum. Einnig þurfti viðkomandi aðili að véfengja eignarheimildir þess sem þá var eigandi fasteignarinnar.

Þann 12. júlí árið 1994 komst tékkneski Stjórnskipunardómstólinn að þeirri niðurstöðu að skilyrði laganna um varanlega búsetu stæðist ekki stjórnarskrá, var það skilyrði fjarlægt úr lögunum. Eftir sem áður urðu kærendur og aðrir kröfuhafar að uppfylla skilyrðið um tékkneskan ríkisborgararétt.Kærendur gerðu kröfu um endurheimtingu á eignum sínum og fóru fram á það við þáverandi eigendur að þeir skiluðu fasteigninni af fúsum og frjálsum vilja. Þáverandi eigendur féllust ekki á þá kröfu kærenda. Í kjölfarið höfðuðu kærendur mál gegn þeim fyrir Tékkneskum dómstólum. Á öllum dómstigum var kröfum kærenda hafnað á þeim grundvelli að þeir uppfylltu ekki skilyrði laganna um tékkneskan ríkisborgararétt.

Kærendur héldu því fram að þúsundir Tékka, sem höfðu haldið tékkóslóvakískum ríkisborgararétti sínum en höfðu flúið til landa sem ekki væru með reglur um tvöfaldan ríkisborgararétt, hefðu endurheimt eignir sínar.

2. Kæran

Kærendur töldu að tékkneska ríkið hefði brotið gegn 26. gr. SBSR þar sem tékkneska ríkið hafnaði kröfum kærenda um að fá eignir sínar endurheimtar á grundvelli ríkisborgararéttar.

3. Athugasemdir aðildarríkis

Aðildarríkið taldi að mál kærenda væri ekki tækt til meðferðar sökum þess að kærendur hefðu dregið það of lengi að leggja erindið fyrir nefndina til athugunar, þ.e. í 8 ár og 3 mánuði frá því að dómur féll í máli þeirra innan lands. Aðildarríkið taldi að þessi töf yrði að teljast misnotkun á réttinum til að leggja mál fyrir nefndina skv. 3. gr. valfrjálsu bókunarinnar við samninginn.

Þrátt fyrir að engir tímafrestir væru í valfrjálsu bókuninni við samninginn um hvenær leggja mætti mál fyrir nefndina, vísaði aðildarríkið í þessu sambandi á tímafrest þann er væri að finna í alþjóðasamningnum um afnám alls kynþáttamisréttis, sem væri 6 mánuðir frá því að leitað hefði verið allra tiltækra leiða til úrbóta innan lands.

Aðildarríkið vísaði m.a. til fyrri athugasemda í fyrri málum gegn því fyrir nefndinni, þar sem útskýrt var hverjar væru pólitískar ástæður og lagaskilyrði er lytu að beiðni um endurheimtingu eigna samkvæmt lögum.

Tilgang þessara laga kvað aðildarríkið hafa verið að draga úr enn frekara óréttlæti samkvæmt fyrrum kommúnistastjórn og að leyfa almennar efnahagsumbætur til að stuðla að bættum markaðsbúskap. Lög um endurheimtingu eigna voru meðal þeirra laga er sett voru til að gjörbreyta öllu þjóðfélaginu. Skilyrðið um tékkneskan ríkisborgararétt var sett með það að markmiði að tryggja eftirlit með þeim eignum sem skilað væri.

Aðildarríkið skírskotaði jafnframt til niðurstöðu stjórnskipunardómstólsins sem staðfesti að lögin væru ekki í andstöðu við stjórnarskrá. Einnig hélt aðildarríkið því fram að kærendur sjálfir væru ábyrgir fyrir því að hafa ekki fengið eignir sínar endurheimtar þar sem þeir sóttu ekki um tékkneskan ríkisborgararétt innan tilsetts frests

4. Niðurstaða nefndarinnar

4.1. Ákvörðun nefndarinnar um meðferðarhæfi

Varðandi þau rök aðildarríkisins að framlagning á kærunni fyrir nefndina hefði jafnast á við misbeitingu af hálfu kærenda á 3. gr. valfrjálsu bókunarinnar við samninginn, benti nefndin á að árið 1997 hefði verið tekin ákvörðun í málinu fyrir stjórnskipunardómstóli Tékklands og kærendur hefðu því næst farið með mál sitt fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sem vísaði málinu frá þann 10. júlí árið 2002 og þann 20. desember árið 2005 hefðu kærendur lagt fram erindi fyrir nefndina. Nefndin benti á að í valfrjálsu bókuninni við samninginn væru engin ákvæði um tímafresti til að leggja fram erindi og að töf á framlagningu erindis ein og sér fæli ekki í sér misnotkun á réttindum til að leggja fram erindi fyrir nefndina. Nefndin taldi töf þessa af hálfu kærenda ekki hafa verið svo óeðlilega að það jafnaðist á við misnotkun á rétti aðila til að leggja fram erindi. Nefndin taldi því málið tækt til efnismeðferðar.

4.2. Álit um efnishlið málsins

Álitefnið sem nefndin þurfti að leysa úr var hvort beiting laga nr. 87/1991 við meðferð máls kærenda bryti í bága við bannið við mismunun í 26. gr. og þá tryggingu sem þar væri veitt öllum mönnum um vernd gegn mismunun.

Nefndin benti á að mismunun í skilningi 26. gr. fælist ekki í sérhverri aðgreiningu, en til að teljast lögmæt mismunun í skilningi 26. gr. yrði hún að styðjast við málefnaleg og hlutlægum sjónarmið og stefna að markmiði er lögmætt væri samkvæmt samningnum.

Nefndin vísaði til niðurstöðu í máli Simunek, Adam, Blazek og Des Fours Walderode, þar sem því var haldið fram að brotið hefði verið á 26. gr. samningsins: ,,kærendur í því máli og margir aðrir í sambærilegri stöðu yfirgáfu Tékkóslavakíu vegna stjórnmálaskoðanna sinna og sóttu um pólitískt hæli í öðrum löndum, þar sem þeir öðluðust á endanum nýjan ríkisborgararétt. Nefndin tók það með í reikninginn í því máli að aðildarríkið hefði verið ábyrgt fyrir brottför kærenda og því væri það í ósamræmi við samninginn að krefjast þess að kærendur væru tékkneskir ríkisborgarar til að fá eignir sínar aftur eða skaðabætur í þeirra stað. Nefndin benti á að krafan um ríkisborgararétt hefði í þessu máli ekki verið talin málefnaleg.

Nefndin taldi að fordæmi þetta ætti við um kærendur þessa máls. Nefndin benti á að aðildarríkið hefði staðfest að eina ástæða þess að kröfu kærenda hefði verið hafnað fyrir dómstólum innan lands, væri að skilyrðið um tékkneskan ríkisborgararétt hefði ekki verið uppfyllt. Af þeim sökum taldi nefndin að skilyrðið um tékkneskan ríkisborgararétt í lögum nr. 87/1991 væri í andstöðu við 26. gr. samningsins.

Taldi nefndin að tékkneska ríkinu væri skylt, í samræmi við a. lið 3. mgr. 2. gr. samningsins, að bjóða kærendum raunhæfa úrbót ásamt skaðabótum vegna eignaupptöku ef aðstæður væru með þeim hætti að ekki væri hægt að veita þeim yfirráð eigna á nýjan leik. Þá hvatti nefndin tékkneska ríkið til þess að endurskoða umrædda löggjöfa sína þannig að hvorki lögin sjálf né beiting þeirra myndu fela í sér ólögmæta mismunun.

Nefndin benti á að þegar ríki gerast aðilar að valfrjálsu bókuninni við samninginn, viðurkenna þau hæfni nefndarinnar til að álykta um brot á samningnum. Aðildarríkin hefðu að sama skapi tekið á sig þá skyldu að tryggja öllum einstaklingum innan ríkisins áhrifaríkar og aðfararhæfar úrbætur þegar um brot væri að ræða. Nefndin óskaði eftir því að aðildarríkið sendi innan 180 daga, upplýsingar um úrbætur þær sem gerðar hefðu verið í ljósi niðurstöðu nefndarinnar.

HMP

Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna:
Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar
við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 24. júlí 2007
Kærumál nr. 1463/2006

Gratzinger gegn Tékklandi
Brot gegn 26. gr. samningsins. Mismunun á grundvelli ríkisborgararéttar. Eignaupptaka.

1. Atvik málsins

Kærendur málsins voru Peter Gratzinger og Eva Gratzinger fæddir árið 1949 og tékkneskir að uppruna, bæði með tvöfaldan ríkisborgararétt, bandarískan og tékkneskan. Árið 1978 keyptu kærendur hús í Liberec í fyrrum Tékkóslóvakíu. Þar bjuggu þau til ársins 1982 er þau flúðu land. Þau fengu stöðu flóttamanna í Bandaríkjunum árið 1983 sökum pólitískra ofsókna af hálfu yfirvalda heima fyrir. Á sama tíma í Tékkóslavakíu voru kærendur dæmdir til fangelsisvistar, í fjarveru þeirra, fyrir að hafa flúið land á ólögmætan hátt og fasteign þeirra gerð upptæk af ríkinu. Eignarhald á fasteign þeirra var fært yfir til ríkisins og seld öðrum, ásamt því að þau misstu ríkisborgararétt sinn í Tékkóslóvakíu samkvæmt gagnkvæmum samning, sem var þá í gildi milli Bandaríkjanna og Tékkóslóvakíu, um veitingu þegnréttar.

Eftir hrun kommúnismans árið 1991 og skiptingu Tékkóslóvakíu í tvö sjálfstæð ríki, Tékkland og Slóvakíu, voru í löndunum sett lög nr. 119/1990, sem höfðu það að markmiði að bæta tékkneskum ríkisborgurum, er farið höfðu frá Tékkóslóvakíu vegna þrýstings og ofsókna kommúnistastjórnarinnar, það tjón sem þeir höfðu orðið fyrir af þeim sökum. Nánar tiltekið var það markmið laganna að eignum, sem gerðar höfðu verið upptækar, yrði skilað til viðkomandi einstaklinga eða þeim greiddar bætur vegna þessa.

Samkvæmt lögum nr. 87/1991 var það skilyrði að aðili, sem krafðist bóta vegna upptöku eigna, hefði annars vegar fasta búsetu í Tékklandi og hins vegar að hann væri tékkneskur ríkisborgari. Einnig þurfti viðkomandi aðili að vefengja eignarheimildir þess sem þá var eigandi fasteignarinnar.

Þann 12. júlí 1994 komst Hæstiréttur Tékklands að þeirri niðurstöðu að skilyrði laganna um varanlega búsetu stæðist ekki stjórnarskrá, og í kjölfarið var það skilyrði fjarlægt úr lögunum. Eftir sem áður urðu kærendur og aðrir kröfuhafar að uppfylla skilyrðið um tékkneskan ríkisborgararétt.

Kærendur gerðu kröfu um að endurheimta eignir sínar og fóru fram á það við þáverandi eigendur að þeir skiluðu fasteigninni af fúsum og frjálsum vilja. Þáverandi eigendur féllust ekki á kröfu kærenda. Í kjölfar þess höfðuðu kærendur mál gegn þeim og fóru með mál sitt fyrir dómstóla í Tékklandi. Á öllum dómstigum var kröfum kærenda hafnað á þeim grundvelli að þau uppfylltu ekki skilyrði laganna um tékkneskan ríkisborgararétt.

Kærendur bentu á það, á öllum dómstigum, að mismunun á grundvelli ríkisborgararéttar væri ólögmæt í skilningi SBSR og vísuðu til álits nefndarinnar í máli Simunek et al gegn Tékklandi.

2. Kæran

Kærendur töldu að tékkneska ríkið hefði brotið gegn 26. gr. SBSR þar sem það hafnaði kröfum kærenda um að fá eignir sínar endurheimtar á grundvelli ríkisborgararéttar.

3. Athugasemdir aðildarríkis

Aðildarríkið benti á það, varðandi skilyrðið um ríkisborgararétt, að þeir sem vildu gátu sótt um tékkneskan ríkisborgararétt á árunum 1990 og 1991. Í reynd hefðu allar umsóknir milli áranna 1990 og 1992 verið samþykktar af innanríkisráðuneytinu og ekkert benti til þess að kærendur hefðu lagt fram umsókn.

Aðildarríkið taldi að mál kærenda væri ekki tækt til meðferðar sökum þess að kærendur hefðu dregið það of lengi að leggja erindið fyrir nefndina til athugunar, kærendur hefðu beðið með að leggja erindið fram í 3 ár og 9 mánuði frá því að niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu lá fyrir. Aðildarríkið taldi að þessi töf yrði að teljast misnotkun á réttinum til að leggja mál fyrir nefndina skv. 3. gr. valfrjálsu bókunarinnar við samninginn. Þrátt fyrir að engir tímafrestir væru um hvenær leggja mætti mál fyrir nefndina, taldi aðildarríkið að eðlileg og hlutlæg útskýring þyrfti að liggja fyrir til að réttlæta slíka töf.

Hvað varðaði efnishlið málsins vísaði aðildarríkið til fyrri athugasemda sinna í fyrri málum gegn því fyrir nefndinni, þar sem útskýrt var hverjar væru pólitískar ástæður og lagaskilyrði, er lytu að beiðni um endurheimtingu eigna samkvæmt lögum. Tilgang þessara laga kvað aðildarríkið hafa verið að draga úr enn frekara óréttlæti samkvæmt fyrrum kommúnistastjórn og að leyfa almennar efnahagsumbætur til að stuðla að bættum markaðsbúskap. Lög um endurheimt eigna voru meðal þeirra laga er sett voru til að gjörbreyta eldri skipan. Skilyrðið um tékkneskan ríkisborgararétt var sett með það að markmiði, að tryggja eftirlit með þeim eignum sem skilað hefði verið.

Aðildarríkið skírskotaði jafnframt til niðurstöðu stjórnskipunardómstólsins sem staðfesti að lögin væru ekki í andstöðu við stjórnarskrá. Einnig hélt aðildarríkið því fram að kærendur sjálfir væru ábyrgir fyrir því að hafa ekki fengið eignir sínar endurheimtar, þar sem þeir sóttu ekki um tékkneskan ríkisborgararétt innan tiltekins frests

4. Niðurstaða nefndarinnar

4.1. Ákvörðun nefndarinnar um meðferðarhæfi

Varðandi rök aðildarríkisins um að framlagning kærunnar fyrir nefndina hefði jafnast á við misbeitingu af hálfu kærenda á 3. gr. valfrjálsu bókunarinnar við samninginn, benti nefndin á að árið 1997 hefði verið tekin ákvörðun í málinu fyrir stjórnskipunardómstóli Tékklands og kærendur hefðu því næst kært ákvörðunina til Mannréttindadómstóls Evrópu, sem vísaði málinu frá þann 10. júlí 2002 og þann 20. desember árið 2005 hefðu kærendur lagt fram erindi fyrir nefndina. Nefndin benti á að í valfrjálsu bókuninni við SBSR væru engin ákvæði um tímafresti til að leggja fram erindi og að töf á framlagningu erindis, ein og sér, fæli ekki í sér misnotkun á réttinum til að leggja fram erindi fyrir nefndina. Nefndin taldi töf þessa af hálfu kærenda ekki hafa verið svo óeðlilega að það jafnaðist á við misnotkun á rétti aðila til að leggja fram erindi. Nefndin taldi málið því tækt til efnismeðferðar.

4.2. Álit um efnishlið málsins

Álitaefni það, er nefndin þurfti að leysa úr, var hvort beiting laga nr. 87/1991 við meðferð máls kæranda bryti í bága við bannið við mismunun í 26. gr. og þá tryggingu sem þar væri veitt öllum mönnum um vernd gegn mismunun.

Nefndin benti á að mismunun í skilningi 26. gr. fælist ekki í sérhverri aðgreiningu, en til að teljast lögmæt í skilningi 26. gr. yrði hún að styðjast við málefnaleg og hlutlæg sjónarmið og stefna að markmiði sem teldist lögmætt samkvæmt samningnum.

Nefndin vísaði til niðurstöðu í máli Simunek, Adam, Blazek og Des Fours Walderode, þar sem því var haldið fram að brotið hefði verið gegn 26. gr. samningsins: kærendur í því máli og margir aðrir í sambærilegri stöðu yfirgáfu Tékkóslavakíu vegna stjórnmálaskoðanna sinna og sóttu um pólitískt hæli í öðrum löndum, þar sem þeir öðluðust á endanum nýjan ríkisborgararétt. Nefndin tók það með í reikninginn í því máli, að aðildarríkið hefði verið ábyrgt fyrir brottför kærenda og því væri það í ósamræmi við samninginn að krefjast þess að kærendur væru tékkneskir ríkisborgarar til að fá eignir sínar aftur eða skaðabætur þess í stað. Nefndin benti á að krafan um ríkisborgararétt hefði í þessu máli ekki verið talin málefnaleg.

Nefndin taldi að fordæmi þetta ætti við um kærendur þessa máls. Nefndin benti jafnframt á að aðildarríkið hefði staðfest að eina ástæða þess að kröfu kærenda hefði verið hafnað fyrir dómstólum innan lands væri að skilyrðið um tékkneskan ríkisborgararétt hefði ekki verið uppfyllt. Af þeim sökum taldi nefndin að skilyrðið um tékkneskan ríkisborgararétt í lögum nr. 87/1991, til að kærendur gætu fengið eignir sínar aftur, væri í andstöðu við 26. gr. samningsins.

Taldi nefndin að tékkneska ríkinu væri skylt, í samræmi við a. lið 3. mgr. 2. gr. samningsins, að bjóða kærendum raunhæfa úrbót ásamt skaðabótum vegna eignaupptökunnar ef aðstæður væru með þeim hætti að ekki væri hægt að veita þeim yfirráð eigna á nýjan leik. Þá hvatti nefndin tékkneska ríkið til þess að endurskoða umrædda löggjöf sína þannig að hvorki lögin sjálf né beiting þeirra myndu fela í sér ólögmæta mismunun.

Nefndin benti að lokum á að þegar ríki gerast aðilar að valfrjálsu bókuninni við samninginn, viðurkenna þau hæfni nefndarinnar til að álykta um brot á samningnum. Aðildarríkin hefðu að sama skapi tekið á sig þá skyldu að tryggja öllum einstaklingum innan ríkisins áhrifaríkar og aðfararhæfar úrbætur þegar um brot væri að ræða. Nefndin óskaði eftir því að aðildarríkið sendi innan 180 daga, upplýsingar um úrbætur þær sem gerðar hefðu verið í ljósi niðurstöðu nefndarinnar.

HMP

Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna:
Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar
við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 25. mars 2008
Kærumál nr. 1488/2006

Süsser gegn Tékklandi
Brot gegn 26. gr. samningsins. Mismunun á grundvelli ríkisborgararéttar. Eignaupptaka.

1. Atvik málsins

Kærandi málsins var Miroslav Süsser, bandarískur ríkisborgari, fæddur 1934 í Prag. Móðir kæranda átti íbúð í byggingu nr. 67, landskika og garð í Michle, sem tilheyrir Prag. Árið 1962 lét móðir kæranda undan þrýstingi stjórnvalda og afhenti bygginguna og landið til ríkisins. Faðir kæranda átti helming byggingar nr. 67, 68 og 69 og þrjá landskika í Sobeslav. Kærandi flúði til Bandaríkjanna árið 1969 og í kjölfar þess fékk hann bandarískan ríkisborgararétt. Móðir kæranda lést árið 1978 og faðir hans árið 1987. Kærandi og systir hans voru einu eftirlifandi erfingjar þeirra.

Varðandi eignir foreldra kæranda í Prag, afnámu tékkóslóvnesk lög nr. 119/1990 allar eignayfirfærslur, sem gerðar höfðu verið undir þrýstingi frá stjórnvöldum. Kærandi höfðaði mál gegn borgaryfirvöldum í Prag og gegn systur sinni þar sem borgaryfirvöld höfðu afhent henni allar eignir foreldra þeirra. Héraðsdómstóllinn í Prag hafnaði kröfum kæranda sökum þess að hann var orðinn bandarískur ríkisborgari. Samkvæmt lögum nr. 87/1991, uppfyllti kærandi ekki skilyrði laganna um tékkneskan ríkisborgararétt og þar af leiðandi var kröfu hans um endurheimtingu eigna hafnað. Slíkt hið sama gerði Áfrýjunardómstóllinn. Hæstiréttur hafnaði einnig kröfum kæranda.

Kærandi fór með mál sitt fyrir Stjórnskipunardómstólinn sem komst að þeirri niðurstöðu þann 18. maí 1999, að ógilda ætti ákvörðun áfrýjunardómstólsins og héraðsdómstólsins. Stjórnskipunardómstóllinn vísaði málinu aftur til héraðsdómstólsins, sem ákvað þann 8. júní 2000 að stefnda, systir kæranda, þyrfti að láta af hendi helming eignanna til kæranda innan 15 daga. Í mars 2001 ógilti áfrýjunardómstóllinn ákvörðun héraðsdómstólsins og vísaði málinu aftur til baka. Í október 2001, ógilti svo héraðsdómstóllinn fyrri ákvörðun sína á grundvelli rannsóknar innanríkisráðuneytisins, sem sent hafði dómstólnum bréf þess efnis að kærandi hefði misst tékkneskan ríkisborgararétt sinn þegar hann gerðist bandarískur ríkisborgari þann 11. desember árið 1984.

Eignir föður kæranda, sem voru í Soeslav, höfðu allar verið afhentar systur kæranda eftir að faðir þeirra lést árið 1987. Kærandi hélt því fram að eignirnar hefðu ekki runnið til hans sökum þess að hann gerðist bandarískur ríkisborgari. Kröfum kæranda var hafnað á öllum dómstigum.

Málið fór einnig fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sem árið 2002, komst að þeirri niðurstöðu að staðreyndir málsins hefðu ekki leitt í ljós brot á Mannréttindasáttmála Evrópu.

2. Kæran

Kærandi taldi að tékkneska ríkið hefði brotið gegn 26. gr. SBSR þar sem tékkneska ríkið hafði hafnað kröfum kærenda um að fá eignir sínar endurheimtar á grundvelli ríkisborgararéttar.

3. Athugasemdir aðildarríkis

Aðildarríkið taldi að mál kærenda væri ekki tækt til meðferðar sökum þess að kærendur hefðu dregið það of lengi að leggja erindið fyrir nefndina til athugunar, þ.e. í þrjú ár og níu mánuði, frá því að niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu lá fyrir, án nokkurra skýringa. Aðildarríkið taldi að þessi töf yrði að teljast misnotkun á réttinum til að leggja mál fyrir nefndina, skv. 3. gr. valfrjálsu bókunarinnar við samninginn.

Aðildarríkið benti á, varðandi skilyrðið um ríkisborgararétt, að þeir sem vildu hefðu getað sótt um tékkneskan ríkisborgararétt á árunum 1990 og 1991. Með því að sækja ekki um tékkneskan ríkisborgararétt innan þessara tímamarka, taldi aðildarríkið að kærandi hefði fyrirgert rétti sínum til að endurheimta eignir sínar samkvæmt lögum nr. 87/1991.

Aðildarríkið vísaði m.a. til athugasemda sinna í fyrri málum gegn því fyrir nefndinni, þar sem útskýrt var hverjar væru pólitískar ástæður og lagaskilyrði, er lytu að beiðni um endurheimtingu eigna samkvæmt lögum. Tilgang þessara laga kvað aðildarríkið hafa verið tvenns konar, annars vegar að draga úr enn frekara óréttlæti samkvæmt fyrrum kommúistastjórn og hins vegar að leyfa almennar efnahagsumbætur til að stuðla að bættum markaðsbúskap. Þar sem ekki var talið hægt að bæta úr öllu óréttlæti fyrri ára voru sett ákveðin skilyrði og m.a. skilyrðið um tékkneskan ríkisborgararétt, sem átti að sjá til þess að hugað yrði af kostgæfni um þær eignir sem skilað yrði.

4. Niðurstaða nefndarinnar

4.1. Ákvörðun nefndarinnar um meðferðarhæfi

Varðandi rök aðildarríkisins um að framlagning kærunnar fyrir nefndina hefði jafnast á við misbeitingu af hálfu kærenda á 3. gr. valfrjálsu bókunarinnar við samninginn, benti nefndin á að árið 1997 hefði verið tekin ákvörðun í málinu fyrir stjórnskipunardómstóli Tékklands og kærendur hefðu því næst kært ákvörðunina til Mannréttindadómstóls Evrópu, sem vísaði málinu frá þann 10. júlí árið 2002 og þann 20. desember árið 2005 hefðu kærendur lagt fram erindi fyrir nefndina. Nefndin benti á að í valfrjálsu bókuninni við SBSR væru engin ákvæði um tímafresti til að leggja fram erindi og að töf á framlagningu erindis, ein og sér, fæli ekki í sér misnotkun á réttinum. Nefndin taldi töf þessa af hálfu kærenda ekki hafa verið svo óeðlilega að það jafnaðist á við misnotkun á rétti aðila til að leggja fram erindi. Nefndin taldi málið því tækt til efnismeðferðar.

4.2 Álit um efnishlið málsins

Álitefni það er nefndin þurfti að leysa úr var hvort beiting laga nr. 87/1991, við meðferð máls kæranda, bryti í bága við bannið við mismunun í 26. gr. og þá tryggingu sem þar væri veitt öllum mönnum um vernd gegn mismunun.

Nefndin benti á að mismunun í skilningi 26. gr. fælist ekki í sérhverri aðgreiningu, en til að teljast lögmæt í skilningi 26. gr. yrði hún að styðjast við málefnaleg og hlutlæg sjónarmið og stefna að markmiði sem væri lögmætt samkvæmt samningnum.

Nefndin vísaði til niðurstöðu í máli Simunek, Adam, Blazek og Des Fours Walderode, þar sem því var haldið fram að brotið hefði verið á 26. gr. samningsins: Kærendur í því máli og margir aðrir í sambærilegri stöðu yfirgáfu Tékkóslavakíu vegna stjórnmálaskoðanna sinna og sóttu um pólitískt hæli í öðrum löndum, þar sem þeir öðluðust á endanum nýjan ríkisborgararétt. Nefndin tók það með í reikninginn í því máli að aðildarríkið hefði verið ábyrgt fyrir brottför kærenda og því væri það í ósamræmi við samninginn að krefjast þess að kærendur væru tékkneskir ríkisborgarar til að fá eignir sínar aftur eða skaðabætur þess í stað. Nefndin benti á að krafan um ríkisborgararétt hefði í þessu máli ekki verið talin málefnaleg.

Nefndin taldi að fordæmi þetta ætti við um mál kæranda. Nefndin benti jafnframt á að aðildarríkið hefði staðfest að eina ástæðan fyrir að kröfu kæranda hefði verið hafnað fyrir dómstólum innan lands, væri að skilyrðið um tékkneskan ríkisborgararétt hefði ekki verið uppfyllt. Af þeim sökum taldi nefndin að skilyrðið um tékkneskan ríkisborgararétt í lögum nr. 87/1991 væri í andstöðu við 26. gr. samningsins.

Taldi nefndin að tékkneska ríkinu væri skylt, í samræmi við a. lið 3. mgr. 2. gr. samningsins, að bjóða kærendum raunhæfa úrbót, ásamt skaðabótum vegna eignaupptökunnar ef aðstæður væru með þeim hætti að ekki væri hægt að veita þeim yfirráð eigna á nýjan leik. Þá hvatti nefndin tékkneska ríkið til þess að endurskoða umrædda löggjöf sína þannig að hvorki lögin sjálf né beiting þeirra myndu fela í sér ólögmæta mismunun.

Nefndin benti á að þegar ríki gerast aðilar að valfrjálsu bókuninni við samninginn, viðurkenni þau hæfni nefndarinnar til að álykta um brot á samningnum. Aðildarríkin hefðu að sama skapi tekið á sig þá skyldu að tryggja öllum einstaklingum innan ríkisins árangursríkar og aðfararhæfar úrbætur þegar um brot væri að ræða. Nefndin óskaði eftir því að aðildarríkið sendi innan 180 daga, upplýsingar um úrbætur þær sem gerðar hefðu verið í ljósi niðurstöðu nefndarinnar.

HMP

Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna:
Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 25. mars 2008
Kærumál nr. 1484/2006

Upprunalegt skjal

Lnenicka gegn Tékklandi
Brot gegn 26. gr. samningsins. Mismunun á grundvelli ríkisborgararéttar. Eignaupptaka.

1. Atvik málsins

Kærandi málsins var Josef Lnenicka, fæddur árið 1930 í fyrrum Tékkóslóvakíu, en búsettur í Bandaríkjunum. Kærandi var handtekinn árið 1949 í fyrrum Tékkóslóvakíu, honum var síðan sleppt lausum árið 1957 og vann næstu ellefu árin í námu. Árið 1968 flúði hann og sneri aftur árið 1969. Hann byggði sér hús, yfirgaf síðan fyrrum Tékkóslóvakíu aftur árið 1981, til að flýja kommúnistastjórnina og kom til Bandaríkjanna árið 1982. Hann öðlaðist bandarískt ríkisfang árið 1988 og missti við það tékkneskan ríkisborgararétt sinn. Kærandi var dæmdur til fangelsisvistar, í fjarveru hans, og eignir hans gerðar upptækt af ríkinu, m.a. helmingur af húsi fjölskyldunnar, þar sem hann hafði yfirgefið landið með ólögmætum hætti. Kærandi fékk uppreisn æru árið 1990 í samræmi við lög nr. 119/1990.

Eiginkona kæranda varð eftir í fyrrum Tékkóslóvakíu. Til að verða ekki sakfelld og eignir þeirra gerðar upptækar var hún neydd til að gera samkomulag við fjármálaráðherra ríkisins um helming af húsi fjölskyldunnar og helming allra eigna þeirra hjóna. Kærandi sendi peninga til eiginkonu sinnar til að hún gæti greitt fyrir að halda helmingnum af eignunum.

Árið 1999 krafðist kærandi bóta vegna helmings hússins. Fjármálaráðherra hafnaði kröfu kæranda eingöngu á þeim grundvelli að hann hefði öðlast bandarískt ríkisfang og við það misst sitt upprunalega tékkneska ríkisfang. Í bréfi ráðherra var það útskýrt fyrir kæranda að hann gæti krafist bóta vegna eigna sem gerðar hefðu verið upptækar en þá þyrfti hann að hafa tékkneskt ríkisfang. Kærandi taldi tilgangslaust að fara með mál sitt fyrir tékkneska dómstóla þar sem sú leið væri ekki tiltæk og slíkt eingöngu peningasóun. Kærandi vísaði í þessu sambandi til niðurstöðu Stjórnskipunardómstólsins þar sem því var hafnað að fella burt úr lögum nr. 119/1990 skilyrðið um ríkisborgararéttinn.

2. Kæran

Kærandi taldi að tékkneska ríkið hefði brotið gegn 26. gr. SBSR þar sem tékkneska ríkið hafnaði kröfum kærenda um að fá eignir sínar endurheimtar á grundvelli ríkisborgararéttar. Kærandi vísaði til fyrri álita nefndarinnar í málum Marik gegn Tékklandi og Kriz gegn Tékklandi, þar sem nefndin komst að þeirri niðurstöðu að tékkneska ríkið hefði brotið gegn 26. gr. samningsins. Kærandi hélt því einnig fram að hann hefði verið þolandi brots á 12. gr. samningsins.

3. Athugasemdir aðildarríkis

Aðildarríkið taldi að mál kæranda væri ekki tækt til meðferðar sökum þess að kærandi hefði dregið það of lengi að leggja erindið fyrir nefndina til athugunar, þ.e. í meira en fimm ár, frá því að fjármálaráðuneytið hafnaði kröfu um bætur endanlega, án nokkurra skýringa Aðildarríkið taldi að þessi töf yrði að teljast misnokun á réttinum til að leggja mál fyrir nefndina skv. 3. gr. valfrjálsu bókunarinnar við samninginn.

Aðildarríkið benti á að þrátt fyrir að fjármálaráðherra hefði hafnaði kröfum kæranda um greiðslu bóta hefði ekkert staðið í vegi kæranda til þess að hann gæti leitað réttar síns fyrir dómstólum innan lands og það gæti hann enn. Því taldi aðildarríkið að þar sem kærandi hefði ekki sýnt fram á að hann hefði leitað allra tiltækra úrræða innan lands væri mál hans ekki tækt til efnismeðferðar sbr. b. lið 2. mgr. 5. gr. valfrjálsu bókunarinnar við samninginn.

Vegna meintra brota á 26. gr. vísaði aðildarríkið m.a. til fyrri athugasemda í fyrri málum gegn því fyrir nefndinni, þar sem útskýrt var hverjar væru pólitískar ástæður og lagaskilyrði, er lytu að beiðni um endurheimtingu eigna samkvæmt lögum. Tilgang þessara laga kvað aðildarríkið hafa verið tvenns konar, annars vegar að draga úr enn frekara óréttlæti samkvæmt fyrrum kommúistastjórn og hins vegar að leyfa almennar efnahagsumbætur til að stuðla að bættum markaðsbúskap. Þar sem ekki var talið hægt að bæta úr öllu óréttlæti fyrri ára voru sett ákveðin skilyrði og m.a. skilyrðið um tékkneskan ríkisborgararétt, sem átti að sjá til þess að vel yrði hugsað um þær eignir sem skilað yrði.

Aðildarríkið benti á, varðandi skilyrðið um ríkisborgararétt, að þeir sem vildu hefðu getað sótt um tékkneskan ríkisborgararétt á árunum 1990 og 1991. Með því að sækja ekki um tékkneskan ríkisborgararétt innan þessara tímamarka taldi aðildarríkið að kærandi hefði fyrirgert rétti sínum til að endurheimta eignir sínar samkvæmt lögum nr. 87/1991.

Að lokum benti aðildarríkið á að eftir að kærandi flúði land hefði eiginkona hans haldið áfram að búa í húsinu. Þar af leiðandi hefði aðildarríkið gert henni kleift að verða eigandi alls hússins og þar með hefði húsið haldið áfram að vera eign fjölskyldunnar.

4. Niðurstaða nefndarinnar

4.1. Ákvörðun nefndarinnar um meðferðarhæfi

Í b. lið 2. mgr. 5. gr. valfrjálsu bókunarinnar er kveðið á um að einstaklingur þurfi að hafa leitað allra tiltækra leiða til úrbóta innan lands áður en nefndin getur fjallað um mál hans.

Nefndin benti á að aðildarríkið hefði mótmælt þeirri röksemd kæranda að í þeirra máli hefðu ekki verið neinar tiltækar leiðir til úrbóta innan lands. Nefndin benti á að kærandi þyrfti eingöngu að hafa leitað tiltækra leiða. Nefndin taldi að eftir að dómsmála-ráðuneytið hafnaði kröfum kæranda, hefðu ekki verið tiltækar neinar leiðir fyrir kæranda til að leita réttar síns innanlands, sem gætu talist raunhæfar eða líklegar til þess að leiða til árangurs, þar sem að æðsti dómstóll landsins (Stjórnskipunardómstóll Tékklands) hafði úrskurðað í sams konar máli og þar með útilokað að dómstóll á lægri stigi kæmist að annarri niðurstöðu.

Varðandi rök aðildarríkisins um að framlagning kærunnar fyrir nefndina hefði jafnast á við misbeitingu af hálfu kæranda á 3. gr. valfrjálsu bókunarinnar við samninginn. Nefndin benti á að í valfrjálsu bókuninni við SBSR væru engin ákvæði um tímafresti til að leggja fram erindi og að töf á framlagningu erindis ein og sér, fæli ekki í sér misnotkun á réttinum. Nefndin taldi töf þessa af hálfu kæranda ekki hafa verið svo óeðlilega að það jafnaðist á við misnotkun á rétti aðila til að leggja fram erindi. Nefndin taldi málið því tækt til efnismeðferðar.

4.2 Álit um efnishlið málsins

Álitefni það er nefndin þurfti að leysa úr var hvort beiting laga nr. 87/1991 við meðferð máls kæranda bryti í bága við bannið við mismunun í 26. gr. og þá tryggingu sem þar væri veitt öllum mönnum um vernd gegn mismunun.

Nefndin benti á að mismunun í skilningi 26. gr. fælist ekki í sérhverri mismunun, en til að teljast lögmæt í skilningi 26. gr. yrði hún að styðjast við málefnaleg og hlutlæg sjónarmið og stefna að markmiði sem væri lögmætt samkvæmt samningnum.

Nefndin vísaði til niðurstöðu í máli Simunek, Adam, Blazek og Des Fours Walderode, þar sem því var haldið fram að brotið hefði verið gegn 26. gr. samningsins: Kærendur í því máli og margir aðrir í sambærilegri stöðu yfirgáfu Tékkóslavakíu vegna stjórnmálaskoðanna sinna og sóttu um pólitískt hæli í öðrum löndum, þar sem þeir öðluðust á endanum nýjan ríkisborgararétt. Nefndin tók það með í reikninginn í því máli að aðildarríkið hefði verið ábyrgt fyrir brottför kærenda og því væri það í ósamræmi við samninginn að krefjast þess að kærendur væru tékkneskir ríkisborgarar til að fá eignir sínar aftur eða skaðabætur þess í stað. Nefndin benti á að krafan um ríkisborgararétt hefði í þessu máli ekki verið talin málefnaleg. Nefndin taldi að fordæmi þetta ætti við um mál kæranda. Nefndin benti jafnframt á að aðildarríkið hefði staðfest að eina ástæðan fyrir að kröfu kæranda hefði verið hafnað fyrir dómstólum innan lands hefði verið að skilyrðið um tékkneskan ríkisborgararétt hefði ekki verið uppfyllt. Af þeim sökum taldi nefndin að skilyrðið um tékkneskan ríkisborgararétt í lögum nr. 87/1991 væri í andstöðu við 26. gr. samningsins.

Taldi nefndin að tékkneska ríkinu væri skylt, í samræmi við a. lið 3. mgr. 2. gr. samningsins, að bjóða kærendum raunhæfa úrbót ásamt skaðabótum vegna eignaupptökunnar ef aðstæður væru með þeim hætti að ekki væri hægt að veita þeim yfirráð eigna á nýjan leik. Þá hvatti nefndin tékkneska ríkið til þess að endurskoða umrædda löggjöfa sína þannig að hvorki lögin sjálf né beiting þeirra myndu fela í sér ólögmæta mismunun.

Nefndin benti á að þegar ríki gerast aðilar að valfrjálsu bókuninni við samninginn, viðurkenni þau hæfni nefndarinnar til að álykta um brot á samningnum. Aðildarríkin hefðu að sama skapi tekið á sig þá skyldu að tryggja öllum einstaklingum innan ríkisins árangursríkar og aðfararhæfar úrbætur þegar um brot væri að ræða. Nefndin óskaði eftir því að aðildarríkið sendi innan 180 daga, upplýsingar um úrbætur þær sem gerðar hefðu verið í ljósi niðurstöðu nefndarinnar.

Einn nefndarmaður skilaði séráliti í málinu.

HMP