Þjóðaratkvæðagreiðslur

Mannréttindastofnun fékk á árinu 2010 styrk frá dómsmála- og mannréttindaráðuneyti, nú innanríkisráðuneyti, til að rannsaka beina þátttöku kjósenda við lagasetningu og við töku ákvarðana um málefni sem varða hag almennings. Dóra Guðmundsdóttir LL.M. og aðjúnkt við lagadeild Háskóla Íslands, framkvæmdi rannsóknina, sem fólst í því að bera saman ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur í stjórnarskrám 29 Evrópuríkja auk Íslands. Markmið rannsóknarinnar var að kanna inntak og þróun stjórnarskrárákvæða um þjóðaratkvæðagreiðslur undanfarna áratugi og það hvernig sú þróun tengist hugmyndum um beint lýðræði.

Í niðurstöðunum er stjórnarskrárákvæðum um þjóðaratkvæðagreiðslur lýst, einkum í hvaða tilvikum stjórnarskrár mæla fyrir um að tiltekin mál fari alltaf í þjóðaratkvæðagreiðslu, hvenær halda má þjóðaratkvæðagreiðslu og hvenær stjórnarskrárákvæði setja skorður við því að atkvæðagreiðsla fari fram um tiltekin málefni. Þá er fjallað um frumkvæði að þjóðaratkvæðagreiðslum, þ. á m. hvort ákvörðunarvald um það er í höndum þjóðkjörins forseta, tiltekins fjölda þingmanna eða ákveðins hlutfalls kjósenda á kjörskrá. Þá eru stjórnarskrárákvæðin skoðuð með tilliti til þess hvort niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu eru bindandi eða ráðgefandi og hvort gerðar eru kröfur um lágmarksþátttöku eða annar þröskuldur settur til þess að atkvæðagreiðslan teljist gild.

Loks er fjallað um önnur úrræði, sem hafa færst í vöxt í stjórnarskrám Evrópuríkja, þ.e. reglur um tillögurétt og þjóðarfrumkvæði, en í þjóðarfrumkvæði felst að ákveðinn fjöldi kjósenda getur krafist atkvæðagreiðslu um tiltekið málefni eða tiltekin lög. Í niðurstöðum rannsóknarinnar má einnig finna þau stjórnarskrárákvæði sem fjallað er um, í enskri þýðingu, auk þess sem tveir viðaukar geyma frekari upplýsingar um rannsóknarniðurstöður í aðgengilegu formi.

Rannsóknin er birt í aðgengilegu pdf skjali þar sem unnt er að flytjast milli kafla með því að ýta á bookmarks í hliðarvalmynd skjalsins.

Þjóðaratkvæðagreiðslur. Skýrsla fyrir Mannréttindastofnun

Viðauki I. Yfirlit yfir stjórnskipun og stjórnarskrárákvæði

Viðauki II. Reglur um ófrávíkjanlegar og valkvæðar þjóðaratkvæðargreiðslur