Mismunun á grundvelli hjúskaparstöðu

Mismunun á grundvelli hjúskaparstöðu

Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna:
Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 9. apríl 1987
Mál nr. 180/1984

Upprunalegt skjal

Danning gegn Hollandi
Mismunun á grundvelli hjúskaparstöðu. Slysatryggingabætur. Ekki brot gegn 26. gr. samningsins.

1. Atvik málsins

Kærandi málsins var Ludwig Gustaaf Danning, hollenskur ríkisborgari, fæddur 1960. Hann taldi sig hafa verið þolanda brota af Hollands hálfu á 26. gr. SBSR. Í kjölfar bílslyss sem kærandi lenti í 1979 varð hann fatlaður og bundinn við hjólastól. Fyrsta árið eftir slysið fékk hann greiddar slysatryggingabætur frá fyrrum atvinnurekanda sínum. Eftir fyrsta árið fékk hann síðan greiddar bætur úr öðru tryggingakerfi, fyrir öryrkja. Þetta kerfi bauð uppá hærri bætur fyrir bótaþega í hjúskap. Kærandi sem hafði verið trúlofaður og í sambúð síðan 1977, taldi sig hafa átt að fá greiddar bætur sem maður í hjúskap en ekki sem einhleypur maður. Beiðni hans var hafnað og hann kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndar sem árið 1983 staðfesti ákvörðun hins lægra setts stjórnvalds.

2. Kæran

Kærandi taldi að hollenska ríkið hefði brotið gegn 26. gr. SBSR þar sem honum hafi verið mismunað á grundvelli hjúskaparstöðu sinnar.

3. Athugasemdir aðildarríkis

Hollenska ríkið undirstrikaði að meginregluna, sem kveður á um bann við mismunun í tengslum við almannatryggingar, væri að finna í 9. gr. sbr. 2. og 3. gr. SEFMR og að sá samningur hefði sett á fót sitt eigið kerfi til alþjóðlegs eftirlits með því hvort ríki uppfylltu skyldur sínar samkvæmt samningnum. Þá dró aðildarríkið í efa að það væri hlutverk mannréttindanefndinar að kanna á grundvelli 26. gr. hvort ríki uppfylltu skyldur sínar samkvæmt. 9. sbr. 2. og 3. gr. SEFMR.

Í athugasemdum aðilarríkisins kom meðal annars fram að í Hollandi hefði það ætíð haft ákveðin réttaráhrif fyrir aðila að ganga í hjúskap, rétaráhrif sem ekki giltu um sambúðarfólk. Sambúðarfólk hefði algjörlega frjálst val um það hvort það gengi í hjúskap og öðlaðist þar með réttindi og skyldur samkvæmt ákveðnum lögum. Á þessu tvennu taldi aðildarríkið að væri mikill munur, því um aðila í hjúskap giltu lög og reglur sem ekki áttu við um sambúðarfólk. Hjón bæru ábyrgð á framfærslu hvors annars, þau væru sameiginlega ábyrg fyrir þeim skuldbindingum sem stofnað væri til í hjúskap og samþykki maka þyrfti til ákveðinna ráðstafanna er vörðuðu heimili og innbú hjóna. Aðildarríkið taldi að mismunun þessi gæti ekki talist ólögmæt í skilningi 26. gr. samningsins því aðilar í málinu væru ekki í sömu stöðu. Að lokum hélt aðildarríkið því fram að það lægu hlutlæg sjónarmið að baki lagalegri mismunun aðila í hjúskap og sambúðarfólks í hollenskri löggjöf.

4. Niðurstaða nefndarinnar

4.1. Ákvörðun um meðferðarhæfi

Nefndin benti á að skýrslur ríkja samkvæmt 16. gr. SEFMR teldust ekki vera rannsókn á sama máli í skilningi a. liðar 2. mgr. 5. gr. valfrjálsu bókunarinnar við SBSR. Nefndin benti ennfremur á að kæru samkvæmt valfrjálsu bókuninni við SBSR væri ekki frávísað eingöngu sökum þess að efnisleg atriði málsins væru einnig vernduð af SEFMR eða öðrum samningum. Nefndin þyrfti að rannsaka hvort einhver réttindi ættu undir SBSR. Enginn ágreiningur var um að kærandi hefði leitað allra tiltækra leiða til úrbóta innan lands. Nefndin taldi því málið vera tækt til efnismeðferðar.

4.2. Álit um efnishlið málsins

Mannréttindanefndin taldi hægt að beita ákvæðum SBSR í málum þó fjallað væri um réttindin í öðrum alþjóðlegum samningum, t.d. alþjóðasamningnum um afnám alls kynþáttamisréttis, samningnum um afnám allrar mismununar gagnvart konum eða eins og í þessu tiltekna máli SEFMR. Þrátt fyrir söguleg tengsl samninganna tveggja, þá taldi nefndin það nauðsynlegt að hægt væri að beita til hins ítrasta ákvæðum SBSR. Í þessu samhengi taldi nefndin að ákvæði 2. gr. SEFMR drægi ekki úr gildissviði 26. gr. samningsins.

Nefndin kannaði því næst staðhæfingar aðildarríksins um að 26. gr. samningsins gæti ekki átt við um réttindi sem vernduð væru af 9. gr. SEFMR. Í þessu samhengi kannaði nefndin viðkomandi lögskýringargögn með SBSR, sérstaklega gögn um umræður þær sem fram fóru innan mannréttindaráðsins á fundum þess árin 1948, 1949, 1950 og 1952 og innan þriðju nefndar Allsherjaþingsins 1961, sem gáfu viðbótarskýringar um hvernig  túlk ætti samninginn. Umræða á þessum tíma um það hvort gildissvið 26. gr. næði einnig til verndar réttinda sem ekki eru sérstaklega vernduð af samningnum sjálfum, var óljós og gat ekki haft áhrif á niðurstöðu nefndarinnar um túlkun á ákvæðinu.

Til að komast að niðurstöðu um gildissvið 26. gr. hafði nefndin hliðsjón af venjulegri skýringu hvers efnisþáttar ákvæðisins í ljósi tilgangs þess og markmiðs. Nefndin benti á að 26. gr. ætti rætur að rekja til meginreglu 7. gr. mannréttindayfirlýsingar SÞ, sem bannaði alla lagalega mismunun og mismunun í framkvæmd á lögum og kveður á um rétt manna til verndar gegn hvers konar misrétti. Ákvæði 26. gr. legði því bann við mismunun í allri löggjöf aðildarríkjanna.

Nefndin benti á að þrátt fyrir að 26. gr. legði bann við mismunun í allri löggjöf, þá legði ákvæðið engar skyldur á ríki til að setja lög. En þrátt fyrir að 26. gr. kvæði ekki á um skyldur ríkis til að koma á fót almannatryggingakerfi, þá yrði slík löggjöf að samræmast 26. gr. væri hún tekin upp innan ríkis. Nefndin ítrekaði að mál kæranda snerist ekki um það hvort almanntryggingarkerfi skyldi vera sett á fót í Hollandi, heldur hvort löggjöf sú sem tryggði þessi réttindi bryti í bága við bannið við mismunun í 26. gr. SBSR og þá tryggingu, sem þar væri veitt öllum mönnum, um vernd gegn mismunun.

Nefndin benti einnig á að rétturinn til jafnræðis fyrir lögunum og jafnrar lagaverndar án nokkurs konar mismununar leiddi ekki til þess að ólík meðferð einstaklinga teldist í öllum tilvikum til ólögmætrar mismununar. Mismunun sem byggð væri á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum fæli ekki í sér ólögmæta mismunun í skilningi 26. gr. SBSR. Það var því höndum nefndarinnar að ákveða hvort mismunun sú sem kærandi taldi sig hafa orðið fyrir, samkvæmt hollenskum lögum, teldist ólögmæt mismunun í skilningi 26. gr. SBSR. Í ljósi útskýringa aðildarríkisins á greinarmun þeim er gerður var á fólki í hjúskap og þeim sem ekki eru í hjúskap, var nefndin þeirrar skoðunar að mismununin styddist við málefnaleg og hlutlæg sjónarmið. Í þessu samhengi benti nefndin á að ákvörðun um að ganga í hjúskap, sem bundin væri ákveðnum réttaráhrifum samkvæmt hollenskum lögum, væri algjörlega í höndum sambúðarfólks. Með því að ákveða að ganga ekki í hjúskap, nutu kærandi og sambýliskona hans ekki sömu réttinda samkvæmt hollenskum lögum og aðilar í hjúskap. Þar af leiðandi fékk hann ekki greiddar fullar bætur samkvæmt ákvæðum um aðila í hjúskap. Nefndin ályktaði að mismunun sú sem Danning taldi sig hafa orðið fyrir væri ekki ólögmæt í skilningi 26. gr. samningsins.

HMP

Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna:
Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar
við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 31. mars 1992
Mál nr. 395/1990

Upprunalegt skjal

Sprenger gegn Hollandi
Mismunun á grundvelli hjúskapar. Sjúkratryggingabætur. Ekki brot gegn 26. gr. samningsins.

1. Atvik málsins

Kærandi í málsins var M.Th.Sprenger, hollenskur ríkisborgari, sem bjó í Maastricht. Hún taldi að hollenska ríkið hefði brotið réttindi hennar samkvæmt 26. gr. SBSR. Hún fékk greiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt hollenskum lögum til 20. ágúst 1987. Á þeim tímapunkti lauk hámarks greiðslutíma bóta. Vegna þessa hætti hún einnig að fá greiddar sjúkratryggingabætur samkvæmt lögum um sjúkratryggingar. Kærandi sótti því næst um bætur samkvæmt reglum hins opinbera um atvinnulaust launafólk, en samkvæmt þeim hefði hún einnig átt rétt á sjúkratryggingabótum á grundvelli laga um sjúkratryggingar.

Beiðni kæranda var hafnað með þeim rökum að hún væri í sambúð með manni sem hefði hærri tekjur en bætur voru samkvæmt þágildandi reglum. Sambýlismaður hennar var vegna vinnu sinnar tryggður samkvæmt lögum um sjúkratryggingar. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. þeirra laga, gat maki tryggðs aðila einnig verið tryggður samkvæmt lögunum ef hann var yngri en 65 ára, hélt heimili með tryggðum aðila og ef tryggði aðilinn var fyrirvinna hins. Samkvæmt kæranda hafði hún verið í sambúð með manninum síðan í október 1982 og 8. ágúst 1983 hefðu þau skráð sig í sambúð. Beiðni kæranda um skráningu sem maki sambýlismann síns var hafnað af almannatryggingarnefnd 4. ágúst 1987, með þeim rökum að lög um sjúkratryggingar ættu bara við um aðila í hjúskap. Í þessu samhengi benti kærandi á að sökum þess að hún væri í sambúð fengi hún ekki greiddar bætur samkvæmt reglum um atvinnulaust launafólk, sem hefðu að sama skapi hefðu veitt henni rétt á sjúkratryggingum samkvæmt lögum um sjúkratryggingar.

Í febrúar 1988 ógilti áfrýjunarnefnd ákvörðunina frá 4. ágúst 1987 þar sem kæranda var hafnað um rétt til skráningu á bótum sem maki í skilningi laganna. Áfrýjunarnefndin hélt því fram að mismunun sú sem gerð væri á fólki í hjúskap og fólki í sambúð fæli í sér ólögmæta mismunun samkvæmt 26. gr. SBSR. Ákvörðun áfrýjunarnefndarinnar var svo snúið við hjá æðri úrskurðarnefnd og ákvörðunin frá 4. ágúst staðfest með vísan til niðurstöðu Mannréttindanefndarinnar í máli nr. 180/1984, Danning gegn Hollandi, þar sem nefndin taldi að mismunun sem gerð var á aðilum í hjúskap og sambúð væri ekki ólögmæt í skilningi 26. gr. SBSR.

2. Kæran

Kærandi taldi að hollenska ríkið hefði brotið gegn 26. gr. SBSR þar sem beiðni hennar, um að fá greiddar sjúkrabætur, sem maki sambýlismanns síns, samkvæmt lögum um sjúkratryggingar var hafnað. Taldi hún að mismunun sú sem gerð var á aðilum í hjúskap og sambúðarfólki væri ólögmæt, þar sem önnur almannatryggingalöggjöf viðurkenndi jafnan rétt þessara aðila.

3. Athugasemdir aðildarríkis

Aðildarríkið hélt því fram að mismunun sú sem gerð væri á aðilum í hjúskap og þeim sem ekki væru í hjúskap í lögum um sjúkratryggingar gæti ekki talist ólögmæt mismunun í skilningi 26. gr. samningsins og vísaði til álits nefndarinnar í máli nr. 180/1984 Danning gegn Hollandi. Aðildarríkið taldi að þrátt fyrir að aðili væri í skráðri sambúð og gengist þar með undir ákveðnar gagnkvæmar skyldur, væri enn mismunur á því annars vegar að skrá sig í sambúð og hins vegar að ganga í hjúskap. Aðildarríkið staðhæfði að það væru ákveðnar skyldur lagðar á herðar fólki í hjúskap, sem kærandi og sambýlismaður hennar hefðu ekki gengist undir, m.a. skyldan til framfærslugreiðslna til fyrrum maka. Aðildarríkið benti jafnframt á að það væri ekkert sem hefði hindrað kæranda í að ganga í hjúskap, og þar með hefði hann átt réttindi samkvæmt því. Aðildarríkið kvaðst aldrei hafa tekið ákvörðun um að afnema mismunun þessa úr lögum.

4. Niðurstaða nefndarinnar

4.1. Álit um efnishlið málsins

Nefndin benti á að, þó að ríki væru ekki skyldug samkvæmt samningnum til  að koma á fót almannatryggingalöggjöf, þá yrði slík löggjöf, væri hún til staðar, að samrýmast 26. gr. samningsins. Jafnrétti fyrir lögum leiddi það af sér að hvers kyns aðgreining sem skerti vernd eða frelsi einstaklinga til að njóta réttinda og frelsis jafnt á við aðra yrði að byggja á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum.

Í þessu máli taldi aðildarríkið að málefnaleg sjónarmið hefðu legið að baki lagalegri mismunun þeirri sem gerð var milli aðila í hjúskap og aðila utan hjúskapar og vísaði til álits Mannréttindanefndarinnar í máli Danning gegn Hollandi, þar sem slík mismunun taldist ekki vera ólögmæt í skilningi 26. gr. samningsins.

Nefndin áréttaði að mismunun væri einungis ólögmæt styddist hún ekki við málefnaleg og hlutlæg sjónarmið. Í tengslum við þróun félagslegra réttinda innan aðildarríkjanna hefði nefndin tekið mið af nýlegri löggjöf þ.á.m. breytingum á lögum um sjúkratryggingar. Aðildarríkið benti á að afnám á mismunun milli aðila í hjúskap og aðila í sambúð hefði ekki átt sér stað og ástæða gefin fyrir áframhaldi á þeirri mismunun. Nefndin taldi að þessi mismunun væri byggð á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum. Nefndin vísaði til niðurstöðu fyrra álits í máli nr. 180/1984 sem hún taldi eiga við í máli þessu.

Að lokum taldi nefndin að löggjafi hvers aðildarríkis gæti breytt lögum án þess að þau séu ósamrýmanleg samningnum. Aðildarríkjunum væri frjálst að breyta lögum sem væru samrýmanleg samningnum og veittu réttindi og vernd umfram ákvæði samningsins.

Nefndin taldi í ljósi allra fyrirliggjandi upplýsinga að ekki hefði verið um brot af hálfu aðildarríkisins á samningnum að ræða.

HMP

Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna:
Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 15. júlí 1994
Mál nr. 425/1990

Upprunalegt skjal

Neefs gegn Hollandi
Mismunun á grundvelli hjúskaparstöðu. Framfærsluaðstoð . Ekki brot gegn 26. gr. samningsins.

1. Atvik málsins

Kærandi málsins var A.M.M. Doesburg Lannooij Neefs, hollenskur ríkisborgari búsettur í Naarden í Hollandi. Hann taldi sig hafa verið þolanda brota af Hollands hálfu á 26. gr. SBSR.

Samkvæmt hollenskum lögum um almannatryggingar, gat einstaklingur fengið bætur gæti hann ekki með fullnægjandi hætti séð fyrir sér sjálfur. Upphæð bóta réðst af ákveðnum aðstæðum umsækjanda, greinarmunur var gerður m.a. á manni sem bjó einn og manni í sambúð. Samkvæmt lögum var leigjandi, sem ekki hélt heimili með öðrum, talinn búa einn og hann talinn eiga rétt á á fullri bótagreiðslu samkvæmt lögunum. Einhleypur aðili sem hélt heimili með öðrum nánum ættingja gat ekki talist leigja einn nema það væri systkini hans og það gert í fjárhagslegum tilgangi. Í október 1986 ákvað bæjarfélagið í Naarden að veita kæranda framfærsluaðstoð samkvæmt lögunum, en ekki fullan styrk þar sem hann hélt heimili með móður sinni. Kærandi óskaði eftir að ákvörðun þessi yrði endurskoðuð. Þann 10. nóvember 1986 hafði kærandi enginn svör fengið þrátt fyrir að mánaðarfrestur sá er stjórnvaldið var talið hafa væri liðinn. Þá ákvað kærandi að kæra ákvörðunina til æðra stjórnvalds þar sem hann hélt því m.a. fram að mismunin sem lögin gerðu á aðilum sem leigja með óskyldum aðila annars vegar og þeim sem leigja með skyldum aðila, ólögmæta í skilningi 26. gr. samningsins. Áfrýjun kæranda var vísað frá áfrýjunarnefndinni. Æðri kærunefnd féllst ekki á kröfur kæranda. Það taldi að mismununin hefði verið byggð á þeim forsendum að nánir ættingjar sem byggu saman, deildu með sér kostnaði.

2. Kæran

Kærandi taldi að hollenska ríkið hefði brotið gegn 26. gr. alþjóðasamnings SBSR þar sem að mismunun á aðilum sem bjuggu með nánum ættingjum og öðrum sem ekki bjuggu með nánum ættingjum væri ólögmæt.

3. Athugasemdir aðildarríkis

Aðildarríkið benti á að kærandi hefði fengið greiddar bætur sem einhleypur einstaklingur samkvæmt lögum um almannatryggingar. Upphæð bótanna var ákveðin á grundvelli þess að kærandi var einhleypur og bjó með móður sinni. Aðildarríkið útskýrði að tilgangur almannatryggingalaga væri að tryggja þeim sem ekki hafa nægar tekjur lágmarks lífsviðurværi. Meginatriðið varðandi bótagreiðslur væri þörf þess sem um þær sækir og bæturnar væru miðaðar út frá aðstæðum hvers og eins. Til að hafa stöðluð viðmið við ákvörðun á upphæð bóta hefði aðildarríkið komið upp mismunandi flokkum bótagreiðslna. Samkvæmt þessum flokkum, fengu aðilar í hjúskap án tekna greiddar bætur sem voru á við áætlaðar lágmarkstekjur, einstætt foreldri fékk 90% þar af og einhleypur aðili 70% þar af.

Aðildarríkið benti jafnframt á að bótunum hefði verið ætlað að tryggja aðilum fjárstuðning til að standa straum af nauðsynlegum kostnaði, m.a. húsnæðiskostnaði. Aðildarríkið taldi það vera málefnalegt að lækka bótagreiðslur ef aðili byggi með nánum ættingjum. Nánir ættingjar sem byggju saman í sama húsnæði voru taldir deila kostnaði, burtséð frá því hvernig kostnaði væri raunverulega skipt milli þeirra. Vísbendingar í aðra átt voru ekki teknar til greina nema um systkini væri að ræða, en ekki ef aðili bjó með foreldri. Aðildarríkið benti á að þetta væri réttlætt með skyldum þeim er lagðar væru á foreldra og börn til að sjá fyrir hvort öðru, en þær skyldur væru ekki lagðar á systkini. Aðildarríkið hélt því fram að mismunun sú er gerð væri á aðilum með ólíkar skyldur gagnvart hvert öðru væri málefnaleg og væri ekki í andstöðu við 26. gr. samningins.

4. Niðurstaða nefndarinnar

Nefndin vísaði til fyrri álita nefndarinnar og ítrekaði að þrátt fyrir að ríki væru ekki skyldug samkvæmt 26. gr. samningsins til að koma á fót almannatryggingalöggjöf, þá yrði slík löggjöf að vera í samræmi við 26. gr. væri hún sett á fót. Rétturinn til jafnræðis fyrir lögunum og jafnrar verndar laganna án mismununar fæli ekki í sér að öll mismunun teldis ólögmæt. Mismunun byggð á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum teldist ekki ólögmæt samkvæmt 26. gr. samningsins. Í þessu tiltekna máli hefði kærandi talið sig vera þolanda brots á 26. gr. þar sem hann fékk greiddar lægri bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar vegna þess að hann bjó með móður sinni heldur en ef hann hefði búið með óskyldum aðila eða öðrum ættingja. Nefndin benti á að bætur væru greiddar aðilum með lágar eða engar tekjur. Kærandi hefði sjálfur viðurkennt að kostnaður hans af því að halda heimili hefði verið lægri sökum þess að hann bjó með móður sinni. Nefndin taldi að mismunandi meðferð á sambúð foreldri og barni þess annars vegar og sambúð með öðrum ættingjum hins vegar ekki vera ólögmæta samkvæmt 26. gr. samningsins.

HMP

Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna:
Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 27. júlí 1998
Mál nr. 651/1995

Upprunalegt skjal

Snijders et al. gegn Hollandi
Mismunun á grundvelli hjúskaparstöðu. tekjutengd framlög einstaklinga vegna sjúkrakostnaðar . Ekki brot gegn 26. gr. samningsins.

1. Atvik málsins

Kærendur málsins voru J. Snijders, A. A. Willemen og Ch. C. M Van der Wouw, hollenskir ríkisborgarar búsettir á hjúkrunarheimili í Hollandi. Kærendur töldu sig vera þolendur brota af Hollands hálfu á 26. gr. SBSR.

Í Hollandi voru skyldubundnar tryggingar í öllu landinu vegna kostnaðar við langtíma sjúkrakostnað. Tryggingakerfið var fjármagnað með skatttekjum ríkissjóðs. Ennfremur þurftu einstaklingar sem nutu góðs af tryggingakerfinu að greiða í sjóðinn samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laganna. Fjárframlögum einstaklinga til sjóðsins var komið á fót samkvæmt áætlun, sem lögð var fram með tilskipun stjórnvalda 1. maí 1987. Greiðslur einhleypra (einstaklingar sem eru ekki í hjúskap né í sambúð), aðila í hjúskap og aðila í sambúð, þegar báðir aðilar fengu greiddar bætur frá tryggingunum voru tekjutengdar. Hámarks tekjutengdar greiðslur voru  1,350 fyrir einhleypan einstakling, aðila í hjúskap og aðila í sambúð. Ótekjutengdar greiðslur voru 180 á mánuði, og eingöngu lagðar á þá sjúklinga sem ekki greiða tekjutengd framlög.

Í júlí 1989 voru kærendur, sem allir voru einhleypir, krafðir hver um sig um eigið framlag uppá 978,1.210 og 745. Þeir kærðu ákvörðunina til áfrýjunarnefndar í Haarlem og héldu því m.a. fram að mismunun sú sem gerð væri á einhleypum aðilum annars vegar og aðilum í hjúskap eða sambúð hins vegar, væri ólögmæt í skilningi 26. gr. samningsins. Áfrýjunarnefndin tók mál þeirra til umfjöllunar, og komst að þeirri niðurstöðu að mismunun milli aðila í hjúskap eða í sambúð og einhleypra, væri ekki ólögmæt útaf fyrir sig, en í þessum tilvikum hefði hún ekki verið lögmæt og mismunað einhleypum aðilum. Framkvæmdastjórn sjóðsins áfrýjaði ákvörðun áfrýjunarnefndarinnar til landsáfrýjunarnefndar, sem ógilti ákvörðun áfrýjunarnefndarinnar og hafnaði kröfum kærenda.

2. Kæran

Kærendur töldu að hollenska ríkið hefði brotið gegn 26. gr. SBSR þar sem þeir þurftu að greiða tekjutengd fjárframlög á móti sjúkrakostnaði, þegar aðilar í hjúskap eða í sambúð, þar sem annar aðilinn var ekki á sjúkrahúsi, þurftu eingöngu að greiða lágmarks eða engin tekjutengd framlög. Kærendur töldu að mismununin hefði ekki verið byggð á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum. Þeir töldu að meginástæða mismununarinnar hefði verið hvort viðkomandi aðili héldi áfram heimili, en ekki hvort hann væri í hjúskap, í sambúð eða einhleypur. Samt sem áður voru einhleypir aðilar krafðir um fjárframlög eftir sex mánaða sjúkrahúsdvöl burtséð frá því hvort þeir héldu heimili eða ekki. Þeir töldu að ákvörðunin um að halda heimili eða ekki hefði verið tekin frá þeim, vegna þeirrar ótryggu fjárhagsstöðu sem þeir voru settir í. Kærendur töldu það almennt vera möguleika fyrir aðila í hjúskap og í sambúð sem báðir voru í sömu stöðu og þeir sjálfir, að halda áfram heimili, sökum þess að hámarks tekjutengda framlagsgreiðsla þeirra beggja til samans var sú sama og hámarksgreiðsla einhleypra sem gat gefið þeim svigrúm til að halda áfram heimili væri það vilji þeirra. Kærendur töldu að lausnin gæti falist í því að krefja alla um ótekjutengd framlög, og miða tekjutengdu framlögin við raunverulegar aðstæður hvers og eins, burtséð frá hjúskaparstöðu hans. Jafnframt töldu kærendur að sökum þess að allir í Hollandi væru skyldugir til að greiða til kerfisins, væri krafan um eigin framlög einstaklinga í andstöðu við jafnræði allra tryggðra einstaklinga.

3. Athugasemdir aðildarríkis

Aðildarríkið greindi m.a. frá því að einstaklings fjárframlög vegna heilbrigðisþjónustu væri krafist ef að þjónusta var veitt í 24 klst á sólarhring. Reglurnar voru eftirfarandi: Fyrstu sex mánuðina voru allir yfir 18 ára skyldugir til að greiða ótekjutengd framlög vegna dvalarinnar, NLG 210. Ef báðir aðilar í hjúskap dvelja á stofnun samtímis voru báðir krafðir um ótekjutengt framlög og hvor um sig borgaði NLG 110; Eftir fyrstu sex mánuðina, voru allir yfir 18 ára krafðir um framlög og upphæðin réðst af hjúskaparstöðu og aðstæðum aðila. Einhleypur aðili yngri en 65 ára þurfti að greiða NLG 1,350 og þeir sem voru eldri en 65 ára allt að NLG 2,200. Aðilar í hjúskap, yngri en 65 ára, sem báðir voru á stofnun þurftu að greiða til samans allt að NLG 1,350. Ef eingöngu annar aðilinn var á stofnun, þurfti hann eða hún að greiða ótekjutengt framlag NLG 210. Ef báðir aðilar í hjúskap, eldri en 65 ára voru á stofnun þurfti hvort um sig að greiða NLG 2,200 og NLG 210.

Aðildarríkið útskýrði hvernig tekjutengd framlög voru reiknuð, fyrst var heildarinnkoma reiknuð, eftir ýmsa frádráttarbæra liði. Framlagið var síðan reiknað af útkomunni. Ef talið var líklegt að tryggður aðili þyrfti einungis að dveljast tímabundið á stofnun, og líklegt að hann gæti snúið aftur tilbaka út í samfélagið, var frádráttur leyfður vegna varðveislu sjálfstæðs heimilishalds.

Aðildarríkið útskýrði einnig að þetta tiltekna tryggingarkerfi væri á landsvísu og stæði straum af alvarlegum veikindum, eins og t.d. háum eða langtíma sjúkrakostnaði. Það benti á að nauðsynlegt væri að bæta við tryggingarnar perónulegum framlögum, þar sem annars yrði kerfið óviðráðanlega dýrt. Samkvæmt aðildarríkinu, var hugmyndin sú að í hvert skipti sem maður er vistaður inn á stofnun, minnki kostnaður við heimilishald. Aðildarríkið benti á að í hverju tilviki fyrir sig væri litið til heimilsaðstæðna aðila og greiðslugetu hans, en ákvörðunarforsendan væri hvort dvöl aðila væri talin tímabundin eða langvarandi og hvort raunhæfar líkur væru á því að aðili geti snúið aftur út í samfélagið.

Aðildarríkið útskýrði að einhleypur aðili, sem líklegt væri að yrði framvegis á stofnun og gæti ekki haldið heimili einn væri þar af leiðandi að spara peninga sem annars færu í kostnað við heimilishald. Það sama var talið eiga við um pör sem bæði dveldu varanlega á stofnun. Hins vegar hélt aðildarríkið því fram að þegar annar aðili í hjúskap dveldi á stofnun, væri lítill munur á kostnaði við rekstur heimilis hans, eingöngu matur og umönnun, sem teldist vera framlag uppá NLG 210. Þegar báðir aðilar væru á stofnun væri hvort um sig ábyrgt fyrir helmingi framlagsins. Framlag þeirra var reiknað af heildarinnkomu parsins inná reikning.

Hvað varðaði þann hluta kærunnar um að framlagskerfið bryti í bága við meginregluna um jafnræði allra sem tryggðir væru, benti aðildarríkið á að kerfið leiddi ekki til niðurstöðu sem fæli í sér ólögmæta mismunun. Samkvæmt aðildarríkinu var grundvallarmismunur á aðilum sem enn héldu heimili og þeim sem ekki héldu heimili.

Að lokum ályktaði aðildarríkið að mismununin sem gerð var hvað varðaði framlög einstaklinga samkvæmt AWBZ væri gerð á grundvelli þess hvort viðkomandi aðili héldi eða var talinn halda eigið heimili. Ef aðili hélt áfram heimili var takmarkaður sparnaður fólginn í því en þegar á hinn bóginn aðili hætti að halda heimili var enginn kostnaður af húsnæði, umönnun og fæði. Aðildarríkið taldi að þetta réttlætti það að aðilar í slíkri stöðu greiddu hærri framlög. Af þessum sökum taldi aðildarríkið að mismunin hefði ekki  verið grundvölluð á neinum einstaklingsbundnum forsendum, heldur málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum. Því hefði ekki verið um brot á 26. gr. SBSR að ræða.

4. Niðurstaða nefndarinnar

4.1. Álit um efnishlið málsins

Spurningarnar sem nefndin taldi sig þurfa að taka afstöðu til varðandi brot á 26. gr. samningsins voru þrjár (a) sökum þess að kærendur voru krafðir um eigin framlög vegna dvalar þeirra á umönnunarstofnun, þegar hins vegar tryggðir aðilar sem ekki dveljast á umönnunarstofnun eru ekki krafðir um eigin framlög; og sökum þess að útreikningar eigin framlaga settu kærendur í verri aðstöðu, þar sem (b) þeir voru krafðir um tekjutengd framlög, en aðilar í hjúskap og sambúð, þegar einungis annar aðilinn dvaldist á stofnun, voru krafðir um ótekjutengd framlög, án tillits til tekna þeirra, og (c) þegar báðir aðilar dvöldu á stofnun, greiddu þau til samans sömu hámarksupphæð og einhleypur aðili.

Nefndin var á þeirri skoðun að krafan um að einstaklingar greiddu eigin framlög þegar þeir fengu greiðslur úr tryggingakerfinu, væri ekki brot á meginreglunni um jafnræði fyrir lögum. Hvað varðaði álitefni (a), taldi nefndin að útskýringar aðildarríkisins um, að einstaklingar yrðu að greiða mótframlög því annars væri kerfið óviðráðanlega dýrt, réttlættu mismunun þá er gerð var á þeim sem þurftu að greiða eigin framlög og þeim sem ekki voru krafðir um slíkt, og að mismunin væri ekki ólögmæt í skilningi 26. gr. samningsins.

Nefndin benti hins vegar á að útreikningar framlaga samkvæmt tryggingakerfinu ættu að vera hlutlægir og málefnalegar. Í tengslum við álitefni (b), tók nefndin mið af útskýringum aðildarríkisins um að eigið framlag aðila væri miðað við þær staðreyndir að aðili í hjúskap eða sambúð skyldi eftir maka sem heldur áfram að halda heimili þeirra og þess vegna væri ekki um að ræða sama peningasparnað í tilvikum slíkra aðila. Af þeim sökum eru þessir aðilar krafðir um að greiða ákveðið framlag. Nefndin taldi að þessi aðgreining, sem byggð væri á forsendum sem sneru að aðstæðum í lífi aðila sem fengu greiðslur úr kerfinu, væri málefnaleg og hlutlæg. Því hefði ekki verið um brot á 26. gr. samningsins að ræða.

Í tengslum við álitefni (c), benti nefndin á útskýringar aðildarríkisins á útreikningum á tekjutengdum framlögum aðila. Samkvæmt útskýringum aðildarríkisins var tekin með reikninginn greiðslugeta hvers og eins aðila ásamt heimilsaðstæðum hans. Í tilvikum þar sem báðir aðilar í hjúskap eða sambúð dvöldust á stofnun, var eigið framlag þeirra reiknað af heildartekjum beggja til samans. Þetta breytti samt ekki þeirri staðreynd að hámarks framlag var aldrei hærra en NLG 1,350 hvort sem um einhleypan aðila var að ræða eða aðila í hjúskap eða sambúð. Enginn kærenda var krafinn um hámarks framlag. Þar af leiðandi tókst kærendum ekki að sýna fram á að þeir hefðu verið þolendur brota á 26. gr. samningsins.

HMP

Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna:
Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 3. nóvember 1998
Mál nr. 602/1994

Upprunalegt skjal

Hoofdman gegn Hollandi
Mismunun á grundvelli hjúskaparstöðu. lífeyrisgreiðslur og framfærsluaðstoð. Ekki brot gegn 26. gr. samningsins.

1. Atvik málsins

Kærandi málsins var Cornelis P. Hoofdman, hollenskur ríkisborgari, fæddur 1952. Hoofdman og unnusta hans höfðu búið saman í óvígðri sambúð frá því í janúar 1986 þar til hún dó 26. febrúar 1992. Kærandi sótti um lífeyri eða tímabundnar bætur samkvæmt almennum lögum um ekkjur og munaðarlausa. Honum var hafnað af lífeyristrygginga bankanum, sem var ábyrgur fyrir framkvæmd laganna. Bankinn hafnaði beiðni kæranda með þeim rökum, að þar sem kærandi hefði ekki verið í hjúskap, ætti hann hvorki ekki rétt á bótum né lífeyri samkvæmt lögunum. Ákvörðun bankans var byggð á 8. og 13. gr. laga um ekkjur og munaðaleysingja, en samkvæmt þeim lögum áttu eingöngu ekkjur og ekklar sem voru í hjúskap rétt á lífeyri og tímbundnum bótum vegna fráfalls tryggðs maka.

Kærandi kærði ákvörðun bankans til áfrýjunarnefndar. Kærandi hélt því fram að mismunun bankans á aðilum í hjúskap og aðilum í sambúð hefði verið ólögmæt í skilningi 26. gr. SBSR. Áfrýjunanefndin taldi áfrýjun kæranda tilefnislausa og vísaði til ákvörðunar æðsta dómsstóls Hollands í almannatryggingamálum, í máli frá 28. febrúar 1990 (sem síðar fór fyrir mannréttindanefndina Danning gegn Hollandi í máli nr. 180/1984). Í því máli komst nefndin að þeirri niðurstöðu að mismunun í hollenskum almannatryggingalögum, á aðilum í hjúskap og aðilum sem ekki voru í hjúskap, hefði ekki verið andstæð 26. gr. SBSR. Kærandi áfrýjaði því næst til æðsta dómstóls Hollands í almanntryggingamálum sem staðfesti ákvörðun áfrýjunarnefndarinnar og benti jafnframt á að það væri í höndum löggjafans að ákveða hvaða hópar sambýlisfólks ætti rétt á lífeyri og bótum vegna fráfalls maka, og taldi dómurinn það ekki ekki í sínum verkahring að kveða á um efnisinntak laga.

2. Kæran

Kærandi taldi að viðhorf í samfélaginu til hjúskapar og sambúðar hefðu breyst og að mismun sú sem gerð var á aðilum í hjúskap og sambúðaraðilum í lögunum hefði verið ólögmæt í skilningi 26. gr. SBSR.

3. Athugasemdir aðildarríkis

Aðilarríkið vísaði til niðurstöðu nefndarinnar í máli nr. 180/1984 (Danning gegn Hollandi). Jafnframt útskýrði það að í Hollandi, hefði það ákveðin réttaráhrif í för með sér að ganga í hjúskap, sem næðu ekki til ógiftra sambúðaraðila. Sambúðarðilar hefðu hins vegar frjálst val um hvort þeir gengu í hjúskap eða ekki. Í hollenskri löggjöf væru mörg ákvæði sem ættu eingöngu við um aðila í hjúskap og benti aðildarríkið á að löggjöfin hefði ekkert breyst síðan nefndin fjallaði um mál Danning gegn Hollandi.

Aðildarríkið úrskýrði að almenn lög um ekkjur og munaðarlausa, sem voru í gildi til 1. júlí 1996, hefðu endurspeglað ákvæði lögbókarinnar. Tilgangur laganna, sem gengu í gildi 1. október 1959, hefði verið að tryggja lágmarks lífeyri fyrir ekkjur sem ekki gátu séð fyrir sér og sínum. Skilyrði þess að ekkjur ættu rétt á lífeyri vegna fráfalls maka voru að (a) hún ætti ógift börn, eða (b) væri ófrísk, eða (c) eldri en 40 ára, eða (d) óvinnufær. Ef ekkert þessara skilyrða var uppfyllt, áttu ekkjur eingöngu rétt á tímabundnum bótum.

Aðildarríkið benti að lokum á að mikill munur væri á aðilum í hjúskap og sambúðaraðilum og að það væri ekki sjálfgefið að um þá giltu sams konar lög og reglur. Jafnframt vísaði það til fyrri ummæla í áliti nefndarinnar í máli nr. 395/1990, um að það hefði aldrei verið tekin ákvörðun um að afnema með öllu þessa mismunun úr lögum. Hver og einn lagabálkur væri skoðaður og kannað hvort breytinga væri þörf í tengslum við þjóðfélagsbreytingar og skyldur ríksins samkvæmt alþjóðasamningum.

4. Niðurstaða nefndarinnar

4.1. Álit um efnishlið málsins

Álitaefnið sem nefndin þurfti að leysa úr, var hvort kærandi hefði verið þolandi brota á 26. gr. samningsins, vegna þess að honum var synjað um lífeyri á grundvelli hjúskaparstöðu sinnar. Nefndin benti á að samkvæmt þeim gögnum sem borist hefðu nefndinni, hefði kærandi ekki átt rétt á lífeyri, jafnvel þó hann hefði verið giftur sambýliskonu sinni, þar sem hann var yngri en 40 ára, ekki óhæfur til að stunda vinnu og hafði engin ógift börn á sínu framfæri. Af þessum sökum þurfti nefndin bara að taka afstöðu til þess hvort hann hefði rétt á tímabundnum bótum.

Kærandi hélt því fram að hann hefði greitt framlög samkvæmt lögunum sem giftur aðili og það að synja honum um bætur samkvæmt því væri ólögmæt mismunun í skilningi 26. gr. samningsins. Aðildarríkið hafði hins vegar bent á í athugasemdum sínum að aðilar í hjúskap og ógiftir aðilar greiddu sömu framlög. Allir þeir sem búsettir væru í Hollandi greiddu tekjutengd framlög.

Nefndin benti á að ekki væri öll mismunandi meðferð ólögmæt mismunun í skilningi 26. gr., svo fremi að hún væri byggð á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum. Nefndin benti á þau rök aðildarríkisins að réttarstaða aðila í hjúskap og sambúðarfólks væri gjörólík og að aðilar hefðu frjálst val um það hvort þeir gengu í hjúskap eða ekki. Með því að velja að ganga ekki í hjúskap taldi nefndin að kærandi hefði ekki öðlast sömu réttindi og skyldur og aðilar í hjúskap. Þar af leiðandi ætti kærandi ekki rétt á fullum bótum samkvæmt ákvæðum laga er giltu um aðila í hjúskap. Nefndin taldi að mismunun þessi fæli ekki í sér ólögmæta mismunun í skilningi 26. gr. SBSR.

HMP

Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna:
Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar
við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 1. apríl 2004
Mál nr. 976/2001

Upprunalegt skjal

Derksen gegn Hollandi
Mismunun á grundvelli hjúskaparstöðu. framfærsluaðstoð. Ekki brot gegn 26. gr. samningsins.

1. Atvik málsins

Kærandi málsins var Cecilia Derksen, hollenskur ríkisborgari. Hún kærði fyrir hönd sjálfrar sín og dóttur sinnar, Kaya Marcella Bakker, sem var fædd 1995. Hún taldi sig og dóttur sína hafa verið þolendur brota af Hollands hálfu á 26. gr. SBSR.

Kærandi hélt heimili með sambýlismanni sínum Marcel Bakker á árunum 1991 til 1995. Bakker var fyrirvinna heimilisins, kærandi hugsaði um heimilið og vann hlutastarf. Kærandi varð ófrísk eftir að þau voru búin að skrá sig í sambúð og Bakker búinn að viðurkenna barnið sem sitt. Kærandi hélt því fram að þau hafi ætlað sér ganga í hjúskap. Bakker lést í slysi 22. febrúar 1995.

Kærandi lagði fram beiðni um bætur 6. júlí 1995 samkvæmt almennum lögum um ekkjur og munaðarlausa. Beiðni hennar var synjað 1. ágúst 1995 sökum þess að hún og Bekker höfðu ekki verið í hjúskap og þar af leiðandi gæti hún ekki talist ekkja í skilningi laganna. Bætur fyrir barn án annars foreldris voru innifalldar í ekkjubótunum samkvæmt lögunum og því átti dóttir hennar ekki rétt á bótum.

Ný lög tóku gildi í Hollandi 1. júlí 1996, um eftirlifandi aðstendendur. Lög þessi felldu almennu lögin um ekkju og munaðarleysingja úr gildi. Samkvæmt nýju lögunum átti sambýlisfólk einnig rétt til bóta. Í nóvember 1996 sótti Derksen um bætur samkvæmt lögunum um eftirlifandi aðstendendur. Í desember sama ár synjaði bankinn (Sociale Verzekeringsbank) henni um bætur með þeim rökstuðningi að einungis þeir sem áttu rétt til bóta samkvæmt eldri lögunum og þær sem urðu ekkjur frá og með 1. júlí 1996 töldust eiga rétt á bótum samkvæmt nýjum lögum.

Kröfu kæranda, um endurskoðun á ákvörðun bankans um að synja henni var hafnað af ráði bankans í febrúar 1997. Frekari áfrýjunum kæranda innan lands var hafnað. Þar með hafði kærandi leitað allra tiltækra leiða til úrbóta innan lands.

2. Kæran

Kærandi taldi að hollenska ríkið hefði gerst brotið gegn 26. gr. SBSR þar sem að gerður var greinarmunur á hálf munaðarlausum börnum sem áttu gifta foreldra annars vegar og þeim sem áttu ógifta foreldra. Kærandi hélt því fram að þessi mismunun gæti ekki verið réttlát á grundvelli málefnalegra og hlutlægra sjónarmiða. Með vísan til fyrra álits nefndarinnar í máli Danning gegn Hollandi, hélt kærandi því fram að í máli þessu væri staðan önnur þar sem að ákvörðun um að ganga ekki í hjúskap hafi ekki áhrif á réttindi og skyldur foreldris. Kærandi taldi að það væri óásættanlegt að börn sem urðu hálf munaðarlaus eftir 1. júlí 1996 ættu rétt á bótum burtséð frá hjúskaparstöðu foreldra þeirra þegar hins vegar börn ógiftra foreldra sem urðu hálf munaðarlaus fyrir þá dagsetningu áttu ekki rétt á bótum.

Derksen taldi sig einnig hafa verið þolanda mismununar. Hún sætti sig við að hún ætti ekki rétt til bóta samkvæmt eldri lögunum, um ekkjur og munaðarleysingja í ljósi niðurstöðu nefndarinnar í máli Danning gegn Hollandi. En þar sem að lögin hefðu breyst og sambúðarfólk ætti rétt á bótum þegar annar aðili félli frá, taldi hún óásættanlegt að hún fengi ekki bætur eingöngu sökum þess að sambúðarmaður hennar lést fyrir 1. júlí 1996. Kærandi hélt því fram að þegar búið væri að setja í lög að aðilar í hjúskap og sambúðarfólk ættu sömu réttindi, þá ætti það að gilda um alla án tillits til dánardags maka. Kærandi taldi að þar sem aðildarríkið hefði ekki tryggt þessum aðilum jöfn réttindi hefði það brotið gegn 26. gr. samningsins.

Kærandi benti einnig á að samkvæmt dómum Mannréttindadómstóls Evrópu teldist mismunun á börnum á grundvelli hjúskaparstöðu foreldra þeirra ekki lögmæt.

3. Athugasemdir aðildarríkis

Aðildarríkið útskýrði að þegar ný lög komu í stað eldri, voru þau réttindi sem til voru samkvæmt eldri lögum viðurkennt og ekki talið hægt að krefjast nýrra réttinda vegna dauðfalls fyrir gildistöku nýju laganna. Aðildarríkið benti á að kærandi hefði ekki áfrýjað ákvörðuninni frá 1. ágúst 1995, sem hafnaði beiðni hennar samkvæmt lögum.

Aðildarríkið hafnaði þeirri skoðun kæranda að ný löggjöf ætti einnig að eiga við um eldri mál. Aðildarríkið benti á að lögunum hefði verið ætlað að endurspegla samfélagsbreytingar, þar sem óvígð sambúð væri mjög algeng. Aðildarríkið taldi, að það ætti að vera í höndum löggjafans að meta þarfir á lagabreytingum.

Varðandi þann hluta kærunnar sem sneri að dóttur Derksen, taldi aðildarríkið að sömu ofangreind rök ættu við. Það hefði einnig verið þannig samkvæmt eldri lögum að hálf munaðarlaus börn áttu ekki rétt á bótum heldur voru það eftirlifandi foreldrar þeirra. Þar sem að hvorki eldri né ný löggjöf heimiluðu bótagreiðslur til hálf munaðarlausra barna, var aðildarríkið á þeirri skoðun að það gæti ekki verið um mismunun í skilningi 26. gr. að ræða.

Varðandi þá fullyrðingu kæranda að lögin mismunuðu börnum sem fæddust utan hjúskapar og börnum er fæddust í hjúskap með ólögmætum hætti, taldi aðildarríkið að kærandi hefði ekki leitað allra tiltækra leiða til úrbóta innan lands. Einnig taldi það fullyrðinguna ástæðulausa, þar sem staða barnsins var óviðkomandi skilyrðum þeim er AWW settu um hjúskaparstöðu foreldra.

4. Niðurstaða nefndarinnar

4.1. Ákvörðun um meðferðarhæfi

Nefndin benti á athugasemdir aðildarríkisins um að kærandi hefði ekki leitað allra tiltækra leiða til úrbóta innan lands hvað varðaði bætur skv. eldri lögum um ekkjur og munaðarleysinga. Nefndin taldi að sá hluti kærunnar er varðaði synjun bóta skv. þeim lögum væri ekki tækur til meðferðar skv. a. lið, 2. mgr. 5. gr. valfrjálsrar bókunar við SBSR.
Að öðru leyti taldi nefndin kæruna tæka til meðferðar.

4.2. Álit um efnishlið málsins

Fyrsta álitefnið sem nefndin tók fyrir var hvort kærandi hefði verið þolandi brota á 26. gr. samningsins, af þeim sökum að ný löggjöf sem veitti aðilum í hjúskap og utan hjúskaps jafnan rétt til bóta náði ekki til þeirra sem voru ekki í hjúskap og misstu framfæranda fyrir gildi nýrra laga um eftirlifandi aðstendendur. Nefndin ítrekaði að ólögmæt mismunun í skilningi 26. gr. fælist ekki í sérhverri mismunun, en að hún yrði að styðjast við málefnaleg og hlutlæg sjónarmið og stefna að lögmætum markmiðum samkvæmt samningnum. Nefndin minntist þess að hafa í fyrri málum gegn Hollandi komist að þeirri niðurstöðu að mismunun á aðilum í hjúskap og þeim sem ekki eru í hjúskap gæti ekki talist ólögmæt mismunun í skilningi 26. gr. samningsins, þar ákvörðun um að ganga í hjúskap fylgdu ákveðin réttaráhrif, sem ekki giltu um aðila sem ekki væru í hjúskap. Einnig benti nefndin á að ákvörðun um að ganga í hjúskap væri algjörlega í höndum sambúðarfólks. Með því að setja nýja löggjöf hefði aðildarríkið tryggt jafna stöðu aðila í hjúskap og sambúðarfólks á rétti til bóta fyrir eftirlifandi aðstendendur. Nefndin taldi að aðildarríkinu hefði ekki verið skylt að breyta lögunum með afturvirkum hætti. Nefndin komst því að þeirri niðurstöðu að með því að beita nýju lögunum eingöngu um ný tilfelli hefði ekki verið brotið á 26. gr. samningsins af Hollands hálfu.

Seinna álitamálið sneri að því hvort synjun á greiðslu bóta til dóttur kæranda teldist ólögmæt mismunun samkvæmt 26. gr. samningsins. Aðildarríkið hélt því fram í athugasemdum sínum að það væri ekki staða barnsins sem skæri úr um það hvort það ætti rétt á bótum, heldur hjúskaparstaða eftirlifandi foreldris, og að bæturnar væru ekki fengnar barninu í hendur heldur foreldri þess. Kærandi benti hins vegar á að ákvörðun foreldra um að ganga ekki í hjúskap ætti ekki að hafa áhrif á skyldur foreldra gagnvart barni sínu og að barnið hefði engin áhrif á ákvörðun foreldra um þessi efni. Nefndin benti á að 26. gr. legði bann bæði við beinni og óbeinni mismunun, óbein mismunun fæli í sér að regla eða mælikvarði, sem er hlutlaus á yfirborðinu og ekki ætlað að mismuna, en leiðir af sér mismunun sökum einstaka eða ósamsvarandi andstæðum áhrifum sem hún hefur á ákveðinn hóp einstaklinga. Samt sem áður telst mismunun einungis ólögmæt mismunun í skilningi 26. gr. samningsins sé hún ekki byggð á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum. Í þessu tiltekna máli, benti nefndin á að samkvæmt eldri lögum réðst réttur barns til bóta af hjúskaparstöðu foreldris. En samkvæmt nýjum lögum var börnum sem fæddust utan hjónabands fyrir 1. júlí 1996 meinað um bætur, en börn í sömu stöðu, fædd eftir 1. júlí 1996 áttu rétt á bótum samkvæmt lögunum. Nefndin taldi að þessi mismunun hefði ekki verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum. Í niðurstöðu nefndarinnar var lögð áhersla á að yfirvöld hefðu verið meðvituð um ójafnræðis áhrif laganna, þegar ný lög voru sett í þeim tilgangi að bæta úr ójafnræði eldri laga. Nefndin taldi því að auðvelt hefði verið fyrir stjórnvöld að koma í veg fyrir þá stöðu sem þessi börn voru í með því að víkka gildissvið nýrra laga út til þeirra. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að aðildarríkið hefði brotið á 26. gr. samningsins með því að mismuna Kaya Marcelle Bakker á ólögmætan hátt þegar henni var synjað um bætur í gegnum móður sína samkvæmt gildandi lögum í Hollandi.

HMP