Mismunun á grundvelli aldurs

Mismunun á grundvelli aldurs

Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 16. júlí 2001
Mál nr. 855/1999

Upprunalegt skjal

Schmitz-de-Jong gegn Hollandi
Mismunun á grundvelli aldurs. félagsleg aðstoð. Ekki brot gegn 26. gr. samningsins.

1. Atvik málsins

Kærandi málsins var Schmitz-de-Jong, hollenskur ríkisborgari, fædd 1949 og búsett í Gulpen í Hollandi. Hún taldi sig hafa verið þolanda brota af Hollands hálfu á 26. gr. SBSR. Allir hollenskir ríkisborgarar 65 ára og eldri áttu rétt á sérstöku skírteini fyrir ellilífeyrisþega (kallað PAS-65). Makar handhafa þessara skírteina gátu fengið sams konar skírteini að því tilskildu að þeir væru orðnir 60 ára eða eldri. Handhafar skírteinanna fengu afslátt í almenningssamgöngur, þegar þeir sóttu félags- og menningarviðburði, á bókasöfnum og af aðgangseyri á söfn. Kærandi var gift Wilhelm Theodor Schmitz, fæddum 1924. Schmitz var handhafi PAS-65. Í febrúar 1993 sótti kærandi um skírteini maka. Bæjaryfirvöld í Gulpen höfnuðu beiðni hennar, þar sem hún uppfyllti ekki aldursskilyrðið. Kærandi óskaði eftir því að ákvörðunin yrði endurskoðuð, en því var hafnað í maí 1993. Stjórnvöld höfnuðu kröfum hennar og þar með hafði kærandi nýtt sér öll tiltæk úrræði innan lands.

2. Kæran

Kærandi taldi að hollenska ríkið hefði brotið gegn 26. gr. SBSR þar sem henni hefði verið mismunað á grundvelli aldurs. Hún vísaði í upplýsingabækling stjórnvalda, sem útskýrði að skírteinið ætti að stuðla að því að ellilífeyrisþegar tækju virkan þátt í samfélaginu, og til að ýta undir það, væri skírteinið einnig fengið mökum þeirra. Þar sem meðal aldursmunur ellilífeyrisþega og maka hans var á bilinu 4-5 ár, var ákveðið að allir makar, 60 ára og eldri ættu rétt á skírteininu. Kærandi hélt því fram að þessi aldursmörk væru handahófskennd og að tilgangurinn með því að maki fengi einnig skírteini gæti ekki réttlætt þá takmörkun, að eingöngu makar 60 ára og eldri ættu rétt á skírteininu.

3. Athugasemdir aðildarríkis

Aðildarríkið upplýsti að frá 1. september 1999, hefðu skírteini maka fallið úr gildi, í kjölfar niðurstöðu jafnréttisráðs, um að kerfið fyrir maka, mismunaði fólki óbeint á grundvelli hjúskaparstöðu þess. Aðildarríkið hélt því fram að forsendur kærunnar væru því ekki lengur til staðar.

Varðandi þær staðhæfingar kæranda að henni hefði verið mismunað á grundvelli aldurs, benti aðildarríkið á að aldurslágmarkið hefði gagngert verið haft 60 ára. Hefði það verið lægra hefði það verið í andstöðu við markmið skírteinanna, sem var nátengd markmiðinu með skírteinum maka ellilífeyrisþega. Aðilar undir 60 ára voru taldir vera of langt frá markhópi þeim er skírteinin voru ætluð. Aðildarríkið benti á að kærandi hefði verið 44 ára þegar hún sótti um skírteinið. Einnig skírskotaði aðildarríkið til þess að fjárhagsástæður hefðu leitt til þessara takmarkanna við 60 ára og eldri.

4. Niðurstaða nefndarinnar

Kærandi hélt því fram að hún hefði verið þolandi mismunar á grundvelli aldurs vegna þess að hún var 44 ára (árið 1993) hefði hún ekki átt rétt á skírteini maka ellilífeyrisþega, sem eingöngu makar 60 ára og eldri áttu rétt á. Nefndin ítrekaði að mismunun teldist ekki ólögmæt ef hún væri grundvölluð á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum. Í þessu tiltekna máli taldi nefndin að 60 ára aldurstakmarkið sem sett var til að fá úthlutuðu skírteini vera málefnalegt og að þessi greinarmunur hefði ekki verið ómálefnalegur í tilfelli kæranda málsins.

Nefndin taldi að ekkert hefði komið fram í máli þessu sem brotið hefði í bága við 26. gr. samningsins.

HMP
 

Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna:
Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 25. mars 2003
Kærumál nr. 983/2003

Upprunalegt skjal

Love o.fl. gegn Ástralíu (2003)
Rétturinn til atvinnufrelsis. Mismunun á grundvelli aldurs. Ekki brot gegn 26. gr. samningsins.

1. Atvik málsins

Kærendur máls þessa voru William Bone, William Craig, Peter Ivanoff og John Love, allir ástralskir ríkisborgarar. Kærendur störfuðu sem flugmenn hjá Flugfélagi Ástralíu (e. Australian Airlines), sem síðar varð hluti af flugfélaginu Qantas (e. Qantas Airlines Ltd.). Flugfélag Ástralíu var að fullu í eigu ástralska ríkisins og var stjórn þess skipuð af áströlskum stjórnvöldum. Þá var flugfélagið Qantas einnig í eigu ríkisins en var hins vegar selt til einkaaðila árið 1995. Kærendum var hins vegar öllum sagt upp störfum sínum sem flugmenn hjá Flugfélagi Ástralíu á árunum 1990 til 1992. Ástæðu þessa mátti rekja til eftirlaunastefnu flugfélagsins, en samkvæmt henni urðu flugmenn að leggja niður störf er þeir næðu 60 ára aldri og fara á eftirlaun. Samningar kærenda við flugfélagið höfðu ekki að geyma ákvæði sem gerðu ráð fyrir starfslokum á 60 ára afmælisdegi þeirra, né ákvæði sem tiltóku starfslok þegar öðrum aldursmörkum væri náð.

Kærendur leituðu með mál sitt til áströlsku Mannréttindanefndarinnar þar sem þeir töldu að þeim hefði verið mismunaði með ólögmætum hætti á grundvelli aldurs síns. Féllst Mannréttindanefndin á það með kærendum og taldi að skylda kærenda til þess að láta af störfum og fara á eftirlaun þegar þeir næðu 60 ára aldri fæli í sér ólögmæta mismunum gagnvart þeim. Forsvarsmenn Qantas neituðu hins vegar að fallast á niðurstöðu Mannréttindanefndarinnar og urðu þeir því ekki við tilmælum hennar um að ráða kærendur til starfa á nýjan leik, elleger greiða þeim nánar tilteknar bætur, þrátt fyrir að fyrirtækið hefði á þessum tímapunkti vikið frá stefnu sinni um að flugmönnum yrði skylt að fara á eftirlaun við 60 ára aldur.

2. Kæran

Kærendur töldu að ástralska ríkið hefði brotið gegn 26. gr. alþjóðasamnings Sameinuðu Þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (sks. SBSR) þar sem ríkið hefði ekki veitt kærendum nægjanleg vernd gegn því að vera mismunað á grundvelli aldurs síns er þeim var sagt upp störfum þegar þeir náðu 60 ára aldri. Hefði mismunun sú hvorki byggst á málefnalegum né hlutlægum sjónarmiðum og þar af leiðandi verið ólögmæt. Þá töldu kærendur að misbrestur ástralska ríkisins á því að fara eftir áliti áströlsku Mannréttindanefndarinnar og tilmælum hennar fæli í sér brot gegn 2. gr. SBSR, þar sem ríkið hefði ekki veitt kærendum raunhæfa úrbót þrátt fyrir að þeirra eigin Mannréttindanefnd hefði komist að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið gegn réttindum þeirra.

3. Athugasemdir aðildarríkis

Að mati ástralska ríkisins yrði nefndin að taka tillit til þeirra aðstæðna sem uppi voru á þeim tíma er hin umdeilda ákvörðun Flugfélags Ástralíu, um að segja kærendum upp störfum þegar þeir náðu 60 ára aldri, var tekin og þeirra upplýsinga sem þá lágu fyrir, meðal annars læknisfræðilegra upplýsinga um heilsuhagi flugmanna eftir aldri þeirra, en þær upplýsingar báru með sér að hættan á heilsubresti flugmanna ykist til muna eftir að þeir næðu 60 ára aldri. Hefði ákvörðunin verið byggð á mælikvarða sem viðurkenndur væri og jafnan lagður til grundvallar í flugsamgöngum á alþjóðavettvangi, læknisfræðilegum rannsóknum sem fyrir lágu auk þess sem ákvörðunin miðaði að því að öryggi flugfarþega yrði tryggt sem framast væri unnt. Flugfélag Ástralíu hefði þannig byggt ákvörðun sína á sjónarmiðum sem teljast yrðu bæði málefnaleg og hlutlæg og hefði ákvörðunin þar af leiðandi ekki falið í sér ólögmæta mismunun gagnvart kærendum. Af því leiddi aftur að ástralska ríkinu hefði ekki borið skylda til að vernda kærendur gegn mismununinni sem þeir sættu á grundvelli aldurs.

4. Niðurstaða nefndarinnar

4.1. Ákvörðun nefndarinnar um meðferðarhæfi

Nefndin tók til athugunar hvort kæra málsins væri hæf til efnislegrar meðferðar. Leit nefndin þar til nokkurra atriða og tók meðal annars til athugunar þá málsástæðu ástralska ríkisins að vísa bæri erindi þriggja kærenda, þeirra Bone, Craig og Ivanoff, frá á þeim grundvelli að erindin vörðuðu atvik sem áttu sér stað áður en ástralskra ríkið viðurkenndi lögbærni nefndarinnar í málum sem varða brot á ákvæðum samningsins, með því að gerast aðili að valfrjálsri bókun við SBSR. Nefndin áréttaði að ætluð brot ástralska ríkisins lytu að atvikum, sem átt höfðu sér stað áður en ástralska ríkið gerðist aðili að bókuninni og hefði lokið með töku ákvarðana um að segja kærendum upp störfum. Nefndin taldi, að ekki væri hægt að líta svo á, að áhrifa ákvörðunarinnar gætti enn gagnvart kærendum með þeim hætti að í því fælist í sjálfu sér brot gegn ákvæðum samningsins. Þá væri ennfremur ekki hægt að líta svo á, að synjun Flugfélags Ástralíu í framhaldi ákvarðanna, um að taka upp viðræður við kærendur um ráðningu þeirra til starfa á nýjan leik, hefði falið í sér nýtt og sjálfstætt tilvik ólögmætrar mismunar sem væri óháð fyrri ákvörðununum. Nefndin komst þannig að þeirri niðurstöðu að erindi þriggja kærenda, þeirra Bone, Craig og Ivanoff, væru ekki tæk til efnismeðferðar þar sem þau vörðuðu atvik sem áttu sér stað áður en ástralska ríkið gerðist aðili að valfrjálsu bókuninni.

Þá hélt ástralska ríkið því fram, að nefndin ætti ekki að taka erindi þess kæranda sem eftir stæði, Love, til efnislegrar meðferðar þar sem það varðaði ákvörðun sem tekin hefði verið af sjálfstæðu hlutafélagi, Flugfélagi Ástralíu, en ekki af ástralskum stjórnvöldum. Varðaði erindi kæranda þannig ekki ákvörðun sem væri á ábyrgð ríkisins og því gæti ekki verið um skerðingu aðildarríkis, á einhverjum þeirra réttinda sem einstaklingum eru færð með SBSR, að ræða. Væri erindi kæranda þannig ekki tækt meðferðar samkvæmt 1. gr. valfrjálsu bókunarinnar. Nefndin taldi hins vegar, að í ljósi þeirrar nauðsynar sem væri á að taka staðreyndir málsins og viðkomandi löggjöf til nánari athugunar og mats, að rétt væri að þessi málsástæða ríkisins yrði tekin til meðferðar og frekara mats þegar efnishlið málsins yrði skoðuð, þar sem hún væri í nánu sambandi við matið á skyldum aðildarríkis samkvæmt 26. gr. SBSR.

4.2. Álit um efnishlið málsins

Fyrir nefndinni lá að taka afstöðu til þess hvort sá kærandi, sem eftir stóð, hefði verið þolandi ólögmætrar mismununar af hálfu ástralska ríkisins í skilningi 26. gr. SBSR. Vísaði nefndin til þess, sem stöðugt kæmi fram í álitum hennar, að ólík meðferð einstaklinga teljist ekki í öllum tilvikum ólögmæt mismunun. Þegar mismunun væri hins vegar til staðar yrði hún að byggjast á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum og stefna að því að ná markmiðum sem væru lögmæt samkvæmt SBSR. Taldi nefndin, að þrátt fyrir að aldur væri ekki á meðal þeirra sjónarmiða, sem talin væru upp í 26. gr. samningsins sem ólögmæt, gæti mismunun á milli einstaklinga á grundvelli aldurs, sem ekki væri byggð á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum, jafngilt mismunun vegna „annarra aðstæðna” í skilningi 26. gr. SBSR eða synjun á réttinum til jafnrar lagaverndar í fyrsta málslið 26. gr.

Hins vegar væri á það að líta, að mati nefndarinnar, að engan veginn lægi ljóst fyrir að skylda flugmanna til þess að hætta störfum og fara á eftirlaun þegar ákveðnum aldursmörkum væri náð, fæli almennt í sér ólögmæta mismunun á grundvelli aldurs. Benti nefndin á að eftirlaunastefnur, sem gerðu ráð fyrir ákveðnum eftirlaunaaldri, byggðust meðal annars á því að vernda heilsu, félagslegt öryggi og lífsviðurværi starfsmanna eftir að þeir létu af störfum. Nefndin áréttaði í þessu sambandi að Alþjóðavinnumálastofnunin hefði byggt upp ítarlegt kerfi sem miði að því að koma í veg fyrir að starfsmönnum sé mismunað á grundvelli aldurs. Hins vegar væri, í samningum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, hvergi að finna ákvæði er lýstu eftirlaunastefnur, sem gerðu ráð fyrir því að starfsmönnum væri skylt að fara á eftirlaun á ákveðnum aldri, óheimilar. Þetta kæmi hins vegar ekki í veg fyrir að nefndin tæki afstöðu til þess hvort tiltekin eftirlaunastefna, og þær ákvarðanir sem teknar væru á grundvelli hennar, fælu í sér ólögmæta mismunun.

Nefndin tiltók að markmiðið um að tryggja öryggi farþega í flugvélum, áhafnar um borð og annarra þeirra sem hugsanlega gætu orðið fyrir áhrifum vegna flugsamgangna, væri löglegt markmið samkvæmt SBSR. Hvað varðaði það álitaefni, hvort ólík meðferð flugmanna Flugfélags Ástralíu eftir aldri þeirra byggðist á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum, tók nefndin með í reikninginn aðstæður eins og þær voru á þeim tíma er kæranda var sagt upp störfum, en þá var sú framkvæmd útbreidd, bæði í Ástralíu sem og á alþjóðlegum vettvangi, að leggja þá skyldu á flugmenn að fara á eftirlaun þegar þær næðu 60 ára aldri. Hefur ástralska ríkið bent á að eftirlaunastefna Flugfélags Ástralíu hafi, að þessu leyti, verið í samræmi við reglur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, sem höfðu það meðal annars að markmiði að tryggja öryggi flugfarþega sem allra best. Með þessi atriði í huga og í ljósi aðstæðna málsins taldi nefndin því að ekki væri hægt að komast að þeirri niðurstöðu, að ólík meðferð Flugfélags Ástralíu á flugmönnum sínum eftir aldri væri ekki byggð á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum.

Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að eins og atvik málsins lægju fyrir henni, hefði ekki verið leitt í ljós brot ástralska ríkisins á 26. gr. SBSR. Þegar af þeim sökum taldi nefndin ekki þörf á því að taka afstöðu til þess hvort ástralska ríkið bæri ábyrgð á ákvörðun Flugfélags Ástralíu, um að segja kæranda upp störfum, eða hvort ábyrgð þess yrði reist á því að koma í veg fyrir að Flugfélagið gerðist sekt um ólögmæta mismunun.

Sérálitum í málinu skiluðu annars vegar Nisuke Ando og hins vegar Prafullachandra Natwarlal Bhagwati.

Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna:
Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 8. ágúst 2003
Kærumál nr. 998/2001

Upprunalegt skjal

Althammer o.fl. gegn Austurríki
Eftirlaun. Mismunun á grundvelli aldurs. Ekki brot gegn 26. gr. samningsins.

1. Atvik málsins

Kærendur máls þessa voru Rupert Althammer og 11 aðrir austurrískir ríkisborgarar, búsettir í Austurríki á þeim tíma sem um ræðir. Kærendur voru ellilífeyrisþegar sem áttu það sameiginlegt að hafa starfað fyrir Almannatryggingaráð Salzburg borgar og þáðu eftirlaun fyrir það starf sitt. Um eftirlaun kærenda gilti ákveðið kerfi sem mælt var fyrir um í Reglugerð A um greiðslur til fyrrum starfsmanna Almannatryggingaráðs. Gerði reglugerðin ráð fyrir margvíslegum eftirlaunaréttindum og byggðust mánaðarleg eftirlaun á mismunandi greiðslum m.a. þannig að tiltekin upphæð greiddist vegna heimilishalds eftirlaunaþega og önnur, nánar tiltekin upphæð vegna barna eftirlaunaþega sem væru undir 27 ára aldri.

Á árinu 1995 voru gerðar breytingar á reglugerð A sem tóku gildi 1. janúar 1996. Í breytingunum fólst að mánaðargreiðsla vegna heimilishalds var afnumin en greiðsla vegna barna eftirlaunaþega var hækkuð á móti, fyrir hvert barn sem var yngra en 27 ára. Kærendur undu þessari breytingu ekki og höfðuðu mál fyrir héraðsdómi Salzburg þar sem þeir kröfðust viðurkenningar á skyldu Almannatryggingaráðs borgarinnar til þess að greiða þeim tiltekna upphæð vegna heimilishalds, sem hluta af eftirlaunum þeirra. Dómstóllinn hafnaði kröfu þeirra, m.a. með þeim rökum að þeir einstaklingar, sem hættir væru störfum, yrðu að lúta því að breytingar væru gerðar á lögum og reglum um eftirlaun, svo lengi sem slíkar lagabreytingar væru reistar á hlutlægum sjónarmiðum og í samræmi við meginregluna um meðalhóf. Áfrýjunardómstóllinn í Linz staðfesti niðurstöðu héraðsdóms og Hæstiréttur Austurríkis vísaði kröfu kærenda frá.

2. Kæran

Kærendur töldu að austurríska ríkið hefði brotið gegn 26. gr. alþjóðasamnings Sameinuðu Þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (sks. SBSR) þar sem að beiting reglugerðar A, með þeim breytingum sem tóku gildi 1. janúar 1996, leiddi til ólögmætrar mismununar gagnvart þeim, þar sem flestir ellilífeyrisþegar þyrftu taka þátt í heimilishaldi og framfærslu maka síns, en ættu ekki börn undir 27 ára aldri. Af þeim sökum kæmu áðurnefndar breytingar, jafnvel þó að þær hefðu verið byggðar á málefnalegum sjónarmiðum, harðar niður á ellilífeyrisþegum en þeim einstaklingum, sem hætt hefðu störfum hjá Almannatryggingaráði og væru enn á vinnumarkaði. Breytingarnar hafi þannig meiri áhrif á eftirlaun fyrrnefnda hópsins, þar sem beiting ákvæða reglugerðarinnar leiddi til þess að bætur vegna einstaklinga á framfæri ellilífeyrisþega væru afnumdar með öllu. Héldu kærendur því ennfremur fram að þessi óhagstæðu áhrif breytinga á reglugerðinni hefðu verið fyrirsjáanleg og fyrirætluð.

Þá bentu kærendur á að umræddar breytingar væru þriðja skrefið í röð breytinga á eftirlaunakerfi austurrískrar löggjafar sem miðuðu að því að lækka greiðslur til ellilífeyrisþega. Hefðu breytingarnar stig af stigi lækkað greiðslur til ellilífeyrisþega og með þriðju og síðustu breytingunni væri brotið gegn meginreglu 26. gr. SBSR um að allir skyldu vera jafnir fyrir lögunum. Þá hefðu austurrískir dómstólar ekki tekið tillit til áhrifa þessara stigvaxandi breytinga, þar sem dómstólarnir hefðu miðað endurskoðun sína við einangruð tilvik og einstakar breytingar, og því ekki veitt kærendum jafna og virka vernd gegn ólögmætri mismunun í skilningi 26. gr.

3. Athugasemdir aðildarríkis

Austurríska ríkið taldi kæru málsins ekki tæka til efnismeðferðar. Taldi ríkið í fyrsta lagi að efnisatriði kærunnar hefðu þegar verið tekin fyrir af nefndinni, sem hluti af kærumáli nr. 803/1998. Í öðru lagi benti ríkið á að Mannréttindadómstóll Evrópu hefði þegar tekið til umfjöllunar kæru frá kærendum, sem byggð væri á sömu staðreyndum og efnisatriðum og kæra þeirra frammi fyrir nefndinni. Af þeim sökum væri kæra þessa máls ekki tæk til efnismeðferðar samkvæmt a. lið 2. mgr. 5. gr. valfrjálsu bókunarinnar, þar sem fram kæmi að ekki mætti taka kæru til meðferðar ef sama mál hefði þegar verið rannsakað eftir öðrum aðferðum alþjóðlegrar rannsóknar eða sáttar. Vísaði ríkið í þessu sambandi til fyrirvara sem það gerði þegar það gerðist aðili að valfrjálsu bókuninni, en í fyrirvaranum fólst að ríkið viðurkenndi ekki löbærni nefndarinnar í málum sem þegar hefðu verið rannsökuð af Mannréttindanefnd Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefði tekið við verkefnum Mannréttindanefndar Evrópu og því gilti fyrirvari ríkisins með sama hætti hvað dómstólinn varðaði.

Varðandi efnisatriði málsins tók austurríska ríkið fram að ekki væri unnt að líta svo á að afnám eftirlaunagreiðslna vegna heimilishalds fæli í sér ólögmæta mismunun þar sem slík breyting hefði jöfn áhrif á ellilífeyrisþega og þá sem enn væru á vinnumarkaði. Afnám greiðslnanna hefði í för að heildareftirlaunagreiðslur lækkuðu um 0.4 – 0.8% og gæti slík lækkun ekki talist ómálefnaleg.

4. Niðurstaða nefndarinnar

4.1. Ákvörðun nefndarinnar um meðferðarhæfi

Nefndin tók fyrst til athugunar þá málsástæðu austurríska ríkisins hvort nefndin hefði þegar tekið til meðferðar kæru, sem byggðist á sömu staðreyndum og efnisatriðum og kæra máls þessa, sem hluta af öðru kærumáli. Taldi nefndin að efnisatriði hins fyrra kærumáls tengdust á engan hátt efni kæru kærenda nú, og hefði nefndin því ekki fjallað um efni kærunnar áður. Af þeim sökum væri ekki unnt að fallast á þessa málsástæðu ríkisins.

Þá tók nefndin afstöðu til þess hvort sama mál hefði þegar verið rannsakað eftir öðrum aðferðum alþjóðlegrar rannsóknar eða sáttar, sbr. a. liður 2. mgr. 5. gr. valfrjálsu bókunarinnar. Nefndin féllst á það með austurríska ríkinu að fyrirvari sá, sem það gerði við gildi valfrjálsu bókunarinnar, ætti við í málinu, þar sem Mannréttindadómstóll Evrópu hefði tekið við verkefnum Mannréttindanefndar Evrópu. Tók nefndin því næst til athugunar hvort Mannréttindadómstóllinn hefði rannsakað sama mál í skilningi a. liðar 2. mgr. 5. gr. bókunarinnar. Áréttaði nefndin að með sama máli væri átt við að málið varðaði sömu kærendur, sömu efnisatriði og ætluð brot á sömu efnislegu réttindum. Benti nefndin á að Mannréttindadómstóll Evrópu hefði lýst erindi kærenda ótækt til efnismeðferðar þar sem þeim hefði ekki tekist að sýna fram á að brotið hefði verið gegn eignarréttarákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu í máli þeirra, sbr. 1. gr. 1. samningsviðauka sáttmálans. Þar sem kærendur hefðu ekki haldið fram í kæru sinni fyrir Mannréttindadómstólnum að brotið hefði verið gegn jafnræðisreglu 14. gr. sáttmálans hefði dómstóllinn ekki tekið til athugunar hvort brotið hefði verið gegn því ákvæði. Af þeim sökum hefði dómstóllinn ekki tekið erindi kærenda til athugunar hvað varðar sömu efnislegu réttindi og kærendur héldu fram fyrir nefndinni að brotin hefðu verið. Að mati nefndarinnar væri því ekki um sama mál að ræða í skilningi a. liðar 2. mgr. 5. gr. valfrjálsu bókunarinnar og var kæran því talin hæf til efnislegrar meðferðar.

4.2. Álit um efnishlið málsins

Nefndin tiltók í fyrsta lagi að kærendur héldu því fram að þeir væru þolendur ólögmætrar mismunar þar sem afnám eftirlaunagreiðslna vegna heimilishalds kæmi harðar niður á þeim, sem ellilífeyrisþegum, heldur en á þeim einstaklingum sem einnig hefðu verið starfsmenn Almannatryggingaráðs Salzburg borgar en væru enn á vinnumarkaði. Áréttaði nefndin að beiting tiltekinnar reglu eða tiltekin ráðstöfun aðildarríkis gæti leitt til ólögmætrar mismunar og þannig til brots á 26. gr. samningsins, jafnvel þótt viðkomandi regla eða ráðstöfun virtist almenn og ekki stæði ásetningur til þess að mismuna með ólögmætum hætti. Hvað sem því liði gæti slík óbein ólögmæt mismunun einungis talist byggjast á þeim atriðum, sem talin væru upp sem ólögmæt sjónarmið í 26. gr. samningsins, ef tiltekin regla eða ákvörðun aðildarríkis hefði eingöngu eða hlutfallslega meiri neikvæð áhrif gagnvart einstaklingum sem tilheyrðu tilteknum hópi vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernisuppruna eða félagslegs uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna. Ennfremur gætu reglur eða ákvarðanir, sem hefðu slík áhrif, ekki talist fela í sér ólögmæta mismunun ef þær væru byggðar á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum.

Í ljósi staðreynda málsins taldi nefndin að afnám mánaðarlegra eftirlaunagreiðslna vegna heimilishalds ásamt hækkun á greiðslum vegna barna eftirlaunaþega sem væru undir 27 ára aldri hefði ekki einungis neikvæð áhrif á ellilífeyrisþega heldur einnig á fyrrverandi starfsmenn Almannatryggingaráðs sem enn væru á vinnumarkaði, og ættu ekki börn eða einungis börn sem væru eldri en 27 ára. Þá hefðu kærendur að mati nefndarinnar ekki sýnt fram á að áhrif breytinga á eftirlaunagreiðslum hefðu haft hlutfallslega meiri áhrif á þá en þá fyrrverandi starfsmenn enn væru á vinnumarkaði. Þá taldi nefndin ennfremur, að jafnvel þótt kærendum hefði tekist að sýna fram á slík skaðlegt áhrif, þá hefðu umræddar breytingar á eftirlaunagreiðslum verið byggðar á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum. Taldi nefndin því að þær breytingar sem gerðar hefðu verið á reglugerð A um greiðslur til fyrrum starfsmanna Almannatryggingaráðs hefðu ekki falið í sér ólögmæta mismunun sem bann væri lagt við í 26. gr. SBSR.

Nefndin komst því að þeirri niðurstöðu að staðreyndir málsins styddu ekki þá staðhæfingu kæranda að hann væri þolandi brots austurríska ríkisins á 26. gr. SBSR.