Mismunun á grundvelli annarra aðstæðna

Mismunun á grundvelli annarra aðstæðna

Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna:
Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 4. apríl 1988
Kærumál nr. 191/1985
Blom gegn Svíþjóð

Einkaskólar og opinberir skólar. Opinber fjárstyrkur. Mismunun milli nemenda. Ekki brot gegn 26. gr. samningsins.

1. Atvik málsins

Kærandi máls þessa var Carl Henrik Blom, sænskur ríkisborgari sem fæddur er árið 1964. Hann var nemandi í tíunda bekk Rudolf Steiner skólans í Gautaborg skólaárið 1981 til 1982. Rudolf Steiner er einkaskóli. Samkvæmt sænskri reglugerð um fjárhagsaðstoð í námi gat nemandi í einkaskóla einungis notið opinbers fjárstyrks til náms að ákvörðun hefði verið tekin um það af stjórnvöldum, að láta námsleið viðkomandi nemanda vera undir eftirliti menntamálayfirvalda. Nám Rudolf Steiner skólans frá 1. bekk til 9. bekkjar var þegar undir slíku eftirliti en þann 15. október 1981 sótti skólinn um að nám innan efri bekkja yrði einnig undir opinberu eftirliti. Var ákvörðun þar að lútandi tekin þann 17. júní 1982 og tók hún gildi 1. júlí 1982. Afleiðing þess var að ákvörðunin gilti einungis fyrir skólaárið 1982-1983, en ekki frá haustinu 1981, líkt og skólinn hafði farið fram á.

Þann 6. júní 1984 sótti kærandi máls þessa um opinberan fjárstyrk fyrir skólaárið 1981 til 1982 en var hafnað á þeim grundvelli að Rudolf Steiner skólinn hefði ekki verið undir eftirliti menntamálayfirvalda umrætt skólaár. Kærandi undi þessari ákvörðun sænskra menntayfirvalda ekki þar sem hann taldi hana fela í sér brot á ákvæðum tiltekinna alþjóðlegra samninga, þar á meðal alþjóðasamnings Sameinuðu Þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (sks. SBSR). Fór kærandi þess því á leit við dómsmálaráðherra að sænsk stjórnvöld greiddu sér bætur, en sá síðarnefndi komst að þeirri niðurstöðu í febrúar 1985 að ákvörðun sænskra menntamálayfirvalda í máli kæranda væru í samræmi við sænsk lög og gætu því ekki leitt til skaðabótaábyrgðar ríkisins. Benti dómsmálaráðherra kæranda á að honum væri frjálst að leita réttar síns frammi fyrir sænskum dómstólum en kærandi mat það sem svo að frekari málshöfðun innanlands væri tilgangslaus, þar sem af ákvörðun dómsmálaráðherra leiddi að honum væru ekki tæk frekari virk réttarúrræði innanlands.

2. Kæran

Kærandi taldi að sænska ríkið hefði brotið gegn 26. gr. SBSR þar sem hann hafi sætt ólögmætri mismunun sem nemandi í einkaskóla. Nemendur í opinberum skólum hefðu fengið opinberan fjárstyrk til náms fyrir skólaárið 1981-1982. Mismunun nemenda, eftir því hvort þeir væru nemendur í opinberum skólum eða einkaskólum, væri andstæð grunnhugmyndinni um jafnan möguleika allra til menntunar og hugsanlega einnig rétt foreldra til að velja á milli opinberra skóla og einkaskóla, sem mælt er fyrir um í 13. gr. alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi (sks. SEFMR) auk annarra samninga. Þá taldi kærandi að sænska ríkið hefði einnig brotið gegn 3. mgr. 2. gr. samningsins, þar sem sænskt réttarkerfi hefði ekki gert ráð fyrir réttarúrræðum, sem gæfu kæranda kost á raunhæfum úrbótum í tilefni ætlaðra brota þess á ákvæðum samningsins.

3. Athugasemdir aðildarríkis

Sænska ríkið lagði áherslu á að í jafnræðisreglu 26. gr. SBSR fælist að mismunandi meðferð tveggja hópa ólíkra hópa eða flokka einstaklinga væri ekki ólögmæt í skilningi greinarinnar ef hún væri byggð á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum. Það væri ekki skylda samkvæmt 26. gr., né samkvæmt öðrum greinum SBSR, að veita nemendum opinberan fjárstyrk í námi sínu. Af því leiddi að ríkinu væri frjálst að ákveða hvort slíkur fjárstyrkur skuli veittur, og um skilyrði sem uppfylla þyrfti svo styrkur yrði veittur, svo lengi sem þau skilyrði væru ekki byggð á ólögmætum sjónarmiðum á borð við þau sem talin eru upp í 26. gr. Sænska ríkið taldi, að þrátt fyrir að nemendum væri mismunað þegar kæmi að veitingu fjárstyrks eftir því hvort þeir sæktu opinbera skóla eða einkaskóla, væru skilyrði þau, sem einakaskólar þyrftu að uppfylla, byggð á lögmætum sjónarmiðum og þar af leiðandi væri ekki um brot á 26. gr. SBSR að ræða.

4. Niðurstaða nefndarinnar

4.1. Ákvörðun nefndarinnar um meðferðarhæfi

Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að athugun Mannréttindanefndar Evrópu á erindum annarra nemenda, sem sóttu sama skóla og kærandi, fæli ekki í sér rannsókn á sama máli í skilningi a. liðar 2. mgr. 5. gr. valfrjálsrar bókunar við SBSR.

Í b. lið 2. mgr. 5. gr. valfrjálsu bókunarinnar er kveðið á um einstaklingur þurfi að hafa leitað allra tiltækra leiða til úrbóta innan lands áður en nefndin getur fjallað um máls hans. Með tilliti til aðstæðna málsins féllst nefndin á það með kæranda að honum hefði ekki verið unnt að neyta frekari réttarúrræða innalands.

4.2. Álit um efnishlið málsins

Nefndin benti á að þungamiðjan í umfjöllun hennar lyti að því hvort kærandi máls þessa væri þolandi brots sænska ríkisins á 26. gr. SBSR vegna þess að ákvæði sænskrar reglugerðar, um opinbera fjárstyrki til náms, væru ósamrýmanleg greininni.

Til að byrja með tiltók nefndin að sænskt menntakerfi gerði ráð fyrir tvenns konar menntun; menntun í opinberum skólum og menntun sem fram færi í einkaskólum. Taldi nefndin að ekki gæti verið um ólögmæta mismunun að ræða þegar niðurgreiðsla á skólagöngu nemenda væri mismunandi mikil, eftir því hvoru kerfinu þeir tilheyrðu, í þeim tilvikum þegar einkaskóli væri ekki starfræktur undir eftirliti hins opinbera. Um þá málsástæðu kæranda, að með því að sænska ríkið hafi ekki beitt ákvörðun sinni frá 17. júní 1982, um að Rudolf Steiner skólinn skyldi vera undir eftirliti menntamálayfirvalda, með afturvirkum hætti þannig að hún tæki einnig til skólaársins 1981-1982, hefði ríkið mismunað nemendum með ólögmætum hætti, eftir því hvoru kerfinu þeir tilheyrðu, tók nefndin fram að veiting opinbers fjárstyrks til nemenda í einkaskólum væri háð því að viðkomandi skóli væri undir eftirliti. Af þeim sökum gæti kærandi ekki búist við því að sér yrði veittur fjárstyrkur til náms fyrir þann tíma sem Rudolf Steiner einkaskólinn sætti ekki eftirliti, og því kæmi spurningin um hvort ólögmæt mismun hafi átt sér stað, ekki til álita.

Þá tók nefndin fram að lokum að sú spurning kynni að vakna hvort meðferð umsóknar Rudolf Steiner einkaskólans, um að vera settur undir eftirlit menntamálayfirvalda, hefði dregist úr hófi fram, og hvort sá dráttur kynni að hafa verið í bága við réttindi kæranda samkvæmt öðrum ákvæðum SBSR. Í tilviki kæranda var umsókn skóla hans lögð fram við sænsk menntamálayfirvöld í október 1981 og var ákvörðun, um að skólinn skyldi settur undir opinbert eftirlit tekin átta mánuðum síðar, í júní 1982. Að mati nefndarinnar gat hins vegar dráttur á afgreiðslu umsóknar sem slíkur ekki falið í sér ólögmæta mismunun í skilningi 26. gr. samningsins.

Nefndin komst því að þeirri niðurstöðu að staðreyndir málsins styddu ekki þá staðhæfingu kæranda að hann væri þolandi brots sænska ríkisins á 26. gr. SBSR. Þegar af þeim sökum taldi nefndin ekki þörf á að taka til greina þá málsástæðu kæranda, að sænska ríkið hefði brotið gegn 3. mgr. 2. gr. SBSR, þar sem komist hefði verið þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið brotið gegn þeim réttindum sem einstaklingum eru færð með samningnum.

Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna:
Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar
við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 9. nóvember 1990
Kærumál nr. 298/1988 og 299/1988

Upprunalegt skjal

Lindgren o.fl. og Lundquist o.fl. gegn Svíþjóð
Einkaskólar og opinberir skólar. Opinber fjárstyrkur. Mismunun milli nemenda. Ekki brot gegn 26. gr. samningsins.

1. Atvik málsins

Kærendur máls þessa voru foreldrar nemenda í Rudolf Steiner skólanum í sveitarfélaginu Norrköping annars vegar og Ellen Key skólanum í Stokkhólmi í sveitarfélaginu Upplands-Bro hins vegar. Umræddir skólar eru einkaskólar. Nefndin taldi að rétt væri sameina mál þessara tveggja kærendahópa á grundvelli heimildar þar að lútandi í 2. mgr. 88. gr. málsmeðferðarreglna nefndarinnar, þar sem náin tengsl voru á milli aðstæðna þeirra og tækt væri að taka kærur beggja til greina í einu máli.

Kærendur sóttu um fjárhagslegan stuðning frá ofangreindum sveitarfélögum vegna skólagöngu barna sinna á skólaárinu 1987-1988. Nánar tiltekið sóttu foreldrar nemenda í Rudolf Steiner skólanum um fjárhagslegan stuðning til kaupa á skólabókum til sveitarfélagins Norrkoping og foreldrar nemenda í Ellen Key skólanum um stuðning vegna skólamáltíða og til kaupa á skólabókum til sveitarfélagsins Upplands-Bro. Umsóknum kærenda var hins vegar hafnað af viðkomandi sveitarfélögum með ákvörðunum frá 20. apríl 1988 annars vegar og 10. febrúar hins vegar og ákváðu kærendur að áfrýja þeim niðurstöðum ekki.

2. Kæran

Kærendur töldu að sænska ríkið hefði gerst brotlegt gegn 26. gr. alþjóðasamnings Sameinuðu Þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (sks. SBSR) þar sem sá fjárhagslegi stuðningur, sem þeir fóru fram á vegna skólagöngu barna þeirra, væri undir venjulegum kringumstæðum veittur af sænskum sveitarfélögum, óháð því hvort börn foreldra væru nemendur í opinberum skólum eða einkaskólum.

Foreldrum væri heimilt að láta börn sín ýmist sækja opinberan skóla eða einkaskóla, sem viðurkenndur væri af hinu opinbera, í því skyni að fullnægja lögboðinni skyldu sinni um að láta börn sín sækja skóla, en í Svíþjóð er skólaganga skyldubundin þar til barn nær 16 ára aldri. Kærendur töldu að veiting gjaldfrjálsra eða niðurgreiddra skólabóka og skólamáltíða til nemenda í opinberum skólum, á meðan slíkt væri ekki fyrir hendi í einkaskólum, væri mismunun sem félli undir 26. gr. SBSR. Þá héldu kærendur því fram að mismununar gætti á milli barna þeirra og nemenda sem sæktu nám í opinberum skóla, eða einkaskóla sem fengi fjárhagsstuðning frá sveitarfélagi. Mismunun þessi væri ólögmæt og möguleg vegna þess að staðbundnum stjórnvöldum bæri ekki skylda samkvæmt lögum til þess að veita fjárhagslegan stuðning til nemenda í einkaskólum.

3. Athugasemdir aðildarríkis

Sænska ríkið benti á að ekki væri hægt að leiða af 26. gr. SBSR að ríki eða sveitarfélagi bæri skylda til þess að greiða kostnað við skólagöngu nemanda í einkaskóla, sem nemandi og foreldrar hans hefðu valið að taka fram yfir hliðstæðan opinberan skóla. Það að fjárhagslegur stuðningur væri ekki veittur í tilvikum sem þessum gæti ekki falið í sér ólögmæta mismunun í skilningi 26. gr. Ríkið benti á að sveitarfélögum bæri engin skylda samkvæmt lögum til þess að veita nemendum í einkaskólum fjárhagslegan stuðning. Af þessu leiddi að ákvörðun sveitarfélags, um að veita nemanda í einkaskóla ekki fjárhagslegan stuðning, gæti ekki talist ólögmæt mismunun.

4. Niðurstaða nefndarinnar

Nefndin tiltók að í málinu lægi fyrir að svara spurningunni hvort kærendur væru þolendur brota sænska ríkisins á 26. gr. SBSR, þar sem þeim hefði verið neitað, sem foreldrum nemenda í einkaskólum, um fjárhagslegan stuðning til kaupa skólabókum og niðurgreiðslu skólamáltíða, á meðan foreldrar nemenda í opinberum skólum og einnig í einkaskólum innan annarra sveitarfélaga fengju slíkan fjárhagslegan stuðning.

Nefndin benti á að sænskt menntakerfi gerði ráð fyrir yfirgripsmiklu opinberu skólakerfi en heimilaði einnig starfsemi einkaskóla sem valkost til mótvægis við opinbera kerfið. Nefndin tók fram að nemendum í opinberum skólum, sem væru yngri en 16 ára og því skyldugir til skólagöngu, væri veittur ýmis konar minniháttar fjárhagslegur stuðningur, svo sem flutningur til og frá skóla, skólabækur og skólamáltíðir. Ríkið gæti ekki talist skuldbundið til þess að veita nemendum í einkaskólum sama stuðning; þvert á móti væri ólík meðferð nemenda eftir því hvort þeir væru í opinberum skóla eða einkaskóla, með þeim hætti að nemendur í opinberum skólum nytu stuðnings, byggð á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum. Benti nefndin á í þessu samhengi að foreldrum væri frjálst að notfæra sér hið opinbera skólakerfi eða velja fremur einkaskóla fyrir skólagöngu barna sinna.

Ákvörðun kærenda máls þessa, um að láta börn sín sækja einkaskóla, hefði hvorki byggst á þrýstingi frá sænska ríkinu né viðkomandi sveitarfélögum, heldur hefði verið um frjálst val þeirra að ræða sem viðurkennt væri og virt af ríkinu og sveitarfélögunum. Nefndin benti hins vegar á að slíkt val hefði margvísleg áhrif í för með sér, svo sem að greiða þyrfti fyrir kennslu barnanna, flutning til og frá skóla, skólabækur og skólamáltíðir. Nefndin taldi að aðildarríki gæti ekki hafa talist gerst sekt um ólögmæta mismunun gagnvart foreldrum sem velja af fúsum og frjálsum vilja að nýta sér ekki fríðindi sem allir gætu nýtt sér með almennum hætti. Taldi nefndin því að sænska ríkið hefði ekki brotið gegn 26. gr. SBSR með því að veita nemendum í einkaskólum ekki sama fjárhagslegan stuðning og nemendum í opinberum skólum.

Að lokum tók nefndin til greina þá málsástæðu kæranda að um ólögmæta mismunun væri að ræða þar sem nemendur mismunandi einkaskóla fengju mismunandi fjárhagslegan stuðning frá sveitarfélögum. Þannig fengju nemendur sumra einkaskóla, þar á meðal börn kærenda, engan fjárhagslegan stuðning á meðan nemendur annarra einkaskóla, ýmist innan sama sveitarfélags eða utan þess, fengju stuðning frá viðkomandi sveitarfélagi. Nefndin athugaði að þessi málsástæða kæranda laut að ákvörðun, sem tekin var af staðbundnum stjórnvöldum, en ekki sænska ríkinu. Í Svíþjóð væri stjórnkerfi sem gerði ráð fyrir valddreifingu, og því væru ákvarðanir sem þessar teknar á sveitarstjórnarstigi. Í þessu samhengi vísaði nefndin til fyrri álita sinna, þar sem komist hefði verið að þeirri niðurstöðu að aðildarríki gæti ekki vikið sér undan skyldum samkvæmt SBSR með því að fela öðrum aðilum, á borð við sveitarstjórnum, tiltekin hlutverk sín. Þær upplýsingar hefðu komið frá sænska ríkinu undir meðferð málsins að sjálfstæði sveitarfélaga væri ríkt og að hvert og eitt þeirra tæki sjálfstæða ákvörðun um hvort starfsemi einkaskóla væri viðeigandi innan menntakerfis þess, sem og hvort slík starfsemi skyldi niðurgreidd að einhverju leyti. Þegar sveitarfélag tæki ákvörðun um hvort starfsemi einkaskóla innan þess skuli niðurgreidd, yrði sú ákvörðun að vera byggð á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum og vera í tilgangi sem væri lögmætur samkvæmt samningnum. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu, að sú ákvörðun menntamálayfirvalda innan sveitarfélaganna Norrköping og Upplands-Bro, um að hafna kærendum máls þessa um fjárhagslegan stuðning til kaupa á skólabókum og niðurgreiðslu skólamáltíða, vegna skólagöngu barna þeirra, væri ekki andstæð 26. gr. SBSR.

Nefndin taldi því að ekki hefði verið um brot gegn 26. gr. SBSR að ræða.

Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna:
Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 23. október 1992 
Mál nr. 395/1990

Upprunalegt skjal

Oulajin og Kaiss gegn Hollandi
Mismunun á grundvelli búsetu/fjölskylduaðstæðna. Barnabætur. Ekki brot gegn 26. gr. samningsins.

1. Atvik málsins

Kærendur málsins voru Lahcen Oulajin og Mohamed Kaiss, marokkóskir ríkisborgarar, fæddir 1942 og 1950, sem bjuggu í Alkmaar í Hollandi. Þeir töldu sig vera þolendur brota af Hollands hálfu á 17. og 26. gr. SBSR . Eiginkona Ouljin og tvö börn þeirra bjuggu í Marokkó. Í október 1981 lést bróðir hans, og lét eftir sig fjögur börn öll fædd á árunum 1970 – 1979. Eiginkona kæranda fékk forsjá barnanna, með samþykki móður þeirra. Eiginkona Kaiss og börn þeirra bjuggu í Marokkó. Í júlí 1979 dó faðir hans og lét eftir sig tvö ung börn. Kærandinn fékk forsjá barnanna og tók þau inn á heimili sitt í Marokkó.

Kærendur sem kváðust vera þeir einu sem veittu frændsystkinum sínum, sem bjuggu á heimilum þeirra í Marokkó, fjárhagslegan stuðning. Þeir sóttu um barnabætur samkvæmt hollenskum lögum og sögðu þau vera fósturbörn sín. Með bréfi dagsettu 7. maí 1985 og 2. maí 1984 var kærendum tilkynnt af vinnuráði Alkamaar að þeir ættu rétt á bótum vegna sinna eigin barna samkvæmt lögunum en ekki vegna systkina sinna og frændsystkina. Því var haldið fram að þessi börn gætu ekki talist fósturbörn í skilningi laganna, þar sem að kærendur byggju í Hollandi og gætu ekki verið forsjáraðilar barnanna.

Kærendur kærðu ákvarðanirnar til áfrýjunarnefndar, þar sem þeir héldu því m.a. fram að sökum fjárskorts væru þeir ófærir um að hafa fósturbörnin á sínu framfæri og það hafi bitnað á fjölskyldulífi þeirra. Kærendur töldu sig hafa stofnað til fjölskyldu með fósturbörnum sínum í skilningi 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Þeir töldu jafnframt að það væri mismunun ef þeir yrðu að taka virkan þátt í uppeldi barnanna, þar sem erfitt væri að uppfylla þá kröfu þar sem þeir væru farandverkamenn. Þeir bættu því einnig við að sú krafa væri ekki gerð vegna þeirra eigin barna.

Stjórnvöld höfnuðu kröfum þeirra og héldu því m.a. fram að í tilfellum sem vörðuðu uppeldi fósturbarna væri nauðsynlegt að sýna fram á náin tengsl milli kæranda og barnanna til að eiga rétt á barnabótum. Miðlæga kærunefndin taldi að í málinu væri ekki um sams konar stöðu aðila að ræða sem væru meðhöndlaðar á ólíkan hátt og því væri ekki spurning um ólögmæta mismunun í málinu.

2. Kæran

Kærendur töldu að hollenska ríkið hefði gerst brotlegt gegn 26. gr. SBSR þar sem í almennri umsögn nefndarinnar nr. 18 kæmi fram að meginreglan um bann við mismunun fæli í sér almenna meginreglu sem varðaði verndun á mannréttindum. Kærendur töldu að ólögmæt mismunun hefði verið gerð á þeirra eigin börnum annars vegar og fósturbörnum hins vegar, sem öll tilheyrðu sömu fjölskyldunni í Marokkó.

Kærendur bentu á að raunverulegar aðstæður barnanna væru nákvæmlega þær sömu og í raun ættu þau sömu foreldra. Hollensk yfirvöld greiddu foreldri barnabætur fyrir eigin börn sem búsett væru erlendis, burtséð frá því hvort að foreldrið sem búsett væri í Hollandi tæki þátt í uppeldi barnsins. Kærendur töldu þar af leiðandi óréttlátt að þeim væri synjað um bætur vegna fósturbarna sinna, eingöngu á þeirri forsendu að þeir gætu ekki tekið virkan þátt í uppeldi þeirra. Þeir töldu að mismunun þessi væri ekki byggð á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum. Kærendur bentu einnig á að vestræn sjónarmið gætu ekki eingöngu skorið úr um það hvort greiða skylda barnabætur. Samkvæmt marakkóskum venjum væri gerð krafa um að ættingjar væru teknir inn í fjölskylduna.

3. Athugasemdir aðildarríkis

Aðildarríkið taldi álitaefni kæranna vera:

(1) Hvort mismunun sú sem gerð var á eigin börnum og fósturbörnum kærenda teldist vera brot á 26. gr. samningsins;

(2) Hvort reglur um úthlutun á barnabótum fyrir fósturbörn í Hollandi hefðu falið í sér óréttlætanlegt óhagræði fyrir erlenda ríkisborgara sem búsettir voru í Hollandi.

Varðandi fyrra álitaefnið hélt aðildarríkið því fram að þessi mismunun fæli ekki í sér brot á 26. gr. samningsins; heldur væri meginmarkmið reglnanna að ákvarða á grundvelli hlutlægra sjónarmiða hvort samband fósturforeldris og fósturbarns væri það náið að það væri viðeigandi að úthluta barnabótum til fósturforeldranna eins og um eigið barn þeirra væri að ræða.

Hvað seinna álitaefnið varðar taldi aðildarríkið að það væru upplýsingar sem sýndu fram á að reglurnar hefðu ekki meira íþyngjandi áhrif á farandverkmenn heldur en hollenska ríkisborgara. Reglurnar um rétt til barnabóta væru túlkaðar þröngt án tillits til þjóðernis umsækjanda og búsetu fósturbarna. Fordæmi sýndu að hollenskir umsækjendur, búsettir í Hollandi væru einnig álitnir óhæfir umsækjendur um bætur vegna fósturbarna sinna sem búsett væru erlendis. Jafnframt væri meginreglan sú að ef annað foreldra væri á lífi væri það iðulega talið foreldri samkvæmt lögunum, og þar af leiðandi útilokaði það að fósturforeldrar ættu rétt á barnabótum samkvæmt lögunum.

Að lokum greindi aðildarríkið frá því að mikilvægasta markmið laganna væri að veita fjárhagslegan stuðning til umsækjanda sem væri í nánu foreldrasambandi við börn sín og að þau hefðu ekki leitt til ólögmætrar mismununar í skilningi 26. gr. samningsins.

4. Niðurstaða nefndarinnar

4.1. Ákvörðun um meðferðarhæfi

Nefndin taldi að í ljósi allra upplýsinga sem kærendur létu nefndinni í té ætti málið ekki undir 17. gr. samningsins og taldi þar af leiðandi þann hluta málsins ekki meðferðarhæfan sbr. 3. gr. valfrjálsrar bókunar við SBSR.

Nefndin taldi hins vegar þann hluta málsins sem snerist um hvort kærendur hefðu verið þolendur brota á 26. gr. SBSR tækan til meðferðar og ákvað jafnframt að sameina niðurstöður á kærum einstaklinganna tveggja í eitt álit.

4.2. Álit um efnishlið málsins

Álitaefnið sem nefndin taldi sig þurfa að leysa úr var hvort kærendur hefðu verið þolendur brota á 26. gr. SBSR, sökum þess að stjórnvöld í Hollandi neituðu þeim um greiðslur á barnabótum vegna fósturbarna þeirra í Marokkó.

Nefndin benti á að, þótt ríki væru ekki skyldug samkvæmt samningnum að koma á fót almannatryggingalöggjöf, þá yrði slík löggjöf, væri hún til staðar, að samrýmast 26. gr. samningsins. Jafnrétti fyrir lögum leiddi það af sér að hvers kyns aðgreining sem skerti vernd eða frelsi einstaklinga til að njóta réttinda og frelsis jafnt á við aðra yrði að byggja á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum til að teljast lögmæt.

Aðildarríkið fullyrti að til grundvallar mismunun þeirri, sem gerð var milli barna og fósturbarna í lögum um barnabætur hefðu legið málefnaleg sjónarmið. Nefndin tók undir það með aðildarríkinu að um málefnaleg sjónarmið hefði verið að ræða og því þyrfti að skoða hvort um málefnaleg sjónarmið hefði einnig verið að ræða. Nefndin taldi að þar sem ákveðnar takmarkanir við úthlutun á bótagreiðslum væru sennilega óumflýjanlegar væri rétt að kanna hvort mismunin milli eigin barna og fósturbarna samkvæmt lögum um barnabætur væri ómálefnaleg. Í ljósi athugasemda aðildarríkisins, taldi nefndin að mismunin sem gerð var í lögunum um barnabætur væri ekki ólögmæt í skilningi 26. gr. SBSR.

Sérálitum í málinu skiluðu 4 nefndarmenn

HMP

Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna:
Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar
við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 24. júlí 2001
Kærumál nr. 790/1997

Upprunalegt skjal

Cheban o.fl. gegn Rússlandi
Sakamál. Mismunandi meðferð einstaklinga fyrir dómstólum. Ekki brot gegn 26. gr. samningsins.

1. Atvik málsins

Kærendur máls þessa voru Sergei Cheban, Sergei Mishketkul, Vasili Philiptsevich og Stanislav Timokhin. Þann 17. febrúar 1995 voru kærendur sakfelldir fyrir að nauðga stúlku undir lögaldri, auk tiltekinna ofbeldis- og hótunarbrota er kærendur voru taldir hafa unnið í samverknaði og af yfirlögðu ráði. Kærendur voru 15 og 16 ára er dómur gekk í máli þeirra og nemendur í heimavistarskóla í Moskvu. Þyngstan dóm fékk Philiptsevich, eða sex ár, en hinir þrír fengu fimm ára dóm hver. Máli kærenda var áfrýjað til hæstaréttar sem staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu kærenda en lækkaði hins vegar refsingu þeirra í fjögur hálft ár í tilviki Philiptsevich en fjögur ár í tilviki hinnar þriggja.

Við meðferð máls síns fóru kærendur fram á að réttarhöld þeirra færu fram fyrir kviðdómi, sem dæma skyldi um hvort þeir væru saklausir eða sekir. Heimild til þess að fara fram á réttarhöld með kviðdómi var í 20. gr. rússnesku stjórnarskrárinnar en skilyrði kviðdómsréttarhalda var að sakborningur ætti yfir höfði sér dauðarefsingu. Þessari kröfu kærenda var hins vegar hafnað og var réttarhald í máli þeirra því með hefðbundnu sniði og lauk með því að dómari sakfelldi þá.

2. Kæran

Kærendur töldu að rússneska ríkið hefði brotið gegn 14. gr. alþjóðasamnings Sameinuðu Þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (sks. SBSR) þar sem málsmeðferð í sakamáli þeirra fyrir héraðsdómi hefði ekki verið réttlát og sanngjörn. Ekki var tekið fram í erindi kærenda að rússneska ríkið hefði gerst brotlegt gegn 26. gr. SBSR gagnvart þeim. Hins vegar taldi nefndin að staðreyndir málsins og málatilbúnaður kærenda gæfi til kynna, að hugsanlega væri um brot á þeirri grein að ræða og tók því til skoðunar hvort kærendur hefðu verið þolendur ólögmætrar mismununar í skilningi 26. gr., meðal annars vegna þess að þeim hefði verið hafnað um að réttarhald þeirra færi fram að viðstöddum kviðdómi, en kröfur annarra einstaklinga þar að lútandi hefðu verið samþykktar.

3. Athugasemdir aðildarríkis

Rússneska ríkið benti á að ekki hefði verið hægt að ganga að kröfu kærenda, um að réttarhald þeirra færi fram að viðstöddum kviðdómi sem dæma myndi um sekt þeirra eða sýknu, þar sem rússneska ríkið væri samband ríkja, sem hvert og eitt hefðu sín eigin réttarfarslög. Lög þau sem giltu í Moskvu gerðu ekki ráð fyrir því að réttarhald fyrir héraðsdómum borgarinnar gætu farið fram að viðstöddum kviðdómi.

4. Niðurstaða nefndarinnar

Nefndin áréttaði í fyrsta lagi að kærendur hefðu í erindi sínu í raun ekki sakað rússneska ríkið um brot gegn 26. gr. SBSR sérstaklega. Hins vegar taldi nefndin að staðreyndir málsins og málatilbúnaður kærenda gæfi til kynna, að hugsanlega væri um brot á þeirri grein að ræða og yrði nefndin af þeim sökum að taka til skoðunar hvort kærendur hefðu verið þolendur ólögmætrar mismununar í skilningi 26. gr.

Kærendur töldu sig hafa verið þolendur ólögmætrar mismununar þar sem kröfu þeirra, um að réttarhöld í máli þeirra færu fram að viðstöddum kviðdómi, hefði verið hafnað á meðan gengið hafa verið að slíkum kröfum í tilviki annarra sakborninga frammi fyrir héraðsdómstólum í Rússlandi. Nefndin tók fram að þrátt fyrir að SBSR verndaði ekki réttinn til réttarhalds frammi fyrir kviðdómi í sakamálum sem slíkan, yrði aðildarríki, væri slíkur réttur til staðar innan þess og hefði verið veittur sumum sakborningum, að gæta að því að rétturinn yrði einnig veittur öðrum sakborningum í sambærilegri stöðu með þeim hætti að jafnræðis væri gætt. Ef sakborningar fengju mismunandi meðferð að þessu leyti, yrði slík aðgreining að vera byggð á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum.

Nefndin heimfærði ofangreinda niðurstöðu sína á mál kærenda. Ljóst væri að heimild rússnesku stjórnarskrárinnar, til réttarhalda fyrir kviðdómi, væri bundin því skilyrði að hámarksrefsing við ætluðu broti sakbornings væri dauðarefsing. Þar sem kærendur hefðu verið undir lögaldri á þeim tíma, sem þeir frömdu þau brot er þeir voru sakfelldir fyrir, hafi ekki verið heimilt að refsa þeim með dauðarefsingu samkvæmt rússneskum hegningarlögum.

Að lokum tók nefndin fyrir hvort sú staðreynd, að lög þess sambandsríkis sem Mosvka tilheyrði gerðu ekki ráð fyrir möguleikanum á réttarhöldum frammi fyrir kviðdómi, fæli í sér ólögmæta mismunun gagnvart kærendum, þar sem lög annarra sambandsríkja Rússlands gerðu ráð fyrir þeim möguleika. Nefndin benti á í þessu samhengi að rússneska stjórnarskráin gerði ráð fyrir því að nánar yrði kveðið á um heimildina fyrir kviðdómsréttarhöldum í almennum lögum rússneska löggjafans, ríkislögum, sem gilda jafnt fyrir alla þegna landsins. Hins vegar sé slíkum ríkislögum ekki fyrir að fara varðandi þetta tiltekna efni. Af þeirri staðreynd að Rússland væri samband ríkja, sem veitti hverju sambandsríki sjálfstæði að miklu leyti, þar á meðal á sviði löggjafar, leiddi að sum þeirra hefðu lög er mæltu fyrir um kviðdómsréttarhöld en önnur ekki. Slíkt væri í sjálfu sér ekki brot á 26. gr. SBSR. Þar sem kærendur hefðu ekki sýnt fram að réttarhöld með kviðdómum hefðu farið fram í sambærilegum málum, þ.e. málum vegna afbrota sem dauðarefsing lá ekki við, innan sama sambandsríkis í tilvikum annarra sakborninga gat nefndin ekki fullyrt að rússneska ríkið hefði gerst brotlegt gegn 26. gr.

Nefndin komst því að þeirri niðurstöðu að eins og atvik málsins lægu fyrir nefndinni, hefði ekki verið leitt í ljós brot rússneska ríkisins á 26. gr. SBSR, né öðrum greinum samningsins.

Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna:
Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 15. júlí 2002
Kærumál nr. 854/1999

Upprunalegt skjal

Wackenheim gegn Frakklandi
Rétturinn til atvinnufrelsis. Mismunun á grundvelli líkamlegra eiginleika. Ekki brot gegn 26. gr. samningsins.

1. Atvik málsins

Kærandi máls þessa var Manuel Wackenheim, franskur ríkisborgari sem fæddur var 12. febrúar 1967 í Sarreguemines í Frakklandi. Kærandi er dvergur að vexti og hóf árið 1991 að koma opinberlega fram í atburðum sem kölluðust „dvergakast“ og voru skipulagðir af fyrirtæki sem hét Sociéte Fun-Productions. Nánar tiltekið var um það að ræða að viðskiptavinir fyrirtækisins greiddu fyrir að fá að kasta kæranda og öðrum dvergum stutta vegalengd og á vindsæng, til að tryggja mjúka lendingu. Iðja þessi var atvinna kæranda og fékk hann greidd laun fyrir að láta kasta sér.

Haustið 1991 ákváðu frönsk stjórnvöld hins vegar að dvergakast væri ekki æskileg iðja og í framhaldinu setti franska innanríkisráðuneytið reglugerð er mælti fyrir um eftirlit sem staðbundin lögregluyfirvöld skyldu hafa með atburðum á almannafæri, og þá sérstaklega dvergakasti. Var í reglugerðinni að finna heimild lögreglustjórum í hverju umdæmi til handa, til þess að fyrirskipa staðbundnum yfirvöldum að hafa náið eftirlit með atburðum sem skipulagðir væru innan þeirra og, eftir atvikum, banna að þeir færu fram.

Kærandi kærði í framhaldinu ákvarðanir tveggja bæjarstjórna, í bæjunum Morsang-sur-Orge og Aix-en-Provence, sem bönnuðu dvergakast sem átti að fara fram á diskóteki í bæjunum tveimur, til stjórnsýsludómstólsins í Versölum annars vegar og Marseille hins vegar. Stjórnsýsludómstólarnir féllust báðir á málatilbúnað kæranda og töldu að það athæfi sem væri til umfjöllunar, þ.e. dvergakast, væri ekki þess eðlis að í því fælist smánun á mannlegri reisn viðkomandi einstaklings, en á þeim grundvelli voru ákvarðanir áðurnefndra bæjarstjórna meðal annars byggðar. Bæjarstjórnarinnar áfrýjuðu málunum til æðsta stjórnsýsludómstóls Frakka sem komst að niðurstöðu sem var gagnstæð þeirri er stjórnsýsludómstólarnir í Versölum og Marseille höfðu komist að, og staðfesti ákvarðanir bæjarstjórnanna. Var niðurstaða æðsta stjórnsýsludómstólsins byggð á því að sannarlega fæli dvergakast í sér smánun á mannlegri reisn viðkomandi einstaklings og virðing við mannlega reisn væri hluti af allsherjarreglu, sem staðbundnum yfirvöldum væri ætlað að halda uppi. Grundvallarreglan um atvinnufrelsi manna gæti ekki hindrað það að tiltekið athæfi væri bannað í því skyni að halda allsherjarreglu uppi. Í kjölfarið hætti Sociéte Fun-Productions fyrirtækið að standa fyrir dvergakasti og kærandi varð atvinnulaus, þar sem enginn annar vildi standa fyrir slíkum atburðum.

2. Kæran

Kærandi taldi að franska ríkið hefði brotið gegn nokkrum ákvæðum alþjóðasamnings Sameinuðu Þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (sks. SBSR) þar sem ákvörðanir staðbundinna stjórnvalda, um að banna dvergakast, hefðu gert hann atvinnulausan og falið í sér smánun gagnvart mannlegri reisn hans. Nánar tiltekið taldi kærandi sig vera þolanda brota franska ríkisins á tilteknum réttindum sínum samkvæmt SBSR, þar á meðal réttinum til frelsis og mannhelgi, réttinum til friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu og meginreglunni um atvinnufrelsi manna, sem er þó ekki réttur sem nýtur verndar SBSR. Þá taldi kærandi að með ofangreindum ákvörðun hefði honum verið mismunað með ólögmætum hætti í skilningi 26. gr. samningsins.

3. Athugasemdir aðildarríkis

Franska ríkið taldi kæru málsins ekki tæka til efnismeðferðar hvað varðaði ætlað brot á 26. gr. SBSR, þar sem beiting þess ákvæðis ætti einungis við í því tilvikum þegar um væri að ræða brot á réttindum, sem vernduð væru af samningnum. Réttindi þau, er kærandi taldi að brotin hefðu verið á sér, væru hins vegar ekki vernduð af samningnum.

Varðandi meint brot á 26. gr. tók franska ríkið fram að ekki væri unnt að líta svo á að ríkið hefði gerst sekt um ólögmæta mismunun. Hinar umdeildu ákvarðanir gætu aðeins varðað tiltekinn hóp einstaklinga, nánar tiltekið þá sem væru þannig líkamlega úr garðir að þeir teldust til dverga, þar sem þeir einstaklingar væru þeir einu sem gætu tekið þátt í því athæfi sem bann væri lagt við. Ólík meðferð í þessu tilviki byggðist á hlutlægri aðgreiningu á milli þeirra sem þjást af dvergvexti og þeirra sem ekki þjást af dvergvexti og væru því, sérstaklega í ljósi undirliggjandi markmiðs um að virða mannlega reisn, lögmæt og í öllu falli í samræmi við 26. gr.

4. Niðurstaða nefndarinnar

Ákvörðun nefndarinnar um meðferðarhæfi

Varðandi þá málsástæðu franska ríkisins að kæra málsins varðaði réttindi sem ekki nytu verndar SBSR vísaði nefndin til fyrri álita sinna og þess sem þar kæmi fram um að 26. gr. fæli í sér sjálfstæðan rétt og væri ekki takmörkuð við réttindi þau sem vernduð væru af samningnum. Taldi nefndin því kæruna tæka til efnismeðferðar að því er varðaði ætluð brot franska ríkisins á 26. gr.

4.1. Álit um efnishlið málsins

Fyrir nefndinni lá að taka afstöðu til þess hvort ákvarðanir staðbundinni stjórnvalda í Frakklandi, um að banna dvergakast, fælu í sér ólögmæta mismunun gagnvart kæranda í skilningi 26. gr. Nefndin áréttaði að í fyrri álitum sínum hefði komið fram að ólík meðferð einstaklinga teldist ekki í öllum tilvikum ólögmæt mismunun, þar sem mismunun sem byggð væri á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum fæli ekki í sér ólögmæta mismunun í skilningi 26. gr. Því lægi fyrir að taka afstöðu til þess hvort sú mismunun sem frönsk stjórnvöld gerðu á milli þeirra einstaklinga, sem áðurgreindar ákvarðanir snertu annars vegar, og annarra einstaklinga, sem ákvarðanirnar snertu ekki, hefði verið réttlætt með gildum rökum.

Benti nefndin á að bannið, sem ákvarðanir stjórnvalda fólu í sér, ætti einungis við um dverga. Eina ástæða þess að bannið ætti við um dverga en ekki aðra einstaklinga væri hins vegar sú að þeir væru þeir einu sem mögulega gætu látið kasta sér í dvergakasti. Af því leiddi að sá mismunur, sem gerður væri á milli þeirra einstaklinga sem ekki þjáðust af dvergvexti annars vegar og dverga hins vegar, væru byggður á sjónarmiðum sem væru hlutlæg og væri ekki ólögmætur í tilgangi sínum. Féllst nefndin ennfremur á það með franska ríkinu að bann við dvergakasti fæli ekki í sér smánarlega ráðstöfun gagnvart dvergum, heldur væri þvert á móti nauðsynlegt til að tryggja allsherjarreglu, og þar af leiðandi tillitssemi við mannlega reisn sem væri í samræmi við ákvæði SBSR. Nefndin dró því saman niðurstöðu sína að þessu leyti með þeim hætti að mismununin milli dverga og þeirra einstaklinga sem ekki þjáðust af dvergvexti byggðist á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum.

Nefndin komst því að þeirri niðurstöðu að eins og atvik málsins lægju fyrir henni, hefði ekki verið leitt í ljós brot franska ríkisins á 26. gr. SBSR.

Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna:
Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 7. ágúst 2003
Mál nr. 1238/2004

Upprunalegt skjal

Jongenburger-Veerman gegn Hollandi
Mismunun á grundvelli stöðu. Lífeyrisréttindi. Ekki brot gegn 26. gr.

1. Atvik málsins

Kærandi máls þessa var G. J. Jongenburger-Veerman, hollenskur ríkisborgari, fædd 1911.Kærandi fékk lögskilnað frá manni sínum í janúar 1976, eftir 40 ára hjónaband. Fyrrverandi eiginmaður kæranda var starfsmaður hjálparsveita Hollands í Nýju Gíneu, sem hættu störfum í júlí 1967. Samkvæmt lögum um hjálparsveitir þessar frá 1962, töldust starfsmenn þeirra vera opinberir starfsmenn. Fyrrverandi eiginmaður kæranda lést 25. mars 1991.

Í lögum um lífeyrisréttindi opinberra starfsmenn var ekki að finna reglur um lífeyrisréttindi eftirlifandi aðstendanda fyrrum starfsmanna hjálparsveitanna, heldur voru sérlög um lífeyrisréttindi þessara aðila, frá 1958. Samkvæmt þeim lögum áttu fráskildar ekkjur fyrrum starfsmanna ekki rétt á lífeyri. Í lögunum var þó að finna matskennt, undanþágu ákvæði, þar sem sagði að heimilt væri að greiða lífeyri í öðrum tilvikum en þeim er lögin kvæðu á um. Árið 1966 var lögum um lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna breytt í ljósi breytinga á skilnaðarlöggjöfinni. Eftir lagabreytinguna áttu ekkjur rétt á sérstökum lífeyri við fráfall fyrrverandi eiginmanna sinna. Lögum um starfsmenn hjálparsveita Hollands í Nýju Geníu var hins vegar ekki breytt með sama hætti.

Eftir andlát fyrrverandi eiginmanns kæranda, sótti kærandi um sérstakan lífeyri, frá og með 26. mars 1991, til innanríkisráðherra, sem hafnaði beiðninni á grundvelli matskennda undanþágu ákvæðinu í lögunum. Kærandi áfrýjaði málinu æðri úrskurðarnefndar en máli hennar var vísað frá. Í mars 1999, áfrýjaði kærandi til stjórnar Indónesíska lífeyrissjóðsins, sem var stofnaður 1995. Kærandi fór fram á að henni yrði greiddur sérstakur ekkjulífeyrir frá og með 26. mars 1991 hliðstætt ákvæðum lagabreytingarinnar um lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna, ásamt 8. gr. a laga um lífeyris- og sparnaðarsjóði. Samkvæmt fyrirmælum innanríkisráðherra, sem taldi að vöntun á sérstökum lífeyrisréttindum fyrir ekkjur væri ekki lengur í samræmi við ríkjandi viðhorf í samfélaginu var ákveðið að greiða kæranda sérstakan ekkjulífeyri frá og með 1. janúar 1999, í samræmi við lög. Kærandi véfengdi ákvörðunin, að því leyti sem henni var hafnað um lífeyrisgreiðslur frá 26. mars til 31. desember 1998. Kröfum hennar var hafnað.

2. Kæran

Kærandi taldi að hollenska ríkið hefði gerst brotið gegn 26. gr. SBSR þar sem mál hennar hefði átt að fá afgreiðslu samkvæmt þeim reglum og lögum er giltu um lífeyrisgreiðslur eftirlifandi maka annarra opinberra starfsmanna í Hollandi. Í þessu samhengi vísaði hún til yfirlýsingar innanríkisráðherra, um að hjálparsveitarmenn nytu stöðu opinberra starfsmanna og því hefðu sömu lög átt að gilda um starfsmenn hjálparsveitanna og um aðra opinberra starfsmenn. Því hefðu breytingar þær sem gerðar voru á lögum um lífeyrisréttindinni opinberra starfsmanna hefðu einnig átt að taka til PRNG

3. Athugasemdir aðildarríkis

Aðildarríkið að ekkjur fyrrum starfsmanna á erlendum landsvæðum væru ekki í sömu stöðu og ekkjur opinberra starfsmanna, sem fengu greiddan lífeyri samkvæmt hollensku lífeyriskerfi. Aðildarríkið bætti því við að það hefði verið viðurkennt af réttinum sem fjallaði um þessar fjárhagsráðstafanir í skilnaðarmálum að taka mið af þessum aðstæðum.

Aðildarríkið benti jafnframt á að í máli kæranda, hefði úrskurðarnefnd fallist á rök ráðherrans um að mismunandi meðferð bryti ekki í bága við jafnræðisregluna, þar sem umrædd mál væru ekki sams konar, þar sem þau tilheyrðu ólíkum hópum opinberra starfsmanna. Þar að auki var talið skipta máli, að þegar kærandi var skilinn að lögum, var við missi réttinda til ekkjulífeyris samkvæmt PRNG tekið inn í myndinda að eiginmaður hennar hefði átt uppsöfnuð réttindi sem tilheyrðu henni.

4. Niðurstaða nefndarinnar

4.1. Álit um efnishlið málsinsins

Nefndin þurfti að leysa úr því hvort að staðhæfingar kæranda um að brotið hefði verið gegn 26. gr. samningsins þegar beiðni hennar um sérstakan ekkjulífeyri var hafnað, teldist ólögmæt mismunun í skilningi ákvæðisins. Samkvæmt aðildarríkinu var mismununin í viðkomandi löggjöf grundvölluð á mismunandi hópum opinberra starfsmanna. Og jafnframt benti aðildarríkið á að sú staðreynd að kærandi myndi tapa rétti sínum til ekkjulífeyris tekin með í reikninginn þegar gengið var frá lögskilnaði hennar og fyrrum eiginmanns hennar og ráðstafanir gerðar til að draga úr missi hennar Kærandi hefði ekki vefengt þessa ákvörðun réttarins á sínum tíma. Nefndin rifjaði upp að ekki teldist öll mismunun vera ólögmæt í skilningi 26. gr. SBSR. En til að mismunun gæti talist lögmæt þyrfti hún að byggjast á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum. Í viðkomandi máli taldi nefndin að aðgreining sú sem gerð hefði verið á hollenskum ekkjum fyrrum hjálparsveitamanna Hollands í Nýju Gíneu og ekkja annarra fyrrum hollenskra opinberra starfsmanna hefði ekki verið í andstöðu við neitt er fram kæmi í 26. gr. samningsins. Það að löggjöfinn skyldi ekki breyta PRNG teldist ekki ómálefnalegt né hlutdrægt. Því, teldist ákvörðunin um að greiða kæranda ekki lífeyri frá 1991 til 1998 ekki vera brot á 26. gr. samningsins.

HMP

Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna:
Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar
við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 26. júlí 2004
Kærumál nr. 1136/2002

Borzov gegn Eistlandi
Ríkisborgaréttur. Mismunun á grundvelli félagslegs uppruna. Ekki brot gegn 26. gr. samningsins.

1. Atvik málsins

Kærandi máls þessa var Vjatšeslav Borzov, fæddur í Kurganinsk í Rússlandi, að eigin sögn án ríkisborgararéttar en búsettur í Eistlandi á þeim tíma sem mál þetta fór fram. Kærandi var hermaður í her Sovétríkjanna frá 1967 til 10. nóvember 1986, er honum var veitt lausn frá herskyldu sökum veikinda, en hann hafði þá stöðu höfuðsmanns innan hersins. Kærandi starfaði frá árinu 1988 sem yfirmaður tiltekinnar deildar í einkafyrirtæki í Eistlandi og giftist konu, sem var ekki eistnesk að uppruna en hafði öðlast eistneskan ríkisborgararétt. Eistlandi öðlaðist sjálfstæði ásamt öðrum Eystrasaltsríkjum árið 1991.

Árið 1994 sótti kærandi um eistneskan ríkisborgararétt. Ári síðar fékk kærandi sér útgefið dvalarleyfi, á grundvelli ákvæða útlendingalaga um einstaklinga sem höfðu komið til Eistlands fyrir 1990 og sest þar að. Töf varð á afgreiðslu umsóknar kæranda um ríkisborgararétt og fékkst niðurstaða í máli hans loks árið 1998, en þá höfnuðu eistnesk yfirvöld umsókn hans. Var höfnunin byggð á ákvæðum 8. kafla útlendingalaganna, sem útilokuðu veitingu ríkisborgararéttar til einstaklinga sem gegnt hefðu herskyldu fyrir annað ríki og hefði verið veitt lausn frá störfum eða hætt fyrir aldurssakir. Kærandi skaut ákvörðun stjórnvalda til héraðsdómstólsins í Tallin, sem hafnaði kröfum hans. Því næst áfrýjaði kærandi máli sínu til áfrýjunardómstólsins í Tallin, sem féllst á málsástæður hans og rök og taldi að ákvörðun stjórnvalda hefði verið ólögmæt, þar sem stjórnvöld hefðu í ákvörðun sinni einfaldlega vísað til almennra ákvæða útlendingalaga en ekki byggt ákvörðun sína á atvikum máls kæranda og tekið tillit til einstaklingsbundinna aðstæðna. Af þeim sökum gæti ákvörðunin ekki talist rökstudd með fullnægjandi hætti og því hefði yfirvöldum í raun verið ómögulegt að ganga úr skugga um hvort brotið hefði verið á rétti kæranda.

Stjórnvöld tóku því umsókn kæranda um ríkisborgararétt til meðferðar á nýjan leik. Komust stjórnvöld að þeirri niðurstöðu að hafna bæri umsókn kæranda í annað skiptið, nú á grundvelli sjónarmiða um þjóðaröryggi. Vísuðu stjórnvöld til herþjálfunar kæranda, áralangrar herþjónustu og stöðu hans sem höfuðsmanns í her Sovétríkjanna og auk þess til þeirrar staðreyndar að kæranda tæki ellilífeyri sinn frá rússneska ríkinu. Kærandi undi niðurstöðu þessari ekki og kærði hana til héraðsdómstólsins í Tallin, sem hafnaði kröfum hans um ógildingu. Hið sama gerði áfrýjunardómstóllinn í Tallin. Þá vísaði Hæstaréttar Eistlands máli kæranda frá.

2. Kæran

Kærandi taldi að eistneska ríkið hefði brotið gegn 26. gr. alþjóðasamnings Sameinuðu Þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (sks. SBSR) þar sem það ákvæði útlendingalaga, sem stjórnvöld beittu þegar umsókn hans um ríkisborgararétt var hafnað, 1. mgr. 21. gr., takmarki réttindi umsækjenda með ómálefnalegum og óréttlætanlegum hætti á grundvelli félagslegs uppruna þeirra. Taldi kærandi að í 1. mgr. 21. gr. laganna væri gengið út frá þeirri forsendu að allir einstaklingar af erlendum uppruna, sem gegnt hefðu herskyldu í her annars ríkis, væru ógn við þjóðaröryggi eistneska ríkisins, án þess að tekið væri tillit til einstaklingsbundinna aðstæðna, m.a. hvað varðaði eðli þeirrar herþjónustu og herþjálfunar, sem viðkomandi umsækjandi hefði innt af hendi og gengist undir. Hélt kærandi því fram að engin gögn styddu að ógn við þjóðaröryggi steðjaði af fyrrum hermönnum annarra ríkja almennt, né af kæranda sem fyrrum hermanni sérstaklega. Vísaði kærandi sérstaklega til þess að ekki hefði þótt ástæða til þess að fella dvalarleyfi hans úr gildi af sömu ástæðum, en dvalarleyfi hans hefði nýlega verið framlengt til fimm ára.

Þá hélt kærandi því einnig fram að 2. mgr. 21. gr. útlendingalaga fæli í sér ólögmæta mismunun, þar sem samkvæmt því ákvæði gæti einstaklingur, sem gegnt hefði herskyldu fyrir annað ríki, öðlast ríkisborgararétt ef hann hefði verið í hjónabandi með einstaklingi, sem öðlast hefði eistneskan ríkisborgararétt við fæðingu, í a.m.k. fimm ár og ef hjónabandið væri enn í gildi. Taldi kærandi að engin skynsamleg rök gætu legið þessu skilyrði að baki, þar sem ekki fengist séð að það að maki umsækjanda væri eistneskur af uppruna drægi úr eða útiloki þá ógn, sem umsækjandi kann að vera við þjóðaröryggi landsins. Taldi kærandi því að hann væri einnig þolandi ólögmætrar mismunar á grundvelli borgaralegrar stöðu konu sinnar.

Í athugasemdum við greinargerð eistneska ríkisins kom kærandi því einnig á framfæri að hann teldi sig vera þolandi brots ríkisins á 26. gr. SBSR, þar sem það hefði brotið á rétti hans til þess að njóta jafnræðis á við aðra frammi fyrir lögunum. Reisti kærandi málsástæðu þessa á því að ótilgreindur fjöldi fyrrum hermanna annarra ríkja, þar á meðal Sovétríkjanna, hefðu fengið umsóknir sínar um ríkisborgararétt samþykktar. Stjórnvöld hefðu þannig ekki gætt jafnræðis við meðferð umsókna og hefði ákvörðun þeirra í máli kæranda verið tekin af geðþótta og ekki byggð á hlutlægum sjónarmiðum.

3. Athugasemdir aðildarríkis

Eistneska ríkið hélt því fram að ákvæði laga sem takmörkuðu veitingu ríkisborgararéttar væru nauðsynleg vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu og ennfremur nauðsynleg í lýðræðislegum þjóðfélögum til þess að standa vörð um fullveldi þeirra. Þegar hin umdeildu ákvæði útlendingalaga hefðu verið leidd í lög hefði verið tekið tillit til þess að við vissar aðstæður gætu fyrrum hermenn annarra ríkja, sem væru jafnframt umsækjendur um eistneskan ríkisborgararétt, stofnað öryggi eistneska ríkisins í hættu. Umsókn kæranda um ríkisborgararétt hefði ekki verið hafnað á grundvelli félagslegrar stöðu hans, heldur vegna sérstakra og aðgreindra öryggisástæðna.

Þá væri borgaraleg staða eiginkonu kæranda óviðkomandi málinu, þar sem umsókn hans hefði eingöngu verið hafnað á grundvelli ástæðna sem vörðuðu þjóðaröryggi. Þannig hefðu stjórnvöld þurft að framkvæma sama mat varðandi það, hvort veiting ríkisborgararéttar til kæranda hefði í för með sér hættu fyrir þjóðaröryggi, jafnvel þótt eiginkona kæranda hefði öðlast eistneskan ríkisborgararétt við fæðingu. Ríkið taldi að kærandi hefði ekki verið þolandi mismununar, þar sem ákvæði útlendingalaga gerðu ráð fyrir að umsóknir fyrrum hermanna annarra ríkja fengju sömu meðferð. Þar sem kærandi hefði hvorki verið þolandi ólögmætrar mismunar á grundvelli borgaralegrar stöðu eiginkonu hans né á grundvelli félags- eða fjölskylduaðstæðna, þá taldi eistneska ríkið að ekki væri tækt að líta svo á að kærandi væri þolandi ólögmætrar mismunar í skilningi 26. gr. SBSR.

4. Niðurstaða nefndarinnar.

4.1. Ákvörðun nefndarinnar um meðferðarhæfi

Í b. lið 2. mgr. 5. gr. valfrjálsu bókunarinnar er kveðið á um einstaklingur þurfi að hafa leitað allra tiltækra leiða til úrbóta innan lands áður en nefndin getur fjallað um mál hans. Taldi nefndin að þar sem kærandi hefði ekki haldið þeirri málsástæðu, að hann hefði sætt ólögmætri mismunun á grundvelli borgaralegrar stöðu eiginkonu hans, fram fyrir dómstólum innanlands þá væri sá hluti kæru hans ekki tækur til efnismeðferðar hjá nefndinni samkvæmt b. lið 2. mgr. 5. gr. bókunarinnar.

Nefndin leit hins vegar til þess, að kærandi hefði stöðugt haldið því fram fyrir dómstólum innanlands, og einnig fyrir Hæstarétti, að höfnun á umsókn hans á grundvelli sjónarmiða um þjóðaröryggi fæli í sér brot á jafnræðisreglu eistnesku stjórnarskrárinnar. Í ljósi þess að dómstólar innanlands hefðu ekki fallist á málatilbúnað kæranda að þessu leyti þá taldi nefndin að eistneska ríkið hefði ekki sýnt nægjanlega fram á hvernig kærandi hefði frekar getið látið reyna á það hvort brotið hefði verið gegn stjórnarskrár vörðum réttindum hans frammi fyrir dómstólum innanlands, þannig að líklægt væri að það leiddi til árangurs. Taldist kærandi því hafa leitað allra tiltækra leiða til úrbóta innanlands hvað þennan hluta kæru hans varðaði, og var mál hans því tekið til efnislegrar meðferðar.

4.2. Álit um efnishlið málsins

Nefndin byrjaði á því að tiltaka að einstaklingur kynni að vera sviptur rétti sínum til jafnræðis frammi fyrir lögum ef lagaákvæði væri beitt af geðþótta í tilviki hans, þ.e. þegar beiting lagaákvæðis einstaklingi í óhag væri ekki byggð á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum. Í því máli sem væri til umfjöllunar hefðu eistnesk stjórnvöld byggt ákvörðun sína á sjónarmiðinu um þjóðaröryggi, sjónarmiði sem finna mátti í eistnesku útlendingalögunum, og hafnað umsókn kæranda um ríkisborgararétt í ljósi einstaklingsbundinna aðstæðna hans.

Þá taldi nefndin, að þrátt fyrir að samningurinn heimili aðildarríkjum með skýrum í hætti, í ákveðnum tilvikum, að byggja tilteknar ákvarðanir sínar eða aðgerðir á sjónarmiðinu um þjóðaröryggi, leiði það ekki til þess að viðkomandi mál sé undanþegið nákvæmri rannsókn nefndarinnar. Að sama skapi áréttaði nefndin, að þrátt fyrir að hún gæti ekki eftirlátið aðildarríkjum algjört sjálfdæmi um það hvort ástæður tengdar þjóðaröryggi hafi verið uppi í tilteknu máli, þá yrði hún að viðurkenna að hlutverk hennar við endurskoðun á tilvist og mikilvægi slíkra álitaefna væri háð aðstæðum viðkomandi máls og viðeigandi ákvæðum SBSR. Á meðan ákvæði 19., 21. og 22. gr. hefðu að geyma viðmið varðandi nauðsyn á takmörkun vegna þjóðaröryggis, væri eðli 26. gr. meira almenns eðlis, og gerði ákvæðið þá kröfu að mismunum milli einstaklinga á grundvelli þeirra sjónarmiða sem tiltekin væri í ákvæðinu, þar á meðal á grundvelli „annarra aðstæðna”, yrði að byggjast á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum og hafa lögmætan tilgang. Féllst nefndin á að skilyrðið um lögmætan tilgang væri uppfyllt þegar aðildarríki skírskotaði til þjóðaröryggis við nýtingu á fullveldisrétti sínum með takmörkun á veitingu ríkisborgararéttar. Ætti þetta að mati nefndarinnar sérstaklega við í tilviki ríkja sem nýlega hefðu öðlast sjálfstæði, með tillit til áhyggja sem tengdar væru fyrri stöðu þeirra sem ósjálfstæðra ríkja.

Nefndin tók fram að aðildarríkið teldi að veiting ríkisborgararéttar kæranda til handa vekti upp álitaefni um þjóðaröryggi sökum herþjálfunar kæranda, áralangrar herþjónustu og stöðu hans sem höfuðsmanns í her Sovétríkjanna. Þá benti nefndin á að kærandi hefði fengið útgefið dvalarleyfi frá eistneska ríkinu og tæki ellilífeyri sinn frá rússneska ríkinu. Að lokum tiltók nefndin að henni væri kunnugt um, að sú staðreynd, að kærandi væri einungis handhafi dvalarleyfis en ekki ríkisborgararéttar í Eistlandi, muni hafa áhrif á tiltekin réttindi hans samkvæmt samningum, t.a.m. kosninga- og kjörgengisrétt hans samkvæmt 25. gr. Hins vegar yrði að líta til þess að hvorki SBSR né alþjóðalög almennt tiltækju þau sjónarmið sem ríki ættu að byggja á þegar kæmi að veitingu ríkisborgararéttar til einstaklinga af erlendum uppruna, og einnig til þess að kærandi hefði notið þess réttar að fá ákvörðun stjórnvalda í máli hans endurskoðaða af eistneskum dómstólum. Nefndin tók ennfremur tillit til þess að innlendir dómstólar endurskoðuðu efnislega ákvarðanir stjórnvalda í máli kæranda, einnig þær ákvarðanir sem voru byggðar á sjónarmiðum um þjóðaröryggi. Þá taldi nefndin að kærandi hefði ekki sýnt fram á að ákvörðun eistneskra stjórnvalda, um að hafna umsókn hans um ríkisborgararétt, hefði ekki verið byggð á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum.

Nefndin komst því að þeirri niðurstöðu að staðreyndir málsins styddu ekki þá staðhæfingu kæranda að hann væri þolandi brots eistneska ríkisins á 26. gr. SBSR.

Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna:
Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar
við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 17. mars 2006
Kærumál nr. 1164/2003

Castell-Ruiz o.fl. gegn Spáni
Einkarekin og opinber heilbrigðisþjónusta. Starfskjör. Mismunun á grundvelli annarra stöðu. Ekki brot gegn 26. gr. samningsins.

1. Atvik málsins

Kærendur máls þessa voru Daniel Abad Castell-Ruiz og 15 aðrir spænskir ríkisborgarar, sem voru læknar á opinberri heilbrigðisstofnun í sveitarfélaginu Navarro í norðurhluta Spánar, ásamt því að stunda lækningar á einkastofu utan vinnutíma á viðkomandi heilbrigðisstofnun.

Í lögum um heilbrigðisþjónustu í Navarra var mælt fyrir um laun og önnur starfskjör þeirra sem vinna á heilbrigðisstofnunum sveitarfélagsins. Samkvæmt lögunum áttu læknar, auk grunnlauna, rétt á tilteknum viðbótarþóknunum fyrir störf sín. Á meðal þeirra var sérstök þóknun, sem nam 45% eða meira af grunnlaunum lækna. Til þess að fá slíka sérstaka þóknun urðu læknar, sem störfuðu á heilbrigðisstofnunum sveitarfélagsins, hins vegar að skrifa undir samning við viðkomandi heilbrigðisstofnun, en samkvæmt slíkum samningi voru læknar skuldbundnir til þess að starfa einungis fyrir opinberar heilbrigðisstofnanir sveitarfélagsins. Nánar tiltekið gerði samningurinn ráð fyrir því að viðkomandi heilbrigðisstofnun yrði að hafa fullt og óskorað aðgengi að hinum samningsbundna lækni, sem yrði að auki að skuldbinda sig að fullu stofnuninni og mætti ekki taka að sér önnur launuð störf, hvort sem þau væru í opinberum rekstri eða einkarekstri, með ákveðnum undantekningum.

Ekki skrifuðu allir læknar sveitarfélagsins undir slíkan samning við heilbrigðisstofnun sveitarfélagsins og voru kærendur í þeim hópi. Kærendur gátu þannig stundað lækningar á einkastofu sinni, utan vinnutíma þeirra á heilbrigðisstofnun, en gátu að sama skapi ekki fengið sér greidda viðbótarþóknun fyrir störf sín sem nam meira en 45% af grunnlaunum þeirra.

2. Kæran

Kærendur töldu að spænska ríkið hefði brotið gegn 26. gr. alþjóðasamnings Sameinuðu Þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (sks. SBSR) þar sem að samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu í Navarra fengju þeir greidda lægri viðbótarþóknun fyrir störf sín en þeir læknar sem skrifað hefðu undir samning við heilbrigðisstofnun í sveitarfélaginu, þrátt fyrir þessir tveir hópar læknar inntu sama starf af hendi, hefðu sama vinnutíma og að auki sömu ábyrgð og skyldur, meðal annars hvað varðaði aðgengi heilbrigðisstofnanna að vinnuframlagi þeirra. Töldu kærendur að lögin fælu í sér mismunun sem réttlættist að ekki af málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum og væri því ólögmæt. Heilbrigðisyfirvöld í Navarra hefðu skipað læknum, sem ynnu á heilbrigðisstofnunum sveitarfélagsins, í tvo mismunandi flokka og væru launakjör þeirra ákvörðuð með mismunandi hætti, eftir því hvorum flokknum þeir tilheyrðu, þrátt fyrir að enginn munur væri á því starfi sem hvor hópurinn um sig skilaði af sér.

Þá héldu kærendur því fram að mismunandi meðferð lækna, eftir því í hvorn flokkinn þeir féllu, gæti ekki réttlæst af því að um frjálst val þeirra hefði verið að ræða, þ.e. af því að kærendur hefðu af fúsum og frjálsum vilja ákveðið að skuldbinda sig ekki að öllu leyti tiltekinni heilbrigðisstofnun, heldur stunda að auki lækningar á einkastofu. Að mati kærenda drægi þessi staðreynd að engu úr því að um ólögmæta mismunun væri að ræða, þar sem þeir læknar sem afréðu að stunda lækningar á einkastofu ættu ekki möguleika á því að vera settir í sama flokk og læknar sem störfuðu eingöngu á heilbrigðisstofnun, þrátt fyrir að læknar sem störfuðu sem kennarar í Háskóla, jafnvel þó einkareknir væru, ættu þennan sama möguleika.

3. Athugasemdir aðildarríkis

Spænska ríkið benti á að í meginreglunni um jafnræði einstaklinga fælist einnig að um ólík tilvik ætti að fara með ólíkum hætti. Þar sem um tvö ólík störf væri að ræða, eftir því hvort læknir starfaði eingöngu fyrir heilbrigðisstofnun en stundaði ekki jafnframt lækningar utan hennar, myndu sömu launakjör fyrir bæði störf fela í sér brot gegn meginreglunni um jafnræði.

Þá taldi ríkið að mikilvægur munur væri á starfi lækna, eftir því hvort þeir féllu í flokk þeirra sem störfuðu eingöngu og alfarið á heilbrigðisstofnunum í Navarro, eður ekki. Læknar sem störfuðu eingöngu á heilbrigðisstofnunum fengju hærri viðbótarþóknun fyrir störf sín, þar sem þeir hefðu gengist undir meiri skuldbindingu gagnvart viðkomandi stofnun en þeir læknar sem stunduðu einnig lækningar á einkastofu. Fyrrnefndu læknunum væri ekki heimilt að stunda lækningar í atvinnuskyni utan vinnutíma og ennfremur gæti viðkomandi heilbrigðisstofnun skyldað þá til að inna af hendi tiltekna yfirvinnu. Slíkt ætti ekki við um þá lækna sem kusu að gera ekki samning við heilbrigðisstofnun. Þá væru hinir tvær umræddu hópar lækna í ólíkri stöðu hvað launakjör varðar, þar sem þeir sem einnig stunduðu lækningar á einkastofu fengu laun fyrir störf sín bæði úr sjóðum almannafjár og einnig frá vinnuveitanda þeirra í einkageiranum.

Að lokum benti aðildarríkið á að kærendum hefði verið frjálst að velja á milli þess að starfa eingöngu á opinberri heilbrigðisstofnun og skrifa undir samning þar að lútandi, eða að starfa einnig í einkageiranum, samhliða starfi sínu á heilbrigðisstofnun. Kærendum hefði verið ljóst hvaða afleiðingar val þeirra myndi hafa í för með sér. Þá væri þeim ennfremur enn frjálst að skrifa undir samning við heilbrigðisstofnun og starfa alfarið á viðkomandi stofnun.

4. Niðurstaða nefndarinnar

Nefndin vísaði til þess, sem fram hefði komið í fyrri álitum hennar, að þegar lög gerðu ráð fyrir að einstaklingum væri mismunað, slík mismunum leiddi til tjóns fyrir tiltekna einstaklinga og lögin væru ekki byggð á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum, þá væri um brot á 26. gr. SBSR að ræða.

Tók nefndin tillit til þess að aðilar málsins deildu um það hvort kærendur væru í sömu aðstöðu og þeir læknar, sem störfuðu eingöngu fyrir heilbrigðisstofnanir í Navarro, hvað eðli starfs þeirra fyrir heilbrigðisstofnanirnar varðaði. Tiltók nefndin að mat á því, hvort aðstaða þessa tveggja hópa lækna væri í raun og veru sambærileg eður ekki, væri á verkefnasviði dómstóla innanlands. Bæði æðsta dómsstig í Navarro héraði og stjórnskipunardómstóll Spánar hefðu komist að þeirri niðurstöðu að aðstæður hinna tveggja hópa lækna væru ekki að öllu leyti sambærilegar. Þá væri það álit nefndarinnar, að þau gögn sem kærendur lögðu fyrir hana sýndu ekki fram á að aðstaða þeirra væru í raun og veru sambærileg aðstöðu þeirra lækna, sem eingöngu störfuðu fyrir heilbrigðisstofnanir Navarro héraðs, með þeim hætti að það renndi stoðum undir þá staðhæfingu þeirra að þeir ættu rétt á jafn hárri viðbótarþóknun og þeir síðarnefndu.

Að lokum benti nefndin á að það væri algjörlega undir vilja hvers og eins læknis í Navarro héraði komið, hvort hann skrifaði undir samning við heilbrigðisyfirvöld og starfaði eingöngu á heilbrigðisstofnun í héraðinu, eða hvort hann kysi að gera slíkt ekki og stunda einnig lækningar á einkastofu, utan vinnutíma síns á heilbrigðisstofnun. Ættu læknar val þetta, bæði þegar þeir hæfu fyrst störf á heilbrigðisstofnunum og eins eftir að þeir hefðu hafið störf, á hvaða tíma sem er. Af þessu leiddi að kærendur væru ekki þolendur ólögmætrar mismununar í skilningi 26. gr. SBSR.

Nefndin komst því að þeirri niðurstöðu að staðreyndir málsins styddu ekki þá staðhæfingu kærenda að þeir væru þolendur brots spænska ríkisins á 26. gr. SBSR.