Mismunun á grundvelli kynferðis

Mismunun á grundvelli kynferðis

Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna:
Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 9. apríl 1987
Mál nr. 172/1984

Upprunalegt skjal

Mismunun á grundvelli kynferðis. Örorkubætur. Brot gegn 26. gr. samningsins.

1. Atvik málsins

Kærandi málsins var S.W.M Broeks, hollenskur ríkisborgari, fædd 1951 og búsett í Hollandi. Hún hélt því fram að þágildandi lög í Hollandi um atvinnuleysisbætur hefðu mismunað fólki á grundvelli kynferðis. Kærandi starfaði sem hjúkrunarkona í 7 ár uns hún lét af störfum vegna örorku. Hún veiktist árið 1975 og fékk greiddar atvinnuleysis- og örorkubætur úr almannatryggingakerfinu til ársins 1980, þegar hætt var að greiða henni atvinnuleysisbætur í samræmi við hollensk lög.

Kærandi vefengdi ákvörðun stjórnvalda um að hætta að greiða bætur til hennar, eftir hollenskum kæruleiðum. Hún taldi sig hafa leitað allra tiltækra leiða til úrbóta innanlands þegar úrskurðarnefnd hafði staðfest ákvörðun lægra setts stjórnvalds, um að hætta að greiða henni atvinnuleysisbætur.

2. Kæran

Kærandi taldi að hollenska ríkið hefði gerst brotlegt gegn 26. gr. SBSR þar sem þágildandi lög um atvinnuleysisbætur hefðu falið í sér ólögmæta mismunun á grundvelli kynferðis. Kærandi studdi kröfu sína þeim rökum að hvort sem hún væri karl í hjúskap eða ekki, myndu umrædd lög ekki svipta hana bótagreiðslum. En sökum þess að hún var gift kona á umræddum tíma, missti hún rétt sinn til bóta. Hún taldi því að á sér hefði verið brotið samkvæmt 26. gr. Hún hélt því fram að 26. gr. veitti einstaklingum vernd umfram þau ákveðnu borgaralegu og stjórnamálalegu réttindi sem beinlínis talin eru upp í samningnum.

3. Athugasemdir aðildarríkis

Hollenska ríkið undirstrikaði að meginregluna, sem kveður á um bann við mismunun í tengslum við almannatryggingar væri að finna í 9. gr. sbr. 2. og 3. gr. SEFMR og að sá samningur hefði sett á fót sitt eigið kerfi til alþjóðlegs eftirlits með því hvort ríki væru að uppfylla skyldur sínar samkvæmt samningnum. Aðildarríkið dró í efa að það væri hlutverk mannréttindanefndarinnar að kanna á grundvelli ákvæðis 26. gr. hvort ríkið uppfyllti skyldur sínar samkvæmt. 9. sbr. 2. og 3. gr. SEFMR.

4. Niðurstaða nefndarinnar

4.1. Ákvörðun um meðferðarhæfi

Nefndin benti á að skýrslur ríkja samkvæmt 16. gr. samningsins um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi teldust ekki vera rannsókn á sama máli í skilningi a. liðar 2. mgr. 5. gr. SBSR

Nefndin benti ennfremur á að kæru samkvæmt valfrjálsu bókuninni við SBSR yrði ekki frávísað eingöngu sökum þess að rétindi þau, sem til skoðunar væru í málinu, væru einnig vernduð af SEFMR eða öðrum samningum.

Nefndin taldi því málið tækt til efnismeðferðar.

4.2. Álit um efnishlið málsins

Mannréttindanefndin taldi að hægt væri að beita ákvæðum SBSR þótt fjallað væri um tiltekin réttindi í öðrum alþjóðlegum sáttmálum, t.d. Alþjóðasamningnum um afnám alls kynþáttamisréttis, Samningnum um afnám allrar mismununar gagnvart konum eða, eins og í þessu tiltekna máli, SEFMR. Þrátt fyrir söguleg tengsl samninganna tveggja, þá taldi nefndin nauðsynlegt að hægt væri beita til hins ítrasta ákvæðum SBSR. Nefndin taldi í þessu samhengi að ákvæði 2. gr. SEFMR þrengdi ekki gildissvið 26. gr. SBSR.

Nefndin kannaði því næst staðhæfingar aðildarríkisins um að 26. gr. SBSR gæti ekki átt við um réttindi sem vernduð væru af 9. gr. SEFMR. Í þessu samhengi kannaði nefndin viðkomandi lögskýringargögn með SBSR, sérstaklega gögn um umræður þær sem fram fóru innan Mannréttindaráðsins á fundum þess árin 1948, 1949, 1950 og 1952 og innan þriðju nefndar Allsherjaþingsins 1961, sem gáfu viðbótarskýringar um hvernig túlka ætti SBSR. Umræður á þessum tíma um það hvort gildissvið 26. gr. SBSR næði einnig til verndar réttinda sem ekki væru sérstaklega vernduð af SBSR sjálfum, voru óljósar og gátu því ekki haft áhrif á niðurstöðu nefndarinnar um túlkun á ákvæðinu.

Til að komast að niðurstöðu um gildissvið 26. gr. hafði nefndin hliðsjón af venjulegri skýringu hvers ákvæðis í samhengi við tilgang þess og markmið. Nefndin benti á að 26. gr. ætti rætur að rekja til meginreglu 7. gr. Mannréttindayfirlýsingar SÞ, sem bannaði alla lagalega mismunun og mismunum í framkvæmd á lögum og kvæði á um rétt manna til verndar gegn hvers konar misrétti. Ákvæði 26. gr. SBSR legði því bann við mismunun í allri löggjöf aðildarríkjanna.

Þrátt fyrir að 26. gr. legði bann við mismunun í allri löggjöf, þá væri ríkjum ekki skylt að koma á fót tiltekinni löggjöf. Ef löggjöf væri hins vegar tekin upp innan ríkis, þá yrði hún að samræmast 26. gr. SBSR.

Nefndin ítrekaði að málið sem nú væri til umfjöllunar snerist ekki um það hvort almannatryggingakerfi skyldi vera sett á fót í Hollandi, heldur hvort löggjöf sú sem tryggði þessi réttindi bryti í bága við bannið við mismunun sem 26. gr. SBSR kveður á um og þá tryggingu sem þar er veitt öllum mönnum um vernd gegn mismunum. Þá benti nefndin á, að rétturinn til jafnræðis fyrir lögunum og jafnrar lagaverndar án nokkurs konar mismununar leiddi ekki til þess að ólík meðferð einstaklinga teldist í öllum tilvikum til ólögmætrar mismununar. Mismunun sem byggð væri á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum fæli ekki í sér ólögmæta mismunun í skilningi 26. gr. SBSR.

Það var því í höndum nefndarinnar að ákveða hvort mismunun sú sem Broeks taldi sig hafa orðið fyrir samkvæmt hollenskum lögum, teldist ólögmæt mismun í skilningi 26. gr. Nefndin veitti því athygli að í hollenskum lögum væri kveðið á um jöfn réttindi og skyldur beggja hjóna varðandi sameiginlegar tekjur þeirra. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysisbætur, þurfti kona í hjúskap að sanna að hún væri fyrirvinna til að fá atvinnuleysisbætur. Þetta skilyrði átti hins vegar ekki við um karl í hjúskap. Nefndin taldi að þessi mismunun sem virtist vera á grundvelli stöðu var í raun á grundvelli kynferðis, með því að setja giftar konur í verri aðstöðu en gifta karlmenn. Slík mismunun var ekki talin vera málefnaleg. Hollenska ríkið var þegar búið að breyta umræddum lögum þannig að hin umdeilda mismunun var ekki lengur til staðar samkvæmt lögum þeim er í gildi voru þegar málið var fyrir nefndinni.

Kærandi var talin þolandi mismunar á grundvelli kynferðis vegna ofangreindra lagaákvæða sökum þess að henni hafði verið neitað um almannatryggingabætur til jafns á við karlmenn í sömu stöðu. Af þeim sökum taldi nefndin að hollenska ríkið hefði brotiðgegn 26. gr SBSR gagnvart henni.

Þrátt fyrir að aðildarríkið hefði þegar verið búið að grípa til viðeigandi ráðstafanna til að binda enda á mismunun þá sem kærandi þurfti að þola, taldi nefndin að aðildarríkið ætti að bjóða henni viðeigandi úrbætur.

HMP

Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna:
Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 9. apríl 1987
Mál nr. 182/1984

Upprunalegt skjal

Mismunun á grundvelli kynferðis. Atvinnuleysisbætur. Brot gegn 26. gr. samningsins.

1. Atvik málsins

Kærandi máls þessa var F.H. Zwaan-de Vries, hollenskur ríkisborgari, fædd 1943 og gift C. Zwaan. Í febrúar árið 1979 varð hún atvinnulaus. Samkvæmt lögum um atvinnuleysisbætur voru henni greiddar bætur til 10. október 1979. Hún sótti því næst um áframhaldandi bótagreiðslur á grundvelli laga um atvinnuleysisbætur. Borgaryfirvöld í Amsterdam höfnuðu beiðni hennar, með þeim rökum að hún uppfyllti ekki skilyrði laganna, þar sem hún var kona í hjúskap. Beiðni hennar var hafnað á grundvelli 1. mgr. 13. gr. laganna um fyrirvinnuskilyrðið en ákvæðið átti ekki við um karl í hjúskap.

Zwaan-de Vries kærði ákvörðunina til áfrýjunarnefndar í Amsterdam, sem taldi kæru Zwaan-de Vries tilefnislausa. Því næst kærði hún ákvörðun kærunefndarinnar til landsáfrýjunarnefndar, sem staðfesti ákvörðun kærunefndarinnar. Þar með hafði kærandi leitað allra tiltækra leiða til úrbóta innan lands.

2. Kæran

Kærandi taldi að hollenska ríkið hefði brotið gegn 26. gr. SBSR þar sem eina ástæða þess að hún missti rétt til bóta væri kynferði hennar og hjúskaparstaða og það teldist vera ólögmæt mismunun í skilningi 26. gr. SBSR.

3. Athugasemdir aðildarríkis

Hollenska ríkið undirstrikaði að meginregluna, sem kveður á um bann við mismunun í tengslum við almannatryggingar væri að finna í 9. gr. sbr. 2. og 3. gr. SEFMR og að sá samningur hefði sett á fót sitt eigið kerfi til alþjóðlegs eftirlits með því hvort ríki væru að uppfylla skyldur sínar samkvæmt samningnum.Aðildarríkið dró í efa að það væri hlutverk mannréttindanefndarinnar að kanna á grundvelli ákvæðis 26. gr. hvort ríkið væri að uppfylla skyldur sínar samkvæmt. 9. sbr. 2. og 3. gr. SEFMR. Aðildarríkið benti jafnframt á að ríkið hefði tekið á sig skyldur samkvæmt SEFMR og SBSR og til stæði að afnema alla mismunun í almannatryggingalöggjöf í Hollandi og að ákvæði það sem kærandi vísaði til og taldi brjóta í bága við 26. gr. hefðu þegar verið verið afnumin úr löggjöfinni.

Aðildarríkið greindi frá því að það að kona í hjúskap teldist fyrirvinna réðist m.a. af heildartekjum fjölskyldunnar og hversu stór hluti kæmi frá konunni. Ástæðu þess að skilyrðið í lögunum ætti eingöngu við um konu í hjúskap en ekki karl í hjúskap taldi aðildarríkið eiga rætur að rekja til ríkjandi viðhorfa í samfélaginu á þeim tíma er lögin voru sett. Allir karlar í hjúskap sem höfðu vinnu voru taldir fyrirvinnur fjölskyldunnar og því var óþarfi að kanna sérstaklega hvort þeir uppfylltu þessi skilyrði þegar þeir sóttu um bætur. Aðildarríkið taldi að lögin hefðu verið byggð á málefnalegum efnahags- og félagslegum sjónarmiðum og uppruni þeirri gæti ekki hafa brotið í bága við bannið við mismunun. Ástæða þess að ákvæðið átti ekki við um karla í sömu stöðu, var ekki sú að ætlunin hafi verið að mismuna körlum og konum, heldur frekar félagslegar aðstæður í þjóðfélaginu á þessum tíma. Það var talið tilgangslaust að ákvæðið ætti einnig við um karla í hjúskap. Aðildarríkið taldi að á þeim tíma sem kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hefðu aðstæður ekki breyst í grundvallaratriðum. Því hefði aðildarríkið ekki brotið gegn 26. gr. samningsins. Þetta breytti þó ekki þeirri staðreynd að ný stefna í félagsmálum síðast liðin ár, hefði haft það í för með sér að lögin gátu ekki talist æskileg lengur.

4. Niðurstaða nefndarinnar

4.1. Ákvörðun um meðferðarhæfi

Nefndin benti á að skýrslur ríkja samkvæmt 16. gr. SEFMR teldust ekki vera rannsókn á sama máli í skilningi a. liðar áðurnefndrar 2. mgr. 5. gr. valfrjálsu bókunarinnar við SBSR.Nefndin benti ennfremur á að kæru samkvæmt valfrjálsu bókuninni við SBSR væri ekki frávísað eingöngu sökum þess að efnisleg atriði málsins væru einnig vernduð af SEFMR eða öðrum samningum. Nefndin þyrfti að rannsaka hvort einhver réttindi ættu undir SBSR. Enginn ágreiningur var um að kærandi hefði leitað allra tiltækra leiða til úrbóta innan lands. Nefndin taldi því málið vera tækt til efnismeðferðar.

4.2. Álit um efnishlið málsins

Mannréttindanefndin taldi hægt að beita ákvæðum SBSR í málum þó fjallað væri um réttindin í öðrum alþjóðlegum samningum, t.d. alþjóðasamningnum um afnám alls kynþáttamisréttis, samningnum um afnám allrar mismununar gagnvart konum eða eins og í þessu tiltekna máli SEFMR. Þrátt fyrir söguleg tengsl samninganna tveggja, þá taldi nefndin það nauðsynlegt að hægt væri að beita til hins ítrasta ákvæðum SBSR. Í þessu samhengi taldi nefndin að ákvæði 2. gr. SEFMR drægi ekki úr gildissviði 26. gr. samningsins.

Nefndin kannaði því næst staðhæfingar aðildarríksins um að 26. gr. samningsins gæti ekki átt við um réttindi sem vernduð væru af 9. gr. SEFMR. Í þessu samhengi kannaði nefndin viðkomandi lögskýringargögn með SBSR, sérstaklega gögn um umræður þær sem fram fóru innan mannréttindaráðsins á fundum þess árin 1948, 1949, 1950 og 1952 og innan þriðju nefndar Allsherjaþingsins 1961, sem gáfu viðbótar skýringar á túlkun á samningnum. Umræða á þessum tíma um það hvort gildissvið 26. gr. næði einnig til verndar réttinda sem ekki eru sérstaklega vernduð af samningnum sjálfum, var óljós og gat ekki haft áhrif á niðurstöðu nefndarinnar um túlkun á ákvæðinu.

Til að komast að niðurstöðu um gildissvið 26. gr. hafði nefndin hliðsjón af venjulegri skýringu hvers efnisþáttar ákvæðisins í ljósi tilgangs þess og markmiðs. Nefndin benti á að 26. gr. ætti rætur að rekja til meginreglu 7. gr. mannréttindayfirlýsingar SÞ, sem bannaði alla lagalega mismunun og mismunun í framkvæmd á lögum og kveður á um rétt manna til verndar gegn hvers konar misrétti. Ákvæði 26. gr. legði því bann við mismunun í allri löggjöf aðildarríkjanna.

Nefndin benti á að þrátt fyrir að 26. gr. legði bann við mismunun í allri löggjöf, þá legði ákvæðið engar skyldur á ríki til að setja lög. En þrátt fyrir að 26. gr. kvæði ekki á um skyldur ríkis til að koma á fót almannatryggingakerfi, þá yrði slík löggjöf að samræmast 26. gr. væri hún tekin upp innan ríkis. Nefndin ítrekaði að mál kæranda snerist ekki um það hvort almanntryggingarkerfi skyldi vera sett á fót í Hollandi, heldur hvort löggjöf sú sem tryggði þessi réttindi bryti í bága við bannið við mismunun í 26. gr. SBSR og þá tryggingu, sem þar væri veitt öllum mönnum, um vernd gegn mismunun.

Nefndin benti einnig á, að rétturinn til jafnræðis fyrir lögunum og jafnrar lagaverndar án nokkurs konar mismununar leiddi ekki til þess að ólík meðferð einstaklinga teldist í öllum tilvikum til ólögmætrar mismununar. Mismunun sem byggð væri á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum fæli ekki í sér ólögmæta mismunun í skilningi 26. gr. SBSR. Það var því höndum nefndarinnar að ákveða hvort mismunun sú sem kærandi taldi sig hafa orðið fyrir samkvæmt hollenskum lögum, teldist ólögmæt mismunun í skilningi 26. gr. SBSR. Nefndin veitti því athygli að í hollenskum lögum væri kveðið á um jöfn réttindi og skyldur beggja hjóna varðandi sameiginlegar tekjur þeirra. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysisbætur, þurfti kona í hjúskap að sanna að hún væri fyrirvinna til að fá atvinnuleysisbætur. Þetta skilyrði átti hins vegar ekki við um karl í hjúskap. Nefndin taldi að þessi mismunun sem virtist vera á grundvelli stöðu væri í raun á grundvelli kynferðis, með því að setja konur í hjúskap í verri aðstöðu en karla í hjúskap. Slík mismunun gæti ekki talist lögmæt.

Zwaan-de Vries var talin þolandi mismununar á grundvelli kynferðis vegna þessara lagaákvæða. Nefndin taldi þar með að brotið hefði verið gegn 26. gr samningsins sökum þess að henni var neitað um almannatryggingabætur á grundvelli kynferðis. Þrátt fyrir að umdeilt ákvæði hefði verið numið brott úr hollenskri löggjöf taldi nefndin að aðildarríkið skyldi bjóða kæranda viðeigandi úrbætur.

HMP

Pauger gegn Austurríki (fyrra mál)
Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna:
Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 5. júní 1990 
Kærumál nr. 415/1990

Upprunalegt skjal

Lífeyrisréttindi. Mismunum á grundvelli kynferðis. Brot gegn 26. gr. samningsins.

1. Atvik málsins

Kærandi máls þessa var Deitmar Pauger, austurrískur ríkisborgari sem fæddur var árið 1941 og bjó í borginni Graz í Austurríki. Kærandi starfaði sem prófessor í Háskóla. Eiginkona hans lést á árinu 1984 en hún hefði verið opinber starfsmaður, nánar tiltekið kennari í opinberum skóla í sveitarfélaginu Styria, í héraðinu Steiermark.

Þann 24. ágúst 1984 gerði kærandi kröfu til töku lífeyris eftir eiginkonu sína í samræmi austurrísku lífeyrislöggjöfina frá 1965. Kærandi tók fram að lífeyrislöggjöfin byggði á mismunandi lagareglum gagnvart eftirlifandi eiginmönnum annars vegar og eftirlifandi eiginkonum hins vegar, þar sem ekkjum væri ívilnað með þeim hætti að þær fengju lífeyri óháð tekjum sínum, en ekklar fengju lífeyri einungis ef þeir hefðu engar aðrar tekjur, og skipti ekki máli í því sambandi hvers konar tekjur væri um að ræða. Þar sem kærandi væri í fullri vinnu sem gæfi af sér góðar tekjur hefði sveitarstjórnin í Syria hafnað kröfu hans um töku lífeyris. Kærandi leitaði þá réttar síns fyrir stjórnskipunardómstóli Austurríkis sem vísaði kröfum hans frá.

Í kjölfarið var gerð breyting á lífeyrislöggjöfinni þann 22. október 1985 sem fól það í sér að ekklar gátu hafið töku lífeyris eftir andlát eiginkvenna sinna. Var breyting þessi látin gilda með afturvirkum hætti frá 1. mars 1985. Hins vegar gátu ekklar ekki hafið töku fulls lífeyris þegar við gildistöku breytingarlaganna, þar sem þau gerðu ráð fyrir innleiðingu breytinganna í þremur þrepum. Nánar tiltekið gátu ekklar hafið töku þriðjung lífeyris þann 1. mars 1985, 2/3 hluta þann 1. janúar 1989 og loks fulla töku lífeyris frá og með 1. janúar 1995. Samkvæmt þessu var lífeyrir ekkla eftir eiginkonur þeirra áfram skertur á fyrstu tveimur þrepum innleiðingar löggjafarinnar.

Þann 13. maí 1995 gerði kærandi kröfu til lífeyris eftir eiginkonu sína og var honum veittur þriðjungur fulls lífeyris í samræmi við áðurgreint kerfi breytingarlaganna frá 1985. Lífeyririnn var hins vegar ekki greiddur út til kæranda strax, því samkvæmt tilteknu ákvæði í lífeyrislöggjöfinni, sem átti einungis við um töku lífeyris eftir andlát opinberra starfsmanna, var greiðslunni komið fyrir á tilteknum fjárvörslureikningi.

Í kjölfarið fór kærandi með mál sitt fyrir stjórnskipunardómstólinn á nýjan leik og gerði þá kröfu annars vegar að honum yrði greiddur fullur lífeyrir, ekki einungis hluti, og hins vegar að ákvæði lífeyrislaganna, um að lífeyrir, sem opinberir starfsmenn hefðu unnið sér inn, yrði ekki greiddur út heldur komið fyrir á fjárvörslureikningi, yrðu dæmd ógild. Í niðurstöðu sinni 16. mars 1988 komst stjórnskipunardómstóllinn að því að ákvæði lífeyrislöggjafarinnar, sem gerðu ráð fyrir því að áunninn lífeyrir opinberra starfsmanna yrði til að byrja með ekki greiddur út til eftirlifandi maka þeirra heldur inn á sérstakan fjárvörslureikning, væru ekki í samræmi við austurrísku stjórnarskrána. Hins vegar tók stjórnskipunardómstóllinn ekki afstöðu til þess hvort hin áðurgreinda þriggja þrepa innleiðing, sem breytingarlögin árið 1985 gerðu ráð fyrir, væri í samræmi við stjórnarskrána. Eftir að hafa áfrýjað máli sínu á nýjan leik til stjórnskipunardómstólsins árið 1989 vísaði dómstóllinn frá kröfum kæranda, um að honum yrði greiddur fullur lífeyrir og að þriggja þrepa innleiðing breytingarlaganna yrði dæmd ógild.

2. Kæran

Kærandi taldi að austurríska ríkið hefði gerst brotlegt gegn 26. gr. alþjóðasamnings Sameinuðu Þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (sks. SBSR) þar sem eftirlifandi eiginkona maka hefði, við sömu aðstæður og kærandi var í, fengið greiddan fullan lífeyri en kærandi, sem ekkill, hefði engan lífeyri fengið á tímabilinu frá 24. júní 1984 til 28. febrúar 1985 og upp frá því einungis skertan lífeyri. Kærandi hélt því fram að sá ójöfnuður sem þriggja þrepa innleiðingarkerfi breytingalaganna frá 1985 gerði ráð fyrir fæli í sér ólögmæta mismunun, þar sem aðgreiningin á milli ekkja og ekkla væri órökstudd og ekki væri unnt að halda því fram að hún væri byggð á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum. Kærandi benti á að austurríska ríkinu bæri skylda til þess samkvæmt 26. gr. SBSR að gæta þess að jafnræði ríkti milli karla og kvenna og engin sannfærandi rök lægju því til grundvallar að karlar nytu ekki enn jafns réttar á við konur á sviði lífeyrislöggjafar, nærri tveimur áratugum eftir að kynjunum var fenginn jafn réttur á sviði fjölskyldulöggjafar.

3. Athugasemdir aðildarríkis

Austurríska ríkið tók fram að eldri lífeyrislöggjöf í landinu væri að hluta til reist á þeirri staðreynd að í flestum hjónaböndum hefðu aðstæður verið þær að einungis eiginmaðurinn hefði atvinnu sem gæfi af sér góðar tekjur og af þeim sökum hefði ekki verið gert ráð fyrir því að eiginkonur myndu vinna sér inn lífeyri sem eiginmenn þeirra gætu síðan notið góðs af eftir andlát þeirra. Með breyttum félagslegum aðstæðum hefðu tilteknar breytingar á löggjöf átt sér stað, þar á meðal á lífeyrislöggjöfinni. Breytingar sem þessar gætu hins vegar ekki átt sér stað í einu lagi. Stigvaxandi breyting á borð við þá sem þriggja þrepa innleiðingarkerfið gerði ráð fyrir væri nauðsynleg með tillit til félagslegra aðstæðna á hverjum tíma og fæli ekki á neinn hátt í sér ólögmæta mismunun.

4. Niðurstaða nefndarinnar

Nefndin benti í fyrsta lagi á að hún hefði í fyrri álitum sínum komist að þeirri niðurstöðu að 26. gr. SBSR gilti einnig á sviði almannatrygginga. Ítrekaði nefndin að 26. gr. legði í sjálfu sér ekki skyldu á aðildarríkin varðandi efnisatriði sem fælust í viðkomandi löggjöf eða skyldaði aðildarríki til að setja tiltekna löggjöf á sviði lífeyrismála. Hins yrði beiting viðkomandi löggjafar, þegar hún hefði öðlast gildi, að vera í samræmi við 26. gr.

Þá ítrekaði nefndin, og vísaði um það til fyrri framkvæmdar sinnar, að þær meginreglur að allir væru jafnir fyrir lögum og ættu rétt á sömu lagavernd, leiði ekki til þess að ólík meðferð einstaklinga teldist í öllum tilvikum ólögmæt mismunun. Mismunun sem byggð væri á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum fæli ekki í sér ólögmæta mismunun í skilningi 26. gr. SBSR.

Í mati sínu á því hvort austurríska lífeyrislöggjöfin fæli í sér mismunun sem byggð væri á ómálefnalegum og hlutdrægum sjónarmiðum, tiltók nefndin að austurrísk fjölskyldulöggjöf legði jafnar skyldur á maka í hjónabandi og veitti þeim jöfn réttindi, hvað varðar tekjur þeirra og skyldu til framfærslu fjölskyldunnar. Lífeyrislöggjöfin veitti hins vegar ekklum einungis fullan rétt til töku lífeyris ef þeir hefðu engar aðrar tekjur, en slíkt skilyrði gilti ekki um ekkjur og rétt þeirra til töku lífeyris. Samkvæmt lífeyrislöggjöfinni myndu ekklar ekki öðlast rétt til töku fulls lífeyris, til jafns við ekkjur, fyrr en 1. janúar 1995. Þetta þýddi í raun að karlmenn og konur, í félagslegum aðstæðum sem væru sambærilegar, sættu ólíkri meðferð, einungis á grundvelli kynferðis síns. Taldi nefndin slíka mismunun milli einstaklinga ekki málefnalega, líkt og fram kæmi í greinagerð austurríska ríkisins, þar sem tekið væri fram að markmið breytingalaganna frá 1985 væri að fullt jafnræði næðist milli karla og kvenna, hvað lífeyrisréttindi varðaði, þann 1. janúar 1995.

Með vísan til ofangreindra raka komst nefndin að þeirri niðurstöðu að beiting austurrísku lífeyrislöggjafarinnar gagnvart kæranda hefði haft það í för með sér að hann væri þolandi brots þess á 26. gr. SBSR. Að lokum tók nefndin fram að þrátt fyrir að austurríska ríkið hefði tekið skref í átt til þess að fjarlægja þau ákvæði lífeyrislöggjafarinnar, sem fælu í sér ólögmæta mismunun, væri hún þeirra skoðunar að ríkið ætti að bjóða kæranda viðeigandi úrbætur.

Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna:
Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 22. október 1993
Mál nr. 418/1990

Upprunalegt skjal

Mismunun á grundvelli kynferðis. Atvinnuleysisbætur. Ekki brot gegn 26. gr. samningsins.

1. Atvik málsins

Kærandi í málinu var C.H.J. Cavalcanti Araujo-Jongen, hollenskur ríkisborgari, búsett í Diemen í Hollandi. Hún taldi sig vera þolandi brota af Hollands hálfu á 26. gr. SBSR. Kærandi var fædd 1939 og gift Cavalcanti Araujo. Frá september 1979 þangað til í janúar 1983 starfaði hún sem ritari í hlutastarfi. Hún varð atvinnulaus 1. febrúar 1983. Hún fékk greiddar bætur samkvæmt hollenskum lögum um atvinnuleysisbætur. Í samræmi við ákvæði laganna voru greiddar bætur í ákveðinn hámarks tíma, sem voru 6 mánuðir, í hennar tilfelli til 1. ágúst 1983. Kærandi fékk svo nýtt starf 24. apríl 1984.

Eftir að hún hafði fengið greiddar bætur í þann hámarks tíma sem lögin heimiluðu, staðhæfði hún að hún hefði átt rétt á bótum samkvæmt þágildandi lögum um atvinnuleysisbætur en samkvæmt þeim var hámarks tími greiðslna tvö ár. Kærandi sótti um bætur 11. desember 1986, samkvæmt síðarnefndum lögum til bæjarfélagsins í Leusden, þar sem hún var þá búsett. Beiðni hennar um bætur var hafnað, 8. apríl 1987, með þeim rökum að þar sem hún væri kona í hjúskap, sem ekki teldist fyrirvinna heimilisins uppfyllti hún ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. laganna.

Bæjarfélagið staðfesti fyrri ákvörðun sína 2. júlí 1987. Kærandi kærði þá ákvörðun til áfrýjunarnefndar í Utrecht sem felldi ákvörðun bæjarfélagsins úr gildi og taldi kæranda eiga rétt á bótagreiðslum. Bæjarfélagið kærði ákvörðun áfrýjunarnefndarinnar til landsáfrýjunarnefndar sem staðfesti fyrri ákvörðun um að kærandi ætti ekki rétt á bótagreiðslum. Þar með hafði kærandi neytt allra réttarúrræða innan lands.

2. Kæran

Kærandi taldi að hollenska ríkið hefði brotið gegn 26. gr. SBSR þar sem höfnun á beiðni hennar um bótagreiðslu samkvæmt lögunum fæli í sér ólögmæta mismunun. Kærandi vísaði m.a. til fyrri álita nefndarinnar í málum nr. 172/1984 (Broeks gegn Hollandi) og nr. 182/1984 (Zwaan-de Vries gegn Hollandi).

Kærandi benti á að SBSR hefði orðið gildur gagnvart Hollandi 11. mars 1979 og þar með hefði 26. gr. öðlast bein réttaráhrif að landsrétti. Landsáfrýjunarnefndin hefði hins vegar talið að 26. gr. hefði ekki haft bein réttaráhrif fyrr eftir 23. desember 1984, sem var sama tímamark og ESB hafði sett varðandi gildistöku þriðju tilskipunar varðandi afnám alls kynjamisréttis. Kærandi taldi að það væru engin tengsl milli samningsins og tilskipunarinnar og að valið á þessari dagsetningu hefði verið ómálaefnalegt enda hefði landsáfrýjunarnefndarinnar ekki áður stuðst við þessa dagsetningu í úrskurðum sínum.

Kærandi taldi sig hafa beðið tjón af því hvernig ákvæðum laga um atvinnuleysisbætur var beitt og beiðni hennar um bætur, á tímabilinu frá 1. ágúst 1983 til 24. apríl 1984 hafnað. Hún taldi að konur hefðu átt rétt á bótunum til jafns við karla frá 11. mars 1979, þ.e. daginn sem SBSR tók gildi gagnvart Hollandi, í hennar tilviki frá 1. ágúst 1983.

3. Athugasemdir aðildarríkis

Í athugsemdum aðildarríkisins kom m.a. fram að hin umdeilda 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysisbætur hefði verið afnumin með lögum frá 24. apríl 1985. Í þeim lögum var þó gert ráð fyrir því að reglan ætti áfram við um konur í hjúskap sem urðu atvinnulausar fyrir 23. desember 1984. Þar sem þessi breyting var gagnrýnd mjög harðlega var aftur gerð lagabreyting 6. júní 1991. Með lagabreytingunni 1991 öðluðust þær konur sem áður var neitað um bætur vegna kröfunnar um að þær væru fyrirvinnur heimilsins, rétt að krefjast þessara bóta með afturvirkum hætti, ef þær uppfylltu önnur skilyrði laganna. Eitt af skilyrðum laganna var að umsækjandi þurfti að hafa verið atvinnulaus þegar hann sótti um bæturnar. Hefði kærandi því verið atvinnulaus þegar hún sótti um bæturnar hefði hún átt rétt á bótum með afturvirkum hætti samkvæmt nýju lögunum. Aðildarríkið benti því á að skilyrðið um að kærandi væri fyrirvinna heimilisins hefði því ekki verið ástæðan fyrir því að hún átti ekki möguleika á að fá bæturnar, heldur uppfyllti hún ekki önnur skilyrði laganna, sem giltu jafnt um konur sem karla.

Aðildarríkið fullyrti að það hefði með lagabreytingunni uppfyllt kröfur 26. gr. um jafnræði fyrir lögunum.

Jafnframt taldi ríkið að innleiðing á jafnræði í innanlandslöggjöf réðist af því um hvers konar réttindi væri að ræða hvernig beita skyldi jafnræðisreglunni. Í tengslum við félags- og efnahagsleg réttindi taldi aðildarríkið mismunandi meðferð vera nauðsynlega til að ná fram félagslegu réttlæti.

Aðildarríkið benti einnig á að fyrirvinnu reglan endurspeglaði þjóðfélagsaðstæður á þeim tíma er lögin voru sett. Þá voru karlmenn í langflestum tilfellum fyrirvinnur heimilisins en ekki konur.

4. Niðurstaða nefndarinnar

4.1. Ákvörðun um meðferðarhæfi

Nefndin taldi að álitaefnin í málinu væru tvö varðandi brot á 26. gr. SBSR, (a) vegna þess að ríkið hafnaði kæranda um bótagreiðslur samkvæmt lögum um atvinnuleysisbætur, og (b) vegna þess að breytt lög þau er í gildi voru er kæran var tekin fyrir veittu henni heldur ekki rétt á bótum fyrir þann tíma er hún var atvinnulaus frá 1. ágúst 1983 til 24. apríl 1984. Kærandi fór einnig fram á að nefndin ályktaði að samningurinn hefði haft bein lagaáhrif í Hollandi frá 11. mars 1979, eða a.m.k. frá 1. ágúst 1983. Nefndin benti á að, þó ríki væru ekki skyldug samkvæmt samningnum til að koma á fót almannatryggingalöggjöf, þá yrði slík löggjöf, væri hún til staðar, að samrýmast 26. gr. SBSR.

Nefndin taldi að jafnvel þó að lögin sem voru í gildi 1983 hefðu ekki verið í samræmi við 26. gr. samningsins, hefði verið bætt úr þeim annmarka með lagabreytingu með afturvirkum hætti 6. júní 1991. Kærandi hélt því fram að eftir lagabreytinguna hefði henni verið mismunað samkvæmt lögunum með óbeinum hætti, sökum þess að umsækjendur þurfu að vera atvinnulausir á þeim tíma er þeir sóttu um bæturnar. Nefndin taldi að krafan, um að umsækjandi sé atvinnulaus þegar hann sækir um bætur hefði verið byggð á málefnalegum hlutlægum sjónarmiðum þar sem meginmarkmið laganna væri að aðstoða atvinnulausa einstaklinga. Nefndin taldi því að ekki hefði verið um brot á 26. gr. að ræða.

Hvað varðaði kröfu kæranda um að nefndin úrskurðaði um það að 26. gr. hefði öðlast bein lagaáhrif í Hollandi frá 11. mars 1979, þegar samningurinn tók gildi í aðildarríkinu, eða a.m.k. frá 1. ágúst 1983, taldi nefndin að aðferðir við innleiðingu á samningnum væru mjög mismunandi milli ríkja. Ákvörðun um það hvort og hvenær 26. gr. öðlaðist bein lagaáhrif í Hollandi hefði því verið í höndum löggjafa aðildarríkisins en ekki nefndarinnar.

HMP

Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna:
Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar
við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 15. júlí 1994
Mál nr. 484/1991

Upprunalegt skjal

Mismunun á grundvelli kynferðis. Framfærsluaðstoð. Ekki brot gegn 26. gr. samningsins.

1. Atvik málsins

Kærandi málsins var H.J. Pepels, hollenskur ríkisborgari búsettur í Stein í Hollandi. Hann taldi sig vera þolanda brota af Hollands hálfu á 26. gr. SBSR. svo og 3. og 5. gr. SBSR. Kærandi varð ekkill 12. júlí 1978 og þurfti að axla einn ábyrgð á uppeldi fjögurra ungra barna sinna. Samkvæmt almennum lögum um ekkjur og munaðarleysingja í Hollandi áttu ekkjur, sem uppfylltu ákveðin skilyrði eingöngu rétt á bótum, sem voru ekki ákvarðaðar á grundvelli tekna viðkomandi. Ekklar áttu hins vegar ekki rétt á bótum samkvæmt lögunum. Sökum þeirrar staðreyndar sótti kærandi ekki um bætur.Tíu árum síðar, 7. desember 1988, ákvað æðsti dómstóllinn í almannatryggingamálum, að þrátt fyrir texta laganna, ættu ekklar einnig rétt á bótunum, þar sem ákvæði laganna voru talin í andstöðu við meginregluna um bann við mismunun.

Kærandi sótti því um bætur 14. mars 1989. Honum var tjáð að hann fengi eingöngu greiddar bætur frá 1. desember 1987 þar sem lögin höfðu reglu um greiðslu bóta eitt ár aftur í tímann frá því að sótt var um bætur. Kærandi krafðist þess hins vegar að fá greiddar bætur lengra aftur í tímann, þar sem um sérstakar aðstæður hefði verið að ræða í hans tilviki. Í 5. mgr. 25. gr. laganna var að finna reglu sem heimilaði að bætur væru greiddar meira en eitt ár aftur í tímann við sérstakar aðstæður. Í mars 1990 féllst áfrýjundarnefndin á það að um sérstakar aðstæður hefði verið að ræða í máli kæranda og honum skyldu greiddar bætur aftur í tímann. Stjórnvaldið sem stóð að breytingum á lögunum áfrýjaði þessari ákvörðun til æðra stjórnvalds, sem úrskurðaði að ekklar gætu einungis fengið greiddar bætur afturvirkt frá 23. desember 1984, sem var tímamark ESB við innleiðingu á 3. tilskipun ESB um afnám alls kynjamisréttis innan aðildarríkja.Varðandi afturvirkni bótagreiðslna, taldi æðra stjórnvaldið að ókunnugleiki um réttindi gætu haft áhrif við mat á því hvort um sérstakar kringumstæður væri að ræða. Hins vegar mæltist CRvB til þess að beitt væri þröngri túlkun við mat á því hvað teldust sérstakar kringumstæður í skilningi ákvæðisins. Á grundvelli úrskurðar CRvB ákvað SVB að breyta ekki viðmiðunardagsetningu afturvirkra bótagreiðslna í tilviki kæranda. Máli kæranda var vísað frá héraðsdómstólnum í Maastricht.

2. Kæran

Kærandi taldi að hollenska ríkið hefði brotið gegn 26. gr. alþjóðasamnings SBSR þar sem hann taldi að ákvörðunin um að hafna beiðni hans um fulla greiðslu bóta afturvirkt fæli í sér ólögmæta mismunun á grundvelli kynferðis.

Kærandi hélt því fram að val á dagsetningunni 23. desember 1984 hefði verið ómálefnaleg ákvörðun stjórnvalda. Í 3. tilskipun ESB, sem leggur bann við allri kynjamismunun, væri ekki fjallað um bæturnar sem hér um ræddi. Kærandi taldi að þau 13 ár sem hefðu liðið milli 1966 og 1979 hefðu átt að nægja stjórnvöldum til að aðlaga löggjöfina.

Kærandi vísaði m.a. til álits nefndarinnar í máli nr. 172/1984 (Broeks gegn Hollandi). Einnig vísaði hann til minnisatriða stjórnvalda varðandi innleiðingu samningsins, þar sem fram kom að stjórnvöld töldu III. hluta samningsins hafa haft bein réttaráhrif. Kærandi benti svo að lokum á það að ákvæði 26. gr. samningsins endurspeglaðist í hollensku stjórnarskránni, sem lagði bann við mismunun m.a. á grundvelli kynferðis. Kærandi hélt því fram að 26. gr. samningsins hefði haft bein lagaáhrif í Hollandi frá 11. mars 1979, og að synjun stjórnvalda á bótagreiðslum til ekkla hefði brotið í bága við 26. gr. frá og með þeim degi.

3. Athugasemdir aðildarríkis

Aðildarríkið útskýrði m.a. sögulegan bakgrunn ákvæðisins, sem var frá 1959 og af hverju bæturnar hefðu eingöngu verið ætlaðar ekkjum en ekki ekklum. Áður fyrr voru karlar í hjúskap taldir vera fyrirvinnur fjölskyldunnar á meðan konur í hjúskap voru taldar vera ábyrgar fyrir heimilishaldi og uppeldi barna. Af þessum sökum taldi aðildarríkið að ekklar þyrftu ekki á bótunum að halda, þar sem þeir gætu verið fyrirvinnur heimilsins. Að mati aðildarríkisins væri því ekki verið að brjóta í bága við 26. gr. samningsins, þar sem mismununin væri réttlætanleg í ljósi þessara málefnalegu og hlutlægu sjónarmiða.

Aðildarríkið benti á að félagslegar aðstæður hefðu breyst og að mismununin milli ekkja og ekkla gæti ekki talist réttlætanleg lengur.

Aðildarríkið taldi jafnframt að ákvörðun hollenskra stjórnvalda um að 26. gr. samningsins teldist hafa bein réttaráhrif frá 23. desember 1984, og að bætur gætu ekki verið greiddar afturvirkt fyrir þann tíma vera málefnalega. Almannatryggingalöggjöf greindi á milli hópa fólks til að ná fram félagslegu réttlæti. Þar sem löggjöfin væri á eftir breytingum þjóðfélagsins taldi aðildarríkið það vera réttlátt að gefa ákveðinn tíma fyrir löggjöfina til að aðlagast framkvæmdinni án þess að það teldist brot á samningnum.

4. Niðurstaða nefndarinnar

Nefndin vísaði til fyrri álita og minnist þess að þrátt fyrir að mismunun skuli vera bönnuð með lögum og öllum skuli vera veitt jöfn vernd gegn mismunun, skv. 26. gr. samningsins, þá tekur 26. gr. ekki á því hvað megi setja í lög. Þar af leiðandi skyldar 26. gr. ekki aðildarríkin til að veita almannatryggingabætur né veita þær með afturvirkum hætti í samræmi við þá dagsetningu sem um þær var sótt. Þegar hins vegar reglur um slíkar bætur eru settar í lög, verða lögin að vera í samræmi við 26. gr. SBSR.

Nefndin benti á að þrátt fyrir að umdeild lög hefðu gert greinarmun á ekkjum og ekklum, hefði sú aðgreining verið óvirk frá 7. desember 1988. Því hefði mismununin ekki lengur átt við þegar Pepels sótti um bætur samkvæmt lögunum 14. desember 1988 og hann talinn eiga rétt á bótum, afturvirkt, frá 1. desember 1987.

Nefndin taldi því að ekki hefði verið brotið gegn 26. gr. SBSR.

HMP

Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna:
Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar
við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 25. mars 1996
Kærumál nr. 716/1999

Lífeyrisréttindi. Mismunun á grundvelli kynferðis. Brot gegn 26. gr. samningsins.

1. Atvik málsins

Kærandi máls þessa var Deitmar Pauger, austurrískur ríkisborgari sem fæddur var árið 1941 og bjó í borginni Graz í Austurríki. Kærandi starfaði sem prófessor við háskóla. Eiginkona hans lést árið 1984 en hún hafði verið opinber starfsmaður, nánar tiltekið kennari í opinberum skóla í sveitarfélaginu Styria í héraðinu Steiermark. Um var að ræða annað málið þar sem kærandi kærði austurríska ríkið fyrir brot gegn alþjóðasamningi Sameinuðu Þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (sks. SBSR).

Í fyrra máli kæranda hafði nefndin komist að þeirri niðurstöðu að austurríska ríkið hefði brotið gegn 26. gr. SBSR. Niðurstaðan var byggð á því að um ólögmæta mismunun gagnvart kæranda hefði verið að ræða þar sem austurríska lífeyrislöggjöfin, með síðari breytingum, gerði ráð fyrir því að eftirlifandi eiginmenn myndu ekki öðlast fullan rétt til töku lífeyris eftir eiginkonur sínar fyrr en 1. janúar 1995. Í tilviki kæranda þýddi þetta að eftir lát eiginkonu hans átti hann ekki rétt á að töku neins lífeyris eftir hana, þar sem hann var í atvinnu og aflaði tekna. Við gildistöku breytingalaganna öðlaðist kærandi rétt á töku þriðjungs af fullum lífeyri, síðan tveggja þriðju hluta og loks átti hann rétt á töku fulls lífeyris frá ársbyrjun 1995. Hins vegar var aðstaða eftirlifandi eiginkvenna önnur; þær áttu í öllum tilvikum rétt á töku fulls lífeyris eftir eiginmenn sína. Á þeim grundvelli taldi nefndin að um ólögmæta mismunun gagnvart kæranda, sem ekkli, hefði verið að ræða og því hefði austurríska ríkið gerst brotlegt gegn 26. gr. SBSR.

Kærandi hélt því fram í þessu síðara máli að austurríska ríkið hefði hins vegar ekki lagfært það sem nefndinni þótti miður fara í lífeyrislöggjöf ríkisins í kjölfar fyrra máls hans og endurákvarðað lífeyri honum til handa. Þannig hefði ríkið ekki farið að niðurstöðu nefndarinnar og veitt honum raunhæfa úrbót mála sinna.

Þann 4. október 1991 gifti kærandi sig hins vegar á nýjan leik. Samkvæmt austurrísku lífeyrislögunum átti kærandi af því tilefni rétt á eingreiðslu lífeyris fyrir tiltekið tímabil, sem skyldi vera summa þess lífeyris sem hann átt rétt á brúðkaupsdegi sínum, framreiknuð til 70 mánaða. Kærandi var hins vegar ekki sammála þeim grundvelli sem stjórnvöld byggðu framreikning á lífeyrisgreiðslu hans á, en stjórnvöld byggðu framreikning sinn á ákvæðum austurrísku lífeyrislaganna og þeim skerta lífeyri sem þau gerðu ráð fyrir ekklum til handa. Af þessu leiddi að kærandi fékk eingreiðslu upp á lægri upphæð en verið hefði ef framreikningur hefði verið byggður á því að hann tæki fullan lífeyri á umræddu tímabili.

2. Kæran

Kærandi taldi að austurríska ríkið hefði aftur brotið gegn 26. gr. SBSR þar sem með því að miða framreikning á eingreiðslu lífeyris við það að hann tæki skertan lífeyri til 1. janúar 1995, en eftir það við fullan lífeyri, fengi hann, sem ekkill, sér greidda lægri summu en ekkjur í sömu stöðu. Af þeim sökum væri um ólögmæta mismunun gagnvart honum að ræða og brot á 26. gr.

3. Athugasemdir aðildarríkis

Austurríska ríkið gerði aðallega athugasemdir er lutu að meðferðarhæfi kæru málsins. Taldi ríkið, að þar sem kærandi hefði þegar farið með mál sitt fyrir Mannréttindanefnd Evrópu, sem komist hefði að þeirri niðurstöðu að málið væri ekki tækt til efnismeðferðar þar sem það snerti sömu atriði og hefðu þegar verið rannsökuð og veitt álit um af hálfu nefndarinnar í fyrra máli kæranda, gæti Mannréttindanefndin ekki tekið málið til efnislegrar meðferðar.

Benti ríkið á a. lið 2. mgr. 5. gr. valfrjálsrar bókunar við SBSR í þessu samhengi, en samkvæmt því ákvæði skal nefndin ekki athuga neitt erindi frá einstaklingum nema hún hafi fullvissað sig um að ekki sé verið að rannsaka sama mál eftir öðrum aðferðum alþjóðlegrar rannsóknar eða sáttar. Taldi ríkið að þar sem Mannréttindanefnd Evrópu hefði rannsakað sama mál þá gæti nefndin, þegar af þeirri ástæðu, ekki tekið kæru kæranda til efnislegrar meðferðar.

4. Niðurstaða nefndarinnar

4.1. Ákvörðun nefndarinnar um meðferðarhæfi

Nefndin tók til athugunar hvort skilyrði a. lið 2. mgr. 5. gr. valfrjálsu bókunarinnar væri uppfyllt. Áréttaði nefndin að kæra kæranda frammi fyrir nefndinni væri byggð á sömu málsatvikum og kæra hans fyrir Mannréttindanefnd Evrópu. Tók nefndin ennfremur tillit til þess, að þegar austurríska ríkið gerðist aðili að valfrjálsu bókuninni, gerði það þann fyrirvara að engin kæra yrði tekin til efnismeðferðar nema gengið hefði verið úr skugga um að sama mál hefði ekki verið rannsakað af Mannréttindanefnd Evrópu.

Nefndin taldi ljóst að kæra kæranda fyrir nefndinni og Mannréttindanefndinni varðaði sama mál í skilningi a. liðar 2. mgr. 5. gr. bókunarinnar. Hins vegar tók nefndin til athugunar hvort Mannréttindanefndin hefði í raun „rannsakað“ viðkomandi mál. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að Mannréttindanefndin hefði lýst kæruna ótæka til efnismeðferðar á réttarfarslegum grundvelli, án þess að athuga atvik þau er lágu að baki kærunni. Þar af leiðandi hefði Mannréttindanefndin ekki rannsakað mál kæranda í skilningi a. liðar 2. mgr. 5. gr. bókunarinnar og af þeim sökum væri málið tækt til efnismeðferðar frammi fyrir nefndinni.

4.2. Álit um efnishlið málsins

Nefndin athugaði að fyrir henni lægi að taka afstöðu til þess hvort grundvöllur framreiknings stjórnvalda í Austurríki á lífeyrisgreiðslu kæranda fæli í sér ólögmæta mismunun gagnvart kæranda. Ljóst væri að framreikningur hefði að hluta til verið byggður á þærri forsendu að kærandi tæki skertan lífeyri, eða fram til 31. desember 1994. Í þessu samhengi áréttaði nefndin þá niðurstöðu sína í fyrra máli kæranda að mismunandi ákvörðun lífeyris eftir því hvort viðkomandi einstaklingur væri ekkill eða ekkja væri ólögmæt. Af því leiddi að lægri eingreiðsla lífeyris á grundvelli framreiknings sem byggði á því að kærandi tæki einungis skertan lífeyri væri einnig brot á 26. gr. SBSR, þar sem ekkja í sömu stöðu hefði fengið hærri eingreiðslu þar sem framreikningur í tilviki hennar hefði verið byggður á töku fulls lífeyris.

Með tilliti til þessa taldi nefndin að austurríska ríkið hefði í annað sinn gerst brotlegt gegn 26. gr. gagnvart kæranda. Að lokum ítrekaði nefndin að aðildarríkjum bæri skylda til, samkvæmt a. lið 3. mgr. 2. gr. SBSR, að veita þeim einstaklingum, sem brotið hefur verið gegn, raunhæfa úrbót. Í tilviki kæranda fæli slík úrbót í sér að honum yrði greidd eingreiðsla lífeyris á grundvelli framreiknings sem miðaði við að hann hefði tekið fullan lífeyri án ólögmætrar mismununar.

Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna:
Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar
við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 26. mars 2002 
Kærumál nr. 919/2000

Rétturinn til að taka upp eftirnafn maka. Mismunun á grundvelli kynferðis. Brot gegn 26. gr. samningsins.

1. Atvik málsins

Kærendur máls þessa voru hjónin Michael Muller, þýskur ríkisborgari, og Imke Engelhard, ríkisborgari Namibíu. Muller hugðist taka upp eftirnafn eiginkonu sinnar við giftingu þeirra þannig að þau yrðu upp frá því herra og frú Engelhard. Hins vegar kom í ljós að ákvæði namibísku útlendingalaganna gerðu ráð fyrir því að á meðan eiginkona gæti tekið upp eftirnafn eiginmanns síns án frekari viðhafnar, þyrfti eiginmaður, vildi hann gera slíkt hið sama, að sækja um breytingu á eftirnafni sínu með sérstakri umsókn og uppfylla tiltekin formskilyrði namibísku útlendingalaganna.

2. Kæran

Kærendur töldu að namibíska ríkið hefði brotið gegn 26. gr. alþjóðasamnings Sameinuðu Þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (sks. SBSR) þar sem samkvæmt a. lið 1. mgr. 9. gr. namibísku útlendingalaganna yrði eiginmaður, vildi hann taka upp eftirnafn eiginkonu sinnar, að fara í sérstakt umsóknarferli og uppfylla nánar tiltekin formskilyrði, á meðan eiginkonur, sem vildu taka upp eftirnafn eiginmanns síns, þyrftu ekki að fara í slíkt ferli, heldur tækju þær sjálfkrafa eftirnafn eiginmanns. Sem dæmi um þau skilyrði, sem uppfylla þyrfti í umsóknarferlinu, má nefna að eiginmenn þurftu að auglýsa fyrirhugaða breytingu á eftirnafni í tveimur útgáfum lögbirtingarblaðs og þar að auki í tveimur dagblöðum, þar sem fram kæmi vilji viðkomandi til nafnbreytingar og ástæður þar að baki. Þá taldi Engelhard að a. liður 1. mgr. 9. gr. útlendingalaganna fæli einnig í sér ólögmæta mismunun gagnvart henni, þar sem ákvæðið hindraði að eftirnafn hennar yrði notað sem fjölskyldunafn, og gæti dóttir hjónanna þar af leiðandi ekki heldur borið nafnið.

Kærendur vísuðu í málatilbúnaði sínum til dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í sambærilegum málum. Kæmi þar fram að uppfylla mætti markmiði laga, um einingu fjölskyldunnar, með jafn árangursríkum hætti þegar eiginmaður tæki eftirnafn eiginkonu sinnar í stað hins gagnstæða. Hefði Mannréttindadómstóllinn ennfremur tekið fram að þrátt fyrir að um langa hefð gæti verið að ræða, fyrir því að eiginkona tæki eftirnafn eiginmanns síns, yrði að skoða hvert mál í ljósi samfélagsaðstæðna á hverjum tíma og ennfremur með meginregluna, um að ekki mætti mismuna einstaklingum með ólögmætum hætti, að leiðarljósi. Þá vísuðu kærendur ennfremur til almenns álits nefndarinnar nr. 18 þar sem fram kæmi að sérhver mismunun á grundvelli kynferðis fæli í sér ólögmæta mismunun í skilningi 26. gr. SBSR, og töldu með vísan til þess fullvíst að namibísku útlendinga lögin fælu í sér ólögmæta mismunun, bæði gagnvart körlum og konum.

3. Athugasemdir aðildarríkis

Namibíska ríkið andmælti því ekki að a. liður 1. mgr. 9. gr. útlendingalaga gerði ráð fyrir mismunun á milli eiginmanna og eiginkvenna. Á það væri hins vegar að líta að umrædd mismunun væri réttlætanleg þar sem hún byggðist á málefnalegum sjónarmiðum sem stefndu að því að mikilvæg félagsleg, efnahagsleg og lagaleg markmið næðust. Eftirnöfn gegndu mikilvægu hlutverki við að auðkenna einstaklinga og tryggja þannig félagslegt öryggi þeirra og réttindi á borð erfða- og kosningarétt. Þá væri löng og rík hefð fyrir því í Namibíu að eiginkonur tækju eftirnöfn eiginmanna sinna, og ósk kæranda væri sú fyrsta sinnar tegundar síðan útlendingalögin tóku gildi árið 1937. Tilgangur mismununar útlendingalaga væri að tryggja réttaröryggi einstaklinga og auðkenni þeirra, og væru ákvæði þeirra þannig byggð á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum.

4. Niðurstaða nefndarinnar

4.1. Ákvörðun nefndarinnar um meðferðarhæfi

Í b. lið 2. mgr. 5. gr. valfrjálsrar bókunar við SBSR er kveðið á um einstaklingur þurfi að hafa leitað allra tiltækra leiða til úrbóta innan lands áður en nefndin getur fjallað um mál hans. Að því er varðaði Muller taldi nefndin, á grundvelli þeirra upplýsinga sem hún hafði aðgang að, að honum hefði ekki verið unnt að neyta frekari réttarúrræða innalands, og hefði namibíska ríkið staðfest það. Hvað varðaði Engelhard hélt ríkið því fram að þar sem hún hefði sjálf ekki neytt réttarúrræða innalands, heldur látið málsóknir eiginmanns síns duga, að erindi hennar væri ekki hæft til efnismeðferðar á grundvelli b. liðar 2. mgr. 5. gr. Nefndin féllst ekki á þessa röksemdafærslu ríkisins, þar sem mál Engelhard væri frá lagalegu sjónarhorni að öllu leyti sambærilegt máli eiginmanns hennar. Væri því kæran einnig tæk til efnismeðferðar hvað Engelhard varðaði.

4.2. Álit um efnishlið málsins

Nefndin benti í fyrsta lagi á að óumdeilt væri í málinu að 1. mgr. 9. gr. laga um útlendinga í Namibíu fæli í sér mismunun á grundvelli kynferðis hvað varðaði rétt karla annars vegar og kvenna hins vegar til þess að taka upp eftirnafn maka síns í hjónabandi. Í þessu samhengi ítrekaði nefndin, og vísaði til þess sem kæmi stöðugt fram í álitum hennar, að rétturinn til þess að allir séu jafnir fyrir lögunum og eigi rétt á sömu lagavernd án mismununar leiði ekki til þess að mismunandi meðferð einstaklinga teljist í öllum tilvikum ólögmæt. Mismunun sem byggð væri á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum fæli ekki í sér ólögmæta mismunun í skilningi 26. gr. SBSR. Þegar um mismunun á grundvelli eins þeirra atriða sem talin eru upp í 26. gr. samningsins væri að ræða yrði hins vegar að gera þeim mun ríkari kröfur til rökstuðnings aðildarríkis fyrir tilvist hennar. Nefndin þyrfti því að taka afstöðu til þess hvort þau sjónarmið, sem lægju að baki ákvæðum namibísku útlendingalaganna og gerðu ráð fyrir mismunun á grundvelli kynferðis, væru nægjanlega sterk og veigamikil til þess að mismununin væri allt að einu lögmæt, þrátt fyrir að hún byggði á einu þeirra atriði sem upptalin væru í 26. gr.

Nefndin tók til athugunar þá málsástæðu ríkisins að tilgangur 1. mgr. 9. gr. útlendingalaganna væri að uppfylla lögmæt markmið er lutu að félagslegri og lagalegri stöðu þegna ríkisins, sérstaklega hvað réttaröryggi þeirra varðaði. Fékk nefndin ekki séð hvernig nálgun 1. mgr. 9. gr. laganna, sem byggði á kynferði, væri betur til þess fallin að ná markmiðinu um að tryggja þegnum ríkis réttaröryggi, þar sem unnt væri að skrá eftirnafn eiginkonun með sama hætti og eftirnafn eiginmanns, ef fullkomið valfrelsi væri um það hvort nafnið yrði notað sem nafn fjölskyldu. Þá taldi nefndin, með meginregluna um jafnræði kynjanna í huga, að sú málsástæða ríkisins að um langa og ríka hefð væri að ræða, gæti ekki verið haldið á lofti sem almennri réttlætingu á mismunandi meðferð einstaklinga, eftir því hvort þeir væri karlkyns eða kvenkyns, sem væri í ósamræmi við SBSR. Að setja strangari og ítarlegri skilyrði í þeim tilvikum þegar eiginmaður hefur ákveðið að taka upp eftirnafn eiginkonu sinnar, sem yrði þá um leið nafn fjölskyldu þeirra, en í tilvikum þar sem aðstæður væru með gagnstæðum hætti, gæti að mati nefndarinnar ekki talist málefnalegt; í öllu falli væru rök ríkisins fyrir umræddri mismunun milli kynja í útlendingalögunum ekki nægjanlega veigamikil til þess að þeim væri gefið þyngra vægi en því að mismunun á grundvelli kynferðis væri almennt ólögmæt.

Nefndin taldi því að namibíska ríkið hefði brotið gegn 26. gr. samningsins. Taldi nefndin að ríkinu væri skylt að ætti að bjóða kærendum raunhæfa úrbót, sem kæmi í veg fyrir að þeim yrði mismunað með ólögmætum hætti þegar kæmi að vali þeirra á sameiginlegu eftirnafni. Taldi nefndin ennfremur að ríkið ætti ekki að leitast við að fullnægja kröfu á hendur kærendum um málskostnað vegna málareksturs þeirra fyrir hæstarétti Namibíu eða, hefðu þau þegar greitt þann málskostnað, endurgreiða þeim hann.

Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna:
Álit samkvæmt 4. mgr. 5. gr. valkvæðu bókunarinnar
við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Álit frá 6. ágúst 2003
Kærumál nr. 941/2000

Upprunalegt skjal

Lífeyrisréttindi. Mismunun á grundvelli kynhneigðar. Brot gegn 26. gr. samningsins.

1. Atvik málsins

Kærandi máls þessa var Edward Young, ástralskur ríkisborgari fæddur árið 1935. Kærandi átti í samkynhneigðu sambandi við C í 38 ár og annaðist kærandi hann síðustu ár ævi hans en C lést árið 1998. Kærandi sótti þá um lífeyri samkvæmt lögum um lífeyrisréttindi fyrrum hermanna en var hafnað á þeim grundvelli að hann taldist ekki vera einstaklingur á framfæri fyrrum hermanns í skilningi laganna. Nánar tiltekið taldist kærandi ekki falla undir skilgreiningu laganna á hugtakinu maki þar sem hann uppfyllti ekki þau skilyrði sem lögin settu þeim einstaklingum, sem ekki höfðu gengið í hjúskap með löglegum hætti og hefðu varanlega búsetu á sama lögheimili. Eitt skilyrðanna var að einstaklingur, sem gerði kröfu um töku lífeyris, hefði verið í sambandi með einstaklingi af gagnstæðu kyni. Það skilyrði uppfyllti kærandi ekki og af þeim sökum var honum hafnað um töku lífeyris, og einnig um bætur vegna ástvinamissis.

Kærandi skaut máli sínu til áfrýjunarnefndar í málum fyrrum hermanna sem staðfesti fyrri ákvörðun um að hafna kröfu hans um lífeyri. Þá fór kærandi með mál sitt fyrir áströlsku Mannréttindanefndina sem komst að þeirri niðurstöðu að þar sem um sett lög væri að ræða, sem gerðu ráð fyrir skilyrðum sem beitt væri sjálfvirkt og án möguleika til frjáls mats fyrir það yfirvald sem taka ætti ákvörðun, væri Mannréttindanefndin ekki bær að lögum til þess að aðhafast frekar og vísaði hún því máli kæranda frá.

2. Kæran

Kærandi taldi að ástralska ríkið hefði brotið gegn 26. gr. alþjóðasamnings Sameinuðu Þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (sks. SBSR) þar sem kröfu hans um lífeyri eftir maka sinn og bætur vegna ástvinamissis hefði verið hafnað á grundvelli þess að hann væri af sama kyni og makinn, þ.e. á grundvelli kynhneigðar sinnar. Tók kærandi fram að 26. gr. skyldaði ekki aðildarríki til þess að koma tiltekinni löggjöf á, en gildandi löggjöf yrði hins vegar að vera í samræmi við 26. gr. Benti kærandi á að nefndin hefði áréttað í fyrri álitum sínum, sbr. Toonen gegn Ástralíu (mál nr. 488/1992), að kynhneigð væri á meðal þeirra sjónarmiða sem talin væru upp í 26. gr. sem ólögmæt.

3. Athugasemdir aðildarríkis

Ástralska ríkið hélt því fram, að hvað sem liði röksemdafærslu ástralska yfirvalda fyrir því að hafna kröfu kæranda um töku lífeyris eftir maka sinn, sem byggðist á því að kærandi og umræddur maki hefðu verið af sama kyni, hefði kröfu hans allt að einu verið hafnað þar sem hann hafi ekki uppfyllt önnur skilyrði laga um lífeyrisréttindi fyrrum hermanna. Þannig hefði fyrsta lagi enginn maki C, hvorki gagnkynhneigður eða samkynhneigður, getað tekið lífeyri eftir hann þar sem C hefði ekki látist af ástæðum er rekja mátti til stríðsátaka, en slíkt væri eitt skilyrða fyrir töku lífeyris eftir fyrrum hermann samkvæmt lögunum. Í öðru lagi hefði kærandi ekki sýnt með nægjanlegum hætti fram á að hann hafi í raun og veru verið maki C og því hefði frumskilyrðinu um raunverulegt samband milli hans og C ekki verið fullnægt. Viðkomandi yfirvöld hefðu tekið ákvörðun í máli kæranda samkvæmt ákvæðum laga um lífeyrisréttindi fyrrum hermanna á grundvelli þeirra upplýsinga og gagna sem bárust frá kæranda og komist að þeirri niðurstöðu að hafna bæri kröfu hans um töku lífeyris. Að mati ástralska ríkisins væri því engri mismunun fyrir að fara sem ekki væri byggð á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum.

4. Niðurstaða nefndarinnar

4.1. Ákvörðun nefndarinnar um meðferðarhæfi

Nefndin tók til skoðunar þá málsástæðu ástralska ríkisins að kæra málsins væri ekki tæk til efnismeðferðar þar sem kærandi teldist ekki vera þolandi brota aðildarríkis á ákvæðum SBSR í skilningi 1. gr. valfrjálsu bókunarinnar, þar sem hann hefði ekki sýnt fram á að hann hefði fullnægt tilteknum frumskilyrðum til þess að eiga rétt á töku lífeyris, og því hefði kynhneigð hans í raun ekki verið ákvörðunarástæða fyrir því að kröfu hans hafi verið hafnað. Áréttaði nefndin í þessu sambandi að einstaklingur væri þolandi í skilningi 1. gr. bókunarinnar ef aðgerð eða aðgerðarleysi aðildarríkis hefði með einhverjum hætti haft slæm áhrif fyrir viðkomandi persónulega. Áströlsk yfirvöld hefðu hafnað kröfu kæranda um töku lífeyris þar sem hann hefði ekki fallið undir skilgreiningu laga á hugtakinu maki, þar sem hann hefði ekki verið í sambandi með einstaklingi af gagnstæðu kyni. Að mati nefndarinnar væri ljóst að a.m.k. þau yfirvöld, sem höfnuðu kröfu kæranda um töku lífeyris, hefðu byggt ákvörðun sína á því að kynhneigð hans útilokaði hann frá töku lífeyris. Af þeim sökum hefði kærandi sýnt fram á með fullnægjandi hætti að hann teldist þolandi í skilningi 1. gr. valfrjálsu bókunarinnar við SBSR.

4.2. Álit um efnishlið málsins

Nefndin tók fyrst til athugunar þá málsástæðu ástralska ríkisins, að hvað sem liði þeim grundvelli, sem áströlsk yfirvöld byggðu ákvörðun sína um að hafna kæranda um töku lífeyris á, þá hefði kröfu hans allt að einu verið hafnað þegar staðreyndir og gögn málsins hans hefðu verið heimfærð upp á önnur skilyrði sem fullnægja þurfti til þess að hefja töku lífeyris. Taldi nefndin að ekki lægi ljóst fyrir, á grundvelli þeirra röksemda sem fram hefðu verið færð og þeirra gagna sem lægju fyrir, hvort kærandi hefði í raun fullnægt umræddum skilyrðum eður ei, en um það deildu aðilar málsins. Það væri ekki hlutverk nefndarinnar að rannsaka staðreyndir málsins og gögn í þessu samhengi. Hins vegar áréttaði nefndin að áströlsk yfirvöld hefðu byggt hina umdeildu ákvörðun sína á þeim grundvelli eingöngu, að kærandi hefði ekki fullnægt því skilyrði laga um lífeyrisréttindi fyrrum hermanna að vera í sambandi með einstaklingi af gagnstæðu kyni. Til þess að skera úr um kæru málsins væri þetta því eina atriði laganna sem nefndin þyrfti að taka afstöðu til.

Nefndin tók fram að samkvæmt lögum um lífeyrisréttindi fyrrum hermanna hefði kærandi aldrei getað öðlast þá stöðu að hann taka lífeyri eftir látninn maka sinn, þar sem hann uppfyllti ekki skilyrðið um að hafa verið í sambúð með einstaklingi af gagnstæðu kyni. Þegar af þeirri ástæðu skipti engu máli hvort kæranda hefði ekki uppfyllt önnur skilyrði laganna, þar sem kröfu hans um töku lífeyri hefði allt að einu verið hafnað á ofangreindum grundvelli. Hefði ástralska ríkið ekki véfengt þessa túlkun á ákvæðum laganna. Fyrir nefndinni lægi því að taka afstöðu til þess hvort ákvörðun ástralska yfirvalda, um að hafna kröfu kæranda um töku lífeyris á þeim grundvelli að hann hafi verið af sama kyni og hinn látni maki hans, fæli í sér brot gegn 26. gr. SBSR.

Nefndin minnti á fyrri álit sín, þar sem fram hefði komið að bann gegn ólögmætri mismunun samkvæmt 26. gr. nái einnig yfir mismunun á grundvelli kynhneigðar. Þá minnti nefndin ennfremur á álit sín þar sem fram kæmi að mismunandi meðferð einstaklinga þegar kæmi að greiðslu bóta eftir því hvort þeir væru í hjúskap eða óvígðri sambúð væri byggð á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum, þar sem viðkomandi einstaklingar hefðu haft val um það hvort þeir gengju í hjúskap eður ei, með þeim réttaráhrifum sem hvort sambúðarformið um sig hefði í för með sér. Af hinum umdeildu ákvæðum laga um lífeyrisréttindi fyrrum hermanna leiddi að einstaklingar, sem væru í hjúskap eða í sambúð með einstaklingi af gagnstæðu kyni teldust til maka og þar af leiðandi til einstaklinga sem væru á framfæri látinna, fyrrum, hermanna. Í tilviki kæranda væri hins vegar ljós að hann hefði ekki, sem einstaklingur af sama kyni og látinn maki sinn, möguleika á því að ganga í hjúskap. Þá hefði ekki verið fallist á að kærandi væri maki í óvígðri sambúð með hinum látna og gat hann því ekki tekið lífeyri eða fengið bætur vegna ástvinamissis sökum kyns síns eða kynhneigðar. Vísaði nefndin til þess sem stöðugt kæmi fram í álitum hennar, að ólík meðferð einstaklinga teljist ekki í öllum tilvikum ólögmæt mismunun samkvæmt SBSR. Þegar mismunun væri hins vegar til staðar yrði hún að byggjast á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum. Að mati nefndarinnar hefði ástralska ríkið engin rök fært fyrir því að ólík meðferð einstaklinga, eftir því hvort þeir væru í sambandi með öðrum einstaklingi af sama kyni, og væru þannig útilokaðir frá töku lífeyris eða bóta, eða með einstaklingi af gagnstæðu kyni, væri byggð á málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum. Að auki hefðu engin gögn verið færð fram sem gætu bent á atriði sem réttlættu slíka mismunun. Nefndin taldi því að ástralska ríkið hefði brotið gegn 26. gr. SBSR þegar yfirvöld höfnuðu kröfu kæranda um töku lífeyris á grundvelli kyns hans eða kynhneigðar.

Taldi nefndin að ástralska ríkinu væri skylt að bjóða kæranda raunhæfa úrbót, sem fæli meðal annars í sér að krafa hans um töku lífeyris eftir látinn maka sinn yrði tekin til nýrrar meðferðar án allrar mismununar sem byggð væri á kyni hans eða kynhneigð, eftir atvikum með breytingu á lögum um lífeyrisréttindi fyrrum hermanna.

Sératkvæði í málinu skiluðu Ruth Wedgwood og Mr. Franco DePasquale.